Selvogsgata

Gengið var áleiðis upp Grindarskörð millum Kristjánsdalahorns og Kerlingarhnúka (Kerlingarskarðs).
Ætlunin var að ganga gömlu Selvogsgötuna (Suðurfararveginn) milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu Selvogsgata um Grindarskörðáratuga hafa gjarnan fetað aðra götu upp Kerlingarskarð og síðan fylgt vörðum frá því á sjötta áratug síðustu aldar niður að Hlíðarskarði – og kynnt þá leið sem hina einu sönnu “Selvogsgötu”. Í rauninni eru nú um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust, eins og síðar á eftir að minnast á. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna um þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar allt önnur.
Að baki var úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Þar er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð. Að baki voru sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu ofan við Strandartorfur. Þegar komið var upp Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í suðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Kristjánsdalahorni.
Tvær vörðuleifar eru á þessum hluta Selvogsgötu (Eystri), en annars er yfir slétt helluhraun að fara. Leiðin er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Nú var það þurrt líkt og öll önnur vatnsból við götuna, önnur en Rituvatnsstæðið millum Litla-Leirdals og Hliðardals.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðinga. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 70 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.
Efst í GrindarskörðumÞegar lestirnar komu frá Selvogi fram á norðurbrún Grindarskarða blasti við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Á háskarðinu höfðu lestirnar jafnan verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð í Selvogi. Ferðin frá Mosum og upp á skarðsbrúnina hafði tekið um þrjá stundarfjórðunga (án lestarinnar).
Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður  að Hrauni í Ölfusi. Næsta varða er á þeirri leið, upp á og niður með Heiðinni há. Við fyrri vörðuna var beygt til hægri og stefnan tekin milli gígs á vinstri hönd og hraunbrúnar á þá hægri. Framundan voru vörðubrot við götuna, sem annars virðist augljós. Þegar komið var að gatnamótum norðvestan við Litla-Kóngsfell var staðnæsmt um stund. Í norðvestri blöstu Stóri-Bolli, Miðbolli, Kerlingahnúkar og Syðstu Bollar við. Norðaustan við Kelringahnúka er Kerlingarskarð, sem leið FERLIRsferðalanganna átti síðar eftir að liggja um.
Dæmigert vörðubrot við SelvogsgötunaHér reis slétt hraunhella upp úr móðurhrauninu; táknræn varða. Skammt sunnar voru tvö vörðubrot sitt hvoru megin götunnar. Vestar voru vörður og síðan tvær beggja vegna götu er lá millum þessarar og “Selvogsgötu Vestari” og Hlíðarvegar (hinna beinvörðuðu vetrarleiðar). Gatan lá yfir að “Hliðinu” á sýslugirðingunni, sem lá þarna upp að sunnanverðum Grindarskörðum. Leifar hennar sjást enn vel.
Gömlu Selvogsgötunni var fylgt um Grafninga neiður með Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Stóra-Leirdal. Á leiðinni verður fyrir þurr foss á vinstri hönd og uppþornaður lækjarfarvegur, sem stundum fyrrum hefur þótt óárennilegur. Þess vegna liggur gatan yfir hann (en ekki eftir) og upp á hraunbrúnina að vestanverðu. Þar liðast gatan skamman veg niður af henni aftur að austanverðu. Eftir það liggur gatan um Stóra-Leirdal, vel gróinn slátturdal ofan við Hvalskarð. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafi verið heyjaðir hundruð hestburðar, eins og sagnir eru til um, verður að teljast vafasamt. Hestar lestanna fyrrum urðu hér léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt.
“Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell”.
“Lestargangur í Stóra-Leirdal var um 4 klukkustundir á fótinn frá Selvogi. Sunnan við dalinn liggur gatan í sneiðing upp Vestari leiðinlágt skarðið. Þegar upp er komið blasir vitinn í Nesi við sem og Selvogur vestan hans. Hér er leiðin tæplega hálfnuð (gengnir höfðu verið 14 km) niður á Strandarhæð (og er þó Selvogsheiðin eftir).
Handan Hvalskarðins liggur gatan eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í suðaustur að hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari eru vegna hraunhólanna neðan við Hvalskarðsbrekkur.”
Þegar komið var niður fyrir Hvalskarð var látið staðar numið. Héðan er gatan augljós niður í Litla-Leirdal, Hlíðardal, Strandardal og um Standarmannahliðið að Selvogsheiði, allt niður á Strandarhæð (Útvogsskála[vörðu]).
Staldrað var við í aðalbláberjahvammi og horft var eftir Hvalhnúk og Austurási, allt vestur að Vesturási. Kjói lét öllum illum látum. Líklega var hreiðurstæði hans í nánd. Sólin baðaði allt og alla og lognið umlék þátttakendur á alla vegu. Í dag var 17. júní, þjóðhátíðardagurinn sjálfur. Líklega var hvergi betra að vera en einmitt hér í tilefni dagsins. Fánar blöktu við götuna á hverjum bakpoka í tilefni af merkilegheitum dagsins.
Eftir stutta hvíld var gengið vestur með Hvalhnúk og vestur fyrir Austurása. Líklega eru nafngiftirnar augljósari en einmitt sunnan við fellin. Ásarnir; Austurás og Vesturás, eru móbergshæðir á sprungureinum (gos undir jökli), en Hvalfell er grágrýtisbrotafell frá upphaf nútíma (í lok ísaldar). Með fellunum eru, þrátt fyrir gróðureyðingu síðustu áratuga, fjölbreytilegt blómaskrúð.

Drykkjarsteinn í Kerlingarskarði

Milli hnúkanna eru gatnamót; annars vegar Hlíðarvegar og hins vegar Stakkavíkurvegar. Þrjár vörður (og vörðubrot) á hraunbrúninni undirstrika það. Hér var stefnan tekin til baka upp Hlíðarveginn velvarðaða. Selvogsgatan Vestri er skammt vestar. Þar liggur hún upp úfið apalhraun. Eftir skamma göngu eftir slóða austan við “Hlíðarveginn” lá gata inn á úfið hraunið. Yfir stutt hraunhaft var að fara. Þegar þeirri götu var fylgt áleiðis að vörðunum þráðbeinu var komið inn á Vestari leiðina. Hún liggur upp frá Vesturásum, inn á hraunbreiðuna og upp fyrir hans. Hér var hægt að velja um tvennt; annars vegar að fylgja Hlíðarvegnum með vörðunum eða beygja af og fylgja “Selvogsgötunni Vestri”. Í raun er hér ekki um Selvogsgötu að ræða. Selvogsgatan er þar sem fyrstneftnt var lýst; upp Grindarskörð og niður með Litla-Kóngsfelli, um Grafninga, Stóra Leirdal, Hvalskarð og dalina áleiðis að Strandarheiðinni.
Ákveðið var að fylga “Vestri” leiðinni. Hún er öllu greinilegri og fótmeðfærilegri en “túrhestagatan”. Fallnar vörður eru við götuna. Ofan við og móts við Gráhnúk sker hún Hlíðarveginn og liggur svo til beint upp að hinum tveimur vörður á millileiðinni er fyrr var minnst á. Annars vegur liggur leiðin til hægri að Selvogsgötunni um Grindarskörð, er fyrr hefur verið lýst, eða til vinstri, að Kerlingarskörðum.
“Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.”
Gengið um SelvogsgötuAf ummerkjum að dæma má telja líklegt að “Vestri” leiðin hafði verið framhald af Stakkavíkurselstígnum, enda mjög svipuð leið og önnur leið þess fólks um Brennisteinsfjöll framhjá Eldborg, vetrarleið þess til Hafnarfjarðar. Hvorugur stígurinn er varðaður, en þó hafa einhverjir á seinni tímum lagt sig fram við að rekja þá og merkja með litlum vörðum er það bara hið besta mál.
Líklegt má telja að frá hraunbrúninni við Vesturása hafi sameinast Stakkarvíkurstíg fyrrum Hlíðarvegur áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Híðarvatn. Umferðin um þær götur hafa varla verið jafnmikil og um sjálfa Selvogsgötuna (Eystri).
“Vestri” leiðin liggur um slétt helluhraun og er auðfarin. Á einstaka stað hefur gatan verið unnin, sem verður að teljast óvenjulegt, því hvergi er gatan mörkuð í hraunhelluna. Það staðfestir fyrrnefna ályktun. Það er ekki fyrr en upp undir gatnamótunum “tvívörðuðu” að forn gata fær staðfestu. Þar eru greinileg gatnamót; annars vegar um Grindarskörð og hins vegar um Kerlingarskarð.
“Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.”
Í þessari lýsingu kemur m.a. fram að Litla-Kóngsfell sé á markalínu. Í dag er Stóra-Kóngsfell, allnokkru norðaustar, notað sem slíkt viðmið. Verður það að teljast athyglisvert í ljósi þessa (sem og annarra vitnisburða).
Gengið var niður Kerlingarskarð, framhjá drykkjarsteininum sögufræga og niður að Mosum – þar sem gangan endaði (eftir 24 km).
Sjá lýsingu af leiðinni (frá suðri til norðurs) HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Byggt á heimild Konráðs Bjarnasonar um Selvogsgötuna til norðurs – 1993.

Miðbolli og Litla-Kóngsfell