Í Bálkahelli.
Boðið er upp á hellaferð. Ætlunin er að ganga spölkorn um gróið hraun (Fjárskjólshraun) og með brún nýrra hrauns (Eldborgarhrauns) og skoða síðan undirheima Reykjanessins, einn af á annað hundrað þekktra hraunhella á svæðinu. Sumir hellanna hafa verið notaðir sem skjól í gegnum aldir, s.s. Húshellir og Gullbringuhellir. Fé var haldið í sumum skjólanna og víða má sjá mannvistarleifar. Í hellaferðinni verður tækifærið notað til að fara yfir jarðfræðina og myndun hella, verðmæti þeirra, s.s. dropsteinar og hraunstrá, hraunrósir og hraunreipi verða skoðuð, litbrigðin útskýrð og lögð áhersla á mikilvægi þess að ganga vel um hellana. Gengið verður um hellinn og einstök tilbrigði hans tíunduð. Tilgreindur er upphafsstaður, tímalengd, ferðagjald, nauðsynlegur búnaður (ljós, hjálm/húfu, hanska og annað), gerð er grein fyrir mikilvægum varúðarráðstöfunum og að þátttakendur taki með sér nesti.