Ketilsstígur – Hettustígur – Gestsstaðir

Hetta

Gengið var upp á Sveifluháls eftir Ketilsstíg frá Seltúni, framhjá Arnarvatni með Arnargnípu á hægri hönd og að Ketilsstígsvörðu ofan við Ketilinn á vestanverðum hálsinum. Þaðan var þokkalegt útsýni yfir Móhálsadalinn, yfir að Hrútafelli, Fíflvallafjalli og Mávahlíðum. Vindurinn reyndist steindauður – stafalogn – svo hlíðarnar spegluðust í vatninu.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Þá var stefnan tekin til suðurs eftir svonefndri Sveiflugötu (-stíg), en hann mun hafa leið frá Ketilsstíg, suður með vestanverðu Arnarvatni og upp fyrir Hettu, þar sem Hettuvegur liggur frá Vigdísarvöllum yfir hálsinn til Krýsuvíkurbæjanna. Vel mótar fyrir Hettuveginum í hæðunum norðan Bleikingsdals, en síðan verður hann jarðlægur eftir að hækka tekur. Á þessu svæði eru sandásar, leirhlíðar og jarðskrið svo eðlilegt er að þar sjáist stígurinn ekki. Hins vegar sést hann enn vel á kafla neðst og á einum stað hátt í suðvestanverðri Hettu þar sem hann gengur inn á Sveifluna.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Í fjallsás þar sem sést til sjávar, drangar girða og lind í lautu streymir, breyttist einn þátttakenda í hempuklæddan boðbera vorsins og flutti ljóðið „Fylgd“ eftir Guðmund Böðvarsson þar sem minnt er á hver eigi landið og hver tilheyri landinu. Átti vel við í upphafi sumars.
Gengið var niður af Sveifluhálsi að austanverðu skammt sunnan við Sveifluna og staðnæmst við Krýsu, margflókna styttu í líki listaverks, utan í hálsinum. Þaðan var gengið niður að Gestsstöðum, hinum forna bæ Krýsuvíkur. Loks var stefnan tekin á tóttir bæjarins Fells sunnan Grænavatns og gengið að Engjahver (Austurengjahver), sem skartaði sinni miklu litadýrð sem aldrei fyrr.
Til baka var gengið vestur yfir Vesturengjar sunnan Litla-Lambafells og hringnum lokað á Seltúni.
Gangan tók 3 og ½ klst í logni og stillu.

Hetturstígur

Hettustígur.