Fimm fjórhjólum var stolið frá ATV4x4 í Grindavík 18. eða 19. febrúar s.l. Þrjú þeirra komu fljótlega í leitirnar og hin tvö skömmu síðar. Fyrri hjólin fundust í flutningabifreið, sem tekin hafði verið á leigu til verknaðarins. Einn maður var þá handtekinn vegna málsins. Eftir að aðrir fimm höfðu verið handteknir fundust hin fjórhjólin tvö, en þeim hafði verið komið fyrir í geymslu í Breiðholti.
HjólinÞað var Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem fann fyrri fjórhjólin. Lögreglan á Suðurnesjum fylgdi málinu fast eftir og vann vel að uppljóstran þess. Að sögn varðstjóra fékk lögreglan í fyrstu ábendingu um hvar hjólin væri að finna. Grunur vaknaði fljótlega hverjir kynnu að hafa verið þarna að verki. Þær grunsemdir reyndust á rökum reistar.
Fjórhjólin eru af gerðinni Bombardier Can-Am E-Outlander F400, gul og svört að lit. Hvert hjól kostar rúmlega tvær milljónir króna. Að sögn rekstraaðila ATV4x4 hafa þau reynst afar vel í ferðum og mikil aðsókn verið í fjórhjólaakstur á merktum slóðum í nágrenni Grindavíkur “enda svæðið eitt hið fallegasta og tilkomumesta á gjörvöllu landinu” (sjá krækju hér til hægri). Hjólamissirinn varð ekki tilfinnanlegur fyrir reksturinn þennan stutta tíma því góður stuðningur kom til frá samkeppnisaðilum. Sjálfir gerðu þeir sér ávallt góðar vonir um að tækin myndu finnast innan ekki langs tíma, enda unnu úrvalslögreglumenn að lausn málsins.
Auk fjórhjólanna var fylgihlutum fjórhjólanna stolið, svo sem hjálmum, göllum, skóm og vettlingum. Hluti búnaðarins hefur komið í leitirnar.