Eldvörp

Í Fréttablaðinu árið 2012 er umfjöllun;  “Gengu fram á óþekktar minjar“, eftir  Óla Kristján Ármannsson. Fjallað er um minjar í og við Eldvörp ofan Grindavíkur.

Óli Kristján Ármannsson

Óli Kristján Ármannsson.

“Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur og áhugamaður um náttúru og menjar á Reykjanesi, telur að mannvistarleyfar í Eldvarpahrauni við Grindavík kunni að vera enn eldri en talið er. Í félagi við annan gekk hann fyrir nokkrum árum fram á byrgi sem enginn hefur komið nálægt í hundruð ára. Hann leiddi blaðamann og Gunnar V. Andrésson ljósmyndara um svæðið og fræddi um kenningar sínar. Minjarnar séu „Tortóla“ verkafólks við útgerð.

Fornminjar í Eldvarpahrauni þarf að rannsaka mun betur áður en tekin er ákvörðun um aðrar framkvæmdir á svæðinu, sem er í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun. Eldvörp eru norðvestur af Grindavík, ekki ýkja langt frá Bláa lóninu. Þar er að finna lítt rannsakaðar mannvistarleifar.

Gunnar V. Andrésson

Gunnar V. Andrésson.

„Og aldrei að vita hvað annað kæmi í ljós ef fram færi gagnger rannsókn á svæðinu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur, sem safnað hefur margvíslegum fróðleik um náttúrufar og minjar á Reykjanesi. Hann telur að minjar sem er að finna í Eldvörpum séu jafnvel enn eldri en leitt hefur verið líkum að áður, því þær kunni að tengjast útgerð í Grindavík, en heimildir eru um verstöð þar frá miðöldum, allt frá tólftu og fram á fimmtándu öld.
„Menn hafa velt upp alls konar hugmyndum um þessi hlöðnu byrgi, þar á meðal hvort þarna kunni að hafa verið felustaðir sem fólk hafi komið sér upp eftir Tyrkjarán af ótta við fleiri árásir,“ segir hann, en telur sjálfur útilokað að þarna sé um einhverja mannabústaði að ræða, einkum smæðar þeirra vegna.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

„Mér finnst líklegra að þarna hafi verið fiskigeymslur. Nokkurs konar „Tortóla“ þess tíma þar sem verkafólk gat skotið fiski undan og sótt í þegar vistir þraut. Útvegsbændur áttu ekkert í þá daga – Skálholtsstóll átti allt. Sækja mátti þarna fisk til nauðþurfta. Um tveggja alda skeið sultu Grindvíkingar heilu hungri. Það skyldi því engan undra að þeir hafi reynt að koma einum og einum fiski í skjól til nota þegar í nauðir rak. Fólk þurfti ekkert að hlaða sér felustaði þarna í hrauninu þar sem nóg er um rúmgóða hella þar sem fjöldi fólks hefur getað látið fyrirberast. Auk þess líkjast byrgin í Eldvörpum öðrum fiskigeymslum með ströndinni, hvort sem er í Strýthólahrauni, við Nótarhól eða á Selatöngum.“

Fundu áður óþekkt byrgi
Um leið áréttar Ómar Smári að kenningar þessar kalli allar á mun meiri rannsóknir til þess að nálgast megi lausnina á þeirri ráðgátu sem þessar mannvistarleifar í Eldvörpum eru. Standist kenningin um undanskotið gæti þarna hins vegar verið um að ræða mannvistarleifar frá því ekki löngu eftir að gaus síðast í Eldvörpum 1228.
EldvörpÞá segir Ómar Smári annað benda til þess að hlöðnu byrgin hafi verið notuð undir eitthvað matarkyns. Á svæðinu eru nefnilega um sjötíu hlaðnar refagildrur sem enn sjást. „Og þá hafa menn viljað koma í veg fyrir að refurinn kæmist í eitthvað.“ Að auki voru refaskinn allmikil verðmæti hér áður fyrr og því eftir nokkru að slægjast með því að veiða refinn.
Eins bendir staðsetning byrgjanna til þess að um felustaði af einhverju tagi hafi verið að ræða. „Það fer enginn hingað lengst inn í torfarið hraun án einhvers sérstaks erindis,“ segir Ómar Smári. Enda er það svo að jafnvel nú, með vegi í grennd og göngufólk ágætlega búið, að handleggur er að komast að byrgjunum.
EldvörpNokkur hlaðin byrgi eru þekkt í Eldvarpahrauni og greinilegt að þangað hefur göngufólk komið til að skoða þau. Það svæði hefur verið þekkt frá því það fannst aftur, að sögn Ómars Smára, árið 1872. Seinna fjallaði Ómar Ragnarsson svo um það í einum af Stiklu-þáttum sínum í Sjónvarpinu. Alls er þar að finna um tólf hleðslur, að sögn Ómars Smára, byrgi og refagildrur.
Ómar Smári og félagi hans Óskar Sævarsson römbuðu svo fram á tvö til viðbótar nokkru fjær árið 2006 í einni af gönguferðum þeirra. „Það var eiginlega Óskar sem rak augun í þetta þar sem við stóðum þarna á gjábarminum. Eru þetta ekki hús, sagði hann og benti? Jú, sagði ég. Tvö!“ Einu sporin í mosanum við þessi byrgi eru eftir Ómar sjálfan. „Þarna væri kjörið að taka jarðvegssýni í öðru hvoru byrginu til aldursgreiningar,“ segir hann.

Verðgildi svæðisins gæti aukist
EldvörpByrgin eru hlaðin úr hraunhellum. „Síðan hefur verið hlaðið rekaviði ofan á og fergt með hraunhellum. Við þetta myndast kjöraðstæður til að geyma þurrkaðan fisk, annað hvort í stæðum eða hengja hann í rjáfur,“ segir Ómar Smári, en hraunið er náttúrulega þannig að ofan í það hverfur raki og svo blæs í gegn um hellurnar sem hjálpar til við að halda fiskinum þurrum. „Ofan í þessum byrgjum má núna sjá hellurnar sem hafa hrunið ofan í þau þegar rekaviðurinn hefur fúnað undan þeim í aldanna rás.“
Byrgin eru svo ekki einu leifarnar um mannvistir í hrauninu. Ekki langt frá borholu HS Orku í Eldvörpum er að finna stóran helli þar sem fjöldi fólks gæti látið fyrir berast. „Og inni í hellinum er hlaðinn garður þannig að ekki sést hvað er fyrir innan,“ segir Ómar Smári.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Alveg ofan í borholunni er svo svokallaður Brauðhellir, en hann opnaðist þegar jarðýta braut ofan af honum við framkvæmdir á svæðinu. „En hitaveitan má eiga það að þeir gengu vel frá í kringum hann og pössuðu upp á hann eftir að hann kom í ljós.“ Áður var bara á hellinum lítið op og mikil gufa í honum og hiti sem væntanlega hefur verið nýttur til að seyða brauð og nafnið af því dregið, en í hellinum má líka sjá fornar hleðslur.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

„Allt þetta svæði þarf að kanna í leit að fornminjum,“ segir Ómar Smári og telur að varlega þurfi að fara í frekari orkuvinnslu í Eldvörpum. Í drögum að rammaáætlun eru Eldvörp í nýtingarflokki og áform uppi um að reisa þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun. „Ef þetta fær að vera óraskað í eitt til tvö hundruð ár þá margfaldast verðgildið í náttúruperlum eins og þessum. Nálægðin við þéttbýli gefur svæðinu líka aukið gildi.“

Eldvörp

Hellir nálægt Bláa lóninu.

Ómar Smári Ármannsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur. Hann er sérstakur áhugamaður um gönguleiðir, náttúru og sögu Reykjanesskagans og heldur úti ferðavefnum Ferlir.is, þar sem boðið er upp á margvíslegan fróðleik um svæðið, auk skipulegra gönguferða fyrir smærri og stærri hópa. Fram kemur á vefnum að upphaflega hafi FERLIR staðið fyrir „FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík“ sem hóf starfsemi árið 1999. Verkefnið vatt svo upp á sig.
„Og ég fór í fornleifafræði, svona til þess að fræðimennirnir gætu ekki slegið mig af borðinu sem áhugamann,“ segir Ómar Smári kankvís.”

Heimild:
-Fréttablaðið, 125 tbl. 15.12.2012, Gengu fram á óþekktar minjar – Óli Kristján Ármannsson, bls. 36.
Eldvörp

Gvendarhellir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um hraunin við Herdísarvík og Krýsuvík undir fyrirsögninni “Aldargömul Íslandslýsing“.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

“Hinn 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess “að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, sem lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á íslandi, en síðan verði prentuð út af fyrir sig á fjelagsins kostnað”. Sama dag var þetta samþykkt á fundi Hafnardeildar Bókmenntafjelagsins og nefnd kosin 21. sept. s.á. Um veturinn sendi nefndin brjef til allra presta og sýslumanna. Fylgdu brjefunum til prestanna 70 spurningar og til sýslumanna fylgdu 12 spurningar. Jafnframt var biskupi, stiftamtmanni og amtmönnum skrifað og þeir beðnir um að lá málinu fylgi.
Ekki verður annað sagt, en að prestar og sýslumenn hafi brugðist vel við þessari málaleitan. Allar lýsingarnar eru geymdar í Landsbókasafninu, fjögur bindi í folio. Er hjer um að ræða eitt hið merkasta heimildarrit, eigi aðeins um landfræði Íslands, heldur einnig um búskaparháttu, atvinnuvegi, hlunnindi, tíðarfar, þjóðháttu, heilsufar, menningu o.s.frv.
Að vísu eru ekki allar lýsingarnar jafn fullkomnar eins og vænta má, og skara ýsmir prestar fram úr ís kilningi á því, hvernig svörin ættu að vera. Hjer skulu nú birtir stuttir útdrættir úr þessum sóknarlýsingum, sem sýnihorn af þessu handritasafni.

Úr sóknarlýsingu síra Jóns Vestmanns, Vogsósum:

Nes er austanvert við Selvog. Þar á stendur bær með sama nafni. Vestan til við voginn er annað nes. kallað Alnbogi, líkt bognum handlegg hvar Herdísarvík t.a.m. skyldi vera í alnbogabótinni og bærinn með sama nafni við víkurbotninn. Á milli tjeðra nesja er breið sjávarbugt, kölluð Selvogur, en stuttleiks vegna má hún ei fjörður nefnast.

Þau merkilegustu eldhraun eru:

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

a) Stakkavíkurhraun [kom] upp í gosi upp úr Kongsfelli (sem hefir nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skifti þar á haustum fólki í fjárleitir); er Kongsfell kringótt eldborg, með háum börmum og djúpri gjótu innanvert, samanluktri í botninn, svo þar er þó ekki gjá, en grjótið brunnið í sand og vikur, sumt útlits sem sindur. Þaðan liggur hraun þetta þvert um fjallið til útsuðurs og ofan yfir Stakkavíkur landeign, en stansaði rjett fyrir ofan sjálft túnið; er þó upp gróið með góðum högum, smáskógi, beiti- og sortulyngi. Á fjallinu framarlega hefir hraunrenslið skift sjer við grjóthæð nokkra og hlaupið fram af fjallsbrún þar sem heitir Mosaskarð og lýsir nafnið þess útliti. Þessi tangi hraunsins er svartur og gróðurlaus þegar frá fjalli dregst alt fram í sjó.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

b) Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum og fram af fjallsbrún beggja megin Lyngskjaldar, en hefir runnið saman aftur á láglendinn fyrir neðan. Þetla hraun er sumsstaðar upp gróið með lyng, litlum skóg, gras, og góða haga í lágum og gjótum. Sums staðar er það svart og ávaxtarlaust, með gjám og stöndum og grámosabreiðum. Engir eru þar hellar eða stórgjár; þó er þar hellir kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn. Hellir þessi er annars ekki stór.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

e) Krýsuvíkurhraun [kom] upp í gosi úr Eldborginni í Deildarhálsi, austan til við Krýsuvík. Eldborg þessi er alt eins útlits og Kongsfell. Hraunið er upp gróið með gras, lyng og smáskóg í lautum og brekkum, en grámosaskóm, gjám og stöndum yfir alt þar sem hærra liggur.

Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,” svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á einslita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún fœri niður fyrir. Og jafnótt og hann losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrímshellir

Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honnm þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Frá landnámstíð hafa menn engar sögur um breytingar á landslagi alt til l367 að Oddgeir biskup í Skálholti visiteraði kirkjuna á Strönd. Telst hún þar eiga 30 hndr. í heimalandi. Þaðan frá hafa menn enga vissu hjer um fyrri en um daga Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem eftir Árbókum Esphólíns bjó mektarbúi á Strönd í full 30 ár fyrir um og eftir trúarbragðaendurbótina. En hjer uum bil 1700 telur sveitarbragur Jóns bónda Jónssonar í Nesi 7 búendur á Strönd meinast þar sjálfsagt með hjáleigu býli. 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afhýlum öldungis eyðilögð “af sandfoki og þá þó fyrir nokkrum árum.

Æsubúðir

Geitahlíð.

Þar sem ekki er sandágangurinn, þar eru skriðuföll, blástrar; þar að lýtur saga Árna Þorsteinssonar, merkisbónda í Herdísarvík, og þannig hljóðar: ..Þegar jeg var 8 ára fór jeg fyrst með föður mínum út með Geitahlíð og sá jeg þá í einum stað eitt lítið flag blásið í aur hjertta austast í hlíðarhorninu en hvergi annarsstaðar, heldur einlægt graslendi og blóma yfir alt að líta”. Þessa sögu sagði hann mjer þá við eitt sinn urðum samferða með nefndri hlíð, af forundran yfir því hversu hrörleg hún var þá orðin er hann var sjötugur. Sáust þá í henni fáienir grasgeirar hjer og hvar að neðanverðu og einstakir fáir grasblettir einasta þar, sem hlje var við landnyrðingi. —

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Kirkjan á Strönd í Selvogi er kölluð heimakirkja; hún er enn á sama stað, einmana á eyðisandi, þar sem Strandarbær var meðan jörð þessi var bygð. — Hjer var þingabrauð þar til árið 1749 að ekkjufrú biskups Jóns Árnasonar keypti, eður þó hann áður andaðist, eyðijarðirnar Strönd og Vindás og gáfu til Selvogs prestakalls. Síðan hafa prestarnir verið kirknanna forsvarsmenn, en Vogósar hafa ætíð, eftir sem áður, verið prestsetur, en Krýsuvík annexia.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

d) Ögmundarhraun; lítið fyrir vestan Krýsuvík runnið vestan úr Amenningi, sem allar er líka hraun en þó grasi og skógi vaxið — er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits: gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Hríshólmi. Þar eru stórar húsatóttir niður sokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást ei tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg.

Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært; hraun alt um kring nema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríksvarða; þó Eiríksvarða sje ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svo langa tíð. – Hún er einhlaðin, á mjög hárri fjallsbrún, 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, úr einhlöðnum steingarðsparti, er svo hver steinn lagður yfir annan; flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða; allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utan veggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt að norðan og sunnan. Þessi Eiríkur Magnússon var lengi prestur í Selvogi, þótti skrítinn í ýmsu, og dó 1716. Af hans langa prestskap má ráða að hann hafi aldraður orðið, og skyldi menn setja að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa 123 ár.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg.

Arngrímur Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti.
Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: —
„Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 49. tbl. 23.12.1954, Aldargömul Íslandslýsing, bls. 642-645.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Arnarhóll

Arni Óla skrifar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1958 um “Úr sögu Arnarhóls“:

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifarannsókn 1955.

“Nú er byrjað að grafa upp gömlu traðirnar í Arnarhólstúni. Er því ekki úr vegi að rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.
Arnarhóls er fyrst getið í Landnámu, ekki sem jarðar, heldur sem örnefnis. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sínum fyrir borð, er hann var kominn í landsýn, og hét að byggja þar sem þær kæmi á land. Öndvegissúlurnar fundust síðar reknar „við Arnarhvol fyrir neðan heiði”. Heiðin, sem hér er átt við, er Mosfellsheiði.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Út af orðalagi frásagnar Landnámu hafa ýmsir haldið því fram, að Ingólfur muni hafa reist bæ sinn á Arnarhóli. En það getur ekki verið rétt. Ari fróði kallar bæ hans Reykjavík, og það er sami bærinn, sem lengi var aðeins kallaður Vík og stóð undir brekkunni syðst í Aðalstræti, sem nú er. Auðvitað hefir bær Ingólfs verið höfuðbólið hér, og það sem tekur af allan vafa hér, er það, að Vík átti allt landið upphaflega. Af vitnisburði um landamerki Víkur, teknum um 1500, má glögglega sjá að bæirnir Hlíðarhús, Sel, Skildinganes og Arnarhóll voru allir byggðir í Víkurlandi. Hitt er ekki vitað hvenær þeir voru reistir, né heldur hvenær þeir urðu sjálfstæðar jarðir. En það hefir verið löngu fyr en þetta var og þó var enn óskipt beitiland.
Arnarhóll
Af Vík og bæunum þar um kring fara engar sögur um aldir. Veit því enginn hvernig stendur á því, að jörðin var brytjuð niður í mörg býli. En Arnarhóls er næst getið í gjafabréfi, dagsettu í Engey 27. marz 1534. Það bréf er svo: „Það geri eg, Hrafn Guðmundsson, heill að viti, en krankur á líkama, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi, að eg gef jörðina alla Arnarhól, er liggur á Seltjarnarnesi í Víkur kirkjusókn, heilögu klaustri í Viðey til ævinlegrar eignar, en mér til eilífs bænahalds, með þeim skilmála, að jörðin skal hvorki seljast né gefast frá klaustrinu, en tíundast ævinlega þar sem hún liggur, þeim mönnum hjáveröndum: húsfrúnni Þórey Narfadóttur, Guðbrandi Jónssyni og Ingjaldi Jónssyni. En ef guð gefur mér minn bata, heilsu og styrk, þá er fynefnd jörð, Arnarhóll, mín eign og í minni umsjá svo lengi sem guð gefur mér lífdagana, en eftir mína framferð skal hún klaustursins eign vera, sem fyr segir”.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.

Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli, en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyarklausturs, og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni, því að þá mun hafa verið lokið hinu „eilífa bænahaldi” fyrir sál hans. Um hitt skilyrðið, að jörðin mætti hvorki gefast né seljast, er að vísu það að segja, að hún var hvorki gefin né seld, heldur var henni bókstaflega rænt. Húsfrú Þórey Narfadóttir, sem var vitundarvottur að gjöf Hrafns, hefir sennilega verið mágkona Orms sýslumanns Jónssonar í Vík og móðursystir Narfa Ormssonar sýslumanns, sem var seinasti sjálfseignarbóndi í Vík. Narfi sýslumaður lét dóttur sína heita Þórey, og bendir það til skyldleikans.

Arnarhólsland

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Það mun sennilega hafa verið um þetta leyti, eða þó öllu heldur fyr, að Arnarhólslandi var skipt úr Víkurlandi. Þykir líklegast að það hafi verið gert um leið og hjáleigurnar Skálholtsskot og Stöðlakot byggðust. Nafnið Stöðlakot bendir til þess, að þar hafi verið stöðull. Nokkru ofar, eða þar sem nú er lóð Ingólfsstrætis 9, var þá varða, sem kölluð var Stöðulvarða og bendir það nafn til hins sama. Efst á holtinu, þar sem minnisvarði Leifs heppna stendur nú, voru beitarhús frá Arnarhvoli, og allt holtið var þá kallað Arnarhólsholt, en Öskjuhlíðin Víkurholt. Þegar landamerki voru nú ákveðin milli Víkur og Arnarhóls, voru þau úr Stöðulvörðu og vestanhalt við beitarhúsin og þaðan upp í Breiðamýri að Rauðarárlæk, en síðan réði lækurinn landamerkjum til sjávar. Þetta var þá allt Arnarhólsland.

Skólavarðan

Skólavarðan á Arnarhólsholti.

Þegar beitarhúsin voru reist, hefir bóndinn á Arnarhóli sjálfsagt átt allmargar kindur. En nokkuru eftir að skiptin fóru fram, munu húsin hafa verið lögð niður, því að þess er getið 1777, að þau sé ekki annað en gamlar rústir. En upp úr þessum rústum munu skólapiltar hafaa tekið efni í Skólavörðuna, sem hlaðin var á árunum 1785—86. Þannig hafa beitarhúsin horfið. Og þær eru einnig horfnar Skólavarðan og Stöðulvarðan.
Arnarhóll hefir eflaust misst spón úr askinum sínum þegar landinu var skipt. Áður hefir hann haft kúahaga og hrossahaga suður í Vatnsmýri, í sameiginlegu beitilandi, en eftir það ekki aðra haga heldur en meðfram Rauðarárlæknum. Sennilega hafa þó verið sæmilegir sauðfjárhagar í holtinu um þær mundir. Annars missti Arnarhóll ekki öll sín hlunnindi af sambýli við Vík, því að hann átti enn um langt skeið torfristu, stungu og móskurð til eldiviðar í Víkurlandi, og er þess getið í Jarðabókinni 1703.

Arnarhóll um 1700

Arnarhóll

Arnarhóll – kaupstaðalóðin 1787.

Fyrstu glöggvar upplýsingar um Arnarhól er að fá í Jarðabókinni. Þá er þar tvíbýli og búa þar bræður tveir, Tómas og Jón Bergsteinssynir. Var heimilisfólk hjá öðrum 6 manns, en hjá hinum 5. En auk þess var hjá Tómasi tómthúsmaður, Guðni Eyólfsson að nafni, með konu og barn, og þar að auk húsmaður, sem Klemens Jónsson hét. Hjá Jóni var og tómthúsmaður, sem Guðlaugur Höskuldsson hét, og bjó hann með öðrum manni í kofa heima við bæinn. Heimilisfólk hefir því verið 17 manns. En svo voru löngum aðkomumenn þar, því að þaðan gengu 1—3 kóngsskip og fylgdi þeim engin verbúð, svo að bændur voru skyldaðir til að hýsa skipshafnirnar, hvort sem voru ein eða fleiri, og fengu ekkert fyrir nema soðningarkaup. Á þessu má sjá, að þarna hafa þá verið allmikil húsakynni.

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Vatnsból var talið slæmt á Arnarhóli. Það var brunnur neðst í túninu rétt þar hjá sem Söluturninn stendur nú. Margir Reykvíkingar muna eflaust eftir honum, því að hann var þarna til skamms tíma, en nú hefir verið steypt stétt yfir hann. Við vitum ekki hve mikil eftirsjá er að þessum brunni, en þessi hafa orðið örlög margra gamalla minja hér — þær hafa verið afmáðar þegjandi og athugalaust. Það var ekki eina kvöðin á bændum að hýsa sjómenn kóngs, heldur urðu þeir sjálfir að kosta viðhald bygginga. Auk þess urðu þeir að flytja Bessastaðamenn, hvenær sem þeir kölluðu, annaðhvort sjóveg út í Viðey, eða upp á Kjalarnes, og svo landveg til Skildinganess. Enn urðu þeir að slá einn dag hvor úti í Viðey og gjalda tvo heyhesta til fálkanna, eftir að farið var að flytja þá út í Hólmi.

Arnarhóll

Arnarhóll 1850.

Bessastaðavaldið var sjaldan nærgætið við landseta konungs. Það hafði þó átakanlegast komið í ljós í fardögum 1681. Þá kom maður frá Bessastöðum og krafðist þess af einum ábúanda Arnarhóls, Ásbirni Jóakimssyni (sem líklega hefir búið á Litla-Arnarhóli en var þá að flytja sig búferlum þaðan), að hann ferjaði sig yfir Kollafjörð (eða inn í sund). Ásbjörn þóttist ekki skyldugur til þess, þar sem hann var að flytja burt af jörðinni. En fyrir þessa neitun var hann hýddur á Kópavogsþingi stórhýðingu, er næst gekk lífi hans. Og aldrei fékk hann leiðrétting sinna mála.

Tukthúsið kemur

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið um 1820.

Árið 1759 olli straumhvörfum í sögu Arnarhóls. Þá gaf konungur út skipun um að þar skyldi reist tukthús. Er mælt að Skúli Magnússon landfógeti hafi verið hvatamaður þess, og hafði hann ráðlagt stjórninni að leggja eignir Þingeyraklausturs til stofnunarinnar. Stjórnin fellst á þetta á þann hátt, að tekjur Þingeyraklausturs og Arnarhóll skyldi lagt tukthúsinu þangað til það gæti séð um sig sjálft. Þótti henni sem tukthúsið væri vel sett þarna, því að það gæti alltaf fengið ull hjá iðnstofnununum og látið fangana tæta úr henni, og þar að auki lægi jörðin svo vel við sjó, að ætíð væri hægt að fá fisk handa föngunum.

Arnarhóll

Arnarhóll 1874.

Magnús Gíslason amtmaður fann upp á því snjallræði, að nota skyldi íslenzka afbrotamenn til þess að vinna að byggingu tukthússins, og skyldu þeir með því kaupa sig undan Brimarhólmsvist. Þetta þótti stjórninni fyrirtak, því að með þessu móti mundi kostnaður við bygginguna verða minni. Var svo byrjað á því 1762 að láta hina sakfelldu grafa fyrir grunni og draga að grjót.
Tukthúsið mun hafa verið talið fullsmíðað árið 1764. Þótti þetta furðumikið hús, 44 alna langt og 16 alna breitt. Það hafði líka kostað 700—800 ríkisdali. Til tukthússins voru ráðnir tveir embættismenn, ráðsmaður (kallaður ökonomus) og fangavörður. Skyldu þeir hafa hálfar tekjur hvor af Arnarhóli, auk launa sinna.

Arnarhóll

Arnarhóll 1882.

Fyrsti „ökonomus” varð Guðmundur Vigfússon lögréttumanns Sigurðssonar í Hjörsey. Hafði hann stundað lögfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn í fjögur ár, en ekki lokið prófi. Var talið að hann hefði hlotið þetta embætti vegna þess, að hann var systursonur Þórunnar konu Magnúsar amtmanns Gíslasonar. Hann gegndi þessu starfi í 22 ár, eða fram til 1786.
Um þessar mundir bjó á Arnarhóli Gissur Jónsson lögréttumaður. Hann var kvæntur Silfu dóttur Jóns Oddssonar Hjaltalíns sýslumanns, sem var seinasti ábúandi í Vík (Reykjavík). Gissur var talinn meðal fremstu manna hér um slóðir á sinni tíð. Var hann hreppstjóri um 25 ára skeið og meðhjálpari í 20 ár. Hann var fæddur á Arnarhóli, ólst þar upp og fékk byggingarbréf fyrir jörðinni 1744, líklega lífstíðar ábúð.

Arnarhóll

Arnarhóll – Hafnarstræti og Reykjavíkurhöfn 1931.

Vorið 1768 byggði Guðmundur „ökonomus” honum út af jörðinni. Gissuri kom þetta mjög á óvart, og þóttist hart leikinn. Leitaði hann þá á náðir stiftamtmanns, ritaði honum bréf á alþingi við Öxará þá um sumarið og bað hann að styrkja sig til þess að hann fengi haldið jörðinni. En það bar engan árangur. Gissur varð að flæmast þaðan. Fluttist hann þá suður með sjó. Silfa kona hans var enn á lífi 1777 og átti þá heima í Kirkjuvogi í Höfnum.

Arnarhóli hrakar

Traðarkot

Traðarkot.

Nú tók Guðmundur „ökonomus” undir sig túnið á Arnarhóli, sem var stórt og gott og girt með ramefldum grjótgarði. Náði garður sá utan frá sjó um það bil er Klapparstígur kemur nú niður á Skúlagötuna og lá svo skáhalt uppeftir um það bil er nú stendur hús prentarafélagsins við Hverfisgötu, neðan við Traðarholt og að Laugavegi 3 sem nú er, en þaðan beint niður að læk, eins og gangstéttin norðan Bankastrætis liggur nú. En tún þetta skiptist í tvennt af tröðunum miklu, sem náðu frá Traðarkoti niður að lækjarósnum, og voru aldar 120 faðmar á lengd. Eftir að Gissur var hrakin frá Arnarhóli bjuggu þar tómthúsmenn, fyrst Sigurður Magnússon smiður frá Skálabrekku. Hann var jafnan kallaður timburmaður, og við hann var kenndur Timburmannsbærinn, nú Tjarnargata 5 B.

Traðarkot

Traðarkot.

Húsakosti jarðarinnar tók mjög að hnigna upp úr þessu, því að þurrabúðarmenn voru ekki skyldugir að sjá um viðhald húsa, og ekki mun Guðmundur „ökonomus” hafa hugsað um það. Þegar hann lét af ráðsmennsku tukthússins, voru húsin tekin út og voru „í mestu niðurlægingu” Baðstofan þar er þá talin 10 alnir á lengd, en ekki nema 3 3/4 alin á breidd. Þetta ár fluttist þangað Ólafur Valdason frá Rauðará og átti þar lengi heima. Hann var faðir Hróbjartar í Traðarkoti, sem var hinn efnilegasti maður í æsku, heljarmenni að burðum og syndur sem selur. En hann lagðist í óreglu og gat sér það orð, að hann væri mesti brennivínsberserkur bæarins. Ólafur Valdason drukknaði í mannskaðaveðrinu mikla 6. apríl 1830. Vegna þess manntjóns, sem þá varð, var efnt til samskota. En samskotafénu var ekki öllu úthlutað, heldur sumt af því sett á vöxtu, og síðan myndaður af því Fiskimannasjóður Kjalnesinga.

Málfríður Sveinsdóttir

Málfríður Sveinsdóttir.

Árið 1828 var bærinn á Arnarhóli orðinn svo hrörlegur, að hann gat naumast talizt mannabústaður. Þá lét Hoppe stiftamtmaður rífa hann og slétta yfir rústirnar. Sá, sem seinastur átti heima í þessu greni, hét Sveinn Ólafsson. En þótt vistarverurnar væri lélegar, ólst þarna upp sú stúlka, er talin var fegurst allra kvenna í bænum á sinni tíð. Hún hét Málfríður og var dóttir Sveins. Hún var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var hér, og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litizt mætavel á hana, því að málarinn Auguste Mayer gerði af henni mynd í viðhafnarbúningi, en Xavier Marmier, sem þá var aðeins 26 ára, eignaðist barn með henni. Var það drengur og hét Sveinn Xavier. —

Marmier Xavier

Marmier Xavier.

Þegar Sveinn Ólafsson varð að fara frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti. Á Arnarhóli var hjáleiga 1703 og nefndist Litli-Arnarhóll, stundum nefnd Arnarhólskot. Það fór í eyði um 1800. En þá var komið annað tómthúsbýli í túninu og hét Sölvahóll. Það reisti Einar Eiríksson, sem áður var í Þingholti. Sölvahól endurreisti Jón hreppstjóri Snorrason 1834, og var það talið snotrasta tómthúsmannsbýli í bænum um þær mundir. Seinna reyndu stiftamtmenn að koma Sölvahól burt, en þar var ekki hægt um vik, því að Hoppe hafði gefið lífstíðar ábúð. Seinna reisti Benedikt sótari bæ í Arnarhólstúni (1886) og kallaði Höfn. Stóð hann þar sem nú er hús Fiskifélags Íslands.

Tukthúsið verður að kóngsgarði

Tukthús

Tukthúsið – teikning. (Teikningin virtist glötuð, en fannst síðar á Þjóðskajalasafninu.)

Um sögu tukthússins er óþarft að skrifa, því að það hefir verið gert áður. Þess má aðeins geta, að árið 1813 rak Castenskjöld stiftamtmaður fangana burt og heim á sínar sveitir, en 1816 var tukthúsið lagt niður. Árið 1819 kom Moltke stiftamtmaður hingað og settist að í tukthúsinu; var því þá breytt svo sem hæfði bústað svo virðulegs embættismanns. Og þá skipti það auðvitað um nafn. Áður hafði það í daglegu tali verið nefnt „Múrinn”, en nú var farið að kalla það Kóngsgarð. Þarna var svo bústaður stiftamtmanna hvers fram af öðrum fram til 1873 og síðan bústaður landshöfðingja fram til ársins 1904, er innlend stjórn tók við. Þá var húsið gert að skrifstofu stjórnarinnar og hefir síðan verið kallað Stjórnarráð.

Helgi G. Thordersen

Helgi G. Thordersen, biskup.

Þess má ef til vill geta, að í tukthúsinu fæddist einn af nafnkenndustu mönnum þjóðarinnar. Þá var þar ráðsmaður Guðmundur Þórðarson frá Sámsstöðum, alltaf nefndur „Thordersen í Múrnum” á þeirrar tíðar reykvísku. Árið 1794 fæddist honum sonur, og var það Helgi Thordersen dómkirkjuprestur og síðar biskup. Eftir að tukthúsið lagðist niður höfðu stiftamtmenn og síðar landshöfðingjar Arnarhólstún til eigin nota endurgjaldslaust. Þóttu það mikil hlunnindi. Var þeim sárt um túnið og vildu ekki missa neitt af því undir byggingar. Aftur á móti leyfðu þeir tómthúsmönnum að reisa býli ofan garðs, og munu elztu býlin þar hafa verið Traðarkot og Skuggi. En við hið síðarnefnda býli var svo hverfið þarna kennt og kallað Skuggahverfi. Sjálfsagt má þakka það fastheldni stiftamtmanna í Arnarhólstún, að Arnarhóll er enn óbyggður. En á hinn bóginn varð þessi fastheldni Reykjavíkurbæ til mikils tjóns, eins og nú skal sagt.

Arnarhólstún lagt til Reykjavíkur

Sölvhóll

Sölvhóll mun hafa staði austan við húsið Sölvhólsgötu 4. Hjáleigan Sölvhóll mun hafa byggst úr landi Arnarhóls laust fyrir 1780. Nafnið Sölvahóll er einnig til í gömlum heimildum og kann að vera dregið af því að söl hafi verið breidd til þerris á hólnum. Upphaflega eru ábúendur tveir “grashúsmenn” en 1801 er Einar Eiríksson talinn einn ábúandi.
Ábúendur í Sölvhóli stunduðu útræði og var Sölvhólsvör beint niður undan bænum. Lítil vör var nokkru austar, nefnd Krummaskuð, var nauðlendingarvör. 

Fyrir 170 árum var ákveðið að stækka kaupstaðarlóðina og gæfi konungur land til þess. Hinn 12. febrúar 1789 framkvæmdi svo Vigfús Thorarensen sýslumaður útmælingu á þessum viðauka við kaupstaðarlóðina, ásamt Jóni Guðmundssyni hreppstjóra og Pétri Bárðarsyni vefara og í viðurvist Lewetzows stiftamtmanns. Sést á útmælingunni hvaða land það er sem konungur hefir ákveðið að gefa Reykjavík, en það er m.a. allt Arnarhólstúnið fyrir norðan traðirnar (því að tukthúsið mátti ekki missa þá lóð, sem það stóð á). Þessi hluti Arnarhólstúns mældist 12.000 ferfaðmar. Segir í útmælingargerðinni að þetta land sé Reykjavík mjög hagkvæmt, einkum vegna þess að þá fái hún meira athafnasvæði við höfnina, góðar lendingar, nóg rúm fyrir sjóbúðir og fiskreita. Síðar segir: „Þar sem allt þetta áðurnefnda land, sem bætast á við kaup staðarlóð Reykjavíkur, er eign hans hátignar konungsins og hann hefir allra mildilegast gefið Reykjavík það, án þess að nokkuð komi í staðinn, þá verður hér ekki heldur um neina greiðslu til annara að ræða”.

Stöðlakot

Stöðlakot 1876.

Þessi útmæling var send Rentukammeri þá um veturinn, ásamt uppdrætti eftir R. Lievog stjörnumeistara, er hann hafði gert af kaupstaðnum og hinni fyrirhuguðu viðbót kaupstaðarlóðarinnar. Jafnframt var því skotið til stjórnarinnar hvort ekki væri rétt að allir úthagar væri lagðir undir bæinn, svo að íbúarnir bætti nota þá eftir þörfum. Stjórnin gaf þann úrskurð árið eftir, að úthagar skyldu fylgja bænum til sameiginlegra afnota. Þetta hefir líklega þótt ráðgjöf, því að stjórnin tekur Örfirisey af bænum aftur 1791. En þar er ekkert minnzt á Arnarhól og hann var aldrei tekinn aftur.

Stöðlakot

Arnarhóll – Stöðlakot. Tukthúsið er nr. 3.

Árið 1792 var svo kaupstaðarlóðin stækkuð þannig, að við hana var bætt Skálholtskoti og Stöðlakoti. Er þá tekið fram í útmælingu, að þetta sé viðbót við kaupstaðarlóðina, eins og hún var ákveðin 1787. Þar má sjá, að Reykjavík hafði eignazt Arnarhólstúnið. En Reykjavík fékk það aldrei. Fyrst mun hafa verið þumbast við að afhenda það, vegna þess að tugthúsið hafði nytjar þess. En eftir að tukthúsið var lagt niður, og stiftamtmenn sölsuðu undir sig túnið, mun það ekki hafa legið lausara fyrir. Um þetta segir Jón biskup Helgason (1916): „Afleiðingin hefir því orðið sú, að kaupstaður vor hefir nú í senn 130 ár verið látinn kaupa háu verði af landstjórninni hverja feralin í þessu túni, sem sannanlega var honum í upphafi gefið af konungi, og því kaupstaðarins ótvíræð eign”.

Mannvirki á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – virki um 1880.

Einn kaflinn í sögu Arnarhóls er um Batteríið. Honum hefi eg áður gert skil í greininni „Víggirðingar Reykjavíkur” (í bókinni Fortíð Reykjavíkur). En oft hefir verið talað um að byggja stórhýsi á Arnarhóli. Þegar latínuskólinn skyldi flytjast frá Bessastöðum til Reykjavíkur, vildu margir að hús yrði reist handa honum þar. Ýmsir smámunir réðu, að ekki varð úr því Þegar reisa skyldi alþingishúsið, var talsverður áhugi fyrir því, að það skyldi standa á Arnarhóli, og var fyrst ákveðið að setja það þar, en hætt við „eftir allskonar þref, deilur og undirróður”, segir Klemens Jónsson. Var svo byrjað á byggingu þess rétt fyrir ofan Stjórnarráðið, en þegar Bald yfirsmiður kom, harðneitaði hann að reisa það í halla. Varð það því úr, að því var „holað niður í kálgarð” niðri í miðbænum. Og þegar rætt var um byggingu landspítala, vildu sumir að hann stæði á Arnarhóli, en ekkert varð úr því.

Arnarhóll

Arnarhóll – stytta af Ingólfi Arnarssyni.

Það mun hafa verið í janúar 1863, að Jón Árnason þjóðsagnaritari hreyfði því fyrstur manna, að Íslendingar ætti að reisa Ingólfi Arnarsyni minnismerki, og skyldi það standa á Arnarhóli, þar sem öndvegissúlur hans komu á land. Þetta líkneski kom 1931 og stendur nú þar sem gamli bærinn var. Traðirnar og túngarðurinn Arnarhólstraðir og garðurinn mikli umhverfis túnið, eru samstæður, og verður ekki um annað skrifað án þess minnzt sé á hitt.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Í Grágás er svo fyrirmælt, að hver maður skuli gera löggarð um töðuvöll sinn. Og í Jónsbók segir: „En það er löggarður, er 5 feta þykkur er við jörð niðri, en þriggja ofan; hann skal taka í öxl þeim manni af þrepi, er hann er hálfrar 4. alnar hár”. Björn M. Ólsen færði rök að því í grein í Árbók Fornleifafélagsins 1910, að forn íslenzk alin hafi samsvarað 49.143 sentimetrum. Sá maður, sem var hálf fjórða alin á hæð, hefir því verið 172 sm hár, og mun þar vera miðað við meðalmann. En sé gert ráð fyrir að hæðin frá öxl á hvirfil sé 28 sm, þá hefir löggarður átt að vera 144 sm á hæð. Og slíkur garður hefir eflaust einhvern tíma verið um Arnarhólstún.
Nú segir enn í Jónsbók, að ef þjóðgata liggi um bæ manns, eða að garði, þá megi maður færa hana frá bæ sínum og gera aðra jafngóða, ef hún sé ekki lengri en 240 faðmar. En ef þjóðvegur liggur að garði, og verður ekki færður, þá á þjóðhlið að vera á garðinum, 4 1/2 alin á breidd, en þjóðgata er 5 alnir. Fyrir hliðinu skal vera hjaragrind og rimar í, svo að fé smjúgi ekki á milli, okar tveir á endum og krossband á. Það er löggrind og skal setja hana svo að hún falli sjálf aftur, ef ríðandi maður opnar hana. Ekki verður nú vitað hvort slík grind hefir verið í þjóðhliðinu á Arnarhólsgarði, né hvenær traðirnar hafa verið gerðar. En þær voru til þess að fé og gripir kæmist ekki í túnið, enda þótt inn fyrir hliðið færi. Traðirnar skiptu sem sé túni Arnarhóls í tvo afgirta hluta, eða svo hefir verið á seinni öldum. En auðvitað gat grind líka verið þar í þjóðhliði.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingar um elstu götu Reykjavíkur.

Engar upplýsingar eru til um það hvenær vörzlugarður var settur þarna fyrst, en það getur verið nógu gaman að reyna að geta í eyðurnar stundum. Og þá finnst mér líklegt, að mikið æðarvarp hafi verið á Arnarhóli, er Ingólfur kom hingað, eða eggver, eins og það var kallað. Reykjavíkurbændum hafi snemma þótt nauðsyn til bera að friða þetta eggver, einkum þar sem um það lá eina leiðin til bæarins. Eggver verður líka að friða fyrir búfé, ef varp á að haldast þar. Er því ekki ósennilegt, að þegar á fyrstu árum byggðarinnar í Reykjavík hafi verið hlaðinn vörzlugarður umhverfis hólinn og hafi hann náð utan frá sjó upp að þjóðveginum, og síðan meðfram honum niður að lækjarósnum. Þegar fram í sótti hefir svo varpið gengið úr sér, því að forfeðrum vorum hætti við að stunda rányrkju. Og eftir svo sem 100—200 ár, er svo komið, að varpinu er lokið, og þá hefir einhverjum litist það heillaráð að reisa bæ þarna innan girðingar og á túni, sem fuglinn hafði ræktað. Síðan bætir bóndinn við sig annarri skák og girðir hana löggarði frá þjóðveginum suðvestur að læknum og hleður svo garð samhliða þeim garði er lá meðfram þjóðveginum og þó svo langt frá, að þjóðvegarbreidd sé á milli. Hann mátti ekki loka þjóðgötunni, og ekki gat hann heldur fært hana. Þess vegna varð hann að hafa tvöfalda girðingu meðfram henni. Við þetta myndast svo traðirnar í gegn um Arnarhólstún.

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir á miðri mynd h.m.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, að vegurinn um þessar traðir er elzti þjóðvegur á Íslandi. Þessa leið hefir Ingólfur Arnarson komið til hins fyrirheitna staðar. Lækurinn úr Reykjavíkurtjörn, sem kallaður var Arnarhólslækur, hefir þá máske verið vatnsmeiri heldur en síðar varð, og hann var ófær alls staðar nema á vaðinu við ósinn. Þjóðleiðin til Reykjavíkur og vestur á Seltjarnarnes lá því þarna um nær 1000 ára skeið, eða frá landnámstíð fram til ársins 1866, þegar steinbrú var gerð á lækinn og Bankastræti rutt, svo að þar varð fær vegur.” – Á.Ó.

Í “Húsakönnun og fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn“, Minjasafn Reykjavíkur 2005, er fjallað um Arnarhól:

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir v.m.

“Arnarhóllinn hefur í gegnum aldirnar verið einn af miðpunktum Reykjavíkur. Sunnan í hólnum liggur fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar. Af þykkum mannvistarlögum, sem er að finna á stórum hluta hólsins, má draga þá ályktun að þar hafi verið búið fljótlega eftir að Ísland byggðist. Elstu jarðlög sem gefa til kynna byggð á hólnum eru eldri en gjóska sem féll 1226.
Í rituðum heimildum er Arnarhóls og byggðarinnar þar sjaldan getið. Elsta frásögn af hólnum er frá 16. öld og virðist Arnarhólsjörðin þá vera sjálfstæð eign. Í heimildum kemur fram að jörðin er í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina.

Reykjavík

Reykjavík 1936.

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson skoðaði kirkjuna í Reykjavík og áhöld hennar árið 1642 kemur fram að Arnarhóll tilheyrði Reykjavíkursókn og að jörðin var þá eign konungs. Þetta kemur einnig fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703.
Árið 1786 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og uppmæling gerð á Reykjavíkurlóðinni 1787. Í skjalinu vegna uppmælingarinnar kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan Reykjavíkurlóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavíkurborg síðar meir að kaupa jörðina. Bæjarlandið var stækkað í febrúar 1835 er ýmsum bújörðum í nágrenninu, þar á meðal Arnarhóli, var bætt við það. Upp frá því hefur Arnarhóll tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Klöpp.

Ábúendur Arnarhóls hafa verið margir í gegnum tíðina. Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tukthúsið var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og um það bil hálfri öld síðar var býlið orðið mjög hrörlegt. Ástæðurnar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tukthússins og smám saman fengu einnig hinir ýmsu embættismenn tukthússins jörðina til eigin afnota.
Arnarhóll
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í rituðum heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, f. 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns bjó Tómas á hálfri jörðinni og Jón hálfri. Heimilsmenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Innibúandi hjá Tómasi voru einhleypur húsmaður og tómthúsmaður með konu og barni. Hjá Jóni bjuggu tveir tómthúsmenn og húsi þeirra hélt Jón við. Samkvæmt þessu voru því íveruhúsin að minnsta kosti tvö á býlinu.
Kvaðir Arnarhólsbænda voru að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist, jafnt á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tvær dagsláttur í Viðey á ári, einn á hvorn bónda, og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsagerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.

Arnarhóll

Arnarhóll – 17. júní 1948.

Sonur Tómasar og Guðrúnar, Jón Tómasson (f. 1687, d. 1754), bjó á Arnarhóli um nokkurt skeið eftir að foreldrar hans brugðu búi. Gissur lögréttumaður Jónsson (sonur Jóns Tómassonar), bjó síðan á Arnarhóli eftir föður sinn. Hann fluttist nauðugur af jörðinni árið 1768 að beiðni Guðmundar Vigfússonar, ráðsmanns í tukthúsinu, en eins og áður sagði fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli upp frá þessu. Ábúendur sátu þar yfirleitt skamma hríð eftir þetta og voru fjölskyldurnar sjaldnast tengdar innbyrðis eins og áður. Guðmundur Vigfússon lét af ráðsmennsku tukthússins árið 1786 og við starfinu tók Gunnar Sigurðsson til bráðabirgða í eitt ár. Henrik Scheel tók síðan við ráðsmannstarfinu árið 1787.

Arnarhóll

Sölvhóll – teikning Jóns Helgasonar, biskups. Klöpp fjær.

Við ráðsmannsskiptin voru gerðar úttektir á Arnarhólsbýlinu, sú fyrri í maí 1786 og sú seinni í júní 1787. Úttektunum ber nokkurn veginn saman hvað varðar innihald en í þeim kemur fram að býlið var í mikilli niðurníðslu og ítrekað nefnt að viðgerð sé nauðsynleg. Baðstofan mældist við úttektina aðeins 10 álna löng og 3 3/4 álna breið. Göng frá baðstofu voru 3 álna löng og 2 álna breið. Skálinn mældist 12 álna langur og 4 álna breiður. Eldhúsið var 8 álna langt og 4 álna breitt, nokkuð viðgert. Íbúðarhúsið virðist því samkvæmt þessu hafa verið gangabær, sem var ráðandi byggingarstíll á Íslandi fram á 18. öld. Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar, sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830 og er talin hafa verið fyrsta fyrirsæta á Íslandi.

Arnarhóll

Sölvhóll 1843.

Við upphaf 19. aldar þótti Reykjavík ekki bera neinn sérstakan höfuðborgarsvip og lítið bar einnig á fegurð staðarins. Landslagið þótti þó bjóða upp á ýmsa möguleika en húsakynni íbúa voru aftur á móti í mikilli vanhirðu. Fegrunarátak var þá sett í gang og eitt af byrjunarverkefnum var að rífa Arnarhólsbýlið. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því árið 1828 og þótti það mikið og gott framlag til fegrunar Reykjavíkur. Arnarhólsbýlinu er lýst þar sem kofaþyrpingu eða rústum, sem voru til mikillar óprýði, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg þau seinustu ár sem þau voru í notkun. Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Árið 1916 kom Guðmundur Hannesson með þá hugmynd að reisulegar byggingar nytu sín vel efst á hólnum. Þessi hugmynd fékk lítinn hljómgrunn hjá bæjaryfirvöldum í Reykjavík á þeim tíma. Um svipað leyti kom danski arkitektinn Alfred Raavad með þá hugmynd að reisa útsýnisskála á hólnum, áþekkum þekktum skála í Kaupmannahöfn. Þessi hugmynd fékk einnig litlar sem engar undirtektir. Ákveðið var síðan að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum. Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan afhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson myndhöggvari. Hugmyndin var þó ekki ný því á fundi Kvöldfélagsins árið 1863 lagði Jón Árnason fram tillögu þess efnis að Ingólfi Arnarsyni yrði reistur minnisvarði á Arnarhóli. Sigurður Guðmundsson, málari vakti einnig máls á þessu í Þjóðólfi árið 1864 og vildi hann að þetta yrði framkvæmt árið 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi.”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 21.09.1958, Úr sögu Arnarhóls, bls. 457-462.
-Húsakönnun og fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn, Minjasafn Reykjavíkur 2005.

Arnarhóll

Arnarhóll um 1930.

Öskjuhlíð

Í Morgunblaðinu árið 1997 er fjallað um “Öskjuhlíð – margþætta útivistarperlu“:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð og nágrenni – örnefni.

Öskjuhlíðin er ein meginprýði Reykjavíkur, en samt mun staðreynd að tvö orð munu öðrum fremur koma upp í huga margra er nafnið ber á góma: Perlan og ólifnaður. Það er mikil einföldun, því Öskjuhlíðin er ein glæsilegasta útivistarperla höfuðborgarbúa, auk þess að vera lifandi og nærtæk kennslustofa í jarðfræði, fuglafræði og grasafræði íyrir fólk á öllum aldri. Guðmundur Guðjónsson fletti upp á ýmsum staðreyndum um Öskjuhlíðina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

“Ímynd Öskjuhlíðarinnar hefur farið batnandi hin síðustu ár og má segja að ekki hafi veitt af, en margt hefur verið gert til að laða fremur fólk að í stað þess að fæla frá sem orðsporið gerði um skeið.
Ef litið er fram hjá Perlunni, er það skógurinn sem við mönnum blasir í Öskjuhlíð og gefur henni þann sterka svip sem raun ber vitni. Það er og skógurinn sem laðar að borgarbúa til útivistar, auk þess að þar er afar skjólsælt í sólaráttinni úr norðri.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Skógurinn er síðari tími fyrirbæri, en Öskjuhlíðin sjálf á sér allmiklu lengri sögu, en í rúnum hennar er rist fjölbreytt jarðsaga seinni hluta ísaldar á Íslandi. Þannig var Öskjuhlíðin eyja fyrir 10.000 árum er sjávarstaða var hærri en hún er í dag. Sæbarðir og slípaðir hnullungar og jökulurð sem liggur eins og baugur á þykkum fingri í 43 metra hæð yfir sjó er til vitnis um þær umbyltingar og breytingar sem orðið hafa á landinu í aldanna rás.
Bergrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti sem er hraun sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Síðar meir sótti kuldinn í sig veðrið og jöklar huldu landið á nýjan leik og er þeir hopuðu með hlýnandi veðri skapaðist Öskjuhlíðin í þeirri mynd sem þekkt er í dag.

Jökulrispur

Jökulrispur.

Jökulskrapaðar grágrýtisklappir víða á svæðinu segja þessa sögu og annað kennileiti er til marks um nýjar breytingar með hlýnandi veðri. Þá hopaði jökullinn og elti. Mynduðust þá Fossvogsbakkarnir við norðanverðan Fossvog, en í þeim eru steingerðar leifar skelja, kuðunga og fleiri sjávardýra er þá voru uppi. Yfirleitt lifa sömu tegundir enn í dag þannig að ástandið til lands og sjávar á þessum tíma hefur verið líkt og nú. Álitamál er hins vegar hvort að þessi lög hafi orðið til á síðasta hlýskeiði ísaldar eða í lok síðasta jökulskeiðs sem hófst fyrir 70.000 til 120.000 árum og lauk fyrir um 10.000 árum. Land reis þegar jökullinn gaf eftir og þá færðust fjörumörkin heldur betur upp á við eins og frá var greint hér áðan.
Það hefði verið fróðlegt yfir Reykjavíkursvæðið að líta á þessum tímum. Þá voru Öskjuhlíð og Háaleyti eyjar og topparnir á Laugarási og Rauðarárholti sker! Á næstu þúsund árum lækkaði sjór hins vegar á ný og núverandi fjörumörk náðust. Við erum ekki að tala um langan tíma í jarðsögulegum skilningi þó mannsaldrarnir séu óteljandi og því er óhætt að segja að mikið hafi gengið á.

Tré, plöntur og fuglar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Á fimmta áratugnum fór að vakna til vitundar með þjóðinni nauðsyn á opnum svæðum, útivistarsvæðum, þar sem menn gætu unað, enda færðist mjög í aukana nokkuð sem áður var framandi með mönnum hér norður í höfum, þ.e.a.s. frístundir.
Heiðmerkursvæðið var friðað árið 1948 og menn létu ekki þar við sitja, heldur litu í kring um sig eftir fleiri valkostum. Ræktunarsaga Öskjuhlíðar hófst um þetta leyti og árið 1950 fór Einar G.E. Sæmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, með tilbúinn áburð og mokaði honum á melkoll einn ofarlega í Öskjuhlíðinni. Árangurinn lofaði góðu og í kjölfarið var farið að sá grasfræi og gera hinar og þessar athuganir á svæðinu. 1951 kom fyrsta ákvörðunin um ræktun trjáa og þá í norður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Fleira var og í farvatninu, m.a. göngustígagerð og verndun svæðisins. Frá upphafi hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið straum af kostnaði við ræktunina, en Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með henni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Hundruð þúsunda trjáa hafa verið gróðursett í Öskjuhlíð sem er að stórum hluta skógi vafin. Skilyrði virðast góð, enda reyndust hæstu plöntur við mælingu árið 1991 vera yfir 9 metrar. Var það sitkagreini, en bergfurur voru þá um 5 metrar og aspir um 7 metra háar. Auk þess er birki algengt og í góðri grósku. Alltaf eru að finnast nýjar plöntur í Öskjuhlíð, svona ein og ein, en árið 1993 höfðu fundist 135 tegundir háplantna sem er um þriðjungur íslensku flórunnar.

Brandugla

Brandugla.

Mikið fuglalíf þrífst einnig í hlíðinni, bæði í skóginum og á annars konar búsvæðum sem þar er einnig að finna. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíð og um tugur verið árvissir varpfuglar. Sumir varpstofnarnir eru mjög stórir, s.s. stofnar skógarþrastar og auðnutitlings. Þannig voru um 120 þrastarpör er skarinn var talinn af kunnáttumönnum sumarið 1992. Þá voru auðnutitlingspör um 60 talsins. Sama sumar voru talin vera 5 stokkandarpör verpandi, tvö tjaldspör, þrjú sandlóupör, þrjú heiðlóupör, sjö til tíu stelkspör, tíu til fimmtán hrossagaukspör, fimmtán til tuttugu þúfutitlingspör og tvö til fimm starapör, auk þrasta og auðnutitlinga sem áður er getið um. Þá hefur hrafn oft verpt eða reynt varp. Hann er þó ekki árviss varpfugl.
Auk varpfugla má sjá margt skrítið og skemmtilegt. Þannig vita trúlega fáir að allt að 3-4 branduglur veiða mýs í Öskjuhlíð á vetrum, einkum í skóginum vestan í hlíðinni og algengt er að sjá kanínur á flækingi. Uppruni þeirra mun sá að gæludýraeigendur missa áhugann eða sjá aumur á dýrunum í prísundinni og gefa þeim frelsi með það að leiðarljósi að betra sé að lifa skemur í frelsi en lengi í prísund.

Minjar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Auk skóglendis með tilheyrandi fuglalífi og tækifæri til náttúruskoðunar á mjög víðu sviði er að finna á þessum slóðum margskonar minjar, ekki síst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Má þar nefna skotgrafir, víghreiður og fleira sem átti að skjóta þýska hernum skelk í bringu ef hann vogaði sér að renna hýru augu hingað norður. Á þennan hátt mætti lengi halda áfram, því það er í raun ótæmandi að nefna hvað hægt er að skoða í Öskjuhlíð. Það er því ekki að undra þótt þeim fjölgi mjög frá ári til árs sem eyða æ fleiri auðnustundum í og við Öskjuhlíð.”

Í Morgunblaðinu árið 2013 er fjallað um “Stríðsminjar á hverju strái”:

Öskjuhlíðin er ævintýraland;  menningarsaga frá merkum tímum, skotbyrgi og niðurgrafin stjórnstöð. Hlíðin er vinsælt útivistarsvæði.

“Í Reykjavík eru sérstæðar söguslóðir inni í miðri borg. Stundum þarf nefnilega ekki að leggja land undir fót eða heimsækja staði þar sem hin opinbera saga hefur gerst eða er uppfærð á safni svo hverfa megi inn í nánast aðra og framandi veröld. Og það er gott innlegg í græna framtíð að labba um fallega staði í næsta nágrenni við sig og hverfa aftur til fortíðar og forvitnilegra sagna.

Til að verjast Þjóðverjum

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Þeir sem fara um Bústaðaveginn veita líklega ekki mikla athygli tveimur steyptum skotbyrgjum skammt fyrir vestan Veðurstofuna. En þarna blasa þau við og eru um 100 metra frá vegarbrún. Eru að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er allstór rauf, þar sem byssumenn búnir til bardaga höfðu gott útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940. Herliðið með þúsundum dáta tók brátt til óspilltra mála við framkvæmdir, meðal annars við flugvallargerð í Vatnsmýri. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 1941 og hafði mikla þýðingu fyrir breska herliðið. Hlutverk þess var fyrst og síðast að verjast Þjóðverjum og í því efni var flugvöllur nauðsyn. Þó sást á stríðsárunum aðeins tvisvar til þýskra flugvéla frá Reykjavík. Eigi að síður þótti allur varinn góður. Því voru reist skotbyrgi víða um Öskjuhlíð og raunar víðar um bæinn.

Flóð brennandi eldsneytis

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – veggur til varnar olíuleka.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir ofan Keiluhöllina er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Borgin er átta metrar á hvern kant og inn í byrgið er gengt um yfirbyggðar töppur sem eru hvorar á sínum gafli. Og þar inni ætlaði yfirstjórn herliðs Breta að hafast við ef kæmi til stórfelldrar árásar á flugvöllinn. Svo fór ekki, en rammgert byrgið stendur þó enn. Betra er þó að fara með gát smokri fólk sér þar niður og þá er nauðsynlegt að hafa vasaljós.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – neyðarstjórnstöð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum, sem enn stendur í Öskjuhlíðinni, er grjótveggur sem er vestarlega í hlíðinni, út undir Nauthólsvík. Hann var reistur árið 1944, er nokkuð á annað hundrað metrar á lengd og tveir til þrír metrar á hæð. Er úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Virkið þurfti líka að vera traust, að baki því voru þrír stórir eldsneytisgeymar og áttu veggir þessir að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á takana. Þeir voru teknir niður fyrir margt löngu, en veggurinn stendur enn falinn inni í þykku skógarrjóðri. Væri vel þess virði að við hann yrði komið upp merkingum eða söguskilti sem og við aðrar stríðsminjar í Öskjuhlíð.”

Heimildir:
-Morgunblaðið 01.06.1997, Öskjuhlíð – margþætt útivistarperla, bls. 6B-7B.
-Morgunblaðið 25.04.2013, Stríðsminjar á hverju strái, bls. 9.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.

Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um “Trölladyngjur” í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

“Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: “Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.” Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.” (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln”. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner” (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.” (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands” (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá”. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.” Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: “Húsrið og manndauði”, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum” og „Húsrið og manndauði.” Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum”. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: “Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.” Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni” gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: “Hraun rann” á undan setningunni: „allt til hafsins” þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.”

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.”
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.” Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.”

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi”, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.”
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,” og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.”
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.” Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.” Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð”, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

“Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.”
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
“Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar”.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í “Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: “Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): “Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.”
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

“Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.”
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir “Klofningar”.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.” Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: “…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.” Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

“Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.”

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri”. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: “Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.”

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

“Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.”
“Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað”.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

“Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.”

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.

Búrfell

Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu “Búrfell”?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um “Búrfell” á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
“Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Hvaða búr er um að ræða?

Bær

Bær og útibúr.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.

Búrfell

Hjallur.

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell

Búr.

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Búrfell

Búrhvalur.

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.

Í sömu bók segir:

Búrfell

Langreyður.

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Búrfell

Sandreyður.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Búrfell

Steypireyður.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Búrfell

Búrfell í Rogan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um “búr” og “útibúr”.

Burfjell í Noregi

Búrfell

Búrfell í Fusa.

Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.

Stapi

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.

Niðurstaða

Búrfell

Búrfell í Ölfusi – loftmynd.

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.”

Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

“Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins “búr” í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita “bars” á ensku og “barer” á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku “barra”.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.

Ennfremur finn ég fornnorræna orðið “burr”, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um “borr” eða “borre” í fornnorrænu.

Loks finn ég “búrr” notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: “Óðins búrr”. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við “að framfæra” sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít “bâras”.

FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið “Kistufell” tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið “Búrfell” líkt og örnefnið “Húsfell”?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. “Bæjarfellin” eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…

Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/

Búrfell

Búrfellin – kort.

Selvogsheiði

Í “Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju“, er kafli eftir Finn Jónsson undir yfirskriftinni “Bæjarnöfn á Íslandi”. Þar fjallar hann m.a. um hugtökin “sel” og “stekk“:

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

sel
merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki margt manna að jafnaði. Almennt var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum.
En nöfnin eru [þó] mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.

Ottarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

stekkr
er samskonar nafn og Fjós og uppruninn víst hinn sami, bær eða kot byggt upp úr stekk eða við gamlan stekk.
Nöfnin eru tiltölulega ekki svo fá: Eint. Stekkr V. VI. IX. XII. XIII. XV (-inn). Flt. Stekkar V (3; 3) -ir, AM).”

Í “Hinni fornu lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás“, 2.b., er kafli um “afrétt” þar sem hugtakið sel kemur við sögu, sbr. “Of afrettu“, XXXVI. Capituli, bls. 302 (illlæsilegur nútímafólki):

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

“Eigi scal sel göra i afrett. 2) Ef gört er pa er sel oheilact, oc eigo þeir at briota sel er afrett eigo, enda verdr sa utlagr er sel gördi, eda göra let, vid þa alla er afrett eigo, oc sinni utlegp vid hvern þeirra.
Engi madr scal beita afrett þær vicor II er a midil ero pess er YI vicor ero af sumri oc YIII vicor ero af sumri. Þeir menn er næstir bua afrett eigo at beita avalt afrett hufe sino, nema fra þvi er VI vicor ero af sumri, oc til þess annars dags vico er IY vicor lifa sumars, þvatdaginn apr. Ef menn heita afrett þær vicor 3) er fra ero scildar, þat vardar oc utlegd vid hvern þeirra manna er þann afrett a. Þat vardar oc utlegd, ef menn heita afrett or seliom, 4) [vid hvern] þeirra manna er þann afrett eigo.”
Hér að framan kemur fram að byggi maður sel í afrétt annars skal hann útlægur verða, sýnist þeim svo.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlutaðeigandi ákvæði styrkir verulega þá tilgátu Ómars Smára Ármannssonar, fornleifafræðings, að bændur byggðu oftlega selstöður sínar í jaðri jarða þeirra m.a. til að undirstrika eignarhald þeirra. Ómar birti þessa kenningu sína að undangenginni viðarmikilli skoðun á “Seljum vestan Esju” og birtist í samnefndri BA-ritgerð hans við Háskóla Íslands. Frá því að ritgerðin var gerð árið 2004 hefur hann uppgötvað enn fleirri sel á svæðinu er staðfesta enn frekar þessa kenningu hans.

Í “Skýringum yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast“, Landslb 12, bls. 635, er fjallað um sel og selfarir:

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

“4) er það víst, að ekki skyldi þá ætla kúm fóður, er skyldugt var í sel að færa úr húshaga, því þá væri ómögulegt að vænta; selhagar skydlu þá grónir á fjöllum uppi, er kúm þyrfti fóður í bygð að ætla; og einn ómögulegra, að verða flytja hey til sels, og mega ei gefa þau í vetrarhús sín, ef ei væru grónir selhagar. Nú er þafi ljóst af Llb. 24.3, hafi skylt er í sel að færa, þegar 2 mánuðir eru af sumri, það er í 9. viku sumar, því alt mánaðatal skal vera þrítugnætt éptir tilætlun lögbókarinnar, eins og áður hefi eg sýnt með rökum um erfitt „tvímánuður“, og þar má lesa, af hverju öllu hugleiddu það eptir fylgir, að þíng þetta, sem Llb. cap. 12. talar um, skuli vera fyrr á vorin, en skyldugt er í sel að fara. Á þess hér að gæta, að þegar lögbókin kom hingað anno 1280, voru liðin ein 17 ár frá því, er Grágás gekk hér fyrir lög, og þess vegna öllum í fersku minni, hafi sein eptir hennar bofiorfium hafið verið lángvarandi venja.”

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Bent skal á að víða á vefsíðunni er fjallað um sel og seljabúskap á Reykjanesskaganum, allt þangað til hann var aflagður í lok 19. aldar.

Heimildir:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju, “Bæjarnöfn á Íslandi” – Finnur Jónsson, 4. bindi, bls. 474-475.
-Hin forna lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás, 2.b., “Of afrettu”, XXXVI. Capituli, bls. 302.
-Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, Landslb 12, bls. 635.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

 

Höfðaskógur

Hörður Zóphaníasson tók viðtal við formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er birtist í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu, árið 1964 undir fyrrisögninni “Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann“:

“Jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar hafði hug á að kynna fyrir lesendum sínum Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og heimsótti því formann félagsins, séra Garðar Þorsteinsson, og lagði fyrir hann ýmsar spurningar um skógræktarstarfið. Séra Garðar leysti greiðlega úr öllum spurningum um skógræktina í Hafnarfirði, og gefum við honum hér með orðið.

Garðar Þorsteinsson

Garðar Þorsteinsson.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað hinn 25. október 1946. Það ár var Skógræktarfélagi Íslands breytt í samband héraðsskógræktarfélaga og sérstakt skógræktarfélag stofnað hér. Fyrsta stjórn félagsins skipuðu þessir menn: Ingvar heitinn Gunnarsson kennari, sem var formaður, Jón Magnússon frá Skuld, Jón Gestur Vigfússon, sparisjóðsgjaldkeri, Gunnlaugur heitinn Kristinsson, kennari og sandgræðslustjóri, og Þorvaldur heitinn Árnason skattstjóri.
Fjórir menn hafa fram að þessu gegnt formannsstörfum í félaginu: Ingvar Gunnarsson 1946—’49, Þorvaldur Árnason 1949—’54, Jón Gestur Vigfússon 1954—’58 og sr. Garðar Þorsteinsson frá 1958 til þessa dags.
Árið 1935 var komið upp svonefndri Skólagirðingu í Undirhlíðum, um 12 ha. svæði innan hennar. Börn úr efsta bekk barnaskólans önnuðust þar gróðursetningu fyrir forgöngu þeirra Ingvars Gunnarssonar kennara, Hákonar Helgasonar kennara og Guðjóns Guðjónssonar skólastjóra.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun.

Aðalgróðursetningin fór þar fram á árunum 1937—1939. Árangurinn af þessu skógræktarstarfi hefur orðið mjög góður. Hæstu sitkagrenin eru nú 5 til 7 m há. Á þessum tíma hefur landið batnað stórlega og hefur þetta komið skýrt í ljós: Í fyrsta lagi, að víða þarf ekkert að gera til að hefta uppblástur annað en girða landið, og í öðru lagi hefur orðið þarna stórfelld gróðurfarsbreyting. Til dæmis er svæðið innan girðingar blátt af blágresi fyrri hluta sumars, en utan girðingar er ekki blágresi að sjá. Blágresið hefur djúpar rætur og hjálpar mjög til við að bæta jarðveginn. Þetta sama er einnig að koma í ljós í öðrum girðingum skógræktarinnar. Skólagirðingin gekk fljótt úr sér og var ekki gripheld í mörg ár. Þá fór þessi trjágróður ákaflega illa og furðulegt, að hann skyldi ná sér aftur svo sem raun ber vitni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Árið 1952 samdist svo milli bæjarstjórnarinnar og Skógræktarfélagsins, að félagið tæki við þessari girðingu og sæi um hana framvegis. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar lét setja nýja girðingu þarna 1955. Þessi girðing segir bezt til þess, hvers vænta má. Bendir allt til, að trén þarna geti orðið allt að 20 m há. Skólabörnin unnu líka að gróðursetningu í Sléttuhlíð, en svæðið, sem þau gróðursettu í þar, var síðar úthlutað undir sumarbústaði.
Ári eftir stofnun Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fær félagið land frá Hafnarfjarðarbæ í Gráhelluhrauni. Var það 8 ha. á stærð. Strax var hafizt handa, svæðið girt og gróðursetning hafin. Árið 1949 er svo Gráhelluhraunsgirðingin stækkuð um 30 ha og er hún því nú 38 ha. að stærð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Árið 1957 fær Skógræktarfélagið 35,2 ha. land við Hvaleyrarvatn og er það girt sama ár. Ári síðar, 1958, er stóra girðingin gerð í Stóraskógarhvammi í Undirhlíðum, en innan hennar er 67 ha. svæði. Í Stóraskógarhvammi eru síðustu leifarnar af hinum víðáttumikla birkiskógi, sem upphaflega klæddi allar Undirhlíðar. Þegar girt var, voru þar um 4 m háar birkihríslur á nokkrum stöðum og samfellt birkikjarr á stóru svæði. Nú er gert ráð fyrir því, að á þeim hluta landsins verði eingöngu ræktaður birkiskógur og gamli birkiskógurinn þannig endurnýjaður.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóriskógarhvammur.

Loks var árið 1961 þriðja svæðið girt í Undirhlíðum. Það svæði er 60 ha og nær frá Skólagirðingunni og norður undir Kaldá. Höfuðáhugamál félagsins hefur undanfarin ár beinzt að því að girða sem mest, til þess að bjarga landinu frá eyðileggingu ofbeitar. Afgirt land Skógræktarfélags Hafnarfjarðar nú er 212 ha. Samanlögð lengd girðinga félagsins er 14 1/2 km. Í dag mundi það kosta 700 þúsund krónur að koma þessum girðingum upp.
Búið er að gróðursetja í 43,8 ha. af þessu landi félagsins. Þegar Skólagirðingin er frátalin, hefur verið plantað í þetta rúmlega 200.000 trjáplöntum. Mestur hluti þessara plantna er barrviður, svo sem sitkagreni, blágreni, broddgreni, rauðgreni, sitkabastarður, hvítgreni, skógarfura, bergfura, stafafura og lerki. Þá hefur verið plantað allmiklu af birki og verður það gert hlutfallslega meira síðar. Einnig hefur verið plantað út lítið eitt af öðrum trjátegundum. Allmikið af þessu starfi hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, einkum fyrstu árin. En síðustu átta árin hefur félagið haft einn fastan starfsmann sumarmánuðina, og sum árin tvo. Það starf hefur einkum verið fólgið í gróðursetningu, áburðargjöf, jarðabótum og viðhaldi á girðingum félagsins.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Árið 1959 kemst sá háttur á, að vinnuflokkur frá vinnuskólanum í Krýsuvík hefur það verkefni meðal annars að vinna að gróðursetningu í Undirhlíðum. Á árunum 1959 til 1962 vinna unglingar og börn úr vinnuskólanum að gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra og Helga Jónassonar yfirkennara. En síðastliðin 2 sumur unnu nokkrir hafnfirzkir unglingar að gróðursetningunni undir stjórn kennaranna Guðmundar Þórarinssonar fyrra sumarið, en Björns Ólafssonar og Pálma Ágústssonar sl. sumar og kostaði Hafnarfjarðarbær vinnu unglinganna.

Skógrækt

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við gróðursetningu í Stóraskógarhvammi um 1962.

Allmikið af landi Skógræktarfélagsins er enn ekki hæft til gróðursetningar. Sums staðar eru melar og blásin börð, sem verður að græða. Þar verður að hjálpa náttúrunni til, og ætlum við Alaskalúpínunni þar mikið hlutverk. Hún er sannkölluð undrajurt, vinnur áburð úr loftinu og skilar honum í jarðveginn. Félagið hefur gert tilraunir með hana, sem lofa góðu. Nú þegar klæðir hún heila mela og undirbýr þá undir annan gróður.
Rotaryfélög í Noregi hafa í nokkur ár, eða frá 1959 til 1962, sent félaginu trjáplöntur að gjöf, aðallega bergfuru. Árið 1959 gróðursettu Rotaryfélagar þær trjáplöntur, sem þannig bárust. Alls hafa verið gefnar frá Noregi 42.500 bergfurur og 14.000 sitkagreni.
Góðtemplarar hafa í allmörg ár farið í gróðursetningarferð einu sinni á ári. Góðtemplarareglan í Hafnarfirði verður vafalaust fyrst til að fá ákveðið land innan girðinga Skógræktarfélagsins, sem hún hafi allan veg og vanda af. Vonandi mun svo verða Ingvar gunnarsson kennari um fleiri félög síðar.
Skógrækt
Árið 1958 voru höggvin tré úr elztu girðingunni og gefin í kirkjurnar í Hafnarfirði, í barnaskólann, á ráðhúsið, að Bessastöðum og víðar. Trén voru allt að 4 1/2 m á hæð. Þetta ár var líka höggvin bergfura og seld í verzlanir. Síðastliðið ár var enn grisjað, og bílhlass af greni og furu var selt í verzlanir fyrir jólin. Nú er búið að girða um helminginn af Undirhlíðunum frá Vatnsskarði norður að Kaldá. —
Hugmyndin er, að nytjaskógi verði komið upp í Undirhlíðum, enda er landið þar vel til þess fallið. Hvaleyrarvatnsgirðingin og Gráhelluhraunsgirðingin eru hins vegar fremur hugsaðar sem skemmtigarðar en skógur. Þær eiga að verða eins konar Heiðmörk Hafnfirðinga, griðland þeirra og hvíldarstaður.
Skógrækt
Árið 1953 barst félaginu dánargjöf frá systkinunum Gunnlaugi Kristmundssyni og Ingibjörgu Kristmundsdóttur, að upphæð 22 þúsund krónur. Gert er ráð fyrir, að gerður verði minningarreitur um þau systkinin í Hvaleyrargirðingunni. Frá því 1958 hafa verið gróðursettar 143.730 skógarplöntur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Stjórn félagsins skipa nú: séra Garðar Þorsteinsson formaður, Páll Daníelsson ritari, Haukur Helgason gjaldkeri. Aðrir í stjórn eru: Jón Magnússon, sem setið hefur í stjórn félagsins frá upphafi, Ólafur Vilhjálmsson, Guðmundur Þórarinsson og Helgi Jónasson.

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Þú spyrð um framtíðarhorfur í skógræktarmálum. Eg get ekki betur séð, en sú reynsla, sem þegar er fengin, gefi góðar vonir. Því er ekki að neita, að eitt og annað hefur valdið vonbrigðum. Til dæmis var fyrstu árin gróðursett allmikið af skógarfuru. En mikið af henni er dautt, og eins fer um það, sem eftir er, vegna þess, að ekki hefur enn tekizt að gera þær bjöllur landlægar hér, sem halda í skefjum lúsinni, sem á hana sækir. Eins urðum við fyrir nokkrum skakkaföllum í hretinu vorið 1962, þótt það tjón væri minna en við var að búast. Þá hefur grenilúsin valdið nokkru tjóni, en að því eru áraskipti. Þannig olli hún miklu tjóni árið 1962 og aftur nú í haust, einkum í skrúðgörðum í bænum, en hennar gætir mikla minna í skógræktargirðingunum. Skógfræðingar telja að vetrarhlýindin undanfarin ár hafi skapað þessum meindýrum óvenjugóð lífsskilyrði í bili, en annars er við þetta sama vandamál að stríða í öllum löndum, þar sem greni vex. Með úðun er hægt að halda grenilúsinni í skefjum í skrúðgörðum og á litlum svæðum, en þess hefur ekki verið gætt í bæjunum sem skyldi. En við lærum af óhöppunum, og sá er til dæmis dómur norskra skógfræðinga, að árangurinn hér hjá okkur gefi í engu eftir árangri þeirra í Noregi. Aðaláhyggjum veldur ofbeitin á landinu utan girðinga. Það fer algerlega í auðn, ef ekki verður komið í veg fyrir hana.” – H.Z.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1964 (18.12.1964), “Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann” – Garðar Þorsteinsson, bls. 15-16.

Skógarmenn

Minningarskjöldur um fyrrum skógræktarmenn.

Katlahraun

Í Dagblaðinu Vísir, helgarblaði árið 1983 er fjallað um Ögmundar- og Katlahraun undir fyrirsögninni “Aðrar dimmuborgir” og undirsögninni “svipast um á skrítnum slóðum í Ögmundarhrauni við Grindavík“.

“Suðurhluti Reykjanesskaga er ekki í alfaraleið. Þjóðbrautin liggur tugi kílómetra frá, og því hefur svo verið lengi að fáir ferðamenn hafa lagt leið sína til þessa landshluta. Það verður að teljast miður, ef höfð er í huga sú merkilega en jafnframt hrikalega náttúrufegurð sem þar gefst að skoða.

Í Katlahrauni
Katlahraun
Einhver sérstæðasti staður suðurstrandar Reykjanesskagans er án efa Ögmundarhraun. Það liggur milli Grindavíkur og Krýsuvíkur — á láglendinu milli fjalls og fjöru — og þekur um sextán ferkílómetra í það heila.
Í hrauninu er að finna marga sérkennilega staði. Einn þeirra er þar sem heitir í Katlahrauni. Hann er nánast inni í miðju Ögmundarhrauni og er harla vandfundinn enda hafa fáir Íslendingar séð hann. Staðurinn er eiginleg sigdæld og markast af háum hraunveggjum allt í kring.
Katlahraun
Þegar gengið er fram á brún sigdældarinnar er sem yfir víðfeðman íþróttaleikvang að líta, slík er lögun hennar. Niðri í þessari hraunborg er yfir illfært og gróft helluhraun að fara, sem er víða sprungið, og því hættulegt yfirferðar en fjölbreytnin í landslaginu þarna er töfrandi og svo til endalaus. Háa hraunstapa er að finna niðri í dældinni svo og ýmsar aðrar sérstæðar hraunmyndanir, svo sem þar sem helluhrauniö hefur brotnað í hluta og staflast upp í þyrpingar og myndað allskyns hella og skúmaskot.

Hellar og skútar
Katlahraun
Í veggjunum eða hraunfjöllunum sem afmarka sigdældina eru margir hellar, misstórir eins og gengur, en þeir stærstu eru allt að tíu metra langir og álíka háir. Litlir bergskútar eru um allt í veggjunum og á einum stað er eins og þeir myndi eins konar hillusamstæðu í hraunfjallinu.
Á öðrum stað má skoða einhverja sérkennilegustu hraunmyndun sigdældarinnar. Þar jafnast lögun bergsins á við kirkjuhurð! „Ef huldufólk er á annað borð til, þá býr það þarna,” lét einhver hafa eftir sér sem leið átti um. Þessi náttúrlega hurð sést á einni ljósmyndinni sem fylgir þessum texta og er rétt að geta að hún er um tveir metrar á hæð en breiddin um hálfur annar metri. Í heild sinni minnir þessi hraunborg í Ögmundarhrauni — sigdældin og hraunveggirnir í kringum hana — mjög á Dimmuborgir í Mývatnssveit.
Katlahraun
Gróðurinn er þó ekki eins mikill og nyrðra en kynjamyndirnar og sérkennileg lögun hraunsins er allt eins mikil. Og fyrst minnst er á gróður þá er vert að geta þess að fyrir utan mosann vex í þessari hraunborg um eins metra hár burkni um hásumartímann, og segja þeir sem komið hafa á staðinn á þeim tíma að hvergi annars staðar í landinu hafi þeir séð svo merkilegt blómskrúð sem þennan burknagróður inni í stórbrotnu helluhrauninu.

Ögmundur og vegurinn

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Nafn sitt dregur Ögmundarhraun af manni þeim sem fyrstur er álitinn hafa rutt vegslóða yfir þetta illfæra svæði. Er sagt frá því í heimildum frá átjándu öld að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem dys hans sé. Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmund þennan. Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta nítjándu aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund, nema þar vinnur hann við vegagerðina gagngert til að fá dóttur bónda nokkurs í héraðinu sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar.
Brynjólfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og þetta hraun sem við hann er kennt á síðari hluta nítjándu aldar. Þar er sagan svipuð hinum fyrri en vegurinn um Ögmundarhraun fær þessa einkunn:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Deilt um aldur
Katlahraun
Annars hefur mikið veriö skrifaö um ögmundarhraun sem slíkt. Einkum og sér í lagi hefur mikið verið fjallað um hugsanlegan aldur þess — og eru menn ekki á eitt sáttir um hvenær þetta hraun hafi flætt yfir. Þó er vitað með vissu að það hafi gerst eftir að landnám hófst. Er Ögmundarhraun samkvæmt því yngsta hraunið á Reykjanesskaga.
Katlahraun
En hvenær í sögu Íslandsbyggðar hraunið rann eru menn ekki vissir um og um getgátur eru menn ekki sammála, sem fyrr segir. Hafa menn reyndar skipst í tvo nokkuð vel afmarkaða hópa í þessum efnum. Vill annar ætla að hraunið hafi runnið á fyrri hluta elleftu aldar, nánar tiltekið árið 1010, og byggir hann þá ágiskun sína á geislakolsaðferðinni svokölluðu, þar sem tekin eru sýni víða úr hrauninu og þau aldursgreind á rannsóknarstofu.
Hinn hópurinn rýnir fremur í ritheimildir en jarðsýni og telur þær gefa eðlilegri og raunhæfari vísbendingu um aldur hraunsins. Er bent á að ekki sé getið hraungosa á Reykjanesskaga í heimildum fyrr en komi fram á sexlándu öld. Um sama leyti hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið lagður niður sem slíkur og telur hópurinn orsökina vera hraunrennslið. Af þessu, svo og mörgu öðru, megi draga þá ályktun að Ögmundarhraun hafi runnið seint á árabilinu 1558 til 1563.

Hver maður hrífst af

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hvað sem aldri Ögmundarhrauns líður, þá er það að finna í öllu sínu veldi við suðurströnd Reykjanesskaga — og þeir sextán ferkílómetrar sem það þekur eru mikilfengleg náttúruundur sem hver maður hrífst af. Til vitnisburðar um það eru myndirnar sem hér birtast á síðunni, en þær eru teknar í þeirri merkilegu sigdæld sem er að finna inni í miðju Ögmundarhrauni og áður var minnst á.” – SER

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 131, tbl., helgarblað 11.06.1983, Aðrar dimmuborgir, bls. 16-17.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.