Krýsuvíkurbjarg.
Boðið er upp á strandgönguferð um stórbrotna suðurströnd Reykjanesskagans. Gengið verður frá Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, um Litlahraun og síðan vestur með Krýsuvíkurbergi, um 13 km leið. Komið verður að Heiðnabergi og gengið upp að vind- og vatnsorfnum móbergshryggnum Selöldu. Í Litlahrauni eru minjar selstöðubúskapar, tóftir og rétt. Bergið sjálft er auðvelt yfirferðar, en af því er víða stórfenglegt útsýni. Eystrilækur fellur fram af berginu í háum fossi. Bergið hýsir margan fuglinn og er fróðlegt að sjá hann athafna sig á þröngum klettasyllum. Skoðuð verður eldstöðin Skriða á bjargbrúninni. Í Heiðnabergi er Ræningjastígur, ofan við það er Krýsuvíkursel er Tyrkir komu að skv. þjóðsögunni og skammt frá eru tóftir bæjarins Eyri (Efri Fitja) og mannvirki honum tengdir. Fitjar eru sunnan undir Selöldu, en ofan við tóftirnar eru Strákar. Í þeim er fallega hlaðið fjárhús, heillegt. Vestan við Fitjar er gömul hlaðin brú yfir Vestarilæk. Gengið verður eftir slóða upp að Arnarfellsrétt og síðan áfram upp í Krýsuvíkurrétt undir Bæjarfelli, þar sem gangan endar, eftir u,þ.b. 3 klst og 33 mín. Tiltekinn er upphafsstaður, ferðagjald, tímalengd og tilhögun göngunnar og að fólk taki með sér viðeigandi búnað og nesti.