Hér birtist nú áhorfendum og lesendum uppfærð útgáfa af vefsíðu FERLIRs. Uppfærslan var orðin löngu tímabær vegna mikilla tæknibreytinga og aukinna öryggiskrafna, sem orðið hafa síðan síðasta útgáfan var uppfærð árið 2007. Upphaflega vefsíðan var gerð árið 2000. Markmiðið með henni var að safna á einn stað staðbundnum fróðleik um minjar og örnefni á Reykjanesskaganum – fyrrum landnámi Ingólfs.

FERLIRs vefsíðan frá 2007.

Árangurinn hefur orðið ótrúlega mikill á ekki lengri tíma; söfnun tugþúsunda ljósmynda, gerð uppdrátta af einstökum minjasvæðum, meðtaka og staðfestingar á mikilvægri vitneskju frá eldra fólki, leitir að áður óþekktum minjum, bæði sögulegum sem og náttúrulegum, auk ritun skýrslna og greinargerða um margt merkilegt.  Margs er hvorki getið í opinberum örnefnalýsingum né í einstökum fornleifaskráningum. Upplýsingunum hefur þó verið miðlað hlutlaust og endurgjaldslaust til annarra áhugasamra um sama efni.

Innihaldið af gömlu vefsíðunni hefur nú verið yfirfært og aðlagað að þeirri nýju. Það var Árni Torfason, sem hannaði upphaflegu gerðina. Það gerði hann eftir hugmyndum og tillögum forkólfs gönguhópsins með dyggum stuðningi Júlíusar Sigurjónssonar, fyrrum ljósmyndara MBL. Styrkur frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans að hluta varð til að gera hugmyndirnar að veruleika. Nethönnun hannaði endurbættan vef árið 2007, eins og getið er hér að framan. Sá var keyrður á “Webman”-forritinu, sem hefur reynst vel, en telst nú af sérfræðingum vera orðið úrelt.
Ákveðið hafði verið að hætta rekstri síðunnar þegar komið var að nauðsynlegri endurnýjun vegna augsýnilegs kostnaðar, en öll vinna við gerð hennar og viðhald efnisins hefur hingað til verið unnin í sjálfboðavinnu, þegar henni barst innleggsframlag frá Náttúruverndasjóði Pálma Jónssonar. Það varð til þess að samþykkt var að halda vinnunni áfram á sama grunni og byggt hafði verið á frá upphafi. Núverandi vefur (árið 2019) var settur upp af Premis og er keyrður á “Word Press”-forritinu. Helsta áskorunin var að yfirfæra þegar innkomið efnið, bæði texta og ljósmyndir. Notendur munu án efa sjá einhvern mun og gætu þurft að sýna svolitla þolinmæði. Aðlögun efnis frá fyrstu vefsíðunni yfir aðra tók u.þ.b. tvö ár. Ekki er því ólíklegt að einhvern tíma taki að fullvinna aðlögun þessarar þriðju vefsíðu svo viðunandi megi teljast. WP ku bjóða bæði upp á innsetningu exel-skjala og hreyfimynda, auk ýmiss annars, sem nýjar uppfærslur kunna að hafa í för með sér í framtíðinni…