Færslur

Fornbíll

Í Fálkanum 1939 er grein sem fjallar um “Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi“:

Krýsuvík

Krýsuvík – forn þjóðleið til austurs.

“Öldum saman bjuggu Íslendingar við seinagang á sjó og landi. Vindar loftins rjeðu einfarið, hvort fleytunum við strendur landsins miðaði áfram eða aftur á bak. Karlmenni með lúnar og sigggrónar hendur sátu í hverju rúmi og tóku seigdrepandi barning á miðin og af. En á landi var það þarfasti þjónninn, sem lammaði klifjaður eftir slóðum og krókastigum, sem hófur hans hafði markað öldum saman. „Kemst, þótt hægt fari”, sagði Njáll og svo reyndist það. Hesturinn skilaði böggunum í hlað og árabáturinn fengnum í vör. Enginn amaðist við hægaganginum, hann hafði ríkt í rúmar 10 aldir. Hann var þjóðinni meðfæddur og hversvegna skyldi hann ekki fylgja henni að eilífu. Asinn var hættulegur — mörgum hafði orðið hált á bölvuðum flýlinum.
En vorleysing hraðans var óstöðvandi og hún barst hingað til lands, án þess að nokkur fengi rönd við reist. Einmitt í sama mund og hafræna vorsins bljes lífi í framtak og þjóðmál Íslendinga, þá kom hraðinn yfir hafið — litli bíllinn hans Ditlev Thomsens, kaupmanns. Hann var settur á land hjer i Beykjavík snemma sumars fyrir nákvæmlega 35 árum. Var þetta, sem koma átti í stað þarfasta þjónsins? spurði fólkið, er það horfði á þetta gersemi þjóta um götur bæjarins. En þetta nýja farartæki var af mörgum litið óhýru auga. Hefð seinagangsins gat ekki felt sig við hraðann, sem var að halda í garð. Ótal tröllasögur spunnust um Thomsens-bílinn, er flestar voru honum til miska. —
Thomsen
Sannleikurinn var sá, að hann var með öllu ónothæfur hjer á landi, enda var hann af gamalli gerð eftir því sem bílar voru þá. Vjelin var aftan til í honum og ýmsir aðrir ágallar voru á honum, sem ekki fylgdu nýjum bílum. Hann gat farið hraðast 40—50 km. á klukkustund, þegar honum var ekið um bæinn eða nágrenni hans. Lengst komst bíllinn austur á Eyrarbakka. Var ferð sú all söguleg. Kambarnir urðu honum t.d. full erfiðir og varð að fá hesta til að draga hann þar upp. Eftir því sem bíllinn var lengur í Reykjavík jókst löngunin hjá fólki að aka með honum og fengu færri en vildu. — Þorkell Þ. Klementz stýrði þessum bíl og er hann fyrsti bílstjórinn hjer á landi, þótt ekki hefði hann próf.
Fornbíll
Thomsens-bíllinn var sendur til Kaupmannahafnar, en þaðan hafði hann verið keyptur hingað. Byrjunarörðugleikarnir eru jafnan miklir og margvíslegir og svo reyndist hjer.
Thomsens-bíllinn var aðeins óljós fyrirboði þess sem koma átti. Engan grunaði þá, að bílarnir yrðu eins ómetanleg flutningatæki og raun er á orðin.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Árin liðu hvert á fætur öðru og minningarnar um Thomsens-bílinn urðu þokukendar. Gat það verið að öld hraðans, sem blöðin sögðu frá að færi hamförum erlendis, ætlaði alls ekki að koma hjer við? Hægagangurinn var nú ekki lengur algild og óhjákvæmileg eigind, sem fólkið hlaut að halda traustataki í, það var alveg augljóst af þvi, sem vitað var að fram, fór úti i veröldinni. Þessvegna biðu sumir fullir cftirvæntingar eftir að bílarnir kæmu. Og dagurinn rann upp 1913, þegar íbúum höfuðstaðarins gafst að sjá bíl renna eftir götunum í annað sinn. Tveir ungir Íslendingar, þeir Sveinn Oddsson og Jón Sigmundsson, konm þá hingað til lands frá Ameríku og höfðu með sjer Fordbíl. Þeir voru báðir bílstjórar og ætluðu sjer að ganga úr skugga um með þessum bíl, hvort ekki mundi unnt að nota bíla hjer sem í öðrum löndum.

Ford

Ford T 1914.

Með þetta fyrir augum fóru þeir ýmsa leiðangra á bílnum og komust að þeirri niðurstöðu, að hjer mætti einnig nota bíla, ef vegir yrðu lagfærðir. Þar með var gefið fyrsta fyrirheitið um bílaöld á Íslandi og hraðanum boðið í garð. Í september um haustið var stofnað fyrsta bílfjelag á Íslandi, H/F Bifreiðafjelag Reykjavíkur. Á næsta ári hafði fjelagið eignast 6 bíla og hjeldu þeir uppi ferðum um bæinn og nágrenni hans. Að 5 árum liðnum var fjelag þetta leyst upp, eftir að hafa leyst af hendi merkilegt starf fyrir framtíð bílanna á Íslandi. Það varð hlutskipti þeirra manna, sem störfuðu hjá fjelaginu, að kynnast af eigin raun þeim örðugleikum og tálmunum, sem alstaðar voru á vegi og benda, samkvæmt reynslu sinni, á þær nauðsynlegu umbætur, sem gera þurfti, til þess að æfintýrið uni Thomsens-bílinn endurtæki sig ekki, — til þess að bílarnir þyrftu ekki að gefast upp í þeirri Bröttubrekku, sem skilningsleysi og vantrú fólksins hafði skapað.
Fornbíll
Fyrir atbeina Bifreiðafjelagsins var leitað til Alþingis um að það afgreiddi lög viðvíkjandi umferðareglum og notkun bifreiða. Nefnd sú, sem átti að fjalla um bifreiðafrumvarpið á Alþingi sumarið 1914 var skipuð: Julíusi Havsteen (formaður), Guðmundi Björnssyni, landlækni, sem var ritari og framsögumaður nefndarinnar, Guðmundi Ólafssyni, bónda í Ási, Karli Finnbogasyni, skólastjóra á Seyðisfirði og Magnúsi Pjelurssyni, núverandi hjeraðslækni í Reykjavík.

Ford

Ford T 1913.

Guðmundur Björnsson samdi nefndarálit, heilmikið og merkilegt plagg, sem átti að opna augu þingmanna fyrir þeirri nauðsyn, að til væri löggjöf um notkun bifreiða. Svo virðist sem þingmennirnir hafi verið mjög efunarsamir um gagnsemi þessa lagafrumvarps og alt bendir til þess, að innan nefndarinnar hafi menn einnig verið blendnir í trúnni. En Guðm. landlæknir víldi berjast til þrautar og kynna sjer og nefndarmönnum sínum í sjón og reynd, það sem máli skifti fyrir framgang málsins. Þess vegna fór hann fram á það við bifreiðafjelagið, að það legði nefndinni til bíl og bílstjóra, svo að þeir gælu athugað þetta nytsama farartæki.

Fornbíll

Fyrsta bifreið bifreiðast. Steindórs.

Að morgni þess 14. júlí 1914 var hafin einhver sú merkilegasta reisa, sem farin hefir verið í bíl á Íslandi. Fordbíll rann upp úr bænum með fjóra preláta þingsins innanborðs. (Júl. Havsteen var ekki með). Nú skyldi gengið úr skugga um það, hvort þessir hjólavargar gereyðilegðu alla vegi, og hvort blessuðum bændunum og hestunum væri búin bráð lífshætta af að vera á vegi þeirra. Þessir jarðarbótarmenn íslenskrar bifreiðarlöggjafar undu hið besta við sitt og skrifuðu og nóteruðu hjá sjer alt sem um veginn fór, nema hundaskammirnar. Auk þess skrifuðu þeir ýmsar athugasemdir og uppgötvanir.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Leið þeirra lá austur Hellisheiði, niður að Eyrarbakka, austur að Ölfusá og síðan að Þjórsárbrú, en þaðan hjeldu þeir heim og þangað komu þeir kl. 8 1/2 um kvöldið. Á leiðinni urðu þeir varir við á veginum: 4 bíla, 210 vagna, 1 hjólreiðamann, 177 reiðmenn, 15—20 göngumenn, 82 lausa hesta og klyfjahesta, (en alls töldu þeir á veginum 480 hesta), 21 nautgrip og 1 lambahóp. — Beri menn nú saman, það sem nefndarmennirnir sáu á þessari leið og það sem verður þarna á vegi okkar nú. Mismunurinn er auðsær og hann er alsstaðar svipaður þar sem bílarnir hafa lagt undir sig land. Nefndarmennirnir sömdu nú ýtarlega og fróðlega skýrslu um þetta ferðalag.

Overland

Overland – fyrsta bifreið Vedurstofu 1956.

Þeir ljetu þessa rannsóknarför þó ekki nægja, heldur fóru þeir aðra 16. júlí og hjeldu þá á Overland-bifreið austur i Grímsnes og sömu leið til baka. Þar með höfðu þeir kynst þeim tveim tegundum bíla, sem þá voru til hjer á landi. — Nokkrum dögum síðar kom frumvarpið til annarar umræðu og sigldi hraðbyri, enda jós framsögumaður á báða bóga úr brunni reynslu og þekkingar, svo að menn setti hljóða. — Annars kom ýmislegt fram í sambandi við umræðurnar um bifreiðafrumvarpið, sem í augum nútímamanna mun þykja all spaugilegt, en var þó í samræmi við þann hugsunarhátt, sem þá ríkti alment. Einn þingmaðurinn á t. d. að hafa sagt, í sambandi við umferðareglurnar, að það næði ekki nokkurri átt að láta altaf víkja til vinstri, því að þá slitnuðu vegirnir bara öðru megin. — En þrátt fyrir margvíslegar mótbárur varð bifreiðafrumvarpið að lögum á sumarþinginu 1914. Nefndarmennirnir unnu mikið og merkilegt starf. Þeir voru börn bjartsýninnar, sem sáu það fyrir, að bílarnir mundu verða framtíðarfarartæki hjer á landi. — Nú mundu þeir Karl Finnbogason og Magnús Pjetursson ekki hitta fyrir nokkurn mann á Flóaveginum, sem hrópaði til þeirra með þjósti: „Burt með bifreiðarnar”, en slíkt upplifðu þeir í rannsóknarferðinni 14. júlí 1914.

Fornbíll
Fyrstu bifreiðalögin eru stutt og gagnorð — aðeins í 15 greinum. Þar er meðal annars ákveðið, að enginn megi stjórna bíl, nema hann sje orðinn 21 árs og hafi ökuskírteini frá lögreglustjóra, sem heimili honum að stjórna bifreið. Slík skírteini gátu menn ekki öðlast nema að ganga undir próf. Samkvæmt lögunum var hámarksökuhraði bíla í kauptúnum og kaupstöðum 15 km. á klst. Stjórnarráðið mátti þó veita undanþágu frá þessu ákvæði, ef því þótti svo við horfa.

Vegagerð

Vegagerð – Vörubíll Vegagerðarinnar.

Mestur mátti ökuhraðinn vera 35 km. á klst. á þjóðvegum, og hámarksökuhraði bíla i myrkri var ákveðinn 15 km. á klst. — í lögunum má einnig sjá klausur eins og þessar:
„Sje bifreiðin þyngri en 350 kg. skal aflvjelin geta knúið hana afturábak sem áfram.” „Bifreiðarnar skulu vera svo gerðar, að þær geti farið eftir kröppum bugðum og auðvelt sje að snúa þeim.” — Efni þessara klausa er framandi fyrir það fólk, sem nú þýtur í bílum um landið þvert og endilangt, en sýnir jafnframt, hversu jarðvegurinn fyrir bílana var svo að segja óplægður fyrir 25 árum.
Barnasjúkdómar bílasamgangnanna voru ennþá hinir skæðustu, þegar bifreiðalögin voru samþykkt. — Þá um sumarið ætlaði t. d. hópur ungmenna austur á Þingvöll og var hann með alllöngum fyrirvara búinn að panta þrjá bíla til þess að flytja sig austur. Þegar leggja átti af stað kom, enginn bíllinn, þeir voru allir í lamasessi hingað og þangað. Hópurinn fór gangandi austur og ekki gekk viðgerðin á bílunum hraðara fyrir sig en það, að aðeins einn bíllinn gat komið á móti ferðalöngunum, er þeir komu gangandi að austan daginn eftir.
Fornbíll
Þá þótti t. d. góður hraði að fara á bíl úr Reykjavík austur í Fljótshlíð á 7 stundum, en nú fara bílarnir þessa sömu vegalengd á 2 1/2 klukkustund. Bílarnir fóru þá ekki á skemmri tíma yfir Hellisheiði, þ.e.a.s. frá Kolviðarhóli að Kambabrún, en á 3/4 klst. Bílanir voru þá mjög tíðar, sjerstaklega á „dekkum” og gúmmíslöngum. Þess er t. d. getið um einn bílstjórann, að hann var einu sinni 8 stundir milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, en í það skiftið sprakk líka hjá honum á þessari vegalengd milli 30 og 40 sinnum.

Hellisheiði

Þingvellir 1913.

Engar vöruflutningabifreiðar voru þá yfirbygðar, og urðu bílstjórarnir að híma í opnum bílnum, hvernig sem viðraði. Það er fyrst 1918 að byrjað er að byggja yfir flutningabifreiðar. — Ofan á þessa byrjunarörðugleika bættist svo hræðsla fólksins við bílana, sjerstaklega til sveita. Einn bilstjórinn varð t. d. fyrir því, er er hann var að aka austur árið 1915, að á undan honum reið kerling og teymdi trússahest. Þegar hún varð bílsins vör stökk hún af baki og yfir vegskurðinn og klifraði svo yfir girðingu, sem var þar rjett hjá. Hestarnir stóðu kyrrir á veginum, þótt bíllinn nálgaðist. Bílstjórinn fór því út úr bílnum og teymdi þá út af veginum. Þá kom kerling hlaupandi og sagði mjög undrandi: „Þetta fór nú annars nokkuð vel.”
Svo örar hafa framfarirnar orðið í bílaiðnaðinum, að bílar þeir, sem notaðir voru um þetta leyti og svo að segja alt fram til 1926, mundu nú tæpast þykja boðlegir. Þá var eingöngu um að ræða til mannflutninga hina svo nefndu blæjubíla. Var blæjunum þannig fyrir komið, á fyrstu bílunum, að það varð að taka þær niður, ef eitthvað var að veðri. Urðu menn því að sitja í opnum bílunum í roki og úrkomu, ef svo bar undir og reyndist flestum það ærið kalsasamt. Hvílíkur munur eða nú, þegar hægt er að þjóta i hörkufrosti á veturnóttum í upphituðum bílunum yfir Holtavörðuheiði og geta meira að segja hlýtt í rólegheitum á það, sem þulan eða fyrirlesarinn kyrjar í útvarpinu.

Fornbíll

Fornbíll á götum Reykjavíkur.

Fyrsti lokaði bíllinn („drossían”) kom hingað til lands 1915, en ekki urðu þeir algengir fyrr en röskum 10 árum síðar. Fyrsta „drossían” mundi ekki þykja ásjáleg nú, enda var hún hrikalega há og svo völt, að undrum sætti, að hún skyldi ekki velta um svona endrum og sinnum.
Heimsstyrjöldin átti mestan þátt í því, að bílum fjölgaði ekki neitt verulega fyrstu árin eftir að bifreiðalögin gengu í gildi. Allir hlutir urðu þá svo óhemju dýrir, að menn fengu ekki við neitt ráðið.
En þó keyrði fyrst um þverbak í þessum efnum, fyrstu árin eftir styrjaldarlokin. Þá komst bílsætið til Hafnarfjarðar upp í kr. 3.50 og bensínlítirinn var þá seldur á 1 krónu. Inn að sundlaugum var þá ekki hægt að fá bíl fyrir minna en kr. 7.50. Alt verðlag hljóp þá í slíkar gönur, að annað eins hefir ekki þekst hvorki fyr nje síðar.
Fornbíll
Með árinu 1921 er eiginlega hægt að segja að bílainnflutningur hefjist fyrir alvöru hingað til lands. Það ár voru fluttir inn 7 bílar og svo fjölgar þeim, stöðugt úr því. Notkun bílanna jókst svo gífurlega, að 8 árum síðar voru fluttir inn 66 sinnum fleiri bílar en 1921, eða alls 462, en slíkt hefir heldur ekki endurtekið sig í sögu bílanna á Íslandi.

Vegagerð

Vegagerð um 1960.

Framfarir á Íslandi hafa verið með þeim risastökkum síðastl. aldarfjórðung, að trúlegast þætti að slíkt hefði skeð í æfintýri en ekki í sögu raunveruleikans. Sá maður, sem fyrir 25 árum hefði haldið því fram í alvöru, að nú á þvi Herrans ári 1939 yrði svo að segja hægt að aka í bíl landið á enda, upp til dala og út til annnesja, hefði af almenningsálitinu verið dæmdur á Klepp. Framfarirnar speglast einna raunsæast í samgöngutækninni.
Fjarlægðirnar hafa horfið, vikuferð orðið að dagleið, og alt erfiði, sem slík ferðalög höfðu í för með sjer, þekkist ekki lengur. — íslenska þjóðin hefir eignast fjölmenna stjett bílstjóra, sem hlotið hefir þann almannadóm, að vera dugleg og áræðin. Bifreiðaverkstæði hafa unnvörpum risið upp, þar sem framkvæmdar eru hverskyns viðgerðir og yfirbyggingar bíla.
Á því sviði hefir þróunin tekið örum vexti og er sú iðngrein komin ótrúlega langt á veg hjer á landi. Fjölmennur hópur manna hefir nú orðið arðvænlega atvinnu í bifreiðaverkstæðum. Þeir tvö þúsund og níu bílar, sem nú eru til í landinu, geta þotið yfir fjögur þúsund og átta hundruð km. langan akfæran veg og yfir ótal stórbrýr, sem liggja yfir stærstu ár landsins. Slíkt hefir framtakið orðið á fyrsta fjórðungi bílaaldarinnar á Íslandi. — Bíllinn er eitt hið þarfasta tæki, sem nokkurn tímann hefir flutst hingað til lands.
Hann hefir þegar næstum stjakað klyfjalestinni og reiðskjótanum yfir á svið fortíðarinar. Allsstaðar gætir áhrifa hans í smáu sem stóru — meira að segja út yfir þau takmörk, sem fólk hefir daglega í huga — svo langt, að nú er ekki lengur kastað steinvölum á leiði lánleysingjanna, sem sagt er að dysjaðir sjeu sumstaðar með fram þjóðvegum landsins.”

Heimild:
-Fálkinn, 29. tbl. 21.07.1939, Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi, bls. 4-5.
Fornbíll