Færslur

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.