FERLIR rölti í síðdegisblíðviðrinu að síðustu tveimur póstum Ratleiks Hafnarfjarðar, Fjallsgrensbyrgjunum og Búðarvatnsstæðinu.
Ratleikur 2010Gengið var til suðurs frá skógræktinni í Brunatorfum, austan Hafurbjarnarholts að Fjallsgrensbala-vörðu. Nokkuð sunnan vörðunnar eru hlaðin skotbyrgi þar sem refaskyttur gátu legið fyrir bráð sinni. Fjallgrenið er nærri einu byrginu og þegar melrakkinn kom út úr greninu til að afla matar fyrir hungraða yrðlinga sína var skyttan í góðri aðstöðu til að vinna dýrið og hreinsa grenið. Merkið er í vestasta byrginu.
Vestar er hár hraunkantur. Undir honum, þar sem einn síðasti girðingarstaur mæðiveikigirðingarinnar á mörkum Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandar-hrepps, stendur enn, er Búðarvatnsstæðið.
Búðarvatnsstæðið virðist vera mótað af manna höndum og þar er staðið regnvatn sem er varla drykkjarhæft nema í hallæri. Um mitt vatnsstæðið liggur hleðsla sauðfjárveikivarnagirðingar sem markaði landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga.  Vatnsstæðið er rétt undir háum hraunkantinum í grónum krika.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sjá meira um Ratleik Hafnarfjarðar – http://ratleikur.blog.is/blog/ratleikur/