Gísli Sigurðsson hóf störf í lögreglunni í Hafnarfirði árið 1930. Afstaða og stjórnmálaskoðanir skiptu máli þá eins og nú. Gísli talaði þó aldrei illa um nokkurn mann, ekki einu sinni hörðustu andstæðinga sína.
Steingrímur Atlason hætti í lögreglunni árið 1946, en kom aftur til starfa árið 1953. Hann minnist þess að þá hafi Gísli verið kominn á fullt að ræða við eldra fólk í bænum um byggðina, fólkið, örnefnin, húsheiti og annað tilheyrandi. Að hans mati hefur Gísli án efa bjargað miklum verðmætum upplýsingum því margt af þessu fólki dó næsu ár á eftir. Hann teiknaði auk þess upp gömul hús og húsaskipan eftir frásögn fólksins, sem mundi hvernig þau höfðu litið út á meðan þau voru enn brúkleg. Gísli byrjaði í fyrstu að ræða við elsta fólkið í bænum, en fór lítið út fyrir hann til að byrja með. Hann skrifaði upp og fór oft þrisvar til fjórum sinnum yfir textann áður en hann skilaði honum frá sér í formi upplýsinga eða erinda. Þegar hann fékk nýjar upplýsingar bætti hann þeim umsvifalaust inn í textann, sem fyrir var. Hann skrifaði í rit og blöð, ekki síst bæjarblöðin, um afmarkað efni.

Sjá meira undir
Frásagnir.