Ætlunin var að ganga að Kistu, fylgja úfnu Kistuberginu og síðan ofanverðri Reykjanestánni um Kinnaberg, um Kinnabás, að Önglabrjótsnefi. Sunnan við það er Kerlingarbás. Ofan við hann eru þverskornir gígar úr einni Stampagígaröðinni er myndaðist í gosi 1226, en gígaraðirnar eru a.m.k. Berggangurfjórar á svæðinu frá mismunandi tímum. Gígur ofan við Kerlingarbás er brotinn af sjógangi upp til miðs. Þetta náttúrufyrirbæri, sagði Guðmundur Bárðarson á sínum tíma, að væri eina eintak þverskurðareldgígs á Íslandi. Eldvarp þetta heitir Kerling. Geysistór bungumynduð klöpp er sunnan við básinn, en suður frá henni eru bergstallar að Kirkjuvogsbás. Fram undan bergstöllum þessum gnæfir Karlinn, móbergsdrangur, allgildur neðst, 51 m á hæð.  Mannsmynd gat maður hugsað sér efst, með andlitsmynd [og] skringilegan hatt, en fyrir 6 árum, eftir ofsahafrót, var hann búinn að missa hattinn, og trúlega mun hann verða berhöfðaður eftirleiðis. Í þjóðsögum segir, að karl og kerling, sem bjuggu í Eldey, hafi farið til lands að leiða kú til nauts. Tókst þá svo illa til, að þau dagaði uppi og urðu að steini. Klöppin á að vera kýrin, en klettnaggur, sem þarna er, hafi verið strákur þeirra.
Fleiri örnefni eru á svæðinu, auk fornleifa, s.s. nokkur fiskibyrgi, sem enn eru óskráð.

Sjá meira undir Lýsingar.