Gálgaklettar

Listasafn Reykjavíkur efndi til gönguferðar um Gálgahraun og Klettahraun að kvöldi 14. júní 2012 í tengslum við sýninguna “Gálgaklettur og órar hugans” sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum um þessar mundir.
Kjarval-221Þar eru m.a. sýnd um 30 
málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, sem er hluti Garðahrauns, en hann nefndi myndirnar ýmist úr Bessastaðahrauni, úr Gálgahrauni eða jafnvel Gálgaklettur þó svo að hann hafi ekki málað Gálgakletta enda komst hann aldrei nálægt þeim stað þar sem þeir klettar standa.
Ólafur Gíslason listheimspekingur og sýningarstjóri hefur lagt út af málverkum Kjarvals og hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið á afskaplega fjölbreyttan hátt í fyrirlestrum sínum í Listaháskólanum og víðar. Á sýningunni eru verk eftir fjölda annarra listamanna og talaði einn þeirra Halldór Ásgeirsson um nálgun sína við viðfangsefnið þegar komið var að Kjarvalsflöt og Kjarvalsklettum eins og farið er að nefna klettana sem Kjarval heillaðist svo mjög af og málaði aftur og aftur.
Kjarval-222Jónatan Garðarsson fór fyrir göngu um svæðið og byrjaði á að ganga um Vatnagarða í áttina að Gálgaklettum. Þar var staldrað við í bíðskaparveðri á meðan rætt var um staðinn og þá atburði sem talið er að þar hafi átt sér stað á meðan fógetavaldið var á Bessastöðum. Síðan var förinni heitið að Kjarvalsklettum og gengið frá Gálgahrauni, um Flatahraun milli Stóra-Skyggnis og Garðastekks í áttina að Klettum. Staldrað var við á nokkrum stöðum á leiðinni og rætt um það sem fyrir augu bar.
Göngufólk var ánægt með framtakið og ekki spillti veðrið fyrir en það var um 16 stiga hiti og sannkölluð rjómablíða. Hér eru tvær myndir af svæðinu, bæði nú og fyrrum af þeim mótífum sem Kjarval málaði á þeim aldarfjórðungi sem hann sótti sér efnivið á þessar slóðir.
Svo er hægt að skoða nokkur málverka Kjarvals og ljósmyndir sem teknar eru á sömu stöðum og hann málaði á 25 ára tímabili undir lok starfsferilsins.

Kjarvalsklettur

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.