Ferlir
FERLIR getur boðið hópum upp á skemmtilegar og áhugaverðar, stuttar eða langar, ferðir um Reykjanesið, hvort sem er um að ræða akstursferðir eða gönguferðir. Hér er dæmi um hugmynd af einni slíkri FERLIRsferð, sem stendur áhugasömu fólki til boða. Þá er og mögulegt að skoða og reyna hvaðafeina er getið er um í hinum ýmsu ferðalýsingum á vefsíðunni. Hægt er að leita nánari upplýsinga í www.ferlir@ferlir.is Þjóðleiðaferð

Tvíbollar

Tvíbollar.

Boðið er upp á gönguferð um hina gömlu þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs, Selvogsgötuna. Gangan getur verið hvort sem er fjögurra klukkustunda eða átta klukkustunda. Styttri ferðin er ganga frá Bláfjallavegi niður að Hlíð við Hlíðarvatn, en lengri gangan er ýmist frá Hafnarfirði að Hlíð eða frá Bláfjallavegi að Strönd í Selvogi. Selvogsgatan er gengin um Grindarskörð, niður með norðanverðum Stórabolla og áfram niður að Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og Strandardal. Við Sælubunu, hina fornu lind, verður annað hvort haldið áfram um Strandarheiði og niður í Selvog, eða beygt vestur Hliðargötu og haldið að landnámsbæ Þóris haustmyrkurs að Hlíð. Gangan er tiltölulega auðveld. Af Selvogsgötu er fallegt útsýni um landssvæðið vestan við Heiðina há, Hvalshnúka, Austurása og Vesturása. Lýst verður hinum gömlu leiðum yfir hálsana og sýnt það markverðasta, sem ber fyrir augu, s.s. Dauðsmannsskúta við Litla-Kóngsfell. Styttri gangan er ágæt kvöldganga í góðu veðri. Tiltekinn er upphafsstaður, ferðagjald, tímalengd og tilhögun göngunnar og að fólk taki með sér viðeigandi búnað og nesti.