Fé hefur frá landnámi verið brautryðjendur í að leggja götur um holt og hæðir og hafa því ómetanlega reynslu. Gott var fyrir vegamálastjóra síðari tíma að hafa slíka ráðgjafa. Fjárgöturnar mörkuðu fyrstu þjóðleiðirnar fyrrum og því miður reyndist öðrum vegfarendum lengi framan af erfitt að finna aðrar greiðfærari leiðir.
Selstígar frá örófi alda voru fjárgötur. Stígar um fjöll og hlíðar voru fjárgötur. Maðurinn fetaði sig eftir þeim því þær voru þær einu merkjanlegar sem til voru. Það var ekki fyrr en löngu seinna að mennirnir fóru að leggja vegi, en þá jafnan á milli fjárgatnanna. Það var ekki fyrr en með tilskipunum konungs eftir miðja 19. öld að byrjað var markvisst að leggja brautir eða vegi millum helstu þéttbýlis- og verslunarstaðanna.
Enn í dag byggjast merktar gönguleiðir fyrir fólk ofan byggða á gömlu fjárgötunum. Í Þórsmörk t.d. er leiðin á milli Bása og Skóga gömul fjárgata. Oft vill gleymast, þrátt fyrir sögulegar staðreyndir, að kindin á miklu mun auðveldar með að fóta sig í bröttum skriðum og hlíðum fjalla en maðurinn. Þrátt fyrir það hefur áhugafólk um úrbætur á ferðamannastígum þráast við að feta sporið út fyrir kindagötunar, en reynt að halda í fyrri hefðaleiðir þeirra.
Fjárgötur eru jafnan krókóttari en leiðir mannanna, sem hafa haft tilhneigingu til að stytta leiðir á milli einstakra staða og sníða þá að fótum og fararskjótum sínum, í fyrstu hesta, síðar vagna og loks bíla…