"Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró. Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði. Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur."