Mosfellsdalur

Í vestanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

“Velkomin í Mosfellsdal.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – skilti.

Mosfellsdalur er umkringdur fjöllum, í norðri rís Mosfell (276 m.ys.) en að austanverðu eru Grímannsfell eða Grímarsfell (484 m.y.s.), Æsustaðafjall (220 m.y.s.) og Helgafell (217 m.y.s.). Talið er að jökullón hafi fyllt dalinn á ísöld og skýrir það mikið jarðvegsdýpi á dalbotninum. Hann var fyrrum mýrlendur en ræktaður upp smám saman ogvar lagður akvegur eftir miðjum dalnum um 1930 en áður lá leiðin meðfram fjöllunum.

Tvær ár renna um Mosfellsdal, Kaldakvísl að norðanverðu og Suðurá um sunnanverðan dalinn. Þær fallast í faðma hér skammt frá í svonefndum Víðiodda og renna til sjávar í Leiruvogi undir nafninu Kaldakvísl.

Mikill jarðhiti er í suðurhluta Mosfellsdals. Jarðhitinn var á sínum tíma virkjaður og vatninu dælt um Skammadal og áfram til Reykjavíkur.

Í Mosfellsdal eru starfrækt vistheimili. Í Reykjadal er starfrækt heimili fyrir fötluð börn. Í Hlaðgerðarkoti er meðferðarheimili og í norðanverðum dalnum gnæfir Mosfellskirkja á háum hól. [Tjaldanes var heimili þroskaheftra drengja í Mosfellsdal þar til í maí 2004.]

Mosfellsdalur

Í Mosfellsdal.

Landbúnaður var fyrrum blómlegur í dalnum en nú er hefðbundinn búskapur að mestu aflagður, sauðfé er á örfáum bæjum og á Hrísbrú er rekið eina kúabúið í sveitarfélaginu. Í dalnum er einnig að finna gróðrastöðvar, tjaldstæði, hestaleigu, golfvöll og húsdýragarð.

Austast í dalnum er bújörðin Laxnes þar sem Halldór Laxness ólst upp, hann hleypti undir heimdraganum úr Mosfellsdal en orti árið 1930 þegar hann kom til bernskustöðvanna:

Í dalnum frammi undi eg áður fyr,
við ána greri fífillinn minn bestur.
En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.”

[Auk margra annarra áhugaverðra staða, s.s. Hraðastaði, Æsustaði og Helgadal, geymir dalurinn fjölmarga aðra minjastaði, m.a. Hrísbrú og Mosfell þar sem t.d. Egill Skallagrímsson bjó um tíma, auk aðliggjandi staða.]

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – horft frá Laxnesi.

Eldvörp

Í riti Orkustofnunar skrifar Jón Jónsson, jarðfræðingur; “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort. Þar lýsir hann m.a. Eldvarpahrauni (-hraunum):

Eldvörp

Eldvörp – loftmynd.

Eldvarpahraun er að því er virðist yngst hrauna á utanverðu Reykjanesi. Það skal þó tekið fram að Stampahraun yngra og Eldvarpahraun ná hvergi saman og verður því ekki séð hvort þeirra yngra er. Hitt ætla ég óhætt að fullyrða að þau hraun bæði séu au yngstu á utanverðu Reykjanesi, og að Eldvarpahraun sé ekki frá sögulegum tíma. Um gos á þessu svæði eru engar glöggar heimildir til, það ég veit, en þó er þessi getið í annálum að eldgos hafi oftar en einu sinni orðið á Reykjanesi og gæti eitthvað af því átt við t.d. Stampa. Austurendi gígaraðarinnar sjálfrar er nærri beint niður af Grindavík, en vesturendinn er suðvestur af Sandfellshæð. Þetta er sjálf gígaröðin en allmiklu neðar, þ.e. nær sjó, og vestar eru smágígir í röð örskammt frá og báðum megin við veginn milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Ekki verður annað sé en þeir hafi gosið um leið og Eldey og tel ég þá til sama hrauns. Aðal gígaröðin er þá um 8.5 km á lengd, en bætist þessir litlu gígir við verður lengd gosstöðvarinnar ekki undir 10 km.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröðin.

Gígaröðin er sundurslitin á nokkrum stöðum, sums staða alveg en annars staðar eru gígirnir, sem ávallt eru nokkrir saman, tengdir við næsta gígahóp með smágígum, sem lítið eða ekkert hraun hefur runnið frá. Það er því augljóst að hér sem víða annars staðar hefur eldvirknin fljótlega orðið bundin við vissa hluta gígaraðarinnar, en hún í heild verið virk aðeins á fyrsta stigi gossins. Það sýnist ljóst að hér hefur gosið á sprungubelti fremur en á einni sprungu enda vatnar mikið á að gosstöðin myndi eina samfellda línu.
Hraunið frá Eldvörpum hefur runnið eingöngu til suðausturs eins og landinu hallar á þessu svæði. Vestast hefur það komist næst sjó skammt austan við Sandvík við Háleyjar. Einna líklegast sýnist að hraunið hafi numið staðar í lægð, sem þarna er og hafi aldrei náð til sjávar. Tangi úr Eldvarpahrauni hefur náð fast að Grænabergsgjá rétt norðan við, en þar austur af hefur það ekki náð eins langt fram. Myndast því allstórt vik í það ofan við Staðarhverfi (Tóttarkrókar).
Eldvarpahraun nær alveg austur að Arnarsetushrauni og er eldra en það og runnið fyrir 900.

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldvarpahraun eldra hefur runnið yfir Sandfellshæðahraun og allt í sjó út milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Húsatófta. Hraunið hefur runnið í breiðum straumi niður að sjó vestan við Grindavík. Það nær upp að Þorbjarnarfelli að vestan og vestur að Húsatóftum. Þetta hraun er í eðli sínu helluhraun, víða stórbrotið og líkt að úr dyngju væri. Í þessu hrauni er margar gjár og stórar austan við Húsatóftir og sýnir það að það hlýtur að vera talsvert gamalt.”

Rauðhóll í Eldvarpahrauni er hluti af eldri dyngjuhraunmyndunum á svæðinu. Í Eldvarpahrauni má finna fjölmargar mannvistaleifar. Sjá t.d. HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 129-131.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um “Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands“Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

“Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu. Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

BrunnastaðaselÁ Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.”

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um “Reykjanes”; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á “Reykjanesskaganum”.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki “um 250” talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel “Vestan Esju” þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Kálffell

Í riti Orkustofnunar “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

“Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar. Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.”
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Hrútafellshraun

Nýlega barst FERLIR eftirfarandi póstur:
“Sæl og blessuð. Datt í hug að senda þessar myndir sem ég tók í síðustu viku þegar ég fór að finna ratleiksmerki 27 við Búðavatnsstæðið.
Á göngu eftir Hrauntungustíg sá ég hvar slétt Hrútagjárdyngjuhraunið var eins og upprétt eða uppsprengt á talsvert löngum kafla. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða fyrirbæri er þetta sem var þarna í gagni á sínum tíma?
Það er alveg meirihátta að sjá hraunið svona. Hef prufað að ganga yfir það og langar ekki að reyna það aftur.
Með bestu kveðju, Guðmundur Gunnarsson.”

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Svar FERLIRs var: Sæll Guðmundur, þetta er bæði sérstakt og merkilegt hraunhaft í Hrútargjárdyngjuhrauninu, sem rann fyrir ca. 7000 árum. Þegar hraun rann síðar til norðurs frá gígum norðan við Hrútafell náði það að lyfta upp hraunhellunni í jöðrum þess þannig að hraunflekar risu upp og mynduðu þessar stórbrotnu hraunmyndanir.
Eldsumbrotaskeiðið, sem stóð í um 450 ár, hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraunið fyrrnefna. Síðastnefnda hraunið rann niður með Hrútagjárdyngjunni, sem fyrr sagði. Um 1151 rann svo Ögmundarhraun (sem heitir ýmsum nöfnum) á þessum kafla, frá Lat í suðri að Helgafelli í norðri. Það hraun setti einnig svip sitt á landslagið, en þó einkum austan Dyngjunar.”

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Guðmundur svaraði: Sæl, Takk kærlega fyrir greinagóða lýsingu á fyrirbærinu. Það hefur myndast gríðarlegur þrýstingur á hraunið þarna svo það brotnaði „mélinu smærra“ ef svo má að orði komast.
Mér finnst allt umhverfi Hrútagjárdyngunnar alveg einstakt og gaman að horfa á gjárnar miklu sem hafa líklega myndast við jarðsig þegar toppur dyngjunnar brotnar niður. Það er einnig gaman að ganga með henni að „utanverðu“ alveg til móts við Fjallið eina og raunar allan norðurkantinn líka.
Þakka fyrir frábæran vef, Ferlir. Hann er gríðarlega mikil þekkingarbanki um eiginlega allan Reykjanesskagann og þar hef ég leitað að upplýsingum um hitt og þetta um langt skeið. Ég byrjaði óvart í ratleiknum árið 2006 þegar ég rakst á merki við Undirhíðarnar og datt þá inn á þinn frábæra vef og hef margoft notað hann síðan mér til fróðleiks og skemmtunar.”

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010 var m.a. fjallað um Hrútafellshraun, sem hingað til hefur flestum verið hulið:

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement) í sniði.

“Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Kristnitökuhraun

Jarðfræðikort.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Sogin

Hraun norðan Soga.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Hvammahraun

Hvammahraun.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.”

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin. „Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér: “Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.
Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár. Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.
Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.
Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum.

Stampar

Stampar.

Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 kílómetra langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan – eða í u.þ.b. 800 ár.”
Sjá þó MYNDIR af gosinu í Geldingadölum árið 2021…”.

Heimildir:
-Tölvupóstar.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010
-Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldborg undir Trölladyngju, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Víkingaskip

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um aldur Afstapahrauns milli Kúagerðis og Mávahlíða:

Afstapahraun“Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt.
Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en
unglegu útliti hraunsins.
AfstapahraunÍ norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma.
Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni (5. mynd) ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.”

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Í Andvara 1884 segir Þorvaldur frá Afstapahrauni í riterð sinni “Ferðir á suðurlandi sumarið 1883”:
“Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nærtöluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, on þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, on hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.”

Afstapahraunið er víðast hvar ill yfirferðar, einkum að austan-, sunnan- og norðanverðu. Að vestanverðu er það jafnara og greiðara yfirferðar, einkum er kemur norður fyrir Rauðhóla. Tóurnar eru óbrennishólmar í miðju hrauninu – sjá HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, Jón Jónsson, bls. 134.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 – Þorvaldur Thoroddsen, bls. 50-51.

Afstapahraun

Afstapahraun – kort.

Eftirfarandi frásögn Gísla Sigurðssonar lögreglumanns og síðar forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar birtist í jólablaði Alþýðublaða Hafnarfjarðar 1959 undir fyrirsögninni “Hafnfirðingur”. Gísli fæddist 1903 í Hrunamannahreppi. Árið 1910 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar. Gísli skráði fjölmargar örnefnalýsingar á vestanverðum Reykjanesskaganum. Hér segir hann frá því hvernig er að verða Hafnfirðingur. Margir aðrir geti samsvarað honum um slíkan áunnin titil í gegnum tíðina:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, eftir að hafa hlotnast fálkaorðan.

“Ég gekk með pabba út á móana fyrir vestan lækinn. Þar kvaddi hann mig. Hann var að fara í verið til Grindavíkur. Það hafði hann gert frá því fyrst ég mundi eftir mér. Frá því ég fór að ganga hafði ég fylgt honum stuttan spöl, fyrst ásamt mömmu, en nú í tvö ár einn þar sem mamma var vistuð á öðrum bæjum.

Sólheimar

Sólheimar í Hrunamannahreppi.

Ég bar ekki allt of mikið skyn á hvað það var „að fara í verið,“ en pabbi skildi það, enda var hann heitur til augnanna, þegar hann kvaddi mig. Ég staldraði við og horfði á eftir honum, þar sem hann gekk léttum skrefum troðninginn vestur með fjallinu. Ég man hann hafði brugðið sokkunum utan yfir buxnaskálmarnar. Hann var á skóm með ristar- og hælþvengjum. Mamma hafði gert skóna. Þeir fóru vel á fæti. Hann hafði bundið poka á bakið og í honum voru allar eigur hans, sokkaplögg, nærföt til skiptanna og vinnuföt, og svo var hann með nestisbita, sem duga skyldi ferðina á enda. Er ég hafði horft eftir honum um stund sneri ég heim aftur til stóra, góða leiksystkinahópsins, en börnin tíu á Sólheimum í Ytri-Hrepp voru öll þremenningar við mig. Ég minnist þess, að oft eftir þetta var á heimilinu farið að tala um Hafnarfjörð og að farið var að kalla mig Hafnfirðing.

Rétt eftir sumarmál kom mamma. Hún var að kveðja frændfólkið, því þau pabba og mamma höfðu þá ákveðið að flytjast úr vinnu- og lausamennsku í Hreppnum til Hafnarfjarðar í þurrabúð.
Mamma ætlaði sér að vera komin suður, þegar pabbi kæmi úr verinu. Ég og Margrét vinnukona fylgdum mömmu vestur á fjallið, Galtafellsfjall. Þegar við sáum niður á bæinn Galtafell stönzuðum við. Þarna kvaddi ég mömmu og sneri til baka með Margréti.

Hrepphólar

Hrepphólar.

Hún mamma sagði frá því síðar, að ekki ætlaði henni að ganga vel að fá ferð úr Hreppnum, þá loksins það var ákveðið. Margir bændanna fóru þá í svokallaðar lokaferðir til Reykjavíkur. Hún hafði hugsað sér að komast með einhverjum þeirra. En þótt farangur hennar væri aðeins poki með sængurfötum og annar með rokknum, Helgi bróðir á fimmta ári og hún sjálf, þá var næsta óvíða rúm fyrir þetta. Fyrst reyndi hún að koma flutningnum fyrir hjá þeim bændum, sem ætluðu suður með tvo vagna, en þar varð engu á bætt.
Eftir mikla fyrirhöfn kom hún svo pokunum og Helga á vagn hjá bónda, sem aðeins fór með einn vagn. Sjálf varð hún að ganga, en það var nú ekki frágangssök. Mamma mundi þessum bónda alla tíð síðan þennan greiða, enda sagði hún oft: „Hann var fátækur eins og ég, því gat hann gert mér þennan greiða borgunarlaust.”
Mömmu munaði ekki um að ganga frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 10 km, þó að hún þyrfti að bera Helga mestan hluta leiðarinnar, þar sem hún hafði nýlokið 100 km göngu austan úr Hreppum til Reykjavíkur. Pokana skildi hún eftir. Pabbi gat nálgast þá, þegar hann væri kominn.

Lækjargata 6

Lækjargata 6.

Mamma lagði leið sína strax suður í Hafnarfjörð og kom heim til Vigfúsar klénsmiðs bróður síns og konu hans Steinunnar. Þar vissi hún að tekið yrði móti henni opnum örmum, enda var það svo. Seint á lokadagskvöldið kom pabbi, og fengu þau að vera fyrstu næturnar hjá Vigfúsi og Steinunni. Strax næsta dag fóru þau pabbi og mamma að leita fyrir sér um íbúð. Gekk það greiðlega. Í húsinu nr. 6 við Lækjargötu var eitt herbergi í vesturenda laust til íbúðar, ásamt aðgangi að eldhúsi og geymslu í kjallara, fyrir kr. 4 um mánuðinn. Hér réðu húsum Guðlaugur Jónasson úr Flóa ættaður og Halldóra Gíslína Magnúsdóttir frá Fiskakletti hér í Firðinum, langt í ættir framskyld pabba. Húsráðendurnir bjuggu með þrjú börn sín í tveimur herbergjum niðri, en á loftinu bjuggu Auðunn Magnússon, bróðir Halldóru, og kona hans Þórunn Hansdóttir með tveimur sonum sínum. Þau pabbi og mamma voru þegar komin í félagsskap ágæts fólks.
Hafnarfjörður 1910Svo fluttu þau í herbergið með allar sínar föggur. En hvar voru húsgögnin og búshlutirnir? Engir til. Var þá ekki heppilegt, að Vigfús og Steinunn höfðu nýlega lagt til hliðar m.a. ágætt rúmstæði sundurdregið, smíðað í Dverg hjá Jóhannesi Reykdal. „Hvort þau gætu notast við þetta?“ spurðu Vigfús og Steinunn. „Já, ég held nú það, blessuð verið þið,“ sögðu pabbi og mamma. „Svo er heima hjá okkur borð,“ sögðu þau Vigfús og Steinunn, „sem við getum ekki komið fyrir, þar sem við erum að fá okkur annað stærra, hvort pabbi og mamma gætu notað það?
Jú, jú, fyrst svo stóð á var alveg sjálfsagt að taka við borðinu. Svo voru þau í vandræðum með stóra kistu. Gætu þau pabbi og mamma ekki tekið hana af þeim, það væri hægt að geyma í henni matvæli, svo sem hveiti, sykur og útákast og margt fleira. Svo var hún ágætt sæti, ef á þyrfti að halda. Þau urðu örlög þessara muna, að þeir fylgdu pabba og mömmu alla þeirra búskapartíð og voru þá fyrst lögð niður, er þeim hafði verið valinn annar hvíldarstaður. Nú, það var ekki erfitt að hefja búskap, þegar nauðsynjahlutirnir bárust svona upp í hendurnar á fólki.
Hansensbúð„En margs þarf búið með,“ sagði Sighvatur á Grund. Pabbi kom með vertíðarkaupið sitt óskert og fyrir það voru keyptir búshlutir ýmiss konar. Í Hansensbúð var þá margt góðra búshluta. Þar var keypt olíuvél, þríkveikja, pottar tveir, ketill, kaffikanna og stryffa (kastarola), bollaskrúfa, sykurkar, diskar djúpir og grunnir, ágætt steintau, olíubrúsi 10 potta. Spænirnir voru látnir duga og sjálfskeiðingarnir til að borða með. Borðhnífar og gaflar komu ekki fyrr en löngu seinna. Svona var sveitafólk lengi að átta sig á breyttum lifnaðarháttum.
Hér var búið að stofna til nýs heimilis í Hafnarfirði. Maður og kona með barn höfðu bætzt við þann hóp manna, sem kölluðu sig Hafnfirðinga. Þessir nýju Hafnfirðingar eignuðust vini og bundust tryggðaböndum, sem ekki brustu meðan báðir aðilar lifðu. En bezt var þó vináttan við þau hjón Vigfús og Steinunni. Þeim pabba og mömmu gekk vel að fá sér atvinnu. Enginn gekk þess dulinn, að þau voru bæði dugleg og ósérhlífin. Þau myndu leggja fram sinn skerf til uppbyggingar þessa byggðarlags. Svo leið vorið með nægri vinnu og velmegun. Helgi eignaðist vini við sitt hæfi. Hann kynntist Rósa og svo fékk hann líka að vera með Pétri.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn.

Á krossmessu, vinnuhjúaskildaga, fór ég frá Sólheimum og fluttist að Hrepphólum. Það er víst nokkuð mikið sagt, að strákur á áttunda ári hafi ráðizt hjú á slíkt stórbýli, en þó var það svo. Þetta sumar átti ég að fá kaup. Jég átti að vinna fyrir mat mínum og þjónustu allri sumarlangt. Ég smalaði ám um vorið og sumarið, sótti hesta í haga og flutti þá, rak kýr á beit og sótti þær á kvöldin, færði mat og kaffi á engjar, var í alls konar snúningum heima við.

Nóg var að gera frá morgni til kvölds, gott viðurværi og atlæti allt. Þá má ekki gleyma rjómaflutningnum. Til þess hafði ég hest, sem hét Toppur, kallaður Lati-Toppur, röltstyggur skratti og stríðinn, lét mig elta sig hvert sinn, sem ég þurfti að sækja hann. Ég var honum öskuþreifandi vondur hvert sinn, en þegar hann sá, að ég ætlaði ekki að gefa mig, stanzaði hann. Þá rann mér þegar í stað reiðin. Ég lagði við hann beizli og fór á bak. Þá rölti hann aðeins fetið hvernig sem ég barði fótastokkinn og skammaði hann. Ég flutti rjómann að Birtingaholtsbúinu. Það tók mig tvo til þrjá tíma fram og til baka. Ég flutti einnig rjóma frá Galtafelli, Núpstúni og Hólakoti móti öðrum drengjum þaðan. Svona leið sumarið.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, minjavörður.

Á réttadagsmorgun var ég eldsnemma á fótum eins og allir aðrir, sem fóru í réttirnar, þessa hátíð allra hátíða. Nú var ég ekki á Lata-Topp. Ég var vel ríðandi eins og hinir. Féð rak ég heim úr Hóladilknum. Er komið var á Hólamýri var því sleppt. Var þá sprett úr spori og riðið hart í hlað eins og höfðingja er siður.
Viku seinna yfirgaf ég svo Ytri-Hreppinn í bili og fluttist á hestvagni suður. Pabbi fór með rekstur og var því nokkru seinna á ferð. Hann hafði lagt svo fyrir, að ég biði hans á Árbæ hjá frændkonu okkar Margréti veitingakonu þar. Síðla sama dag kom pabbi, borgaði Margréti fyrir mig og kyssti hana mikið, eins og allra karla var siður. Svo reiddi hann mig til Reykjavíkur, þar sem ég gisti fyrstu nóttina, en pabbi fór til Hafnarfjarðar. Daginn eftir kom pabbi og sótti nokkrar kindur, sem hann hafði komið með í rekstrinum og hafði tekið upp í kaup sitt.

Ég rak svo kindurnar með pabba suður til Hafnarfjarðar. Fyrsta húsið, sem sást í Hafnarfirði, þegar komið var suður, var einlyft hús með porti og risi, nafnið skorið í tré á hliðinni, er vissi að götunni: „Sjónarhóll”. Þegar við höfðum komið kindunum í hús fórum við heim. Mamma kom á móti okkur fram í dyrnar og þar faðmaði hún að sér drenginn sinn. Voru þá liðin tvö og hálft ár, síðan ég hafði verið á sama bæ og hún. Þá flutti hún mig frá Seli að Hvítárholti í Ytri-Hrepp og lét mig eftir hjá vandalausum, góðu fólki að vísu, sem reyndist mér mjög vel. Og nú bar mamma okkur mat, sem hún hafði sjálf eldað. Færði upp úr sínum eigin potti á sína eigin diska og bar fyrir sitt fólk. Hún var glöð yfir þessu, því að nú var að rætast lengi þráður draumur.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1954.

Svo kom haustið með rökkurkvöldum sínum, þegar við Helgi sátum sinn á hvora hlið henni og hún sagði okkur ævintýri og sögur. Þessi rökkurkvöld munu seint úr minni liða. Alltaf var eitthvað nýtt að bætast við í búið. Eitt kvöldið kom pabbi heim með fjórtán línu blússbrennara, logagylltan hengilampa, sem hægt var að draga niður og ýta upp. Hann gaf bæði ljós, og svo hitaði hann vel upp herbergið. Spegill kom á einn vegginn og almanak á þilið, tjald fyrir gluggann og slökkviliðsmerkið hans pabba. Allt var þetta mikið skraut og svo tístandi járnrúmið, sem við Helgi sváfum í. Já, pabbi var strax settur á slökkviliðsdælu nr. 2. Þar var hann dælumaður og fékk nr. 30. Sprautustjórar á þeirri dælu voru þeir feðgar Vigfús og Jón Gestur frændur okkar. Fúsi frændi gaf okkur strákunum marga væna gusu. Hann vissi hvað okkur kom. Í þann tíð gerði það ekki svo mikið til þótt við kæmum hundblautir heim, bara ef hægt var að segja: Hann Fúsi frændi sprautaði á okkur. Auðvitað kom þetta aðeins fyrir, þegar slökkviliðsæfingar voru. Ég var búinn að fá skírnina. Ég var orðinn fullgildur Hafnfirðingur, fjórði maður fjölskyldunnar.

Brunalið Hafnarfjarðar

Brunabíll í Hafnarfirði  fyrir utan Reykjavíkurveg 9 um 1920.

Þegar ég hef að undanförnu farið yfir manntals- og kirkjubækur, hefur mér oft komið í hug, hvort flestir þeir, sem hér hafa setzt að, hafi ekki svipaða sögu að segja og ég hef hér sagt. Og því hef ég skráð þetta og látið það frá mér fara.
Vera má, að þú, lesari góður, rifjir upp þína eigin sögu eða foreldra þinna, sem að sjálfsögðu er viðburðaríkari en okkar og skemmtilegri. Öll höfum við flutzt hingað í leit að því, sem betra var, og fundið það í Hafnarfirði og erum hreykin yfir því að vera Hafnfirðingar.”

Sjá meira um Gísla Sigurðsson HÉR.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Hafnfirðingur – Gísli Sigurðsson, bls. 21-22.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.

Hafnarfjörður 1910

Í ofanverðu Víðistaðatúni er stuðlabergssteinn. Á honum er eftirfarandi áletrun: “Til minningar um Bjarna Erlendsson 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka“.

Hver voru þessi Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir og hverjir voru þessir Víðistaðir?

Í skýrslu Byggðasafns Hafnarfjarðar árið 2002 segir m.a. svo um “Víðistaði – skráningu fornleifa og menningarminja“. Um var að ræða lokagerð Karls Rúnars Þórssonar um sögu Víðistaða:

Víðistaðir

Víðistaðir;
Mynd: Skýringar: I er Sigurgeirstún, II stykki Kristjáns Auðunssonar, III garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar (land Finnboga J. Arndals skálds), IV stykki Guðjóns Þorsteinssonar í Kletti, V stykki Benedikts Sigmundssonar, VI ungmennafélagsreiturinn (seinna athafnasvæði K.F.U.M.), VII knattspyrnuvöllurinn gamli. (IV, V, VI og VII eru afmörkuð með punktalínum, því að þau stykki eru nú öll í eigu Bjarna Erlendssonar.
1 er þar, sem Bjarni í Víðistöðum byggði fyrsta gripahús sitt, 2 íbúðarhúsið (hjá því er lítið steinhús, sem Bjarni byggði 1923 sem hænsnahús, en breytti síðar, svo að þar hefur oft verið húið), 3 lifrarbræðslustöðin, 4 gripahús og hlaða Bjarna.
Vegurinn, sem skiptir Víðistöðum að endilöngu, var lagður 1898—99, vegurinn að lifrarbræðslustöðinni, um þvera landareign Bjarna, árið 1923. Uppi á hraunjaðrinum rétt ofan við lifrarbræðslustöðina, hefur Guðmundur Þ. Magnússon nýlega byggt sláturhús.

“Bjarni riddari Sívertsen hafði sel á Víðistaðatúni fyrrum. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 lentu Víðistaðir innan bæjarmarkanna. Um svæðið lá “kerruvegur” út að Garðakirkju sem fram til 1914 var sóknarkirkja Hafnfirðinga. Svæðið geymir sögu ræktunartilrauna, þeirrar fyrstu frá árinu 1901 en þá tók Sigurgeir Gíslason verkstjóri til við að rækta tún í suðvesturhorni þess. Þá gerði Ungmennafélagið 17. júní tilraun árið 1907 til að rækta trjágróður í norðurhorni svæðisins, í krikanum upp við hraunbrúnina en allt kól frostaveturinn mikla 1918.

Víðistaðir

Víðistaðir – vatnsból.

Í svonefndu Sigurgeirstúni, sem var í suðvesturhorni svæðins var fyrrum vatnsból frá Langeyri og lá slóð þangað yfir hraunið. Þegar Finnbogi J. Arndal hóf að rækta kartöflur og gulrófur við austurhorn Víðistaða árið 1910, var þar enn brunnur fyrir Vesturbæinga.
Frumbernsku knattspyrnuiðkunar í Hafnarfirði má rekja til svæðisins en félögin Geyfir og Kári útbjuggu sér knattspyrnuvöll en félögin hættu starfsemi 1915. Frá 1919-1920 stunduðu knattspyrnufélögin Framsókn og 17. júní ennfremur æfingar á svæðinu. Upp úr 1936 eignaðist Fríkirkjan spildu sem hún nefndi Unaðsdal og þar voru haldnar skemmtanir til fjáröflunar, í dag eru á sumrin starfræktir skólagarðar á því svæði.

Víðistaðir

Víðistaðir – Minningarsteinn.

Svæðið geymir sögu grunnatvinnuvegarins, sjávarútvegsins, en stórfyrirtækið Brookless bræðra og síðan Helluers bræðra störfuðu í Hafnarfirði á tímabilinu 1910-1029, en þó ekki samfleitt. Létu þeir leggja fiskreiti vestan við gamla Garðaveginn. Á árunum 1923-28 starfaði svo lifrabræðsla fyrirtækisins Isac Spencer og Co á svæðinu og síðar, um 1950 var þar starfrækt sláturhús ekki langt frá Víðistaðakirkju.
Fyrstu eiginlegu landnemarnir á Víðistöðum voru hjónin Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir. Árið 1915 fékk Bjarni fyrst útmælt land á svæðinu og íbúðarhúsið var byggt árið 1918 og var efni í það fengið úr strönduðu skipi, að nafni “Standard” sem strandað hafði við Svendborg.
Bjarni var einskonar frístundarbóndi. Fyrstu kúna keypti hann árið 1920, hún var í litlum kofa sem byggður var austan við veginn ekki langt frá bugðunni þegar komið er niður á Víðistaðina. Árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir fjórar kýr og tvo hesta, ásamt hlöðu.

Stefán Júlíusson skrifaði um “Víðistaðina – vinin í úfna hrauninu” í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1959:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson.

“Margar ferðir átti ég um Víðistaði, þegar ég var drengur. Oft lágu sporin utan úr hrauninu, þar sem ég ólst upp, og inn í bæinn, og síðan heim aftur. Erindin voru margvísleg, í skóla, til vinnu, skemmtana eða aðfanga, stundum oft á dag. Þá var engin Herjólfsgata komin með sjónum, gamli vegurinn út í Garðahverfið var því oftast farinn.
Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðinga, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins? Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt. Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann. Hins vegar heyrði ég snemma þjóðsögu um Víðistaðina, fagra og dýrlega helgisögu, en þannig skýrir alþýðan löngum þau undur, sem hún ekki skilur.

Bjarni ErlendssonSvo bar til, þegar hraunið rann, að smalinn frá Görðum var með hjörð sína á þeim slóðum, þar sem nú heita Víðistaðir. Hann gætti sín ekki í tæka tíð, og fyrr en varði sá hann rauðglóandi hraunbreiðuna koma veltandi fram um vellina. Eimyrjan hafði þegar lokað leiðinni heim til Garða, og hún nálgaðist jafnt og þétt á þrjá vegu, en rjúkandi sjór fyrir neðan. Smalinn sá, að sér og hjörð sinni yrði hér bani búinn, ef svo færi fram sem horfði. Í sárri angist og kvíða kastaði hann sér á kné, fórnaði höndum til himins og ákallaði drottin. Hann bað hann af barnslegu trúnaðartrausti að frelsa sig og hjörð sína frá þessum óttalega dauðdaga. Síðan byrgði hann andlitið í höndum sér og beið átekta. Og kraftaverkið gerðist. Þegar hann leit upp, sá hann, að hraunstraumurinn hafði klofnað, kvíslarnar runnu fram til beggja handa, og síðan lokaðist eimyrjan hringinn í kring um hann og fjárhópinn, en þó svo fjarri, að öllu var borgið.
Guð hafði bænheyrt hann. — Þannig urðu Víðistaðirnir til.
Margrét MagnúsdóttirÉg trúði því í bernsku, að þessi helgisaga væri sönn. Eitthvert kraftaverk hlaut að hafa gerzt, þegar þessi einkennilega vin varð til. En með árunum kom þekkingin og kippti fótum undan helgisögninni: Hafnarfjarðarhraun rann löngu áður en land byggðist. Svo vill fara um barnatrúna, hún veðrast með árunum. Og samt er hin raunsanna saga um myndun Víðistaðanna stórfurðuleg. Enginn vafi er á því, að mér hefði þótt saga vísindanna næsta ótrúleg, hefði ég þekkt hana í bernsku, þegar ég braut hvað ákafast heilann um þetta efni.
Sagan er í sem allra stytztu máli á þessa lund: Endur fyrir löngu, um þúsund árum fyrir Íslandsbyggð, var Hafnarfjörður miklu lengri en hann er nú. Hann hann þá hafa náð allt upp undir Vífilsstaðahlíð, en Setbergshlíð, Öldur og Hamar verið strönd hans að sunnan. Mikil á mun hafa fallið í þennan Hafnarfjörð hinn meiri, og mætti kalla hana Kaldá hina meiri eða fornu. Átti hún upptök sín á Reykjanesfjallgarði, sem þá hefur vafalaust verið töluvert öðruvísi útlits. Leirur hafa verið í fjarðarbotni og grynningar allmiklar, eins og títt er, þegar stórar ár bera jarðveg í sjó fram. Hólmar hafa verið í árósum og fjarðarbotni, og sumir allháir. En þá gerðist undrið. Eldgos mikilverða í hnjúkunum austan við Helgafell, hraunleðja streymir úr gígunum dag eltir dag, rennur með jafnaþunga til sjávar og finnur sér fljótlega lægstu leiðina: farveg Kaldár hinnar fornu. Rauðglóandi hraunstorkan þurrkar upp ána, máir hana beinlínis út af yfirborði jarðar, og síðan hefur hún orðið að fara huldu höfði, nema örlítill angi hennar við Kaldársel. En hraunbreiðan gerði meiri hervirki: hún fyllti upp fjarðarbotninn, svo Hafnarfjörður varð aðeins svipur hjá sjón á eftir. Þykk og mikil hefur hraunleðjan verið, að slík undur skyldu gerast.

Víðistaðir

Víðistaðir vinstra megin.

Og nú er komið að sögu Víðistaða. Þar var eyja áður, og á henni hóll ekki ómyndarlegur. Þegar eimyrjan lagði undir sig leirur, hólma og sker, og fyllti fjarðarbotninn úfinni steinstorku, veitti hóllinn á hólmanum viðnám, svo að kúfurinn stóð upp úr. Seinna fauk jarðvegur að hraunbrúninni, en kollurinn lækkaði. — Þannig varð hraunlausa vinin til.

Víðistaðir

Víðistaðir 1954.

Víðistaðirnir hafa frá öndverðu verið hluti af landnámsjörðinni, en nú er fullvíst talið, að Ásbjörn Össurarson landnámsmaður, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, hafi búið í Görðum. Þjóðsagan, sem hér var skráð að framan, bendir til þess, að þar hafi fé verið beitt frá Görðum. Þegar bújörðin Akurgerði var stofnuð sem hjáleiga úr Garðalandi, má vafalítið telja, að ábúandinn þar hafi fengið Víðistaðina sem hagablett. Löngu seinna, eða árið 1677, keyptu danskir kaupmenn Akurgerði, og er þá svo að sjá sem Víðistaðir hafi ekki fylgt. Þó hefur einhver vafi verið um þetta og Akurgerðismenn vafalaust beitt í Víðistöðum eins og þeim sýndist. Garðaklerkar og Akurgerðiskaupmenn deildu um landamerki Akurgerðislóðar, og þegar loks var sætzt á málið og mörkin gerð greinileg, árið 1880, lentu Víðistaðir utan við Akurgerðisland, en þó er svo að sjá af samningnum, að viðskiptavinir kaupmanna hafi mátt beita í Víðistöðum í lestaferðum átölu- og leigulaust. Þegar landamerki eru gerð um leið og Hafnarfjarðarkaupstaður er stofnaður árið 1908, lenda Víðistaðirnir innan bæjarmarkanna, og líður nú ekki á löngu áður en byggt er í Víðistöðum.

Víðistaðir

Kartöflugeymsla og skjólgarður, byggt af Gísla M. Kristjánssyni, líklega í kringum 1930.

Svo langt aftur sem heimildir greina, er örnefnið Víðistaðir kunnugt, og er það vafalaust fornt. Þar hefur víðir vaxið, og af því dregur hraunlausa svæðið nafn.
Ræktunarsaga Víðistaða hefst upp úr aldamótum. Árið 1901 fékk Sigurgeir Gíslason verkstjóri lóð í suðvesturhorni svæðisins og tók að rækta þar tún. Fékk hann landið hjá sr. Jens Pálssyni í Görðum. Seinna fékk hann hjá bæjarstjórn viðbótarstykki meðfram veginum, og varð stykkið allt tæpar 4 dagsláttur. Þetta tún átti Sigurgeir til ársins 1944, en þá keypti Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi það, og á hann það enn. Í Sigurgeirstúni var fyrrum vatnsból frá Langeyri, og lá slóð yfir hraunið fyrir vatnsburðarfólkið.

Víðistaðir

Víðistaðir 1959.

Norðan við Sigurgeirstúnið er lítill blettur, um fjórðungur úr dagsláttu, í norðvesturhorninu neðan vegar. Þennan blett ræktaði Kristján Auðunsson, faðir Gísla Kristjánssonar bæjarfulltrúa og þeirra systkina, og hefur hann aldrei gengið úr ættinni. Eignaðist Gísli blettinn eftir föður sinn, síðan systursonur hans, Valdimar Jóhannesson, og nú eiga hann foreldrar Valdimars, Guðrún Kristjánsdóttir og Jóhannes Narfason.
Kristján Auðunsson fékk þökurnar af þjóðkirkjulóðinni til að þekja með blett sinn í upphafi, en þá var þar melur, og hefur það að líkindum verið vorið 1914. Ekki eru önnur stykki vestan eða neðan vegar en þessi tvö.
Í austurhorni Víðistaða er nú garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. Þetta svæði fékk Finnbogi J. Arndal útmælt árið 1910. Er það sex dagsláttur að stærð. Finnbogi ræktaði þar kartöflur og gulrófur. Þar var þá brunnur fyrir Vesturbæinga. Hann seldi það þrem árum síðar Gísla Kristjánssyni, sem áður er nefndur, en hann aftur Jóni Einarssyni og Gísla Sigurgeirssyni, en árið 1935 seldu þeir það Guðmundi Þ. Magnússyni kaupmanni. Eftir hann eignaðist Fríkirkjan landið, og var það nefnt “Unaðsdali”. Hugðust forráðamenn kirkjunnar hafa staðinn til fjáröflunar fyrir kirkjuna, m. a. með skemmtanahaldi, en ekki mun það hafa lánazt. Kirkjan átti landið stuttan tíma, en þá keypti Kristján Símonarson það, og ræktar hann nú í Unaðsdal margar tegundir nytjajurta.

Víðistaðir

Víðistaðir – Atvinnuhús á tveimur hæðum með gluggum á neðri hæð og bíslögum til beggja hliða. Tvöfaldar dyr eru á öðru bíslaginu og standa þær opnar. Stokkur gengur frá húsinu. Mikið magn af tunnum er í stæðum og röðum framan og ofan við húsið. Lifrarbræðslustöð Isaac Spencer & Co. í Víðistöðum.

Austan við veginn, þegar kornið er niður brekkuna úr bænum, var stykki, sem Guðjón Þorsteinsson, kenndur við Klett, mun hafa fengið útmælt um svipað leyti og Finnbogi J. Arndal fékk sitt land. Þarna var votlent mjög og mógrafir og erfitt til ræktunar. Hafði faðir Guðjóns tekið þar mó. Var stykkið tæpur hektari á stærð.
Austan við þetta stykki, meðfram garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar og upp að hraunbrúninni, fékk Benedikt Sigmundsson verzlunarmaður útmælda lóð um líkt leyti og þeir Guðjón og Finnbogi. Var þetta stykki um dagslátta að stærð.
Eftir að Helgi Valtýsson gerðist kennari við Flensborgarskólann árið 1907, beitti hann sér fyrir stofnun ungmennafélags hér í bænum, og hlaut það nafnið 17. júní. Eitt af verkefnum þessa félags var að koma upp vísi að trjárækt og gróðurreit í Víðistöðum. Reiturinn var í norðurhorni svæðisins, í krikanum alveg upp við hraunbrúnina. Þetta félag lifði ekki mörg ár, og gróðurreiturinn gekk fljótt úr sér. Síðustu leifar trjásprotanna, sem þar voru settir niður, kól alveg til dauða frostaveturinn 1918. Fór þannig um fyrstu tilraun til skóggræðslu í Hafnarfirði. Þetta litla svæði mun drengjaflokkur í K. F. U. M. hafa erft eftir ungmennafélagið. Stýrði sr. Friðrik Friðriksson þessum flokki. Bjuggust þeir litklæðum að fornum sið, þegar þeir voru á athafnasvæði sínu. Strýtulagaður klettur var ræðustóll, sandgryfja matskáli, og var starfsemi þeirra frískleg meðan hún entist. K.F.U.M. mun hafa ráðið yfir þessum bletti til 1924.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan.

Skammt frá trjáreit ungmennafélagsins, á stórgrýttum mel til suðurs, ruddu knattspyrnumenn fyrsta knattspyrnuvöll, sem gerður var í Hafnarfirði. Mun það hafa verið eftir stofnun knattspyrnufélaganna Geysis og Kára, en þau störfuðu á stríðsárunum fyrri. Síðan tóku við félögin Framsókn og 17. júní, sem stofnuð voru sumarið 1919, og munu þau einnig hafa æft í Víðistöðum í fyrstu.
Hér að framan hefur í örstuttu máli verið rakið, hverjir fyrst fengu útmældar lóðir og lendur í Víðistöðum og hófu þar ræktun og starf.”
Nú koma til sögunnar hinir eiginlegu landnemar í Víðistöðum, sem þar reistu sér hús og þar hafa búið í fjörutíu ár, en það eru þau hjónin Margrét Magnúsdóttir og Bjarni Erlendsson.
Bjarni Erlendsson er Árnesingur að ætt, fæddur að Vogsósum í Selvogi 30. marz 1881, en uppalinn í Króki í Hjallahverfi í Ölfusi. Hann er því kominn last að áttræðu, en aldurinn ber hann ágæta vel. Margrét kona hans er Hafnfirðingur, fædd hér í bæ 22. maí árið 1889, og stendur hún því á sjötugu.
Bjarni lauk skósmíðanámi í Reykjavík, en aldrei hefur hann stundað þá iðn. Hann fór utan árið 1902 og dvaldist í Bretlandi um tíu ára skeið, mest í Aberdeen í Skotlandi. Vann hann þar aðallega við fiskverkun og önnur lík störf. Árið 1912 kom Bjarni heim til Íslands og settist að í Hafnarfriði. Réðst hann til fyrirtækisins Brookless Bros, sem þá hafði fyrir skömmu hafið litgerðarstarfsemi hér í bænum. Vann hann hjá fyrirtækinu, meðan það starfaði hér.

Víðistaðir

Víðistaðir – hér stóð bærinn fremst á myndinni.

Bjarni hóf starf í Víðistöðum árið 1915, en það ár fékk hann útmælt hjá bæjarsjóði allt það land þar, sem ekki hafði áður verið tekið. Afmarkaðist það af veginum að vestan, hrauninu að norðan, stykki Guðjóns Þorsteinssonar og Benedikts Sigmundssonar að sunnan, en að austan af hraunbrún, knattspyrnuvelli og athafnasvæði K.F.U.M., eða gamla ungmennafélagsreitnum. Árið 1917 keypti Bjarni stykki Guðjóns og Benedikts, og árið 1924 fékk hann bæði knattspyrnuvöllinn og K.F.U.M.-svæðið. Þá fékk hann einnig viðbótarlandsvæði uppi á hraunjaðrinum að austan.
Jarðlag í Víðistöðum var þannig áður en ræktun hófst þar, að syðst var mýrkenndur jarðvegur og votlent, og er svo raunar enn. Var þar mótekja áður eins og sagt er hér að framan. Þurramóar voru þar, sem nú er garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. En að norðanverðu var harður melur eða ísaldarhraun, ekki ósvipað holtunum sunnan við bæinn, og var allstórgrýtt á köflum.
Á svæðinu, sem Bjarni fékk útmælt, var hvergi stingandi strá nema í hraunjaðrinum, en stórgrýti víða og djúpar sandgryfjur, því að ofaníburður hafði verið tekinn í Víðistöðum um skeið. Þurfti því bæði áræði og ötulleik til að ráðast í ræktunarframkvæmdir þarna, en Bjarna skorti hvorugt. Hófst hann handa á því að rækta kartöflur, þar sem tiltækilegast var, en réðst jafnframt miskunnarlaust á stórgrýtið og sandgryfjurnar.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamli Garðavegurinn.

Ekki leið á löngu áður en Bjarni tók að hugleiða um byggingu í Víðistöðum. Og þrem árum eftir að hann fékk landið, eða haustið 1918, hóf hann byggingu hússins, sem enn stendur og er eina íbúðarhúsið, sem byggt hefur verið í Víðistöðum. Bjarni byrjaði að hlaða grunninn 18. október, en einmitt þann sama dag tók Katla að gjósa. Grjótið í grunninn var tekið upp úr landinu í kring.
Efni í húsgrindina keypti Bjarni úr skipi, sem strandað hafði við Svendborg nokkru áður. Hét það Standard og var mikið skip. Ekki gekk smíði hússins slyndrulaust, því að einmitt um þetta leyti geisaði spanska veikin svonefnda, og veiktust smiðirnir hver af öðrum. Lengst entist Guðjón Jónsson, núverandi kaupmaður, en loks var hann tekinn í að smíða líkkistur, því að mikið var um dauðsföllin, en fáir smiðir vinnufærir. Gekk á þessu fram undir jól.
En um vorið var smíði hússins þó að mestu lokið, og var flutt í það 14. maí 1919. Fyrst fluttu þangað hjónin Þorgrímur Jónsson og Guðrún Guðbrandsdóttir, en Þorgrímur vann manna mest með Bjarna að landnáminu fyrstu árin. Nokkru seinna fluttu þau hjónin, Margrét og Bjarni, í hús sitt, en þau giftust 7. júní 1919.
Bjarni í Víðistöðum fékk fljótt að kenna á miklum erfiðleikum í hinu nýja landnánri sínu. Mestur Þrándur í Götu var honum áburðarleysið. Hann sá brátt, að ófrjó jörð sín greri seint og illa, ef hann yrði sér ekki úti um lífrænan áburð.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamall garður.

Á fyrstu árum sínum í Víðistöðum tók hann því að sér sorphreinsun í bænum, og fyllti gryfjur og lautir með ösku og úrgangi, en notaði áburðinn við ræktunina, er hann tók að plægja melinn og sá í flögin.
Árið 1923 hefst nýr þáttur í sögu Víðistaðanna. Þá gerði Bjarni samning yið skozkt fyrirtæki, Isaac Spencer og Co, um byggingu lifrarbræðslustöðvar þar á staðnum. Tvennt bar til þess, að Bjarni stofnaði til þessarar starfrækslu. Annað var það, að árið 1921 varð fyrirtækið Brookless Bros gjaldþrota, en þar hafði Bjarni unnið frá heimkomu sinni. Hitt var áburðarvonin. Lóðarleigan var því sama sem engin, eða aðeins 1 sterlingspund til málamynda, en Bjarni skyldi hafa atvinnu hjá fyrirtækinu og allan afgangsgrút fékk hann ókeypis til áburðar.
Stórt stöðvarhús var byggt í hraunjaðrinum að norðaustan og síðan grútarpressuhús. Bjarni veitti byggingunni forstöðu, og jafnframt var hann verkstjóri, en forstöðumaðurinn var skozkur, William Kesson að nafni, og kom hann hingað á sumrin og dvaldist í Víðistöðum ásamt konu sinni. Meðan verið var að koma fyrirtækinu á laggirnar unnu 10—20 menn við það, en 5 menn að jafnaði síðan, eftir að tekið var að bræða. Lengst munu þeir hafa unnið þar, Þorgrímur Jónsson, sem áður er nefndur, Einar Napoleon Þórðarson, Kristinn Brandsson og Helgi Hildibrandsson.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan. Víðistaðir fjær h.m. Gripahús og hlaða Bjarna v.m.

Lifrarbræðslustöðin í Víðistöðum var starfrækt í 5 ár, á árunum 1923—28, en þá var tekið að bræða lifrina um borð í togurunum, og leið þá fyrirtækið undir lok. Stóðu þá húsin eftir auð og ónotuð, og komu þau í hlut Bjarna, því ekki þótti skozka fyrirtækinu borga sig að kosta til að rífa þau. Standa þau enn.
Um það leyti sem lilrarbræðslustöðin hætti störfum mátti svo heita, að Bjarni hefði komið allri landareign sinni í nokkra rækt. En langur vegur var frá því, að þetta væri nein bújörð, enda er allt svæði Bjarna aðeins 5 ha, ef með eru taldir balarnir austur og vestur á hraunbrúninni, en Víðistaðirnir allir innan hrauns eru um 6 ha. Búskapur Bjarna í Víðistöðum hefur því alla tíð verið frístundaiðja og aukastarf og löngum ekki svarað kostnaði.
Fyrstu árin hafði Bjarni enga kú, en hesta eignaðist hann fljótt, því að hann stundaði um skeið akstur á hestvögnum. Bíl hafði hann ekið áður en bílaöldin gekk í garð, og mun hann vera með fyrstu mönnum í Hafnarfirði, sem þá list kunni.

Víðistaðagráni

Vörubifreið, Ford-TT árgerð 1917 sem Bjarni Erlendsson (1881-1970) bóndi og athafnamaður á Víðistöðum við Hafnarfjörð átti lengst. Hann var nr. HF-27, síðar G-247. Bjarni notaði hann við lýsisbræðslu sína en síðast nánast sem dráttarvél við garðyrkju. Bílinn í daglegu tali oft nefndur Víðstaðagráni.

Bjarni keypti fyrstu kúna árið 1920, og var hún til húsa í litlum kofa, sem hann hafði byggt austan við veginn, ekki langt frá bugðunni, Jægar komið er niður í Víðistaðina. Mun það vera fyrsta húsið, sem byggt var í Víðistöðum. En árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir 4 kýr og 2 hesta, ásamt hlöðu, í hraunbrúninni spölkorn sunnan við lifrarbræðslustöðina. Aldrei hefur Bjarni haft fleiri en 4 kýr, en stundum færri. Nú hefur hann 3 kýr. Fé hefur hann aldrei haft. Jafnan þurfti hann að kaupa hey að, enda varð að beita kúnum á túnið, því að um aðra beit var naumast að ræða.

Víðistaðir

Víðistaðir 1979.

Á kreppuárunum, aðallega árin 1932—36, leigði Bjarni dálitla spildu af túni sínu undir útiskemmtanir. Voru stundum 3 skemmtanir á sumri, og var þá mikið um að vera í Víðistöðum. Þetta var gert í Jjví skyni að afla fjár á erfiðum tímum, því enn þurfti landið sitt. En þetta varð þó lítt til fjár, leigan lág og skemmdir miklar á túni og girðingum. Því hætti Bjarni að leigja tún sitt til þessara hluta.
Enginn vafi er á því, að þau hjónin í Víðistöðum hefðu að ýmsu leyti átt áhyggjuminni daga og næðissamara líf, ef þau hefðu ekki hafið ræktunarstarf sitt þar. Þetta ævistarf þeirra hefur tekið frístundir þeirra allar, umhugsun mikla og oft valdið þeim áhyggjum. Bjarni er manna bezt verki farinn, hugmyndaríkur og greindur vel. Hann hefur jafnan haft mikinn áhuga á að brjóta nýjungar til mergjar og oft fitjað upp á þeim sjálfur. Hann var eftirsóttur við störf, enda þaulvanur að veita framkvæmdum forstöðu. Hann hefði því vafalaust getað fengið gott, fast starf. En vegna Víðistaðanna batt hann sig aldrei til lengdar, því að þar var jörð, sent hann hafði sjálfur grætt, hugsjón orðin að veruleika, en verkefninu þó aldrei til fullnustu Iokið. Þetta land var orðinn hluti af honum sjálfum, og hann gat ekki annað en helgað því krafta sína.

Víðistaðatún

Víðistaðatún – loftmynd.

Árið 1933 hóf Bjarni að gera veðurathuganir í Víðistöðum. Gerði hann þetta af áhuga fyrir athugunum sjálfum, en Veðurstofan lagði til tæki. Þessu hefur hann haldið áfram síðan fyrir litla sem enga þóknun, en mörg stundin hefur í þetta farið þessi 27 ár. Er þetta eina veðurathugunarstöðin, sem verið hefur í Hafnarfirði.
Þótt landgræðslan í Víðistöðum hafi aukið landnemunum erfiði, og vafalaust komið í veg fyrir að Bjarni festi sig í ábatasamara starfi, hafa umsvifin í Víðistöðum orðið Þeim hjónum uppspretta ánægju og lífsnautnar. Svo er jafnan, þegar unnið er að hugsjónastarfi. Því eru þau hress í anda og heilsugóð, þótt ellin knýi nú fast á hurðir.
Ég hef hér í fáum dráttum sagt ágrip af sögu Víðistaðanna, hraunlausu vinjarinnar í úfna hrauninu, sem var mér löngum undrunarefni í bernsku. Margt fleira mætti segja, en ég læt hér staðar numið. Sé í einhverju hallað réttu máli, óska ég leiðréttinga.
Víðistaðirnir eru furðusmíð náttúrunnar, en mannshöndin hefur unnið þar mikið starf. Enn geng ég þangað stundum og nýt áhrifanna af hinu sérstæða náttúrufyrirbrigði og elju mannsins.”

Í Morgunblaðinu 14. desember 1972 birtist minningargrein um Bjarna Erlendsson:

Vogsósar

Vogsósar í Selvogi.

“Bjarni Erlendsson frá Víðistöðum. Bjarni fæddist 30. marz 1881.
Foreldrar hans voru Erlendur Bjarnason bóndi í Vogsósum Selvogi og kona hans, Sigríður Hansdóttir. Átta ára missti Bjarni móður sína, brá þá faðir hans búi og fluttist að Króki í Ölfusi, þrem árum síðar fór hann til Guðrúnar Magnúsdóttur, Hrauni í Ölfusi og þaðan fór hann eftir fimm ára dvöl til Reykjavíkur.
Í Reykjavík hóf Bjarni nám í skósmíði en áður en námstíma lauk fékk hann sig lausan frá námi og fór til Skotlands, þar dvaldi hann í hálft ár, kom síðan aftur til Reykjavíkur og lauk áður byrjuðu námi. Síðan fór hann á ný til Skotlands en nú var dvölin þar lengri en áður því í sjö ár samfleytt dvaldi hann þar, fyrst sem sjómaður, en síðar í 6 ár umsjónarmaður við fiskverkun hjá samvinnufélagi í Aberdeen. Um skeið starfaði hann við veðurathuganir undir handleiðslu þekkts vísindamanns á því sviði, dr. Charles Williams.

Víðistaðir

Söfnunarsaga þessa elsta varðveitta bíl landsins er í raun fróðleg. Árið 1970 voru afar fáir ef nokkrir bílar til í íslensku safni. Bjarni Erlendsson átti bílinn til 1970. Þór Magnússon hafði forgöngu að safna tækniminjum og er T-Fordinn þessi fyrsta verkefnið sem fylgt var eftir af hálfu Þjóðminjasafns Íslands.

Atvikin höguðu því svo að Bjarni kom aftur til Íslands og gerðist verkstjóri hjá brezku útgerðarfyrirtæki, Bookles Brothers, sem þá rak mikla útgerð og fiskverkunarstöð í Hafnarfirði. Við þau störf var hann um árabil en stundaði líka smíðar og eru þau mörg húsin í Hafnarfirði, sem Bjarni teiknaði og stóð fyrir smíðum á, á þeim árum.
Brautryðjandi var Bjarni á sviði lifrarbræðslu og kom upp í Hafnarfirði í samvinnu við fleiri, einni fullkomnustu lifrarbræðslu, sem þá var til í landinu. Af þessu leiddi, að Bjarni var fenginn til þess að gera teikningar af fyrirhuguðum lifrarbræðsLum í Keflavík og Sandgerði, en kom við atvinnusögu fleiri byggðarlaga, því hann var verkstjóri við hafnargerðir á nokkrum útgerðarstöðum.
Lengi mun Bjarna verða minnzt fyrir ræktun og búskap í landi því, er hann fékk til afnota árið 1914, en það eru Víðistaðir fyrir vestan Hafnarfjörð, sem nú eru komnir inn í byggð bæjarins.

Víðistaðir

Ford-T, árgerð 1917, hjá Víðistöðum við Hafnarfjörð, líklega um 1970. Bjarni Erlendsson eigandi bílsins og Otto Christensen.

Árið 1919 kvæntist Bjarni Margréti Magnúsdóttur, sem hann missti eftir 41 árs sambúð, en hún andaðist árið 1960. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið, sem öll komust á legg og giftust. Það eru dæturnar Kristbjörg, gift Guðmundi Sveinssyni, og Sigríður Kristin, gift Garðari Guðmundssyni, en eini sonurinn, Guðjón, lézt 13. október 1965, en hann var kvæntur Ólöfu Erlendsdóttur.
Þótt Bjarni væri hlédrægur maður, fór ekki hjá því að hæfileikar hans yrðu þess valdandi, að honum væri falin trúnaðarstörf í þeim félögum, sem hann starfaði í, en þau voru mörg, þar sem hann var félagslyndur í meira lagi. Ekki verður sá þáttur í ævi hans rakinn hér, að öðru leyti en að minnast starfa hans í Verkamannafélaginu Hlíf.

Víðistaðir

Víðistaðir  og Hafnarfjörður 1960.

Á hinum erfiðu árum fyrir síðari heimsstyrjöldina og á fyrstu árum styrjaldarinnar voru umbrotatímar í sögu verkalýðshreyfingarinnar eins og reyndar í þjóðfélaginu öllu. Bjarni tók virkan þátt í þeim átökum og hlaut fyrir trúnað hafnfirzkra verkamanna og árið 1943 var hann kjörinn í stjórn Hlífar og átti þar sæti síðan í 11 ár og 1946 til 1948 sat hann í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Mér er það minnisstætt hversu mikill stuðningur það var í öllum störfum að njóta reynslu og þekkingar þessa manns, sem hlotið hafði jafnalhliða þekkingu og var laus við að sjá málefni aðeins frá einni hlið.
Eigi er hægt svo sem vert væri, að gera skil í stuttri minningargrein hinni merku og löngu ævi Bjarna Erlendssonar og verður því hér staðar numið með einlægri ósk um að honum verði að veruleika sú bjargfasta skoðun er hann lét oft í ljós, að þegar þessari jarðvist lyki, tækju við aðrir fegurri og betri heimar.” – Hermann Guðmundson.

Heimildir m.a.:
-Víðistaðir – skráning fornleifa og menningarminja – lokagerð, Karl Rúnar Þórsson, Byggðasafn Hafnarfjarðar 28. nóvember 2002.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Víðistaðirnir – Stefán Júlíusson, vinin í úfna hrauninu, bls. 6-8.
-Morgunblaðið 14. desember 1972, Bjarni Erlendsson – minningargrein, bls. 23.

Víðistaðir

Víðistaðir (í miðið) og vestanverður Hafnarfjörður 1959. Mikið af trönum eru við og ofan við Víðistaði.

Traðarfjöll

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þar skrifar hann m.a. um Traðarfjallahraun sunnan Traðarfjalla:

Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun íKrísuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar.

Traðarfjöll

Móhálsadallur. Traðarfjöll efst til vinstri.

“Eftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var Iagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt.
Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld.
Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast.
Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.”

TraðarfjöllÍ Jökli 1991 fjalla Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir um Krýsuvíkurelda. Um er að ræða seinni grein af tveimur um sama efni. Í greininni lýsa þau gossprungunni, sem Krýsuvíkureldarnir eru sprottnir úr:
“Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla.

Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli.
Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprungan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978a) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135-136.
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 64.

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Traðarfjallahraun er nr. 12.