Grindavík

Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri skrifar um Grindavík – Ágrip af sögu og staðarlýsing – í Sveitarstjórnarmál árið 1974:

Saga
Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri Grindavíkur„Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Gnúpur fór til íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík, og staðfestust þar.”
Svo segir í Landnámu.
Synir Molda-Gnúps voru þeir (Hafur)-Björn, Gnúpur, Þorsteinn Hrungnir og Þórður Leggjaldi. Munu þeir bræður hafa stundað landbúnað og sjósókn jöfnum höndum.

Atvinnuvegir
GrindavíkÞessir búskaparhættir héldust síðan í Grindavík allar götur fram til loka fimmta áratugs þessarar aldar. Var sjávarútvegur undirstöðuatvinnuvegur, stundaður á árabátum allt til ársins 1926, en landbúnaður var annar aðalatvinnuvegurinn þannig, að þeir, sem áttu jarðir í hreppnum, höfðu hvort tveggja. Fyrst og fremst sjávarútveg, en einnig landbúnað.
Upp úr síðustu aldamótum færðist landbúnaðurinn frekar í aukana, og var þá farið að auka ræktun túna. Eftir 1920 þótti t. d. sjálfsagt að nota landlegudaga, sem oft voru margir, til að skera ofan af ræktanlegu landi og gera úr því tún. Verkfæri voru ristuspaði, skófla og haki.
Til sömu tíðar jókst og útgerðin, og um  1920 munu 24 bátar hafa verið gerðir út frá Grindavík frá hinum 3 aðallendingarstöðum í hreppnum, sem þá voru í Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi.
Sem áður er sagt, voru árabátar notaðir frá landnámstíð allt til ársins 1926. Þá fyrst voru vélar settar í 2 báta, sem notaðir voru á vetrarvertíð, og hétu þeir eftir það trillubátar. Þetta lánaðist svo vel, að í árslok 1927 var búið að setja vélar í alla báta í hreppnum nema einn. Á vetrarvertíð árið eftir mátti segja, að trillubátaöldin væri gengin í garð í Grindavík, þar sem þá voru allir bátar komnir með vél.
Eins og allir vita, liggur Grindavík fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengur óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist þess vegna löngum af því, að hægt væri að setja þá á land. M. a. af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna í báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafnarskilyrði voru betri frá náttúrunnar hendi.
GrindavíkFljótlega upp úr aldamótunum komu spil til sögunnar til að draga bátana á land. Spil þessi voru smíðuð úr tré, og gengu menn umhverfis þau og sneru þeim þannig, að dráttartaugin vatzt upp á lóðrétt kefli. Spil þessi voru seinna endurbætt, svo að hægt var að nota þau við setningu trillubátanna, og síðan voru þau látin duga til að draga dekkbátana, sem voru 7-8 lestir að stærð.
Sem sögur herma, mun kóngsverzlun hafa verið í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, en hana tók af í náttúruhamförum. Þessi staður mun því frá upphafi hafa verið talinn líklegust lega fyrir báta. Af þeim sökum mun útgerð dekkbáta fyrst hafa verið reynd frá Staðarhverfinu, og á árunum 1920-24 voru 2 dekkbátar gerðir út þaðan, en sú útgerð lagðist þó niður af ýmsum ástæðum.
Upp úr 1930 er svo farið að dekka stærri trillubátana og olli það vaxandi erfiðleikum við að setja þá með þeim frumstæðu spilum, sem áður er lýst. Varð það til þess, að menn fóru að gera því skóna að grafa ós í gegnum rifið, sem lokaði Hópinu í Járngerðarstaðahverfi, og menn sáu að gæti orðið gott skipalægi, hvernig sem viðraði.
Á árinu 1939 er svo ráðizt í að grafa ósinn með handverkfærum og eftir þá framkvæmd gátu þeir bátar, sem þá voru til, komizt inn í Hópið á hálfföllnum sjó og fengið þar örugga legu. Árið 1945 var fengið dýpkunarskip, sem Reykjavíkurhöfn átti, til að grafa ósinn, og má þá segja, að útgerðarsaga Grindavíkur í nútímastíl væri hafin. Síðan hefur nær óslitið verið unnið að endurbótum í Hópinu og hafnarmannvirki verið byggð, svo að nú er Grindavíkurhöfn orðin ein öruggasta bátahöfn á landinu. Innsiglingin (sundið) er þó enn eins og á dögum Molda-Gnúps, erfið og varasöm. Gengur úthafsaldan óbrotin inn á grynningar í víkinni, og verður hún stundum ein samfelld brimröst, sem engri fleytu er fært um. Með stærri og betri skipum verða landlegudagar vegna brima þó sífellt fátíðari.
GrindavíkÁ árunum 1939—1942 varð mikill afturkippur í athafnalífi og þróun Grindavíkur. Voru þar að verki áhrif frá heimsstyrjöldinni síðari 1939-1945, sem þá geisaði. Markaðir lokuðust fyrir fisk í Miðjarðarhafslöndum Evrópu þegar í byrjun stríðsins, svo að saltfiskurinn, sem var aðalframleiðslan, lá óseldur fram eftir ári 1939.
Þegar svo úr rættist í árslok og Bretar fóru að kaupa allan saltfisk af Islendingum og síðan alla okkar fiskframleiðslu til stríðsloka, var hin svokallaða setuliðsvinna komin til sögunnar. Mannaflinn fór í hana, en útgerð dróst mjög saman. Ýmsir fluttu þá í burtu og fólkinu fækkaði. Þetta lagaðist þó aftur fljótlega upp úr 1945 með tilkomu betri hafnarskilyrða í Hópinu, sem áður er getið.

Landbúnaður var lengst af annar aðalatvinnuvegur Grindvíkinga og stundaður af kappi fyrst og fremst sem hliðargrein við sjávarútveginn.
Upp úr síðustu aldamótum færðist svo nýtt fjör í búskapinn með aukinni ræktun túna, eins og fyrr er sagt. Samkvæmt landbúnaðarskýrslum er búfjáreign Grindvíkinga árið 1930 63 nautgripir, 2781 sauðkind og 67 hross. Árið 1940 eru samsvarandi tölur 92 nautgripir, 2857 sauðkindur og 51 hross, og virðist búskapur þá vera í hámarki.
Eftir að höfn er byggð í Hópinu og grundvöllur skapaðist fyrir útgerð stærri báta, má segja, að mikil breyting verði á atvinnuháttum hreppsbúa. Fleiri og fleiri fara að byggja afkomu sína eingöngu á útgerð og fiskiðnaði, en landbúnaði hrakar til sömu tíðar. Árið 1945 virðist þessi neikvæða þróun vera hafin, en þá eru 80 nautgripir, 2386 sauðkindur og 78 hross til í hreppnum. Nautgripum fækkaði mjög á næstu árum, og 1963 er síðustu kúnni fargað. Enn er þó sauðfjárrækt nokkuð stunduð, en aðallega af eldri mönnum í hjáverkum. Nú eru 1429 sauðkindur og 26 hross í hreppnum og fækkar með hverju ári.

Fiskibátar
GrindavíkFrá því er sögur hófust og allar götur fram til ársins 1945 eru fiskveiðar stundaðar á smáfleytum; opnum árabátum til ársins 1926 og síðan á hálfopnum eða dekkuðum trillum. Stærstu trillurnar voru líklega um 9 lestir að stærð. Fjöldi bátanna hefur sjálfsagt verið breytilegur á hinum ýmsu tímum, en eins og áður er getið, voru 24 bátar gerðir út frá Grindavík um 1920 frá öllum hverfunum þremur.
Árið 1919 var byggð fyrsta bryggjan í Grindavík í Járngerðarstaðahverfi. í Þorkötlustaðahverfi var svo byggð bryggja árið 1930 og í Staðarhverfi þremur árum síðar. Voru þetta miklar framfarir frá því, sem áður var, en eftir sem áður varð að setja bátana á land. Með tilkomu hafnarmannvirkjanna í Hópinu lögðust svo róðrar fljótlega niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfi, og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu.
Eftir afturkipp stríðsáranna fer heldur að rofa til í útgerðarmálum Grindavíkur um og eftir 1945. Og með frekari dýpkun og mannvirkjagerð í höfninni árið 1949 er þróuninni alveg snúið við og nýtt líf færist í atvinnulífið á staðnum. Upp úr 1950 hefst svo hið stórkostlega framfaraskeið í sögu Grindavíkur, sem hefur staðið óslitið síðan. Til dæmis um ótrúlega aukningu á sjósókn og aflabrögðum síðustu árin má nefna, að árið 1967 bárust á land í Grindavík 24.753 lestir af bolfiski í 2830 sjóferðum, árið 1970 öfluðust 46.077 lestir í 5522 sjóferðum og árið 1973 44.525 lestir í 6380 sjóferðum. Frá Grindavík er nú gerður út 51 bátur frá 10 og upp í 363 lestir, þar af eru 7 bátar 10-50 lestir, 16 bátar 50-100 lestir, 20 bátar 100-200 lestir og 8 bátar 200 lestir og þar yfir.

Fiskverkun

Grindavik

Verkun aflans var lengi vel einhæf, eins og annars staðar á landinu. Fram eftir öldum verkuðu Islendingar aðallega skreið, og var hún ásamt prjónlesi aðalútflutningsvara landsmanna. Eftir að Íslendingum lærðist að nota salt, varð saltfiskverkun fljótlega aðalframleiðsluaðferðin ásamt skreiðarframleiðslunni. Eins og allir vita, voru ýmsar fiskafurðir meðhöndlaðar á annan hátt, en þá í smærri stíl og aðallega til innanlandsneyzlu. Þó er rétt að geta um lýsisframleiðsluna, sem alltaf hefur verið mikil að vöxtum, og hefur lýsið löngum verið Íslendingum nytsamt bæði sem heilsulind, ljósmeti og útflutningsvara.
Lengst af fór verkun aflans fram sem heimilisiðnaður eða með þeim hætti, að hlutasjómenn verkuðu hver sinn hlut, eftir að í land var komið. Seinna, með tilkomu trillubátanna, verkuðu svo skipverjar í sameiningu aflann hver af sínum báti, og fóru hlutaskipti fram eftir því verði, sem fékkst fyrir aflann, eftir að hann hafði verið seldur. Nú tíðkast varla annað en að aflinn sé seldur upp úr sjó, eins og það er kallað, og fiskverkunarstöðvar í landi kaupi aflann og sjái um verkun hans. Fjölbreytni í verkunaraðferðum er nú meiri en áður gerðist. Fyrsta hraðfrystihúsið var reist í Grindavík árið 1941, Hraðfrystihús Grindavíkur h.f., og 5 árum síðar var Hraðfrystihús Þorkötlustaða h.f. stofnað. Eru bæði þessi fyrirtæki enn starfandi og hafa eflzt með árunum og eru nú með stærstu fyrirtækjum í Grindavík. Þriðja hraðfrystihúsið rekur svo Arnarvík h.f.
Saltfiskverkunarfyrirtæki eru samtals 14, bæði stór og smá, og er Þorbjörn h.f. þeirra stærst. Eru þá hraðfrystihúsin 3 meðtalin, en þau reka einnig saltfiskverkun. Mestur hluti aflans, sem á land berst, er saltaður, frystur fiskur er í öðru sæti, en skreiðarframleiðsla hefur að mestu legið niðri seinustu árin af markaðsástæðum erlendis. Þá er eftir að geta um beina- og fiskimjölsverksmiðju, sem er 1 á staðnum. Vinnur hún úr því slógi og beinum, sem til fellur frá fiskverkunarstöðvunum og einnig síld og loðnu eftir því sem aflast.

Verzlun og viðskipti
GrindavíkEins og áður er sagt, var kóngsverzlun í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, að hana tók af í náttúruhamförum. Frá þeim tíma og allt fram undir síðustu aldamót er mér ókunnugt um verzlunarhætti að öðru leyti en því, að svokallaðir spekúlantar eða fríhöndlarar komu hér við á skipum og ráku vöruskiptaverzlun við íbúana. Einnig má geta þess, að fyrir og upp úr aldamótunum síðustu gerði Lefóliisverzlun á Eyrarbakka út skip, sem hún sendi til Grindavíkur og allt vestur fyrir Reykjanes með vörur að sumrinu til. Var hér einnig um vöruskiptaverzlun að ræða. Verzlunarskip þessi munu hafa verið með gufuvél og gekk það fyrsta, sem vitað er um, undir nafninu „Den lille”. Á eftir honum kom bátur, sem hét Oddur, kallaður Bakka-Oddur. Sá slitnaði upp af legunni í Grindavík í einni verzlunarferðinni í suð-austan stormi og stórsjó og varð þar til á fjörunum. Til sömu tíðar hafði Lefoliisverzlun saltfiskmóttöku hér á staðnum á vetrarvertíðum.
Fyrir og um aldamótin mun Duusverzlun í Keflavík hafa haft nokkur viðskipti við Grindvíkinga. Voru þau á þá leið, að menn sóttu úttekt sína til Keflavíkur ýmist á hestum eða á sjálfum sér og greiddu hana aftur með verkuðum saltfiski að sumrinu, sem Duusverzlunin lét sækja á sínum skipum.
Rétt fyrir aldamótin byrjaði Einar G. Einarsson í Garðhúsum að verzla í húsi, sem hann lét byggja fyrir ofan lendinguna á Járngerðarstöðum, og má það teljast fyrsta verzlunarhús okkar tíma í Grindavík. Verzlun Einars í Garðhúsum þróaðist fljótlega svo, að aðkomuverzlanirnar lögðust niður. Lengst af var nær eingöngu um vöruskiptaverzlun að ræða eins og áður, en breyttist smátt og smátt í nútímahorf. Fram til ársins 1932 var verzlun Einars í Garðhúsum eina verzlunin á staðnum og fullnægði þörfum Grindvíkinga að mestu, enda má segja, að vöruúrval væri mikið og fjölbreytt. Árið 1932 stofnaði Ólafur Árnason verzlun í húsi sínu að Gimli, og var það fyrsta samkeppnin, sem Einar í Garðhúsum fékk á staðnum. Næsta áratuginn urðu litlar breytingar á verzlunarháttum, en upp úr 1940 byrjar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hér verzlun í smáum stíl, en stofnar hér formlega deild árið 1944.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Árið 1946 er sú deild lögð niður, en verður upp frá því útibú frá Kaupfélagi Suðurnesja í Keflavík. Kaupfélagið hefur rekið hér verzlun síðan og er nú stærsta verzlunarfyrirtækið á staðnum með allumfangsmikinn verzlunarrekstur.
Verzlun Einars í Garðhúsum hætti rekstri árið 1957 og Verzlun Ólafs Árnasonar þremur árum síðar.
Nú eru í Grindavík auk Kaupfélagsins 6 verzlanir; 2 matvöruverzlanir, bókaverzlun byggingarvöruverzlun, vefnaðarvörubúð og smávörubúð. Ein veitingastofa er á staðnum, og einnig má geta þess, að nokkrar fiskvinnslustöðvarnar hafa um skeið rekið verbúðir sínar sem gisti- og matsölustaði. Með tilkomu félagsheimilisins Festi á árinu 1972 hefur verið unnt að bjóða upp á þjónustu í mat og drykk þar. Þá eru í Grindavík 2 vélsmiðjur með nokkuð umfangsmikinn rekstur, bæði viðgerðir og nýsmíði, aðallega í sambandi við bátaflotann, og 2 lítil trésmíðaverkstæði.

íbúa- og byggðaþróun
Grindavík er talin frá ómunatíð að hafa verið í 3 hverfum: Staðarhverfi vestast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Þorkötlustaðahverfi austast. Milli þessara hverfa voru svo taldir einstaka bæir: Húsatóftir milli Staðar- og Járngerðarstaðahverfis. Hóp milli Járngerðarstaða- og Þorkötlustaðahverfis og Hraun rétt austan við Þorkötlustaðahverfi, en ísólfsskáli nokkru austar.
Grindavík - Gamli bærinnKrýsuvíkurhverfi var einnig tilheyrandi Grindavíkurhreppi allt til ársins 1936, að hluti af Krýsuvíkurlandi var lagður undir Hafnarfjarðarbæ. Sögur herma, að í öndverðu hafi helztu jarðir í hreppnum verið Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir og Hraun. Með nýjum og nýjum kynslóðum í aldanna rás skiptust heimajarðirnar, og bændum, þ.e.a.s. jarðeigendum, fjölgaði, og jarðir urðu fleiri og smærri. Einnig hafa jarðirnar gengið kaupum og sölum, ýmist verið konungs-, kirkju- og síðar ríkisjarðir eða bændajarðir.
Nú eru lóðir og lendur í hreppnum ýmist í eigu ríkis, sveitarfélags eða hinna ýmsu landeigenda. Frá landnámstíð og allt framá þessa öld var íbúunum gjarnan skipt eftir því, hvort þeir áttu land eða voru landlausir. Þeir, sem land áttu, nefndust bændur, en hinir þurrabúðar- eða tómthúsmenn. Eftir að þéttbýliskjarnar fóru að myndast fyrir alvöru, leið þessi skilgreining undir lok.
Byggðin var frá upphafi í þremur hverfum, eins og oft hefur verið að vikið. Risu þessi hverfi umhverfis lendingarstaðina. Tók enginn lendingarstaðurinn öðrum fram, svo að nokkra úrslitaþýðingu hefði fyrir byggðaþróunina. íbúafjöldinn hefur því fremur ráðizt af öðrum ástæðum, s.s. framtaki fólksins, húsakosti o.s.frv.
Árið 1890 er tekið manntal í Staðarprestakalli, þ.e.a.s. í Grindavíkurhreppi að Krýsuvík undanskilinni. Þá eru samtals 302 íbúar í sókninni. í Staðarhverfi búa þá 63 íbúar, í Járngerðarstaðahverfi 145 og í Þorkötlustaðahverfi 94 íbúar.

Gríndavík

Grindavík – höfnin.

Með byggingu hafnar í Hópinu í Járngerðarstaðahverfi skapast fyrst þær breyttu aðstæður, sem valda því, að útgerð leggst með öllu niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfunum og hefur fljótlega þau áhrif, að byggðin dregst saman á þessum stöðum og þó sérstaklega í Staðarhverfinú, sem er fjær. Enda fór svo, að Staðarhverfið fór fljótlega í eyði. Lengst var búið á Stað eða til ársins 1964. Örlög Þorkötlustaðahverfis urðu nokkuð á annan veg. Byggð hefur að vísu ekki aukizt síðan höfnin var gerð, en heldur ekki minnkað verulega, sumpart mun þetta stafa af tiltölulega lítilli fjarlægð frá höfninni og sumpart af því, að hraðfrystihús var reist þar árið 1946 og veitti mikla atvinnu, einmitt um sama leyti og róðrar lögðust niður frá hverfinu sjálfu.
Eins og áður er getið, stóðu atvinnuvegir með nokkrum blóma á fyrstu áratugum þessarar aldar og fjölgaði íbúunum þá nokkuð. Árið 1900 eru íbúarnir 357, og árið 1938 eru þeir orðnir 553. Á stríðsárunum kom svo afturkippurinn, sem áður er lýst, svo að árið 1945 er íbúatalan komin niður í 489. Það er svo ekki fyrr en 1950 sem íbúatölunni frá 1938 er aftur náð eða því sem næst. Eftir það heldur fjölgunin áfram jafnt og þétt, þannig að árið 1960 eru íbúarnir 734, fimm árum síðar eru þeir orðnir 913, og árið 1968 fara þeir yfir 1000. Árið 1970 voru þeir 1169, hinn 1. desember 1973 voru Grindvíkingar 1456, og nú, hinn 1. desember 1974 munu þeir vera alveg um 1600.

Staðarlýsing

Grindavík 1968

Eins og flestum er kunnugt, er Grindavíkurland að mestu leyti þakið hraunum, sem runnið hafa eftir lok síðustu ísaldar. Þó er nokkurt graslendi meðfram sjónum, þar sem byggðin var, en hún hefur nú á síðari árum þokazt upp á hraunin í Járngerðarstaðahverfi. Þá eru og í landi hreppsins sérstakir gróðurblettir í hinum víðlendu hraunum, og má þar sérstaklega nefna Selsvelli vestan í Núphlíðarhálsi innarlega, sem er sérstaklega fallegur staður. Um vellina rennur lækur, og mun vatn hvergi renna ofanjarðar annars staðar svo utarlega á skaganum, enda hverfur hann fljótlega, þegar kemur í hraunið. Annar skemmtilegur gróðurblettur er á Vigdísarvöllum, sem er austan í Núphlíðarhálsinum. Þar var áður búið og lengi tvíbýlt. Mun síðasti bóndinn hafa farið þaðan árið 1907.
Norðan í Þorbirni er nokkurt graslendi. Þar hefur verið afgirt svæði til skógræktar og virðist ræktunin þrífast þar mjög vel. Norðan undir Svartsengisfelli er og fallegur gróðurblettur, og hafa Grindvíkingar haldið þar útiskemmtanir til margra ára.
Bæjarland Grindavíkur er mjög víðlent og nær alla leið frá Reykjanestá austur í Selvog. Ef Iandamörkin eru rakin nákvæmlega frá vestri til austurs, eru þau úr miðri Möl við Reykjanes í Sýrfell. Þaðan beina línu í miðja Hauksvörðugjá í Súlur. Úr Súlum í Stapafellsþúfu. Þaðan í Arnarklett fyrir sunnan Snorrastaðatjarnir. Úr Arnarkletti í Litla-Skógfell og þaðan í Kálffell í Kálffellsheiði. Þaðan í Fagradals-Hagafell og þaðan í Litla-Keili. Frá Litla-Keili í Sog (Sogaselsdal) undir Trölladyngjuhlíðum og með þeim í Markhelluhól. Frá Markhelluhól, norðanvert við Fjallið eina í Markrakagil, þaðan í Markraka í Dauðadölum og þaðan í Stóra-Kóngsfell. Úr Stóra-Kóngsfelli í Litla-Kóngsfell og þaðan suður heiðina beina línu í Sýslustein og síðan í Seljabót.
Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum, sem flest eru í landi bæjarins. Þau eru fremur lág, en setja þó mikinn svip á umhverfið. Öll munu þau vera gosmyndanir og ekki eldri en frá því seint á síðustu ísöld. Þessi eru helzt: Sýrfell, Sandfell, Súlur, Þórðarfell, Stapafell, Þorbjörn (Þorbjarnarfell), Svartsengisfell, Hagafell, Fagradalsfjall, Húsafell, Fiskidalsfjall, Festarfjall, Slaga, Skála-Mælifell, Krýsuvíkur-Mælifell og Geitahlíð austast. Ströndin liggur fyrir opnu úthafinu, víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga þó inn í hana á stöku stað, og eru Staðarvík, Járngerðarstaðavík og Hraunsvík þeirra helztar, og við þær hefur byggðin staðið alla tíð, þegar Krýsuvík er undanskilin. Inn af Járngerðarstaðavíkinni er svo Hópið, eina örugga skipalægið á allri strandlengjunni. Á milli Járngerðarstaðavíkur og Hraunsvíkur er lítið nes, sem heitir Hópsnes, en gengur líka undir nafninu Þorkötlustaðanes.

Jarðhitinn í Svartsengi

Svartsengi

Jarðhitasvæði eru mikil og virk innan bæjarlandsins, og eru jarðhitasvæðin á Reykjanesi og í Krýsuvík þeirra mest. Á svæðinu þar á milli má víða sjá merki um hita í jörðu. Haustið 1971 og fram í janúar 1972 voru boraðar tvær holur við Svartsengi í Grindavík á vegum Grindavíkurhrepps. Var tilgangurinn tvíþættur: Annars vegar að freista þess að fá upp varma til hitaveitu í Grindavík og hins vegar til þess að fá úr því skorið, hvers eðlis hitinn væri (háhiti eða lághiti) í sambandi við þær miklu umræður, sem fram höfðu farið um nýtingu jarðvarma til stóriðju s.s. sjóefnavinnslu. Árangurinn lét ekki á sér standa. Áformað hafði verið að bora eina holu 700-800 m djúpa, en þegar holan var orðin 240 m djúp, var hætt, því þá var hitinn kominn í rúmar 200° C og afl holunnar um það bil 60 kg/sek. Var þá síðari holan boruð. Varð hún 400 m djúp, lítið eitt heitari en sú fyrri og afl hennar um 70 kg/sek. Ókostur var það hins vegar, að vatnið í holunum var salt og ekki unnt að virkja það til hitaveitu, án þess að um varmaskipti yrði að ræða, þ. e. að gufan yrði notuð til upphitunar á fersku vatni. Boranir þessar sönnuðu einnig, að Svartsengissvæðið var háhitasvæði, svipað og á Reykjanesi, og síðan hafa athuganir leitt í ljós, að það er ekki minna en 4 km2 að stærð.
Á fundi sínum 7. apríl 1972 samþykkti hreppsnefnd Grindavíkurhrepps að bjóða hinum sveitarfélögunum á Suðurnesjum til samvinnu um nýtingu jarðhitans í Svartsengi. Það tók sveitarfélögin nokkuð langan tíma að ákveða sig, þar sem áhugi var þá mikill hjá þeim að freista þess að bora eftir varma í landi Keflavíkur.
Seint á árinu 1973 var loks ákveðið að snúa sér að Svartsengi, og hefur samfleytt verið unnið síðan að undirbúningi hitaveitu á Suðurnesjum undir forystu Samstarfsnefndar sveitarfélaganna þar.

Svartengi

Svartsengi.

Á árinu 1974 hefur Orkustofnun verið athafnasöm á Svartsengissvæðinu. Hafa nú verið boraðar þar tvær hitaholur til viðbótar með gufubornum. Eru þær 1500 og 1700 m á dýpt, 230°—240° C heitar og afl þeirra samanlagt um 180 kg/sek. Einnig hefur verið boruð 1 kaldavatnshola, sem gefur mikið og gott vatn til upphitunar. Varmaskiptatilraunir voru einnig gerðar á árinu, og gáfu þær góða raun.
Á vegum sveitarfélaganna hefur talsvert verið unnið að hönnun og áætlanagerð varðandi hitaveituna og núna rétt fyrir jólin samþykkti Alþingi lög um Hitaveitu Suðurnesja, sem er sameign sveitarfélaganna á Suðurnesjum (60%) og ríkisins (40%), en ríkið fékk snemma áhuga á fyrirtækinu vegna Keflavíkurflugvallar. Binda Suðurnesjamenn miklar vonir við, að framkvæmdir geti nú farið að hefjast innan tíðar.
Svartsengissvæðið er í eigu einkaaðila. Er það óskipt sameign ýmissa landeigenda í Grindavík. Samningaviðræður standa yfir, en er ólokið enn. Vonandi verða þeir ekki til þess að tefja þessar þýðingarmiklu framkvæmdir.

Fengin kaupstaðarréttindi
Grindavíkurhreppur öðlaðist kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974.”

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 34. árg. 1974, Grindavík – Ágrip af sögu og staðarlýsing – Eiríkur Alexandersson, bls. 255-265.

Grindavík - Einarsbúð