Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum. Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarkot

Reykjanesskaginn á sér magnaða sögu.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki.

Íbúarnir hafa hins vegar oft verið meira sem þátttakendur en gerendur í hinum stærri atburðum, s.s. atburðunum í kjölfar átaka Englendinga og Þjóðverja og aftöku Jóns Arasonar. Mikil umferð fólks var um svæðið alls staðar af landinu, það kom á vertíðir og fór síðan. Kot voru mörg hver lítil og oft nýtt til tiltölulega skamms tíma, sbr. Stekkjarkot í Narðvík. Höfuðbýlin voru fá, en lítt ríkmannleg, með örfáum undantekningum.
Í seinni tíð má segja að á Reykjanesskaganum hafi nútíminn verið stærri en sagan, en víða úti á landi hefur sagan verið stærri en nútíminn (SÁJ).

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Þannig hafa íbúarnir vera meira uppteknir af því að hafa ofan af fyrir sér með niðursoðnu afþreyingarefni en leita þess í sögunni, þjóðarmenningunni. Landsbyggðin hefur hins vegar notið fortíðarinnar og nýtt sér hana til framtíðar. Hvorutveggja eru þau næringarefni nútímans, sem maðurinn þarnast til að geta verið sæmilega sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt.

Víðast hvar í heiminum er verið að leggja aukna áherslu á nýtingu áþreifanlegra minja til að gera íbúnum og gestum þeirra mögulegt að “þreifa á” uppruna sínum.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að uppruninn er sú auðlind, sem allt annað er á eftir kemur byggist á.
Þróun er afbrigði þess þekkta. Sá, sem ekki þekkir, kemur hvorki til með að geta þróað eitt né neitt.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Gömlu-Hafnir

“Það er haft eftir Magnúsi Stephensen, að samkvæmt ævagömlum heimildum hafi mest allur hluti Reykjaness árið 1000 sokkið í sæ, og þá komið upp Geirfuglasker. Ætti þá fyrir þann tíma að hafa verið land langt norðvestur út fyrir Eldeyjar, þannig að Eldey og drangar þeir, sem þar eru, hafi á þeim tíma og fyrr verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Þetta er mjög líklegt, enda kemur það heim við fornsögur vorar, því þar er þess getið, að þegar fornmenn komu siglandi fyrir Reykjanes, þá blasti við þeim opinn Faxaflói. Kemur þetta alveg heim við nútímann.
Árið 1118 er mesta óár, og undur gerast á Reykjanesi. Þá er landskjálfti mikill og eldur þar fyrir; þá farast 18 menn. Svo kemur röðin af óárunum á Reykjanesi og eldgosum, er smátt og smátt eyðileggja allan þann gróður og grashéruð, er hafa verið til forna á Reykjanesi.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Árið 1206 er eldgos á Reykjanesi, sömulieðis 1210, og ’11 brann Reykjanes. Þá sukku ýmsar eyjar, er voru úti fyrir nesinu. 1222 er einnig eldgos, 1223 líka; það sama á gýs Hekla. Fyrri helmingur 13. aldar á mestan þátt í því að leggja býlin í kringum Skjótastaði í auðn. Myrkur var um hábjartan dag á Suðurnesjum árið 1226.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Elsta handrit um byggð í Höfnum, er máldagi, sem Vilkin biskum gjörði, er hann visiteraði í hafnirnar 1397, eða 5 árum fyrir Svartdauða. Þessi visitazía er elsta og merkilegasta lýsing á Höfnum, eða réttra sagt Vogkirkju. Á þessum máldaga sést að Vogskirkja er helgið Maríu mey, fyrst og fremst, og að nokkru leyti Pétri postula.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður ofan Gömlu-Hafna.

Rosmhvalanes var, samkvæmt gömlum skjölum, frá grófinni hjá Duus í Keflavík í Háleitisþúfu og þaðan í Ósabotna, er þeir ná lengst í austur. Hvað byggt hefir verið sunnar með Ósunum á þessum tímum, er ei vitað, en þó líklegt, að í Kirkjuvogi hafi verið kot eða hjáleiga frá Vogi.
Í Kirkjuhöfn var kirkja á 12. og 13. öld, þótt ekki sé hennar getið hjá Vilkin biskupi.
Talið er víst, að byggð hafi verið á Eyri lengi fram eftir 18. öld, því 1770 býr þar í Eyrarbænum Ormur Þórarinsson (Litla Sandhöfn (Sandhöfn)). Um 1702 er Litla-Sandhöfn skilgreind. Bærinn eyðilagðist 1650 og Eyrarbærinn fór í eyði um 1770. Kirkjuhöfn mun leggjast í afslöppun á næstunni nokkru síðar, 1660, og Eyrarbærinn fór í eyði 1776.
Kirkjan er mjög áhugaverð.”

-Séra Jón Thorarensen
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Dauðsmannsvarða

 “Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgatan gengin.

Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar. Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsgata neðri við Sandgerðisgötu.

Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar. Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannvarða.

Sem dæmi um framangreint má nefna Jón Guðmundsson, bónda í Sandgerði, 42 ára. Hann varð úti nóttina 21. desember 1930 í ofsaveðri, þá er hann var á heimleið frá Keflavík eftir forlíkun; fannst nóttina þess 22. desember skammt frá bæjum, helfrosinn.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður Eiríksson við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Þorlákur Stefánsson, 45 ára, vinnumaður frá Núpi í Fljótshlíð, sjóróandi á Hrúðunesi í Leiru, varð úti nóttina að 24. febrúar 1837 á Hólmsbergi á leið frá Keflavík að Hrúðurnesi. Hann fannst látinn um kvöldið daginn eftir.

Ásgeir Sigurðsson, 53 ára, giftur húsmaður frá Keflavík, nú sjóróandi frá Gerðum, varð úti á leið frá Keflavík sunnudagsnóttina 31. mars 1861. Fannst eftir viku, nálægt Hólmsbergi við Sandgerðisvegamót. Hafði verið drukkinn og mun hafa liðið í brjóst.

Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á Miðnesheiði á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.”

Heimild:
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

 

Bollasteinn

Úti við Gróttu á Seltjarnarnesi er útilistaverk Ólafar Nordal (fædd 1961); Bollasteinn. Það er gert úr heilum grágrýtissteini sem í er sorfin hringlaga fótbaðs- eða vaðlaug. Listaverkið var sett upp um 2005 og er á svonefndum Kisuklöppum.

Bollasteinn

Bollasteinn.

“Laugin er lýst upp með mildu rafljósi að innanverðu og í hana rennur stöðugt óblandað, forkælt jarðhitavatn úr borholum Seltjarnarness, en það hefur einstaka samsetningu og jafnvel lækningamátt.

Ólöf er fjölhæfur listamaður sem hefur unnið með margs konar efni. Viðfangsefni sín sækir hún gjarnan í þjóðlega arfleifð og menningarleg minni sem hún setur í nútímalegt samhengi. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin.

Þúfa

Þúfa – listaverk Ólafar Nordal í Örfirisey.

Í Bollasteini vísar hún til fornrar laugarhefðar Íslendinga um leið og hún hvetur fólk til að upplifa hita og kraft jarðar með því að fara úr sokkum og skóm og verða eitt með náttúrunni í fjöruborðinu. Þannig verður það þátttakendur í eins konar gjörningi „á mörkum byggðar og náttúru, lands og sjávar, himins og jarðar”, segir listakonan. „Með heita fætur streymir blóðið um kroppinn, líkamleg og andleg skynjun vex, næmi fyrir umhverfinu vaknar og tengsl við náttúruöflin myndast.”

Heimild:
-Texti eftir Ásdísi Ólafsdóttur, listfræðing – https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins/olof-nordal-bollasteinn.

Alþingi

Alþingi – Vituð ér enn – eða hvat? Grásteinn og hljóð. Alþingi. Reykjavík. 2002; listaverk Ólafar Nordal.

Hvalsnes
“Einhvern tíma snemma vors árið 1637 kemur skip sem oftar fyrir Reykjanes og stefnir til Keflavíkur.
Bát er róið út í skipið og leggjast að hlið þess. Forvitin augu beinast að bátsverjunum úr landi. Hún er þögul, en hann er ræðinn og léttur í máli.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Áður en lent er í fjörunni hafði hann sagt nokkur deili á þeim báðum, sér og konunni. Hann hét Hallgrímur Pétursson, ættaður að norðan, hafði verið í Lukkustað og Kaupenhöfn, vegið kol, stundað járnsmíði og lesið latínu. Konan hét Guðríður Símonardóttir, kynjuð frá Vestmannaeyjum.
Ekki fara sögur af því hvar þau áttu náttstað fyrstu nóttina á Íslandi eftir langa og að mörgu leyti stranga útlegð.
Hallgrímur var stórættaður maður, þótt hann ætti til smárra að telja hið næsta sér. Afabróðir hans hafði t.d. verið prestur á Útskálum og hans sonur síðan. Afabróðir hans annar var síra Þorlákur á Staðarbakka í Miðfirði, faðir Guðbrands biskups. Föðursystir hans átti Jón prófast Sveinsson í Holti, hálfbróður Brynjólfs biskups. Sakir ætternis hafi Hallgrímur flust til Hóla nýfæddur, – sé hann þá ekki fæddir þar á staðnum, – en Pétur, faðir hans, var, eins og kunnugt er, hringjari eða kirkjuvörður við dómkirkjuna á Hólum og hafði Guðbrandur biskup látið hann njóta frændsemi í þessu.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Ekkert er vitað með vissu um það, af hvaða orsökum Hallgrímur fer frá Hólum og til útlanda. Munnmæli herma ýmist að hann hafi hlaupist á brott með kaupmönnum eða, að hann hafi komist í óvingan fyrir kvenfólk á staðnum sökum kveðlinga.
Þjóðsagan segir, að þegar Hallgrímur löngu síðar kom í Skálholt og gerði boð fyrir biskupinn og kvað Hallgrím Pétursson vilja tala við hann, hafi biskup svarað: “Fari hann ofan í smiðju og reki járn, það kann hann”.
Ungi maðurinn yfirbragðsmikli, sem varð landfastur í Keflavík einhvern maídag 1637, átti þá mikla sögu að baki, þótt ungur væri að aldri, aðeins 23 ára.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Guðríður hafði verið hertekin ambátt hjá Hundtyrkjum. Hún hefur eflaust fljótlega eftir komu sína hingað þegið þá nafnbót af Suðurnesjamönnum, sem hún hefur síðan borið, Tyrkja-Gudda. Ástir þeirra höfðu brotið blað í lífssögu beggja, einkum hans.
Maður Guðríðar reyndist látinn. En eigi að síður var aðstaða þeirra gagnvart almenningsálitinu í meira lagi örðug, og sek voru þau að þeirra aldar lögum, þótt brotið teldist ekki eins alvarlegt og þau hafa, e.tv. haft ástæðu til að vænta. En Guðríður gekk upprétt sína ævibraut. Hún og Hallgrímur hittu fyrir góða menn hér syðra, sem reyndust þeim hjálplegir í erfiðleikum þeirra. Hann var að sönnu þurfamaður á Suðurnesjum að ýmsu leyti.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur hefur orðið að leita sér atvinnu hér og fyrsta sumarið var hann púlsmaður danskra Í keflavík. En Guðríður fékk athvarf í Ytri-Njarðvík hjá Grími nokkurm Bergssyni, sem var þeim óvandabundinn með öllu. Barn þeirra Hallgríms ól hún hjá Grími nýlega á land komin og nefndi Eyjólf eftir fyrra manni sínum.

Mér sýnist sem minning Gríms í Njarðvík, og þess, sem hann gerði fyrir Hallgrím, sé fullnóg hinum megin á vogina, til þess að rétta hlut Suðurnesjamanna. Fleiri reyndust Hallgrími góðir drengir. Hann bjó á Bolafæti í Njarðvík ytri, en dvaldist öðrum þræði í Hvalsneshverfi í skjóli bóndans þar, Þorleifs Jónssonar. Þorleifur mun hafa hvatt Hallgrím á biskupsfund, til þess að sækja um Hvalsnesþing og að það hafi verið hann, sem tók að sér “forsorga hans hyski”, meðan hann var í burtu. Hallgrímur dvaldist um sjö ár hér á Suðurnesjum, en er Brynjólfur Sveinsson, sem þá var orðinn biskup í Skálholti, skerst öðru sinni í leikinn, skiptir þáttum í ævisögu Hallgríms.

Hvalsneskirkja

Stærri klukkan frá 1875.

Hvalsnesþing voru prestlaus og höfðu verið um skeið. Reyndist torvelt að fá menn til þessa embættis og er Torfa sýslumanni einkum kennt. Einhvern tíma á vertíðinni 1644 fær Hallgrímur sig lausan úr skipsrúmi sínu, til þess að takast brýna ferð á hendur – að hitta Brynjólf biskup. Munnmælin segja, að Hallgrímur hafi farið fótgangandi í Skálholt og illa búinn og viðtökur staðarmanna hafi verið heldur kaldranalegar. En hljóðið hafi breyst í þeim, þegar hann hafði prédikað í dómkirkjunni. Þegar hann hélt úr hlaði í Skálholti, hafi hann hlotið vígslu í Hvalsneskirkju af Brynjólfi biskupi. Þá var hann sæmilega búinn, því að biskup gaf honum alklæðnað góðan, reiðhest með öllum reiðtygum og hempu.

Hvalsneskirkja

Minni klukkan – áletyrun I CH GAMST KHVN 1819 Tionsen Hvalsness.

Aðkoman að Hvalsnesi var að sönnu ekki glæsileg, staður og kirkja í niðurníðslu og embættistekjurnar næsta rýrar. En þetta skipti ekki meginmáli, heldur hitt, að veitingin var sú uppreisn, sem Hallgrímur þurfti að fá. Hann hafði borið upp á Suðurnes af skipreika og í mörgu tilliti verið eins og sjórekið flak. En hann var kjörviður andlegra yfirburða. Hér á Hvalsnesi komst Hallgrímur upp úr flæðamálinu, hér náði hann að skjóta rótum í jarðvegi íslenskrar kristni. Á þessum stað tók meiður að bruma, sem átti eftir að lyfta laufkrónu sinni svo hátt, að hún blasir við augum allra kynslóða á Íslandi.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hallgrímur var prestur að Hvalsnesi í 7 ár. Hann var 37 ára (1651) er hann fluttist á brott, að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Helsti minnisvarði Hallgríms að Hvalsnesi er legsteinn Steinunnar, dóttur hans. Hann reisti henni, þriggja og hálfs árs, bautarstein og lagði hann á legstaðinn. Steinn þessi fannst er verið var að lagfæra stéttina við kirkjuna. Hann er nú í kirkjunni á Hvalsnesi.”

-Sigurbjörn Einarsson
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Fagradalsfjall

Á Vísindavef Hákóla Íslands má lesa eftirfarandi svar Svavars Sigmundssonar, fyrrv. forstöðumanns Örnefnastofnunar um “Er Reykjanes sama og Suðurnes?”:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
“Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.”
Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
“Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu”.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Frá Suðurnesjum

Frásagnir frá liðinni tíð. Þessi bók fjallar að mestu um útgerð og sjósókn og ýmislegt þessu tengt frá Suðurnesjasvæðinu.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi.”

Áttir á Suðurnesjum voru jafnan tvær fyrrum; út (norður) og inn (suður). Þannig eru t.d. tilkomin örnefnin Út-Garður og Inn-Garður, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.

Heimildir:
Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.

Heimild:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanesskagi

Fagradalsfjall verður seint talið á Reykjanesi – hvað þá á Suðurnesjum.

Ranglát

Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði vildi vekja athygli á eftirfarandi eftir ferð um Sveitarfélagið Garð fyrir stuttu:

Ranglát

Ranglát.

“Takk fyrir síðast.

Þegar við fórum ferðina um Garðinn var ég spurður um vörðu sem er syðst á Langholtinu í Leirunni, og vissi ég það ekki þá.
Nú hef ég komist að því.
Varðan heitir Ranglát og var reist af opinberum aðilum en ekki er vitað hvenær það var [skv. örnefnalýsingu Hólms var varðan hlaðin 1793].
Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði, sem ekki er vitað hvað var. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna.

Ranglát

Ranglát.

Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát. Kanski er hægt að fá betri upplýsingar um vörðuna einhverstaðar.
Tengdafaðir minn Guðni Ingimundarsson sagði mér þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er látinn.”

Kveðja,
Ásgeir Hjálmarsson

Ranglát

Ranglát – upplýsingaskilti við vörðuna.

Þorbjarnarstaðir

Hér verður vitnað í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum og nágrenni. Hún var upphaflega skráð af Gísla á sjöunda áratugnum eftir Ástvaldi Þorkelssyni frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónssyni frá Hlíð, Magnúsi Guðjónssyni frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfssyni frá Eyðikoti. Einnig studdist hann við gömul landamerkjabréf.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir og nágrenni – örnefni og minjar.

   3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt þremur öldruðum mönnum, Gísla Guðjónssyni, Gústaf Brynjólfssyni og Jósef Guðjónssyni. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980. Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hér fer á eftir lýsing Gísla með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.

“Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við. Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið, sem Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti og enn stendur. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti. Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Lambúsgerði.

Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.)
Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólmana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörnunum. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörinni sér enn djúpar skorir eftir bátskilina. Gísli Sigurðsson segir, að það muni vera þessi staður, sem í bréfi frá 1849 nefnist Brynjólfsskarð og var nyrzta mark landamerkja milli Þorbjarnarstaða og Straums. En þetta kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekkert við og þykir það óskiljanlegt, því að ekkert skarð er á þessum slóðum.

Péturskot

Péturshróf.

Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið. Segir Gísli, að það hafi legið af hólmunum um Litla-Stróka, sem hann nefnir svo, og þaðan upp á Stróka eða Stóra-Stróka að Litla-Lambhaga, sem í fyrstu nefndist Nýjakot. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans kannast ekki við nafnið Litli-Stróki og telja hæpið, að Stróki hafi verið kallaður Stóri-Stróki. – Þetta eru tangar, sem ganga í sjó fram, og standa smáklappir upp úr.

Lambhagi

Lambhagaeyrarbyrgi.

Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess. Fram milli Stróka lá Ósinn eða Nýjakotsósinn, sem eiginlega var lækur. Mest bar á honum við útfall, og var þar í allmikið vatn.
Gísli segir, að í túninu hafi verið þessir matjurtagarðar: Geiragarður, Stórigarður og Hraungarður. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans muna ekki eftir kálgörðum í túninu, en garðar voru utan túns og m.a. einn við fjárhúsin við upphaf Ólafsgötu.
Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að þar hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni. Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið. Austan við bæinn var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.
Sjávargatan lá frá bæ norður á Stróka í Litla-Lambhagavör, sem einnig var nefnd Litla-Lambhagalending. Þar hjá var Litla-Lambhagahróf.

Lambhagi

Litla-Lambhagavör.

Lambhagavík lá frá Stróka austur á Eyri. En Lambhagamenn nefndu svo Straumsvíkina sín megin. Um suðurhluta túnsins liggur nú vegur inn til álversins og einnig Reykjanesbrautin. Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Lambhagatjarnarós rann fram úr Stóra-Lambhagatjörn til sjávar milli Stróka og (Stóra-)Lambhagagranda. Vestast á grandanum var klettur, er nefndist Laufahjalli. Austan við hann var Þorbjarnarstaðavör og Gerðisvör. Þar má enn sjá móta fyrir hleðslu af bátshrófi eða skipahrófinu.

Lambhagi

Litli-Lambhagi – útihús.

Austar nokkuð var hraundrangur, nokkuð sprunginn að ofan, en gras á honum. Gísli Guðjónsson segir, að hann hafi alltaf verið nefndur Leikarahóll. (Í eldri skránni stendur Leikhóll). Krakkar hafa getað leikið sér þar, en einnig kann nafnið að stafa af því, að lömbin hafi leikið sér þar. Af vesturodda grandans lá garður um þvera Lambhagatjörn. Upp í Aukatún lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-Lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús. Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu. Austan bæjarins lá skerjagarður fram í víkina. Hann nefndist Kelatangi, en ekki er vitað, af hvaða Kela hann dregur nafn. Þar fyrir sunnan var Lambhagavör og upp af henni Lambhagahróf. Lambhagatúnið lá um grandann og Lambhagahólma, en milli þeirra voru Lambhagatjarnir. Í þeirri, sem næst var bænum, var brunnurinn, grafinn niður í leirinn, og frá honum Brunnstéttin, helluflórað upp til bæjar. Hér úti í tjörninni var lítið, upphlaðið byrgi, Tjarnarbyrgið. Stóra-Lambhagastígur lá um hólmana eða austur fyrir þá upp að Brunanum og norðan undir honum og vestur með og var þar nefndur Hallinn. Ef gest bar að garði, sem fór þessa. leið, var vanalega sagt, að gesturinn væri á Hallanum. Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann. Um Brunann lá einhlaðinn grjótgarður vestur á Hraunhornið, Brunagarðurinn. Uppi á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri. Þarna er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur upp frá túninu í hlið á austurtúngarðinum. Frá hliðinu lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Beinavíkurhlið, sem nefnt er í skrá Gísla, er óþekkt.
Fjárslóðin vestari liggur um Lambhagaeyrarkletta, og er stígur þessi heldur ógreiður. Miðja vegu í klettunum var Litlaeyri, vík. Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að upp af henni inni í hrauninu hafi verið Klettstjarnir, með fersku vatni. Þessu mótmælir Gísli Guðjónsson og segir, að þar hafi aðeins verið ein tjörn, sem hét Eyrartjörn. Þó kann að vera, að einhverjar smátjarnir hafi komið upp þarna um hásjávað.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Víkin var einnig kölluð Litla-Sandvík. Nokkru utar var svo komið á Lambhagaeyri. Lá hún í sveig og var nokkuð stórgrýtt. Hingað rak mikið af sölvum, sem fé sótti mjög í. Gísli Sigurðsson segir, að eyrin hafi líka verið kölluð Stóra-Sandvík, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekkert við. Eyrin lá út að Lambhagaeyrarnefi, sem lá fyrir mynni Straumsvíkur. Lambhagaeyrartangar var nefið kallað ásamt Lambhagaeyrarrifi, sem lá beint á sjó út. Háasker var drangur út frá eyrinni, en milli hans og eyrar var Músarsund. Eyrin var allbreið, og hallaði inn af henni. Þar var Lambhagaeyrarflöt og í henni matjurtagarður. Niður frá flötinni var Lambhagaeyrartjörn. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þó var þarna ferskt vatn. Vestan við tjörnina var Lambhagaeyrarskjól og þar við Lambahageyrarbyrgi. Sunnan við tjörnina eru Skotbyrgin, Skotbyrgið eystra og Skotbyrgið vestra. Hér upp af ganga geilar og bugður og nefnast Katlar. Af eyrinni liggur fjárslóðin eystri inn eftir Eyrarklettum.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Út af þeim var klettur, nefndur Einbúi. Slóðin lá allt inn í Þórðarvík, en þar voru mörk milli Þorbjarnarstaða og Hvaleyrar. Hér kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti, fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg.) Hér út frá Þórðarvík er Þórðarvíkurþari. Gísli Sigurðsson segir, að Hraunavík heiti hér fram undan austan frá Hvaleyrarhöfða vestur að Óttarsstaðatöngum en heimildarmenn sr. Bjarna þekkja hvorki nöfnin Hraunavík né Óttarsstaðatanga. Þó gætu þessir tangar verið nefndir Óttarsstaðatangar frá öðrum bæjum en Óttarsstöðum.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin millum Þorbjarnarstaða og Gerðis ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.

Alfaraleið

Alfaraleiðin – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðaker.

Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.

Selhraun

Gerðisstígur (Hellnastígur) um Selhraun.

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur
Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur.
En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta. bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.

Vorrétt

Rauðamelsrétt (Vorrétt).

Skammt suður þaðan í Brúnabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.

Brundtorfur

Brundtorfuhellir.

Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun. Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur.

Gjásel

Gjásel. Í örnefnaslýsingunni er því lýst sem Fornasel.

Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.

Gjásel

Gránuskúti í Gjáseli.

Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan. Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum. Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi. En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða, stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.

Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð. Athugasemd: Sr. Bjarni kannast ekki við Fremri-Flár. Á þessum stað virðist lýsingin ekki í fullu samræmi við lýsingu Straums, en enginn núlifandi maður treystir sér til að leiðrétta þetta misræmi.” – Örnefnastofnun, 11. nóv. 1980; Sigríður Jóhannsdóttir [sign.]

Heimild:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum með athugasemdum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin- varða.

Stekkjargil

Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrra skiltinu; “Stekkjargil“, segir m.a.: “Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins”.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.

Á síðara skiltinu: “Stekkur“, má lesa eftirfarandi fróðleik: “Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.

Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjargil

Stekkjargil – Stórhóll t.h.