Ferlir
FERLIR getur boðið hópum upp á skemmtilegar og áhugaverðar, stuttar eða langar, ferðir um Reykjanesið, hvort sem er um að ræða akstursferðir eða gönguferðir. Hér er dæmi um hugmynd af einni slíkri FERLIRsferð, sem stendur áhugasömu fólki til boða. Þá er og mögulegt að skoða og reyna hvaðafeina er getið er um í hinum ýmsu ferðalýsingum á vefsíðunni. Hægt er að leita nánari upplýsinga í www.ferlir@ferlir.is.
Tveggjadagaferð Boðið er upp á tveggja daga gönguferð frá Reykjanestá að Trölladyngju. Gengið verður um fagurt, áhugavert og sagnaríkt umhverfi. Lagt verður af stað að laugardagsmorgni frá Reykjanesvita og verður í fyrri áfanga gengið til Grindavíkur, um 20 km leið. Gist verður næturlangt í Grindavík. Seinni áfanginn, á sunnudeginum, verður genginn frá Grindavík að Trölladyngju. Þessi áfangi er einnig um 20 km langur. Reiknað er með u.þ.b. 8 klst göngu hvorn dag, en farið tiltölulega rólega yfir og það skoðað, sem fyrir augu ber og áhugavert kann að þykja. Inn í jarðsöguna verður fléttað sögum og sögnum er gerast hafa átt á svæðinu og komið verður við að nokkrum athyglisverðum minjastöðum, s.s. í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni og seljunum á Selsvöllum. Á laugardagskvöldið verður farin stutt ferð um Grindavík og þar raktir helstu staðir er tengjast merkum atburðum í aldanna rás, s.s. Grindavíkurstríðinu, Tyrkjaráninu o.fl. Ferðin endar í Bláa lóninu þar sem ferðalangar geta látið líða úr sér. Tiltekinn er upphafsstaður, ferðagjald, tímalengd og tilhögun göngunnar og að fólk taki með sér viðeigandi búnað og nesti. Lýst verður gistingunni í Grindavík og tilhögun hennar.