Sigurðarsel

Á ýmsum kortum af Þingvallasvæðinu má sjá örnefnið “Sigurðarsel”, en bara á jafn mörgum stöðum og kortin eru mörg. Á sumum þeirra er selið skráð sunnan þjóðvegarins í gegnum þjóðgarðinn, sunnan við svonefndan Klukkustíg, og á öðrum er það staðsett skammt norðan þjóðvegarins. Á öllum kortunum er selið þó staðsett austast í Þingvallahrauni, vestan Hrafnagjár.

Hellishaedarhellir

Þegar FERLIR var að fylgja sjálfboðaliða-samtökum um náttúruvernd um Þingvallahraun daginn eftir þjóðhátíðardaginn 17. júní með það fyrir augum að rekja fornar götur, s.s. að Hellishæðahelli, um Svínhóla og síðan Klukkustíg frá Hrafnagjá að Þórhallsstöðum austan Skógarkots, birtist selið skyndilega uppljómað í heiðinni.
Reyndar kostaði það nokkurra mínútna undirbúning á áningarstað vestan undir Svínhólum eftir að komið hafði verið við í hellinum í Hellishæð. Í Jarðabókinni 1703 mátti lesa eftirfarandi um selstöðuna frá Þingvallabænum: “Selstöðu góða á staðurinn í sínu landi, en þar er örðugt til vatns í þerra sumrum, því brunnurinn þornar aldeilis upp.”
Í örnefnalýsingu um Þingvallahraunin er birtist í Árbókinni 1937-1939 mátti lesa eftirfarandi um svæðið umleikis og  Sigurðarsel (Þingvallarsel): “Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður-eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður-af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur-að Hábrún, en hallar þaðan vestur- að Mosalág og Lágbrún.
Sigurdarsel-4Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var f je rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.
Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður-frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan-hríðum.

Sigurdarsel-5

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Við norðvestur-horn Sigurðarsels[hæðar] er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h.u.b. í austur og vestur, með skógi vaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir
vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.”
Þetta verður að teljast sérstaklega merkur fundur, bæði vegna þess að líklega hefur enginn núlifandi maður áður litið tóftirnar augum og auk þess verður staðsetningin að teljast merkilegt innlegg í sögu búsetu á Þingvöllum fyrr á öldum. Selstaðan er á mjög fallegum stað með tilkomumiklu útsýni yfir Þingvallahraunið. Um er að ræða heilstaðan selsklasa með baðstofu og búri og hliðstæðu eldhúsi. Mikið hefur verið lagt í að gera vatnsbólið nýtilegt með ganghleðslum umleikis. Tvískiptur hlaðinn stekkur er skammt norðan við selið.
Ekki er ólíklegt að sauðaskjólið í Hellishæð hafi tengst selstöðunni fyrrum.
Annars hylur birkiskógur minjarnar svo önnur en vel þjálfuð leitaraugu eiga mjög erfitt að koma auga á þær, sem betur fer.
Ferðin um Þingvallahraunið var farin með félögum í Sjálfboðasamtökum um náttúruvernd (SJÁ).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, Þingvellir.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-149.

Sigurðarsel

Sigurðarsel.