Krýsuvík

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið.

Eyri

Eyri – tóftir.

Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring…

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892. Snorrakot t.h.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestarilæk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti. Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu.

Selalda

Fjárskjól undir Strák í Selöldu.

Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera. Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.

Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var stíflaður á nokkrum stöðum upp að námunum og brennisteinninn skolaður í hólfunum.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hafliðastakkur norðan Bæjarfells. Uppdráttur: ÓSÁ.

Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar. Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði. Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni. Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum. Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Ögmundarhrauni.

Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.

Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

-ÓSÁ tók saman.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Brennisteinsfjöll

Brennistaeinsjallasvæðið hefur nú verið friðlýst. Því ber að fagna.
Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og liggur í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um er að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna má ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum.

Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu.

Kista

Kista í Brennisteinsfjöllum – samtal.

Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

Brennisteinsfjöll

Útsýni yfir Reykjanesskagann til vesturs frá Bollum.

Húshólmi
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða.
Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála, skammt frá skálatóft.

Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

Í nýrri bók Trausta Valssonar “Skipulag byggðar á Íslandi” er kort af skiptingu landnámsins, auk korta af verleiðum og helstu samgönguleiðum á SV-landi skv. korti frá 1849.
Grindavík

Fjórða eldgosið ofan Grindavíkur, á milli Sundhnúkagígaraðarinnar og Stóra-Skógfells, hófst kl. 20:23 þann 16. mars 2024. Þetta er sjöunda hrinan í röð eldgosa á þessum sveimi síðan 2021.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024 og þriðja 8. febrúar 2024. Fyrri goshrinurnar voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, en líklegt er að þessi verði svolítið langlífari í tíma, þótt einnig skammvin verði, að mati sérfræðinga.

Sprungan að þessu sinni er 3-4 km löng. Hraun rennur mestmegnis til suðvesturs á þessu stigi, en einnig til suðausturs í átt að Hrauni og Sloka. Bjarminn sést víða í kvöldhúminu á Suðvesturhorninu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrirvari að aðdraganda gossins að þessu sinni var u.þ.b. ein mínúta.
Um er að ræða stórkostlegt sjónarspil náttúruaflanna þar sem þau sýna ofurmátt sinn gagnvart okkur mannfólkinu.

Gosið er nokkrun veginn á sömu slóðum og gosið sem varð 18. desember. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það. Hraunið er óvenjuþunnfljótandi og rennur því hratt undan hallandi landinu s.s. fyrr er lýst.

Sjá myndir úr eldgosunum fjórum við Sundhnúk.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars 2024.

Valahnúkar

Á Reykjanesskaganum eru nokkrir alræmdir draugar, s.s. Stapadraugurinn, Arnarfells-Labbi og Tanga-Tómas á Selatöngum. Einnig hefur borið á annars konar draugum á svæðinu, jafnvel mennskum:

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

1. Mógrafa-Móri. Hefur sést við mógrafir. Segir sagan að hann hann hafi ætlað að ná sér í mó hjá öðrum, fallið í gröfina og ekki komist upp aftur fyrr en að sér gengnum. Nú situr hann fyrir þeim, sem leið eiga um mógrafasvæðið.
2. Landamerkja-Labbi. Sagt er að sá, sem færir til landamerkjavörðu, dæmi þar með sjálfan sig til að rogast með grjót í vörður allar nætur til eilífðarnóns. Dæmi eru um nokkra slíka á Reykjanesi. Ekki er þó vitað til þess að þeir hafi gert öðrum en sjálfum sér mein.
3. Hella-Hedda. Einn af fáum kvendraugunum. Á það til, líkt og Tanga-Tómas á Selatöngum, að grípa í hæla fólks er á leið um dimma hella, einkum þar sem fallegar hraunmyndanir er að finna, slökkva á ljósum þess eða gera því aðra grikki. Nokkur dæmi er um að fólk hafi lent í verulegum erfiðleikum með að rata út aftur eftir aðfarir hennar.
4. Írafells-Móri. Írafells-Móri var alþekktur hér í Reykjavík á seinna hluta 19. aldar. Var talið að hann fylgdi Mörtu Þórðardóttur skóara í Vigfúsarkoti. Annars fylgdi hann líka Engeyingum og var því oft nefndur Engeyjarmóri. Þeir feðgar Kristinn Magnússon og Pétur kölluðu hann frænda sinn, en gættu þess að hann kæmist ekki út í eyna.

Tröll.

Valahnúkar

Tröll á Valahnúkum.

Tröll eru á mörkum þess vitsmunalega. Þau standa fjær manninum en t.d. álfar og huldufólk.
Sagnir eru um tröll á Reykjanesi. Nokkrar klettamyndanir og örnefni staðfesta sagnir um að sum þeirra hafi orðið þar að steinum, s.s. á Valahnjúk ofan við Valaból. Sögn er og til um að dautt tröll hafi fundist fyrir alllöngu síðan, en ekki er vitað hvað varð um “jarðneskar” leifar þess. Ekki er útilokað með öllu að enn kunni að finnast dauð tröll á svæðinu. Sum svæðin eru það lítið könnuð.
Örnefni á Reykjanesi benda til trölla, s.s. Trölladyngja og skessukatlar. Sumsstaðar má sjá steinrunnin tröll á varðbergi, s.s. á Sveifluhálsi og í Hlíðarskarði. Grýla og Leppalúði gista milli jólalangt í hellum á nesinu, Skessa bjó í Festarfjalli og til tröllabarna sást lengi vel í Krýsuvík.

HÉR má sjá meira um drauga á Reykjanesskaganum.

Tröll

Tröllin vaka yfir hraununum.

Stakkavík

Eggert Kristmundsson er fæddur 17. febrúar 1919.
Þann 28. febrúar s.l. (2009) var farið í fylgd hans í Herdísarvík og í Stakkavík með viðkomu í Breiðabás. Eggert var þá nýorðinn 85 ára, en ótrúlega hress eftir aldri. Í ferðinni lýsti Eggert staðháttum og sagði sögur af fólki og atburðum. Tækifærið var notað og Stakkavíkursvæðið rissað upp eftir lýsingu Eggerts. Þar lýsti hann m.a. Gálgaklettum, Álfakirkjunni, smalabyrgjum, hlöðnum kálgarðsveggjum, íbúðarhúsinu, staðsetningu gamla bæjarins, sem nú er á hólma út í Hlíðarvatni, sýn á huldufólk og fleiru, sem fyrir augu bar. Eftirfarandi frásögn er skráð eftir honum í ferðinni:

Eggert

Eggert Kristmundsson.

Eggert fæddist í Stakkavík og er því manna fróðastur núlifandi manna um svæðið. Hann fluttist þaðan árið 1943 að Efri-Brunnastöðum í Vatnsleysustrandahreppi.
Á leiðinni gat Eggert þess í innskoti að hann hafði heyrt að sá sem hlóð Staðarborgina ofan við Kálfatjörn hafi fengið einn tóbaksbita fyrir verkið. Bitinn kostaði þá 2 krónur.
Eggert lærði að lesa hjá Önnu, dóttur Ólafs Þorvaldssonar í gamla bænum í Herdísarvík. Hann sagði Ólaf hafa verið mjög skemmtilegan mann, sem sagði mjög vel frá og las afburða vel upp úr bókum. Eggert var í skóla í Selvogi í einn vetur en svo kom kennari annað slagið heim í Stakkavík. Hann var fermdur í Strandakirkju.
Eggert var um 10 ára þegar hann villtist í Breiðabáshelli, en þangað var förinni m.a. heitið. FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað opsins, en sjávarkamburinn hefur nú hulið með öllu.
Eggerts minntist ummæla útgerðarmanns í Selvogi varðandi föður þeirra: “Þótt ég þyrfti að bera Kristmund út í bátinn þá verður hann minn háseti”. Kristmundur þótti mjög fiskinn. Hann var líka var mikill söngmaður. Það var Guðni í Þorkelsgerði einnig.
Eggert minntist þess að Gísli Scheving, móðurbróðir Eggerts, hafi komið um Stakkavíkurveg með grammafón á bakinu frá Hafnarfirði árið 1925 ásamt 30 sauðum. Grammófónninn þótti mikið undur.

Eggert

Eggert.

Á leiðinni austur sagði Eggert frá för hans og Gísla bróður hans ásamt 12 ára strák úr Hafnarfirði og föður þeirra með fé frá Krýsuvík áleiðis til Hafnarfjarðar. Þetta var sennilega árið 1935. Þeir hefðu farið frá Stóra-Nýjabæ í góðu veðri, en þegar þeir fóru um Ketilsstíg á Hálsinum versnaði veðrið til muna. Þeir komu þó fénu yfir, en urðu að berjast með það, 35 sauði og 15 lömb í veðrin og villtust. Þeir römbuðu á för sín aftur yfir Ketilstíginn og röktu hann til baka. Þá náði snjórinn í kvið á hestunum. Þeir hörfðu verið 17 tíma í förinni, kaldir og hraktir. Þeir gistu í Stóra-Nýjabæ á leiðinni til baka, voru þar um nóttina.

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Morguninn eftir þurftu þeir að fara í blautu fötin aftur því þau höfðu ekki náð að þorna um nóttina. Daginn eftir fóru þeir svo með féð til Hafnarfjarðar.
Guðmundur í Stóra-Nýjabæ, sem þótti skemmtilegur í tilsvörum, var eitt sinn spurður um Guðmund nafna hans Guðmundsson á Hrauni, síðar Skála. Hann svaraði: “Hann hefur það gott, hann sofnaði í 40 ár og leitaði gæfunnar, en nú er hann búinn að finna hana, blessaður”. Guðmundur var þá að dunda við að brugga landa.
Guðmundur fór í útgerð og komst hún fyrir í einni tunnu (net og annað). Fór þá Guðmundur í Nýjabæ heim og náði í 1200 krónur, sem hann lánaði til útgerðarinnar.
Fylgdist með þegar verið var á byggja húsið í Herdísarvík. Það var hvítt á litinn.
Einar Ben. var glæsilegur maður þegar hann kom að Herdísarvík, en hann var eins og vofa undir það síðasta. Margir kunningar hans komu í heimsókn og helltu hann fullan. Reyndar hafði Hlín leyfi til að brugga á þeim tíma.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Krakkarnir voru spenntir fyrir að sjá þjóðskáldið fyrsta sinni og fóru því með nýrekna grásleppu sem tilefni heim í Herdísarvík. Hlín tók á móti þeim og sagði við Einar: Þetta eru börnin hans Kristmundar í Stakkavík. “O, ætli ég þekki ekki hann Kristmund, hann var skrifari hjá mér í Ameríku”, svaraði Einar þá. Einu sinni mætti Einar þeim með hvítan vasaklút og sagði: “Þetta er það eina sem ég á”. Í annað sinn, þegar Hlín hafði látið elta Einar að Fálkageiraskarði þar sem hann var á leið í “sorann í Reykjavík” og færa til baka, varð Einari að orði: “Hér er ég fangi milli tveggja svartra fjallla og sé aðeins upp í himininn”.

Um drápið á Surtlu sagði Eggert: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

“Hlín var einstaklega dugleg og krafðist þess sama af öðrum. Hún var hetja, fögur kona, há og þétt á velli og lagði sig fram við að styðja Einar. Það sem Hlín gerði fyrir Einar hefur verið óþakklátt og henni hefur ekki verið nægilegur sómi sýndur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann”.
Bruggið var í tunnu (tunnum) fyrir utan húsið.
Stundum skiptust þau Hlín og Kristmundur á olíu eftir því hvort átti.
Fólk kom í Herdísarvík, bara til að forvitnast, stundum á rútum. Einu sinni var Hlín sofandi en Eggert í heyskap þegar fjöldi manns kom og óð yfir slægjunna og skoðaði inn í öll hús. Þegar Hlín vaknaði spurði hún fólkið hver hefði boðið því þangað.

Herrdísarvík

Herdísarvík – Hlín og Einar ásamt vinnufólki.

Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.
Hlín fékk fé sitt frá Sigurði á Hlíðarenda en það var ættað úr Borgarfirðinum.

Stakkavík

Íbúðarhúsið í Stakkavík.

Sementið í Stakkavíkurbæinn var flutt með Hermóði frá Eyrabakka út í Selvog og þaðan á hestum heim. Náð var í sand í poka út á Víðisand og möl norður fyrir Hlíðarvatn. Víðisandur (Viðarsandur) var stundum nefndur Púkasandur og þá eftir sögum af galdraprestinum. Allt borið á bakinu upp á bæjarhólinn og voru 17 menn við verkið.
Eggert og fleiri náðu í borðviðinn í Stakkavíkurbæinn til Hafnarfjarðar. “Þetta var djöfullegur flutningur”. Borðin stóðu langt upp af makka hestanna og þetta var alltaf að slitna niður. Borðin styttust um 1. fet við að dragast eftir klöppunum.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Ganga frá Stakkavík að Hrauni í Grindavík tók 7 tíma, 6 tímar yfir fjallið til Hafnarfjarðar, en 10 tíma ef Krýsuvíkurleiðin var farin. Níu tímar voru til Grindavíkur. Þessa leið þurfti Hlín að fara í fyrstu ef hana vantaði mjólk. Stakkavíkurvegur var alltaf notaður nema þegar snjór var kominn á fjallið, þá var farið um Krýsuvík og Ketilsstíg. Notað var orðatiltækið “að fara Skörðin” þegar farinn var Stakkavíkurvegur og Grindarskörð. Þegar fjölskyldan flutti frá Stakkavík á Höfuðdaginn árið 1943 var t.d. farið Skörðin á fjórum hestum með restina af búslóðinni. Hitt hafði verið flutt á undan.

Á vetrum fór þeir bræður upp Nátthagaskarð með stefnu á Eldborg, fóru sunnan við hana og síðan niður Fagradalsmúla. Þetta var stysta leið til Hafnarfjarðar með rjúpur. Veiddu yfirleitt um 400 rjúpur að hausti og seldu þær til Hafnarfjarðar á 45 aura stykkið.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þegar farið var upp Selstíg var fyrst komið að Grænubrekkum og Selbrekkum, Seltúninu, (austar). Ofan við þær er gamla Stakkavíkurselið, “en það var farið í eyði löngu áður en ég man eftir”. Dýjabrekkur liggja fjærst brúninni, ca. miðja vegu að Ásunum. Þær eru augljósar því í þeim er lítill dalur fullur af dýi.
Hættulegt gat verið að fara yfir ósinn (Vogsósinn). Í útfalli, þegar sjór gekk inn í vatnið, var mikill straumur út úr því.
Var einu sinni að fara yfir ósinn á hesti á vaði (Ingjaldsvaði). Þar er malarbotn, en sandbleyta ef farið er út af vaðinu. Hesturinn lenti í sandbleytunni og lagðist á hliðina. Þessu átti Eggert ekki von á. Hesturinn synti á hliðinni og Eggert hélt sér á honum og þannig bárust þeir niður ósinn. Það verður honum til lífs að ná taki í þaraþöngli og gat hann þannig kraflað sig í land. Hesturinn kom að landi annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Silungurinn úr Herdísarvíkurtjörninni var allt að fimm pund að þyngd og sá besti sem Eggert hefur smakkað.
Man ekki eftir að hafa séð drauga, en eina sýn sá hann 10 ára, sem hann gleymir aldrei. Í hvammi norðvestan við húsið, skammt austan við hrútakofann (sjá uppdrátt) sá hann einu sinni tvo stráka. Gísli var þá með honum. Ekki vissi hann til að aðrir strákar ættu að vera þarna. Þeir voru klæddir í stuttar hnébuxur, með grænar húfur með tíglamynstri og háa reimaða skó. Spjald var aftan á peysunum. Hann kallaði í Gísla og horfði augnablik af þeim, en þegar hann leit til þeirra aftur voru þeir horfnir. Hann hafi alltaf verið sannfærður um að þar hafi huldufólksstrákar verið á ferð. Sá þá aldrei aftur. Betur klæddir en allt sem hann hafði áður séð.

Stakkavík

Í Stakkavík.

Eggert sló eitt sinn álagahól við Suðurkot í Vogum. Hafði verið bannað að slá hólinn. Hafði líka slegið of ofarlega þegar honum var varnað að halda áfram. Í framhaldi af því blindaðist önnur kvígan á Efri-Brunnastöðum og drapst síðan. Vildu menn meina að það hafi orðið vegna þessa atburðar.
Var einu sinni í níu klukkutíma aftur á vörubílspalli á tveggja manna Fordbíl frá Hveragerði að Kolviðarhól. Hann hélt á sér hita með því að moka snjó frá bílnum ásamt bílstjóranum. Þrír aðrir sem voru með á bílnum fóru af og voru þremur tímum á undan að Kolviðarhóli.
Kristmundur keypti bát til að nota á Hlíðarvatni og var hann fluttur með vörubifreið frá Reykjavík og til Vogsósa. Eggert var þá unglingur og var hafður aftur á palli ásamt saltfiski og öðru. Báturinn var með fjórum árum, langur og mjór. Þeir settu í hann “GOJA” vél 1.5. hestöfl. Hann gekk lengi mjög vel. Engar grynningar voru í vatninu, nema þar sem tjarnirnar eru. Yfirleitt um þriggja faðma dýpi í vatninu.

Herdísarvík

Herdísarvík – vegavinna 1948.

Vörðurnar, beggja vegna vegarins skammt vestan Herdísarvíkur, eru þar sem vegavinnumenn með jarðýturnar mættust með vegina að austan og vestan. Í Herdísarvíkurtjörn var besti silungur, sem hann hefur borðað. Hann kom upphaflega úr Hlíðarvatni. Man eftir gamla bænum í Herdísavík. Drakk þar kaffi hjá Ólafi Þorvaldssyni. Skemmtilegasti maður sem hann hafi hitt. Fór mikið á rjúpur og í annan veiðiskap. Ólafur fór nauðugur frá Herdísavík. Garðanir austan bæjar Herdísarvíkur, voru hlaðnir af vermönnum. Þórarinn Árnason, sonur Árna í Krýsuvík, lét vermenn hlaða þá í landlegum. Þeir græddu einnig upp hraunið með slori. Þannig er Gerðið meira og minna grætt upp – með slóginu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

“Gerðið er illa farið af sjávargangi. Gísli móðurbróðir minn nýtti sér næst austustu sjóbúðina um tíma. 70 hestar heys fengust af Gerðinu. Þórarinn lét líklegast hlaða fjárhúsin; Langsum og Þversum, semþar eru. Húsin tóku um 400 fjár. Þá var fé haldið í Breiðabáshelli (300-400 fjár). Alltaf var ákveðin hræðsla um að sjórinn flæddi inn í hellinn. Skiparéttin var í krikanum þar sem fjárréttin varð síðar (sjá uppdrátt).
Fálkageiraskarð er skammt austan Lyngskjaldar. Einar Júlíusson, vinnumaður, náði nafna sínum, Einari Ben. í skarðinu er hann var á leið í sorann fyrir sunnan. Einar hélt þá fram að hann væri “fangi á milli svartra fjalla”.
Benti á Hulduþúfuhól sunnan vegar austan Herdísarvíkur, hægra megin við gömlu götuna. Saga er tengd honum. Gísli hafði einhverju sinni heyrt söng innan úr hólnum. Eftir það var hann nefndur Hulduhóll.

Stakkavík

Bátahró í Stakkavík.

Þegar ekið er niður í Stakkavík eru fiskgarðar á hægri hönd sem og tveir hlaðnir kálgarðsveggir. Klettur, klofinn er hægra megin við veginn, neðan eystri kálgarðsins. Þar er sem heitir Gálgaklettar. Eggert sagði sögn segja að þar hafi menn verið hengdir fyrrum. Sjá má tóftir gamla bæjarins í austasta hólnum út í vatninu neðan við núverandi bæjarstæði. Eftir að hækkaði í vatninu þurfti að færa bæinn upp á hólinn, sem rústir hans eru nú. Vestan við hann er jarðhús, sem Guðni í Þorkelsgerði byggði, og við hlið þess gamalt fjárhús, sem var notað til að baða fé. Hrútakofi er ofan og utan garðs. Í Austurnesi eru tvö beitarhús. þau tóku 170 og 200 fjár. Eystra húsið var stærra. Rétt er á Réttarnesi og þar, ofan við Botnavík, eru smalabyrgi.

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Eggert sagði að fyrrum hafi verið farið með hesta upp Selskarð. Þegar komið var niður með þá þurfti að setja rófubönd undir stertina og tók þá jafnan í.
Mjög varasamt var að fara norður fyrir vatnið þar sem þar voru miklar skriður. Hægt var að fara með fé og á hestum með því að vera upp í fjallinu, upp undir klettabeltinu.
Kleifarvallaskarð er austan Selstígs, austar er Urðarskarð og þá Hlíðarskarð.
Hlíðareyja fylgdi Stakkavík, austarlega á Hlíðarvatni. Hún var dagslátta.

Eggert keypti fyrst byssu 13 ára í Veiðivöruversluninni í Reykjavík, haglabyssu. Kostaði þá 75 kr. Dró 80 faðma. Mesti kostagripur. Hann hafði farið ásamt bróður sínum í Veiðivöruverslun Reykjavíkur, en fékk ekki afgreiðslu. Gistu þeir hjá Þórði Eyjólfssyni, fyrrum bónda á Vogsósum, sem þá var fullorðinn. Gekk hann við fallegan staf með glerhandfangi.

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Eftir fýluferðina í búðina og mikil vonbrigði fór Þórður með þeim og keypti byssuna. Á heimleiðinni stillti Þórður göngustanum upp á veggi og garða og sýndi drengjunum hvernig ætti að fara að og þeir öpuðu eftir með byssunni. Vegfarendur urðu undrandi og gerðu athugasemdir. Þá sagði Þórður: “Þeir fara sér ekki að voða ef þeir kunna með hana að fara”. Skeptið, sem var mjög fallegt, tapaðist af byssunni þegar Jón Eldon, reyndi að kraka önd að landi sem hann hafði skotið við Herdísarvíkina. Seinna var svo smíðað nýtt skepti.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Sveinn Halldórsson í Bjargi í Selvogi var þúsundþjalasmiður. Hann gerði við m.a. útvarpstæki. Gísli fór með útvarpstæki til viðgerðar hjá Sveini. Þegar hann gékk til baka til Stakkavíkur og var að fara um Víðisand heyrði hann að honum var veitt eftirför. Hann byrjaði að hlaupa og það sem var á eftir honum fylgdi á eftir og skrjáfaði í því eins og skeljum. Hann var alveg skelfingu lostinn og hljóp eins hratt og hann gat. Hann komst undan en allir lamparnir voru brotnir í tækinu eftir hlaupin.

Nes

Nes í Selvogi.

Mikill draugagangur var jafnan í Nesi í Selvogi. Bóndi, sem bjó á undan Guðmundi í Nesi, Þorbjörn Guðmundsson, tók alltaf steina úr gamla kirkjugarðinum þegar hann vantaði byggingarefni. Þetta hefndist honum fyrir, eins og dæmin sanna og sagnir geta um.
Guðmundur í Nesi var best gefni bóndi sem hann þekkti. Hann reisti girðingu sem náði frá Selvogsvita, upp á Geitarfell og niður á Þrívörður. Skildi eftir 2. fet af landinu utan girðingar og setti 200 sauði á beit utan girðingarinnar við lítinn fögnuð annarra bænda.

Stakkavík

Gálgar í Stakkavík.

Magnús í Krýsuvík hélt fé í fjárhúsinu á Krýsuvíkurheiði. Hann hélt einnig fé í Litlahrauni (sjá uppdrátt). Þegar Magnús hafði drepið fé sitt og flust til Hafnarfjarðar gekk hann á hverjum degi upp á Jófríðastaðahól, settist á hann og horfði síðan daglangt í áttina til Krýsuvíkur. Sonur Magnúsar í Krýsuvík gaf honum nokkur lömb (kindur) þegar hann sá söknuðinn hjá föðurnum. Magnús flutti þá aftur til Krýsuvíkur með lömbin, en fjölskyldan varð eftir í Hafnarfirði.
Landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur er milli dysja Herdísar og Krýsu. Hann hafi alldrei heyrt annað nefnt. Sýslumörkin eru hins vegar við Sýslustein með stefnu í Seljabót.
Beitarhúsin í Stakkavík voru í Höfðanum. Þaðan var féð rekið til beitar á vetrum niður í fjöru í landi Vogsósa (Löngusker) og setið yfir þeim í tvo tíma. Ferðin fram og aftur í Löngusker tók fjórar klst, ferðin alls um sex klst. Skipt var á fjörubeitinni og venjulegri beit við Vogsósabóndann.
Smalar sváfu stundum í hellinum undir Hellunni við Kleifarvatn.

Stakkavikurborg

Stakkavíkurborg.

Stakkavíkurfjárborgin er við Borgarhóla. Hún gat hýst 70 kindur. Eggert vissi ekki hver byggði borgina, en hún er nokkuð gömul og óvenju heilleg. Álfakirkja sú, sem jafnan er nefnd svo í ritum og er sögð vera austan við borgina, er í rauninni mun austar, svolítið austan fjárhússtóftanna neðan Selstígs.
Í ferðinni var Eggert greinilega á heimaslóðum. Hann þekkti sérhvern stað með nafni, tiltók örnefni og sagði sögur af liðnum atburðum. Honum er þökkuð samfylgdin þennan fagra dag febrúarmánaðar.

Brunnastaðir

Stakkavíkurbræður.

Eggert lést 12. janúar 2010 á Dvalarheimilinu Garðvangi, Garði.
Foreldrar Eggerts voru Kristmundur Þorláksson, f. 17. nóv. 1882, og Lára Elín Scheving Gísladóttir, f. 6. sept. 1889. Systkini Eggerts eru sjö: Gísli Scheving, f. 15. jan. 1918, Valgeir Scheving, f. 18. apr. 1921, látinn, Elín Kristín, f. 13. apr. 1923, Anna Sigríður, f. 12. maí 1924, Þorkell, f. 12. sept. 1925, látinn, Hallgrímur, f. 1. júlí 1928, og Lárus Ellert, f. 3. jan. 1931, látinn.

Hér má sjá og heyra viðtal, sem Jóhann Davíðsson tók við Eggert árið 2004.

-Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson og Sesselja Guðmundsdóttir skráðu.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavík
Þorkell Kristmundsson lést á Landsspítalanum 24. apríl 2003 eftir slys, sem hann varð fyrir þann 30. mars.
Þorkell fæddist í Stakkavík í Selvogi 12. september 1925. Foreldrar hans voru Kristmundur Þorláksson, bóndi í Stakkavík, og Lára Elín Sceving Gísladóttir, frá Ertu í Selvogi. Systkini Þorkels eru Gísli, f. 1918, Eggert, f: 1919, Elín Kristin, f: 1923, Anna Sigríður, f: 1924, og Lárus Ellert, f: 1931. Valgeir , f: 1921, lést 2001.

Þorkell

Þorkell Kristmundsson

Fimmtudaginn 6. mars 2003, eða rúmlega þremur vikum áður en slysið varð, fór FERLIR að Herdísarvík og Stakkavík í fylgd Þorkels – í frábæru veðri. Þorkell var í Stakkavík fram til 1943, eða þangað til hann fluttist að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hér á eftir verður getið um hluta af því sem bar á góma í þessari síðustu ferð Þorkels í heimahagana.

Ekið var um Krýsuvíkurveg. Þegar komið var upp úr Vatnsskarði með útsýni inn í Fagradal sagði Þorkell að áður fyrr hefðu þeir bræður farið upp Mosaskarð á Stakkavíkurfjalli ef þeir ætluðu til Hafnarfjarðar með rjúpur eða endur, sem skotnar höfðu verið, áfram upp á fjöllin, framhjá Eldborg og komið niður Fagradalsmúlann, einkum að vetrarlagi. Sú ganga hafi jafnan tekið fimm klst. í stað átta, sem hefði tekið þá að fara Selvogsgötuna. Þegar hún var farinn var venjulega komið niður í Kerlingaskarðið, þar sem Selvogsgatan liggur um í dag, en ekki Grindarskörðin, sem eru þar skammt austar. Hann var aldrei með drykk með sér, treysti t.d. á að drykkjarsteininn við Selvogsgötuna væri með vatni.

Þorkell

Þorkell í Breiðabás með Jóhanni Davíðssyni.

Þegar farið var á milli Stakkavíkur og Grindavíkur var oft gist í Krýsuvíkurkirkju hjá Magnúsi Ólafssyni. Það gat þó orðið köld vistarvera þegar hætt var að kynda ofninn á kvöldin því reynt var að fara sparlega með rekaspýturnar sem notaðar voru til upphitunar. Magnús var lítt hrifinn af því er ofninn varð kynntur rauðglóandi. Það var þó oft gott að geta gist þarna á löngum ferðum.
Nokkrar góðar sögur fylgdu í kjölfarið. M.a. þegar fara þurfti með 300 sauði til slátrunar til Einars ríka í Grindavík eftir að fé þeirra var tekið í Ölfusréttir þar sem upp kom riðuveiki. Hann hefði sofið með Ísólfi á Skála í hellinum við Lat. Ísólfur var þá með fjárhús úr járni skammt frá vegamótunum að Selatöngum. Þangað var gott að koma með féð sem þá var orðið uppgefið eftir að hafa verið rekið alla leiðina að austan.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þorkell sagði frá smala, sem týndist í þoku í Krýsuvík, en kom fram daginn eftir. Hann var allur blóðugur í hvítri úlpu og sagðist hafa orðið að slátra 18 sauðum vegna riðu. Smalinn var vitlaus og gólaði og var það til vitnis um að óveður væri í nánd. Til Krýsuvíkur frá Hafnarfirði var venjulega farið upp með Undirhlíðum og austur fyrir Kleifarvatn. Vatnið náði þá upp undir fjósið, sem nú er. Ný tún mynduðust þegar lækkaði í vatninu. Þegar Magnús í Krýsuvík var ungur hélt Árni sýslumaður Gíslason honum við sauðahúsið á Krýsuvíkurheiði (Jónsbúð) og þaðan mátti hann ekki víkja. (Gæti verið skýringin á hlaðna húsinu sunnan undir heiðinni). Magnús nýtti síðar Arngrímshelli í Klofningum sem fjárskjól.

Fjárskjólshraun

Fjárskjóslhraun – skjól.

Ekið var framhjá hlöðnu skjóli utan í Fjárskjólshrauni. Þorkell sagði það t.a.m. hafa verið notað yfir fé. Hann taldi þó að skjólið hafi oftast verið notað af ferðamönnum. Ekki hafi verið þak yfir því.
Þorkell var í skóla í Torfabæ í Selvogi þar sem kennt var í litlu herbergi í kjallaranum. Það kenndi Þórður frá Hveragerði, einfættur.

Herdísarvík

Frá Herdísarvík.

Grænaflöt er upp undir Herdísarvíkurfjalli. Þar sagði Þorkell að hann hefði verið viðstaddur þegar tveir hestar voru skotnir á Grænuflöt. Annar var uppáhaldsreiðhestur Einars Benediktssonar, “Brúnn”, og hinn var hestur Hlínar sem hún keypti fyrir son sinn austur í sveitum. Sá var leirljós og mjög viljugur. Hestarnir voru orðnir gamlir. Hann aðstoðaði síðan Hlín við að dysja hestana í miðri flötinni og var gerður kross, c.a. einn metri, úr steinum, yfir dysinni. Hann á að vera um miðja flöt, sem fyrr sagði.

Herdísarvík

Herdísarvík – vegagerð 1948.

Þegar ekið var eftir Herdísarvíkurvegi var komið að tveimur hlöðnum vörðum beggja vegna vegarins skömmu áður en komið var að Herdísarvík. Þær voru hlaðnar þarna þegar vegirnir mættust, annars vegar að vestan og hins vegar að austan. Menn voru heilt sumar að gera veg við Krýsuvík. Þeir voru að hlaða upp kanta með lélegum verkfærum. Í ágúst komu tvær jarðýtur og voru menn þá sendir heim. Ýtunar fóru á tveimur dögum frá Krýsuvík og að Herdísarvík og ruddu þar með veginn.

Stakkavík

FERLIR í Stakkavík.

Þá var komið að Herdísarvík. Þorkell sagðist minnast vondra veðra. Hlín hafi t.d. flúið með Einar Ben. vafinn í teppi þegar gerði ofsaveður af suðvestri. Bærinn varð þá umflotinn og þurftu þau að hafast við um hríð í hellisskúta ofar í hrauninu. Sonur Hlínar átti bát með vél. Utan við víkina lágu stundum tugir skútna. Hann minntist þess að hann hafi, ásamt dóttur Hlínar og Kela, farið á páskadag út í skútur, færeyskar, í góðu veðri. Skútusjómennirnir komu oft til Herdísarvíkur og náðu í ís í bergið. Þeir voru að spara hafnargjöld.

Mosaskarð

Mosaskarð.

Þeir fóru þá gangandi upp í Mosaskarð og náðu í snjó sem þeir báru síðan á bakinu niður í Herdísarvík. Eitt sinn hafi hann horft á bát vera með yfirfull net alveg upp undir tanganum við Herdísarvík. Svo mikill var fiskurinn að þeir voru nærri reknir upp á fjöru. Hann sagðist telja að Hlín hefði ekki efnast mikið á sölu til skútumanna úr íshúsi sínu. Sagðist minnast þess enn hve kjötið hafi verið gott úr reykhúsi Hlínar og því reykurinn hafi verið orðinn svo kaldur þegar hann hafði farið eftir stokknum inn í reykhúsið. Hann vissi til þess að Kristján Eldjárn hafi skoðað fiskigarðana við Herdísarvík, sem eru þarna nokkrir kílómetrar að lengd í það heila tekið.

Stakkavík

Frá Stakkavík.

Haldið var um Stakkavíkursvæðið. Litið var á Stakkavíkurborg, en Þorkell sagði að götóttur hraunklettur sem þar er skammt austan við hefði ranglega verið nefnd Álfakirkja. Hann fylgdi okkur að hinni eiginlegu Álfakirkju síðar. Réttarnes er þarna neðar og á henni Réttin. Sagði hann frá er hann þurfti að eltast þar við ólman sauð í ull. Var hann í vandræðum með að að handsama sauðinn, en gat loks króað hann af í réttinni á Nesinu, en hrúturinn hafi verið orðinn svo vitlaus að hann stökk yfir vegginn og út í vatnið. Þorkell sagðist hafa séð á eftir hrútnum langt út á vatn þar sem hann hafi synt í nokkra hringi og sokkið síðan.

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Inn í vík einni þarna skammt frá hafi snjóhengja fallið yfir 16 kindur eitt vorið og kæft þær allar. Bóndi missti eitt sinn 300 fjár þegar vatnið lagði og féð fór yfir að nóttu til og flæddi í skerjum. Svona hafi nú lífið verið í þá daga.

Neðan við Selsstíg heitir Höfði. Þar eru tvær stórar útihúsatóttir frá Stakkavík neðan við veginn. Í austanverðum Höfðanum er hin rétta Álfakirkja, kletthóll með glugga að því er virðist. Þorkell sagði að Gísli, bróðir hans, hafi eitt sinn smíðað og reist kross upp á hólnum. Um nóttina dreymdi hann að álfkona kæmi til hans og skipaði honum að fjarlægja krossinn, ella myndi hann hafa verra af. Daginn eftir lá krossinn við hlið kirkjunnar í fjórum pörtum.

Stakkavík

Fjárhús í Stakkavík.

Ekið var niður að Stakkavíkurbænum. Á leiðinni eru tvö hlaðin gerði við veginn. Sjá má móta vel fyrir gamalli ruddri götu í gegnum hraunið. Gerðin sagði Þorkell að hefðu verið kálgarðar. Þegar komið er að Stakkavík er þar fyrir hlaðin rétt, hvammur niður við vatnið, hrútakofi, kartöflukofi, lambús og bæjarhúsinn þar sem steyptir gaflarnir eru fallnir út.

Stakkavík

Stakkavík – rústir íbúðarhússins og gamla bæjarins.

Þorkell sagði að eldri bærinn hafi verið þar sem norðvesturhornið á húsinu er nú. Enn eldri bær var þar sem nú er stór hólmi í suðri út í vatninu, en hann lagðist af þegar hækkaði í vatninu. Þorkell sagði að Eggert bróðir hans hefði eitt sinn verið við hvamminn, en í honum var báturinn jafnan geymdur, þegar hann hafi séð huldudrengi vera að leika sér þar. Þeir hefðu verið í litskrúðugum peysum og með skrautlegar húfur. Þetta hafi enst um stund, en þeir síðan horfið sjónum hans. Þorkell sagðist lítt hafa trúað að álfa- og draugasögur. Hann hefði þó einu sinni séð draug, en það var ofan við bæinn Hlíð. Þar hefði hann séð mann, sem nokkru áður hafði drekkt sér í Hlíðarvatni. Söng hefði hann hins vegar aðeins einu sinni heyrt úr klettum. Það var í Hafnarfjarðarhrauni þegar hann var þar á ferð. Talaði hann um hve mikið hefði verið eyðilagt af fallegum stöðum í hrauninu, klettum og hraunbollum.


Þá var haldið í Breiðabás. Ætlunin var að reyna að staðsetja opið á Breiðabáshelli. Eftir að Þorkell hafði litast þar um stutta stund, tekið mið og kannað kennileiti, s.s. gömlu fjárgötuna ofan úr hrauninu, gekk hann að tilteknum stað á kampinum, gegnt götunni, staðnæmdist, benti niður fyrir sig og sagði: “Hér er opið – gæti skeikað tveimur til þremur metrum”. Áður hafði verið leitað að opinu á þessu svæði, en á röngum stað og munaði þar allnokkru. Þorkell sagði að áður fyrr hafi varða verið ofan við opið, sem kampurinn hefur nú algerlega hulið. Opið hafði snúið út að sjó. Þurfti að loka hellinum þegar óveður gekk yfir til að koma í veg fyrir að fé flæddi inni í honum. En þarna væri opið undir.

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

Sögn er til að smali hafi verið heilan dag í villu í hellinum. Þorkell sagðist muna að hæðin á opinu hafi verið í axlarhæð. Inni hafi verið salur og í honum þröngt op inn úr. Þegar komið var inn fyrir þrenginguna tók við víð rás. Sjálfur hafi hann aldrei farið þar inn, enda lítt hrifinn af hellum. Í sumum hellum höfðust villikettir við í, illir viðureignar. Einn félagi hans varð t.d. eitt sinn fyrir alvarlegri árás villikattar. Honum hafi verið komið til bjargar þegar kötturinn var rifinn af honum. Bar hann merki eftir viðureignina alla ævi.

Í spjalli við Þorkel kom fram að foreldrar hans hefðu verið það gott vinafólk fólksins í Guðnabæ í Selvogi að við fæðingu hafi hann verið skírður í höfuðið á Þorkeli Árnasyni, sem síðar bjó á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, langafa eins þeirra, sem var með í þessari fróðlegu síðdegisferð í Herdísarvík og Stakkavík.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur.

Líf Þorkels snérist um fé, bæði á meðan hann var í Stakkavík og á Brunnastöðum.
“Ég vildi aldrei vera annað en fjármaður”, sagði hann skömmu áður en hann kvaddi samferðamenn sína með virtum á hlaðinu á Brunnastöðum.

Minningin um Þorkel Kristmundsson mun lifa.

Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson skráðu.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Óttarsstaðir

Lagt var upp frá Straumi, en hann tilheyrir bæjunum í Hraunum. Þeir eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1964 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum.

Straumur

Straumur 2024.

Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot að norðanverðu, en Gerði og Péturskot að sunnanvörðu.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi. Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straumsselsstígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið út á Útnes og áfram upp í Straumssel. Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Gengið var að Norðurgarði. Garðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis búðina.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi. Þaðan er stutt yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; köttur, kindur, kú, kona og krakkar. Norðan við Jónsbúðartjörn er Markhóll, þríklofinn klettur. Í fjörunni mátti sjá mink við veiðar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Þar við eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir-vestari.

Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa. Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur. Undir bakka efst á einum veggnum stóð einmana rjúpa og fylgdist með.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Nokkuð austan Kúaréttar, sunnan Sigurðarhæðar, eru tvo hlaðinn byrgi, annað mjög heillegt. Upphaflega gætu þetta hafa verið þurrkbyrgi, en síðar byrgi refaskyttu, sem þaðan hefur ágætt útsýni til vesturs yfir lægðirnar í hrauninu norðan Brunntjarnar. Austan tjarnarinnar er hlaðin Straumsréttin.
Veður var frábært, lygnt, hlýtt og sólbjart. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.
Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Blesugróf

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1966 skrifaði Ragnar Lár, myndlistarmaður, m.a. um “Blesugróf“:
BlesugrófÞeir gerast æ færri borgarbúarnir sem vita hvar Blesugrófin er, eða var. Enn færri munu þeir vera sem vita hvar Fjárborgin stóð. Þó eru þessi svæði innan borgar- og bæjarmarka Reykjavíkur og Kópavogs. Kannski er það ofsagt að fáir viti hvar Blesugrófin er að finna. Blesugrófin er á milli Breiðholtsbrautar, Smiðjuvegar og Fossvogsdalsins. Árið 1963 lá hlykkjóttur vegur upp frá Suðurlandsbraut, fram hjá gamla Fáksvellinum og upp á Vatnsendahæð. Þar sem vegurinn fór næst Elliðaánum lá afleggjari til austurs, inn í malargryfjur sem þar voru og mótar enn fyrir. Stálinu hefur verið jafnað niður og sáð í melinn og eru þar hólar og hæðir sem áður voru gryfjurnar.

Höfðaborgin

Höfðaborgin við Borgartún.

Fyrstu árin eftir stríð byggðu menn hús sín í óleyfi innan við bæinn, eins og það var kallað. Fólkið sem flutt hafði á mölina á stríðsárunum hafði holað sér niður á hinum ólíklegustu stöðum í bænum. Þegar hermenn yfirgáfu braggana var óðar flutt inn í þá. Húsnæðiseklan sá til þess að hvert rúm var skipað. Yfirvöld bæjarins unnu að því að útrýma því heilsuspillandi húsnæði sem braggarnir voru taldir vera.

„Höfðaborgin” reis í öllu sínu veldi, svokallað fátækrahverfi Reykjavíkur. En Höfðaborgin dugði ekki til lausnar húsnæðisvandanum. Þeir voru margir daglaunamennirnir sem þráðu það eitt að eignast sitt eigið húsnæði, byggja það með eigin höndum, en það var engar lóðir að hafa hjá bænum.
Blesugróf
Þá urðu Smálöndin til, þar sem nú standa stórbyggingar iðnaðar og verslunar, skammt fyrir neðan Grafarholt. í Smálöndum ólust upp margir ágætir þegnar þjóðfélagsins. Þar var einnig að finna fólk sem náði sér aldrei á það strik, sem kallast beint, samkvæmt mælikvarða þjóðfélagsútreiknaðra reglugerða. Sömu sögu var að segja um Blesugrófina.
Í Blesugróf byggði meðal annarra Tryggvi Emilsson, sá er ritað hefur einna beinskeyttastar bækur um ævi og kjör lítilmagnans á þessari öld. Í dag er Blesugrófin orðin að eftirsóttri vin í eyðimörk borgarinnar. Þar má í dag líta einhver indælustu hús höfuðstaðarins, í vinalegu og náttúrulegu umhverfi. En byggðin hófst með þeim er reistu sér híbýli á þessum stað, í óleyfi yfirvalda. Byggðu hús af vanefnum, yfir sig og sína og voru sjálfstæðir í örbirgðinni.
Blesugróf
Eins og gefur að skilja var byggingarstíllinn af ýmsum toga. Fæst voru húsin teiknuð fyrir fram og varla af dýrum teiknistofum byggingameistara. Það kenndi því ýmissa grasa í stíl og skipulagi. Smátt og smátt mynduðust götur og einfalt var að gefa þeim nöfn. A-gata, B-gata o.s.frv.

Blesugróf

Blesugróf.

Áður en Breiðholtshverfin fóru að byggjast, áður en algengt var að menn legðu leið sína inn og upp fyrir bæ, þá áttu fáir aðrir erindi í Blesugróf en þeir, sem áttu þar heima, eða erindi við íbúana. Sá er línur ritar ók þó nokkrum sinnum leiðina upp að Rjúpnahæð, eða Vatnsenda. Einn dag í október 1963, var raupari á ferð um þessa margræddu leið. Hann hafði nokkru áður tekið eftir sérkennilegu húsi sem stóð vinstra megin við Vatnsendaveginn, þá farið var upp eftir. Reyndar lá afleggjarinn upp í malargryfjurnar skammt frá þessu húsi, upp Elliðaárdalinn og með fram húsum á stangli, sem sum standa enn.

Blesugróf

Blesugróf 2020 – loftmynd.

Upphaflega höfðu sum þessara húsa verið sumarbústaðir, en eru heilsárshús í dag, þ.e.a.s. þau sem enn standa. Húsið fyrrnefnda var afar sérkennilegt. Það virtist byggt í nokkrum áföngum. Að nokkru leyti var það úr torfi og grjóti en að öðru leyti úr steinsteypu, eða múrhúðuðu timbri. Ekki var nokkur leið að segja til um þann tíma sem húsið var byggt. Það gæti svo sem verið að það hefði verið byggt á dögum Krists, ef maður vissi ekki af lestri bóka og kennslu úr skóla að engin bygging hafði risið á íslandi á þeim dögum.

Blesugróf

Börn í Blesugróf í bílaleik.

En myndir þær sem sjá má í biflíusögum renna stoðum undir þessa ályktun. Eitt var þó ólíkt með byggingarlaginu á Blesugrófarhúsinu og húsunum í biblíusögunum. Upp með sumum veggjum Blesugrófarhússins teygðu sig grasreinar, allt upp undir þak sums staðar. Já, þetta var mjög sérkennilegt hús. Í því voru að minnsta kosti tveir kvistgluggar, en erfitt að átta sig á því hvort húsið sjálft væri ein, tvær eða þrjár hæðir, vegna þess að engir tveir gluggar voru í sömu hæð. Kannski var húsið úr timbri og múrhúðað, en óslétt var það að utan og sérkennilegt.

Blesugróf

Blesugróf – Kastalinn 1972 (SÞ).

Á þessum tíma, 1963, gerði raupari rissu af þessu húsi og birtist hún með þessum línum. Löngu seinna komst hann að því, að listvefarinn Óskar Magnússon hafði búið í þessu húsi ásamt konu sinni. Óskar hafði byggt húsið með eigin höndum,eins og svo margir aðrir sem byggðu á þessum slóðum. Þegar byggðin færðist nær og allt bannsetta skipulagið byrjaði að eyðileggja bæinn, sem nú er borg og áður var bær og þar áður þorp – og þar áður bær, var Óskari og hans spúsu gert að flytja úr húsi sínu, til að rýma fyrir „skipulögðu” svæði. Óskar gerði sér lítið fyrir og byggði sér hús undir hraunkambi uppi á Hellisheiði, til þess að vera viss um að verða ekki fyrir næsta skipulagi. Þar hélt hann áfram að vefa sín þekktu teppi á meðan kraftar entust. Bæði eru þessi veraldlegu skjól alþýðulistamannsins fallin, en verkin sem hann vann í þessum skýlum, reistum af eigin höndum, þau lifa.

Blesugróf.

Gömul mynd af einýlishúsi í Blesugróf: Þetta var kallað Kastalin og bjuggu þar Óskar Magnússon og Blómey kona hans. Þau höfðu geitur þarna líka. Þetta var fyrir neðan núverandi Reykjanesbraut og sjást ennþá minjar þar.

Þessu línum fylgir rissteikning af „pósthúsi” þeirra sem í Blesugróf bjuggu. Þrátt fyrir allt virðist hið opinbera hafa séð fyrir því að það „utangarðsfólk” sem Blesugrófina byggði, skyldi njóta póstþjónustu sem annað fólk. Kannski hefur þetta verið ráðstöfun þess opinbera, til að geta örugglega komið opinberum rukkunum til skila. Þó það fólk sem átti sitt líf í þessum „afkima” borgarinnar, byggi í óleyfilegu húsnæði, greiddi það sín gjöld til bæjarins. Sumir unnu hjá sjálfum bænum, sumir á Eyrinni og aðrir annars staðar. Það var auðséð á „pósthúsinu”, að það hafði fleiri hlutverkum að gegna. í húsinu voru greinilega íbúðir, tvær, þrjár eða fjórar. Múrhúðað timburhús, tveggja eða þriggja hæða. Það var ekki svo gott að segja til um það. Gluggarnir á hæðunum stóðust ekki á. En gamla „smelti” skiltið sagði ótvírætt „Pósthús”. Fyrir utan þetta hús stóð gamall pallbíll og mátti muna sinn fífil fegri. Hann hafði greinilega staðið þarna lengi og sást það best á því, að hjólin voru byrjuð að sökkva í jörðu, eða þá að móðir jörð var byrjuð að klæða þau grænum feldi. Hvar skyldi sá gamli pallbíll vera í dag?
Skammt ofan og sunnan við Blesugrófina var Fjárborgin.

Blesugróf

Garðstunga í Blesugróf.

Þar sem hún stóð eru nú virðuleg einbýlishús og tilheyra Smiðjuvegi í Kópavogi. Þarna áttu þeir athvarf með rollur sínar, sem ekki gátu slitið sig frá búskaparvenjum sveitanna, en höfðu tilneyddir flutt á mölina.

Almannadalur

Almannadalur og Fjarborg séð til suðurs, Reykjavík.

Þarna byggðu þeir fyrir nokkrar skjátur, hrófatildur úr ýmsum efnum. Daglega fóru þessir „fjáreigendur” inn eftir að huga að sínu fé. Á vetrum var leiðin oft löng fyrir þá sem bjuggu lengra frá. Þeir létu það ekki á sig fá. Sannir fjárbændur setja ekki fyrir sig langan veg að beitar- eða fjárhúsum.

Þegar voraði iðaði allt af lífi í Fjárborg. Margur bæjarbúinn lagði leið sína inn í Fjárborg með börnin sín til að sýna þeim litlu lömbin. Margur, núna miðaldra, borgarbúinn komst þarna í sín fyrstu kynni við litlu lömbin og það líf sem skapast í lífsins fjárhúsum. – Höfundur er myndlistarmaður og kennari.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (13.04.1996) – Texti og teikningar: Ragnar Lár, bls. 10.

Blesugróf 1954

Blesugróf 1954.

Hafnarfjörður

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði í Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) árið 1965 um Hafnarfjörð fyrri tíma undir yfirskriftinni “Skyggnst um nágrennið“:

Flatahraun.
Árni MagnússonÚr Engidal liggur steypt bílabraut austur Flatahraun áleiðis til Keflavíkur. Hér hófst síðasta skeið íslenskrar vegagerðar, þegar byrjað var að steypa Keflavíkurveginn 1962.
Fram undan rís Setbergsholt, Mosahlíð og Ásfjall. Á hrauninu liggur vegurinn ýmist í Hafnarfirði eða Garðahreppi, því að mörkin milli þessara lögsagnarumdæma eru óregluleg hér um slóðir.
Kaplakriki nefnist fyrsta byggðin við veginn. Um einn km þaðan inni í hrauninu liggur algjörlega sjálfstæður vegur, tengir ekkert við ekkert. Hann er 7 m breiður, um 2 km á lengd, en hæð er ómæld. Vegur þessi átti að verða upphaf að hinni miklu ókomnu braut, sem tengja skal Reykjavík og Hafnarfjörð um aldir. Hann var lagður í atvinnubótavinnu árið 1918 og ætlaður jafnt járnbrautum sem bifreiðum. Menn voru stórhuga í þann tíð. Hér lágu fornar lestamannagötur til Hafnarfjarðar um Hörðuvelli neðan við Sólvang, en úr Kaplakrika um Vífilsstaði og á áningarstað á Kjóavöllum vestan Elliðavatns. Þetta var höfuðleið til Fjarðarins önnur en Gömlufjarðargötur.
Setbergshamar heita vestasti hluti Setbergsholts. Undir þeim er talsverð nýbyggð, og enda nöfn allra húsanna á -berg: Þórsberg,  Ásberg o.s.frv.

Setberg – Upphaf rafvæðingar á Íslandi.

Jóhannes reykdal

Jóhannes Reykdal.

Bærinn Setberg stendur nokkru innar á holtinu í miklum túnum.
Það er forn jörð. Kirkju- og konungsvald náði aldrei tangarhaldi á Setbergi, og er það merkilegt um fasteignir hér í sveit. Þar gerðu þeir Gísli Þorkelsson og Jóhannes Reykdal garðinn einkum frægan, en auk þeirra hafa sýslumenn og galdraprestur setið þar með sóma auk allra annarra. Þorsteinn prestur Björnsson sat á eignarjörð sinni Setbergi síðustu æviár sín (1661—’75). Hann var lærður vel á sinni tíð. Eftir hann liggur m. a. mikill kvæðabálkur á latínu: Noctes Setbergenses eða Setbergskar nætur — um undur náttúrunnar. Sonarsonur hans var Gísli Þorkelsson, sem ritaði Setbergsannál. — Jóhannes Jóhannesson Reykdal bjó á Setbergi 1909—31 og síðar til æviloka á Þórsbergi (d. 1946).

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin,

Árið 1903 reisti hann trésmíðaverksmiðjuna Dverg í Hafnarfirði, en það var fyrsta verksmiðjan, sem gekk fyrir vatnsafli hér á landi.
Árið 1904 virkjaði hann Hamarskotslæk, setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa og aðra stærri 1907.
Það voru fyrstu rafmagnsstöðvarnar hér á landi. Þaðan fengu Hafnfirðingar „köldu ljósin” — fyrstir Íslendinga. Sólvangur, elli- og hjúkrunarheimili Hafnfirðinga, stendur nokkru fyrir neðan veginn undan Setbergi. Sjávarhraun nefnist hraunið þar suður af milli Hörðuvalla, íþróttasvæðis Hafnfirðinga, og Setbergstjarna. Hér þrýtur steypta veginn á kafla, af því að hér eiga að koma tvílyftar krossgötur.
Trésmíðaverksmiðja og timburverslun Reykdals stendur neðan vegar við Hamarskotslækinn, sem kemur úr dalnum milli Setbergsholts og Mosahlíðar. Hann nefnist Þverlækur niður að vegi, en breytir þar um nafn.

Lækurinn

Lækurinn.

Dregur hann þar eftir heiti af Hamarskoti, sem stóð á Hamrinum, þar sem nú er Flensborgarskólinn. Hin forna virkjunarstífla Reykdals sést fyrir neðan verksmiðjuna.
Lækurinn er eitt merkasta vatnsfall í atvinnusögu Íslendinga, Atkeldur.

Úfið gróðursælt hraun, Stekkjarhraun, liggur suður dalinn, en undir því standa hús í skjólsælum hvömmum. Vestast í því  skammt frá vegi eru tveir litlir mýrarslakkar, Atkeldur. Þar var tekið at í gamla daga til litunar, en það er eðja, sem gefur svartan lit. Af þeim starfa er dregið orðtakið að vera ataður, óhreinn.

Kirkjugarður á Hvíldarbörðum, nunnur á Kvíholti og Ófriðarstaðir.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Frá brúnni á Hamarskotslæk liggur vegurinn upp brekku á svokallaðar Öldur. Þar er kirkjugarður Hafnfirðinga undir Mosahlíðinni, og hét þar áður Hvíldarbörð.
Hér verða krossgötur. Öldugata liggur ofan í Hafnarfjörð, en suður með kirkjugarðinum liggur Elliðavatnsvegur og af honum braut í sumarbústaðaland Hafnfirðinga, í Sléttuhlíð, og suður í Kaldárbotna og að Helgafelli.

Karmelklaustur

Klaustrið 1973.

Skammt fyrir sunnan kirkjugarðinn beygir Elliðavatnsvegur austur yfir Setbergsdalinn. Í Mosahlíðinni eru mikil alifugla- og svínabú.
Á Öldunum er aftur komið á steinsteyptan veg. Norðan hans er Kvíholt. Þar hafa hollenskar nunnur af Karmelitareglu verið kvíaðar inni, og er það eina klaustrið hér á landi, eins og kunnugt er.
Fyrsta evangelíska kirkjan á Íslandi var reist í Hafnarfirði 1536, og fyrsta kaþólska klaustrið eftir siðaskipti var reist hér og tekið formlega í notkun 1946.
Grænagróf og Grænugrófarlækur eru fyrir vestan Kvíholt. Lækurinn kemur úr Ásfjalli og fellur niður hjá Ásbúð syðst í fjörðinn og nefnist þá Ásbúðarlækur.
Hafnarfjörður 1770Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn á mynd frá 2020.

Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.

Þá liggur brautin yfir syðsta tagl Hvaleyrarholts, en þaðan blasir Reykjanesskaginn við.
„Flókastein” nefnir Jónas Hallgrímsson bjarg nokkurt á túninu norður af Hvaleyrarbænum. Það er alsett áletrunum misjafnlega gömlum og þar á meðal rúnaletri, bandrúnum. Um rúnirnar segir Jónas, að hann viti ekki betur en þær séu nöfn á þeirri skipshöfn, sem víkingurinn Flóki hafði með sér, þegar hann heimsótti Ísland. Verið getur, að Herjólfur hafi ríslað sér við að rista þessar rúnir á steininn, meðan hann beið eftir skipinu,, sem hann sleit frá á skipsbátnum.

Engidalur — Hafnarfjörður.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður var fjölsóttasta verslunarhöfn hér á landi frá því um 1400 og fram á 18. öld. Lögsagnarumdæmi kaupstaðarins hefst á hraunbrúninni við Engidal. Þar sem borgin stendur voru áður bæirnir Akurgerði, Hamarskot, Ófriðarstaðir (Jófríðarstaðir) og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Enn er grasnyt á Jófríðarstöðum og dálítill búskapur rekinn á Hvaleyrartorfunni, en borgin sækir fast inn á lönd hinna fornu jarða.
Þótt Hafnarfjörður væri fjölsóttur verslunarstaður og kaupmenn af ýmsum þjóðlöndum þreyttu þangað kappsiglingu á útmánuðum fyrr á öldum, þá lágu engir vegir til staðarins, aðeins koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin, og þar reis ekki þorp fyrr en á 19. öld.

Árnasafn

Endurheimtar bækur Árna Magnússonar frá Danmörku.

Gömlufjarðargötur lágu frá Hraunsholti að Sjónarhóli, Reykjavíkurvegi 22. Það var fjölfarnasta lestamannaleiðin til fjarðarins.

Árnasafn flutt til skips.

Vorið 1720 silast lest suður hraunið til Hafnarfjarðar, 30 klyfjahestar með þung koffort þræddu Gömlufjarðargötuna frá Hraunsholti, álútir, varkárir, og fótvissir.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Þröngir troðningar voru markaðir í hraunklöppina af óteljandi lestum, sem höfðu lötrað þennan stíg um aldir og flutt alls kyns varning. Að þessu sinni var flutningurinn mesta dýrmæti, sem lyft hafði verið til klakks á Norðurlöndum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1834.

Lestin kom frá Skálholti, höfuðmenntasetri hins forna Íslands, og í koffortunum voru bækur, gulnað og velkt bókfell, elju- og snilldarverk íslenskra þúsunda. Þær eru safn Árna Magnússonar, og það á að flytjast til Kaupmannahafnar.
Í 8 aldir hafði verið unnið að þessum bókum um dreifðar byggðir Íslands, og nú áttu þær að auka og treysta frægð hins danska konungsveldis í höfuðborg ríkisins.
Þessi koffort eru eins og táknmynd um niðurlægingu Íslands þar sem hún silast áfram með bækur þess úr hinum forna menningarhöfuðstað til hins danska skips í Hafnarfirði“, segir Jón Helgason í Handritaspjalli.

Hafnarháskóli

Hafnarháskóli.

Lestin hefur þrætt stíginn ofan við Háaklif, sem nú nefnist Reykjavíkurvegur, þokast suður Malirnar og út á grandann hjá Óseyri. Þar skilaði hún auðæfunum á skipsfjöl.
Bækurnar voru afreksverk íslenskrar hámenningar, sem átti sér fótfima fararskjóta að forsendu.
Hesturinn hafði sigrast á öllum torfærum og firnindum Íslands og gert það að einni samfélags- og menningarheild. Hann hafði borið forna stjórnskipan um landið, á fótum hans hvíldi þinghaldið á Þingvelli við Öxará og forn sagnritun.

Hekla

Franski landfræðingurinn Alain Manesson Mallet skrifaði heimslýsingu sem kom út 1683, sama ár og Árni Magnússon fór til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Íslandi bregður fyrir á 14 kortum í bókinni. Hér er mynd úr heimslýsingunni, á henni sést Hekla gjósa.

Nú hafði hann flutt bækur Íslands yfir öll torleiði til strandar. Þær höfðu verið tíndar saman í rústum hins forna íslenska samfélags, og voru fluttar á nýjan áfangastað, en þar beið þeirra það hlutskipti að hefja sokkna þjóð úr niðurlægingu.
Árnasafn var og er sérstæð stofnun við Hafnarháskóla. Safnið var í raun og veru fyrsti háskóli Íslendinga. Þeir voru ómissandi fylgjunautar bóka sinna, og þær opnuðu þeim leið til nokkurra mannvirðinga og áhrifa hjá einvaldsstjórninni í hinum nýju heimkynnum og jafnvel aðgang að bakdyrum konungshallarinnar. Kringum hinar fornu bækur varð til nýlenda íslenskra menntamanna, og þaðan komu Íslendingum, sem heima sátu, talsmenn og leiðtogar.
Árnasafn varð höfuðstöð íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu, þegar stundir liðu. Margir af helstu forystumönnum Íslands á 18. og 19. öld voru starfsmenn safnsins lengur eða skemur: Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson, Hannes Finnsson, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og Jón Sigurðsson. Jón var styrkþegi og starfsmaður Árnasafns frá 1835 til dauðadags 1879. Hvort sem hin framsækna sveit Íslendinga var kennd við Fjölni eða Félagsrit, þá var kjarni hennar tengdur stofnun Arna Magnússonar.
Þjóðfélagsbarátta okkar við Dani er til lykta leidd. Árnasafn hefur skilað miklu hlutverki bæði sem vísindastofnun og virki þjóðfrelsismanna. Leitun mun vera á stofnun, sem hefur verið jafnsamgróin þjóð sinni og þetta safn velktra skinnbóka og snjáðra pappírsblaða.

Árnasafn

Úr Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Engin þjóð mun eiga neinni stofnun jafnmikið að þakka og við Íslendingar safninu hans Árna Magnússonar.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar.  Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.

Handrit

Endurheimt handritin útlistuð..