Jakob Orri Jónsson skrifaði ritgerð til BA-prófs í fornleifafræði árið 2010 er hann nefndi „Þeir es Norðmenn kalla papa“. Hér verður gripið niður í efnisinnihaldið:

Jakob Orri Jónsson.
„Flestir Íslendingar kannast við sögur af pöpum sem eiga að hafa búið hér á landi og horfið á braut við landnám norrænna manna. Færri kannast við þau miklu skrif og rannsóknir sem fram hafa farið á þeim vettvangi sem Hermann Pálsson kallar papa-fræði. Í ritgerðinni „Þeir es Norðmenn kalla papa“ er tekin saman í eina heild sú umræða sem farið hefur fram um papa á Íslandi síðustu 120 árin og um leið dregin fram sú mynd sem fræðimenn hafa mótað af þeim með rannsóknum sínum.
Efni ritgerðarinnar er ekki eingöngu fornleifafræðilegt heldur líka sagnfræðilegt, örnefnafræðilegt og jafnvel þjóð- og orðsifjafræðilegt. Fjallað er um Íslendingabók Ara fróða, hellarannsóknir, uppgröft Kristjáns Eldjárns í Papey, hugmyndir um papa sem afríska gyðinga og papa-örnefni sem vísun í brjóst eða geirvörtur. Papa-fræðin er enn stunduð og mun verða áfram um ókomna tíð, bæði af fræðimönnum og almenningi.

Húnn af biskupsstaf, bagli, skorinn úr rostungstönn. Húnninn lá í steinþró, steinkistu, Páls Jónssonar er var biskup í Skálholti frá árinu 1195 til dauðadags 1211, en þróin fannst með beinum biskups og baglinum í við rannsóknir í Skálholti árið 1954.
Í þessari ritgerð verður því safnað saman sem ritað hefur verið um papa á Íslandi. Markmiðið er að draga fram þá mynd sem fræðimenn hafa haft af pöpum á Íslandi í gegnum tíðina og hvernig sú mynd er í dag. Spurningar á borði við: „voru papa hér á landi?“; „hvernig voru samskipti papa og norrænna manna?“; og „hvar eru bjöllurnar, baglarnir og írsku bækurnar sem Ari fróði ritar um?“ eru aldrei langt undan þegar verið er að fjalla um þetta efni og erfitt er að forðast þær alveg. Markmið þessarar ritgerðar er sem fyrr segir að draga saman á einn stað rannsóknarsögu papa-fræða á Íslandi.
Rannsóknarsaga
Í þessari stuttu umfjöllun um rannsóknarsögu papa-fræða verður farið yfir þessi skrif, en þó er ekki fjallað um skáldsögur eða ljóð um papa. Enn fleiri bækur og greinar hafa verið ritaðar um papa erlendis, þá helst af breskum fræðingum um papa á Orkneyjum, Suðureyjum og Hjaltlandseyjum. Um þær rannsóknir er aðeins fjallað þar sem þær hafa áhrif á umræðuna um papa hér á landi.
Elstu nútímaskrif hérlendis um papa sem höfundur þessarar ritgerðar hefur fundið er bréf sem sent var inn til tímaritsins Ísafoldar árið 1879. Bréfið er nafnlaust en kemur af Austfjörðum og fjallar um örnefni í Papey tengd sögnum um papa. Líkur hafa verið dregnar að því að Snorri Jónsson dýralæknir hafi skrifað bréfið en hann bjó í Papey og lést þar árið 1879. Einar Ól. Sveinsson vitnar í þetta bréf í umfjöllun sinni um Papey í bókinni Landnám í Skaftafellsþingi.

Brynjúlfur Jónsson (DB) (1838-1914).
Rúmum tuttugu árum seinna, eða árið 1901, stóð fornfræðingurinn og heimspekingurinn Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi fyrir rannsókn í Rangárþingi. Þar skoðaði hann meðal annars nokkra manngerða hella og velti fyrir sér hvort að þeir væru merki um dvöl papa á Íslandi. Einar Benediktsson skáld skrifaði árið 1905 greinina „Íra-býlin“ þar sem hann fjallaði um helladvöl papa og renndi þar með stoðum undir kenningar Brynjúlfs með hárómantískum lýsingum og hugmyndum sínum um kirkjur og kapellur hoggnar út í steininn. Sama ár kom út grein eftir fornfræðinginn Daniel Bruun þar sem hann lýsti heimsókn sinni til Papeyjar. Velti hann einkum fyrir sér rituðum heimildum um papa á Íslandi en virðist ekki hafa haft trú á kenningum um papa í Papey.

Matthías Þórðarson (1877- 1961).
Matthías Þórðarson fyrrverandi þjóðminjavörður skrifaði síðan árið 1930 grein um papadvöl í hellum en hann var á algerlega öndverðum meiði við bæði Brynjúlf frá Minna-Núpi og Einar Benediktsson.
Árið 1945 skrifaði Einar Ól. Sveinsson rithöfundur grein um papa þar sem hann velti fyrir sér ritheimildum um papa og papa-örnefni. Hann var undir greinilegum áhrifum frá Einari Benediktssyni og blandaði rómantískum lýsingum um líf og hegðun papa inn í umræðuna. Þrem árum seinna gaf hann út bókina Landnám í Skaftafellsþingi. Í henni fjallaði hann að mestu um landnám norrænna manna en fyrsti kaflinn er tileinkaður pöpum, ritheimildum um þá, örnefnum og híbýlum. Kristján Eldjárn, fyrrverandi þjóðminjavörður, fjallar sömuleiðis stuttlega um upphaf byggðar í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, sem kom út 1956.
Björn Þorsteinsson fjallaði um Ísland í erlendum ritheimildum frá því fyrir landnám og um það af hverju paparnir hurfu af landinu.

Hermann Pálsson (1921-2002).
Hermann Pálsson fjallaði hins vegar um papa-örnefni og uppruna þeirra í grein sinni. Loks skrifaði Sigurður Björnsson, fyrrverandi bóndi, greinina „Leikmannsþankar um Papýli“ árið 1971 og beitti hann þar örnefnafræði á umfjöllun fræðimanna um Papýli í sama anda og áður hafði verið gert.
Það var ekki fyrr en með BA-ritgerð Guðrúnar Sveinbjarnardóttur frá árinu 1972 að aftur eru nýttar fornleifafræðilegar heimildir um papa, líkt og Matthías Þórðarson hafði gert í grein sinni. Ritgerðin er merkileg fyrir margt en einna helst fyrir það að Guðrún var einhver fyrsti Íslendingurinn frá því að Matthías Þórðarson var með hellarannsóknir sínar til að fara á vettvang í papa rannsókn sinni.
Nánast á hinum enda skala fræðilegrar umræðu við ritgerð Guðrúnar er bók rithöfundarins Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, sem kom út árið 1979 og er þar að finna margar merkilegar og hárómantískar hugmyndir, sem flestar eru órökstuddar, um hugsanlegt landnám Rómverja og Kelta fyrir landnám norrænna manna.

Kristján Eldjárn (1916-1982).
Sex árum seinna kom út rannsóknarskýrsla Kristjáns Eldjárns um uppgröft í Papey. Er þessi rannsókn hans einn af tveimur uppgröftum sem farið hafa fram á meintum papastöðum hér á landi en hinn er Kirkjubær. Ekki entist Kristjáni aldur til að gefa skýrsluna út en það gerði Guðrún Sveinbjarnardóttir og kom hún út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1988.
Hermann Pálsson gaf síðan út bókin Keltar á Íslandi árið 1996 þar sem hann bætir við umfjöllun sína um papa sem út kom í greininni frá 1965. Bókinni er, líkt og segir aftan á bókarkápunni, „…ætlað að svala forvitni þeirra sem sætta sig ekki við þá einföldu hugmynd að íslensk fornmenning sé norræn að öllu leyti.“
Að auki má nefna nokkrar greinar og rit þar sem ekki er fjallað beint um papa en í stað þess um papa-staði og örnefni. Til dæmis skrifuðu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Papey í Ferðabók sinni og Ólafur Olavius skrifaði um hana í riti sínu Oeconomisk Reise igiennom Island, sem Kristian Kålund gerði einnig í Íslandslýsingu sinni. Af þessum þremur heimildum virðist sem Olavius hafi einn farið út í eyna.

Guðrún Sveinbjarnardóttir (f. 1947).
Flest það sem skrifað hefur verið um papa á Íslandi er augljóslega undir áhrifum rómantíkur og er það í raun ekki fyrr en með ritgerð Guðrúnar Sveinbjarnadóttur og útgáfu Papeyjar skýrslunnar sem áhrif hennar dvína að miklu eða öllu leyti. Allir þeir er skrifa á þennan rómantíska hátt virðast ekki vera í neinum vafa um veru papa hér á landi og litast umræðan mikið af því.
Um ritaðar heimildir
Ein þekktasta ritheimildin um papa á Íslandi og sú sem einna oftast er vitnað í er eftirfarandi kafli í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar; Í þann tíð vas Ísland viði vaxit á milli fjalls og fjöru. Þá váru hér menn kristnir, þeir es Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vesa hér við heiðna menn, ok létu eptir bækr írskar ok bjöllur ok bagla; af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir.

Landnáma.
Þetta er hins vegar engan veginn eina heimildin fyrir veru papa á Íslandi og er eftirfarandi kafla að finna í Landnámabók: En áðr Ísland byggðisk af Nóregi, váru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir várum menn kristnir, ok hyggja menn, at þeir hafi verit vestan um haf, því at fundusk eptir þeim bækr írskar, bjöllur ok baglar ok enn fleiri hlutir, þeir er þat mátti skilja, at þeir váru Vestmenn. Enn er ok þess getit á bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna.
Í Hauksbók Landnámu er að auki setningin „Þat fannsk í Papey austr ok í Papýli“ aftan við orðið „Vestmenn“. Eins og sést eru þessir tveir textar Íslendingabókar og Landnámu mjög áþekkir, í raun það líkir að ómögulegt er að trúa öðru en að hér sé um sama textann, endurskrifaðan, að ræða.

Thyle – Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Henri Petri árið 1576.
Það helsta sem skilur textana að er viðbótin „Þat fannsk í Papey austr ok í Papýli,“ sem líklegast er viðbót Hauks, og setningin „Enn er ok þess getit á bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna.“ Nánar verður rætt um viðbótina í kaflanum Papar í örnefnum seinna í ritgerð þessari en rétt er að velta fyrir sér hvaða ensku bækur hér um ræðir.
Í raun kemur aldrei fram, hverjar þær ensku bækur eru sem nefndar eru í Landnámu en fyrr í sama kafla er aftur á móti vitnað til heilags Beda, bresks prests sem lést árið 735. Beda skrifaði margar bækur og minnist nokkrum sinnum á Thúle, að þaðan hafi komið fólk til Bretlands. Óvíst er hvaðan sögurnar um fólksflutninginn eru upprunnar en flestar frásagnir Beda um Thúle virðast vera tilvitnanir í gríska og rómverska texta, líklegast texta Pýþeasar sem skrifar að hann hafi manna fyrstur farið til eyjunnar Thúle, sem sumir fræðimenn hafa talið sé Ísland, í kringum árið 300 fyrir Krist.
Í texta Íslendingabókar er tvennt sem margir fræðimenn hafa velt fyrir sér öðru fremur en það er, í fyrsta lagi, að paparnir hafi einfaldlega farið þegar norrænir menn komu til Íslands og, í öðru lagi, að þeir hafi skilið eftir sig þessa gripi. Hefur verið bent á það að hópur fólks sem fer í friði og skipulega, líkt og Íslendingabók virðist gefa í skyn, myndi ekki skilja eftir gripi á þennan hátt því þessir gripir voru þeim sérstaklega kærir.

Papar – úr fornu handriti.
Tvær meginskýringar hafa verið lagðar fram fyrir þessu ósamræmi. Sú fyrri er sú að papar hafi ekki getað flutt þessa gripi sína á brott vegna ófriðar við þá norrænu menn sem fluttu til landsins. Nokkrar athyglisverðar kenningar hafa sprottið upp í kringum ófriðarkenninguna og er þar helst að nefna þá samsæriskenningu að Ari fróði hafi ekki minnst á árásir norrænna manna á papa vegna þess að það liti illa út fyrir landsmenn að hafa drepið fyrstu kristnu mennina á landinu.
Seinni kenningin um ástæðu ósamræmisins er að það hafi alls ekki verið neinir gripir til að þekkja papana af, að Ari fróði hafi þekkt til sagna um papa á Íslandi en ekki þekkt til papaörnefna til að vísa í, líkt og Haukur gerði í Landnámu útgáfu sinni. Helgi Guðmundsson bendir á að ólíklegt sé að sögur um slíka gripi hafi lifað af í munnmælum í hátt á þriðju öld, þ.e. frá veru papa til þess er Ari fróði skrifar Íslendingabók. Hugsanlega hefur Ari fróði því einungis nefnt þrjá gripi sem auðvelt væri að þekkja kristni af og þá sérstaklega írsk-skoska kristni.

Hjalti Hugason.
Hjalti Hugason, prófessor við Guðfræði og trúarbragðadeild Háskóla Íslands, hefur bent á það að hvergi er minnst á krossa sem eina af gripum papa og má telja nokkuð merkilegt að þetta helsta trúartákn kristninnar fái ekki að vera með sem slíkt.
Um aðrar fornar norrænar heimildir um papa má nefna Historia Norvegiæ, skrifað í kringum árið 1200, og rit munksins Þjóðreks, eða Theodoricus upp á latínu, um sögu Noregs frá því á seinni hluta 12. aldar. Um papa segir í Historia Norvegiæ, í þýðingu Björns Sigfússonar: „Þær eyjar byggðu fyrst Péttar og Papar. Önnur þjóðin, Péttar, litlu meira en dvergar að vexti, vann kvölds og morgna hin mestu furðuverk í borgarhleðslu, en um hádaginn földu þeir sig alveg magnlausir í jarðhýsum vegna hræðslu […]“. En Papar báru nafn af hvítum klæðum, sem þeir gengu í eins og klerkar, af því heita allir klerkar papar á þýsku.

Papey (MWL).
Enn er Papey nefnd eftir þeim. En eins og áður mátti ráða af klæðnaði og letri bóka þeirra, sem þeir skildu eftir, hafa þeir verið frá Afríku, gyðingatrúar.
Eyjar þær sem hér um ræðir eru Orkneyjar og þar, sem og í Suðureyjum, bjó vissulega þjóðflokkur sem kallaðir voru Péttar (e. Picts) og þar má finna mikið af papa-örnefnum. Annað í þessum texta ber greinileg ævintýra merki. Péttarnir eru hér orðnir einhverskonar nátttröll og paparnir þjóðflokkur afrískra gyðinga en ekki hópur írskra, kristinna munka og einsetumanna. Útskýringuna fyrir því að papar eru kallaði afrískir er líklegast að finna í því að papar þessir voru tengdir við Hvítramannaland sem, samkvæmt heimsmynd norrænna manna, var að finna nokkru suður af Vínlandi sem var talið tangi út frá Afríku.

Papi (tilgáta).
Um gyðingdóm papana ríkir meiri óvissa en Aidan MacDonald hefur stungið upp á því að hér sé um misskilning varðandi þætti írskskoskrar kristni að ræða. Texti Historia Norvegiæ virðist þannig ekkert hafa fram að færa sem söguleg heimild, nema hugsanlega til að segja að papar hafi verið í Orkneyjum.
Í riti Þjóðreks er fjallað um papa á eftir farandi hátt, aftur í þýðingu Björns Sigfússonar: „Og þá hófst byggð fyrst á ey þeirri, sem vér nú köllum Ísland. Auk þess sem fáeinir menn frá Írlandi, sem er hið smærra land Bretlandseyja, eru taldir hafa verið þar forðum eftir sannindamerkjum þeim, að fundist hafa bækur þeirra og eigi allfá áhöld“.

Einar Ól. Sveinsson (1899-1984).
Hér virðist vera á ferð umorðun á texta Ara fróða og því ekki hægt að nýta hann sem heimild um papa á Íslandi. Sá eini sem það gerir er Einar Ól. Sveinsson í grein sinni „Papar“ en þar virðist hann telja hverja heimild, einnig Landnámu, sem sjálfstæðan vitnisburð um papa. Í bókinni Landnám í Skaftafellsþingi er komið annað hljóð í strokkinn og hann bendir á að orð Þjóðreks séu „nauðalík“ frásögn Ara fróða.
Í riti eftir írska eða skoska munkinn Dicuil er að finna eftirfarandi texta, í þýðingu Helga Guðmundssonar; „þá eru þar nú af völdum ruplandi Norðmanna engir einsetumunkar lengur“. Þessi texti og texti Ara fróða eru þó nokkuð líkir, þó að Ari fróði virðist hafa mildað tón frásagnarinnar og gefið sér skáldlegt leyfi varðandi ástæðu þess að hinir írsku munkar hurfu á braut.
Ritið sem Dicuil skrifar kallast De mensura orbis terrae og er landafræðirit skrifað einhverntíma í kringum árið 820.
Í þessu riti skrifar hann um Bretlandseyjar og eyjar norður af þeim. Hluta af því sem hann skrifar hefur hann eftir eldri ritum en annað hefur hann eftir mönnum sem fóru sjálfir á þær eyjar sem skrifað er um. Lýsingu þá á eynni Thile sem er að finna í riti Dicuil virðist vera bland af þessu tvennu. Samkvæmt Dicuil dvöldust nokkrir klerkar á eynni, sem hann segir ávalt hafa verið óbyggða, frá 1. febrúar til 1. ágúst og settist sólin þar ekki um sumarsólhvörf og dagana fyrir og eftir. Einnig minnist Dicuil á að eins dags leið norður af eynni sé hafís fastur en það er hugsanlega viðbót Dicuils úr öðrum textum. Þessu hefur verið haldið fram með þeim rökum að ekki er minnst á stærð Thile, sem þó hefði líklegast verið gert ef um Ísland væri að ræða þar sem enginn önnur ey í Norður-Atlantshafi, nema Bretland sjálft, er svo stór sem Ísland. Ekki er önnur lýsing en þessi á eynni Thile og ekkert við frásögn klerkanna sem Dicuil hefur eftir sem getur ekki átt við aðrar eyjar í N-Atlantshafi, þó að það sé einfaldlega of lítið af upplýsingum í De mensura orbis terrae til að hægt sé að segja nokkuð um það. Því gætu hafa verið hér nokkrir írskir klerkar eitt sumar rétt fyrir árið 800.

Thule – fornt kort.
Athyglisvert er að þar sem setningin um ruplandi Norðmennina kemur fyrir virðist Dicuil ekki lengur vera að tala um Thile heldur um aðrar eyjar sem hægt er að sigla til undir fullum seglum á tveimur sólarhringum. Lýsingin á þeim eyjum hljóðar svo, í þýðingu Helga Guðmundssonar: „Þær eyjar eru sumar smáar og milli nærri allra eru mjó sund, en á þeim hafa einsetumunkar, sem sigldu frá landi okkar, Skotlandi (Írlandi), dvalizt í nær hundrað ár. En rétt eins og þær voru alltaf óbyggðar frá upphafi heimsins, þá eru þar nú af völdum ruplandi Norðmanna engir einsetumunkar lengur, heldur eru þær fullar af ótölulegum fjölda sauðfjár og mörgum mismunandi tegundum sjófugla. Ég hef aldrei fundið neitt um þessar eyjar á bókum.

Björn Þorsteinsson (1916-1986).
Orðið „Írland“ innan sviga er viðbót Helga Guðmundssonar en á þeim tíma er Dicuil ritar kallaðist Írland Skotland. Hér virðist verið að ræða um Færeyjar en ekki Ísland en samt hefur Ari fróði nýtt sér þennan texta í sinni texta smíð. Nú hefur enginn ásakað Ara fróða um að vera heimskur maður og hann hlýtur að hafa áttað sig á því að þetta ætti líklegast ekki við Ísland. Ekki er því þekkt nein ástæða önnur en að hann hafi hugsanlega þekkt til einhverra sagna um papa hér á landi, hvort sem það er aðeins úr riti Dicuils eða annarsstaðar frá.
Hvað er papi?
Í Íslenskri orðabók segir að papi sé „írskur maður (einkum munkur) á Íslandi og víðar (t.d. fyrir landnám norrænna manna)“ (Íslensk orðabók, 1997, bls. 726). Þessi skilgreining á hvað papi er, er vægast sagt, mjög víð og segir ekki mikið um þessar manneskjur. Þessi lýsing er hins vegar mjög lýsandi fyrir þær hugmyndir sem algengastar eru meðal almennings í dag.

Papi (tilgáta).
Annars virðist sem sú ímynd sé nokkuð ruglandi, eina stundina eru papar írskir munkar sem yfirgáfu landið stuttu eftir eða við landnám norrænna manna en hina eru þeir írsk þjóð sem settist hér að og blandaðist inn í hina nýju norrænu þjóð. Hvaðan kemur þessi þversagnarkennda ímynd?
Af textunum sem fjallað var um í kaflanum hér á undan má greina nokkuð um hugmyndir norrænna manna á seinni hluta miðalda af pöpum. Þeir virðast hafa litið á papana sem írska, kristna munka sem ferðuðust um N-Atlantshafið. Hins vegar virðist einnig vera litið á þá sem einhvers konar þjóðsagnaverur. Þó ber aðeins eitt rit merki þess, Historia Norvegiæ, það virðist því vera undantekning frekar en regla. Engu að síður er lítið hægt að segja um ímynd almennings af pöpum á þessum tíma en ritin eru yfirleitt skrifuð af menntamönnum og mönnum í valdastöðu.
Einn er norrænn textabútur sem ekki hefur verið minnst á áður en það er sagan um papa að Kirkjubæ, en hann er úr í Landnámabók. Fylgir þar sögunni að á Kirkjubæ hafi ávalt búið kristnir menn og að þar megi heiðnir menn ekki búa. Sýnt er fram á þetta með sögunni af því þegar að Hildir Eysteinsson, heiðinn maður, ætlaði að flytja að Kirkjubæ eftir að fyrri ábúandi, Ketill hinn fíflski sem var kristinn, lést en Hildir verður bráðkvaddur er hann kemur að túngarðinum. Þessa sögu er að finna í örlítið breyttu formi í Ólafs sögu Tryggvasonar en mesta og Flateyjarbók. Í þeim textum er ekki að finna tilvitnun um papa. Það að á Kirkjubæ hafi aldrei búið nema kristnir menn helst samt stöðugt í öllum útgáfum sögunnar.

Úr Historia Norvegiæ.
Hvers vegna er papa aðeins að finna í Landnámu útgáfunni? Hjalti Hugason telur að með því að telja papa sem upphaf kristnihalds á Kirkjubæ sé verið að skapa kirkjusögu staðarins. Slíkt þekkist annars staðar frá þar sem kirkjum og klaustrum eru gefnar elstu mögulegu tengingar við kristni; við Miðjarðarhaf voru þau tengd postulunum, norðan Alpanna, þar sem engir voru postularnir, voru þau tengd dýrlingunum og hér á Íslandi, þar sem hvorki voru postular né dýrlingar, voru papar elsta kristna tenging.
Hver er þá ástæðan fyrir því að þessi tenging er ekki til staðar í öðrum útgáfum sagnarinnar? Hugsanlega er það vegna tengingar íslenskrar kristni við írsk-skoska kristni sem hin rómversk-kaþólska reyndi eftir megni að uppræta. Því hefur ekki þótt nægilega kristinlegt að fyrstu ábúendur Kirkjubæjar hafi verið papar. Sagan hefur samt sem áður lifað enda hefur þótt nauðsynlegt fyrir slíka kristilega miðstöð sem Kirkjubæjarklaustur var að hafa forsögu. Kirkjubæjarsögnin virðist flækja ímynd papanna í augum norrænna manna. Þeir voru kristnir en það var ekki rétta kristnin og því ástæða til að þagga niður meinta búsetu þeirra á Kirkjubæ. Ímyndin helst samt sem áður nokkurn veginn sú sama; írskir munkar sem ferðuðust.

Munkar.
Hvaðan kemur þá hugmynd nútíma manna um írska þjóð á Íslandi fyrir tíma norrænna manna? Sú hugmynd kemur líklegast frá vissum þáttum írskrar-kristni.
Er ímynd Íslendinga af þessum mönnum, pöpunum, algerlega röng? Til voru reglur írskra munka sem lifðu á Bretlandseyjum og lifðu einsetumannalífi og stunduðu trúboð. Hins vegar virðist sem þeir hafi breyst svo rækilega í meðförum Íslendinga í aldanna rás að varla má þekkja þá, þeir eru orðnir að einhvers konar þjóðsagnaverum. Um tíma virðast þeir hafa orðið holdgervingar minnimáttarkenndar sem plagaði suma fræðimenn fram undir miðja 20. öld vegna róta íslenskrar þjóðar meðal blóðþyrstra villimanna, sem var ímynd er hinir norrænu menn, víkingar, þurftu að sætta sig við í einhverja áratugi.

Ískur munkur.
Einnig virðist sem þeir hafi verið notaðir sem afsökun fyrir heiðni landnámsmanna, að landið hafi verið kristið áður en heiðnir menn komu með morðum og ránum og að sumir staðir hafi verið það heilagir að þar gátu heiðnir menn ekki verið, samaber Kirkjubæjarsögnina.
Ímynd papanna er mjög flókið fyrirbæri en á seinustu árum hafa fræðimenn byrjað að hafa skýrari mynd af þeim í huga við rannsóknir sínar. Það er nokkurn veginn sú mynd sem hinir norrænu menn miðaldanna höfðu, af írskum, kristnum munkum sem ferðuðust um allar Bretlandseyjar og til meginlands Evrópu og hugsanlega lengra, til dæmis til Íslands.
Papar í örnefnum
Örnefni með forskeytunum pap- eða papa- eru vel þekkt á Norður-Atlantshafssvæðinu frá Íslandi og til Englands en flest eru þau í Suðureyjum, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Athyglisvert er að örnefnin Papey og Papýli eru algengust en önnur örnefni, t.d. Papafell og Papá, eru einnig þekkt.

Papós í Lóni.
Um uppruna þessara örnefna hefur nokkuð verið skrifað. Í fyrstu einkenndist sú umræða á hugmynd sem Hermann Pálsson orðaði svo; „…slóð Papanna verður rakin eftir örnefnum frá Mön til Íslands“. Hugmyndin um að einhver hópur fólks skilji eftir sig „slóð“ örnefna líkt og brauðmylsnu Hans og Grétu sem rekja má aftur til upprunastaðar þykir ólíkleg í dag. Slíkt myndi benda til að hópurinn hafi sjálfur gefið slík nöfn og að hluti hópsins hafi sest að hjá þeim örnefnum til að halda þeim á lífi á meðan annar hluti hópsins haldi áfram. Eitt sem nefnt hefur verið gegn þessu er að hópar gefa sjaldnast örnefni eftir hópnum sem heild heldur frekar eftir einstaklingum.
Þannig heitir Ingólfshöfði Ingólfshöfði en ekki Landnámsmannahöfði eða Víkingahöfði eða Íslendingahöfði. Einnig hefur verið bent á að papa-örnefni fylgja norrænum hljóðreglum en ekki írskum líkt og sum önnur örnefni sem finna má á Bretlandseyjum. Þessi hugmynd á fastar rætur í hugmyndinni um papa sem írska þjóð en ekki sem írska munka.

Papafjörður.
Önnur hugmynd um uppruna örnefnanna er að þau séu tilkomin eftir að eyjarnar þar sem þau finnast voru numdar af norrænum mönnum. Sú hugmynd byggist á því að papa-örnefnin eigi rætur sínar að rekja til vegna afturvirkrar hefðar (e. retrospective tradition) sem verður til eftir að umrót á tímabili landnáms norrænna manna á Bretlandseyjum er lokið og komin fastari mynd á byggð á eyjunum.
Þegar þessu umróti lýkur hafa hinir nýju íbúar eyjanna munað eftir hinum horfnu pöpum og nefnt staði, þar sem þeir voru, eftir þeim. Þessari hugmynd hefur verið hafnað, að minnsta kosti hvað varðar Bretlandseyjar, á grundvelli þriðju hugmyndarinnar.
Þriðja hugmyndin er sú að örnefnin séu komin frá því nafni sem norrænir menn gáfu hinum írsku munkum sem þeir hittu á eyjunum sem þeir námu. Þeir sem aðhyllast þessa hugmynd hafa bent á að vegna þeirra hljóðbreytinga sem virðast hafa orðið á örnefnunum, sérstaklega Papýli. Talið er að Papýli hafi verið Papabýli í fyrstu og að hljóðbreytingarnar frá –pab- til –pp- og loks til –p- hafi aðeins gerst á löngu tímabili sem afturvirk hefð gefur ekki kost á. Það sama á við um Papey, sem hugsanlega var fyrst Papaey.

Papafjall; Papýlisfjall í Suðursveit.
Þessi hugmynd byggist þannig á því að flest papa-örnefni er að finna í nánd við gamla kirkjustaði og að á einhverju tímabili hafi heiðnir norrænir menn og papar lifað saman í friði og þannig papa-örnefnin þannig tilkomin. Þessi hugmynd getur átt vel við um Bretlandseyjar en þegar landnám hefst hér eru þessar hljóðbreytingar að mestu fullkomnar og því er mögulegt að afturvirk hefð eigi við hér á landi, að papa-örnefnin hafi verið gefin þeim stöðum er minna á svipaða staði kennda við papa erlendis. Benda má á að í Landnámu er skrifað um Pappýli en ekki Papýli.
Sumir hafa nýtt sér papa-örnefni til að útskýra hegðun papa, til dæmis þar sem Einar Ól. Sveinsson segir „…beztur fiska þótti þeim lax, og má geta þess um leið, að hylurinn Papi í Laxá bendir á, að þeir hafi notfært sér hann hér“.

Papafjörður – naust.
Aðrir hafa tekið undir þessar kenningar, til dæmis Hermann Pálsson. Ekki er kunnugt um neinar sagnir um papa þar á slóðum og ekkert vitað um nafnið annað en að á það er fyrst minnst í rituðum heimildum á 14. öld í máldögum Hjarðarholtskirkju en þar er skrifað „päp“. Einar Ól. Sveinsson telur að þessi ritháttur séu mistök, en alveg eins líklegt er að hér sé upprunaleg mynd nafnsins og að það eigi við einhvers konar náttúrufyrirbrigði, hugsanlega brjóst eða geirvörtur þó að höfundi þessarar ritgerðar sé ekki kunnugt um neitt þess háttar, frekar en um sagnir af pöpum.
Við Papós stóð kaupstaður á seinni hluta 19. aldar með sama nafni en ekki er búið þar sem hann stóð í dag. Suður af kaupstaðnum Papós er að finna tóftir sem nefndar eru Papatættur eða Papýli. Þessar Papatættur hafa ekki verið rannsakaðar af fornleifafræðingum en þar fann maður að nafni Björn Eymundsson „fornfálegan hamarshaus“. Ekki er vitað hver örlög þessa hamarshauss urðu eða nánar um útlit hans.

Papey – býli.
Papey er eyja við Suðausturland og er líklegast þekktust af öllum papa-örnefnum sem bústaður papa. Papey er líklegur dvalarstaður fyrir papa hér á landi fyrir landnám vegna þeirrar gnægðar sem eyjan býr yfir. Þar er stutt á fiskimið og fuglalíf er fjölskrúðugt svo gott hefur verið að sækja bæði egg og fugl til matar. Í bréfi sem birt var í Ísafold árið 1879 segir frá örnefninu „Írski hóll“ þar sem, samkvæmt bréfinu, papar settu upp skip sitt og höfðu aðsetur. Einnig í bréfinu er lýsing á tóft sem virðist vera nafnlaus. Lýsingin á tóftunum virðist eiga nokkuð vel við tóftir sem kallaðar eru Papatættur í seinni tíma örnefnalýsingum og virðist þetta örnefni því tilkomið eftir 1879.

Papey – kort.
Í greininni eftir Daniel Bruun um Papey kallar hann Papatættur Paparústir og nefnir Papavík. Þessi örnefni finnast hvergi annars staðar á prenti og Kristján Eldjárn telur líklegt að Daniel Bruun hafi fengið þessi nöfn frá Gísla Þorvarðarsyni sem bjó á Papey á milli 1900-1948. Börn Gísla, sem tóku við Papey eftir hann, þekkja ekki til örnefnanna Paparústir og Papavík og því hugsanlegt að Gísli hafi búið þau til. Einnig virðist sem örnefnið Írski hóll breytist og verði að Írskuhólum og færist þvert yfir eyna og örnefnið Papatættur notað í staðinn. Ástæðan fyrir þessu örnefnarugli er líklega að árið 1900 tekur nýtt fólk sem ekki er staðkunnugt við búi í Papey eftir að eyjan hefur verið í margar kynslóði í eigu sömu fjölskyldu.
Vert er í þessu sambandi að minnast orða Kristjáns Eldjárns er hann skoðar staðhætti á Papey árið 1964 en þar sem hann lýsir Papey á þann hátt: „…eyja með klettaborgum, fagurlega og reglulega kúptum“.

Heilagur Brendan – stytta í Bantry, Írlandi.
Örnefnið Papýli er líklegast það sem hefur valdið fræðimönnum hvað mestu hugarangri. Örnefnið er ekki þekkt á Íslandi fyrir utan tvær tilvísanir í Hauksbók Landnámu. Sú fyrri er að hinir auðþekkjanlegu gripir fundust í „Papey austr ok í Papýli“, Sú seinni segir frá manni er hét Úlfr sem bjó á Breiðabólstað í Pappýli og syni hans, Þorgeirr, sem bjó að Hofi í Pappýli. Af þessum textum hefur flestum fræðimönnum fundist það ljóst að Papýli er landsvæði en ekki tiltekinn bær. Einnig telja flestir að hér sé um sama örnefni að ræða, einn stað en ekki tvo.
Hvar Papýli þetta hefur verið er ekki vitað en af Landnámabók má skilja að það sé einhvers staðar á Suðurlandi. Tveir Breiðabólstaðir eru á Suðurlandi, annar á Síðu, nálægt Kirkjubæ, og hinn er í Fellshverfi í Suðursveit. Lengi hefur verið bent á Breiðabólstað á Síðu sem líklegastan stað fyrir Papýli vegna tengingar papa við Kirkjubæjarklaustur. Einar Ól. Sveinsson benti hins vegar á að í landi Breiðabólstaðar í Fellshverfi er fjallið Staðarfjall sem hefur verið nefnt Papýlisfjall.

Klukkugil.
Í fjallgarði nálægt við Staðarfjall er að finna örnefnið Klukkugil og fylgir sú sögn að þar hafi papar hent niður klukkum, eða bjöllum, sínum þegar þeir flýðu norræna menn. Á grundvelli þessa vill Einar Ól. Sveinsson meina að Breiðabólstaður í Fellshverfi sé líklegri staðsetning fyrir Papýli en Breiðabólstaður á Síðu.
Sigurður Björnsson telur hins vegar að örnefnið Papýlisfjall sé ekki gamalt, né sagan um papana í Klukkugili, og að líklegast sé örnefnið komið frá séra Vigfúsi Benediktssyni sem var prestur þar á slóðum á 18. öld en hann skrifaði fyrstur um Papýlisfjall.

Hofskirkja í Öræfum.
Af Landnámu textanum, þar sem minnst er á Papýli, má ráða að í Papýli eru, að minnsta kosti, tveir bæir; Breiðabólstaður og Hof. Hins vegar er eini bærinn sem kallast Hof á Suðurlandi að finna í Öræfum. Því er annaðhvort að Papýli hefur náð yfir landssvæði frá Síðu til Öræfa eða frá Fellshverfi til Öræfa eða þá að Hof örnefnið hafi verið nálægt öðrum hvorum Breiðabólstaðnum en sé horfið. Þriðja skýringin, sem ekki hefur fengið hljómgrunn meðal fræðimanna, er að Hof í Öræfum hafi upphaflega kallast Breiðabólstaður en verið endurnefnt Hof vegna þess að þar var heiðið hof og til aðgreiningar frá Breiðabólstað á Síðu og í Fellshverfi. Það eina sem flestir fræðimenn sem hafa skrifað um Papýli eru sammála um er að ekki er hægt að slá neinu föstu um hvar á landinu Papýli hefur verið.
Papar í fornleifum

Papar við helli.
Í skýrslu þeirri sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði vegna rannsóknar sinnar í Rangárþingi árið 1901 fjallar hann um hella sem hann var viss um að væri manngerðir og segir hann um þá: „[…] hellarnir eru svo myndarlega, og mér liggur við að segja snildarlega gjörðir, að það lýsir talsverðri kunnáttu. Þeir sem bjuggu þá út, virðast hafa verið allvel æfðir í því verki. Mér liggur við að efast um, að hellarnir séu frá Íslands bygðar tíma. Mundi ekki hugsanlegt, að þeir gæti verið eldri? Mér hefur dottir í hug, að þeir kunni, ef til vill, að vera eftir papa, eða hina írsku menn, sem hér voru fyrri en vorir norrænir feður. Þeir hafa án efa farið hingað til þess, að forðast árásir heiðinna víkinga.

Papahellir? á Suðurlandi.
Þeir hafa vonað, að Norðmenn legði ekki leiðir sínar til þessa afskekta, óbygða lands. Tryggingu fyrir því hafa þeir þó ekki haft, líklega hafa þeir af og til búist við því, sem fram kom, að Norðmenn kæmi hingað, þó ekki væri nema eitt og eitt skip í einu af tilviljun. En af þeim væntu þeir sér þá alls ills, og mundu helzt hafa óskað, að þeir kæmi ekki auga á híbýli Íra hér.
Og ef þeir kæmi auga á þau, og vildi eyðileggja þau, — sem þeir auðvitað mundu vilja, — þá væri hvorki mjög auðgert að rjúfa þau né brenna.
Íslendingar hafa löngum verið gjarnir á að skilja merki eftir sig þar sem þeir fara. Oft er það í formi fangamarka en einnig annarra merkja, t.d. ýmissa gerða krossa.

Krossmark í Seljalandshelli.
Flestir þeirra krossa sem finnast í hellum á Íslandi eru hinir svokölluðu latnesku krossar, en aðrar gerðir þekkjast einnig. Aldrei hefur fundist keltneskur eða írskur kross, í helli á Íslandi. Þetta eru þó ekki rök fyrir því að aldrei hafi verið papar í þessum hellum þar sem flestir þeir krossar sem finnast í fornum írskum munkaklaustrum eru „…sömu [gerðar] og annars staðar í kristni á þessum tíma“.
Lokaorð
Umræðan um papa á Íslandi er mjög flókin og erfitt að eiga við hana líkt og sá sem lesið hefur ritgerð þessa ætti að vera búin að átta sig á. Aðeins var snert lauslega á umræðunni um gripi papanna en hún er ekki síður flókin en margt annað í þessum fræðum. Ekki var heldur fjallað um írsku dýrlingasögurnar, sem eru ferðasögur hinna ýmsu írsku dýrlinga. Þar fer helst fyrir munknum Brendan sem hugsanlegri vísbendingu um ferðir hingað til lands en allar sögurnar eru það ævintýralegar að í lagi þótti að fjalla lítið um þær hér. Þá var umfjöllun um papa í skáldskap sleppt en skrifuð hafa verið nokkur ljóð, skáldsögur og jafnvel leikrit þar sem írskir munkar koma við sögu.

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.
Margar tilgátur hafa verið lagðar fram, og einnig hraktar, um papa á Íslandi. Spurningin um það hver tilgátanna er rétt eða hvort að yfirhöfuð sé hægt að tala um „rétta tilgátu“ í þessu sambandi er eitthvað sem fræðimenn munu eflaust þræta um í mörg ár til viðbótar.
Um papa er það eitt víst að þeir lifa góðu lífi í hugarheimi Íslendinga sem kristnir munkar, sem írsk þjóð á Íslandi, sem afrískir Gyðingar eða sem gullgrafandi hellisbúar.
Þessir mismunandi hamar papanna hafa breyst í tímans rás og í höndum hinna ýmsu fræðimanna, líkt og fram hefur komið. Ekki virðist sem áhuginn sé nokkuð að dvína á þessum dularfullu mönnum sem paparnir eru og líklegast mun það ekki gerast í náinni framtíð. Sérstaklega ef minjar um mannaverk fyrir hið sögufræga ártal 874 eftir Krists burð finnast við vettvangsrannsóknir hérlendis.“
Heimild:
-Hugvísindasvið Háskóla Íslands, „Þeir es Norðmenn kalla papa“, Ritgerð í papa-fræðum til BA-prófs í fornleifafræði, Jakob Orri Jónsson, 2010.

Papahús – Clocham.