Umhverfisþing 2007

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra flutti ávarp við setningu Umhverfisþings þann 12. 10.2007.  Reyndar var umhverfisráðherrann allnokkru fjarri Reykjanesskaganum í ræðuorðum sínum, enda kannski best að þegja um það semm nærtækast er að virkja um þessar mundir.

Umhverfisráðherra flytur ræðu sína á Umhverfisþingi

“Það má með sanni segja að náttúruverndarmál hafa sjaldan verið jafn umrædd og umdeild og nú á síðustu árum. Ástæður þessa eru annars vegar að áhugi Íslendinga á náttúru landsins hefur glæðst og skilningur á nauðsyn verndunar vaxið, en hins vegar að mikið hefur verið gengið á þessa sömu náttúru. Nánasta umhverfi höfuðborgarinnar hefur tekið miklum stakkaskiptum með Hellisheiðarvirkjun. Virkjanir, línur, vegir, verksmiðjur og byggð hafa risið í takt við hagvöxt og þenslu. Það má leiða líkum að því að ásýnd Íslands hafi breyst meira á síðastliðnum fimm árum en nokkru sinni áður á jafn stuttum tíma í sögunni.
Í lok næsta árs mun álframleiðsla hafa nær tífaldast á Íslandi á 15 árum og Ísland verður líklega orðið 10. mesta álframleiðsluland heims ? og auðvitað það langmesta miðað við höfðatölu. Margir undirbúa fleiri framkvæmdir og áform eru um enn fleiri verksmiðjur, sem allar kalla á orku og virkjanir. Sú hætta er fyrir hendi að ásýnd landsins og ímynd gætu tekið enn meiri stakkaskiptum á komandi árum.

Margir áheyrendur...

Það hefur verið talað um sátt á milli nýtingar og verndar á síðustu misserum. Flestir stjórnmálaflokkar töluðu í þá veru fyrir síðustu alþingiskosningar og ég hef einnig talað í þá veru. En í hverju gæti slík sátt verið fólgin?
Sátt verður að byggjast annars vegar á faglegri skoðun og mati á þeim kostum sem við eigum til verndunar og nýtingar, en hins vegar á því að jafna aðstöðu náttúruverndar gagnvart þeim öflum sem knýja á um frekari stórframkvæmdir. Við sem nú lifum höfum ekki leyfi til að ráðstafa stórum hluta orkuauðlinda okkar og arfi komandi kynslóða á sem skemmstum tíma. En það hefur sýnst vera stefnan á undanförnum árum ? full kapps og án forsjár.
Ný ríkisstjórn hefur þegar hafist handa við að skapa grundvöll fyrir sátt, þar sem náttúruvernd fær það vægi í ákvarðanatökunni sem hún þarf að hafa.

... og sumir jafnvel áhugasamir

Ég hef ásamt iðnaðarráðherra skipað verkefnastjórn sem falið hefur verið að undirbúa rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Verkefnastjórnin á að skila heildarmati á nýtingarkostum árið 2009 og á grunni þess verður lögð fyrir Alþingi tillaga að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Áhersla verður lögð á víðtækt samráð við almenning og hagsmunaaðila í þessu starfi. Útgáfa nýrra rannsóknaleyfa til virkjana hefur verið fryst á meðan á þessarri vinnu stendur og ekki verður farið inn á óröskuð svæði.
Rammaáætlunin er vissulega mikilvægt skref, en ekki hið eina sem við þurfum að taka í rétta átt. Við eigum náttúru sem landsmenn allir og gestir sem hingað koma vita að er sérstök og heillandi, en vísindaleg þekking okkar á náttúrunni stendur ekki jafnfætis nágrannaþjóðunum. Það er Í hellinum FERLIR á Reykjanesskagalangtímaverkefni að ljúka kortlagningu á lífríki og vistgerðum, svo að við getum tekið upplýstar ákvarðanir um landnýtingu og framkvæmdir. Ég mun beita mér fyrir því að það verkefni verði sett í forgang og að til þess fáist nægjanleg framlög í rammafjárlögum sem líta munu dagsins ljós á næsta ári.
Rammaáætlun og bætt þekking skapa okkur betri forsendur til ákvarðanatöku, en náttúruvernd byggir ekki eingöngu á vísindum og faglegu mati sérfræðinga. Þar skiptir verðmætamat okkar og lífssýn ekki síður máli.
Ég vil fá að vitna í orð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins helsta frumkvöðuls skipulegrar náttúruverndar á Íslandi ? orð sem ég hygg að flestir viðstaddir þekki vel, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Sigurður ritaði: ,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.?
Mannvistarleifar á Reykjanesskaga...Allt of lengi hefur verið litið á náttúruvernd sem afgangsstærð, þannig að helst mætti friðlýsa land sem sannanlega er ekki nýtilegt til annars þá stundina. Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að líta á náttúruvernd sem eina helstu og mikilvægustu tegund landnotkunar á Íslandi. Þar er í húfi gildur þáttur í þjóðarvitund okkar og velferð. Það er heldur ekki eins og náttúruvernd skili ekki peningum í kassann. Ferðamenn til Íslands skila nær 50 milljörðum króna inn í hagkerfið ár hvert og nefna náttúru Íslands sem helstu ástæðu hingaðkomu sinnar. Þeir sjá fljótt ef hraklega er að henni búið. Vernd náttúrunnar er ekki síður mikilvægt þjóðarhag en vernd fiskistofnanna. Náttúruverndarsvæði eiga að vera hornsteinar, en ekki hornrekur, í sýn okkar á landið og nýtingu þess.
Hér á þessu Umhverfisþingi verður fjallað sérstaklega um leiðir að þessu marki í málstofu um náttúruvernd og byggð. Ég vonast til að þar verði ræddar hugmyndir sem geta vaxið og gerjast þannig að við lítum meira til verkefna á sviði náttúruverndar í viðleitni okkar til að treysta dreifðar byggðir landsins.
Forn þjóðleið á Reykjanesskaga...Helsta stjórntæki umhverfisráðuneytisins hvað varðar svæðisbundna náttúruvernd er Náttúruverndaráætlun, sem er gerð til 5 ára í senn. Nú gefst tækifæri til þess að fara yfir framkvæmd fyrstu heildstæðu Náttúruverndaráætlunarinnar, sem rennur sitt skeið á enda á næsta ári og ræða hvað þar hefur tekist vel til, hvað má betur fara og hvað við getum lært af reynslunni. Við munum einnig á Umhverfisþinginu kynna vinnu að undirbúningi næstu Náttúruverndaráætlunar, fyrir tímabilið 2009-2013.
Það eru ærin verk framundan við að stofna Vatnajökulsþjóðgarð og að ljúka við friðlýsingar samkvæmt núgildandi náttúruverndaráætlun. Ég ætla því ekki að hafa mörg orð um væntanlegar nýjar friðlýsingar á nýju tímabili. Þar liggur þó fyrir vilji minn til að skoða nokkur svæði, en þau eru Langisjór og vatnasvið Jökulsár á Fjöllum ? sem munu falla inn í Vatnajökulsþjóðgarð – Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Brennisteinsfjöll, Grændalur, jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót. Þá liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verður að ná til allra átta ef svo má að orði komast. Stækkunin er hvort tveggja tímabær og nauðsynleg og þarf að byggja á tillögum Umhverfisstofnunar þar um.
Góðir gestir, náttúruvernd felst ekki einungis í svæðisbundinni friðun, heldur þarf hún að vera samofin opinberum áætlunum og framkvæmdum og samfélagsþróun. Hér á þessu þingi liggja frammi drög að stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni, þar sem farið er yfir helstu ákvæði þess samnings og lagðar fram tillögur um bætta framkvæmd þeirra hér á landi. Þessi drög verða til umræðu hér á þinginu og eftir þingið mun einnig gefast tækifæri til þess senda inn athugasemdir og haft samráð við þá sem það gera áður en stefnumörkunin verður lögð fyrir ríkisstjórnina til samþykktar.
Náttúrufyrirbæri á Reykjanesskaga...Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hvetur ríki m.a. til þess að endurheimta vistkerfi sem hafa skemmst. Þessi ákvæði eiga óvíða betur við en hér á landi, þar sem skóglendi og jarðvegur hafa eyðst linnulítið lengst af í sögu byggðar í landinu, svo mjög að svartir sandskaflar ógnuðu byggð á láglendi í byrjun síðustu aldar.
Á þessu ári fögnum við hundrað ára afmæli skipulagðrar skógræktar og landgræðslu á Íslandi. Þar hefur tekist að snúa vörn í sókn og næg verkefni eru enn framundan. Stofnanir á þessu sviði verða færðar úr landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins um næstu áramót, ef frumvarp þess efnis verður samþykkt á Alþingi í haust.
En við eigum ekki einungis að líta á landið þegar við hugsum um náttúruvernd, heldur einnig að horfa til hafs. Nú þegar hafa svæði í hafi verið vernduð, annað hvort á grunni náttúruverndarlaga eins og hverastrýtur í Eyjafirði, eða laga sem sjávarútvegsráðuneytið vinnur eftir, eins og nýleg friðun nokkurra svæða með kaldsjávarkóröllum. Við eigum að halda slíku starfi áfram og skoða möguleika á frekari verndun, ekki síst með það í huga að vernda lífríki hafsbotnsins, sem getur gegnt mikilvægu hlutverki varðandi uppeldi og lífsskilyrði nytjategunda.
Á alþjóðavísu hefur hugmyndafræði náttúruverndar þróast og breyst á undanförnum áratugum. Upphafsmenn náttúruverndar vildu friða spildur af ósnortinni eða lítt snortinni náttúru, sem eins konar sýnishorn af veröld sem var. Hugsunin á bak við þessa safnahugmynd náttúruverndar, sem svo má kalla, er góðra gjalda verð, en hún hrekkur skammt í heimi þar sem umsvif mannsins aukast dag frá degi og náttúran tekur stórfelldum breytingum vegna þeirra. Áhrif loftslagsbreytinga af Elstu fornminjar landsins á Reykjanesskaganum...manna völdum á náttúruna og líffræðilegan fjölbreytileika hennar skulu ekki heldur vanmetin. Ábyrgð okkar Íslendinga er engu minni en annarra þjóða í þeim efnum. Við njótum þess að eiga og nýta endurnýjanlega orku. Þrátt fyrir þann fjársjóð losum við Íslendingar jafn mikið eða jafnvel meira af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið en meðalþjóð í Evrópu. Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að finna leiðir til að minnka losun frá fiskiskipa- og bílaflotunum. Og við þrufm að velja vistvænni bíla, keyra minna, taka oftar strætó, ganga meira. Við eigum ekki að biðja um undanþágur, heldur leggja okkar af mörkum ? vera í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og til fyrirmyndar í þeim efnum.
Náttúran er ekki bara eitthvert gamalt þing á tölvu- og tækniöld, heldur er hún enn sem fyrr undirstaða velferðar okkar á ótal sviðum, frá því að sjá okkur fyrir mat og margskyns hráefni til þess að veita næringu fyrir andann. Þjóðir sem umgangast náttúru lands síns af virðingu og varúð standa stórum betur en þær sem spilla henni með mengun og eyðingu búsvæða. Náttúruvernd og sjálfbær nýting auðlinda þarf því að fléttast inn í alla okkar hugsun og gerðir.
Yfirgefinn hraunkarl á Reykjanesskaganum...Náttúruvernd er ein af undirstöðum velferðar, hér á landi líkt og annars staðar, en ekki munaður ríkra þjóða.
Ég hef í þessarri ræðu tæpt á mörgum stórum verkefnum sem bíða okkar í náttúruvernd. Þau eru heillandi og ég hlakka til að takast á við þau. Ég mun sem umhverfisráðherra leggja áherslu á að styrkja náttúruvernd, ekki bara með friðun fleiri svæða, heldur einnig með því að styrkja framkvæmd friðlýsinga og efla samstarf við heimamenn. Vísindaleg þekking og vöktun á náttúrunni verður efld og við munum endurskoða náttúruverndarlög, m.a. með það að markmiði að styrkja almannarétt og tryggja að þjóðin geti notið sameignar sinnar, náttúru landsins.
Umhverfisráðherra, ráðuneytið og til heyrandi stofnanir, bera mikla ábyrgð á framkvæmd náttúruverndar, en við störfum ekki í tómarúmi. Á undanförnum áratug hafa sveitarfélög, ríkisvald og fyrirtæki, lagt ofuráherslu á uppbyggingu stóriðju.
Það tekur tíma að skipta um gír og rétta hlut náttúruverndar í ákvarðanatöku og áætlanagerð. Meðal þjóðarinnar er mikill og vaxandi áhugi á náttúruvernd og þennan vilja þarf að virkja. Ég ætla að beita mér fyrir fullgildingu Árósasamningsins, sem lýtur m.a. að þátttöku almennings við ákvarðanatöku, og ég vil auka þátttöku almennings og félagasamtaka að ákvörðunartöku í náttúruverndar- og umhverfismálum.
Góðir gestir, það er eitt verðugasta viðfangsefni okkar sem þjóðar að standa vörð um náttúru Íslands. Við eigum rétt á því að koma að ákvörðunum sem varða ásýnd landsins í nútíð og til framtíðar. Ég vona að þetta Umhverfisþing verði vettvangur fyrir frjóar umræður um náttúruvernd frá öllum hliðum; um hugsjónir og aðferðarfræði, byggðaáhrif, friðlýsingar og opinbera Margt er enn ókannað á Reykjaneskaganum...stefnumótun. Sú umræða heldur áfram og ég hlakka til að eiga áfram samstarf við ykkur sem hér eruð, hvort sem þið eruð fulltrúar sveitarfélaga eða atvinnulífs, félagasamtaka eða stofnana, eða áhugasamir einstaklingar sem eruð hingað komnir á virkum vinnudegi.
Ég vil draga fána náttúruverndar hærra við hún. Það er langtímaverkefni, sem kallar á mikið starf, fjármagn og vakandi umræðu; og það er verkefni okkar allra.
Þetta er okkar land. Við skulum umgangast það með virðingu og njóta þess. Þar við liggur stórt brot af framtíðarhamingju okkar Íslendinga, allra landsmanna.”
Svo var að sjá að nóg væri af kverálöntum á þinginu. Sumir þeirra reyndu að láta ljós sín skína umfram aðra og reyndu að koma yfirborðskenndum spurningum á framfæri í von um innihaldslítil svör. Svona ganga víst kaupin á eyrinni um þessar mundir.
Framangreind ræða umhverfisráðherra lýsir þó skýrari hugsun, nýrra viðhorfi og meiri áhuga á efninu en verið hefur. Hún segir hins vegar ekkert um væntanlega von – allra síst hvað Reykjanesskagann áhrærir. MEÐ FULLRI VIRÐINGU…
Einstæðar hraunmyndanir á Reykjanesskaganum...