Kötlugróf

Ætlunin var að ganga um Botnsdal og Brynjudal. Megintilgangurinn var þó að staðsetja örnefnin Holukot, Hlaðhamrar, Kirkjuhóll, Krosshóll, Steinkirkja, Mannabyggð, Kötlugróf og Kattarhöfða.
KattarhöfðiFyrsti landnámsmaðurinn í Botnsdal var írskur, Ávangur að nafni. Bær hans gæti hafa verið þar sem nú eru rústir Holukots. Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil. Í Kattarhöfða neðanverðum mun vera dys Þórðar kattar og í Kötlugróf mun hringurinn Sótanautur hafa verið falinn. Á Krosshól óx hrísla. Þegar hún féll skilaði hún sér jafnan á hólinn aftur.
Lúther Ástvaldsson bóndi á Þrándarstöðum í SteinnBrynjudal fylgdi FERLIR um svæðið. Hann gekk hiklaust að Kattarhöfða, Kötlugróf, Holukoti og fleiri nánast óþekktum stöðum. Landamerki Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu eru við Kötlugróf. Nýlega var sett upp sýslumerki við veginn. Svo óheppilega vildi til að merkið var sett á móts við fjárgirðinguna er liggur upp norðurhlíð Múlafjalls. Kötlugrófin og hin eiginlegu sýslumörk eru hins vegar nokkru austar og munar ca. 200-300 metrum.
Ofan við Kötlugróf er Lambaskarð; landamerki Skorhaga og Stóra-Botns.

Magnús Lárusson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1933 er bar yfirskriftina “Hvalfjörður”.  Fjallar hann þar um dalina innst í Hvalfirði; Botnsdal og Brynjudal. Hér verður drepið niður í greinina:
Kötlugróf“Einn af fegurstu stöðum ættjarðar vorra er Hvalfjörður. Hann skerst inn í landið úr Faxaflóa, milli Kjalarness að sunnan og Akraness að norðan, nálægt 17 sjómílur að lengd.
Flestum, sem til Hvalfjarðar koma, mun vera hugstætt að koma að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pjetursson var. Margar sagnir ganga um síra Hallgrím, og langar mig til að segja eina:
“Það er sögn ein, frá Hallgrími presti, að hann var eitt sinn á ferð við þriðja mann, og ætlaði heim sunnan yfir Brynjudalsvog; flæður sævar gengu að; varð það þá ráð þeirra að bíða þar um nóttina til þess útfjaraði, og árin minkaði, og bjuggust að liggja í Bárðarhelli við fossinn.
Þótti þá förunautum prests leitt að heyra fossniðinn, er mjög ýrði frá inn í hellisdyrin. Annar förunautur prests var fremstur og fekk ei sofið fyrir aðsókn.
Sýndist honum og ferlíki nokkurt eða vættur sækja að inn alt í hellisdyrin; bar hann þá prest að vera fremstan, og ljet hann það eftir; er þá sagt hann kvæði Stefjadrápu, því var yrði hann hins sama og förunautur hans, en jafnan hörfði vætturinn frá við hvert stefið, og að aftur á milli, uns hún hyrfi með öllu.”

Brynjudalur

Brynjudalur og nágrenni – kort.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því af hverju Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn draga nöfn sín, og skal það ekki rakið hjer. En við skulum bregða okkur inn til dalanna fyrir botni Hvalfjarðar og hitta þar konu, sem heitir Oddný Sigurðardóttir, og er húsfreyja á Stóra-Botni í Botnsdal. Hún segir okkur svo frá dölunum:

Botnsdalur
Botnsdalur er hinn nyrðri af dölunum tveim, er liggja fyrir botni Hvalfjarðar. Á milli þessara tveggja dala Hlaðhamrargengur Múlafjall fram í sjó og myndast vogar, sinn hvoru megin fjallsins. Og inn fyrir þessa voga liggur Hvalfjarðar akbrautin. Í Botnsdal eru nokkrar skógarleifar, þó smávaxnar sje, en þarna var það, sem Ávangur hinn írski ljet smíða hafskipið á dögum landnámsmannanna. En hið merkasta í dalnum verður að tekja fossinn Glym, sem er mjög hár, líklega með hæstu fossum á landinu, þó aldrei hafi hann verið mældur [198 m hár], og er í á samnefndri bæjunum í dalnum. Við Glym orti Þorsteinn Gíslason vísurnar: Í Botnsdal er fagurt einn blíðviðrisdag o.s.frv. Þá er einnig skylt að gleyma ekki Botnssúlum, en þaðan er mjög víðsýnt. Í norðaustri er Hvalfell og norðan við það er Hvalvatn, en þaðan kemur Botnsá. – Fyrir austan enda Hvalvatns er Kinnhúfuhöfði og Skinnhúfuhellir, þar sem Skinnhúfa bjó á dögum Ármanns í Ármannsfelli.

Lúther

Nú er þar alt kyrrlátara og friðsamara en á þeim dögum og álftin á sjer dyngju rjett fyrir framan hellismunnann. Niður undir vatnsröndinni, norðan í Hvalfelli er hellir sá, er sagt var að Arnes – er eitt sinn var fjelagi Fjalla-Eyvindar – hafi hafst við í. Í helli þessum hefir fundist mikið af beinum – bæði stórgripabeinum og kindabeinum – sem sjest hafa á för eftir eggjárn, og sömuleiðis kambur úr horni.
Í hinum fornu sögum finnst hvergi getið nema eins bæjar í Botnsdal – en nú eru þeir tveir. Landnámsbók segir svo frá að fyrstur hafi byggt bæ í Botni, maður sá er Ávangur hjet og kallaður hinn írski. Þá var þar skógur svo mikill að hann ljet af gera hafskip. Það var hlaðið við Hlaðhamar er hann er fyrir botni Botnsvogs, sunnan Botnsár. Dýpi við hamarinn nú á tímum er um flóð líklega 3-4 metrar, en algerlega þurrt um fjöru. Í Harðar-sögu er talað um Neðri-Botn, þar sem Geir bjó um skeið. Af því er auðsætt að þá hefir Efri-Botn einnig verið byggður þó þess sje eigi getið. Löngu seinna hefir svo byggst þriðji bærinn; Holukot. –

Lúther

Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil.
Af örnefnum, sem getið er í fornsögunum er meðal annars Múlafell, nú breytt í Múlafjall, Kattarhöfði, þar sem Þórður köttur var dysjaður og Kötlugróf þar sem Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona ljetu líf sitt og hringurinn Sótanautur er falinn.” Kötlugróf er í smá slakka er gengur inn í hlíðina utan við Hlaðhamar. Skýringar á nafninu er að finna í Harðar sögu og Hólmverja. Þar börðust grimmilega tvær fjölkunnugar konur, Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona. Átökunum lauk svo að þær lágu báðar dauðar eftir, rifnar og skornar.

Brúsi

Um afrif Þórðar kattar segir í Harðar sögu, ch. 25: “En er Þorbjörg katla kom út varð hún vís af fjölkynngi sinni og framvísi að skip var komið frá Hólmi. Hún sækir þá sveipu sína og veifði upp yfir höfuð sér. Þá gerði myrkur mikið að þeim Geir. Hún sendi þá orð Ref syni sínum að hann safnaði mönnum. Þeir urðu saman fimmtán og komu að Þórði ketti óvörum í myrkrinu og tóku hann höndum og drápu og er hann grafinn í Kattarhöfða neðanverðum. Þeir Geir komust til sjávar. Þá tók af myrkrið og sáu þeir þá gjörla og réðu þeir Refur til og börðust.”
“Víðar man jeg ekki eftir að Botnsdal sje getið í fornum sögum.
Að síðustu skal þess getið, Lútherað hjer í Stóra-Botni var bænahús eða kirkja, og er örnefnið Kikjuhóll þekkt enn þá. Í þann hól var grafið fyrir 4-5 árum, en aðeins lítilsháttar, enda fundust engar minjar. Lúther taldi að lík þeirra er létust í aðdraganda Svartadauða hér á landi hefðu verið grafnir í hólnum.
Við Maríuhöfn í Laxárvogi var einn stærsti kaupstaður landsins fram á 15. öld. Þangað gengu skip Skálholtsstóls enda var höfnin vel í sveit sett gagnvart samgönguleiðum til Þingvalla og uppsveita Árnessýslu. Þangað barst svarti dauði til landsins árið 1402 en talið er að um þriðjungur íbúanna hafi látist af farsóttinni.
Annálar greina frá því að hún hafi komið með skipi í Hvalfjörð.

Lúther

Þá var Maríuhöfn á Búðasandi við Laxárvog ein aðalhöfn landsins. Samkvæmt sömu heimildum tók Áli Svarhöfðason veikina og “deyði fyrstur af kennimönnum um haustið” í Botnsdal ásamt sjö sveinum sínum. Síðan breiddist pestin um landið og er talið að látist hafi um 40 þúsund manns úr henni, eða nærri helmingur landsmanna.
Drepsóttin svartidauði mun hafi borist áfram til landsins sem smit í klæðum Einars Herjólfssonar. Hann andaðist úr sóttinni á skipi sínu í hafi en klæði hans voru síðan afhent ættingjum hans – illu heilli.” 

Á bæjunum hjerna í Botnsdalnum var mikið um álfa og álfatrú. Ekki mátti veita silunga úr sumum lækjum, ekki höggva hrís á vissum stöðum, ekki færa sum hús, ekki sljetta tiltekna bletti í túnunum og þar fram eftir götunum. Í hólunum heyrðist sífellt rokkhljóð og strokkhljóð.

Krosshóll

Þannig var til dæmis sagt að víða í túninu í Litla-Botni og í klapparholtum umhverfis það, væri bústaður huldufólks. Austast í túninu er hóll, kallaður Krosshóll. Mátti eigi sljetta hann og var þar engin þúfa hreyfð þangað til síðasti ábúandi kom þangað árið 1907. Á þessum hól var hrísla allstór og mátti enginn skerða hana. Var hún að síðustu orðin svo fúin að hún brotnaði. Mátti enginn á neinn hátt nýta sjer lurkinn og var sagt að hann færi jafnan sjálfur á hólinn aftur þó hann væri borinn heim.
Skammt fyrir utan túnið er klapparholt, sem kallað er Steinkirkja og heyrist þaðan oft tíðarhringingar og sálmasöngur. Á götunum fyrir utan túnið er kallað Mannabyggð og þar mátti aldrei ríða hart. Á milli þessara staða; Kirkjunnar og Mannabyggðar annars vegar og Krosshóls hins vegar voru sífelldar ferðir huldufólksins og var för þess stundum sjeð af gamla fólkinu.

Brynjudalur
ÞrándarstaðirSyðri dalurinn fyrir botni Hvalfjarðar er Brynjudalur. Hann er grösugur og vaxinn kjarri fremst. Samnefnd á rennur eftir honum og er hún straumlygn og mild. Nú eru þrír bæir í dalnum; Ingunnarstaðir, Skorhagi og þrándarstaðir og auk þess eyðibýlið Hrísakot.
Hina elstu sögn um Brynjudal er að finna í Landnámabók, þar sem sagt er frá deilu Refs hins gamla og Hvamm-Þóris, út af kúnni Brynju, sem gekk úti í dalnum með afkvæmum sínum og hann er við kenndur. Og sú deila endaði með falli Hvamm-Þóris. Þar er einnig sagt, að Refur hafi búið á Múla. Bærinn Múli hefir að líkindum verið skammt þaðan sem nú er Skorhagi, en þó nokkru nær fjallinu og er trúlegt, að skriðuföll hafi eytt bæinn.
StykkisvellirHarða saga segir hinsvegar svo frá, að Refur hafi búið á Stykkisvelli (í Brynjudal) en Þorbjörg katla, móðir hans á Hrísum og vitanlega geta báðar sögurnar haft rjett fyrir sjer. Bæjarnafnið Hrísakot og örnefnið Hrísasneið benda  að minsta kosti til þess að bær með því nafni hafi verið þar að norðanverðum dalnum, þó það þurfi ekki endilega að vera.
Loks segir Harðar saga svo frá, að Kjartan sá, er seinna sveik Hólmverja, hafi búið á Þorbrandsstöðum. Hins vegar segir í upphafi Kjalnesingasögu að Þrándur landnámsmaður Helga bjólu hafi numið land í Brynjudal og búið á Þrándarstöðum, en það bæjarnafn er enn þá til. En verið gæti að Þorbrandsstaðir og Þrándarstaðir sjeu hið sama. Ingunnarstaða er getið í Kjósarannál að mig minnir einhverntíma á 16. öld. – Þá týndist í Hríshálsi, þ.e. hálsinum á milli dalanna, óljett kona með þrjú börn í fylgd með sjer og fannst ekkert af nema hendin af einu barninu. Og þessi kona fór frá Ingunnarstöðum.

Gamla

Svo jeg snú mjer aftur að hinum fornu sögum, þá er Brynjudals getið í Bárðar sögu Snæfellsáss og er sagt að Bárður hafi hafst við í Bárðarhelli. Það er móbergshellir sunnanmegin árinnar, við foss þamm er skammt er fyrir ofan hina nýju brú á ánni, er byggð var síðastliðið sumar (1932). Annar skúti er norðan árinnar, beint á móti Bárðarhelli, kallaður Maríuhellir.
Á Ingunnarstöðum var bænahús og var goldið þaðan prestmata þar til núverandi ábúandi keypti hana af. Mjer hefir einnig verið sagt að eitt sinn – fyrir löngu síðan – er byggja skyldi íbúðarhús á Ingunnarstöðum hafi verið grafið á mannabein.”
Árni Óla skrifaði grein, “Hafskip smíðað úr íslensku birki”, í Lesbókina árið 1958. “Landnáma segir að írskur maður, Ávangur að nafni, hafi numið land innst í Hvalfirði og búið allan sinn aldur að Botni. “Þar var svo stór skógur, að hann gerði þarf hafskip af og hlóð, þar sem nú heitir Hlaðhamarr…”

Brendan

Heilagur Brendan frá Clonfert (um 484 e.Kr. – um 577) (írska: Naomh Bréanainn eða Naomh Breandán; latína: Brendanus; íslenska: (heilagur) Brandanus), einnig nefndur „Brendan moccu Altae“, kallaður „siglingamaðurinn“, “Veyagerinn”, “The Anchorite” og “The Bold”, er einn af fyrstu írsku munkadýrlingunum og einn af tólf postulum Írlands.
Sæfarinn og dýrlingurinn Brendan var ábóti sem sigldi á húðbyrðingi (curragh) sínum til Færeyja og Íslands og jafnvel Azoreyjanna og Ameríku. Greint er frá ferðum hans í Navigatiohandritum sem eru nokkur að tali. Þeir sem hafa lesið þau eru ekki í vafa um að þar sé lýsing á eldgosi. Hvergi er um slík eldgos að ráða á Norðuratlantshafinu nema á Íslandi. Lýsingarnar af landsins forna fjanda, hafísnum, eru afar trúverðugar.

Írsk hafskip vour með öðrum hætti en norræn skip. Írsku skipin voru húðbátar, ekki ósvipaðir kvenbátum Eskimóa. Utan á grind, sem  gerð var úr léttum viðum, strengdu þeir nautshúðir, er saumaðar voru saman með seymi, og á slíkum skipum fóru þeir yfir höfin löngu áður en Ísland byggðist. Írar áttu að vísu tréskip líka, en þeir töldu húðskipin miklu betri í sjó að leggja. Húðskipin köllu þeir “currach” og sagt er, að áður en St. Brendan lagði í norðurför sína, einhvern tíma á árunum 565-573, eða 300 árum áður en Ísland byggðist, hafi hann látið smíða sér “curragh” með seglum til fararinnar. Talið er að hann hafi komizt til Grænlands og Íslands í þessari ferð.

En svo segir sagan, að í seinni rannsóknaför sína hafi hann ekki fengið annað en tréskip, og þótti honum það mjög miður.
Það er enginn vafi á því, að í Botnsskógi hefir Ávangur getað fengið nógu sterka viðu í grind fyrir húðskip. Aðvitað hefirhann gert skip sitt á sama hátt og Írar voru vanir, þar sem hann gat og fengið efniviðinn í það heima hjá sér. Og þegar slíkt skip var fullsmíðað gat hann vel hlaðið það hjá Hlaðhamri, enda þótt væri grunnt og grunnsævi úti fyrir, því að húðskipin voru grunnskreiðust allar skipa.
Það er ekki ótrúlegt að slík skip hafi farið milli Íslands og Skotlands á sex dögum. Húðskipið rann eins og stormfugl á bárum hafsins. Ísland gat ekki farið framhjá áhöfninni því að fjöllin þar eru svo há, að þau sjást langar leiðir utan af hafi.

Brú

Í ritgerð sinni um siglingar á söguöld (Safn IV.) getur Bogi Th. Melsted um Ávang og skipasmíð hans í Botni. Er hann ekki frá því að sagan geti verið sönn, en segir að þess beri að gæta, að inn í Landnámsbók sé skotið “ýmsum sögnum og þjóðsögum, sem eigi eru allar jafnáreiðanlegastar”. Um skipasmíðina þarf ekki að efast. Bóndinn í Hvalfjarðarbotni hefir smíðað þar “curragh” og haft til kaupferða, líklega til Írlands. En um nafn bóndans mætti frekar efast að rétt væri, en hefði skolast í munni og meðferð, nema kenningarnafn sé að ræða.
HestasteinnLíklegt er, að í Botni hafi frá landnámstíð verið hvíldarstaður ferðamanna, eða áfangastaður, sem nú er kallað. Slíkan stað kölluðu fornmenn áivang. Því svipar furðulega mikið til nafn bóndans írska, Ávangur. Getur ekki skeð að hann hafi fengið það kenningarnafn af staðnum? Slíkar nafngiftir voru til, sbr. Þórarinn Króksfjörður.”
“Svæðið umhverfis Botnsdal, innsti hluti Hvalfjarðar, er að hluta sögusvið Harðar sögu og Hólmverja. Ein hetja þeirrar sögu, Geir Grímsson frá Grímsstöðum fór til Noregs ásamt Herði fóstbróður sínum. Er Grímur kom til baka “keypti hann land í Neðra-Botni og færði þangað bú sitt, og var allgagnsamt”. þar bjó hann og þaðan fóru þeir félagar í ránsferðir uns þeir rifu húsin í Neðra-Botni og fluttu viðina út í Geirshólma. þar byggðu þeir skála yfir sig og lið sitt.
Auk þessara kappa hafa aðrir gert dalinn frægan á síðari tímum. Í Stórabotni fæddist og ólst upp Jón Helgason ritstjóri og rithöfundur (f. 1917). Liggja eftir hann margar bækur bæði skáldsögur og sagnaþættir byggðir á sannsögulegum atburðum.

Holukot

Holukot (fornmannabýli) – tóftir.

Í Litlabotni bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn Einarsson. Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur (f. 1906), Halldóru (f. 1907) Einar (f. 1909) og Sveinbjörn (f. 1924) sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna. Annað skáld, Jón Magnússon (f.1896), ólst einnig upp á Litlabotni.”
Lúther kann skil að öllum ábúendum í Botni síðustu aldirnar. Jón Þorkelsson var t.a.m. síðasti ábúandi á Stóra-Botni uns búskap var hætt þar 1982.

Holukot

Holukot – tóftir.

Annars vekur það sérstaka athygli hversu litlar og takmarkaðar merkingar (leiðbeiningar og fróðleik) er að finna á jafn sagnaríku svæði og Hvalfjarðardalirnir eru. Og ekki eru merkingar betri þar sem náttúruminjarnar eru annars vegar. Þegar t.d. komið er að bifreiðastæðinu við Stóra-Botn má segja að hefjist ratleikur í hvert sinn er einhver vill leggja á sig að finna hæsta foss landsins, Glym. Oft má sjá fólk á ráfi um svæðið. Nú, á tímum menningartengdrar ferðaþjónustu, virðast orð forsvarsmanna og -kvenna einungis hjóm eitt, því óvíða hefur þeim verið fylgt eftir á ferðamannaslóðunum sjálfum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Magnús Lárusson í Lesbók Mbl. 12 nóv. 1933; Hvalfjörður.
-Árni Óla, Grúsk, Lesbók Mbl. 04. maí 1958, bls. 246-7.
-Jón Helgason, Árbók Ferðafélags Íslands 1950.

Lúther