Eskines

Í Lesbók Morgunblaðsins 1952 fjallar Ólafur Þorvaldsson um “Gálgahraun og Eskineseyrar”.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

“Í LESBÓK Morgunblaðsins, 31. tbl., skrifar Árni Óla blaðamaður grein, sem hann nefnir Gálgahraun. Greinin er hin fróðlegasta, svo sem vænta mátti úr þeirri átt. Þar lýsir höfundur vel og glögglega þessum afvikna stað, Gálgahrauni, legu þess, margbreyttri náttúrusmíð, gróðri og fuglalífi. Einnig rekur hann í grein þessari allýtarlega gamlar harmsögur, sem tengdar eru þessum stað, — en sem betur fer, eru fyrir löngu hættar að endurtakast hér á landi. Þetta eru gamlar íslenzkar raunasögur, sem verður að segja svo sem til hafa gengið, ef á þær er minnst.
Þegar ég hafði lesið umgetna grein, þá datt mér í hug, hvort úr vegi væri, að sagt væri dálítið meir frá stað þessum, sem þótt svo nálægur sé mestu miðstóð allra ferðalaga, er nú sennilega mjög fáfarinn og allur fjöldinn veit ekkert um, að hann hafi nokkru sinni verið nokkrum til nota, þangað hafi víst fátt nýtilegt verið að sækja.
Ég mun því í línum þessum bregða upp augnabliks mynd af því, hvernig menn af næstu bæjum og byggðarlögum notfærðu sér hlunnindi þau, sem þarna buðu sig fram. Nú hefir staður þessi orðið útundan, og enginn talar lengur um að fara „inn í Gálgahraun”, til eins né neins. Tímarnir hafa breytst, — mennirnir hafa breytst. Þeir, sem einkum notfærðu sér það, sem þarna var að hafa, voru aðallega Garðhverfingar, dálítið Hafnfirðingar og Hraunsholtsbóndinn, einkum beit.
Úr Hafnarfirði og Garðahverfi mun vera sem næst þriggja stundarfjórðunga gangur í Gálgahraun. — Meðan flestir fóru gangandi í allar skemmri ferðir, varð margur spottinn einum og öðrum helzt til langur, einkum þegar mikið var borið og veður og færð misjafnt. Nú má segja að flestar vegalengdir séu horfnar með breyttum samgöngutækjum, enda flestir, sem eitthvað ferðast, sem kjósa hinar fljótfarnari leiðir. Við þetta gleymast, jafnvel týnast, margir hinna ósnortnu staða, og er þetta því meiri eftirsjá, sem margir þessir staðir búa yfir gömlum sögnum, fegurð og friðsæld.
Árni Óla hefir manna mest unnið að því að vekja athygli fólks á mörgum þessara afskekktu staða, og veit ég að hann telur sig hafa fengið „borgaða skóna”, sem hann hefir slitið í ferðum sínum á þessar slóðir.
Ég get búist við að nú finnist ýmsum heldur lítið koma til hlunninda þeirra, sem þessi staður lét í té, meðan nýttur var, en muna verður það, að þá voru aðrir tímar en nú eru og menn lutu þá oft að því, sem nú er framhjá gengið, enda ekki lengur þörf slíkrar nýtingar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Þeir, sem einkum fóru til aðdrátta í Gálgahraun voru aðallega Garðhverfingar, svo og eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og var það bæði rekaþang og skorið þang. — Betra þótti rekaþang til brennslu, en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það, að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr. Þangið var borið upp úr fjörunni á þerrivöll, og var stundum hrófað upp garðabrotum, sem þangið var svo breitt á, því bezt blés það þannig. Þegar þangið var orðið þurrt, báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Þetta var langur burður og vegurinn heldur stirður. — Já, svona var þetta þá.
Um marhálminn. sem einnig rak þarna á land, aðallega úr Lambhúsafjöru, er svipaða sögu að segja, hvað umhirðu áhrærir, — en hann var ekki notaður til eldsneytis, til þess vax hann algjörlega ónýtur.
Marhálmurinn var eingöngu notaður til einangrunar í hús, sem byggð voru úr timbri, sem fleat voru í þá daga. Marhálmurinn var seldur til Reykjavíkur og Haínarfjarðar og keyptu Reykvíkingar hann mikið, þegar byggð voru fyrstu íshúsin þar, svo sem Nordals íshús og ísbjörninn. Allur var marhálmurinn fluttur á sölustað á hestum í svo stórum sátum, að huldu að mestu hestana, svo léttur var hann vel þurr. Úr því ég minnist á marhálm og sölu hans, get ég ekki á mér setið að minnast hér þess manns, sem lengst mun hafa haldið uppi sölu marhálms til áðurnefndra staða. Maður þessi var Álftnesingurinn Guðmundur Þóroddsson í Lásakoti. Guðmundur var mjög bagaður á fótum, og var alþekktur undir nafninu „Gvendur á kartöflunum”. Enga sök átti Guðmundur á þessari fótabæklun og var viðurnefnið ómaklegt.

Marhálmur

Marhálmur.

Mörg síðustu ár marhálmsverslunar sinnar flutti Guðmundur hann á tveimur hestum og gekk sjálfur í kaupstaðinn, hvort heldur var til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar, og var undravert, hve hann entist til að staulast þessu löngu leið, oft dag eftir dag, jafn átakanlega og hann var bagaður. Úr kaupstað sat svo Guðmundur á öðru hrossinu, á reiðingsmeljunni, en hengdi hitt af reiðingnum á hitt hrossið, ásamt einhverjum trússum, því allvel varð Guðmundi víða til. Fyrir kom það, á þessum verslunarferðum Guðmundar, að Bakkus slóst í för með honum, og gættu þeir þá ekki ávallt sem bezt, hvernig fór á trússunum, enda kom víst fyrir að eitthvað fór þar forgörðum. Nokkuð mun það hafa staðið á endum, að Guðmundur varð fyrir aldurs sakir að hætta verslun sinni og að menn hættu að kaupa marhálminn, vegna þess að þá kom annað einangrunarefni á markaðinn (spænir og sag frá timburverksmiðjum) og að marhálmurinn upprættist með öllu á þessum slóðum, aðallega veturinn 1918—1919. Mestan marhálm sinn mun Guðmundur hafa fengið kringum Skógtjörn og máske eitthvað frá Lambhúsatjörn. Þá er að minnast lítillega á gagn það, sem menn höfðu af Gálgahrauni, til landsins.
Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar, sem líta það úr fjarlægð. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus.

Álftanes

Álftanes.

Gálgahraun, sem er nyrzti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu. Má því segja að Garðahraun breiði þarna úr sér þvert yfir nesið milli tveggja fjarða, Hafnarfjarðar og Skerjaf jarðar. Vestasti hluti Garðahrauns kallast „Klettar”, og liggur Gálgahraun í norðurbrún þessa svæðis. Áður á árum, þegar Hafnfirðingar og Garðhverfingar, áttu sauðfé svo nokkru nam, mun það lengi hafa verið, að sérstakar ættir fjárins fundu út, að í klettunum var gott að vera. Það urðu því mest sérstakir stofnar, sem héldu sig á þessu landi, allan tíma árs, að undanteknum þeim stutta tíma, sem fé var á fjalli, og eitthvað aí því var þar allt sumarið. Að fé þessu, eða Kletta-fénu, eins og það var kallað, var oftast gerð sérstök smölun, þar eð landið er afar leitótt, erfitt yfirferðar og féð meinrækt. Beit í Klettunum, ásamt Gálgahrauni, var góð, og fjörubeit, hvort heldur til suðurs. eða norðurs, að tæplega brást. Gekk því Klettaféð að mestu úti og töldu fjármenn í Hafnarfirði á þeim tíma, að vel mætti fara með fé þetta á húsi, ef jafnast ætti við beitina í Klettunum. Fyrir jörð tók þarna mjög sjaldan og skjól fyrir öllum áttum svo gott, að á betra varð ekki kosið.

Garðahraun

Í Klettum.

Fé þetta gekk oft að sjó við norðurjaðar Gálgahrauns og inn á „Eyrar”, og stóð þá oft í miklum marhálmsreka, sem talinn var vera á við töðugjöf, þá nýr var.
Hrauntanga þann, sem Árni Óla minnist á, og gengur fram í sjó, milli Arnarnessvogs og Lambhúsatjarnar, hefi ég frá æskuárum heyrt nefndan „Eskineseyrar” og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt engin viti nú, af hverju dregið er.
Mér hefir dottið í hug, hvort ekki sé hugsanlegt að Hraunsholtshálsinn eða vestur hluti hans, hafi einhverntíma heitið Eskines og tangi þessi, sem liggur þarna skammt vestar, tekið nafn þar af. Þrír nyrðri hálsarnir, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, heita, sem alkunnugt er, Arnarnes, Kársnes, sem oftast var nefndur Kópavogsháls — og Eskihlíð.
Er ekki hugsanlegt, að syðsti hálsinn hafi einhvern tíma heitið annað en Hraunsholt. Heldur finnst mér nafnið fátæklegt, hafi fornmenn skírt. Nafn á hálsinum gat breytst, eftir að jörðin Hraunsholt var byggð.
Norður af Eskineseyrartánni eru tvö eða þrjú flæðisker, sem komast má að mestu eða öllu þurrt út í á stærstu fjörum. Þarna var hættan fyrir fé það, sem gekk að sjó á þessum slóðum. Furðu sjaldan mun þetta hafa til skaða orðið, enda aðalhættan í stórstreymi, en mun þó nokkuð hafa verið aðgætt, einkum frá Hraunsholti. Þó varð þarna allmikið tjón á fé, um síðustu aldamót. Þá flæddi þar til dauðs 40—50 kindur frá Hafnarfirði og úr Garðahverfi.
Fyrir röskum fjörutíu árum varð ég, ásamt öðrum manni, Snorra Fr. Welding, sjónarvottur að frækilegri björgun nokkurra kinda, sem flæddar voru á einu fyrrnefndra skerja.

Garðahraun

Í Klettum.

Við félagar vorum á leið inn á Eyrar á veiðar. Stórstreymi var, og nokkuð farið að falla að. Suðaustan rok var á og rigning. Þetta var að haustlagi. Þegar við komum það norðarlega á Hraunsholtshálsinn, að við sæjum til Eyranna, sáum við að eitthvað var á hreyfingu á skeri, sem umflotið var orðið sjó, og sundið æði breytt milli lands og skers. Brátt sáum við, að maður óð út í skerið og vissum þá, hvað þarna var að ske. Nokkra stund berst maðurinn við að koma kindunum út í sjóinn, með það fyrir augum, að þær tækju þá til lands, en þær vildu hvergi fara, en merust bara hver um aðra. Óðum hækkaði sjór og sundið breikkaði og dýpkaði við hverja mínútu og hörku straumur kominn í tjörnina. Þessu næst sjáum við manninn hremma eina kindina og vaða með hana til lands. Þannig fer hann fjórar ferðir með eina kind í einu. Við sáum nú hver alvara var hér á ferð, þar eð við sáum ekki betur en sjór tæki manninum í brjóst. Missti maðurinn fótanna á þessu dýpi, var voði fyrir dyrum.

Eskines

Eskines – óskýrð tóft.

Við hertum því hlaupin sem mest máttum, ef við gætum að einhverju liði orðið, sem okkur virtist litlar líkur til, ef maðurinn þyrfti á skjótri hjálp að halda, þar eð báðir vorum við ósyndir. Þegar maðurinn er kominn langleiðis til lands með fjórðu kindina, þá leggja þær tvær, sem eftir stóðu í sundið, sem vitanlega var hreint sund hjá þeim milli skers og lands. Straumur og rok stóð inn sundið og hrakti kindurnar alllangt inn í tjörnina, en náðu þó landi. Þetta skeði samtímis því, sem við komumst fram á tangann. Þarna hafði maðurinn bjargað sex kindum frá drukknun og lagt þar við sjálfan sig í hættu.

Eskines

Eskines.

Það mun sjaldan koma fyrir, að kindur, sem láta sig flæða, fari af sjálfsdáðum af staðnum fyrr, en sjór fellur undir kvið þeirra, en þá er það í flestum tilfellum of seint, og svo hefði áreiðanlega farið hér, eins og vindi og straum var háttað. Á leiðinni út á Eyrarnar vorum við Snorri að dáðst að þrautseigju mannsins og ofurhug — en þó urðum við mest undrandi þegar við sáum hver maðurinn var, og vissum nokkurn veginn um aldur hans, kominn eitthvað yfir sjötugt. Maður þessi var Eysteinn Jónsson, fyrr bóndi í Hraunsholti, en hættur búskap fyrir nokkru. Ekki æðraðist gamli maðurinn, hvorki yfir erfiði né vosbúð, en ásakaði bara sjálfan sig fyrir að hafa verið heldur seint á ferðinni. Ég tel að þarna hafi verið leyst af hendi meira en meðal mannsverk. Eysteinn í Hraunsholti var karlmenni hið mesta, risi á allan vöxt, víkingur til verka og burðamaður svo víðfrægt var. Ekki þáði Eysteinn fylgd okkar nokkuð á leið og ekki var að sjá að honum væri kalt, sagðist mundi ganga sér til hita, á móti rokinu. Samt höfðum við auga með honum unz hann hvarf okkur upp af holtinu og átti hann þá ekki langt heim. Sennilegt er að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti á Eysteins löngu ævi í Hraunsholti, að hann bjargaði þarna fé frá bráðum voða. Líklegt er að þetta hafi verið í síðasta skiptið, þar eð stutt lifði hann eftir þetta, þótt ekki sé vitað að þetta atvik hafi átt nokkurn þátt í dauða hans hefi ég hér að framan getið helztu nytja þeirra, sem nærliggjandi bæir og byggðarlög höfðu af Gálgahrauni og umhverfi þess.
Hefi ég hér orðið of margorður, þó er það aðeins af því, að svo margs er að minnast, þegar getið er bjargræðis og lífsbaráttu fyrri kynslóða.

Garðahverfi

Kofatóftin við Eskines. Eskineseyrar framundan. Á þeim eru óskýrðar tóftir (efst fyrir miðju).

Að síðustu vil ég minnast á kofarúst þá, sem Árni Óla getur um í grein sinni og er í hraunjaðrinum upp af Eyrunum. Kofarúst þessi á sína sögu, svo sem önnur handaverk mannanna, þótt aldrei kæmi hún eða hugmynd sú, sem lá að byggingu hennar, að þeim notum, sem vonir manna hafa staðið til sögu þessa tóttarbrots, hefi ég frá fólki, sem mundi bygging hennar og tildrög. — Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870, að honum kom til hugar hvort ekki myndi kleift að rækta æðarvarp á Eskieyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum og hvorttveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg, og natni og kunnátta viðhöfð.
Þar eð Garðakirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skaanmt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun síra Þórarinn hafa talið ómaksvert, að reyna hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét því ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var að hænsn lokkuðu fuglinn að með varpi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefir víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.
Hvenær skyldu menn taka til að erja þetta land að nýju?
Allt bíður síns tíma, líka það.”

Sjá umfjöllun Árna Óla í 31. tbl. Lesbókar Morgunblaðsins um Gálgahraun árið 1952 HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 37. tbl. 05.10.1952, Ólafur Þorvaldsson, Gálgahraun og Eskineseyrar, bls. 477-480.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Botnssúlur

Í Dagblaðinu Vísi 14.05.2002 segir PÁÁ frá “Brölti um Botnssúlur”.
Botnssúlur“Botnssúlur eru einn besti útsýnisstaður meðal fjalla í klukkustundarfjarlægð frá Reykjavík. Þær eru í rauninni fjallaklasi sem býr yfir ýmsum leyndarmálum líkt oq hinir fögru dalir við rætur þeirra.
Þótt haustið sé í rauninni gengið í garð er engin ástæða til þess að láta það stöðva sig frá því að ganga á fjöll. Haustið er nefnilega besti tíminn til þess að stunda fjallgöngur því á svölum og lognkyrrum haustdögum er loftið svo tært að útsýni af fjallatindum verður aldrei betra.
Rétt í nágrenni Reykjavíkur, nánar tiltekið fyrir botni Hvalfjarðar, gnæfa Botnssúlur sem eru meðal tignarlegustu og fallegustu fjalla landsins og auk þess þannig staðsettar að af þeim er geysimikil útsýn.
Botnssúlur eru í rauninni fjallaklasi sem teygir efstu tinda sína upp undir 1100 metra yfir sjó. Hæsta súlan er Syðstasúla sem nær 1096 metra hæð yfir sjó.
Algengt er að ganga á hana og er þá oftast farið frá Svartagili við Þingvelli og gengið vestan Súlnagils sem leið liggur upp á fjallið. Syðstasúla er allbrött og mörgum vex í augum að ganga á hana.
Botnssúlur standa í raun fyrir botni tveggja dala sem skerast inn úr Hvalfirði og er Botnsdalur nyrðri en Brynjudalur syðri. Milli dalanna er lágur háls sem nefnist Hrísháls. Úr Botnsdal er auðvelt að finna varðaða leið sem liggur úr Botnsdal, upp á Hrísháls og þaðan sunnan Botnssúlna allt til Þingvalla. Þetta er hin forna Leggjabrjótsleið sem forðum er talin hafa verið alfaraleið manna sem riðu til þings á Þingvöllum. Á miðöldum komu kaupskip að landi í Maríuhöfn í Kjós og þaðan er greið leið inn með Hvalfirði, inn Brynjudal og um Leggjabrjót til Þingvalla.
BotnssúlurLaugardaginn fyrir réttri viku lá leið blaðamanns DV á þessar slóðir og var ákveðið að leggja á Botnssúlur úr Brynjudal.
Brynjudalur er einkar fallegur og sérstaka athygli vekja hinir tignarlegu Þrándarstaðafossar sem fljótlega verða á vegi ferðamanns. Við fremsta bæ í dalnlun sem heitir Hrísakot er gott að skilja bílinn eftir og arka sem leið liggur upp á hinn lága Hrísháls. Rétt fyrir framan skógræktargirðinguna við Hrísakot fellur Laugalækur niður hlíðina og þar mun vera 33 gráðu heit jarðlaug sem okkur tókst samt ekki að finna.
BotnssúlurÞegar upp á Hrísháls er komið verður hin forna Leggjabrjótsleið fyrir og gott að fylgja henni upp á brúnirnar. Leið okkar var heitið á Miðsúlu og því stefndum við sem leið lá upp eftir Sandhrygg sem gengur fram úr fjallinu. Þetta er greið leið og aflíðandi halli og engar torfærur á leiðinni, jafn bratti nær alla leið á tindinn og sést marka fyrir slóð á hryggnum þegar ofar dregur.
Af tindi Miðsúlu, sem er reyndar kölluð Botnssúlur á sumum kortum er geysilega víðsýnt. Í norðri má þekkja Baulu í Borgarfirði, Tröllakirkju á Holtavörðuheiði og nær kúrir Hvalvatnið undir Hvalfellinu sem ris fyrir botni Botnsdals. Eiríksjökull, Þórisjökull og Fanntófell blöstu við böðuð í haustsólinni og í austri þekktum við Skjaldbreið, Hlöðufell, Jarlhettur, Kerlingarfjöll, Heklu, Tindfjöll, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og hinn hornótta Loðmund á Landmannaafrétti.
Í suðri lá landið eins og kort fyrir fótum okkar og úr Þingvallavatni gátum við rakið silfurþræði Sogsins allt til sjávar en við hafsbrún stóðu Vestmannaeyjar í réttri röð. Þetta var dásamlegt og aldrei bragðast kakó og ostasamloka betur en þegar maður er búinn að rogast með hitabrúsann upp um 1000 metra eða svo.
Af tindinum er sæmilega greiðfært inn eggjar fjallsins og niður á lágan röðul fyrir botni Súlnadals sem skerst inn á milli Syðstusúlu og Miðsúlu. Þar innst í dalnum er lítill fjallakofi sem er í eigu íslenska alpaklúbbsins og heitir Bratti. Þetta er vistlegur staður og þar er gott að sitja á veröndinni og fá sér kakó og lesa undarlegar færslur í gestabók skálans um týnd skíði, vond veður og menn sem verja jólunum þarna fjarri heimsins glaumi.
BotnssúlurÞað er hæg leið niður dalinn og ágætt að koma inn á hina fornu Leggjabrjótsleið aftur við Sandvatn og fylgja henni aftur niður Hrísháls og á upphafspunkt ferðalagsins. Það er líka hægt að fara sjónhending niður mjög brattar grasbrekkur meðfram Þórisgili og virða fyrir sér stórkostlega fallega fossa sem þar leynast fjarri alfaraleið. Bæði í Þórisgili og í Þrengslum í Brynjudalsá er háir og fallegir fossar sem samt hafa ekki nafn nema þá kannski í munni örfárra heimamanna.
Á leið okkar gegnum kjarrið á Hríshálsi og eins í dalbotninum sjálfum fundum við talsvert magn af gríðarstórum aðalbláberjum, krækiberjum og bláberjum sem voru komin að fótum fram vegna aldurs en ekki enn skemmd til vansa af frosti.
Það er um klukkutíma akstur frá Reykjavík inn í Brynjudal og frá bílastæði við skógræktargirðinguna eru tæpir sjö kílómetrar á topp Botnssúlna í beina loftlínu.
Þetta er leiðangur sem tekur fullfrískt fólk sennilega 6-8 tíma og er gott dagsverk þegar máttarvöldin bjóða gott veður.” -PÁÁ

BotnssúlurÍ Jörð 1941 fjallar Þorsteinn Jópsepsson um Botnssúlur.
“Það var eina bjarta vornótt, að ég reikaði um Þingvallahraun. Dimmt var i lofti og þoka hvíldi á fjöllum. Á grasinu glitruðu daggarperlur, likt og tár á hvörmum saklauss barns. Það voru gleðitár og glit þeirra var dásamlega tært, þegar stráin bar i dökka mold eða dimmar gárur úfins hrauns. Sterk frjóangan vaknandi jarðargróðurs barst að vitum mér, en yfir landinu ríkti friður og draumræn kyrrð. Skógarþröstur flögraði undan fótum mér og settist á feyskinn kvist. Þar söng hann um sinn út í vorið og nóttina. Á bak við heyrði ég dimman bassaóð Öxarárfoss, þegar áin féll fram af bergbrúninni og niður í dimma og djúpa Almannagjá.
Þessa nótt sá ég í norðurátt sýn, sem ég hefi ekki gleymt.
Ég sá drifhvíta þokubólstra byltast fram með undirhliðum Botnssúlna, en dimmbláar eggjar þeirra og brotna tinda gnæfa upp úr. Sjaldan hafa fjöll hrifið mig meir, og mér fannst þá sem hæð þeirra væri ógurleg og ögrandi. En ég var ungur þá, og mér óx allt í augum, — allt, sem ég gat ekki þreifað á og handsamað í sömu andrá.
Eftir nóttina i Þingvallahrauni dreymdi mig í vöku um Botnssúlur. Þær voru huliðsheimur, sem reis dularfullur upp úr þokuhafi á vornóttum. Þrá mín beindist að því, að storka máttarvöldunum, sem vöfðu Botnssúlur í hvítt lin og huldu þær í roktættum bólstrum. Ég hét því þá, að klifa bratta tinda þeirra og horfa i einmana hamingju yfir sólvafið bólstrandi þokuhaf fyrir neðan mig. Botnssúlur urðu mér að takmarki.
Mörgum árum seinna gekk ég á Botnssúlur; gekk á þær á fögrum vordegi, þegar þoka huldi hrjúfar urðir undirhlíðanna, en tindarnir stóðu upp úr eins og forðum, vornóttina björtu í Þingvallahrauni.

Botnssúlur

Botnssúlur.

Ég veit ekki, hvort ég hefi lifað fegurri fjallgöngu né hamingjusamari dag.
Þegar ég stóð frammi á brúninni og horfði á brotnar eggjar, hvassa tinda og þverhnípta bjargveggi gnæfa upp ur hvítgráum þokumekki, sem liðaðist áfram, byltist og rannaðist fyrir fótum mér, fannst mér þessi fegurð vera fullkomin.
Hún var fullkomin fyrir þá sök, að draumur minn hafði laszt. Fyrir augum mínum blasti við glæsileiki, eins og eg hafði hugsað mér hann stórfengilegastan og mikilúðgastan.”

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 210 tbl. 14.05.2002, Brölt um Botnssúlur, PÁÁ, bls. 36-37.
-Jörð, 2. tbl. 17.06.1941, Þorsteinn Jópsepsson, Botnssúlur, bls. 260-261.
-Fálkinn. 36. tbl. 07.09.1935, bls. 1.
-Tíminn Sunnudagsblað. 32. tbl. 22.08.1965, bls. 753.

Botnssúlur

Botnssúlur og nágrenni.

Þingvellir

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Rit Kålunds.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kristian Kålund segir m.a. eftirfarandi fróðlegt um Þingvelli:

Brúsastaðir

Hlautsteinn við Brúsastaði.

“Um Mosfellsheiði liggur leiðin að hinum gamla þingstað, Þingvöllum. Farið er framhjá fyrst bæ í Þingvallasveit, Kárastöðum (norðar eru Brúsastaðir, og er sagt, að þar sé hringmynduð tóft, nefnt “Hof”), þá þegar er mikið stöðuvatn, Þingvallavatn, komið í augsýn ásamt fjöllunum handan vatnsins. Þá liggur vegurinn allt í einu niður milli hraunkletta, beygir skyndilega til vinstri og breytist í brattan stiga, sem liggur meðfram klettunum milli hraunrana niður í gjárbotninn. Þar er sem sé Almannagjá, sem nú er verið að fara niður í og vegurinn liggur gegnum eða réttara sagt á ská með háum vesturveggnum. Niður af þverhnípinu steypist eins og glitrandi hvítt band fallegur lítill foss, þar er Öxará og kemur að vestan.

Öxurárfoss

Öxarárfoss.

Þegar Ketilbjörn fór í landkönnunarferð sinni frá Skálabrekku (þar sem hann hafði reist skála) kom hann, segir í Landnáma 385, að á þar sem þeir misstu öxi sína, og nefndu ána því Öxará. Sturl. I 57 bætir hér við mjög einkennilegri frásögn – sem er þó sennilega ekki annað en heimildarlaus sögusögn ð að ánni hafi síðan verið “veitt í Almanngjá og fellur nú um Þingvöll”. Það er sem sé ekki auðskilið hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita Öxará, sem vestan Almanngjár rennur um lítt gróna hraunsléttu, niður í þetta gljúfur, hefði farvegur hennar ekki verið upphaflega þar; ekki verður heldur séð, hvernig hún hefði átt að renna í Þingvallavatn án þess að renna í Almannagjá. (Mjög glöggur farvegur liggur til vesturs frá Öxará. Hefst hann við ána rétt fyrir vesta Öxarárbrú vestur af Almanngjá, þá austan við Kárastaði og loks út í Þingvallavatn skammt austan Skálabrekku. Hefur Kålund ekki athugað staðháttu á þessum stað og telur frásögnina sennilega ekki annað en heimildarlusa sögusögn. Þremur árum eftir að I. b. bókar Kålunds kom út, kom Sigurður Vigfússon á staðinn (1880) og skoðaði farveginn rækilega og tók m.a. fram, að vatnasnúnar klappir sjáist í farveginum skammt austan Skálbrekku og sé hann kallaður “Árför” eða “Árfar”, en fram undan árósnum heiti í vatninu “Urrðarálar” og “Árfarsgrynning” þar í kring. Kålund og Guðni Jónsson telja báðir erfitt að sjá, hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita ánni niður í Almannagjá. En Jón Jóhannesson bendir á augljósa ástæðu. Hann aðhyllist skýringu Sigurðar Vigfússonar (Árb. Fornl. 1880-81) og segir síðan; “Það virðist því lítil ástæða að rengja þessa sögu, enda var það mikið hagræði fyrir þingsækjendur að hafa gnægð af fersku vatni á völlunum, auk þess sem ekki þarf að ætla fornmönnum, að þeir hafi verið sljóir fyrir þeim fegurðarauka, sem Öxará með fossi sínum er þingstaðnum”.

Þingvellir

Öxará loftmynd. Enn er óljóst hvort áin hafi verið breytt í farvegi fyrrum eða hvort hún hafi einfaldlega breytt sjálf um farveg eftir jarðskjálftan  1789.

Árið 1789 varð mikill jarðskjálfti í þessum landshluta, Þingvallahrauni (þ.e. svæðinu milli Almanngjár og Hrafnagjár), og vatnið breyttist, norðurströndin seig niður fyrir vatnsborð; einnig varð hrun í Almanngjá, og á mörgum öðrum stöðum hrundu klettar. Fram að þeim tíma hafði þjóðleið til og frá Þingvöllum legið meðfram hallanum fyrir neðan austurbarm Almanngjár, og enn sjást merki um reiðgötur þar, en fast niður við vatnið lá leiðin þvert yfir sprungur og hraun – eða raunar þar fyrir neðan. Við landsig það sem varð af jarðskjálftanum, komst gamli vegurinn víða undir vatn og var lagður af (Um breytingar á Þingvallahrauni í jarðskjálftanum 1789, sjá Espólín, Árb. IX, b. 61. Við þetta má bera saman Nturhistorie-Selskabets Skriver III. B., útdrátt úr dagbók Sveins Pálssonar; hann segir þar (191), að við jarðskjálftann 1789 hafi allt landssvæðið milli Almanngjár og Hrafnagjár “sigið rúmelga alin eða meira, og var það auðséð á klettunum norðan til í Almanngjá, þar sem mátti mæla, hversu mikið jörðin hafi sigið, og hið sama má sjá að austanverðu á landinu við Hrafnagjá, en greinilegust sönnun var Þingvallavatnið sjálft, sem gekk langa leið yfir strendur sínar að norðan, en þornaði að sunnan. (Ferðabók 100)).
Þessi staður var valinn samkvæmt Íslendingabók (8) til allsherjar þingstaðar við stofnun Alþingis árið 930, eftir að Grímur geitskór (geitskör) hafði ferðast um Ísland í þrjú ár til að leita að Þingstað, og síðan hefur alþingi (hið yngra alþing), eða eins og síðar var kallað, eftir að landið hefði misst sjálfstæði sitt, Öxarárþing” verið haldið þar, þangað til að það síðasta sem eftir var af gamla alþinginu hvarf í lok síðustu aldar.
Náttúran hefur gert allt til að staðurinn væri hinn hentugasti til þinghalds (ekki aðeins staðurinn sjálfur er hagkvæmur, heldur enn fremur lega hans), og tilviljun hjálpaði einnig til, að landið lá á lausu. Maður er átti land í Bláskógum, hafði verið gerður sekur fyrir þræls morð eða leysingja er Kolur hét. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn til alþingis neyslu. “Af því er”, heldur Íslendingabók áfram, “þar almenning að viða til alþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossa hafnar.”
Við Kol er kennd, segir á sama stað, gjá sú, er síðan er kölluð Kolsgjá (Colsgeá) þar sem “hræin” (flt) fundust.
Enginn veit nú neitt um Kolsgjá. Árni Magnússon, sem með mestu gaumgæfni safnaði fróðleik í meira en 40 ár til áðurnefndrar þýðingar Íslendingabókar, sem hann vann að frá því fyrir 1688 og allt til dauða síns 1730, tekur fram með tilliti til Kolsgjár: Kolsgjá er mér sögð að sé sunnanvert við pláss það er Leirur kallast norður frá Þingvelli – og bætir því við, að heimildarmaður hans hafi verið séra Þorkell Árnason (Dómkirkjuprestur í Skálholti 1703-7, sennilega sonur Árna prófasts Þorvarðarsonar, prests á Þingvöllum 1677-1702; sjá “Prestatal” Sveins Níelssonar IV. 17. sbr. IV. 14), en séra Þorkell hafði það eftir mönnum, sem höfðu heyrt séra Engilbert nefna þess gjá þannig. Séra Engilbert Nikulásarson var prestur á Þingvöllum 1617-69 (Prestatal Sveins Níelssonar IV. 14). (Kolsgjá er sem sagt suðurendi Sleðásgjár, sunnan við Leirur).
Bærinn Þingvöllur (nú prestsetur) er í nánu sambandi við Alþingi, einnig kirkja og kirkjugarður. Fast fyrir vestan prestsetrið er kirkjugarðurinn rétt við ána, kirkjan aftur á móti er nú norðan við bæinn á túninu, sem liggur nokkuð hátt. Samkvæmt Heimskringlu (II. 214), sbr. Flateyjarbók (III. 247, 344) má ætla, að Ólafur helgi hafi fyrstur látið reisa kirkju á Þingvelli; þó er nefndur í Njálu nokkrum árum áður “bænda kirkjugarður” (312). Ólafur gaf við til kirkjunnar og klukku mikla (þá sem enn er þar); seinna sendi Haraldur harðráði aðra klukku til kirkjunnar. Hann hefur sennilega einnig sent við til smíðar hennar, a.m.k. er sagt (Kristni s. 30, Hungrv. 71), að í ofviðri á dánarári Gissurar biskups (1118) braut kirkju á Þingvelli, þá er Haraldur konungur Sigurðarson hafði gefið við til.
Finnur Jónsson segir í Kirkjusögu sinni (IV. b. sbr. Espólín, Árb. II 38-39), að Alexíus Pálsson, síðasti ábóti í Viðey, hafi fyrst) í upphafi 16. aldar) verið prestur á Þingvelli, og hann hafi látið flytja kirkjuna frá kirkjugarðinum, þar sem hún var, á þann stað þar sem hún er nú, vegna vatns sem vall upp úr jörðinni, og segir að sýndir séu stórir steinar, nefndir Ábótasteinar, í kirkjuvegg, sem þessi afar sterki maður á einn að hafa flutt.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Í Þingvallakirkju sagði lögsögumaður upp lögin, ef veður var illt (Grg. 117. gr.); þar voru þingheyjendur við guðsþjónustu, svo sem sjá má af sögum.
Um áðurndnda Ábótasteina segir Þingvallaprestur í fornminjaskýrslu sinni (1817), að Alexíus eigi að hafa flutt frá einhverums tað tvo steina, sem hér séu hvor í sínum kirkjukampi, og hinn þriðja, sem liggi fyrir kirkjudyrum. Steinninn í nyrðri vegg er sagður 2 álna hár og mjög breiður, en hinir 2 1/4 alin hvor, og sá sem er í suðurkampii sé stærstur og úr þyngstu bergi. Á honum og þeim sem liggur gagnvart dyrum á að vera gamalt alinmál. – Samkvæmt lagagrein, sennilega frá því um 1200 (Dipl. Isl. I 309, einnig prentað í Grágás II 250), var þá kvarði merktur á kirkjuvegg á Þingvöllum og í sjálfum lögunum, þar sem ákveðið var fyrir ókomna tíma við mælingu klæðis að nota stiku álnar langa; einnig var ákveðið að slík stika skyldi vera nerkt við hverja graftarkirkju.
Vant var að segjam hvort nokkuð er varðveitt af þessu gamla lengdarmáli sem merkt var á kirkjuvegg á Þingvöllum. Páll Vídalín segir í Fornyrðingum lögbókar í greininni “alin” (þar sem hann reynir að sýna að gamla íslenska alinin hafi verið 18 1/2 þuml., og þvi hefði stikan verið um það bil ein sog enskur yard; sjá Dipl. Isl, I 306-308), að enginn um hans daga hafi þekkt þennan stein á kirkjuvegg á Þingvöllum, sem gamla alinmálið hafði verið höggvið á, og þar að auki bendir hann á, að kirkjan var flutt af sínum gamla stað. Þó segist hann hafa heyrt að á tímum þeirra sem lifðu í bernsku hans, hafi enn mátt sjá steininn í kirkjuveggnum.

Þingvellir

Alin-málssteinninn framan við Þingvallakirkju – letur.

Jón Ólafsson frá Grunnavík segir í orðabók sinni undir orðunum “alin” og “kvarði” að presturinn á Þingvöllum, Markús Snæbjörnsson (sennilega þegar hann bjó hjá honum um þingtímann 1744) að þegar hann nálægt 1740 var að endursmíða kirkjuna, hefði hann fundið í grunninum bjarg, sem á var merkt alin, styttri en venjuleg alin (þá var venjulega notuð á Íslandi Hamborgaraalin, 21 9/11 þuml. löng (sjá Dipl, Isl. I 307), og áleit hann að þar hefði verið gamla íslenska alinmálið, sem átti að vera merkt á kirkjuvegg á Þingvöllum. Þennan stein hafði prestur látið setja í vegginn að utan, svo allir gætu séð hann utan frá. Jón Ólafsson bætir við, að seinna hafi fólk sem kom á þingstaðinn, mælt alinmálið sem í steininn var höggvið, og fundið að að það kom nákvæmlega heim við þá lengd sem Páll Vídalín hafði sagt vera hina elstu íslensku alin. Fornminjaskýrslan frá upphafi þessarar aldar bendir ekki aðeins á einn, heldur tvo steina sem gamla alinmálið á að vera merkt á; af þeim var þó aðeins annar í kirkjuvegnum, en hinn fyrir framan kirkjudyr, stakur. Af honum er til teikning ásamt lýsingu eftir þáverandi kammerjunkt Teilmann, sem heimsótti Ísland 1820, af athugasemdum við teikninguna má sjá að þá hefur verið litið svo á að þvert yfir framhlið steinsins lægi lárétt lægð, um 5 kvartila löng, er skyldi sýna alinmálið (sem hefur þá nánast verið “stika”).
Einnig nú stendur fyrir kirkjudyrum steinn og talið er á hann sé höggvið alinmálið, sem er alveg eins og Teilmann sýndi. Auk áðurnefndrar lægðar er á framhlið steinsins níu mislöng skáset þverstrik, og er nú almennt litið svo á, að þau komi við alinmálinu, en Teilmann virðist ekki hafa ætlað þeim neina merkingu. Eru um 19 þuml. milli ystu (sem se nálægt því sem íslensk alin var). Varla er vafi, að þessi álnasteinn er hinn sami og Teilmann teiknaði, og sá sem Teilmann fann fyrir kirkjudyrum er hinn sami og fornminjaskýrslan lýsir, Ekki er gott að segja, hvar sé að leita hins álnasteinsins, þess í kirkjuveggnum, því að gamla torfkirkjan var rifin 1859 og timburkirkja kom í staðinn. Hitt verður að liggja milli hluta, hvort einhver þeirra álnarsteina sem nefndir eru í fornminjaskýrslunni, er sá sem Markús Snæbjörnsson fann (Sigurður Guðmundsson telur í “skýrsu um Forngripasafn Íslands I 117, að núverandi alinmálasteinn á Þingvöllum sýni hið rétta gamla alinmál, sem hann segir 17 1/1 þuml.”
Sjá meira um alinsteininn á Þingvölllum HÉR.

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 65-106.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Vörðuhólmi

Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnnesinga og eigenda Kirkjuvogs.

“Frá Hæstarétti í gær.

Vísir

Vísir 1925.

Þar var sótt og varið málið: “Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina”.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð “hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð”, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu” á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri “Gömlu þúfu” á Háaleiti í „Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól” í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma”, þaðan sunnanundir „Selskeri” og „Hestakletti” og þaðan á sjó út.”
Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í “Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.”
Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.

Stafnes

Úrskurðuð landamerki Stafnness og Kirkjuvogs. Kort herforingjaráðsins.

— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.”

Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.

Vörðuhólmi

Vörðuhólmi – LM-merki.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um “Guðlaugs þátt Gjáhúsa”.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson“Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.
Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.
Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.
Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga. Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?”
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,” svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni. Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja. Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni. Nú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
VindásNú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug. Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.
Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.” — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.”

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst. Guðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
Víkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk. Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram. Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.” Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar. Ég mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.”
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.” – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhús, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Krýsuvíkurkirkja

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka skrifaði um “Ferð til Krýsuvíkur” í Heimilisblaðið árið 1945:
“Kæri lesandi,

Ég get hugsað mér, að þú segir við sjálfan þig — kannski líka upphátt — að nóg sé komið af skrifum um Krýsuvík, að óþarft sé þar við að bæta. En ég er nú á annarri skoðun. Þess vegna tek ég mér nú penna í hönd, en lofa því um leið að vera ósköp fáorður, líka vegna þess að langar blaða- og tímaritsgreinar eru mínir verstu óvinir.

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

Fyrir stuttu síðan komu til mín tveir vinir mínir, þeir bræðurnir Baldur og Sigurður prentarar, synir Jóns Helgasonar prentsmiðjueiganda. Þeir voru að leggja upp í skemmtiferð til Krýsuvíkur og buðu mér að koma með. Fyrir mig var vissulega vandi velboðnu að neita. Ég var hálf lasinn og lítt fær til ferðalaga. Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur, og nú er því langþráðu marki náð, marki allra sannra framfaramanna, en jafnframt hræðilegur þyrnir í augum allra afturhaldsafla Suðurlands. Hafi þeir allir þökk fyrir, sem unnið hafa að því þjóðþrifamáli.
Eftir lítilsháttar athugun á heilsu minni stóðst ég ekki freistinguna og settist upp í bílinn hjá þeim bræðrum og sá um leið og ég settist í dúnmjúkt sæti bílsins, að ég hreinlega var dauðans matur, ef ég gæti ekki setið þar þenna stutta spöl til Krýsuvíkur.
Eftir að hafa gengið vel frá öllu, er tilheyrði þessu ferðalagi, var ekið sem leið liggur suður Hafnarfjarðarveg, og suður á hinn nýja Krýsuvíkurveg.
Leiðinlegt að geta ekki komið við í hinu fagra Hellisgerði. En tíminn leyfði ekki slíkan „lúxus”, því að áliðið var dags. En fyrirheitna landið, Krýsuvík, varð að meta mest af öllu.
Hinn nýji Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir.
Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna…

Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, og minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari. Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum, sem hér er drepið á, er áreiðanlega mjög vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Eins og tekið var fram í upphafi, hefur töluvert verið skrifað nú á seinni árum Krýsuvík. Um nytsemi Krýsuvíkurvegar sem samgöngubót til austurhéraðanna skrifaði bezt og rækilegast Árni Eylands í hitteðfyrra í Alþýðublaðið. Einnig skrifaði Árni Óla blaðamaður um staðinn Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum, sömuleiðis birtist í blaðinu „Reykjanes í fyrra mjög fróðleg grein um Krýsuvík og nágrenni, en því miður hef ég gleymt nafni höfundar. Og síðast en ekki sízt má nefna rit Geirs Gígja um rannsóknir hans á Kleifarvatni.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst, að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Hvert hérað velur til sína fræðimenn að skrifa sína sögu allt frá landnámstíð. Þessar héraðssögur verða ómetanlegur fróðleikur komandi kynslóðum.
Krýsuvík var heil sveit — hreppur — og heil kirkjusókn allt frá landnámstíð. Þar hafa áreiðanlega lifað og starfað mætir dugnaðarmennn, engu síður en í öðrum landshlutum. En nú er þar ekkert, sem minnir á fornar hetjudáðir. Þessi sveit, sem er svo að segja nefið á höfuðstað þessa lands og fjölennum sjávarþorpum, allt um kring, er látm leggjast í eyði. Fólkið sættir sig ekki við omaldarbúskaparlagið, þegar það kynnist netra á næstu grösum, og flýr sveitina sína fögru, og hún leggst í algjöra auðn. Afturhaldssamir valdhafar spyrna við af öllum og sálarkröftum að nokkuð sé gert í samgöngumálum eða öðru til þess að Krýsuvík geti haldið áfram að framfleyta íbúum sínum og ekki er langt síðan, að einn höfuðpaur Reykjavíkur kallaði í einu dagblaðinu vegalagninguna til Krýsuvíkur, Krýsuvíkurvitleysu með stórum stöfum gæsalappalaust, og kinnroðalaust, ef til vill hefur hann ekki að hægt er að rækta í Krýsuvík þúsnundir hesta af töðu, ásamt fjölda annara nytjajurta, sem hér yrði of langt upp að telja.

Krýsuvík

Krýsuvík – áveituskurðir. Arnarfell fjær.

Þegar miðað er við það að Krýsuvík var heill hreppur og heil kirkjusókn, verður ekki annað sagt en þar sé ömurlegt yfir að líta. Þar sjást engin fögur mannvirki, engin fegurð ema fegurð náttúrunnar, sem ávallt mun verða hin sama, hvernig sem er mennirnir fara með landið. En eigi að síður er þetta Krýsuvíkurland úsældarlegt og albúið að veita börnum sínum fæði og klæði. Kafloðin gömlu túnin bera þess ljósan vott, að þau séu þess albúin að veita ríkulega uppskeru, þótt engin mannleg hönd hafi sýnt þeim minnstu rækt árum saman. Mýrar og móar, sem þarna eru, gefa fyrirheit um að ekki skuli þeirra hlutur eftir liggja með afraksturinn, ef mennirnir vilja leggja til ofurlítið af orku sinni til hjálpar sér og óefað mætti minnast jarðhitans þarna, en hve mikils virði hann er í Krýsuvík brestur þekkingu um að dæma.
Það má því heita, að í augum vegfarandans. séu útþurrkaðar allar menjar þess, að þarna hafi verið mannabyggð. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.
Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð.
Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
tJti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók, mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna.
Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hveraig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú
farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolftvar þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið. En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags.

Krýsuvíkurkirkja

Legsteinn Árna Gíslasonar – eftir brunann.

Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki.
Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir. Og nutum við, ég og félagar mínir, hinnar mestu gestrisni óg höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns.

Krýsuvíkurkirkja

Uppbygging Krýsuvíkurkirkju 2020.

Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri. Það má nærri geta að slíkir búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flýtja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nútímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum? Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð. Árni sýslumaður var faðir hins vinssæla læknis Skúla, sem lengi var héraðslæknir í efri hluta Árnessýslu. En synir Skúla eru þeir Sigurður magister og ritstjóri og Árni húsgagnasmíðameistari í Reykjavík.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra manna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgudóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í fagran trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til
sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað. Kirkjan á sjálf víst ekki grænan eyri sér til endurbyggingar, en hvað munar íslenska ríkið um slíka smámuni.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjuð Krýsuvíkurkirkja við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Það er verið að reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo – hví skildum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að noklkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðulega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja komin á sinn stað.

Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.”

Heimild:
-Heimilisblaðið, 25. árg. Reykjavík, okt.-nóv. 1945, Þórður Jónsson frá Eyrarbakka – Ferð til Krýsuvíkur, 10.-11. tbls, bls. 172-174 og 193.

Heimilsblaðið 1945

Heimilisblaðið 1945.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir/Þorláksstaðir var fyrrum bær ofan Hafnarfjarðar, milli Hvaleyrar og Áss. Í dag er fátt, sem minnir á bæinn því bæði hefur verið byggt á gamla bæjarstæðinu og hraðbraut; Reykjanesbrautin, verið lögð í gegnum jörðina. Sorglegt dæmi um hvernig fornleifar hverfa undir framkvæmdir vegna vanskráningar og áhugaleysis hlutaðeigandi aðila. Þó má enn sjá leifar tveggja útihúsa suðaustan mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Strandgötu; austan Ástorgs.

Í Morgunblaðinu sunnud. 7. júlí 1918, má sjá eftirfarandi auglýsingu:
Þorgeirsstaðir“Jarpur hestur , 6 vetra gamall, hefir tapast frá Þorgeirsstöðum við Hafnarfjörð. Mark: blaðstýft aftan hægra, biti fratnan, og blaðstýft framan vinstra. Finnandi beðinn að skila honum til Þorgeirs Þórðarsonar, Þorgeirsstöðum, Hafnarfirði.”

Í Morgunblaðinu föstud. 16. jan. 1920 er jörðin auglýst til sölu:
“Til sölu er býlið »Þorgeirsstaðir« við Hafnarfjörð ásamt meðfylgjandi erfðafestulandi, sem er 13,5 dagsláttur, þar af eru 7 dagsl. ræktaðar í túni sem gefur af sér ca. 100 hesta af töðu.
ÞorgeirsstaðirBýlinu fylgir íveruhús 10×10 1/2 alin, heyhús 10×10 1/1 al. og peningshús með safnþró undir. alt bygt úr hlöðnum grásteini, og áfast hvað öðru. Beitiréttur getur fylgt.
Semja ber við eiganda og ábúanda Þorgeir Þórðarson, Þorgeirsstöðum.”

Í Morgunblaðinu fimmtud. 9. des. 1926 er jörðin enn auglýst til sölu:
“Jörðin Þorgeirsstaðir, við Hafnarfjörð, fæst til kaups og ábúðar í næstu fardögum. — Túnið gefur af sjer um 100 hesta. Jörðinni fylgir íbúðarhús, hlaðið, fjós og safnþró, alt úr steini.
Þorgeirsstaðir—Lysthafendur snúi sjer til eigandans Brynjólfs Pálssonar, Þorgeirsstöðum eða Sigurðar Kristjánssonar, kaupfjelagsstjóra í Hafnarfirði.”

Og í Morgunblaðinu miðvikud. 27. nóv. 1929, birtist enn ein sölutilkynningin:
“Jörð til sölu.
Býlið Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð er til sölu og laust til ábúðar frá næsta vori. Túnið gefur af sjer 100 hesta. — Allar byggingar eru úr steini. Þar á meðal fjós fyrir 5 kýr, haughús og hlaða sem tekur 200 hesta.
ÞorgeirsstaðirAllar nánari upplýsingar viðvikjandi sölunni gefur Björn Jóhanneson.
Vesturbrú 9. Hafnarfirði. Sími 87.”

Í Morgunblaðinu laugard. 12. nóv. 1962, er auglýsing:
“Jörð til sölu.
Jörðin Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð, ásamt íbúðar og peningshúsum úr steini, er til sölu. Túnið gefur af sjer ca. 120 hesta af töðu.
Upplýsingar gefur Sigurður Kristjánsson, Hótel Hafnarfjörður, sími 24.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, Jólablaðinu 1965, segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir – kort frá 1908.

“Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.
Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt. Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.”

Í Fornleifakönnun fyrir Reykjanesbraut árið 2001 segir:

Þorgeirsstaðir

Staðsetning Þorgeirsstaða skv. fornleifaskráningu um staðsetninu Reykjanesbrautar.

“Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var þar nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum.” “Framan í því var staður nefndur fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.” segir í örnefnalýsingu. Þorlákstún er nú klofið af Reykjanesbraut. Þorlákstún var sunnan við vestustu íbúðarhúsin sunnan Reykjanesbrautar. Sjálft býlið hefur horfið vegna íbúðarhúsabyggðar norðan Reykjanesbrautar. Grasi vaxið hraun og enn sjást leifar girðingarinnar sem girti túnið af. Íbúðarhús eru norðan túnsins.
Hættumat: hætta, vegna vegagerðar
Heimildir: Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B, 4″

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

“Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir (25). Í gamla daga var það nefnt Þorlákstún (26), gömul móabörð með þýfi og garðlögum. Síðan tekur fjallið til og hækkar unz við tekur Ásfjall, er síðar getur (sjá Ás).”

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir:
“Suður og upp frá Hvaleyrartúnum liggur Hvaleyrarholt (72). Skammt sunnan við traðarhliðið, uppi í holtinu, var uppspretta, nefnd Heiðarbrunnur (73). Þar var gott vatn, en þraut í þurrkum og frostum. Hér hærra var komið að garðlaginu forna, sem lá ofan úr Hvaleyrarholtsklettum (74) vestur og niður af á sandinn og suður í Gjögur. Í klettunum, undir brúninni, var Hvaleyrarréttin (75), en uppi voru hjallarnir. Þangað var í fyrri daga borinn fiskur, kasaður og síðan þurrkaður. Hér nefndist einnig Hjallarétt (76), og var fé rekið að hér, þegar hin réttin hafði verið lögð niður. Syðst í þessum hluta Hvaleyrarholts var skógarítak Gufuneskirkju. Lægð var hér í holtinu, nefndist Skarðið (77). Þá tók við háholtið. Framan í því var staður nefndum fyrrum Þorláksstaðir (78). Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún (79) og þá Þorgeirstún (80) og nú Þorgeirsstaðir (81).”

Heimildir:
-Morgunblaðið sunnud 7. júlí 1918, bls. 4.
-Morgunblaðið föstud. 16. jan. 1920, bls. 3.
-Morgunblaðið fimmtud. 9. des. 1926, bls. 2.
-Morgunblaðið miðvikud. 27. nóv. 1929, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.
-Reykjanesbraut 2 – Fornleifakönnun; Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingi Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri.

Þorgeirsstaðir

Útihús frá Þorgeirsstöðum.

Kotvogur

Í bókinni “Hafnir á Reykjanesi”, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið “frændi Ingólfs ok fóstbróðir”, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.
Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
HafnirÞau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma. Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð ” sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum” (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
HafnirLengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.
Af frásögn Lannámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið “á milli Vágs og Reykjaness” tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum. Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: “Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda” (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
HafnirEnga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið q.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land. Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, “greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum”. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.
Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.
Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjoðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.
Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: “Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan” (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.”

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, sga byggðar og mannífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um “Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá”. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið “Suðurnes” einungis yfir byggðirnar norðan Stapa.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

“Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

Keilir

Keilir.

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík. (1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík. (1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík. (1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km lóng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.
5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík. (1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull. (1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.
7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull. (1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.
8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull. (1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík. (1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.
10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.
Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.”

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Halldór Laxness

Í Faxa árið 1982 birtist hugvekja í tilefni af áttræðisafmæli Haldórs Laxness þar sem hann m.a. mærir Grindavík – og það ekki að ástæðulausu.

Grindavík

Grindavík 1939.

Á árunum 1937—1939 gaf Lestrarfélagið í Grindavík út tímarit, sem nefndist Mímir. Markmiðið með útgáfu ritsins var, eins og segir í 1. tölublaði, að reyna að vekja af dvala Lestrarfélagið Mími, er sofið hafði svefni hinna réttlátu um nokkurt skeið. Var ritið selt til ágóða fyrir félagið, á 10 aura eintakið. Ritstjórar voru Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, Jochum Eggertsson og
Einar Einarsson í Krosshúsum. Í 4. tölublaði Mímis frá 1937 er viðtal við Halldór Laxness. Viðtalið hefur Einar Einarsson í Krosshúsum að líkindum átt við skáldið og í tilefni þess að
Halldór Laxness er áttræður um þessar mundir. Þótti við hæfi að fá það birt hér í Faxa nú. Fer viðtalið hér á eftir:

“Tíðindamaður blaðsins heimsótti Halldór Kiljan Laxness þar sem hann dvelur nú [í Krosshúsum] yfir páskana, önnum kafinn yfir ritvél sinni. Þrátt fyrir mikið annríki var skáldið svo vingjarnlegt að svara nokkrum spurningum, sem tíðindamaður lagði fyrir hann.
-Kemur framhald af „Ljósi heimsins”?

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

-Já, næsta ár mun koma út ný bók, framhaldssaga af niðursetningnum, sem nú er ekki lengur niðursetningur, eins og þér vitið. Hvers vegna nefnduð þér bókina „Ljós heimsins”? Bókin skýrir frá baráttu skáldsins við heimskuna og tregðuna.
-Þér notið alveg sérstakt mál í bók yðar, haldið þér ekki, að það geti aflagað mál hinnar yngri kynslóðar?
-Ég vona að mál bókarinnar sé auðvelt aflestrar og spilli ekki málsmekk neins.

-Á hve mörg mál hafa bækur yðar verið þýddar?
-Dönsku, þýsku, sænsku, ensku og hollensku og verið að vinna að þýðingu á frönsku.

-Mörgum finnst þér vera svartsýnn í bókum yðar?
-Það er alltaf sagt að raunsæishöfundar séu svartsýnir. Lífið er ströng barátta, og sögur mínar eru raunsæar. Þegar lífsskilyrði alþjóðar batna verður skáldskapurinn ósjálfrátt bjartsýnni.
-Haldið þér ekki að útlendingar geti fengið of slæmar hugmyndir um Ísland við að lesa bækur yðar?
-Það held ég ekki, vesaldómur almennings er í flestum löndum meiri en á Íslandi, svo það er ekkert nýtt fyrir útlendinga að heyra um fátækt fólk. Annars er fólkið allsstaðar eins, aðeins ofurlítið breytt á yfirborðinu. Þegar maður er búinn að tala dálitla stund við mann frá t.d. Buenos Aires er maður óðar kominn inn á sama umræðu etni og í samtali við fólk hér í Grindavík.
-Viljið þér segja ofurlítið frá þessu ferðalagi, sem þið fóruð í sumar?
Ég hefi skrifað ofurlítið um það annarstaðar, og ég er líka ónýtur að segja ferðasögur. Það koma náttúrlega fyrir ýms atvik á ferðalagi, en þeim hef ég mest gaman af þegar ég er búinn að skrifa um þau í skálsögum, kannski í ofurlítið breyttri mynd.

Krosshús

Krosshús.

-Sumir hneykslast á ýmsu í bók yðar „Ljós heimsins” t.d. 16. kap.
-Það er með bók eins og jólaköku, jólakökur mega ekki vera eintómar rúsínur, en ef engin rúsína er í þeim, er það heldur engin jólakaka.
-Hvernig líst yður á Grindavík?
-Mér líst afar vel á Grindavík. Þar vinn ég betur en víðast hvar annarstaðar, hér skrifaði ég seinni hlutann af „Fuglinn í fjörunni” og „Napóleon Bónaparte” og gerði uppkast að „Ljós heimsins”. Eftir kynningu minni af öðrum íslenskum sjóþorpum, held ég, að Grindavík sé með bestu plássum landsins. Húsin eru rúmgóð og falleg, mættu kannski standa skipulegar. Sjáið þér börnin þama úti á túninu, öll vel klædd með höfuðföt og sko. Þið ættuð að sjá pláss eins og Ólafsvík og Bíldudal og Eskifjörðog víðar þar sem fólk varla hefur eldsneyti til að kynda undir pottinum með.
Vér þökkum herra Laxness fyrir samtalið, óskum honum gleðilegra páska og kveðjum.”

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Í tilefni áttræðisafmælis Halldórs Laxness, bls. 92.

Grindavík 1958

Grindavík (Járngerðarstaðarhverfi) 1958.