Óbeinar heimildir eru oft á tíðum heimildir um samhengi fornleifanna, vísbendingar um staðsetningu fornleifa eða textar með lýsingum á fornleifum. Má þar nefna ævisögur, ferðasögur og frásagnir. Í lýsingum er oft fjallað um eða sagt frá stöðum og minjum þótt ekki hafi beinlínis verið ætlunin að staðfesta tilvist þeirra. Jarðabækur hafa verið margskonar í gegnum tíðina. Fógetareikningar frá 16. öld eru sennilega elstu skrárnar, Jarðaskjöl (s.s. sölubréf, landamerkjaskrár og erfðaskiptabréf), Jarðabækur 1686 og 1695 (ná yfir allt landið og eru í raun fornleifaskráning yfir jarðir, sem þá voru í byggð) og Jarðabók Árna og Páls 1702-14 (sem var miklu ítarlegra rit um jarðagildi en áður, stutt stöðluðum lýsingum á hverri einustu jörð landsins og oft getið um eyðibýli, möguleika á nýbýlabyggingum og seljum, hvort sem eru í notkun eða eyði).