Sveifluháls

Gengið var upp grunnt gil innan við Hofmannaflöt undir vestanverðum Sveifluhálsi með stefnu inn (suður) eftir miðjum hálsinum, allt að Arnarvatni. Að vestanverðu blasti Móhálsadalur við, millum Sveifluhálsar og Núpshlíðarhálsar.
MiðdegishnúkurUppgangan var auðveld. Þegar upp var komið blasti Miðdegishnúkur við. Annars var þessi ferð á páskum (2008), mestum misbrestum mannsskepnunnar, kærkomin ástæða til að velta svolítið betur fyrir sér hvers vegna þetta nærtæka og ægifagra svæði í nánd við mesta þéttbýlissvæði landsins, skuli ekki njóta meiri athygli en raun ber vitni – allt árið um kring.
Á Reykjanesskaganum eru nokkrir aðilar, sem gefa sig sérstaklega út fyrir að vera upplýsandi um það sem þar ku vera einkar áhugavert að skoða. Þú, lesandi góður, er nú hvattur til að skoða t.a.m. vefsvæði helstu ferðamálasamtakanna á svæðinu og slá þar inn leitarorðið “Sveifluháls”. Segjast verður eins og er að útkoman verður bæði mjög takmörkuð og alls ekki fróðleg – reyndar fælandi. Til uppörvunar má  fara inn á vefsíðuna www.ferlir.is og slá þar inn leitarorðið. Útkoman munbæði reynast áhugaverð og fróðleg. Sveifluhálsinn er í umdæmi Hafnarfjarðar, en í aðalskipulagi Hafnarfjarðar er t.a.m. varla minnst á þetta merkilega landssvæði bæjarins.
Á SveifluhálsiVelta má fyrir sér hvers vegna áhugaleysið virðist umlykja ferðamálaaðila á svæðinu fyrir jafn stórbrotnu náttúrufyrirbæri og hér ber vitni. Tómlætið virðist hins vegar ekki einungis bundið við þetta svæði – ef vel er að gáð. Svo virðist sem áhuga, drifkraft og eftirfylgni (framkvæmd) við að opinbera hina ýmsu möguleika svæðisins fyrir áhugasömu fólki skorti tilfinnanlega.
Jæja, aftur að Sveifluhálsinum. Hann er móbergstapi á gosrein er varð til undir jökli síðasta jökulskeiðs. Ef allur hálsinn er tiltekin (Undirhlíðarnar einnig, enda á sömu gosrein), er hann um 25 km langur þar sem nær frá Borgarhólum í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Að vísu heita hlutar hans ýmsum nöfnum, en jarðfræðilega er um eitt og sama fyrirbæri að ræða, líkt og nálægasti bróðir hans í vestri; Núpshlíðarháls (Vesturháls). Sveifluálsinn var fyrrum nefndur Austurháls til aðgreiningar frá Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).
Hásarnir eru þó ekki eineggja, því bæði urðu þeir til á mismunandi tíma og með mismunandi hætti. Vesturhálsinn er eldri. Það má m.a. sjá á afstöðu hans til landreksins, líkt og gildir um aðrar sprungureinar á Reykjanesskaganum, jafnvel eftir að ísa leysti. Vel mætti áætla aldursmuninn með því að mæla fjarlægðina á milli þeirra, en landrekið hefur verið áætlað að jafnaði um 2 cm á ári. Hafa ber í huga að ísaldarskeiðin eru miklu mun lengri en hlýskeiðin. Nútímahlýskeiðið hófst hér á landi fyrir u.þ.b. 11 þúsund árum – og ætti því að fara að renna sitt skeið á enda m.v. fyrri reynslu af umskiptum jarðar.
Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978). Staparnir miðsvæðis á Sveifluhálsi eru annars konar en bræður þeirra beggja vegna. Annað hvort hafa þeir myndast, hlið við hlið, í tveimur gosum á sömu sprungurein með stuttu millibili, kannski einu eða tveimur árþúsundum og því skilið eftir sig “ósraskaðar” skálar á millum. Vel má sjá grágrýti á milli þeirra, en uppistaðan í hnúkunum sjálfum er móberg (samanpressuð gosaska).
Fyrirhuguð línuleið yfir hálsinnÞegar gengið var um einn dalinn milli hnúkanna, áleiðis að Arnarvatni, skullu á þátttakendum allhvassir misvindar, nákvæmlega á þeim stað er FERLIRsfélagar voru staddir er jarðskjálftarnir tveir riðu þar yfir 17. júní árið 2000, með u.þ.b. 5 mínútna millibili. Halda mætti að þarna byggju vættir er vildu láta vita af sér svo eftir væri tekið. Einn þátttakenda lagði til að dalurinn yrði nefndur “Huldudalur”.
Annars er Sveifluhálsinn og nærliggjandi svæði einstaklega verðmæt útivistarsvæði. Sú staðreynd virðist þó ekki hafa hlotið hljómgrunn hjá þeim er helst ættu að gæta þeirra. Undantekning er þó þar á.
Sunnudaginn 30. september 2007 skrifaði Reynir Ingibjartsson grein í MBL. Þar reyndi hann að upplýsa lesendur um hvað til þeirra næsta friðar heyrði varðandi þetta svæði: “Fyrirhugað er að bora á Reykjanesskaga í leit að jarðvarma. Verði af framkvæmdum og álver rísi í Helguvík munu háspennulínur verða strengdar í loftlínu til Suðurnesja frá Hafnarfirði með tilheyrandi raski.
Arnarvatn - OAHvað skyldu margir vita hvar Móhálsadalur er? Dalurinn sá liggur um fólkvang flestra sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins sem heitir Reykjanesfólkvangur. Nú eru á borði stjórnar fólkvangsins, tillögur til umsagnar um lagningu háspennulína þvers og kruss um fólkvanginn m.a. um Móhálsadal. Þar um liggur sk. Djúpavatnsleið þvert yfir Reykjanesskagann og gefur þá tilfinningu að allt þéttbýli sé víðs fjarri og ósnortin náttúra tekin við. Og örnefnin lýsa fjölbreytileikanum eins og Fjallið eina, Norðlingaháls, Hrútagjá, Mávahlíðar, Fíflavallafjall, Hofmannaflöt, Lækjarvellir, Djúpavatn, Ketilsstígur, Hattur og Hetta, Krókamýri og Vigdísarvellir og loks er komið að Latsfjalli og Lat við Suðurstrandarveg. Þessi kennileiti hafa vísað veginn í 1.100 ár og gera enn. Í og við Reykjanesfólkvang hefur Hitaveita Suðurnesja sótt um leyfi fyrir tilraunaborunum til að virkja jarðvarmann, ef hann reynist nægur. Þegar hefur verið borað við Trölladyngju við Sog, skammt austur af Keili með tilheyrandi jarðraski á einkar viðkvæmu svæði. Boranir eru að hefjast við Sandfell sunnan Selsvalla og vestan Núpshlíðarháls á svæði fjarri öllum vegum og slóðum og síðan kemur röðin að Seltúni í Krýsuvík, einum kunnasta ferðamannastað á Reykjanesskaganum.

Veðrunarformmótun á Sveifluhálsi

Kannski verður Brennisteinsfjöllum hlíft (nafngjafi Jónas Hallgrímsson), en þar hafa Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun óskað eftir að bora. Í þetta svæði á að sækja orku til að hægt verði að byggja álver í Helguvík og nú stendur stjórn Reykjanesfólkvangs uppi með kvölina og völina og háspennulínurnar.
Tillaga er gerð um jarðstreng frá Seltúni og yfir Sveifluháls hjá svokölluðum Ketilsstíg og áfram yfir Móhálsadal og Núpshlíðarháls að Trölladyngju. Annar kostur er að leggja streng frá Seltúni með Suðurstrandarvegi allt til Svartsengis.
Einnig er boðið upp á jarðstreng þvert yfir Sveifluháls, Móhálsadal og Núpshlíðarháls að Sandfelli. Leggja þarf vegaslóða til að koma strengjunum fyrir og augljóslega mun fylgja þeim mikil rask, einkum í hraununum. Ekki er talið gerlegt að leggja háspennulínuna út á Suðurnes með viðkomu í Trölladyngju og Sandfelli í jörð sökum tæknierfiðleika og kostnaðar. Hér eru engir
kostir góðir og reyndar hver öðrum verri, hugsi menn eitthvað um umhverfið og ósnortna náttúru þessa svæðis.
Reykjanesskaginn er eins og einskis manns land þar sem allt er leyfilegt. Vélhjóla- og jeppamenn hafa sína hentisemi. Gapandi malarnámur bjóða fólk velkomið í fólkvanginn. Gróðurinn á undanhaldi og rusl fyllir lautir og gjótur. Kannski vita fæstir að þeir séu komnir í fólkvang og þá tekur virðingarleysið við. Eina byggingin sem sannarlega stendur undir nafni er litla kirkjan í Krýsuvík, en gönguskálinn á Lækjarvöllum í Móhálsadal var skotinn í tætlur. Er þá nema létt verk fyrir ýtur,
gröfur, bori og önnur stórvirk tæki að klæða landið borholum, stöðvarhúsum, háspennulínum, gufurörum, vegum og öðrum mannvirkjum fyrir álið í Helguvík eða eitthvað annað? Kannski er líka öllum sama?
Veðrunarformmótun á SveifluhálsiBent hefur verið á að í og við Reykjanesskagann búa um 200 þúsund manns og vaxandi þörf er fyrir fjölbreytt útivistarland í nágrenninu. Um Keflavíkurflugvöll fari svo flestir þeir ferðamenn, sem koma til landsins og innan áratugar verða þeir líklega orðnir um milljón talsins, enda fjölgar þeim um og yfir 10% á ári hverju. Miklar samgöngubætur eru að verða á Reykjanesskaganum; annars vegar með tvöföldun Reykjanesbrautar og hins vegar með væntanlegum Suðurstrandarvegi.”
Spurt var; “Hvers vegna þegja hagsmunasamtök um ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum um þetta? Hvers vegna taka þau ekki þátt í umræðunni? Hér er greinilega um langmesta hagsmunamál þeirra að tefla.” Svarið er einfalt; Í fyrsta lagi eru þau og fulltrúar þeirra of nátengd verkefnaaðilum og sveitarstjórnum á svæðinu til að geta æmt hið minnsta um mikilsverð verkefni. Setji þau sig upp á móti framkvæmdum eiga þau á hættu að frjálsar styrkveitingar til þeirra minnki að sama skapi. Í öðru lagi hefur umsjón með vefmiðlum þessara aðila (a.m.k. FSS) verið komið í hendur útgáfufyrirtækjum, s.s. Víkurfrétta, sem jafnan virðist hafa verið málpípa meirihluta sveitarstjórna á svæðinu. Þar liggja augljósir hagsmunir og saman þegar kemur að kostunaraðilum og auglýsingum.

Ketilsstígur

Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta. Kippa þarf fulltrúum sveitarfélaga út úr stjórn orkufyrirtækja, aftengja þarf tengsl ferðaþjónustuaðila við hagsmunafjölmiðla og skapa þarf heilbrigðan samstarfsvettvang til að virkja áhugi, þekking uog kraft þekkingaraðila á svæðinu. Þá fyrst munu hin eiginlegu verðmæti Reykjanesskagans fá að njóta sín – svo um munar.
Hafa ber í huga að FERLIR er jafnan ekki gagnrýninn á viðfangsefni, heldur fyrst og fremst leiðbeinandi um verðmæti, en framangreint er vissulega verðugt umræðuefni.
Til baka var gengið um tinda og skörð með það að markmiði að leita leiðar frá Arnarvatni niður á Hofmannsflöt. Að einni torfæru slepptri reyndist þarna vera hin ákjósanlegasta leið fyrir gangandi. Líklega hefur hún þó ekki verið farin nema af kunnugum.
Hér fylgir með vísa frá Eggerti Guðmundssyni Norðdahl frá Hólmi um Sveifluháls:
Funi er þar til frambúðar
og feikna gufusjóðir,
eins og lægi undir þar
allar vítisglóðir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Umhverfi og útivist – 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006.
-Mbl, sunnudaginn 30. september 2007.

Sveifluhálsinn miðlægur