Gígur í Eldvörpum.
Boðið er upp á jarðsöguferð. Ætlunin er að byrja í Gjánni í Eldborg hjá Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi og fræðast þar um jarðfræði svæðisins. Þá verður ekið/gengið að Eldvörpum. Þaðan verður gengið norðaustur nyrðri hluta Eldvarpanna, skoðaðar sprungureinar, kíkt á klepra- og gjallgíga, hugað að hraunstraumum og farið niður um eitt gígopanna, inn í litríkan helli, sem þar er, og hægt er að ganga úr honum inn í 10 metra djúpan gíg og síðan úr honum inn í enn dýpri gíg. Þegar upp er komið blasir eldgígaröðin við og sést vel hvernig gosið hefur á sprungureininni, einni af mörgum sem eru svo einkennandi fyrir Reykjanesið. Skoðað verður í nokkra gígana. Ofan við Eldvörpin er eitt stærsta hraundríli á Reykjanesinu,, u.þ.b. 5 metra hátt og 8 metra djúpt. Gengið verður áleiðis að Lat, sem er virkt hverasvæði. Í honum eru hveraútfellingar og ýmsar jarðmyndanir. Loks verður gengið yfir tiltölulega slétt mosahraun yfri að Bláa lóninu, þar sem boðið verður upp á afslöppun í heitum laugum – afurðum jarðfræðinnar. Tilgreindur er upphafsstaður, tímalengd, ferðagjald, nauðsynlegur búnaður (létt ljós, hjálm/húfu, hanska og annað), gerð grein fyrir mikilvægum varúðarráðstöfunum og að þátttakendur taki með sér nesti og baðföt.