Grindavík

Sagan
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934.

Grindavík

Grindavík – kort.

Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.
GrindavíkUpphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl., en eru nú um hálft þriðjaþúsund. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú höfum við bætt við menningu okkar hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar höfum við eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem Íslendinga.

Atvinnulífið

Grindavík

Grindavík 1924.

Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal stærstu fyrirtækjanna má telja Þorbjörn-Fiskanes hf, Stakkavík,Vísir og Samherji/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Þótt Grindavík hafi lengst af byggt afkomu sína á sjávarútvegi hefur á síðustu árum orðið verulegur samdráttur í vinnu landverkafólks og það ýtt undir leit að nýjum atvinnutækifærum. Aukin vinna við þjónustu kom með byggingu glæsilegrar langlegudeildar í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík. Deildin tilheyrir Sjúkrastofnun Suðurnesja í Keflavík.

Saltfisksetur

Í Satfisksetri Íslands.

Þá varð mikill uppgangur í þjónustu við ferðamenn með uppbyggingunni við Bláalónið og tilkomu Saltfiskseturs Íslands í Grindavík. Þar er verið að byggja hótel og meðferðaraðstöðu við Lónið á nýjum stað þar sem baðgestir eru alveg öruggir og öll aðstaða verður eins og best verður á kosið. Nú er hótel við Bláalónið, veitingastaður og einnig fer þar fram vinnsla á heilsuvörum sem unnar eru úr efnum úr Lóninu. Í bænum er öll nauðsynleg þjónusta heilsugæsla, tannlæknir, verslanir, löggæsla, skrifstofa Sýslumanns.

Ferðamenn velkomnir 

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Hér eru nokkur veitingahús, gistihús, hótel og tjaldstæði, ný útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarsal og gufubaði, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er hestaleiga, silungsveiði, góður 13 holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi við sjóinn. Hægt er að fara í sjóstangaveiði eða útsýnissiglingu.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Þá spyr fólk gjarnan eftir Sólarvéinu sem staðsett er milli íþróttahússins og Félagsheimilisins Festi. Það er heiðið listaverk tileinkað sólinni. Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey, en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Saltfisksetur Íslands í Grindavík er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina, er þetta eitt af þeim söfnum sem ferðamaðurinn getur ekki sleppt, þar kemst hann í nálægt við allt sem tengist verkunninni, lykt, hljóð og sjón.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

Grindavík er skammt frá Keflavík og í aðeins 50km. fjarlægð frá Reykjavík. Grindavík er tilvalinn staður að heimsækja hvort heldur sem menn vilja fjölbreytta afþreyingu, eða njóta þess að slaka á í skemmtilegu umhverfi.

Upplýsingaskrifstofa fyrir ferðafólk er rekin allt árið í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.

Umdæmið nær frá Valahnúk í vestri að Seljabót í austri.

Virkið

Virki Jóhanns breiða.

Nokkrir atburðir
Grindavíkurstríðið 1532
Tyrkjaránið 1627
Bátasendaflóðið 1799
Skipsskaðar; Alnaby, Clam, Skúli fógeti
Byggðaþróun – Staðarhverfi – Þórkötlustaðahverfi – Járngerðarstaðahverfi

Sagnir.
TYRKJAR Í GRINDAVÍK
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
(Jón Árnason)

ÞORKATLA OG JÁRNGERÐUR

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af.

Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.
(Jón Árnason)

FESTARFJALL

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
(Ruðskinna)

SILFURGJÁ

Sifra

Silfurgjá.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur.

Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.
(Rauðskinna)

GAMLA KIRKJAN

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja.

Gamla Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum tímum. Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982, frá árinu 1988 hefur verið starfrækt barnaheimili í kirkjunni. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina.

Nokkir staðir áhugaverðir staðir
Staðahverfi, Stórabót, Eldvörp, Hópsnes, Selatangar, Húshólmi, Krýsuvík, Klofningar, Krýsuvíurberg, Selalda, Selsvellir, Baðsvellir Gálgaklettar, Hraunsandur og Festisfjall.

Heimildir:
-grindavik.is
-Saga Grindavíkur
-Tómas Þorvaldsson – ævisaga
-Milli Valahnúka og Seljabótar – Guðfinnur Einarsson
-https://ferlir.is/grindavik-svavar-arnason/

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/