Ásbúð

Gísli Sigurðsson skrifaði um örnefni Ásbúðar við Hafnarfjörð. Öll ummerki um bæinn eru nú horfin.

Ásbúð

Ásbúð.

„Þegar kom vestur fyrir Flensborgarhús, var komið að Ásbúðarlæk, sem hér rann fram í Ásbúðarós, og hér lá yfir Ásbúðarvað. Heyrzt hefur, að lækur þessi væri kallaður Flensborgarlækur.
Sunnan lækjarins og inn með honum var Ásbúð. þar var löngum tvíbýli, þó þurrabúð væri. Hétu bæirnir Sigvaldabær og Halldórsbær. Ásbúðartún og Ásbúðar-Nýjatún lágu hér kringum bæina, girt Ásbúðartúngörðum. Sunnan túnsins var svo Ásbúðardý, vatnsból bæjanna. Um aldamótin byggðist Melshús og ræktaðist Melshústún. Hér upp brekkuna var vegur lagður, Suðurgatan. Sunnan vegarins var Mómýrin eða Raftamýrin, því raftamór kom upp þarna. Gíslatún nefndist hér, eftir að Gísli Gunnarsson ræktaði mýrina nær alla, en Ólafstún var hér ofar í holtinu.

Ásbúð

Horft frá þar sem Ásbúð stóð að Flensborg og yfir fjörðinn. Í forgrunni má sjá garðahleðslur og hrunið hlaðið útihús svo þar sem Brandsbæjarlækur rann út í höfnina, þar var áður uppsátur skipa. Flensborgarskólinn þá skólahúsið nýja reist 1902. Hamarinn ber við himininn.

Niður við Ásbúðarlæk, sunnan Suðurgötu, var byggður bær, nefndist upphaflega Lækjamót, og fylgdi bænum Lækjamótalóð. Nafnið hélzt ekki við, en annað kom í staðinn, Mýrin eða _í Mýrinni“ og Mýrartún. Snemma á öldinni, sem leið, um 1835, var byggður bær hér ofan mýrar. Nefndist Melurinn. Þar var ræktað Melstún. Melsdý voru í mýrinni, litlar lindir, en rennsli frá þeim sameinaðist í Melslæknum. Neðan frá Flensborg, sunnan garða og upp með læknum, lá Melsstígur. Þar sem bærinn var byggður hafði áður verið þurrkvöllur fyrir mó úr mýrinni. Guðbrandur hét sá, er fyrstur bjó hér, því tók bærinn einnig nafn af honum, Brandsbær, Brandsbæjartún og Brandsbæjardý og Brandsbæjarlækur.“

Höfðaskógur

Jófríðastaðasel – tóftir.

Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð segir: „Ásbúð var upphaflega þurrabúð frá Ási. Þar var tvíbýli.“
Í Jarðabók inni 1703 segir: „Jörðin Ófriðarstaðir átti selstöðu … i heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður i Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi skipstöðu eignast í Ófriðarstaðalandi sem áður greinir.“

Ásbúð

Ásbúð – loftmynd 1954.

Ás átti ekki land að sjó. Hins vegar  er líklegt, eins og að framan greinir, að bærinn hafi fengið skipsuppsátur vestast í landi Ófriðarstaða í skiptum fyrir aðgengi að vatni neðan Ófriðarstaðasels norðan Hvaleyrarvatns, reist þar sjóbúð; Ásbúð, og nafnið færst yfir á nýja bæinn þar ofan búðarinnar um og í kringum aldarmótin 1900.

Á loftmynd af Ásbúð, sem tekin var árið 1954, má enn sjá uppistandandi íbúðarhúsið, en á myndinni má jafnframt sjá hversu mikið umhverfinu hefur verið raskað á skömmum tíma.

Heimildir:
-Örnefnaskráning fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð, Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.
-Jarðabókin 1703.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902. Ásbúð er nr. 5.

Flensborg

Gísli Sigurðsson skráði eftirfarandi um Óseyri við Hafnarfjörð, sem var einn þeirra mörgu dæmigerðu bæja fjarðarins frá því um aldamótin 1900, sem nú sést hvorki tangur né tetur af. Hafnfirðingar hafa, því miður, verið helst til of latir við að varðveita minjar um uppruna sinn…

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Óseyri var upphaflega þurrabúð. En bráðlega var ræktað út Óseyrartún, rúmlega tveggja kýrgrasvöllur. Eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist báðar jarðirnar Hvaleyri og Ófriðarstaði var þurrabúð þessari veitt til túnsins sinn hluturinn úr hvorri jörð. Túnið var umgirt Óseyrartúngörðum; Suðurtúngarði og Vesturtúngarði. En með fram Ósnum var Sjávargarðurinn allt austur fyrir Óseyrarbæ sem stóð í austurhluta túnsins en austan hans var Óseyrarhóll. Óseyrarhúsið var reist á gamla bæjarstæðinu. Það var byggt úr viði St. James-Barkinum [Jamestown] sem strandaði suður í Höfnum.

Fyrsta nafn á þessu býli var Ósmynni og einnig var það kallað Timburmannsbær eða Timburmannshús. Munnmæli eru um býli þetta: Óseyri á tún sitt og beit utan túns fyrir hest í hafti og kýr í grind“. Þar sem kotið stoð upphaflega var lágur hóll eða bali, nefndist Kothóll.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1900 – Óseyri og Hvaleyrarlón fjær og Flensborg fremst.

Heiman frá bæ lá Óseyrartraðir út í Óseyrarhliðið á Suðurtúngarðinum. Þaðan lá svo Óseyrargatan suður um Óseyrarbankann eða Bankann en þar var vetrarstaða fiskiskipa og viðgerðarstöð lengi. Frá bænum lá Kotgatan að Óseyrarkoti sem stóð í Vesturtúninu miðju. Í kotinu bjuggu þau Skál-Rósa og Gísli maður hennar fram til 1855. Eftir það fór kotið í eyði og byggðist ekki aftur upp. Sjávargatan lá heiman frá bæ norður í Sjávarhliðið við Óseyrarvörina. Ofan vararinnar var Skiptivöllurinn og Óseyrarbúðin og vestan við vörina Óseyrarhrófið.
Austurvörin var austan í Hólnum en þar voru skipin sett upp þegar lágsjávað var eða þegar straumur var harður út úr Ósnum.

Óseyri

Óseyri – örnefni skv. skráningu Gísla Sigurðssonar.

Óseyrarósinn eða Ósinn var oft mjög straumþungur, sérstaklega var straumurinn þungur út úr Ósnum. Í gamankvæði frá 1910 er ósinn nefndur Flensborgarós. Óseyrartjörnin liggur hér með fram túninu að norðan, allt suður í Hvaleyrartjarnarós gegnt Skiphól. Vestan túnsins var í eina tíð Óseyrarreitur, fiskþurrkunarreitur, en þar vestan var Óseyrarmýri og þar var Óseyrarlindin en þangað var vatnið sótt til neyslu og Lindargata frá lindinni og heim til bæjar. Í Suðurtúngarði var upphaflega fjárhús. Seinna var því breytt og þá reis hér upp Óseyrarkotið, Nýja- eða Bærinn eins og kotið var einnig kallað en þá var húsið komið á Óseyri. Sunnan túngarðsins lá svo Alfaraleiðin.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Óseyri – Gísli Sigurðsson.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Krýsuvík

Jarðfræðifyrirbærið „Sprengigígur“ er gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp. Gosefnin þeytast langt og hátt upp í loftið, en skilja lítið af jarðefnum eftir sig.

Sprengigígar

Sprengigígar – myndun.

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa. Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku, en hins vegar kallast þeir „maar“ í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni. Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum. Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni. Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.

Sprengigígar

Sprengigígar – skýringar.

Gosvirknin verður þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu. Þá verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar. Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos. Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eða engum gígbörmum, sem fyrr sagði. Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.

Sprengigígar

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Sprengigígur (e. maar) er eins og nafnið bendir til gígur sem verður til í sprengingu. Sprengingin verður oftast

vegna þess að kvika kemst í snertingu við vatn skammt undir yfirborðinu eða að gasrík kvika springur við yfirborðið.
Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Sprengigjá

Sprengigígar

Sprengigígar (-gjá) – Valagjá.

Sprengigjá (e. explosion fissure) er aflangur sprengigígur sem verður til þegar sprengingar verða á stuttri sprungu.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Sprengigos

Sprengigígar

Sprengigígar – sprengjugos.

Sprengigos (e. explosive eruption) teljast hvers konar gos þar sem kvika tætist í sundur í sprengingum. Oftast er það snerting við vatn sem veldur sprengingunum en stundum er spennu í sjálfri kvikunni um að kenna. Spennan stafar þá af gosgufum sem þurfa rými.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar. Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.

Sprungugos
Sprungugos (e. fissure eruption) er eins og nafnið bendir til eldgos á sprungu.

Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni.

Sprengigígar

Sprengigígar (gos-) – Innstidalur.

Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.

Minniháttar hverasprengigígar

Austurengjahver

Austurengjahver.

Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.

Kolsýrusprengigígar

Sprengigígar

Sprengigígar (kolsýru) – Súlufell.

Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Kattatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða „hverfjöll“ (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist „hýalóklastít“, sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungum.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar.
Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar „rætur“, það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.

Grænavatnseggjar

Sprengigígar – Grænavatnseggjar (Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn efst).

Landslag á Reykjanesskaga, einkum þó í Krýsuvík, er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins. Í öllum þessum gígum er vatn. Sunnan við Grænavatn eru hins vegar tveir vatnslausir sprengigígar, Stampar (Litli-Stampur og Stóri-Stampur).

Sjaldgæft er að sprengigígar gjósi oftar en einu sinni. Þeir eru oft það djúpir að þeir ná niður fyrir grunnvatnsborð. Í sprengigosum er megingosefnið stundum aðallega vatnsgufa og gastegundir, en lítið af gjósku.

Sprengigígar

Sprengigígar í Grafningi (Álftatjörn, Litla-Kattartjörn, Stóra-Kattatjörn og Djáknapollur efst).

Kattartjarnir eru í Hryggjunum, suðvestan til í Grafningi. Neðri-Kattartjörn (Nyrðri-), Stóra-Kattartjörn er norður af Kyllisfelli, en Efri-Kattartjörn (Syðri-), Litla-Kattartjörn er norður og/eða norðvestur af fellinu. Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir (Neðri-Katlatjörn, Efri-Katlatjörn og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Það er sennilega líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar.

Önnur dæmi um sprengigíga á Reykjanesskaganum eru Grænavatn á Núpshlíðarhálsi, Djúpavatn, Spákonuvatn, Arnarvatn og Austurengjahver.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sprengig%C3%ADgur
-https://isor.is/jardhiti/hahiti/sprengigigar/
-https://jardfraedi.vefbok.idnu.is/?id=32&tx_systimeglossary_pi1%5Bcharacter%5D=s&cHash=8bf0fc14952fadd54c0faf1ba759395c#c6
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1208

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Hraun

Dyngjur myndast á löngum tíma í þunnfljótandi flæðigosum þar sem kvikan streymir langar leiðir. Vísindamenn segja að stöðugt flæði þunnrar kviku af miklu dýpi, eins og í gosinu í Geldingadölum, sé sterk vísbending um að þar sé dyngja í mótun. Langflestar dyngjur á Íslandi mynduðust fyrir um það bil tíu þúsund árum. Eldvirknin getur staðið yfir í mörg ár, jafnvel áratugi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Íslenskar dyngjur eru á rekbeltum um allt land. Flestar eru ekki meira en þrír kílómetrar í þvermál og um 100 metra háar. Þekktustu dyngjurnar eru líklega Skjaldbreiður og Trölladyngja, en fleiri eru til dæmis Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Hrútagjárdyngja á Reykjanesskaganum.

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Dyngjur

Dyngjur á Reykjanesskaga frá síðustu 14.000 árum.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.
Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Atlantshafshryggur

Reykjanesgosbeltið og Mið-Atlantshafshryggurinn.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Geldingadalir

Geldingadalir í Fagradalsfjalli – eldgos.

Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð. Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá).

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.
Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára. Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.

Ein dyngjan er ótalin hér að ofan, en það er nafnlaus slík á milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns í Krýsuvík. Sjá má barma hennar austan við veginn gegnt Hádegishnúk. Gígurinn hefur nú fyllst af sandi og leir.

Heimildir:
-https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2021-03-23-gaeti-ordid-fyrsta-nyja-dyngjan-a-islandi-i-3000-ar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=56348
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329
-https://jokull.jorfi.is/articles/jokull1986.36/jokull1986.36.011.pdf

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.

Papabáture

Jakob Orri Jónsson skrifaði ritgerð til BA-prófs í fornleifafræði árið 2010 er hann nefndi „Þeir es Norðmenn kalla papa“. Hér verður gripið niður í efnisinnihaldið:

Jakob Orri Jónsson

Jakob Orri Jónsson.

„Flestir Íslendingar kannast við sögur af pöpum sem eiga að hafa búið hér á landi og horfið á braut við landnám norrænna manna. Færri kannast við þau miklu skrif og rannsóknir sem fram hafa farið á þeim vettvangi sem Hermann Pálsson kallar papa-fræði. Í ritgerðinni „Þeir es Norðmenn kalla papa“ er tekin saman í eina heild sú umræða sem farið hefur fram um papa á Íslandi síðustu 120 árin og um leið dregin fram sú mynd sem fræðimenn hafa mótað af þeim með rannsóknum sínum.
Efni ritgerðarinnar er ekki eingöngu fornleifafræðilegt heldur líka sagnfræðilegt, örnefnafræðilegt og jafnvel þjóð- og orðsifjafræðilegt. Fjallað er um Íslendingabók Ara fróða, hellarannsóknir, uppgröft Kristjáns Eldjárns í Papey, hugmyndir um papa sem afríska gyðinga og papa-örnefni sem vísun í brjóst eða geirvörtur. Papa-fræðin er enn stunduð og mun verða áfram um ókomna tíð, bæði af fræðimönnum og almenningi.

Bagall

Húnn af biskupsstaf, bagli, skorinn úr rostungstönn. Húnninn lá í steinþró, steinkistu, Páls Jónssonar er var biskup í Skálholti frá árinu 1195 til dauðadags 1211, en þróin fannst með beinum biskups og baglinum í við rannsóknir í Skálholti árið 1954.

Í þessari ritgerð verður því safnað saman sem ritað hefur verið um papa á Íslandi. Markmiðið er að draga fram þá mynd sem fræðimenn hafa haft af pöpum á Íslandi í gegnum tíðina og hvernig sú mynd er í dag. Spurningar á borði við: „voru papa hér á landi?“; „hvernig voru samskipti papa og norrænna manna?“; og „hvar eru bjöllurnar, baglarnir og írsku bækurnar sem Ari fróði ritar um?“ eru aldrei langt undan þegar verið er að fjalla um þetta efni og erfitt er að forðast þær alveg. Markmið þessarar ritgerðar er sem fyrr segir að draga saman á einn stað rannsóknarsögu papa-fræða á Íslandi.

Rannsóknarsaga
Í þessari stuttu umfjöllun um rannsóknarsögu papa-fræða verður farið yfir þessi skrif, en þó er ekki fjallað um skáldsögur eða ljóð um papa. Enn fleiri bækur og greinar hafa verið ritaðar um papa erlendis, þá helst af breskum fræðingum um papa á Orkneyjum, Suðureyjum og Hjaltlandseyjum. Um þær rannsóknir er aðeins fjallað þar sem þær hafa áhrif á umræðuna um papa hér á landi.
Elstu nútímaskrif hérlendis um papa sem höfundur þessarar ritgerðar hefur fundið er bréf sem sent var inn til tímaritsins Ísafoldar árið 1879. Bréfið er nafnlaust en kemur af Austfjörðum og fjallar um örnefni í Papey tengd sögnum um papa. Líkur hafa verið dregnar að því að Snorri Jónsson dýralæknir hafi skrifað bréfið en hann bjó í Papey og lést þar árið 1879. Einar Ól. Sveinsson vitnar í þetta bréf í umfjöllun sinni um Papey í bókinni Landnám í Skaftafellsþingi.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (DB) (1838-1914).

Rúmum tuttugu árum seinna, eða árið 1901, stóð fornfræðingurinn og heimspekingurinn Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi fyrir rannsókn í Rangárþingi. Þar skoðaði hann meðal annars nokkra manngerða hella og velti fyrir sér hvort að þeir væru merki um dvöl papa á Íslandi. Einar Benediktsson skáld skrifaði árið 1905 greinina „Íra-býlin“ þar sem hann fjallaði um helladvöl papa og renndi þar með stoðum undir kenningar Brynjúlfs með hárómantískum lýsingum og hugmyndum sínum um kirkjur og kapellur hoggnar út í steininn. Sama ár kom út grein eftir fornfræðinginn Daniel Bruun þar sem hann lýsti heimsókn sinni til Papeyjar. Velti hann einkum fyrir sér rituðum heimildum um papa á Íslandi en virðist ekki hafa haft trú á kenningum um papa í Papey.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877- 1961).

Matthías Þórðarson fyrrverandi þjóðminjavörður skrifaði síðan árið 1930 grein um papadvöl í hellum en hann var á algerlega öndverðum meiði við bæði Brynjúlf frá Minna-Núpi og Einar Benediktsson.
Árið 1945 skrifaði Einar Ól. Sveinsson rithöfundur grein um papa þar sem hann velti fyrir sér ritheimildum um papa og papa-örnefni. Hann var undir greinilegum áhrifum frá Einari Benediktssyni og blandaði rómantískum lýsingum um líf og hegðun papa inn í umræðuna. Þrem árum seinna gaf hann út bókina Landnám í Skaftafellsþingi. Í henni fjallaði hann að mestu um landnám norrænna manna en fyrsti kaflinn er tileinkaður pöpum, ritheimildum um þá, örnefnum og híbýlum. Kristján Eldjárn, fyrrverandi þjóðminjavörður, fjallar sömuleiðis stuttlega um upphaf byggðar í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, sem kom út 1956.
Björn Þorsteinsson fjallaði um Ísland í erlendum ritheimildum frá því fyrir landnám og um það af hverju paparnir hurfu af landinu.

Hermann Pálsson

Hermann Pálsson (1921-2002).

Hermann Pálsson fjallaði hins vegar um papa-örnefni og uppruna þeirra í grein sinni. Loks skrifaði Sigurður Björnsson, fyrrverandi bóndi, greinina „Leikmannsþankar um Papýli“ árið 1971 og beitti hann þar örnefnafræði á umfjöllun fræðimanna um Papýli í sama anda og áður hafði verið gert.
Það var ekki fyrr en með BA-ritgerð Guðrúnar Sveinbjarnardóttur frá árinu 1972 að aftur eru nýttar fornleifafræðilegar heimildir um papa, líkt og Matthías Þórðarson hafði gert í grein sinni. Ritgerðin er merkileg fyrir margt en einna helst fyrir það að Guðrún var einhver fyrsti Íslendingurinn frá því að Matthías Þórðarson var með hellarannsóknir sínar til að fara á vettvang í papa rannsókn sinni.
Nánast á hinum enda skala fræðilegrar umræðu við ritgerð Guðrúnar er bók rithöfundarins Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, sem kom út árið 1979 og er þar að finna margar merkilegar og hárómantískar hugmyndir, sem flestar eru órökstuddar, um hugsanlegt landnám Rómverja og Kelta fyrir landnám norrænna manna.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916-1982).

Sex árum seinna kom út rannsóknarskýrsla Kristjáns Eldjárns um uppgröft í Papey. Er þessi rannsókn hans einn af tveimur uppgröftum sem farið hafa fram á meintum papastöðum hér á landi en hinn er Kirkjubær. Ekki entist Kristjáni aldur til að gefa skýrsluna út en það gerði Guðrún Sveinbjarnardóttir og kom hún út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1988.
Hermann Pálsson gaf síðan út bókin Keltar á Íslandi árið 1996 þar sem hann bætir við umfjöllun sína um papa sem út kom í greininni frá 1965. Bókinni er, líkt og segir aftan á bókarkápunni, „…ætlað að svala forvitni þeirra sem sætta sig ekki við þá einföldu hugmynd að íslensk fornmenning sé norræn að öllu leyti.“
Að auki má nefna nokkrar greinar og rit þar sem ekki er fjallað beint um papa en í stað þess um papa-staði og örnefni. Til dæmis skrifuðu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Papey í Ferðabók sinni og Ólafur Olavius skrifaði um hana í riti sínu Oeconomisk Reise igiennom Island, sem Kristian Kålund gerði einnig í Íslandslýsingu sinni. Af þessum þremur heimildum virðist sem Olavius hafi einn farið út í eyna.

Guðrún Sveinbjarnardóttir

Guðrún Sveinbjarnardóttir (f. 1947).

Flest það sem skrifað hefur verið um papa á Íslandi er augljóslega undir áhrifum rómantíkur og er það í raun ekki fyrr en með ritgerð Guðrúnar Sveinbjarnadóttur og útgáfu Papeyjar skýrslunnar sem áhrif hennar dvína að miklu eða öllu leyti. Allir þeir er skrifa á þennan rómantíska hátt virðast ekki vera í neinum vafa um veru papa hér á landi og litast umræðan mikið af því.

Um ritaðar heimildir
Ein þekktasta ritheimildin um papa á Íslandi og sú sem einna oftast er vitnað í er eftirfarandi kafli í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar; Í þann tíð vas Ísland viði vaxit á milli fjalls og fjöru. Þá váru hér menn kristnir, þeir es Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vesa hér við heiðna menn, ok létu eptir bækr írskar ok bjöllur ok bagla; af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir.

Landnáma

Landnáma.

Þetta er hins vegar engan veginn eina heimildin fyrir veru papa á Íslandi og er eftirfarandi kafla að finna í Landnámabók: En áðr Ísland byggðisk af Nóregi, váru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir várum menn kristnir, ok hyggja menn, at þeir hafi verit vestan um haf, því at fundusk eptir þeim bækr írskar, bjöllur ok baglar ok enn fleiri hlutir, þeir er þat mátti skilja, at þeir váru Vestmenn. Enn er ok þess getit á bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna.
Í Hauksbók Landnámu er að auki setningin „Þat fannsk í Papey austr ok í Papýli“ aftan við orðið „Vestmenn“. Eins og sést eru þessir tveir textar Íslendingabókar og Landnámu mjög áþekkir, í raun það líkir að ómögulegt er að trúa öðru en að hér sé um sama textann, endurskrifaðan, að ræða.

Thyle

Thyle – Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Henri Petri árið 1576.

Það helsta sem skilur textana að er viðbótin „Þat fannsk í Papey austr ok í Papýli,“ sem líklegast er viðbót Hauks, og setningin „Enn er ok þess getit á bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna.“ Nánar verður rætt um viðbótina í kaflanum Papar í örnefnum seinna í ritgerð þessari en rétt er að velta fyrir sér hvaða ensku bækur hér um ræðir.
Í raun kemur aldrei fram, hverjar þær ensku bækur eru sem nefndar eru í Landnámu en fyrr í sama kafla er aftur á móti vitnað til heilags Beda, bresks prests sem lést árið 735. Beda skrifaði margar bækur og minnist nokkrum sinnum á Thúle, að þaðan hafi komið fólk til Bretlands. Óvíst er hvaðan sögurnar um fólksflutninginn eru upprunnar en flestar frásagnir Beda um Thúle virðast vera tilvitnanir í gríska og rómverska texta, líklegast texta Pýþeasar sem skrifar að hann hafi manna fyrstur farið til eyjunnar Thúle, sem sumir fræðimenn hafa talið sé Ísland, í kringum árið 300 fyrir Krist.
Í texta Íslendingabókar er tvennt sem margir fræðimenn hafa velt fyrir sér öðru fremur en það er, í fyrsta lagi, að paparnir hafi einfaldlega farið þegar norrænir menn komu til Íslands og, í öðru lagi, að þeir hafi skilið eftir sig þessa gripi. Hefur verið bent á það að hópur fólks sem fer í friði og skipulega, líkt og Íslendingabók virðist gefa í skyn, myndi ekki skilja eftir gripi á þennan hátt því þessir gripir voru þeim sérstaklega kærir.

Papar

Papar – úr fornu handriti.

Tvær meginskýringar hafa verið lagðar fram fyrir þessu ósamræmi. Sú fyrri er sú að papar hafi ekki getað flutt þessa gripi sína á brott vegna ófriðar við þá norrænu menn sem fluttu til landsins. Nokkrar athyglisverðar kenningar hafa sprottið upp í kringum ófriðarkenninguna og er þar helst að nefna þá samsæriskenningu að Ari fróði hafi ekki minnst á árásir norrænna manna á papa vegna þess að það liti illa út fyrir landsmenn að hafa drepið fyrstu kristnu mennina á landinu.
Seinni kenningin um ástæðu ósamræmisins er að það hafi alls ekki verið neinir gripir til að þekkja papana af, að Ari fróði hafi þekkt til sagna um papa á Íslandi en ekki þekkt til papaörnefna til að vísa í, líkt og Haukur gerði í Landnámu útgáfu sinni. Helgi Guðmundsson bendir á að ólíklegt sé að sögur um slíka gripi hafi lifað af í munnmælum í hátt á þriðju öld, þ.e. frá veru papa til þess er Ari fróði skrifar Íslendingabók. Hugsanlega hefur Ari fróði því einungis nefnt þrjá gripi sem auðvelt væri að þekkja kristni af og þá sérstaklega írsk-skoska kristni.

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason.

Hjalti Hugason, prófessor við Guðfræði og trúarbragðadeild Háskóla Íslands, hefur bent á það að hvergi er minnst á krossa sem eina af gripum papa og má telja nokkuð merkilegt að þetta helsta trúartákn kristninnar fái ekki að vera með sem slíkt.
Um aðrar fornar norrænar heimildir um papa má nefna Historia Norvegiæ, skrifað í kringum árið 1200, og rit munksins Þjóðreks, eða Theodoricus upp á latínu, um sögu Noregs frá því á seinni hluta 12. aldar. Um papa segir í Historia Norvegiæ, í þýðingu Björns Sigfússonar: „Þær eyjar byggðu fyrst Péttar og Papar. Önnur þjóðin, Péttar, litlu meira en dvergar að vexti, vann kvölds og morgna hin mestu furðuverk í borgarhleðslu, en um hádaginn földu þeir sig alveg magnlausir í jarðhýsum vegna hræðslu […]“. En Papar báru nafn af hvítum klæðum, sem þeir gengu í eins og klerkar, af því heita allir klerkar papar á þýsku.

Papey

Papey (MWL).

Enn er Papey nefnd eftir þeim. En eins og áður mátti ráða af klæðnaði og letri bóka þeirra, sem þeir skildu eftir, hafa þeir verið frá Afríku, gyðingatrúar.
Eyjar þær sem hér um ræðir eru Orkneyjar og þar, sem og í Suðureyjum, bjó vissulega þjóðflokkur sem kallaðir voru Péttar (e. Picts) og þar má finna mikið af papa-örnefnum. Annað í þessum texta ber greinileg ævintýra merki. Péttarnir eru hér orðnir einhverskonar nátttröll og paparnir þjóðflokkur afrískra gyðinga en ekki hópur írskra, kristinna munka og einsetumanna. Útskýringuna fyrir því að papar eru kallaði afrískir er líklegast að finna í því að papar þessir voru tengdir við Hvítramannaland sem, samkvæmt heimsmynd norrænna manna, var að finna nokkru suður af Vínlandi sem var talið tangi út frá Afríku.

Papi

Papi (tilgáta).

Um gyðingdóm papana ríkir meiri óvissa en Aidan MacDonald hefur stungið upp á því að hér sé um misskilning varðandi þætti írskskoskrar kristni að ræða. Texti Historia Norvegiæ virðist þannig ekkert hafa fram að færa sem söguleg heimild, nema hugsanlega til að segja að papar hafi verið í Orkneyjum.
Í riti Þjóðreks er fjallað um papa á eftir farandi hátt, aftur í þýðingu Björns Sigfússonar: „Og þá hófst byggð fyrst á ey þeirri, sem vér nú köllum Ísland. Auk þess sem fáeinir menn frá Írlandi, sem er hið smærra land Bretlandseyja, eru taldir hafa verið þar forðum eftir sannindamerkjum þeim, að fundist hafa bækur þeirra og eigi allfá áhöld“.

Einar Ól. Sveinsson

Einar Ól. Sveinsson (1899-1984).

Hér virðist vera á ferð umorðun á texta Ara fróða og því ekki hægt að nýta hann sem heimild um papa á Íslandi. Sá eini sem það gerir er Einar Ól. Sveinsson í grein sinni „Papar“ en þar virðist hann telja hverja heimild, einnig Landnámu, sem sjálfstæðan vitnisburð um papa. Í bókinni Landnám í Skaftafellsþingi er komið annað hljóð í strokkinn og hann bendir á að orð Þjóðreks séu „nauðalík“ frásögn Ara fróða.
Í riti eftir írska eða skoska munkinn Dicuil er að finna eftirfarandi texta, í þýðingu Helga Guðmundssonar; „þá eru þar nú af völdum ruplandi Norðmanna engir einsetumunkar lengur“. Þessi texti og texti Ara fróða eru þó nokkuð líkir, þó að Ari fróði virðist hafa mildað tón frásagnarinnar og gefið sér skáldlegt leyfi varðandi ástæðu þess að hinir írsku munkar hurfu á braut.
Ritið sem Dicuil skrifar kallast De mensura orbis terrae og er landafræðirit skrifað einhverntíma í kringum árið 820.
dicuilÍ þessu riti skrifar hann um Bretlandseyjar og eyjar norður af þeim. Hluta af því sem hann skrifar hefur hann eftir eldri ritum en annað hefur hann eftir mönnum sem fóru sjálfir á þær eyjar sem skrifað er um. Lýsingu þá á eynni Thile sem er að finna í riti Dicuil virðist vera bland af þessu tvennu. Samkvæmt Dicuil dvöldust nokkrir klerkar á eynni, sem hann segir ávalt hafa verið óbyggða, frá 1. febrúar til 1. ágúst og settist sólin þar ekki um sumarsólhvörf og dagana fyrir og eftir. Einnig minnist Dicuil á að eins dags leið norður af eynni sé hafís fastur en það er hugsanlega viðbót Dicuils úr öðrum textum. Þessu hefur verið haldið fram með þeim rökum að ekki er minnst á stærð Thile, sem þó hefði líklegast verið gert ef um Ísland væri að ræða þar sem enginn önnur ey í Norður-Atlantshafi, nema Bretland sjálft, er svo stór sem Ísland. Ekki er önnur lýsing en þessi á eynni Thile og ekkert við frásögn klerkanna sem Dicuil hefur eftir sem getur ekki átt við aðrar eyjar í N-Atlantshafi, þó að það sé einfaldlega of lítið af upplýsingum í De mensura orbis terrae til að hægt sé að segja nokkuð um það. Því gætu hafa verið hér nokkrir írskir klerkar eitt sumar rétt fyrir árið 800.

Thule

Thule – fornt kort.

Athyglisvert er að þar sem setningin um ruplandi Norðmennina kemur fyrir virðist Dicuil ekki lengur vera að tala um Thile heldur um aðrar eyjar sem hægt er að sigla til undir fullum seglum á tveimur sólarhringum. Lýsingin á þeim eyjum hljóðar svo, í þýðingu Helga Guðmundssonar: „Þær eyjar eru sumar smáar og milli nærri allra eru mjó sund, en á þeim hafa einsetumunkar, sem sigldu frá landi okkar, Skotlandi (Írlandi), dvalizt í nær hundrað ár. En rétt eins og þær voru alltaf óbyggðar frá upphafi heimsins, þá eru þar nú af völdum ruplandi Norðmanna engir einsetumunkar lengur, heldur eru þær fullar af ótölulegum fjölda sauðfjár og mörgum mismunandi tegundum sjófugla. Ég hef aldrei fundið neitt um þessar eyjar á bókum.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson (1916-1986).

Orðið „Írland“ innan sviga er viðbót Helga Guðmundssonar en á þeim tíma er Dicuil ritar kallaðist Írland Skotland. Hér virðist verið að ræða um Færeyjar en ekki Ísland en samt hefur Ari fróði nýtt sér þennan texta í sinni texta smíð. Nú hefur enginn ásakað Ara fróða um að vera heimskur maður og hann hlýtur að hafa áttað sig á því að þetta ætti líklegast ekki við Ísland. Ekki er því þekkt nein ástæða önnur en að hann hafi hugsanlega þekkt til einhverra sagna um papa hér á landi, hvort sem það er aðeins úr riti Dicuils eða annarsstaðar frá.

Hvað er papi?
Í Íslenskri orðabók segir að papi sé „írskur maður (einkum munkur) á Íslandi og víðar (t.d. fyrir landnám norrænna manna)“ (Íslensk orðabók, 1997, bls. 726). Þessi skilgreining á hvað papi er, er vægast sagt, mjög víð og segir ekki mikið um þessar manneskjur. Þessi lýsing er hins vegar mjög lýsandi fyrir þær hugmyndir sem algengastar eru meðal almennings í dag.

Papar

Papi (tilgáta).

Annars virðist sem sú ímynd sé nokkuð ruglandi, eina stundina eru papar írskir munkar sem yfirgáfu landið stuttu eftir eða við landnám norrænna manna en hina eru þeir írsk þjóð sem settist hér að og blandaðist inn í hina nýju norrænu þjóð. Hvaðan kemur þessi þversagnarkennda ímynd?
Af textunum sem fjallað var um í kaflanum hér á undan má greina nokkuð um hugmyndir norrænna manna á seinni hluta miðalda af pöpum. Þeir virðast hafa litið á papana sem írska, kristna munka sem ferðuðust um N-Atlantshafið. Hins vegar virðist einnig vera litið á þá sem einhvers konar þjóðsagnaverur. Þó ber aðeins eitt rit merki þess, Historia Norvegiæ, það virðist því vera undantekning frekar en regla. Engu að síður er lítið hægt að segja um ímynd almennings af pöpum á þessum tíma en ritin eru yfirleitt skrifuð af menntamönnum og mönnum í valdastöðu.
Einn er norrænn textabútur sem ekki hefur verið minnst á áður en það er sagan um papa að Kirkjubæ, en hann er úr í Landnámabók. Fylgir þar sögunni að á Kirkjubæ hafi ávalt búið kristnir menn og að þar megi heiðnir menn ekki búa. Sýnt er fram á þetta með sögunni af því þegar að Hildir Eysteinsson, heiðinn maður, ætlaði að flytja að Kirkjubæ eftir að fyrri ábúandi, Ketill hinn fíflski sem var kristinn, lést en Hildir verður bráðkvaddur er hann kemur að túngarðinum. Þessa sögu er að finna í örlítið breyttu formi í Ólafs sögu Tryggvasonar en mesta og Flateyjarbók. Í þeim textum er ekki að finna tilvitnun um papa. Það að á Kirkjubæ hafi aldrei búið nema kristnir menn helst samt stöðugt í öllum útgáfum sögunnar.

Historie Norway

Úr Historia Norvegiæ.

Hvers vegna er papa aðeins að finna í Landnámu útgáfunni? Hjalti Hugason telur að með því að telja papa sem upphaf kristnihalds á Kirkjubæ sé verið að skapa kirkjusögu staðarins. Slíkt þekkist annars staðar frá þar sem kirkjum og klaustrum eru gefnar elstu mögulegu tengingar við kristni; við Miðjarðarhaf voru þau tengd postulunum, norðan Alpanna, þar sem engir voru postularnir, voru þau tengd dýrlingunum og hér á Íslandi, þar sem hvorki voru postular né dýrlingar, voru papar elsta kristna tenging.
Hver er þá ástæðan fyrir því að þessi tenging er ekki til staðar í öðrum útgáfum sagnarinnar? Hugsanlega er það vegna tengingar íslenskrar kristni við írsk-skoska kristni sem hin rómversk-kaþólska reyndi eftir megni að uppræta. Því hefur ekki þótt nægilega kristinlegt að fyrstu ábúendur Kirkjubæjar hafi verið papar. Sagan hefur samt sem áður lifað enda hefur þótt nauðsynlegt fyrir slíka kristilega miðstöð sem Kirkjubæjarklaustur var að hafa forsögu. Kirkjubæjarsögnin virðist flækja ímynd papanna í augum norrænna manna. Þeir voru kristnir en það var ekki rétta kristnin og því ástæða til að þagga niður meinta búsetu þeirra á Kirkjubæ. Ímyndin helst samt sem áður nokkurn veginn sú sama; írskir munkar sem ferðuðust.

Munkar

Munkar.

Hvaðan kemur þá hugmynd nútíma manna um írska þjóð á Íslandi fyrir tíma norrænna manna? Sú hugmynd kemur líklegast frá vissum þáttum írskrar-kristni.
Er ímynd Íslendinga af þessum mönnum, pöpunum, algerlega röng? Til voru reglur írskra munka sem lifðu á Bretlandseyjum og lifðu einsetumannalífi og stunduðu trúboð. Hins vegar virðist sem þeir hafi breyst svo rækilega í meðförum Íslendinga í aldanna rás að varla má þekkja þá, þeir eru orðnir að einhvers konar þjóðsagnaverum. Um tíma virðast þeir hafa orðið holdgervingar minnimáttarkenndar sem plagaði suma fræðimenn fram undir miðja 20. öld vegna róta íslenskrar þjóðar meðal blóðþyrstra villimanna, sem var ímynd er hinir norrænu menn, víkingar, þurftu að sætta sig við í einhverja áratugi.

Munkur

Ískur munkur.

Einnig virðist sem þeir hafi verið notaðir sem afsökun fyrir heiðni landnámsmanna, að landið hafi verið kristið áður en heiðnir menn komu með morðum og ránum og að sumir staðir hafi verið það heilagir að þar gátu heiðnir menn ekki verið, samaber Kirkjubæjarsögnina.
Ímynd papanna er mjög flókið fyrirbæri en á seinustu árum hafa fræðimenn byrjað að hafa skýrari mynd af þeim í huga við rannsóknir sínar. Það er nokkurn veginn sú mynd sem hinir norrænu menn miðaldanna höfðu, af írskum, kristnum munkum sem ferðuðust um allar Bretlandseyjar og til meginlands Evrópu og hugsanlega lengra, til dæmis til Íslands.

Papar í örnefnum
Örnefni með forskeytunum pap- eða papa- eru vel þekkt á Norður-Atlantshafssvæðinu frá Íslandi og til Englands en flest eru þau í Suðureyjum, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Athyglisvert er að örnefnin Papey og Papýli eru algengust en önnur örnefni, t.d. Papafell og Papá, eru einnig þekkt.

Papar

Papós í Lóni.

Um uppruna þessara örnefna hefur nokkuð verið skrifað. Í fyrstu einkenndist sú umræða á hugmynd sem Hermann Pálsson orðaði svo; „…slóð Papanna verður rakin eftir örnefnum frá Mön til Íslands“. Hugmyndin um að einhver hópur fólks skilji eftir sig „slóð“ örnefna líkt og brauðmylsnu Hans og Grétu sem rekja má aftur til upprunastaðar þykir ólíkleg í dag. Slíkt myndi benda til að hópurinn hafi sjálfur gefið slík nöfn og að hluti hópsins hafi sest að hjá þeim örnefnum til að halda þeim á lífi á meðan annar hluti hópsins haldi áfram. Eitt sem nefnt hefur verið gegn þessu er að hópar gefa sjaldnast örnefni eftir hópnum sem heild heldur frekar eftir einstaklingum.
Þannig heitir Ingólfshöfði Ingólfshöfði en ekki Landnámsmannahöfði eða Víkingahöfði eða Íslendingahöfði. Einnig hefur verið bent á að papa-örnefni fylgja norrænum hljóðreglum en ekki írskum líkt og sum önnur örnefni sem finna má á Bretlandseyjum. Þessi hugmynd á fastar rætur í hugmyndinni um papa sem írska þjóð en ekki sem írska munka.

Papafjörður

Papafjörður.

Önnur hugmynd um uppruna örnefnanna er að þau séu tilkomin eftir að eyjarnar þar sem þau finnast voru numdar af norrænum mönnum. Sú hugmynd byggist á því að papa-örnefnin eigi rætur sínar að rekja til vegna afturvirkrar hefðar (e. retrospective tradition) sem verður til eftir að umrót á tímabili landnáms norrænna manna á Bretlandseyjum er lokið og komin fastari mynd á byggð á eyjunum.
Þegar þessu umróti lýkur hafa hinir nýju íbúar eyjanna munað eftir hinum horfnu pöpum og nefnt staði, þar sem þeir voru, eftir þeim. Þessari hugmynd hefur verið hafnað, að minnsta kosti hvað varðar Bretlandseyjar, á grundvelli þriðju hugmyndarinnar.
Þriðja hugmyndin er sú að örnefnin séu komin frá því nafni sem norrænir menn gáfu hinum írsku munkum sem þeir hittu á eyjunum sem þeir námu. Þeir sem aðhyllast þessa hugmynd hafa bent á að vegna þeirra hljóðbreytinga sem virðast hafa orðið á örnefnunum, sérstaklega Papýli. Talið er að Papýli hafi verið Papabýli í fyrstu og að hljóðbreytingarnar frá –pab- til –pp- og loks til –p- hafi aðeins gerst á löngu tímabili sem afturvirk hefð gefur ekki kost á. Það sama á við um Papey, sem hugsanlega var fyrst Papaey.

Papar

Papafjall; Papýlisfjall í Suðursveit.

Þessi hugmynd byggist þannig á því að flest papa-örnefni er að finna í nánd við gamla kirkjustaði og að á einhverju tímabili hafi heiðnir norrænir menn og papar lifað saman í friði og þannig papa-örnefnin þannig tilkomin. Þessi hugmynd getur átt vel við um Bretlandseyjar en þegar landnám hefst hér eru þessar hljóðbreytingar að mestu fullkomnar og því er mögulegt að afturvirk hefð eigi við hér á landi, að papa-örnefnin hafi verið gefin þeim stöðum er minna á svipaða staði kennda við papa erlendis. Benda má á að í Landnámu er skrifað um Pappýli en ekki Papýli.
Sumir hafa nýtt sér papa-örnefni til að útskýra hegðun papa, til dæmis þar sem Einar Ól. Sveinsson segir „…beztur fiska þótti þeim lax, og má geta þess um leið, að hylurinn Papi í Laxá bendir á, að þeir hafi notfært sér hann hér“.

Papafjörður

Papafjörður – naust.

Aðrir hafa tekið undir þessar kenningar, til dæmis Hermann Pálsson. Ekki er kunnugt um neinar sagnir um papa þar á slóðum og ekkert vitað um nafnið annað en að á það er fyrst minnst í rituðum heimildum á 14. öld í máldögum Hjarðarholtskirkju en þar er skrifað „päp“. Einar Ól. Sveinsson telur að þessi ritháttur séu mistök, en alveg eins líklegt er að hér sé upprunaleg mynd nafnsins og að það eigi við einhvers konar náttúrufyrirbrigði, hugsanlega brjóst eða geirvörtur þó að höfundi þessarar ritgerðar sé ekki kunnugt um neitt þess háttar, frekar en um sagnir af pöpum.
Við Papós stóð kaupstaður á seinni hluta 19. aldar með sama nafni en ekki er búið þar sem hann stóð í dag. Suður af kaupstaðnum Papós er að finna tóftir sem nefndar eru Papatættur eða Papýli. Þessar Papatættur hafa ekki verið rannsakaðar af fornleifafræðingum en þar fann maður að nafni Björn Eymundsson „fornfálegan hamarshaus“. Ekki er vitað hver örlög þessa hamarshauss urðu eða nánar um útlit hans.

Papey

Papey – býli.

Papey er eyja við Suðausturland og er líklegast þekktust af öllum papa-örnefnum sem bústaður papa. Papey er líklegur dvalarstaður fyrir papa hér á landi fyrir landnám vegna þeirrar gnægðar sem eyjan býr yfir. Þar er stutt á fiskimið og fuglalíf er fjölskrúðugt svo gott hefur verið að sækja bæði egg og fugl til matar. Í bréfi sem birt var í Ísafold árið 1879 segir frá örnefninu „Írski hóll“ þar sem, samkvæmt bréfinu, papar settu upp skip sitt og höfðu aðsetur. Einnig í bréfinu er lýsing á tóft sem virðist vera nafnlaus. Lýsingin á tóftunum virðist eiga nokkuð vel við tóftir sem kallaðar eru Papatættur í seinni tíma örnefnalýsingum og virðist þetta örnefni því tilkomið eftir 1879.

Papey

Papey – kort.

Í greininni eftir Daniel Bruun um Papey kallar hann Papatættur Paparústir og nefnir Papavík. Þessi örnefni finnast hvergi annars staðar á prenti og Kristján Eldjárn telur líklegt að Daniel Bruun hafi fengið þessi nöfn frá Gísla Þorvarðarsyni sem bjó á Papey á milli 1900-1948. Börn Gísla, sem tóku við Papey eftir hann, þekkja ekki til örnefnanna Paparústir og Papavík og því hugsanlegt að Gísli hafi búið þau til. Einnig virðist sem örnefnið Írski hóll breytist og verði að Írskuhólum og færist þvert yfir eyna og örnefnið Papatættur notað í staðinn. Ástæðan fyrir þessu örnefnarugli er líklega að árið 1900 tekur nýtt fólk sem ekki er staðkunnugt við búi í Papey eftir að eyjan hefur verið í margar kynslóði í eigu sömu fjölskyldu.
Vert er í þessu sambandi að minnast orða Kristjáns Eldjárns er hann skoðar staðhætti á Papey árið 1964 en þar sem hann lýsir Papey á þann hátt: „…eyja með klettaborgum, fagurlega og reglulega kúptum“.

Brendan

Heilagur Brendan – stytta í Bantry, Írlandi.

Örnefnið Papýli er líklegast það sem hefur valdið fræðimönnum hvað mestu hugarangri. Örnefnið er ekki þekkt á Íslandi fyrir utan tvær tilvísanir í Hauksbók Landnámu. Sú fyrri er að hinir auðþekkjanlegu gripir fundust í „Papey austr ok í Papýli“, Sú seinni segir frá manni er hét Úlfr sem bjó á Breiðabólstað í Pappýli og syni hans, Þorgeirr, sem bjó að Hofi í Pappýli. Af þessum textum hefur flestum fræðimönnum fundist það ljóst að Papýli er landsvæði en ekki tiltekinn bær. Einnig telja flestir að hér sé um sama örnefni að ræða, einn stað en ekki tvo.
Hvar Papýli þetta hefur verið er ekki vitað en af Landnámabók má skilja að það sé einhvers staðar á Suðurlandi. Tveir Breiðabólstaðir eru á Suðurlandi, annar á Síðu, nálægt Kirkjubæ, og hinn er í Fellshverfi í Suðursveit. Lengi hefur verið bent á Breiðabólstað á Síðu sem líklegastan stað fyrir Papýli vegna tengingar papa við Kirkjubæjarklaustur. Einar Ól. Sveinsson benti hins vegar á að í landi Breiðabólstaðar í Fellshverfi er fjallið Staðarfjall sem hefur verið nefnt Papýlisfjall.

Klukkugil

Klukkugil.

Í fjallgarði nálægt við Staðarfjall er að finna örnefnið Klukkugil og fylgir sú sögn að þar hafi papar hent niður klukkum, eða bjöllum, sínum þegar þeir flýðu norræna menn. Á grundvelli þessa vill Einar Ól. Sveinsson meina að Breiðabólstaður í Fellshverfi sé líklegri staðsetning fyrir Papýli en Breiðabólstaður á Síðu.
Sigurður Björnsson telur hins vegar að örnefnið Papýlisfjall sé ekki gamalt, né sagan um papana í Klukkugili, og að líklegast sé örnefnið komið frá séra Vigfúsi Benediktssyni sem var prestur þar á slóðum á 18. öld en hann skrifaði fyrstur um Papýlisfjall.

Hofskirkja

Hofskirkja í Öræfum.

Af Landnámu textanum, þar sem minnst er á Papýli, má ráða að í Papýli eru, að minnsta kosti, tveir bæir; Breiðabólstaður og Hof. Hins vegar er eini bærinn sem kallast Hof á Suðurlandi að finna í Öræfum. Því er annaðhvort að Papýli hefur náð yfir landssvæði frá Síðu til Öræfa eða frá Fellshverfi til Öræfa eða þá að Hof örnefnið hafi verið nálægt öðrum hvorum Breiðabólstaðnum en sé horfið. Þriðja skýringin, sem ekki hefur fengið hljómgrunn meðal fræðimanna, er að Hof í Öræfum hafi upphaflega kallast Breiðabólstaður en verið endurnefnt Hof vegna þess að þar var heiðið hof og til aðgreiningar frá Breiðabólstað á Síðu og í Fellshverfi. Það eina sem flestir fræðimenn sem hafa skrifað um Papýli eru sammála um er að ekki er hægt að slá neinu föstu um hvar á landinu Papýli hefur verið.

Papar í fornleifum

Papar

Papar við helli.

Í skýrslu þeirri sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði vegna rannsóknar sinnar í Rangárþingi árið 1901 fjallar hann um hella sem hann var viss um að væri manngerðir og segir hann um þá: „[…] hellarnir eru svo myndarlega, og mér liggur við að segja snildarlega gjörðir, að það lýsir talsverðri kunnáttu. Þeir sem bjuggu þá út, virðast hafa verið allvel æfðir í því verki. Mér liggur við að efast um, að hellarnir séu frá Íslands bygðar tíma. Mundi ekki hugsanlegt, að þeir gæti verið eldri? Mér hefur dottir í hug, að þeir kunni, ef til vill, að vera eftir papa, eða hina írsku menn, sem hér voru fyrri en vorir norrænir feður. Þeir hafa án efa farið hingað til þess, að forðast árásir heiðinna víkinga.

Papahellir

Papahellir? á Suðurlandi.

Þeir hafa vonað, að Norðmenn legði ekki leiðir sínar til þessa afskekta, óbygða lands. Tryggingu fyrir því hafa þeir þó ekki haft, líklega hafa þeir af og til búist við því, sem fram kom, að Norðmenn kæmi hingað, þó ekki væri nema eitt og eitt skip í einu af tilviljun. En af þeim væntu þeir sér þá alls ills, og mundu helzt hafa óskað, að þeir kæmi ekki auga á híbýli Íra hér.
Og ef þeir kæmi auga á þau, og vildi eyðileggja þau, — sem þeir auðvitað mundu vilja, — þá væri hvorki mjög auðgert að rjúfa þau né brenna.
Íslendingar hafa löngum verið gjarnir á að skilja merki eftir sig þar sem þeir fara. Oft er það í formi fangamarka en einnig annarra merkja, t.d. ýmissa gerða krossa.

Hellir-kross

Krossmark í Seljalandshelli.

Flestir þeirra krossa sem finnast í hellum á Íslandi eru hinir svokölluðu latnesku krossar, en aðrar gerðir þekkjast einnig. Aldrei hefur fundist keltneskur eða írskur kross, í helli á Íslandi. Þetta eru þó ekki rök fyrir því að aldrei hafi verið papar í þessum hellum þar sem flestir þeir krossar sem finnast í fornum írskum munkaklaustrum eru „…sömu [gerðar] og annars staðar í kristni á þessum tíma“.

Lokaorð
Umræðan um papa á Íslandi er mjög flókin og erfitt að eiga við hana líkt og sá sem lesið hefur ritgerð þessa ætti að vera búin að átta sig á. Aðeins var snert lauslega á umræðunni um gripi papanna en hún er ekki síður flókin en margt annað í þessum fræðum. Ekki var heldur fjallað um írsku dýrlingasögurnar, sem eru ferðasögur hinna ýmsu írsku dýrlinga. Þar fer helst fyrir munknum Brendan sem hugsanlegri vísbendingu um ferðir hingað til lands en allar sögurnar eru það ævintýralegar að í lagi þótti að fjalla lítið um þær hér. Þá var umfjöllun um papa í skáldskap sleppt en skrifuð hafa verið nokkur ljóð, skáldsögur og jafnvel leikrit þar sem írskir munkar koma við sögu.

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Margar tilgátur hafa verið lagðar fram, og einnig hraktar, um papa á Íslandi. Spurningin um það hver tilgátanna er rétt eða hvort að yfirhöfuð sé hægt að tala um „rétta tilgátu“ í þessu sambandi er eitthvað sem fræðimenn munu eflaust þræta um í mörg ár til viðbótar.
Um papa er það eitt víst að þeir lifa góðu lífi í hugarheimi Íslendinga sem kristnir munkar, sem írsk þjóð á Íslandi, sem afrískir Gyðingar eða sem gullgrafandi hellisbúar.
Þessir mismunandi hamar papanna hafa breyst í tímans rás og í höndum hinna ýmsu fræðimanna, líkt og fram hefur komið. Ekki virðist sem áhuginn sé nokkuð að dvína á þessum dularfullu mönnum sem paparnir eru og líklegast mun það ekki gerast í náinni framtíð. Sérstaklega ef minjar um mannaverk fyrir hið sögufræga ártal 874 eftir Krists burð finnast við vettvangsrannsóknir hérlendis.“

Heimild:
-Hugvísindasvið Háskóla Íslands, „Þeir es Norðmenn kalla papa“, Ritgerð í papa-fræðum til BA-prófs í fornleifafræði, Jakob Orri Jónsson, 2010.

Papar

Papahús – Clocham.

Papafjörður

Gizur Helgason skrifar um frumbýlinga Íslands í Lesbók Morgunblaðsins 1971 undir fyrirsögninni „Hver var fyrstur?„:

Íslandskort

Íslandskort 1686.

„Það eru margar skiptar skoðanir á hlutverki mannkynssögunnar sem vísindagreinar, en þó hafa menn orðið sammála um, að það sé augsýnilega hlutverk hennar að afhjúpa fortíð mannkynsins og að endursegja líf mannverunnar með öllum fjölbreytileika hennar og fylgja þróun hennar frá elztu tímum fram til nútímans.
Í þessari frásögn ætla ég að reyna að gera grein fyrir frumbyggjum Íslands, þ.e.s. þeim er hingað til lands hafa komið á undan landnámsmönnunum. Ég þarf varla að gera lesendum það ljóst, að það sem hér fer á eftir er mjög svo óvísindalegt, enda geta þeir sjálfir séð það. Heimildir um þetta efni eru af mjög skornum skammti, en þó tel ég að mér hafi tekizt að komast yfir það helzta er veitt getur upplýsingar um efnið, en að auki leyfi ég mér að bæta við ýmsum athugasemdum frá eigin brjósti.

Sérhver maður er reynir að kasta ljósi yfir sögu lands síns, verður að leita til fortíðarinnar. Allt er tilheyrir fortíðinni er svo hægt að nota sem heimildir. Heimildirnar geta verið margvíslegar; beinagrindur, skartgripir, fatnaður, verkfæri, rúnaristur og s.frv. en samt verður maður að líta hverja heimild með varkárni og gagnrýni. Einstaka heimildir geta meira að segja verið falsaðar.

Íslandskort

Íslandskort 1683.

Sá sem ætlar sér að skrifa Íslandssögu verður að hafa mikla þekkingu á sögu Noregs fyrir landnám Íslands, siglingum víkinganna i Vestursjó og sögu Írlands og Skotlands. Auðvitað fléttast fleiri lönd inn í spilið, en áðurnefnd eru þó talin mikilvægust.
Hvenær menn af norrænu bergi brotnir komu fyrst til Íslands er erfitt að segja til um og engar frásagnir eru til um veru þeirra á Íslandi fyrr en eftir árið 850. Og hvenær menn komu að Íslandi fyrst mun sennilega verða hulið myrkri um aldir og eilífð, en þó mun hægt að fullyrða, að það mun hafa verið áður en Garðar og Naddoður komu hingað. Heimildir þar að lútandi höfum við m.a. frá Ara fróða og mörgum öðrum norrænum og írskum ritum og mun ég fjalla síðar um þær. Í dag er það alltítt að gefa írskum munkum heiðurinn af því að vera fyrstu íbúar Íslands, en það eru enn nokkrir vísindamenn sem telja landið hafa verið þekkt jafnvel 1000 árum fyrr.

Túle

Thyle

Thyle – Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Henri Petri árið 1576.

Um 330—320 f. Kr. ferðaðist grískur maður, Pytheas að nafni, frá Marseille til Bretlands og síðan segir sagan að hann hafi ferðazt í norðurátt í 6 sólarhringa og komið að landi sem hann svo kallaði Túle. Ekki hafa allir verið sammála um hvaða land þetta var.
Sumir telja það vera Ísland en fleiri telja þó að þetta land hafi verið eitt af Norðurlöndunum og þá helzt Noregur. G.E. Broche hefur skrifað allítarlega um þetta efni (Pythéas le Massaliote, Paris 1936) svo og Vilhjálmur Stefánsson (Ultima Thule). Báðir eru þeir sammála um að hér muni átt við Ísland. Vilhjálmur telur og að Pytheas muni ekki hafa verið sá fyrsti að koma til Íslands og sennilegt sé, að hann hafi heyrt talað um landið hjá Bretum sjálfum. Við skulum nú líta betur á staðreyndirnar og um leið fræðast betur um Pytheas.

Pytheas er nafnið á þeim manni er mestum ljóma slær á, þegar rætt er um hetjulegar svaðilfarir frá hinum fornu menningarríkjum við Miðjarðarhafið. Löngu áður en einhver raunveruleg „saga“ byrjar af Norðurlöndunum höfðu íbúar Miðjarðarhafslandanna vitneskju um lönd er lágu langt i norðri og einstaka menn ferðuðust til þessara landa til að auka við þekkingu sína.
PytheasHver var hann þessi Pytheas? Við vitum því miður afar lítið um hann. Það hefur meira að segja leikið vafi á því hvort hann ferðaðist meira á sjó en landi. Fór hann fleiri en eina ferð? Engin vitneskja! Var hann ríkur eða fátækur og hvaða möguleika hafði hann á því að koma þessum ferðum (ferð) í kring? Ef til vill hefur hann verið útsendari ríkra kaupmanna í Marseille til að finna nýja markaði, eða þá foringi landkönnuðaleiðangra sem vitað er að t.d. Rómverjar og Grikkir sendu af stað með vissum millibilum er veldi þeirra stóð sem hæst. Allt eru þetta þó ágizkanir. Eitt er þó víst, að þessi framúrskarandi stjörnufræðingur og landfræðingur flutti heiminum vitneskju frá hinum norðlægu löndum sökum ferða sinna.

Rómverkst skip

Rómverkst skip.

Bók hans um þessar ferðir (ferð) „um hafið“ er því miður týnd og því höfum við ekki aðrar heimildir um ferðir hans en það er aðrir hafa vitnað í þessa bók ca. 300 árum seinna, og sennilegt er og, að þeir hafi einnig vitnað í bækur sem hafa þá e.t.v. haft sinn fróðleik frá frumbókinni. Vitaskuld verður maður að vera ákaflega varkár með heimildir er svo langt eru sóttar. Stór hluti af ferðum (ferð) hans hlýtur þó að hafa átt sér stað á sjónum, en hvernig litu skipin út, er hann notaði. Ef til vill hafa þetta verið eins konar langskip (stríðsskip) sem gátu siglt hraðara en breiðu verzlunarskipin og á þessu tímabili gat maður alltaf átt von á fjandskap frá Karþagómönnum o.fl. Vel er hugsanlegt að þau hafi verið yfir 100 fet á lengd og því mun stærri en skip þau er víkingarnir notuðu til sinna Atlantshafsferða. Sem sagt, skip þessi gátu auðveldlega farið þessar löngu ferðir.

Íslandskort

Fornt Íslandskort.

Pytheas fór svo frá Gallíu til Bretlands. Hann mun hafa ferðazt um mest allt landið og umhverfis það allt og vissi því að það var eyja. Hann vissi einnig um eyjarnar norður af Skotlandi en þessi hugprúði könnuður virðist ekki hafa látið sitja þar við. Hann sigldi lengra i norður og náði „nyrzta landinu Túle“ eftir að hafa siglt í sex sólarhringa, og þar var tekið á móti honum af íbúum landsins.
Þetta skulum við athuga nánar. Hægt er að nefna fleiri en G.E. Broehe og Vilhjálm Stefánsson sem telja land þetta Ísland. Fyrstan skal nefna írska munkinn Dicuil, sem í ritum sínum (árið 825) álitur það sjálfsagðan hlut, að land það sem írsku munkarnir fundu vestur af Írlandi væri umrætt Túle, þar næst Adam af Brimum og margir fleiri.

Munkur

Ískur munkur.

Geminos frá Rhodos (1. öld e. Kr.) vitnar til Pyþeasar í stjörnufræði sinni og þar segir m.a. að landið er Pyþeas talar um var byggt (af skrælingjum) og að Pyþeas hljóti sjálfur að hafa verið þar sem leiðangursstjóri því hann segir: „Skrælingjarnir sýndu okkur“ o.s.frv.
Ef landið hefur verið byggt, eins og þessi tilvitnun sýnir, kemur Ísland varla til greina. Ísland var ekki byggt á umræddum tíma. Það er og harla ólíklegt að Pyþeas hafi haldið fram ferð sinni út í algjöra óvissu, út á heimshafið, án þess að hafa heyrt um einhver vestlæg lönd. Einnig er það ólíklegt að skip hans hafi getað rekið fyrir straumum og vindum upp að Íslandi, eins og sumir vilja vera láta, því ríkjandi vindar og straumar á landsvæðinu við Skotland og eyjarnar hafa ekki stefnu á Ísland heldur Noreg og sennilegt er að þar hafi Pyþeas hafnað.
Allar þær upplýsingar er varðveitzt hafa um Túle geta átt við Noreg og ekkert annað land, en hér skal þó ekkert fullyrt.

Abraham Ortelius

Ítalskt kort Abrahams Ortelíusar frá sextándu öld sýnir stærðar eyju skammt fyrir sunnan Ísland, sem merkt var Frísland. Það var upphafið að löngum misskilningi kortagerðarmanna víða um Evrópu. Nær öll landakort frá 1560-1660 sýna eyjuna, sem var auðvitað ekki til.
Eyjan ber ólíkar myndir heitisins Frísland eftir tungumálum, stað og tíma og má þar nefna Frischlant, Friesland, Freezeland, Frislandia og Fixland. Talið er að menn hafi gjarnan ruglað Íslandi saman við Frísland og þaðan sé enska myndin Freezeland komin.

Hinar mörgu tilvitnanir í Pyþeas sanna okkur að hann hefur verið til og framkvæmt ótrúlega djarfhuga ferðir til norðursins og þótt hann hafi aldrei orðið svo frægur að komast til Íslands þá verðum við að telja hann einn af mestu landkönnuðum veraldar. Fyrir utan það, að hann mun hafa verið sá fyrsti, að vitað er með vissu, að sigldi meðfram ströndum Frakklands, Hollands og Belgíu, mun það vera hann er fann Stóra-Bretland, en suðurströnd Bretlands hafði á þeim tíma verið sá landshluti er þekktur var, enn fremur skozku eyjarnar og Shetland og að lokum Túle eða Noreg. Sennilega er enginn þekktur landkönnuður til í allri mannkynssögunni er gert hefur jafn víðáttumiklar og mikilvægar uppgötvanir og Pyþeas frá Massali.

Rómverjar á Íslandi?
Á Íslandi hafa fundizt nokkrir rómverskir koparpeningar. Sá hinn fyrsti fannst árið 1905 á Austfjörðum (Bragðavöllum). Þessi mynt var frá tímum Próbusar keisara (276—282).

Rómverskir peningar

Rómversk mynt sem fannst á Bragðavöllum og í Hvaldal.

Árið 1933 fannst svo á sama stað önnur mynt. Hún var frá tímum Áreliusar keisara (270—275). Ekki langt frá Bragðavöllum fannst svo hin þriðja mynt er var frá dögum Diokletíanusar keisara (284—305) og var hún fundin af enskum kennara Leonard Hawkes að nafni.
Þessar þrjár myntir eru allar svonefndar antoninianar. Þær bera nafn Aurelius Antonius Carcallas keisara (211—217). Nánari upplýsingar um myntir þessar er að finna í bók Kristjáns Eldjárns „Gengið á reka“. Þar er einnig að finna allítarlega frásögn sem ætluð er til sönnunar því að Rómverjar hafi sjálfir komið hingað til lands og flutt með sér þessa peninga og sú staðreynd að peningarnir fundust allir á svipuðum slóðum gefur vitaskuld tilefni til slíkra þanka.
Gengið á rekaEftir útgáfu bókarinnar Gengið á reka (1948 Norðri) fannst svo fjórði peningurinn. Það mun hafa verið árið 1965 á Hvítárvöllum í Hruna, að ég bezt veit, en hér skal það nefnt að því miður hefi ég ekki neinar nákvæmar upplýsingar um fundinn. Að þessi peningur fannst í öðrum landshluta verður til þess að veigamestu rök Kristjáns Eldjárns verða fremur léttvæg. Á Bragðavöllum, þar sem tveir þessara peninga fundust, fannst einnig fjölmargt annað sem er sérkennandi fyrir leifar frá landnámsöld. Orðrétt segir í bókinni Gengið á reka: „Það er því enginn efi á, að þarna hafa norrænir menn byggt á landnámsöld, þó að sú byggð hafi ekki orðið langæ. Á þessum stað eru því rómversku myntirnar niður komnar af völdum landnámsmannanna. En þar með er alls ekki sagt að þeir hafi flutt þær til Íslands, enda eru allar líkur til, að það hafi þeir ekki gert. Á þeim tíma voru forngripir enn fánýtara glingur en þeir eru nú, og í sjálfu sér ótrúlegt að landnámsmenn hafi flutt slíkt með sér landa á milli. Og minnumst þess, að Bragðavallapeningarnir eru ekki einu rómversku peningarnir hér á landi. Líklegast er því, að landnámsmenn hafi fundið þessa peninga af tilviljun nálægt bústað sínum, alveg eins og Mr. Hawkes fann Diocletianusar peninginn þúsund árum síðar. Ég held, að rómversku peningarnir hafi verið hér fyrir, þegar landnámsmennirnir komu.“

Thule

Thule fyrrum.

Ef að landnámsmennirnir hafa álitið þessa peninga sem fánýtt glingur og því ekki viljað hafa fyrir því að bera þá með sér milli landa, er þá ekki einkennilegt að þeir taki allt í einu upp á því að fara að safna þessu fánýta glingri er þeir koma hingað upp til Íslands.
Hitt ber og að athuga, að koparpeningar sem þessir voru alls ekki algengir á Norðurlöndum og telja má fornleifafundi þar sem slíkir peningar hafa fundizt á Norðurlöndum á fingrum annarar handar. Er því ekkert sennilegra en landnámsmenn hafi notað þetta sem lukkupeninga eða verndargripi, skartgripi eða eitthvað líkt.
Vonandi eiga fleiri peningar af þessu tagi eftir að finnast á Íslandi, en þó segir mér hugur að gátan um Rómverjana á Íslandi verði seint leyst. Árið 1967 átti ég viðræður við prófessor Roar Skovmann um þetta efni og var hann ákaflega efins í að Rómverjar hafi náð að komast til Íslands og hefur hann þó athugað ýmislegt um ferðir þeirra á norðurslóðum og benti hann á að Rómverjar hafi verið litlir sægarpar og hafi þeir villzt á leið sinni í Norðurhöfum og rekið til Íslands þá hafi þeir í það minnsta verið illa undir slíka langferð búnir varðandi vistir og vatn og harla ólíklegt að þeir hafi lifað af slíka langferð.

Thule

Thule.

Rómverjar á Íslandi, eða Túle sama og Ísland, eða e.t.v. skoðun T. C. Lethbridge að þjóð sú, sem flutti hugmyndirnar um stórsteinagrafirnar á steinöld, sjóðleiðina frá Spáni til Frakklands, Englands og Írlands, hafi náð að koma til Íslands, allt þetta verður að liggja óupplýst þar til við finnum heimildir sem byggjandi er á.
Umræður og teoríur um efnið gera þó engan skaða, þvert á móti gætu þær orðið til að vekja áhuga annara. Það eru þvi miður allt of margar gloppur í Íslandssögunni okkar. Margar heimildir geymir jörðin og enn fleiri hefur tímans tönn náð að þurrka út. Skilningur á einstaka atburðum og þróunarferli þjóða getur því fljótlega breytzt með nýjum fundum og rannsóknarárangri.

Thule

Thule á fornu korti.

Dætur Ránar hljóta að hafa gætt Íslands óvenju vel. Til að hætta sér svo langt út á hafið varð maður að hafa bæði hugrekki og trú. Það höfðu hinir írsku einsetumenn, paparnir, í ríkum mæli og við getum með allmiklu öryggi fullyrt að þeir hafi verið hinir fyrstu til að setjast að á Íslandi. Við höfum að vísu engar efnislegar heimildir, en nokkurn veginn trúverðugar frásagnir um þessar manneskjur. Þær voru skrifaðar tvö til þrjú hundruð árum seinna, en hafa samt sem áður mikla þýðingu sem heimildir. Ekki má heldur gleyma öllum þeim staðarnöfnum á Íslandi þar sem orðið papi kemur fyrir og ber því vitni um búsetu þeirra hér.

Papar
Á Írlandi bjó þjóðflokkur er talaði keltneskt tungumál, írsku. Í nyrzta hluta Skotlands bjuggu Piktar eða Péttar eins og þeir voru kallaðir á Norðurlöndum. Þeir voru herskáir, góðir sjómenn og víkingar. Þeir hafa sennilega haldið sig mest í nyrztu héruðum Skotlands, Orkneyjum og Hebrideseyjum á 5. og 6. öld.

Papar

Papar – Oghamletursteinn.

Við vitum ekki með vissu hvaða tungumál þeir hafa talað á þessu tímabili, en talið er að suðrænna áhrifa hafi mjög gætt í málinu og þegar sagnaritun hefst í Skotlandi er mál þeirra kallað keltneskt. Sennilega hefur írskra áhrifa gætt einna mest. Árið 500 hefur verið sett á stofn írskt konungsríki í suðvestur-Skotlandi (Dal Riada). Veldi þess jókst smátt og smátt og að lokum var svo komið að írska var orðin aðalmálið (gaelisk). Áður fyrr hafði Írland verið
kallað Skotia, en það nafn fluttist nú yfir á hið gamla Péttland og sennilegt er að nafnið Skotland sé runnið undan norrænum víkingum á sama hátt og nafn Írlands. Um sjóferðir Pétta á norðurslóðum vitum við það eitt, að þeir settust að á Orkneyjum og Hebrideseyjum.
Engar fornleifar hafa fundizt er gætu bent til þess að þeir hafi farið lengra í norður. Vissulega væri freistandi að álíta að þeir hafi haft vitneskju um Færeyjar, en hvað um það, þá voru Færeyjar aðsetursstaður annars fólks í byrjun áttundu aldar, fólks, sem manni gat ekki látið sér detta í hug að gæti framkvæmt þær löngu og erfiðu sjóferðir er slík búseta hafði í för með sér, papanna.
Kristin trú kom mjög snemma til Bretlands, eins og flestra landa innan rómverska heimsveldisins.

St. Patrik

Heilagur Patrik.

Árið 432 kom St. Patrick i trúboðsferð til Írlands. Árangur þeirrar ferðar var mjög góður. Margir höfðingjar urðu kristnir og hinn nýi siður varð mjög vinsæll. Brátt risu upp klaustur sem síðar urðu miðpunktar alls trúarlífs. Írskir munkar fengu fljótt orð fyrir að vera mestu vísdómsmenn og alls staðar risu upp skólar og bókmenntir stóðu með miklum blóma. Írsku prestarnir voru ákaflega áhugasamir um að kristna heiðingja og ferðuðust víða til að boða heiðingjum trú. Þeir ráku mikið trúboð í Englandi og írski munkurinn Columcille var mestur allra trúboða í Skotlandi. Íbúar eyjanna úti fyrir Skotlandsströndum fengu mjög snemma að kynnast hinum nýja sið og ætla má að þeir hafi flestir verið kristnir er víkingaferðirnar hófust í lok áttundu aldar. Margir munkanna voru ekki sem ánægðastir með að hírast í klaustrunum, margir voru hinir mestu vinnuþjarkar og kunnu þvi illa aðgerðarleysinu í klaustrunum. Svo virðist sem klausturlifnaður hafi orðið mjög algengur í Írlandi alveg frá byrjun. Margir voru meinlætamenn, leituðu einveru. Stundum slópu þessir meinlætamenn sig þó saman í smá hópa 6 eða 13 í hóp. Útþrá og ferðalöngun virðist hafa verið þessum írsku prestum í blóð borin. Pílagrímsferðir og trúboðsleiðangrar voru helztu áhugamál. Þeir urðu aldrei þreyttir á að leita uppi óbyggða staði, helzt langt frá byggðum bólum, uppi í fjöllum eða á fjarlægum eyjum, jafnvel þótt ábótar þeirra reyndu að stoppa þá.

Papar

Papar við helli.

Sennilegasta frásögnin af írsku einsetumönnunum á Íslandi er skrifuð af írska munkinum Dicuil árið 825. Hann virðist hafa haft vitneskju um verk Pyþeasar eða þeirra rithöfunda er vitnað höfðu í Pyþeas. Dicuil er af flestum talinn traustur vísindamaður, lærður maður og þeir sem rannsakað hafa verk hans eru sammála um að Túle það er hann nefnir, er Ísland. Tilgangur skrifta hans um Túle mun þó aðeins vera sá að leiðrétta það er aðrir höfðu skrifað. Hann segir svo í bók sinni „De mensura orbis terrae“: „Nú eru um 30 ár síðan að nokkrir prestar, sem bjuggu á þessari eyju frá 1. febrúar til 1. ágúst, sögðu mér að er sumarsólhvörf væru, og dagana fyrir og eftir, þá væri sem sólin færi í feluleik á kvöldin er hún sezt, þannig þó að myrkur verður ekki þann stutta tíma.
PaparMaður getur gert hvað sem hann vill, jafnvel tínt lýs af skyrtu sinni sem albjart væri. Væri maður staddur á fjallatindum hyrfi sóiin alls ekki. Um þetta leyti er mið nótt um miðja jörðina og því held ég að um vetrarsólhvörf sjáist sólin aðeins mjög skamman tíma, er miður dagur er á jarðarmiðju. Það er ekki ónáttúrulegt að þama var mjög kalt er prestar þessir sigldu til eyjunnar á þessum tíma. Ef frá eru skilin sólhvörfin, þá skiptist á dagur og nótt. Það er því misskilningur og ósannsögli er aðrir segja að hafið kringum eyjuna sé frosið og að óslitinn dagur sé frá jafndægri á vori til jafndægurs á hausti og óslitin nótt frá jafndægri á hausti til jafndægurs á vori. Er þeir sigldu enn lengra í norður fundu þeir ís. Þá höfðu þeir siglt í einn sólarhring.“

Dicuil minnist ePaparkkert á það, að munkarnir hafi lent hér á landi af misskilningi, að þeir hafi villst hingað og þegar komutími munkanna er athugaður nánar virðist allt benda til þess að leið þessi hafi verið gamalkunn. Sennilega hafa munkar þessir verið á Suðurlandi, annars hefðu þeir séð sólina allan sólarhringinn. Ef við lítum í rit annarra munka finnum við fleiri frásagnir sem, þrátt fyrir goðsögukeiminn, sýna að þeir hafa haft vitneskju um stórt eyland, sem lá langt í norðri.
Til er aragrúi af frásögnum af írskum munkum og dýrlingum og ferðalögum þeirra til fjarlægra landa sem svo fá hin skringilegustu nöfn, svo sem, fyrirheitna landið, land hinna lifandi vera, ungdómslandið o.fl. Frægust var frásögnin um hinn heilaga Brendan, sem á miðöldum var þýdd á fjölda tungumála meðal annarra norrænu. Saga þessi er afar skáldleg og hugmyndaflugið gífurlegt, en þó eru menn vissir um að Brendan var uppi um miðja sjöttu öld. Hér skal til gamans getið tveggja frásagna.

Papar

Papar – úr fornu handriti.

Hefst frásögnin á komu þeirra (Brendans og fleiri presta) til eyjar einnar:..“Eftir 40 daga, er allur matur var upp urinn og enginn gat hjálpað þeim nema guð almáttugur, reis þá úr hafi fjalllend eyja. Er þeir komu nær sáu þeir að ströndin var þverþnípt og frá fjöllunum rann fjöldi lækja.“
Í öðrum kafla segir svo:…„Að lokum komu þeir auga á stórt fjall upp úr hafinu. Tindur þess var umluktur þoku og reyk. Skip þeirra rak fyrir vindinum alveg upp að strönd fjallsins. Eyjan var svo há að þeir gátu ekki með nokkru móti séð upp á tind fjallsins.“ Síðan segir sagan frá presti sem gekk á land en heldur illa farnaðist honum, þvi hann var gripinn af litlum djöfli. En hagstæður byr rak þá burtu frá eyjunni: „En er þeir litu til baka, hvarf reykurinn frá fjallinu, en eldslogar teygðust til himins og síðan inn mót fjallinu, þannig að fjallið glóði allt utan.“
Hér er greinilega um eldgos að ræða og sé þessi saga ekki tekin upp úr öðrum bókum, hlýtur fyrirmyndin að vera eldfjall á Íslandi. Margar sögur eru til um ferðalög írskra munka til norðurs og sem betur fer eru flestar þeirra sennilegri en þær sem hér fóru á undan. Hér er þó ekki unnt að láta fleiri fljóta með, en jafnvel þótt sögur þessar séu ekki allar sannleikanum samkvæmar, er auðvelt að láta sér til hugar koma, að munkar þessir hafi haft vitneskju um Ísland fyrir tíma Dicuils.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Lítum nú á hvað norrænar heimildir segja um írsku munkana. Ari fróði segir í Íslendingabók: „Þá váru her menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa. En þeir fóru á braut, af þui at þeir villdo eigi vesa hér viþ heiþna menn, oc léto epter bæcr irscar oc bjoll or oc bagla, af þui mátti seilia, at þeir vóró menn írscer“. Í formála Landnámabókar (Sturlubók) segir frá pöpum á
þessa leið (stytt) „Í bók þeirri er hinn heilagi prestur Beda skrifaði, segir frá eyju sem heitir Tíla. Bækur segja svo frá að um 6 sólarhringa sigling sé frá Bretlandi til eyjunnar. Þar segir hann að á vetrum sé ekki til dagur og á sumrum sé engin nótt, er dagurinn er lengstur. Fróðir menn telja að Ísland sé nefnt Túle.“ Ennfremur: „Áður en norskir landnámsmenn komu til Íslands voru þar kristnar manneskjur, þær er Norðmenn kalla Papa og telja frá Írlandi komna…“ Ennfremur segja enskar bækur, að á þessum tíma hafi verið farið á milli landanna, „farit milli land anna.“

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi.

Landnámabók skrifuð af Hauki Erlendssyni gefur sömu upplýsingar en þar að auki hvar þessar bjöllur og baglar fundust. Hann segir svo: „Það fannst í Papey og Papabýli.“ Pappýli stytting úr Papabýli. Fyrir utan þessar tvær íslenzku heimildir finnum við tvær norskar. Önpur er rituð af munkinum Theodoricus. Bók hans um sögu Noregs er skrifuð á latinu seint á 12. öld og líkist mjög frásögn Ara fróða. Hin er úr söguriti frá 12. eða 13. öld er kallast Historia Norvegiæ, einnig rituð á latínu.

Papey

Papey.

Þetta rit er þó í afar mikilli mótsögn við allar aðrar heimildir er varðar trú og uppruna papanna og má nefna hér hvað þar stendur um Papey og papana: „Eyja ein hefur verið nefnd eftir þeim, Papey, og af fatnaði þeirra og stafagerð bóka þeirra er þeir skildu eftir má sjá, að þeir voru frá Afríku og höfðu tileinkað sér Gyðingatrú.“
Það er hér hefur verið nefnt um papa er þó ekki nægjanlegt til þess að við getum verið alveg örugg um veru þeirra hér er víkingarnir komu. Enn er nokkrum spurningum ósvarað. Hvers konar farkosti notuðu þeir og voru þeir tilbúnir til langferða?
Gátu þeir komizt af á Íslandi? Hafa menn fundið minjar er vitna um veru þeirra hér? Er hægt að setja þau staðarnöfn er hafa orðið papi í sér í samband við írsku einsetumennina?

Papar

Papabátur – Curach.

A Social History Of Ancient Ireland, skrifuð af P. W. Joyce, hefur prýðilegar upplýsingar um farkosti þá er Írar höfðu á þessu tímabili. (11. b. bls. 422—433). Þeir hafa mest notað tvenns konar skip, tréskip og curach (kajakar). Curacharnir voru mest notaðir. Þeir voru búnir til á eftirfarandi hátt. Húðir voru spenntar yfir eins konar grind úr trefjum er saumaðar voru saman. Þeir voru af mörgum stærðum. Nokkrir litlir og léttir sem auðvelt var að taka á land og flytja milli staða, aðrir stórir og sérlega ætlaðir í langferðir. Þeir höfðu stundum þrefaldar húðir, þar sem hinir smærri létu sér nægja einfalda húð. Ekkert virðist hafa verið farkostum þessum að vanbúnaði að sigla til Íslands. Þetta voru traust skip og til er aragrúi frásagna af ferðalögum á skipum þessum m.a. milli Skotlands og Írlands og eyjanna norður af Skotlandi. Í dag er meira að segja fjöldi sams konar báta notaður við strendur Írlands en að vísu aðeins sem tómstundagaman.

Papar

Papahús – Clocham.

Fæðuöflun hefur ekki verið neitt vandamál papanna. Selveiðar hafa þeir getað stundað út af Austfjörðum og fengið þar með kjöt og skinn, en það síðan notað í fatnað og hús. Nóg af eggjum um varptímann Einnig eru til skemmtilegar frá sagnir af veiðiskap munkanna. Bænir þeirra voru svo heitar að þeir gátu látið ár og læki tæmast eða fyllast af fiski eftir vild. Ugglaust hafa þeir notað sömu veiðarfæri og notuð voru í Írlandi á þessum tíma. Ein laxaáin okkar hefur hyl er kallaður er Papahylur eða Papi. Við Papós renna nokkrar ár til sjávar er hafa orð fyrir að vera auðugar af silungi og ekki þarf annað en fara í skólabækur til að fá lýsingar á þeirri dýraparadís er hér var á landnámsöld. Nei, svelta þurftu þeir ekki.

Papey

Papey – kort.

Eins og fram hefur komið segja íslenzkar heimildir að landnámsmenn hafi komizt í kynni við Papa gegnum hluti þá er þeir skildu hér eftir. Þetta má þó ekki taka sem gefið. Erfitt er að trúa því að papar hafi haft með sér marga „bagla“ og því síður látið helgidóma sína liggja er þeir yfirgáfu landið. Eflaust hefur landnámsmönnum verið kunnugt um ýmsa hluti er einkennandi voru fyrir þessa írsku munka.
Klukkur eru einmitt hlutir er einkennandi eru fyrir írsku kirkjuna. Nokkrar klukkur hafa fundizt hér á landi t.d. að Brú og Kornsá. Þær eru úr bronzi, sexhyrndar með útskornu laufblaði á botninum. Stærð: Kornsárklukkan 2,8 cm á hæð og Brúárklukkan 2,5 cm. Það er afar freistandi að setja þessar klukkur í samband við þær írsku en það var ekki fyrr en á níundu öld að írar fóru að steypa klukkur úr bronzi og þar að auki eru þessar klukkur ekkert líkar þeim írsku. Sennilegt er að klukkur þessar séu búnar til á Íslandi, því þær líkjast heldur ekki öðrum klukkum frá Norðurlöndum. Athuganir hafa farið fram á klukkum þeim er fundizt hafa á Norðurlöndum og benda þær til þess að klukkurnar hafi verið saumaðar inn í fatnað fólks en þær íslenzku bornar um hálsinn, en það getur svo verið arfleifð frá Írum.

Papey

Papey – fornleifauppgröftur við Hellisbjarg.

Hér á Íslandi hafa engar rústir fundizt sem gefa upplýsingar um bústaði papanna. Einar Benediktsson hefur í bók sinni Laust mál (1952) reynt að sanna tilveru þeirra hér og bendir á hella nokkra á suðausturhuta landsins. Skv. hans meiningu munu papar hafa átt sér bústaði í þessum hellum og verið ófáir. Fundizt hafa krossmerki í hellum þessum en það er nú svo, að menn hafa sí og æ verið að rista krossmerki hingað og þangað sér til dundurs og rannsóknir þær er gerðar hafa verið á þessum hellum sanna ekkert og ekkert er hægt að segja til um aldur þessara krossmerkja. Í öðrum helli telur E.B. sig hafa fundið eins konar kór. Sé svo hlýtur það að vera hrein tilviljun, því ekki munu munkarnir hafa verið vanir kórum, því á Írlandi þekktust engir kórar í kirkjum frá þessum tímum, enda kirkjur afar smáar. Hann minnist einnig á svonefndar Ogham rúnaristur en um þær vil ég helzt ekki ræða, enda enginn fundið þær annar en E.B. Þó má benda á það, að paparnir munu hafa brugðið fyrir sig latinu ef andinn kom yfir þá. Ogham skrift var að mestu notuð á bautasteina áður en kristnin náði Írlandi. Um þetta þarf því ekki fleiri orð, en þótt þessir smáhellar séu hvorki sögulegir né merkilegir, þá eiga þeir þó skilið að þeim sé gaumur gefinn og reynt sé að varðveita þá.

Papar

Papey – fornleifauppgröftur.

Paparnir hafa oftast búið einir. Bústaðir þeirra hafa verið hringlaga, búnir til úr ótilhöggnu grjóti, í laginu eins og snjóhús. Kofar þessir voru kallaðir clocham. Vel getur samt verið að þeir hafi gert sér tréhús, jarðhús eða búið í hellum, en af slíkum bústöðum eigum við engar sögur.

Fjöldi örnefna hér á landi þar sem orðið papi kemur fyrir er ekki mikill. Orðið papi er komið af írska orðinu pob(b)a, pab(b)a, sem notað var um einsetumenn eða munka. Írska orðið pab(b)a er úr latinu papa (þýzk. pfaffe) Norðmenn hafa sennilega lært þetta orð er þeir stigu á land á Bretlandseyjum og hittu þessa merkismenn og frá þeim hefur orðið náð útbreiðslu.

Hellir-kross

Krossmark í Seljalandshelli.

Víkingarnir hafa einnig tekið eftir því að tveir voru þeir hlutir er munkunum var sérlega annt um þ.e.s. krossinn og bagallinn. Þeir hafa heyrt munkana nota þessi orð, tekið þau upp og þannig hafa þessi orð, sem bæði eru írsk, komizt inn í málið. Nokkur örnefni gætu verið tengd þessum orðum, kross og bagall. Um þetta er engin vissa, né heldur hvort paparnir hafi sjálfir komið orð unum í umferð, eða þau borizt með síðari tímum. En orðið papi er okkar stóra sönnunargagn. Hægt er að rekja orðið alveg frá eyjunni Man og til Íslands.

Í Landnámabók er eyjan Papey nefnd sem bústaður papanna. Á austurhluta eyjunnar er svo hæð er nefnd hefur verið „írska hæð“. Munnmæli herma að papar hafi dregið báta sína á land á þeim stað. Austur af hæðinni er hægt að greina eitthvað er líkist tóftum en allt grasi vaxið og mjög sokkið. Breidd ca. 20 f, lengd ca. 30 fet. Rétt fyrir neðan þessar tóftir er önnur hringlaga ca. 30 fet í þvermál, aðeins dýpri í miðjunni.

Papey

Papey – býli.

Papafjörður og Papós finnast einnig og til mun vera Papatœttur, en hvað það nú þýðir veit ég ekki, tættur gæti verið tóftir e.þ.l. Pappýli mun hafa verið til á fleiri en einum stað hér á landi. Próf. Einar Ó. Sveinsson hefur skrifað um þetta nafn í bók sinni Landnám í Skaftafellsþingi bls. 24—5, en kemst ekki að neinni ákveðinni niðurstöðu. Hylurinn í Laxá í Laxárdal hefur verið nefndur. Á Norðurvestur landi er til Papafjall eða fell. Að lokum má nefna örstutta frásögn um Kirkjubæ á Síðu eins og hún kemur fyrir í Landnámabók: „Þar bjó Ketill hinn fíflski. Þar höfðu áður búið papar, og heiðingjar máttu ekki setjast þar að.“ Seinna segir frá Hild Eysteinssyni er vildi flytjast að Kirkjubæ, er Ketill dó, en náði eigi lengra en að túnfætinum, en þar valt hann um og lá dauður á stundinni. Hér hafa verið nefndir allmargir staðir er orðið papi kemur fyrir í. Margir aðrir staðir bera þó írsk nöfn.

Papar

Papafjall; Papýlisfjall í Suðursveit.

Hér hefur margt borið á góma en ekkert hefur þó kastað skíru ljósi yfir hérveru papanna eða viðskipti þeirra við víkingana. Við eigum því miður engar minjar um þá, ef undanskildar eru frásagnir þær er drepið hefur verið á og örnefnin. Þrátt fyrir þennan skort á sönnunum hygg ég þó að flestir telji þá frumbyggja landsins. Þeir stofnuðu hér enga nýlendu og fóru fljótlega eftir að landnámsmenn tóku að setjast hér að, og því er saga þeirra svo fátækleg. Þeir lögðu land undir fót i grófum ullarfötum og ófullkomnum skinnbátum. Hvirfillinn var rakaður, í höndum höfðu þeir gilda göngustafi og á baki dinglaði sekkur með heilögum bókum.

Papar

Papós í Lóni.

Þetta var þeim nóg. Hvort þeir hafi haft þekkingu á Íslandi áður en haldið var út á hafið. Það er ekki fullsannað. Nokkrir hafa eflaust borið bein sín hér á landi, aðrir náð að komast til föðurhúsanna.

Við getum varla sagt að við aukum við Íslandssöguna með skrifum okkar um papana, því eiginlega sögu er ekki um að ræða, fyrr en við höfum efnislegar sannanir. En voru þeir ekki hér, einir, í ósnertri náttúru landsins? Einir með guði sínum. Hafa þeir horft upp í heiðbláan islenzkan næturhimin með leikandi norðurljósum hafandi orð skáldsins fyrir munni sér?
Aleinn i litla kofanum mínum, aleinn. Einn kom ég í heiminn. Einn skal ég út úr honum ganga.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 17.01.1971, Hver var fyrstur?, Gizur Helgason, bls. 8-10 og 12-13.

Papafjörður

Papafjörður.

Gerards Mercator

Í „Heima er bezt“ árið 1980 er fjallað um „Forsögu Íslandsbyggðar„:
Heima er bezt„Hver fann Ísland? Þeirri spurningu svara víst flestir á þann veg að það hafi verið norskir víkingar og þeirra fyrstur hafi verið Garðar Svavarsson. Þrátt fyrir það að svo sé kennt í skólum er nær öruggt að sú hafi ekki verið reyndin, heldur hafi verið búið að finna Ísland löngu áður. Elstu heimildir um landafundi í Atlantshafi segja, að grískur landkönnuður að nafni Pytheas hafi siglt norður til lands sem nefnt er Thule (eða Týli) og nú heitir Ísland. Komu þeir fyrst við í Skotlandi og var þar tjáð að sex daga siglingu norður í hafi væri land, þannig að þeir hafa vitað um Ísland áður og því ljóst að þangað hafa menn farið áður en Pytheas fór sína ferð.
Pytheas var virtur maður, góður stærðfræðingur og stjörnuspekingur. Að dómi grískra vísindamanna á hans dögum var sá hluti þar sem Grikkland og nærliggjandi lönd lágu á hnettinum sá besti, en þar sunnan við væri svo heitt að klettar væru rauðglóandi en norðan við svo kalt að hafið væri botnfrosið og land og sjór þakið snjó svo þar væri ekkert líf. Sögðu þeir þessa íshellu taka við norðan Skotlands.

Thyle

Thyle – Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Henri Petri árið 1576.

Þegar Pytheas kom heim úr för sinni og hafði skrifað ferðasögu sína, þótti hún svo ótrúleg að menn lögðu engan trúnað á hana, þar sem hún kollvarpaði öllum fyrri hugmyndum manna um staðhætti í norðri. Ferðabók Pytheasar er ekki lengur til, en til eru bækur sem voru skrifaðar um hana til að sýna fram á staðleysur hennar. Þótti þeim höfundum sorglegt að svo nafnfrægur vísindamaður sem Pytheas skyldi láta frá sér slíkar lygasögur, en það hefur sjálfsagt ekki hvarflað að þeim sem þetta skrifuðu að umsagnir þeirra yrðu dæmdar vitlausar en hugmyndir Pytheasar réttar.
Pytheas hafði sagt að þegar hann sigldi norður um sumarið, þá hafi dagarnir stöðugt lengst og loftið ekki kólnað að ráði. Sagðist hann einnig hafa séð um miðnætti þegar sólin nálgaðist ládautt hafið og síðan hækkað aftur á lofti. Þetta þoldu ekki samvísindamenn hans sem heima höfðu setið, þetta stóðst ekki útreikninga þeirra. Eftir að hafa komið við á Thule sigldi Pytheas enn norðar í 100 mílur og varð aldrei var við þann heljarkulda sem þar átti að vera samkvæmt kenningunum, þó kaldara væri þar vissulega. Lýsingar Pytheasar lifðu því í gegnum rit þeirra sem ætluðu að rífa niður hugmyndir hans.

Thule

Thule – forn kort.

Dr. Vilhjálmur Stefánsson hefur ritað mikið um ferðalag Pytheasar og segir hann, að á athugunum hans megi sjá, að hann hafi siglt inn á einhvem fjörð á Norðurlandi, líklega Eyjafjörð og allt inn í botn hans.
Öll er frásögnin um ferðalag Pytheasar merkileg, en þó finnst mér merkilegasti þáttur hennar þar sem fram kemur að sjómenn á Hjaltlandi fræddu hann um að langt norður í hafi væri landið Thule. Þeir hafa því sennilega siglt þangað eða vitað umeinhverja sdm það gerðu. Hverjir voru það?

Rómverskir peningar

Rómversk mynt sem fannst á Bragðavöllum og í Hvaldal.

Þessi gríski landkönnuður kom til Íslands 1200 árum áður en Ingólfur Arnarson nam land hér og settist að í Reykjavík, en síðan eru liðin rúm 1100 ár. Það eru því um 2300 ár síðan Pytheas kom hér á land.

Enn fleiri heimsóttu Ísland áður en norsku víkingarnir námu hér land. Um árið 300 eftir Krist kom hingað rómverskt herskip. Hefur dr. Kristján Eldjárn ritað grein um merkan fornleifafund á Austfjörðum, þar sem fundust þrír rómverskir koparpeningar sem slegnir hafa verið á árunum 270-305, hinn yngsti frá dögum Diocletians keisara.

Brendan

Stórkostleg ævintýri voru gerð eftir að Brendan og munkar hans höfðu lokið ferð sinni um hið ókannaða Atlantshaf. Þessi síða er úr myndskreyttri útgáfu frá því um 1400.

Leiðir Kristján rök að því að mynt þessi hafi ekki borist með norsku landnemunum og ekki heldur með landnemum frá Írlandi og bresku eyjunum.
Engin veit nú um örlög þessa rómverska skips, né skipverja, um það veitir myntin engar upplýsingar. Við vitum aðeins að hingað kom rómverskt skip um árið 300 e.Kr. Þeirri spurningu er því ósvarað hvort fleiri skip hafa komið hingað frá Rómverjum, eða hvort þeir dvöldu eitthvað í landinu.

Við munum víst flest eftir írska húðbátnum Brendan sem til Íslands kom árið 1970, en það var bátur sem nokkrir írar sigldu til Nýfundnalands til að sanna að slíkt ferðalag hefði verið mögulegt. Var bátur þeirra gerður á svipaðan hátt og álitið er að bátar hafi verið gerðir á Írlandi í kring um 548. Brendan er nafn á írskum dýrlingi sem var mikill siglingakappi og eru til margar þjóðsögur um ferðir hans, bæði í bundnu og óbundnu máli.
Brendan lagði af stað í ferð sína frá Kerry árið 545 og fór m.a. til Íslands. Ætlaði hann að þar væri einsetumaður sem Pól hét og sigldu þeir inn krókóttan fjörð og tóku land. Fór Brendan í land til að leita að Pól og fann hann. Átti þessi einsetumaður að hafa verið á Íslandi um 60 ára skeið, og ræddi hann mikið við Brendan um siglingar og langa reynslu sína. Dvöldust Brendan og félagar um hríð á Íslandi.
Margt af því sem Brendan sá í kringum Ísland virtist ævintýralegt fyrir þá sem síðar heyrðu um það og spunnust því upp margar þjóðsögur um ferðalag þetta. Þeir munu t.d. hafa komið að borgarisjaka og lýsir Brendan honum þannig að hann væri eins og gerður úr kristal.

Brendan

Heilagur Brendan – stytta í Bantry, Írlandi.

Almenningur var ekki lengi að spinna sögu um kristalshöll fljótandi út á reginhafi.
Þá er í sögu Brendans lýsing á eldgosi sem líkist lýsingu á gosi svipuðu Surtseyjargosinu: „Á áttunda degi komu þeir að ey nokkurri, sem var hrjóstrug og grýtt og öll þakin gjalli. Þar sást hvergi nokkurt tré og engan gróður var þar að sjá, en þar var hver eldsmiðjan við aðra. Þangað var að heyra drunur, miklar sem þrumur, og höggin þegar sleggjurnar skullu á steðjunum..“.

Litlu seinna sáu þeir einn af íbúunum. Hann var loðinn og hræðilegur og kolsvartur af eldi og reyk. Þegar hann sá þá Brendan, æpti hann hátt og hljóp þegar aftur inn í smiðjuna.
St. Brendan signdi sig þá og sagði við förunauta sína: „Aukið seglin og róið kappsamlegar, svo að við getum komist burt frá þessari eyju.“ Þetta heyrði villti maðurinn og kom nú þjótandi niður í fjöru. Var hann með töng mikla og hafði í henni gríðarlegan glóandi kökk og kastaði honum á eftir þeim Brendan. Kökkurinn fór fram hjá þeim og féll þar í sjóinn, en þar sem hann kom niður, laust upp miklum reykjar- og gufumekki, eins og af brennandi eldi.

Brendan

Húðbáturinn Brendan undir stjórn Thors Hayerdahls sigldi í kjölfar írsku
munkanna, frá Írlandi til Nýfundnalands
um Ísland árið 1977. Árituð mynd af Thor Heyerdahl.

Þegar þeir voru komnir svo sem mílu vegar frá þessum stað, flykktust allir eyjarskeggjar niður í fjöru, og voru allir með fangið fullt af glóandi gjalli og köstuðu því hver af öðrum á eftir skipinu. Síðan hurfu þeir inn í smiðjur sínar og juku þá eldana svo óskaplega, að öll eyjan sýndist standa í báli, en sjórinn allt um kring bullaði og sauð og var gufan eins og upp úr katli, sem ákaft er kynt undir.

Allan daginn heyrðu þeir Brendan óhljóðin í eyjarskeggjum, jafnvel eftir að eyjan var horfin þeim sýnum, en viðbjóðslegur fnykur fylgdi þeim langar leiðir.“
Það þarf víst ekki að segja þeim, sem eldgos hafa séð, að margar kynjamyndir má sjá i gosmekkinum. Á tíma Brendan var það trú manna að helvíti væri í iðrum jarðar og þaðan kæmu eldgos og jarðskjálftar. Það er því skiljanlegt að munkarnir hafi þóst sjá í mekkinum djöfla.
Af þessari stuttu upprifjun á „landafundum“ Islands má sjá að hingað komu allmargir og búast má við að fleiri hafi þeir verið en hér eru upp taldir. Hér er t.d. ekki sagt frá byggð papa hér á landi, sem telja má fullvissu fyrir að verið hafi. Ekki voru allar ferðir til Íslands fyrr á öldum færðar í letur, og þó svo hefði verið, þá eru þær frásagnir glataðar.“ — GM

Heimildir:
-Heima er bezt, nr. 10 (01.10.1980), Forsaga Íslandsbyggðar, Guðbrandur Magnússon, bls. 356-357.
-Lemúrinn, 13. árg. 3.11.2013, Hið dularfulla Frísland: Var stór eyja við hlið Íslands, Helgi Rafn Guðmundsson.

Abraham Ortelius

Ítalskt kort Abrahams Ortelíusar frá sextándu öld sýnir Thule og stærðar eyju skammt fyrir sunnan Ísland, sem merkt var Frísland. Það var upphafið að löngum misskilningi kortagerðarmanna víða um Evrópu. Nær öll landakort frá 1560-1660 sýna eyjuna, sem var auðvitað ekki til.
Eyjan ber ólíkar myndir heitisins Frísland eftir tungumálum, stað og tíma og má þar nefna Frischlant, Friesland, Freezeland, Frislandia og Fixland. Talið er að menn hafi gjarnan ruglað Íslandi saman við Frísland og þaðan sé enska myndin Freezeland komin.

Grindavík

Í hefti Sveitarstjórnarmála árið 1974 er viðtal við Svavar Árnason, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur undir fyrirsögninni „Sjávarþorpið sem ekki átti að fá rafmagn orðið 1600 íbúa kaupstaður„:

Svavar Árnason

Svavar Árnason – fyrsti heiðursborgari Grindavíkur 1994 (1913-1995).

„Svavar Árnason er einn þeirra manna, sem unnið hefur þögult en þrotlaust starf í þágu byggðarlags síns. Hann er fæddur Grindvíkingur, var kosinn í hreppsnefndina fyrir 32 árum, hefur verið oddviti í 28 ár og átti sæti í fyrstu hafnarnefndinni.
— Er það ekki rétt, Svavar, að þú hafir setið í hreppsnefnd Grindavíkurhrepps samfellt nær þriðjung aldar og verið oddviti í 28 ár?
„Já það er rétt, ég var fyrst kosinn í hreppsnefndina árið 1942 og hef átt þar sæti síðan. Þá var oddviti hreppsnefndarinnar Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri frá Húsatóftum. Ég tók svo við oddvitastörfum af honum árið 1946, en hann var þá orðinn framkvæmdastjóri fyrir Hraðfrystihúsi Grindavíkur h/f, sem stofnað var árið 1941 með almennri þátttöku hreppsbúa og Grindavíkurhrepps til atvinnuuppbyggingar og stuðnings við útgerðina í hreppnum. Guðsteinn var sérstaklega farsæll í öllum störfum sínum og auðnaðist að skila af sér velmegandi og traustu atvinnufyrirtæki, þegar hann kaus að láta af framkvæmdastjórn sakir heilsubrests. Hann andaðist skömmu síðar á öndverðu ári 1973.
GrindarvíkÁ þessum árum var Grindavík lítt þekkt og umkomulítið sjávarþorp. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar fór íbúunum fækkandi, útgerð dróst saman og fólkið leitaði þangað, sem  afkomuskilyrðin voru betri. Grindavík var og er að vísu gömul verstöð, en aðstaða til útgerðar var aðeins fyrir litla báta, árabáta fyrst og síðar trillur. Bátana varð að setja á land að loknum róðri, því að höfnina vantaði. Hafnleysið var þannig meginorsökin fyrir fólksflóttanum og hefði leitt til algerrar auðnar, ef ekki hefði verið hafizt handa um úrbætur. Þeir, sem eftir sátu og hopuðu hvergi, hófu varnarbaráttu og alhliða sókn í þeirri trú, að takast mætti að snúa þessari óheillaþróun við“.

Grindavík

Grindavík 1945.

— Hvað er þér minnisstæðast frá fyrstu árum þínum sem oddviti?
„Það er að sjálfsögðu margs að minnast frá liðnum árum. Ég skal til gamans rifja það upp sem dæmi um það, hve lítils metið þetta litla þorp var, að þegar unnið var að því að koma Sogsrafmagninu til Keflavíkur, var eftir því leitað af hreppsnefndinni að fá Grindavík tengda við kerfið, helzt um leið og línan væri lögð til Keflavíkur. Á því voru margir annmarkar og þó einkum þeir, að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar töldu, að rafveita í Grindavík hefði ekki rekstrargrundvöll, nema því aðeins, að orkan til neytenda væri seld á 22% hærra verði en aðrir neytendur á þessu orkuveitusvæði þurftu að greiða.

GrindavíkSamgöngumálaráðuneytið gaf þó hreppsnefndinni kost á að fá rafmagnið, ef hún treysti sér til þess að gefa yfirlýsingu um, að hún mundi tryggja hallalausan rekstur rafveitunnar, þ. e. greiða rafmagnið hærra verði en allir aðrir. Og til þess að fá rafmagnið samþykkti hreppsnefndin þessa skilmála einróma. Það var árið 1945, sem þessi ákvörðun var tekin, og sýnir, hversu þýðingarmikið það var að áliti hreppsnefndarinnar fyrir framtíð staðarins að fá rafmagnið hingað.
En það, sem hlaut þó að hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi útgerð og búsetu í Grindavík, var að ráða bót á aðstöðunni til sjávarins.

Grindavík

Grindavík – grafið inn í Hópið 1939.

Árið 1939 tel ég ávallt tímamótaár í sögu Grindavíkur, því að þá var fyrsta tilraun gerð til að skapa hafnaraðstöðu með því að grafa ósinn í Hópið, þar sem nú er orðin örugg bátahöfn, hvernig sem viðrar. bessi fyrsta framkvæmd var gerð með hinum frumstæðustu verkfærurn, haka og skóflu. Þetta verk var unnið undir forystu Einars G. Einarssonar, kaupmanns í Garðhúsum, en hann var formaður bryggjunefndar, sem svo var kölluð. Á þeim tíma voru lendingarbætur ekki unnar á vegum hreppsins, heldur að frumkvæði frjálsra samtaka útgerðarmanna og sjómanna, og var hálfur hlutur af bát látinn ganga til að standa undir kostnaði við lendingarbæturnar.
GrindavíkÞegar hér var komið sögu, var framhaldið ráðið og augljóst, að nú þyrfti að koma til aðild hreppsins að frekari framkvæmdum.
Með tilkomu laga frá 10. des. 1943 um lendingarbætur að Járngerðarstöðum skilar bryggjunefnd af sér störfum til hreppsnefndar, skuldlausum framkvæmdum og nokkurri sjóðseign.
Á fundi hreppsnefndar 5. febr. 1944 er svo fyrsta hafnarnefndin kosin, skipuð 3 mönnum, þeim Sigurði Þorleifssyni, Svavari Árnasyni og Rafni A. Sigurðssyni, skipstjóra, sem jafnframt var fornraður nefndarinnar. Var þá strax unt haustið hafizt handa um fyrstu bryggjugerð í Hópinu.
GrindavíkRafn reyndist ákaflega traustur maður í öllum framkvæmdum, og tókst honum að ná samningum við hafnarstjórn Reykjavíkurhafnar um leigu á grafvél til að breikka og dýpka ósinn frá 1939. Á árinu 1945 var svo unnið að dýpkunarframkvæmdum undir verkstjórn harðduglegs manns, Kristins Jóhannssonar. Tókst honum að ná undraverðum árangri. Síðan má segja, að hafnargerðin hafi haft forgang um allar framkvæmdir hér um aldarfjórðungsskeið með þeim árangri, að Grindavík er nú orðin ein af stærstu verstöðvum landsins, verstöð, sem á sínurn tíma var ekki talin þess virði að fá rafmagn með eðlilegum hætti. Og í stað fólksflóttans, sem var, liefur íbúatalan ríflega þrefaldazt á þessu tímabili.
GrindavíkÉg vil láta það koma fram, að þegar Rafn A. Sigurðsson fluttist burt úr Grindavík, tók Sigurður Þorleifsson við formennsku í hafnarnefnd og gegndi því starfi til dauðadags. Það er ekki ofrnælt, að enginn hefur unnið höfninni lengur af meiri skyklurækni og fórnfýsi en hann. Höfnin var honum hugsjónamál.“
— Í hverju eru fólgar þær umbætur, sent nú er verið að gera á höfninni í Grindavík?
„Eftir að eldgosið hófst í Vestmannaeyjum í janúarmánuði árið 1973, hófust fljótlega þær miklu hafnarframkvæmdir í Grindavík, sem látlaust hefur verið unnið að síðan.
GrindavíkVið í hreppsnefndinni áttum ekki frumkvæði að þessum stórfelldu framkvæmdum, heldur stjórnvöld, sem töldu, að í Grindavík væri aðstaða til að veita Vestmannaeyjabátum viðunandi skilyrði til útgerðar á vetrarvertíðinni með nauðsynlegum endurbótum á þeim mannvirkjum, sent þar voru fyrir. Framkvæmdir gátu hafizt hálfum mánuði eftir gosið, og var þá áætlað að vinna fyrir 75 millj. króna. Átti þá að lengja bryggju um 75 metra og síðan byggja 156 m langa nýja bryggju með tvöföldum viðlegukanti ásamt nauðsynlegri dýpkun.
GrindavíkEftir að fyrir lá, að Alþjóðabankinn myndi veita lán til enn frekari framkvæmda, var gerð kostnaðaráætlun urn framkvæntdir fyrir allt að 375 millj. króna og hefur síðan verið unnið lálaust eftir þeirri áætlun. Skv. upplýsingum Helga Jónssonar verkfræðings hjá Hafnamálastofnuninni, hafa verið grafnir úr höfninni 179 þús. m3 af lausu efni, 36 þús. m3 af hörðu efni, og úr rásinni hafa verið grafnir upp 22.500 m3 af föstu efni, sem orðið hefur að sprengja. Auk þess hefur 100 m löng trébryggja verið endurbyggð, sett 70 m langt stálþil á ytri garðinn, steyptar þekjur á alla stálþilsbakka og allt hafnarsvæðið malbikað eða lögð á það olíumöl. Einnig hefur verið endurbætt lýsing á hafnarsvæðinu og lögð ný vatnslögn á allar bryggjur.
GrindavíkNú um áramótin verður búið að vinna við þessar framkvæmdir fyrir nær 400 milljónir króna. Eftir er að dýpka ósinn (rásina) og grafa upp úr honum 3-4000 m3 af klöpp, einnig er ráðgert að reisa hafnarhús ásamt bílvog, og mundi þá heildarkostnaður við allar þessar umbætur á þremur árum 1973-1975 vera urn 460 milljónir króna.
Þótt frumkvæðið að þessum miklu framkvæmdum sé ekki hreppsnefndarinnar, eins og ég áður sagði, þá ber afdráttarlaust að þakka öllum þeim, sem hlut eiga að rnáli, því að vissulega leysa þær mikinn vanda, ekki aðeins útgerðarinnar hér, heldur einnig nærliggjandi verstöðva, sem framkvæmdanna njóta. Það, sem áunnizt hefur, er fyrst og fremst mjög verulega aukið athafnasvæði og viðlegupláss fyrir bátaflotann, auk þess sem nú eru fyrir hendi möguleikar á að afskipa útflutningsafurðum Grindvíkinga í höfninni, því að nú geta með góðu móti allt að 2000 rúml. skip athafnað sig þar.

Grindavík

Grindavík 1974.

Þetta munu vera mestu hafnarframkvæmdir, sem unnar hafa verið samfellt á einum stað á landinu til þessa.“
— Hefur þessi mikla orka, sem farið hefur í hafnargerðina, bitnað á öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins?
„Já, vissulega má segja það. Höfnin er að okkar áliti undirstaða allra annarra framkvæmda í byggðarlaginu. Þess vegna hlaut hún að hafa forgang. Af því hefur að sjálfsögðu leitt, að ýmis önnur verkefni hafa orðið að bíða síðari tíma, til dærnis holræsagerð. Á árinu 1970, þegar við töldum, að höfnin væri komin í sæmilegt horf, þá ákváðum við að snúa okkur að holræsaframkvæmdum ásamt varanlegri gatnagerð. Réðum við þá Verkfræðistofuna Hnit sf. í Reykjavík til þess að hanna þær framkvæmdir.
GrindavíkSíðan hefur verið unnið að þessum málum sleitulaust undir yfirumsjón verkfræðinga frá Hnit sf. Allar lagnir varð bókstaflega að hanna frá grunni.“
— Var ekki vatnsveita komin áður?
„Hér áður fyrr var neyzluvatn Grindvíkinga regnvatn, senr safnað var í þrær af þökum húsa. Það þraut stundum í langvarandi þurrkum.
Árið 1951 var svo hafizt handa um borun eftir neyzluvatni nokkru innan við þorpið og vatnsveita lögð um hreppinn. Sú framkvæmd var unnin undir öruggri stjórn Tómasar Þorvaldssonar, sem þá var í hreppsnefndinni. Markaði vatnsveitan einnig tímamót varðandi alla aðstöðu til hreiniætis í hreppnum.“
Grindavík— Er ekki land í Grindavík erfitt sem byggingarland?
„Landið er fyrst og fremst hraun og klappir. Og það út af fyrir sig gerir sveitarfélaginu ákaflega erfitt og kostnaðarsamt að veita þá þjónustu, sem fylgir aukinni byggð. Þar á ég bæði við holræsi og vatnslagnir svo og rafmagn, sem lagt er í jörð. Fyrir þá, sem byggja, verða húsgrunnar á hinn bóginn tiltölulega ódýrir. Á tímum, þegar rnikið er byggt og allir byggja einbýlishús, er það miklurn fjárhagslegum örðugleikum bundið fyrir sveitarfélagið að fylgja eftir nýrri byggð með þjónustu sína. Á næsta ári er ákveðið að hefja smíði leiguíbúða samkvæmt lögum um það efni.“

Bláa lónið

Hitaveitan í Svartsengi.

— Hvenær kemur hitaveitan í bæinn?
„Hitaveitan er mál málanna í dag. Grindavíkurhreppur hafði forgöngu um borun eftir heitu vatni við Svartsengi og leysti þannig úr læðingi hina miklu orku, sem þar er í jörðu, og vonir standa til, að á næstunni verði nýtt til húsahitunar fyrir íbúa allra Suðurnesja. Ég vona, að við verðum búnir að fá hitaveituna til Grindavíkur innan tveggja ára.“
— Er hugsanlegt, að eignarréttarmál tefji fyrir hitaveituframkvæmdum?
„Nei, það vona ég ekki. Samningaviðræður við landeigendur eru hafnar, og auk þess er heimild til eignarnáms í nýsettum lögum um Hitaveitu Suðurnesja, ef samkomulag tekst ekki.“
— Á bæjarfélagið landsvæði það, sem nú er að byggjast?
„Já, árið 1964 gekk fram eignarnám á rúmlega 300 ha landi, sem Grindavíkurhreppur keypti. Það land er umhverfis höfnina og á því svæði, sem kaupstaðurinn nú byggist á. Þetta er alveg ómetanlegt og hefur sannfært mig um nauðsyn þess, að sveitarfélögin hafi fullan umráðarétt yfir landi því, sem byggt er á.“

— Af hverju er ekki „menning“ í Grindavík, Svavar?
„Það fer trúlega bezt á því, að ég segi sem fæst um þá hluti, enda hefur Sjónvarpið sem kunnugt er fundið hjá sér köllun til að gera úttekt á menningarástandi Grindvíkinga með töku kvikmyndarinnar „Fiskur undir steini“, sem landsfrægt er orðið. En grunur minn er sá, að höfundarnir hafi hlotið sinn dóm hjá þjóðinni fyrir framtakið, og víst er um það, að ekki ber myndin raunveruleikanum vitni. Að mínu áliti er kvikmyndin gerð í ákveðnum pólitískum tilgangi og þjónar aðeins hinum gerska átrúnaði. Eini kostur myndarinnar, að mínu áliti, er sá, að hún leynir ekki tilganginum.“
Grindavík— Í hverju er fólginn stuðningur sveitarfélagsins við menningarmál?
„Þú ert áleitinn, en þessu vil ég ekki svara hér beinlínis. Þess má þó geta, að í Grindavík er risið af grunni eitt glæsilegasta félagsheimili landsins, sem sveitarfélagið hefur fjármagnað að verulegu leyti. Enginn dómur skal lagður á þá menningarstarfsemi, sem þar fer fram, en ég geri þó ekki ráð fyrir, að hún sé lakari en almennt gerist. Við erum að vísu ekki búnir að ljúka þessari byggingu, því að eftir er að reisa þann hlutann, sem á að þjóna leiklistar- og tónlistarstarfsemi ásamt kvikmyndasýningum. Annars er það mín skoðun, að fólkið sjálft skapi menninguna, en ekki opinber forsjá.“
Grindavík— Nú hafa Alþýðuflokksmenn lengst af ráðið í Grindavík. Eru þeir ekki hlynntir opinberum afskiptum af flestum málefnum?
„Vissulega, en innan skynsamlegra takmarka þó. Við viljum til dæmis ekki gefa fólki „menninguna“ inn í skömmtum, heldur á fólkið að hafa frjálsræði til að velja og hafna. Við höfum enga opinbera „línu“, sem allir eiga að viðurkenna og dýrka sem hina einu réttu í þessum efnum sent öðrum.“
— Er pólitíkin í Grindavík hörð?
Grindavík„Nei, það get ég ekki sagt. Enda væri það undarlegt, ef velferðarmálum eins sveitarfélags væri unnt að stjórna eftir ímyndaðri pólitískri línu. Allir, sem vilja sínu sveitarfélagi vel, hljóta að leggja sig fram um að finna sem farsælasta lausn á hverju málefni, sem til heilla horfir, hvað sem allri flokkspólitík líður. Þegar við fórum fram á það við Alþingi að fá kaupstaðarréttindi, var um það alger samstaða í hreppsnefndinni. Mestur áhuginn fyrir því máli virtist þó vera meðal Sjálfstæðismanna, enda ekki óeðlilegt, þar sem þeir áttu aðeins einn hreppsnefndarmann af fimm, en sýnt var, að fjölgun fulltrúa með tilkom bæjarréttinda myndi strax auka fulltrúatölu þeirra í bæjarstjórn.

Grindavík

Grindavík – Einarsbúð og nágrenni.

Eftir bæjarstjórnarkosningarnar eiga Sjálfstæðismenn nú þrjá fulltrúa af sjö í bæjarstjórninni. Kosningasigur Sjálfstæðismanna var því eftirminnilegur eins og víðar að þessu sinni. Þó nýttist þeim ekki sigurinn til að brjóta niður „náttúrulögmálið“ um „oddvitann alræmda“, er setið hafði á valdastóli allt frá árinu 1946.
Þannig fer stundum öðru vísi en ætlað er, því oddvitinn gekk aftur sem fyrsti forseti nýkjörinnar bæjarstjórnar, en meirihlutann skipa tveir bæjarfulltrúar Alþýðuflokksins og tveir fulltrúar af lista Framsóknar- og vinstri manna.“
Grindavík— Nú komst þú fyrst inn í hreppsnefndina sem formaður verkalýðsfélags og ert það síðan samfellt til 1962 samhliða oddvitastarfinu.
Hvaða áhrif hafði þetta á stjórn hreppsmála?
„Ég tel, að það fari ekki milli mála, að staða mín í verkalýðsfélaginu hafi stuðlað að því, að ég var á sínum tíma kosinn í hreppsnefndina og að ég hafi átt þar sæti svo lengi, sem raun ber vitni. Verkalýðsfélag Grindavíkur var stofnað á árinu 1937. Fyrsti formaður þess var Erlendur Gíslason, sem nú er bóndi að Dalsmynni í Biskupstungum. Ég kom í stjórn félagsins sem ritari árið 1938, og var kosinn formaður þess árið 1939, en á fundum þess frá fyrstu tíð voru málefni sveitarfélagsins rædd. Ég held ég megi segja, að sanrkomulagið milli formanns verkalýðsfélagsins og oddvitans hafi jafnan verið gott.“
Grindavík— Þú hefur verið ungur á þessum árum?
„Ég er fæddur árið 1913, svo að ég hefi verið 26 ára er ég varð formaður verkalýðsfélagsins og tæplega 29 ára, er ég kom í hreppsnefndina. Á þessum árum þótti það ekki eftirsóknarvert að taka að sér oddvitastarf, enda illa launað. Ég var orðinn 22 ára, þegar ég fór í Samvinnuskólann, og útskrifaðist þaðan vorið 1937. Sem fomraður verkalýðsfélagsins fann ég til skyldu til að vinna að framfaramálum byggðarlagsins, og hafði áhuga á því að lyfta Grindavík og gat því ekki skorazt undan oddvitastarfinu.“
— Hvernig finnst þér að vera orðinn forseti bæjarstjórnar í stað þess að vera oddviti?
„Ég verð að viðurkenna það, að ég er hálffeiminn við titilinn forseti bæjarstjórnar. Mér finnst raunar, að forseti ætti ekki að vera nema einn í landinu, það er þjóðhöfðinginn. Oddvitatitilinn kunni ég miklu betur við og fannst jafnvel meiri sæmd að bera hann heldur en heitið forseti bæjarstjórnar.“ – U. Stef.

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 6. hefti, 01.12.1974, Sjávarþorpið sem ekki átti að fá rafmagn orðið 1600 íbúa kaupstaður, Svavar Árnason, bls. 269-275.

Grindavík

Grindavík – „sveitarstjórnarkosningar“ 1942.

Kornakur

Kornrækt hefur verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi. Í gegnum tíðina hafa köld veðurtímabil haft þau áhrif að kornrækt lagðist af og um leið hvarf sú þekking sem bændur höfðu. Á seinni tímum hefur kornrækt hins vegar verið stunduð óslitið frá 1960.

Björg Gunnarsdóttir

Björg Gunnarsdóttir.

Af mörgum örnefnum að dæma má ætla að kornrækt hafi verið hluti af búskaparháttum landsmanna, a.m.k. fyrstu árhundruðin. Björg Gunnarsdóttir fjallar t.d. um kornræktina í Borgfirðingabók árið 2009 undir fyrirsögninni „Nýting landsins á landnámsöld„:

„Gera má ráð fyrir að landnámsmenn hafi flutt með sér búskaparhætti heimaslóða sinna, lítt breytta. Ekki hef ég rekist á frásagnir um að hér hafi verið stunduð sviðjurækt sem hluti af einhvers konar sáðskiptakerfi, en skógur var ruddur og brenndur til að skapa pláss fyrir tún og akra og jafnvel í þeim tilgangi einum að bæta beitiland.
Jarðrækt, þ.m.t. kornrækt með tilheyrandi jarðvinnslu og áburðargjöf, var í upphafi byggðar meiri en síðar varð, þótt ekki sé talið að akrar og tún hafi verið mikil að vöxtum á nútímamælikvarða. Afkoma manna byggðist mest á kvikfjárbúskap og þar sem það var hægt voru skepnurnar látnar ganga sjálfala allan veturinn.

Skálafell

Gullakur neðan Skálafells.

Almennt er talið að úthey hafi þar að auki verið mikilvægasta uppspretta vetrarforða allt frá landnámi. Það sem auk ræktunarmenningarinnar vekur helst athygli þegar heimildir um búskaparhætti á landnámsöld eru skoðaðar, er hinn mikli fjöldi nautgripa sem hér virðist hafa verið.

Skálafell

Skáli Ingólfs í Skálafelli, fornleif með vísan í Landnámu. Þarna ku Ingólfur hafa haft geldneyti og ræktað korn á Gullakri.

Landnámsmenn hófu vafalítið kornrækt um leið og þeir komu hingað. Þeir brutu landið með þeirra tíma jarðvinnslutækjum, örðum, frumstæðum plógum og pálum. Það hefur verið vinnufrekt og því er ekki líklegt að ræktað land hafi verið mjög víðfemt. Margt bendir til þess að þegar frá leið hafi akrar verið pældir fremur en plægðir, sem enn bendir til lítils flatarmáls. Kornrækt virðist hafa verið stunduð víða á svæðinu frá Hornafirði vestur um til Breiðafjarðar. Svæðið virðist hafa dregist ört saman, en kornrækt þó ekki horfið með öllu við Faxaflóa fyrr en á 16. öld. Öryggi þessa búskapar hefur þó aldrei verið mikið eins og sést best á því að í Skaftafelli taka menn melskurð fram yfir kornrækt um aldamótin 1400, þótt þar séu aðstæður hvað ákjósanlegastar til kornræktar. Ekki hefur skjólleysið vegna minnkandi skóga bætt úr skák.“

Árbók

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2002-2003.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2002-2003 er fjallað um „Forna akrar á Íslandi – meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum„. Hér verður fjallað um Garðskagaþátt þeirra skrifa:

„Kunnugt er af fornbréfum og ýmsum ritheimildum að kornrækt þekktist á Íslandi til forna, en er talin hafa lagst af á fimmtándu öld. Einnig er fjöldi örnefna víða um land sem bendir eða virðist benda til akuryrkju.
Fræðimenn hafa fjallað nokkuð um akuryrkju á Íslandi og má þar nefna rannsóknir þeirra Björns M. Ólsen, Sigurðar Þórarinssonar, Steindórs Steindórssonar, Þorleifs Einarssonar og Margrétar Hallsdóttur. Vitneskja er þó af skornum skammti um þennan þátt í atvinnuháttum Íslendinga fyrr á öldum, ekki er ljóst hve víðtæk akuryrkjan var og nákvæma vitneskju skortir um hvenær hún lagðist af og ástæður þess.
Á allmörgum stöðum á landinu eru þekktar minjar sem taldar eru fornir akrar eða leifar þeirra. Sums staðar eru afgirtir skikar, sem munnmæli nefna akra eða ekrur, eða önnur ummerki á yfirborði minna á plægða akra. Hvort þessar minjar eru í raun minjar um akuryrkju eða eiga sér aðrar skýringar verður ekki sagt með vissu nema með sérstakri rannsókn á hverjum stað.

Garður

Uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar af kornökrunum á Garðskaga.

Árið 1999 var ráðist í rannsóknarverkefni sem vonast var til að varpaði nýju ljósi á akurminjar á Íslandi. Þetta verkefni fólst í athugun á fornleifum á nokkrum stöðum sem taldir hafa verið akurminjar.
Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að afla þekkingar á kornrækt til forna með því að rannsaka meinta forna akra og hins vegar að meta árangur tiltekinna rannsóknaaðferða við fornleifarannsóknir. Reynt var að leggja mat á hversu áreiðanlegur vitnisburður örnefni, ritaðar heimildir og munnmæli eru um tilvist fornra akra með því að leitast við að sannreyna hvort fjórir slíkir staðir geymi minjar um akuryrkju fyrr á öldum.
Heimildir um forna akra má aðallega finna í máldögum, samtímaheimildum og Íslendingasögum og einnig veita örnefni vísbendingu um akuryrkju fyrr á öldum. Þá má sums staðar finna minjar sýnilegar á yfir borði. Vettvangsathugun leiddi í ljós að meintum ökrum má skipta í tvo meginflokka, annars vegar akra á flatlendi og hins vegar akra í hallanda mót suðri. Ákveðið var að taka til rannsóknar báðar þessar tegundir akra, tvo úr hvorum flokki, til þess að fá samanburð. Fyrir valinu urðu m.a. meintir akrar í landi Hólavalla í Gerðahreppi í Gullbringusýslu.
GarðskagiForsendur fyrir vali á rannsóknarstöðum voru í fyrsta lagi yfirborðseinkenni hinna meintu akra, þ.e. stærð, lögun og yfirborðsformgerð, svo og lega þeirra í landslaginu. Í öðru lagi að til væru heimildir um akurinn eða kornrækt á staðnum. Heimildirnar gátu verið staðarnöfn, munnmæli og ritaðar heimildir s.s. máldagar. Af fjárhagsástæðum hafði fjarlægð frá Reykjavík og aðgengi einnig áhrif á val rannsóknarstaða.
Yfirborð þessara meintu akra var mælt og myndað til að gera nákvæmt hæðarlíkan og reynt var að meta hvort greina mætti sameiginleg yfirborðseinkenni sem gætu nýst til að greina svipuð fyrirbrigði í landslagi annars staðar. Markmiðið með grefti könnunarskurða í hina meintu akra var að greina jarðlög og tímasetja, að taka sýni til greiningar á frjókornum í jarðvegi og rannsaka uppbyggingu jarðvegsins og eiginleika.
GarðskagiVænst var að niðurstöður úr þeim greiningum gætu gefið vísbendingu um hvort og þá hvenær korn hafi verið ræktað á viðkomandi stað.
Margrét Hallsdóttir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands greindi frjókorn, Ian Simpson við háskólann í Stirling í Skotlandi greindi örformgerð og efnafræði jarðvegs, Kolbeinn Árnason hjá Verkfræðistofnun Háskóla Íslands annaðist fjarkönnun og loftljósmyndun og Magnús Á. Sigurgeirsson hjá Geislavörnum ríkisins greindi gjósku.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Fornleifa þeirra á norðanverðum Garðskaga, sem taldar eru leifar fornra akra, er fyrst getið í sóknarlýsingum Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen. Tæpum áratug síðar, eða 1847, ferðaðist séra Magnús Grímsson um Garðskaga og lýsti staðháttum svo: „Skaga (eða Garðsskaga) kalla menn odda þann enn þríhyrnda, er lengst gengur fram í sjó í Garðinum og snýr til útnorðurs. […] Á Skaganum hafa í fyrndinni verið girðingar eigi alllitlar, og hafa þær skipt honum í marga ferhyrnda reiti, suma aflanga, suma jafna á alla vegu. Allir þessir garðar eru nú fallnir, en þó sér enn vel til þeirra. […] Er það auðsjáanlegt, að hér hafa verið tómir akrar, og er það mikið svæði, sem þeir hafa náð yfir, því sjórinn hefur án efa brotið töluvert af því. […] Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasigrónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum“.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Brynjúlfur Jónsson ferðaðist um Garðskaga árið 1902 og farast honum svo orð um það er fyrir augu hans bar: […]Akurlönd þessi hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítilli hæð eða tóftabungu, sem er skamt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru. Suður- og austur frá langsetis-garðinum og rústinni eru margar stærri girðingar, flestar hér um bil ferhyrndar, og ná þær alt suður að landamerkjum Útskála og Kirkjubóls. Hafa það að líkindum verið töðuvellir.
Brynjúlfur gerði uppdrátt af ökrunum þar sem glöggt má sjá afstöðu þeirra. Í samningi, er Jón biskup Indriðason og Bjarni Guttormsson gerðu með sér 1340, segir að Bjarni leggi til Skálholtsstaðar fjórðung úr Útskálalandi „um fram öll þau akurlönd er Bjarni keipti til Útskála.“

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd.

Hvort akurlönd þessi hafi verið norðan og vestan Skagagarðs er ógerningur að fullyrða um. Akurhús er hjáleiga rétt norðan Útskála sem getið er 170321 og Akurhúsabás og Akurhúsafjörur eru niður undan Hólavöllum og vitanum nýja.
Skagagarðurinn hefur verið tímasettur með tilliti til gjóskulaga. Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11. öld. Er það og í samræmi við niðurstöður Guðrúnar Larsen og Hauks Jóhannessonar.
Nú, hundrað árum eftir för Brynjólfs, eru akurreinarnar afar ógreinilegar og víða horfnar með öllu. Ætla má að sjávarrof, bæði á vestur- og norðurströnd skagans, hafi valdið nokkurri eyðileggingu, en mest spjöll hafa orðið af manna völdum. Fjórar hjáleigur og nýr viti eru nú á því svæði þar sem Brynjólfur Jónsson lýsir akurreinunum 18. Þessari búsetu hafa fylgt húsbyggingar, vegagerð, túnasléttun og annað jarðrask.

Garðskagi

Garðskagi – herforingjaráðskort 1903.

Vestan akurreinanna og vegar sem nú liggur að vitanum voru í lok heimsstyrjaldarinnar fyrri plægðar stórar spildur að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og kartöflur ræktaðar þar í þrjú sumur. Á árunum 1940-41 gerði og rak breski herinn flugvöll á sléttlendinu frá veginum að vitanum og suður að Hafurbjarnarstöðum, vestan Hólabrekku og Ásgarðs. Við þessar framkvæmdir má ætla að völlurinn hafi verið sléttaður og hafa vafalítið horfið einhver af þeim garðlögum sem Brynjúlfur lýsti á þessu svæði.
Af þeim fornleifum, sem eru norðan og vestan Skagagarðs, þóttu reinarnar 18 líklegastar til að vera leifar fornra akra eins og Brynjúlfur Jónsson ályktaði. Reinar þessar eru mjög sérstakar.

Niðurstöður og ályktanir

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að afla þekkingar á kornrækt til forna og hins vegar að meta árangur af nýjum rannsóknaraðferðum við fornleifarannsóknir. Reynt var að meta hversu áreiðanlegur vitnisburður örnefni, ritaðar heimildir og munnmæli eru um tilvist fornra akra með því að rannsaka hvort fjórir slíkir staðir á Suður- og Vesturlandi geyma í raun minjar um akuryrkju fyrr á öldum. Yfirborðseinkenni hinna meintu akra voru skoðuð og grafnir í þá könnunarskurðir. Jarðlög voru tímasett með hjálp þekktra gjóskulaga og jarðvegssýni tekin til rannsóknar á frjókornum og örformgerð og til efnagreiningar. Á öllum rannsóknarstaðnum eru greinileg ummerki jarðrasks, væntanlega vegna ræktunar af einhverju tagi, en ekki var með óyggjandi hætti unnt að skera úr um hvort þar hafi verið ræktað korn.

Garður

Garðskagi – túnakort 1919.

Garðar þeir sem sjá má í landi Hólavalla og á landareignunum austan og vestan Hólavalla eru efalítið þeir sömu og Brynjúlfur Jónsson lýsti árið 1903 og taldi leifar fornra akra. Könnunarskurðir sem grafnir voru á Hólavöllum leiddu í ljós að þar er afar grunnur jarðvegur án sjáanlegra gjóskulaga. Því var ekki hægt að tímasetja jarðrask þar. Eitt frjókorn greindist úr sýnum frá Hólavöllum sem hugsanlega getur verið af byggtegund. Þetta eina frjókorn gefur þó ekki forsendur til að fullyrða að bygg hafi verið ræktað þarna á staðnum, en það gæti hafa verið gert í nágrenninu.Vegna fjárskorts reyndist ekki unnt að efnagreina jarðvegssýni frá uppgreftinum á Hólavöllum og ekki var skoðuð örformgerð jarðvegs þaðan.

Skálareykir

Skálareykir, aðsetur varðmanns korngarðanna – tóftir.

Vegna hnattstöðu og loftslags er Ísland á mörkum þess að hér megi rækta korn. Það hefur því ekki mátt mikið út af bregða til að uppskerubrestur yrði, enda hefur kólnandi veðurfar á 14. og 15. öld iðulega verið nefnt sem meginorsök þess að kornrækt lagðist af á Íslandi.
Hafi hins vegar ófrjósemi jarðvegs átt veigamikinn þátt í að kornrækt hnignaði, er eðlilegt að spyrja hverju það sætti. Varð skortur á góðum áburði til dreifingar á akra, t.d. vegna þess að nautgripum fór fækkandi þegar bændur sneru sér í vaxandi mæli að sauðfjárrækt? Nautgripir gáfu af sér stöðugan forða mykju, en sauðatað fékkst einungis meðan sauðfé var á húsum á vetrum, þ.e. ef það hefur þá ekki gengið sjálfala mestallt árið. Minnkandi skógar hafa og valdið því að skortur varð á eldiviði sem aftur kann að hafa leitt til þess að tað hafi frekar verið notað til húshitunar og eldunar en til áburðar á akra.

Kornakur

Kornakur.

Þessara breytinga á búskaparháttum sér víða merki. Til dæmis benda niðurstöður úr fornleifauppgröftum til að stærri fjós hafi tíðkast á bæjum á fyrstu öldum byggðar í landinu en þau sem algeng voru á síðari tímum. Ekki er glöggt vitað hvers vegna eða hvenær þessi þróun átti sér stað en vel má vera að samband sé á milli breyttra búskaparhátta og þess að kornrækt lagðist af. Ekki hefur áður verið sýnt fram á hversu stóran þátt ófrjósemi jarðvegs kann að hafa átt í hnignun akuryrkju á Íslandi til forna og er vissulega áhugavert að taka þetta atriði til frekari rannsóknar í framtíðinni.

GarðskagiSkortur á vinnuafli getur og hafa haft áhrif á að kornrækt lagðist af hér á landi. Akuryrkja útheimtir mikla vinnu. Undirbúningur akursins fyrir sáningu er mikið erfiðisverk og sé akurinn plægður þarf auk þess að halda uxa eða hesta. Kornskurður að hausti er einnig mannfrekur svo og þresking. Hafi bændur ekki haft bolmagn til að halda nægan mannskap til að annast kornyrkju hefur henni verið sjálfhætt. Svartidauði, sem barst til landsins í byrjun 15. aldar, kann því til dæmis að hafa hoggið það stórt skarð í búalið að ekki hafi verið tök á að halda uppi kornrækt.

Garðskagi

Kornrækt.

Með rannsókn þessari á meintum ökrum hefur verið aflað mikilvægra upplýsinga um þá staði sem rannsakaðir voru, en þó er enn langt í land að skýr mynd fáist af því hve víðtæk kornrækt hefur verið til forna. Vandasamt er að færa sönnur á hvort korn hafi í raun verið ræktað á tilteknum stað.Til að geta metið hversu stór þáttur kornyrkja var í íslenskum landbúnaði til forna er nauðsynlegt að geta greint forna akra í landslaginu, tímasett þá og metið umfang þeirra. Ástæður þess að kornrækt lagðist af á Íslandi virðast tengjast þróun landbúnaðar á annan hátt en áður var talið. En mikið vantar upp á að við skiljum til hlítar hvernig þetta gerðist, og sá skilningur fæst ekki nema með víðtækari athugunum, en hingað til hafa verið gerðar.“

Heimildir:
-Borgfirðingabók, Ársrit 2009 (01.12.2009, Björg Gunnarsdóttir, Nýting lands á Íslandi – frá landnámi til upphafs 19. aldar, bls. 94-95.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 97. árg. 2002-2003 (01.01.2004). Fornir akrar á Íslandi – meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum, bls. 79-103.
Kornrækt

Hafnarfjörður

„Kotin og þurrkvíin“ – síðari hluti frásagnar Gísla Sigurðssonar, lögregluþjóns, í Þjóðviljanum árið 1960. „Hér segir Gísli nokkuð frá gömlu hafnfirzku kotunum, byggðahverfunum og gömlum örnefnum. En hann segir líka frá riddaranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur lengur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði hefur ekki aðeins safnað heimildum er komnar hafa verið að því að glatast, heldur hefur hann einnig grafið upp þræði úr sögu Hafnarfjarðar um hálfa fjórðu öld aftur í tímann. Í fyrri hluta spjallsins við hann vorum við komin að því að ræða um einstaka bæi og örnefni.
— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði, segir Gísli, er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni.
Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790. Fram af Gestshúsum var á sínum tíma byggð fyrsta hafskipabryggja í Hafnarfirði og Bæjarútgerðarhúsin standa á Klofalóðinni. Nýjahraun, (nú 27 við Strandgötu) var byggt 1806.
Garður eða Sigþrúðarbær stóð þar sem byggt var hús Einars Þorgilssonar (nr. 25 við Strandgötu). Markúsarbær (Markús þessi var forfaðir Brynjólf Jóhannessonar leikara) stóð þar sem nú er Sjálfstæðishúsið (nr. 29 við Strandgötu). Fyrsti bær við Lækinn var Weldingshús, byggt um 1784 og kennt við Kristján Welding, steinsmið og assistent við verzlanir hér. Frá honum er mikil ætt komin. Lækjarkotsnafnið kemur fyrst fram um 1830, en það er ekki það Lækjarkot sem síðar var kunnugt móti Dverg.

Brandsbær

Brandsbær lengst t.h.

Bæirnir voru eins oft kenndir við konur, t.d. Kolfinnubær, — sem einnig var nefndur Tutlukot. Á Hamrinum var Hamarsbærinn, sem Bjarni Oddsson verzlunarmaður hjá Linnet byggði á öldinni sem leið. Sjóbúð var þar nokkru sunnar. Hamarsbæjarnafnið færðist svo yfir á annan bæ, sem nú er Hellubraut 9, en upphaflegi Hamarsbærinn var svo kallaður Bjarnabær, og er nafnið í góðu gildi enn, Hella er byggð um 1870, og heitir þar svo enn. — Þá kemur næst suður í Flensborgar- eða Skuldarhverfið. Þar verður fyrst fyrir Guðrúnarkot. Nafn þetta lifir fram yfir 1860. Þar umhverfis rís svo heil bæjarþyrping, kölluð Skuldarhverfi. Hvernig nafnið er til komið er óvíst, en líklegt má telja að bæirnir hafi verið í skuld við Flensborgarverzlunina; það voru fátæklingar sem þarna bjuggu.

Óseyri

Óseyri var upphaflega þurrabúð. En bráðlega var ræktað út Óseyrartún, rúmlega tveggja kýrgrasvöllur. Eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist báðar jarðirnar Hvaleyri og Ófriðarstaði var þurrabúð þessi veitt til túnsins, sinn hluturinn úr hvorri jörð. – GS

Óseyri verður til 1770-1774 og Ásbúð um svipað leyti og Melurinn. Brandsbær heitir svo eftir fyrsta búanda þar, Guðbrandi að nafni.

Í Vesturbænum var t.d. Skamagerens Hus, er fyrst hét svo, en síðar aldrei kallað annað en Skóbót. Skerseyrar og Bala er beggja getið í jarðabók Árna Magnússonar. Þar vestur frá var líka bær sem kallaður var Sönghóll, og hefur sennilega einhverntíma verið glatt á hjalla þar.
Fyrst framan af virðist Hafnarfjarðarnafnið aðeins hafa náð yfir byggðina norðan Lækjarins. Byggðin í hrauninu skiptist í Lækjarþorpið, það náði frá Gerðinu (hjá Barnaskólanum) og inn að Gunnarssundi.

Hafnarfjordur 1890

Hafnarfjörður 1890.

Brúarhraunshverfið náði frá Guðarssundi að Linnetsstíg — og suður að Læk við Ósinn. Frá Linnetsstíg tók við Skemmuþorpið vestur að Reykjavíkurvegi. Stofuþorpið eða Akurgerði var þaðan vestur að Merkúrgötu eða Klofa og Gestshúsum. Frá læknum og suður að Hamri var stundum nefnt Miðfjörður, nokkru seinna er öll byggðin suður að Hamri nefnd Hafnarfjörður. Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær — og var þá konungsjörð. Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Sívertsenshús

Sívertsenshús.

— Bjarni riddari var víst einn umsvifamesti Hafnfirðingur, fyrr og síðar.
— Já, og þegar hann fór að stofna til skipasmíða byggði hann m.a. þurrkví fyrir 3 skip við Skipaklett. Hún var til fram að 1882 eða 1884, ég talaði við fólk sem mundi hana þar. Í sóknarlýsingu sr. Árna Helgasonar prófasts í Görðum er ágæt lýsing á henni. Sr. Árni segir þar: „Í Hafnarfirði er grafin gröf inn í malarkambinn í hléi við klettasnös sem gengur fram í fjörðinn til suðurs skammt fyrir vestan það elzta höndlunarhús. Í þessa gröf gengur sjór með hverju aðfalli, en um fjöruna er hún þurr. Fyrir framan er hurð og sterkt plankaverk með grjóthleðslu fyrir innan, nema þar sem hurðin er. Hingað eru á haustin, með stórstraumsflóði, leidd 3 þilskip. Fleiri rúmast þar ekki, en eigi veit ég hvort þetta má heita hróf. Flest þilskip standa allan veturinn í fjörum hinu megin fjarðarins, sunnan til við Óseyrartanga, bæði þau sem hér eiga heima og eins nokkur annarstaðar frá“. Á Skipakletti er nú risin aðalbygging Hraðfrystihúss Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

— Voru ekki fleiri „klettarnir“ — og hefur þú ekki safnað örnefnum almennt?
—Jú, ég hef safnað töluverðu. af gömlum örnefnum, bæði eftir munnlegri geymd og skráðum heimildum og reynt að rekja sögu þeirra. „Klettanir“ voru t.d. „Brúarhraunsklettur“, „Fjósaklettur“, „Skipaklettur“ (stundum nefndur jagtaklettur) — hann er sem fyrr segir horfinn undir Bæjarútgerðina, og loks var Fiskalettur“. Hann var þar sem nú er Vesturgata 32; var fjórklofinn. Hann hét svo vegna þess að af þessum kletti var hægt að fiska úr landi áður fyrr. Það var strax dýpi fyrir utan og „þar á leirnum var oft mikill fiskur fyrrum.

Hamarinn

Hamarinn í Hafnarfirði.

Vesturhamarinn gekk líka stundum undir nöfnunum Sjávarhamar og Skiphamar, en Vesturhamarsnafnið hefur alltaf borið sigur af hólmi. Allir þessir „klettar“ eru fyrir löngu horfnir nema eitthvað mun enn sjást af Fiskakletti. Fyrir sunnan fjörðinn var Grandinn með Skiphól, Kringlu og Háagranda. Þar fyrir suunan tekur Hvaleyrin við. Á Hvaleyri hafa sennilega verið einhver reisulegustu bæjarhús á landinu, bæði á 19. og 20. öld. Þorsteinn Jónsson bjó þar á 19. öld og 1850—1870 bjuggu þar Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir. Ég hef lýsingu á bæ þeirra; það var mjög myndarlegur bær. Hjáleigur á Hvaleyri voru allt að því 6, og hétu þær eftir körlunum sem á þeim bjuggu. Sveinskot fær nafn af Sveini Eiríkssyni er býr þar frá 1840—1855. Halldórskot eftir Halldóri búanda þar 1847—1877. Hjartarkot eftir Hirti er bjó þar 1868—1872. Vesturkot mun lengst af hafa verið kallað því nafni af því það var vestast, en það var líka nefnt Drundurinn af því það var yzta totan á eyrinni. Ennfremur voru á Hvaleyri Þórðarkot og Tjarnarkot.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar mest var byggt voru þar sex hjáleigur samtímis, og húsmenn að auki, bæði á aðalbænum og hjáleigunum. Í sambandi við þessa könnun mína á nöfnum hef ég fengið lýsingar af bæjunum í bænum hjá mörgu ágætu fólki og hef getað borið lýsingar þess saman. Þá fór ég einnig að grafa upp hvaðan fólkið var komið, og er langt kominn með það en það er tafsamt verk. Heimildarbækurnar eru orðnar um hundrað, manntöl og kirkjubækur norður til Eyjafjarðar og og austur í Skaftafellssýslu, því fólkið var komið hingað og þangað að. Þá hef ég einnig kannað dómabækur í þessu sambandi.

Árið 1603 býr á Hvaleyri Guðlaugur nokkur Guðlaugsson. Í Alþingisbók frá Kópavogsþingi er hans getið það ár. Þeir voru teknir fjórir saman fyrir þjófnað, en svo virðist sem hann hafi tekið á sig sökina, því Jónar tveir sluppu og einnig Ólafur nokkur Pétursson er var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis, og svo vegna „eyðar konu sinnar og barna og erfiðleika í búskap“..

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ekkert slíkt hlífir Guðlaugi og um hann segir svo: „Um Guðlaug Guðlaugsson þá ályktast svo og fullnaðist að áðurskrifaður Guðlaugur undirbjó og lofaði með fullnaðarhandsölum sjálfviljuglega konunginum og hans umboðsmönnum að þjóna sína lífstíð, og refsa það honum verður skipað eftir lögmáli, það gjöra að því tilskyldu að hann hefði nokkurt auðkenni það hann mætti bera alla sína daga fyrir vondan glæp og tilverknað, og til merkis ef hann kann aftur um að hlaupast, en steli hann aftur eða sýni hann aðra nokkra óhlutverdni, þá sé hann réttfangaður og dræpur“… Hvaleyrarbóndi þessi er þannig brennimerktur og gerist Bessastaðaböðull til þess að bjarga eigin lífi og félaga sinna, annarra en þess sem var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis“.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Sonur Guðlaugs, Jón að nafni, bjó í Hamarskoti og giftist dóttur lögréttumanns á Vatnsleysuströnd. Ormur Jónsson býr á Hvaleyri 16S6—1714. Hann var leiguliði konungs. Ábúðarkjör hans eru þessi: „Kvaðir eru; Mannlán um vertíð, tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír á ári fyrir bón, og einu sinni í tíð Heidemanns sjö um árið og tveimur áskyldum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæði bóndinn verkamennina sjálfur. Ennþá hér á ofan skipaferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum kallar, vetur eða sumar, og er óvíst hve margar verði, fæðir bóndinn mann þann ávallt sjálfur, hvort sem reisan varir lengur eða skemur“. Auk þess þegar upptalda er svo lambsfóður án endurgjalds.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að Hvaleyrarbóndinn hafði marga hjáleigubændur og hefur hann vafalaust reynt að koma sem mestu af þessum kvöðum yfir á þá, svo þá sem endranær hafa byrðarnar komið þyngst niður á þeim fátækustu.
Gísli hefur frá mjög mörgu fleiru að segja, en þetta verður að nægja að sinni. Við sleppum því að ræða nú um veru Englendinga og Þjóðverja á Hvaleyri, sem báðir höfðu þar aðsetur og þá sinn hvoru megin við Ósinn, og var ærið róstusamt stundum. Gömlu skipanaustin, sem þó voru enn við lýði fyrir ekki löngu árabili, munu nú horfin.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.