Ródólfsstaðir

Gunnar Valdimarsson sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik um meinta Ródolfsstaði við Ródolfsstaðahæðir. Upplýsingar Gunnars eru mjög áhugaverðar og gefur FERLIRsfélögum ástæðu til að fara aftur á svæðið og skoða það nánar.

“Sæl FERLIRsfólk.

Ródólfsstaðir

Afstaða rústasvæðanna, 1 eru tóttirnar ykkar, 2 gerðið Hringurinn og gerðið á loftmynd á map.is – Gunnar.

Ég heimsæki vefsíðuna ykkar reglulega og hef mikið gaman af. Ég sá að þið voruð að velta fyrir ykkur staðsetningu Rótólfsstaða eða Bótólfsstaða núna nýverið og hef líka litið á umfjöllun Gunnars Grímssonar í verkefninu um byggðaleifar í Þingvallasveit. Ég get vonandi orðið ykkur að liði varðandi þetta.

Um 500-600 m í nokkurn veginn VSV stefnu frá tóttunum sem þið teljið vera undir Rótólfsstaðahæðum suðaustanverðum er annað rústasvæði. Það er vafalaust staðurinn sem Brynjúlfi Jónssyni var bent á þarna á sínum tíma, þ.e. ferhyrningslaga gerði með tótt í norðvesturhorni.

Ródólfsstaðir

Afstaða mannvirkja – Gunnar.

Veggir eru allskýrir og norðurveggurinn mikill og breiður. Til vesturs frá þessum ferhyrningi er annað gerði sambyggt, afmarkað af hringlaga vegg sem virðist tvöfaldur, eins og sá hluti hafi verið stækkaður (eða minnkaður). Í norðvesturhluta ferhyrningsins er húsatótt sem snýr nokkuð á skjön við gerðið og hefur NV-SA stefnu. Þar virðast vera tvö samsíða innrými frá norðri til suðurs og jafnvel það þriðja í norðurendanum, mögulega með dyrum til norðurs. Tótt þessi er öll mosagróin en sæmilega skýr í formi. Rétt suðaustan við hana er niðurgrafin stía með dyrum úr SV-horni. Það er gleggsta tóttin.

Ródolfsstaðir

Afstaða mannvirkja, hús, vatnsból og X, sem gætu verið mannvirkjaleifar við suðurinnvegg ef bjartsýnin er látin ráða – Gunnar.

Í norðausturhorni ferhyrningsins er áberandi trjárunni. Hugsanlega eru einhverjar leifar með norður-suðurstefnu meðfram runnanum að vestan en harla ólíklegt. Eins gætu verið ummerki tveggja stía innan á suðurvegg ferhyrningsins nærri SA-innhorni en óvíst. Það eru mosahaugar og sá vestari líklegri til að hylja eitthvað.

Til suðurs frá ferhyrningnum eru klettar með hellisskútum sem snúa hvor móti öðrum og þar á milli er hlaðinn veggur að sunnanverðu. Vel má vera að þar sé gamalt vatnsból. Í vestari hellinum eru haugar af kindabeinum, ekki mjög gömlum.

Ródolfsstaðir

Séð í vestur eftir ferhyrningnum nær og hringnum fjær. Norðurveggur ferhyrnings til hægri – Gunnar.

Nærri suðvesturhorni ferhyrningsins gæti vel verið tótt sem liggur N-S, annaðhvort tvö samsíða rými eða þá einföld stía byggð saman við túngarð, sem væri þá væntanlega innanverður vesturveggur gerðisins.

Í norðvestur frá ferhyrningnum er mosavaxin slétta eða flötur og þar virðist vera rúst með stefnu austur-vestur og líklegast dyr í austur. Það er grjóthleðsla. Fleiri tóttir gætu leynst á svæðinu en það er erfitt að glíma við þetta umhverfi og ekkert víst í þeim efnum.

Ródolfsstaðir

Hús A og norðurveggur í ferhyrningnum til hægri, horft í vestur – Gunnar.

Ef miðað er við kortið sem fylgir sóknarlýsingunni frá 1840, þá gæti maður ætlað út frá afstöðu að hér sé það sem menn á þeim tíma kölluðu “Bæjarstæði í Hrauni” og tóttirnar ykkar upp við hæðirnar þá Rótólfsstaðir. Þar virðist reyndar vera greinileg tótt með norður-suðurstefnu. En miðað við hve stutt er milli þessara tveggja rústasvæða er líka freistandi að telja þær samstæðar, þ.e. hluta af sömu heild eða býli. Engin augljós íveruhús eru á svæðinu en verið gæti að þau séu uppi á rústasvæðinu ykkar.

Ródólfsstaðir

Hús B til norðurs – Gunnar.

Varðandi þetta má benda á að nokkurn veginn miðja vegu milli þessara tveggja rústasvæða er glompa eða hvilft sem gæti verið vatnsból, virkar svolítið eins og að því sé veggur vestanmegin og gangvegur niður í holuna. Það kann að vera misskilningur en er þó þess virði að á það sé bent.

Þá eru hér nokkrar gagnlegar upplýsingar:

Ferhyrnda gerðið er um 50 m A-V og um 40 m N-S, virðist örlítið breikka til austurs. Veggir eru 2-3 m á þykkt. Hnit á norðurvegg (X).

Ródólfsstaðir

Hús A til suðurs, tóttin í gerðinu (Brynjúlfstótt) – Gunnar.

Tóttin í norðvesturhorni, Brynjúlfstóttin, er um 9 x 7 m. Köllum hana hús A. Krærnar, eða rýmin, gætu hafa verið 120 cm breiðar, sem er eðlilegt miðað við fjárhús og um 5-6 m langar. Veggir um 180-200 cm breiðir nema að norðan, þar sem veggur er 150 cm. Grjót sést á stöku stað í millivegg. Hnit (X).

Niðurgrafna stían, hús B, liggur A-V á lengdina og er þar um 2 m löng og um 1,5 m á breidd. Dyr, 40 cm breiðar, eru út úr SV-horni meðfram V-innvegg og mögulega stuttur leiðigarður vestan með þeim. Dýpt stíunnar er um 60 cm og veggjaþykkt 80-100 cm. Hnit (X).

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Möguleg tótt við SV-horn ferhyrnings, hús C, er um 5,5 m langt og 2 m breitt. Gætu verið tvö samsíða rými með N-S stefnu en austara rýmið er óvíst.Dyr eru líklega til suðurs og þá um 40 cm breiðar. Grjót er sýnilegt innan í veggjum í innrými hér og þar. Hnit (X).

Tóttin NV við ferhyrninginn uppi í mosanum, hús D, er eitthvað um 6 m löng og 2 m breið. Vesturveggur er um 120 cm þykkur. Fleiri veggjabrot kunna að vera sunnan við suðurvegg.

Ródólfsstaðir

Hringurinn, vesturveggur til S, vatnsból efst á mynd – Gunnar.

Vatnsból og hleðsla sunnan við ferhyrninginn. Klettarnir sjást langt að.

Hringlaga veggur er um 60 m A-V í þvermál í ytri hringnum en um 40 m í þeim innri. Virðist skarast við ferhyrninginn að vestan og er því ekki víst að hringurinn og ferhyrningurinn séu byggðir á sama tíma. Hnit á vesturvegginn er (X).

Mögulegt vatnsból er milli rústasvæðanna.

Mælingar eru grófar ágiskanir og ekki heilagar. Fremur til gamans.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Um myndirnar er það að segja að þær eru teknar í tveimur ferðum á þessu ári, annarri 21. maí og hinni 16. ágúst. Í hinni fyrri varð heldur hvasst fyrri smádróna áður en góður árangur náðist og ekki hægt að ná nægri hæð. Í hinni síðari varð ég fyrir því óláni að missa spaða af drónanum í miðjum klíðum sem leiddi til flugslyss (þó án verulegs tjóns). Því eru yfirlitsmyndir fjærri því að vera eins góðar og ég hefði viljað og þarf að fá þær betri. Þær ættu þó að gefa einhverja hugmynd. Almennt er erfitt að mynda tóttirnar svo vel sé enda svæðið erfitt viðureignar og litir, gróðurfar og yfirbragð tóttanna oftast í engu frábrugðið umhverfinu.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Ég er ekki menntaður fræðimaður. Þið kynnuð því að spyrja hvers vegna ég hafi þetta undir höndum. Ástæðan er sú að ég litaðist um eftir Rótólfsstöðum fyrir allmörgum árum en fann ekkert. Löngu síðar sá ég á síðunni ykkar aðleit stæði yfir og þá ákvað ég að að reyna aftur, mest til gamans og til að fá útivist og hreyfingu. Þá hafði ég eignast dróna og var því vel útbúinn. Eftir að hafa rýnt í loftmyndir þótti mér eins og eitthvað einkennilegt væri á þessum tiltekna stað og svo reyndist líka vera. Auðvitað getur verið að þið hafið vitað af þessu og ef svo er, þá hendið þið bara þessum pósti. Ef þið viljið meira, þá á ég fleiri myndir og upplýsingar. “

FERLIR fékk góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta framangreindan texta.

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Auðnasel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.

Knarrarnessel

Í Knarrarnesseli.

U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Strandarsel

Farið var með Guðmundi Þorsteinssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Hellholtið. Þeir eru kunnugir á svæðinu og ætluðu m.a. að benda á hella og tóttir, sem þeir hafa orðið varir við.

Girðingarrétt

Girðingarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var frá Girðingarréttinni niður á holtið, u.þ.b. 10 mínútna gangur. Byrjað var að líta á fjárhelli utan í vestanverðu Hellholtinu og síðan á hellinn Hafra. Varða er ofan við opið, sem horfir mót norðri. Stór og rúmgóður hellir, en fremur stuttur.
Gengið var vestur að Strandarseli (Staðarsel), sem er sunnan við austanverð Svörtubjörg. Á leiðinni var kíkt í nokur göt. Í einu þeirra vex hár burkni er teygir sig móti sól. Er greinilega búinn að vera þarna lengi. Í öðru voru kindarbein. Þarna er greinilega um sömu rásina að ræða er teygir sig til vesturs frá Hellholti. Önnur sambærileg teygir sig til suðurs. Annars virðist Hellholtið hafa vera dyngja eða þunnfljótandi gígop.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel).

Í Strandarseli eru tóttir tveggja selja. Utan í hól eru stekkir og lambakró suðvestan við hann. Samkv. upplýsingum Þórarins á Vogsósum var þarna um fráfærusel að ræða. Það gæti verið skýringin á því sem síðar kom í ljós. Vestar er hraunhóll. Vestan undir honum er hlaðinn stekkur. Enn vestar er op, Hellholtshellir. Þetta er bæði fallegur og merkilegur hellir. Hann er u.þ.b. 70 metra langur og svo alveg heill. Hann hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, þótt hann hafi verið ákjósanlegur til þess. Í hellinum eru bæði dropasteinar og hraundrýli, auk hraunstráa. Innst í öðrum enda hans er hlaðin fyrirhleðsla.

Strandarsel

Stekkur í Strandarseli.

Sunnar var komið að hleðslur fyrir hellisopi. Greinilegt er að þar hefur verið hlaðið fyrir opið og síðan gangur niður, en þakið fallið að hluta. Inni er fallegasti hraunhellir, víður og hár. Gólfið er slétt. Vel sést hlaðinn niðurhleðslan. Þetta mannvirki er ekki á örnefnaskrá svo vitað sé. Gæti hafa verið forðabúr Staðarsels eða átt að vera athvarf ef tyrkirnir kæmu aftur. Hver veit? Fallegt að minnsta kosti.
Ofan við opið ert ótt, sem ekki heldur er á örnefnaskrá. Enn austar eru enn tvær tóttir, Sunnan við þær er op á fjárhelli. Innan við það er mikil hleðsla. Við suðurenda hellsins er op og ofan þess enn ein hleðslan. Þar hefur greinilega verið gengið niður í þennan fjárhelli. Þarna eru sem sagt á litlu svæði ein tvö sel og sérstakur hellir, sem vert væri að skoða nánar.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Hvaða seltættur eru þarna um að ræða er ekki vitað. Gætu hafa tilheyrt einhverjum Selvogsbæjanna eða jafnvel hjáleigum Strandarkirkju því skv. landamerkjum virðast þau innan lands Strandar. Eða verið eldri sel Strandar því greinilegt er að þessi tvö sel eru mjög gömul, mun eldri en þau sem ofar eru.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp, auk þess sem GPS-punktar voru teknir á sérhverjum stað. Í fjarlægð virðist heiðin auð og tóm. En í nálægð eru þar minjar við hvert fótmál.

Strandarsel

Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Einiber

Ákveðið var að reyna að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.
Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraunssel-22

Hvassahraunssel – stekkur.

Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Hvassahraun segir m.a. um Hvassahraunssel: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hHvassahraunssel-21raunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.
Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings.
Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.
Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krosstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu. Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring.

Urðarás

Urðarás.

Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra. Örn kom fljúgandi úr vestri á leið yfir að Skógarnefi og flaug lágt. Ótrúleg stærð. Hefur líklega komið úr Arnstapahrauni [Afstapahrauni] þarna vestan við.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um Lónakotssel: “Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum.  Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali, klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.” 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvassahraun

Hvassahraunssel

Í Hvassahraunsseli.

Flekkuvíkursel
Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni.

Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkur

seli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóftir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Enn norðar er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – selsvarðan.

Skýringin á vörðunum tveimur, “Bræðrum”, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.

Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu.

Flekkuvíkursel

Flekkavíkursel – refagildra.

Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. “Gildrur” þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesskaga fyrrum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Gangan tók 1 og ½ klst.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

 

Mjóanes

Í BA-ritgerð Gunars Gímssonar um “Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél” í maí 2020 segir m.a. um Ródólfsstaði:

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir

Mögulegar minjar um Ródólfsstaði sunnan undir Ródólfsstaðahæðum.

Elsta heimild um eyðibýlið Ródólfsstaði er í Ármanns rímum Jóns Guðmundssonar lærða árið 1637 en í einni rímunni gerir sauðaleitarmaður sér ferð „til Rotólfs austur//í rjóðri skógar byggði“ (Ármanns rímur, 1948, bls. 8). Setningin „Rotólfsstaðir norður undan Miðfellsfjalli“ er síðar rituð á lausan miða og er stungið inn í drög af Jarðabókinni, innan kaflans um Þingvallasveit, því þar þótti miðinn best eiga við (JÁM II, bls. 363). Í sóknarlýsingunni 1840 skrifar séra Björn Pálsson: „Bótólfsstaðir og Bæjarstæði í Miðfellshrauni“ og merkir býlin hér um bil mitt á milli Miðfells og Skálholtsvegar á korti (Björn Pálsson, 1979, bls. 186).

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Brynjúlfur Jónsson lýsir Ródólfsstöðum svohljóðandi í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1905: Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhornið vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 46–47). Brynjúlfi þykir nafn bæjarins merkilegra en rústirnar sjálfar og telur þær hljóta að hafa heitið Ródólfsstaðir en ekki Rótólfsstaðir, þar sem hann telur þær kenndar við einhvern Róðólf en nafnið hafi síðar orðið að „Ródólfi“. Dettur Brynjúlfi helst í hug Róðólfur (eða Hróðólfur) biskup en bætir svo við að „auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja“ (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 47).

Mjóanes

Mjóanes.

Ekki verður séð að Brynjúlfur hafi vitað af þjóðsögulegum uppruna nafnsins í Ármanns rímum. Hann getur þá ekki sérlega nákvæmlega til um staðsetningu bæjarins en tæpum 30 árum síðar skrifar Ásgeir Jónasson úr Hrauntúni: Norðaustur af Fjallsenda eru Ródólfsstaðahæðir efri og neðri. Sú neðri er lág, og austur af henni er hóll mikill, er Rani heitir. Efri hæðin er gamall eldgígur, snýr frá austri til vesturs; vestur af henni er hæðardrag. Á því er stór og fallegur móbergshellir, sem vert mundi vera að athuga. Á milli hæðanna, sunnan grjótbala, er sagt, að verið hafi bærinn, sem hæðirnar bera nafn af, en óglöggt sáust þar tóftir síðast á nítjándu öld (sbr. þó árb. 1905, bls. 46–47). (Ásgeir Jónasson, 1932, bls. 81) Jónas Halldórsson í Hrauntúni, faðir Ásgeirs, telur hins vegar að Ródólfsstaðir hafi varla getað verið býli, enda sé ekkert þar til að lifa við og einnig skóglaust (Jónas Halldórsson, 1921).

Mjóanessel

Gamla þjóðleiðin upp á Skálholtsveg frá Miðfelli.

Jónas segir það í miðri ritdeilu við Guðmund Davíðsson vegna þjóðgarðsáforma en Guðmundur notaði munnmæli um eyðibýli á örfoka landi til marks um að þar hafi eitt sinn verið glæstir skógar, sem byggt hafi verið í en hafi eyðst vegna ágangs manna. Því væri vert að friða landið og leyfa því að gróa upp (Guðmundur Davíðsson, 1919). Jónas Halldórsson sá hins vegar fram á að missa býlið sitt vegna þjóðgarðsmyndunar og því hefur hann mögulega séð ástæðu til að slá á hugmyndir um forna byggð á uppblásnum svæðum. Eyðibýlið svokallaða var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 1927 þar sem það er kallað Ródólfsstaðir eftir túlkun Brynjúlfs.

Pétur J. Jóhannsson

Pétur Júlíus Jóhannsson. Pétur fæddist í Skógarkoti þar sem foreldrar hans voru síðustu ábúendur. Síðar bjó hann um tíma í Mjóanesi. Snemma varð ljóst að Pétur J. Jóhannsson ætti öðrum mönnum fremur aðgang að námu, sem nú er eflaust lokuð, en það er vitneskja um leyndardóma Þjóðgarðsins á Þingvöllum í smæstu efnum. Bestu menn hafa skrifað öndvegisrit í þessari grein og er þar fjölmörgu til skila haldið. En Pétur vissi fleira. Því varð það að ráði að hann fengi í hendur loftmyndir af þjóðgarðinum. Þar skrásetti hann örnefnin öll, sem honum voru kunn, vel á sjöunda hundrað innan þjóðgarðsmarkanna. Þingvallanefnd sýndi Pétri verðskuldaðan sóma af þessu tilefni. Nú er verkið varðveitt hjá Landmælingum Íslands. Mun það verða fræðibrunnur, þeim er ausa vilja af á komandi tíma. Með þeim hætti lét Pétur J. Jóhannsson okkur hinum í té heimild, sem hvergi er til nema þar.

Ekki er fjallað um eyðibýlið á opinberum vettvangi á næstu áratugum að Pétri J. Jóhannssyni undanskildum, sem hafði eftir sögusögnum að býlið hefði staðið vestan undir Ródólfsstaðahæð (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 186). Sumarið 2012 fór félagið Ferlir að hæðinni og staðsetti mögulegar rústir sunnan undir henni, þar sem þótti líklegt að búið hefði verið í stuttan tíma (Ómar Smári Ármannsson, 2012). Þar sáust ummerki um grónar tóftir og garð. Austan tóftanna sást skúti með hleðslum við opið, sem gæti hafa verið fjárskjól (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).

Nokkur efi var um tilvist Ródólfsstaða og að vissu leyti er sá efi enn til staðar. Landsvæðið norðan Miðfells er afar illa farið vegna ágangs fólks og fjár og erfitt er að gera sér í hugarlund að nokkur hafi viljað búa þar miðað við núverandi gróðurfar. Þar sem Ródólfsstaðir koma úr Ármannsrímum er spurning hvort býlið sé nokkuð meira en þjóðsaga. Aftur á móti eru tvær selstöður á þessu svæði, hvor við sinn fjárhelli. Heimildir um Ródólfsstaði eru að auki það margar að ekki er hægt að slá tilvist þeirra algjörlega af. Ef gert er ráð fyrir að allar heimildirnar séu óskeikular ætti að leita að litlum, ferhyrndum túngarði með tóftum vestan í. Staðsetningin ætti þá að vera milli Efri- og Neðri-Ródólfsstaðahæða, vestan undir þeirri efri, sunnan grjótbala og austan hraunholu.

Ekki er hægt að segja til með vissu hvort Ródólfsstaðir hafi hér verið staðsettir, að því gefnu að Ródólfsstaðir hafi í raun verið meira en þjóðsaga. Mögulega gæti þó mannvirkið, sem hér er, verið ein af þeim rústum sem Brynjúlfur Jónsson (1905, bls. 46–47) segir standa vestan í ferhyrndum túngarði. Tvö til þrjú mismunandi kolalög geta þá bent til þess að þarna séu tvö eða þrjú byggingarskeið og útlínur mannvirkisins á yfirborðinu séu leifar yngri rústa, til dæmis seljarústa líkt og túlkað hefur verið á Grímsstöðum, Litla-Hrauntúni og Hrafnabjörgum. Við frekari leit að Ródólfsstöðum ætti að einblína á þetta svæði og skoða vel alla staði þar sem trjágróður vex. Sérstaklega ætti að leita að ummerkjum túngarðs, t.d. sunnan tvískipta mannvirkisins.

Mjóanessel

Mjóanessel.

Mögulega gætu minjar leynst um 30 metrum vestan þess en þar mótar fyrir rétthyrndri dæld á yfirborðslíkani, sem er um 13 metrar að lengd. Þar gæti verið mannvirki hulið birkigróðri en borkjarnarannsóknir gætu skorið úr um hvort þar séu fornleifar eða gróið rofabarð. Svæðið ætti að skoða að vetri til en mögulega gætu snjóskaflar auðveldlega safnast upp við brekkuræturnar og torveldað heilsársbúsetu. Einnig ætti að rannsaka betur skútann sem meðlimir Ferlis telja vera fjárhelli en var ekki skoðaður í þessari umfjöllun, enda er fordæmi um selstöður við fjárhella á þessum slóðum. Ráðgátan um Ródólfsstaði telst enn óleyst en hafi þeir í raun verið til er líklegt að þeir hafi verið hér, enda samræmist staðsetningin örnefnum og heimildum, auk þess sem fornleifar eru á staðnum.

Mjóanesel

Mjóanessel – fjárhellir (Selshellir).

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1905 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi eftirfarandi um athugun sína á nálægum stað ofar í hrauninu: “Rótólfsstaðir – Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhornið vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skammt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn.

Mjóanessel

Mjóanessel – fjárhellir.

Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Ródólfsstaðir (o: Róðólfsstaðir). Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum en Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald. Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg eg að Ródólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.”

Mjóanessel

Mjóanessel – fjárhellir.

Ekki er að sjá að Gunnar hafi skoðað Mjóanesselið, sem skammt norðvestan Ródólfsstaðahæða, og eini vel gróni bletturinn í heiðinni.

Jarðabókin 1703 segir um Mjóanes (Miófanes): “Selstöðu sæmilega á jörðin í sínu landi, sem enn nú er og brúkuð” (bls. 361). Um Rófólfsstaði (bls. 363) segir: “Rotólfsstaðir norður undan Miðfellsfjalli”.

Jóhann Jónsson

Jóhann Jónsson og Rósa Jónsdóttir í Mjóanesi.

Rætt var bóndann á Mjóanesi, Jóhann Jónsson. Hann kvað selið í Karhrauni hafa verið frá Mjóanesi, en hann kynni ekki frekari deili á því, þ.e. hvenær það hafi verið í brúkun eða hvenær það lagðist af. Selstígurinn frá bæ væri þó enn vel greinilegur, a.m.k. á köflum, einkum hið efra. Þá hafi þjóðleiðin, Hraungatan, legið upp frá norðanverðu Miðfelli og fast upp með selinu að austanverðu að Gjábakka. Hún væri augljós, þótt lítt væri farin hin síðari ár.

Mjóanessel

Mjóanessel.

Þjóðleiðin var gengin að þessu sinni, frá lítilli hestarétt við þjóðveginn ofan norðanvert Miðfell. Á kortum er Fjárhellir merktur á hæð austan götunnar, en að stenst ekki. Þar eru tvo op, hvort við annað. Hið vestara geymir u.þ.b. 60 metra langan helli. Fremst eru nöguð bein kindar.
Í Mjónesjaseli er hins vegar hinn ágætasti fjárhellir. Í honum eru hleðslur. Ofan á hraunbólunni er gróin varða; selsvarða. Framan við hellisopið eru fjögu samliggjandi rými, auk einnar stakrar. Hlaðinn stekkur er skammt suðaustar. Eldri minjar má mögulega greina við selstöðuna. Ekki er hægt að útiloka að selið hafið verið byggt upp úr eldri minjum, en það virðist ekki hafa verið endurbyggt og því líklega verið í notkun í tiltölulega skamman tíma sem slíkt, mjög líklega frá því um miðja 19. öld til loka selstöðunnar um 1870. Gerð rýma og samsetning bendir til seinni tíma byggingarhátta.
Vatnsbólið frá selinu hefur verið skammt suðaustan við það. Þar eru nú uppþornaðir flekkir í mældarlægð.

Mjóanessel

Mjóanessel. Hér sést gamla þjóðleiðin vel ofan við selið sem og áframhald selstígsins inn á leiðina.

Með vísan í Brynjúlf varðandi nefndan Róðólf biskup og ferða hans á Alþingi mætti ætla að “Róðólfsstaðir” hafi aldrei verið bær, einungis “sæluhús” í takmarkaðan tíma að sumri. Af þeirri ástæðu væri vel þess virði að gefa Mjóanesseli meiri gaum en verið hefur, en þess hefur vart verið getið í heimildum til þessa. Sem fornleif er hún a.m.k. enn óskráð, sem slík. Þá gefur sóknarlýsing séra Björn Pálssonar frá  1840: “Bótlfsstaðir og Bæjarstæði í Miðfellshrauni“ og merkir býlin hér um bil mitt á milli Miðfells og Skálholtsvegar, byr undir báða vængi. Þá er Mjónessel beint “norður undan Miðfellsfjalli”. Ródólfsstaðahæðir eru skammt austan selsins. Pétur J. Jóhannesson taldi einnig að eyðibýlið hefði staðið vestan undir Ródólfsstaðahæð[um].
Þá er vert að minnast þess að “staðarnafnið” var jafnan kennt við kirkjustaði þótt nöfn þeirra bentu ekki til þess. Má í því sambandi benda á Staðarselið í Selvogsheiði, en það var frá kirkjustaðnum Strönd í Selvogi.
Allar nánari upplýsingar um svæðið í heild eru vel þegnar…

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Litla-Mosfellssel

“Tilgangurinn með verki Hitzlers var að koma þekkingunni um seljabúskapinn á Íslandi á fastan grundvöll og varpa ljósi yfir þennan þátt íslenskrar menningarsögu, eins og þegar hafði verið gert í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu og reyndar sunnar og austar í Evrópu einnig. Þar hafa mikil verk um þetta efni verið gefin út á öldinni og lætur höfundurinn í ljós undrun á því, að hið sama skuli ekki hafa veriðgert á Íslandi. Hann kennir því um, að hér á landi var seljabúskapurinn að heita má algjörlega horfinn um aldamótin [1900] og farið að fenna í sporin, þegar áhugi á þessu vaknaði í Skandinavíu á millistríðsárunum vegna þess að búskaparhættir þar voru óðum að breytast og selin að týna tölunni.

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Það er enginn vafi á því, að seljabúskapur skipti í eina tíð miklu máli hér á landi. Um það vitnar hinn miklu sægur orða í málinu, sem á rætur sínar að rekja til hans, örnefnaforðinn og seljarústir víða um land. Með hjálp þeirra auk margkyns ritaðra heimilda, munnlegra heimilda og vettvangsransókna reynir höfundur að draga upp mynd af þróuninni frá fyrstu tíð og fram á þennan dag.

Helstu ritaðar heimildir frá miðöldum eru máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar í fornbréfasafninu auk Landnámu, Íslendingasagna og lögbókanna. Frá síðari tímum er jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns drýgst. Ferðabækur og Íslandslýsingar frá 18. og 19. öld veita einnig mikinn fróðleik, einkum um lífið og störfin í seljunum, sömuleiðis ritgerðir, sem skrifaðar voru á síðari hluta 18. aldar og um aldamótin 1900 til þess að reyna að blása nýju lífi í seljabúskapinn. Sýslulýsingar byggðar á spurningalistum Bókmenntafélagsins 1839-1873 gefa nokkra innsýn í ástandið á 19. öldinni og svör við spurningalista Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1962 um fráfærur varpa nokkru ljósi yfir síðasta skeið seljabúskapar hér á landi um aldamótin 1900.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Höfundur leitar heimilda frá fyrstu tíð og er megintilgangurinn að komast að eðli og sérkennum íslensks seljabúskapar. Í síðustu köflunum er hins vegar leitast við að rekja sögu seljabúskaparins og gera grein fyrir útbreiðslu og þýðingu hans. Í þriðja kafla er t.a.m. athyglisverð tilraun til þess að meta vinnuálag í seljunum. Með því að bera saman bússmala (mjólkandi kýr og ær) skv. jarðabókinni á allmörgum bæjum með sel við upplýsingar um búsmala á nokkrum bæjum á síðari hluta 19. aldar fæst sú niðurstaða, að fjöldi áa hefur vaxið mjög miðað við kýr og þar með hefur vinnuálagið vaxið og erfiðleikar og kostnaður í sambandi við hjúahald.

Enn mikilvægari verður jarðabókin í sambandi við rannsóknina á þróun og útbreiðslu seljanna. Þótt höfundur hafi farið yfir alla jarðabókina og reiknað út hlutfallið milli selstaða og býla í þeim sýslum, sem jarðabókin telur yfir (meðaltalið reyndist 23 af hundraði og munurinn á sýslum frá ca. 10 af hundraði í Rangárvalla- og Eyjafjarðarsýslu upp á rúmlega 50 af hundraði í Dalasýslu) þá hefur hann ekki gert nákvæma rannsókn á landinu í heild, heldur valið úr svæði, sýslurnar Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu, til nákvæmrar athugunar og samanburðar við eldri og yngri heimildir (V. kafli). Forsendan fyrir valinu er sú að eftir athugun á öllum gögnum í fornbréfasafninu kemur í ljós að úr þessum sýslum hafa varðveist fleiri skjöl um selstöður en í öðrum sýslum (IV. kafli). Til samanburðar fyrir tímabilið eftir skráningu jarðarbókarinnar þrengir hann enn valið og tekur Sauðadal í Húnavatnssýslu á milli Vatnsdals og Svínadals (VI. kafli).

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Elsta heimild um selstöðu þar er máldagi Hjaltabakkakirkju frá 1318, en skv. heimildarmönnum var síðast haft þar í seli aldamótaárið eða 1904. Fjölmargar seljarústir eru í dalnum og hefur höfundur því getað rakið sögu seljanna frá miðöldum og fram á síðasta áratug, síðasta spottann á göngu um dalinn með staðkunnugum heimildarmönnum og ljósmyndavél sér við öxl.
Með þessari aðferð gefur höfundur hugmynd um umfang seljabúskapar í upphafi 18. aldar, en ekki beinlínis um útbreiðslu hans, gefur dæmi um það hversu langt aftur og fram má rekja sögu sumra selja og sýnir fram á að breytingar hafa átt sér stað á eignaraðild, nýtingarrétti, staðsetningu o.fl. Nokkra hugmynd um útbreiðslu selja gefur hins vegar kortið á bls. 93, sem sýnir bæjarnöfn með nafnliðum sel eftir heimildum frá 19. og 20. öld. Það er þó langt í frá að öll kurl séu komin til grafar þar. Auk þess sem gera má ráð fyrir að eins brot af seljunum hafi orðið að býlum má reikna með að bæjarnöfn séu ekki einhlít vitni [sbr. bæjarnafnið Stardalur). Sel urðu ekki endilega að býlum þar sem þau voru flest heldur þar sem landkostir voru bestir. Á suðurkjálkanum, þar sem sem voru tiltölulega mörg sel, er t.a.m. ekkert bæjarnafn sem vitnar um slíkan uppruna. [Hafa ber þó í huga Straumsel, sbr. framangreint]. Ennfremur má benda á að ekki eru talin býli sem komin voru í eyði um miðja 19. öld.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Hverjar eru niðurstöður höfundar? Miðaldagögnin eru fyrst og fremst skjöl sem kveða á um eignar- eða nýtingarrétt, máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar. Þau ná yfir fimm aldir, frá 1140-1570, og sýna að selstöður hafa lotið sömu reglum og hlunnindi, þannig var hægt að selja, gefa eða leigja selstöðu og kom oftast ítak fyrir ítak. Á grundvelli þess er seljunum skipt í fjórar tegundir, þ.e. 1. sel í heimalandi, sem mun vera það upprunalega, 2. sel í sel- eða seljalandi, á eigin jörð, en fjarri heimalandi, 3. réttindi eða ítak í landi annarrar jarðar, 4. leigusel. Fyrsta örugga dæmið um það er frá 16. öld. Máldagar spegla ástand, sem er býsna stöðugt, en hvernig koma aðstæður í upphafi 18. aldar heim og saman við aðstæður á miðöldum? Samanburður sýnir að þótt rekja megi réttindi til selstöðu langt aftur í miðaldir þá hafa þó miklar breytingar átt sér stað. Samanburðurinn við Sauðadal gefur til kynna að sveiflur hafa átt sér stað. Seljabúskapurinn í byrjun 18. aldar er sýnilega í afturför. Af 188 selstöðum sem nefndar eru í sýslunum þremur eru 70 niðurlagðar. [Þessi hlutfallsskipting kemur vel heim og saman við samanburð á heildarfjölda selja á Reykjanesi við Jarðabókina 1703].

Færikvíar

Færikvíar.

Rannsókn Egon Hitzlers staðfestir þá mynd sem menn hafa gert sér um þróun búskaparhátta á Íslandi, að þeir hafi haldist lítt breyttir, en verið undirorpnir nokkrum sveiflum og að yfirleitt hafi heldur sigið á ógæfuhliðina. Þannig virðist seljabúskapur hafa staðið með meiri blóma á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, t.a.m. virðist heyöflun hafa skipt miklu máli og bendir ýmislegt til þess að verulegur hluti heimilsfólks hafi dvalist í seljunum um tíma á sumrin. Hins vegar hefur höfundur ekki fundið dæmi um það að heyjað hafi verið í seljum á 19. öld. Þá getur eyðing skóga hafa átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Ef horft er til seljanna á Reykjanesi og landshátta þar með hliðsjón af framansögðu er raunhæft að álykta að ekki hafi verið heyjað í seljum þar. Þau eru yfirleitt í hraunum eða utan í þeim og gras er einungis að sjá næst eða í kringum selin eftir áburð búsmalans. Sjaldnast eru um samfelld grassvæði að ræða, nema ef vera skyldi á Selsvöllum og hugsanlega á Baðsvöllum. Þar er þó sagt (sjá meðfylgjandi skrif Guðrúnar Ólafsdóttur) að seljabúskapur hafi lagst af vegna ofbeitar. Líklegast er, miðað við aðstæður, sem eru allólíkar aðstæðum annars staðar á landinu, að einungis hafi verið um sumarbeit að ræða í og við selin á Reykjanesi. Hitt er einnig athugunarvert að eldiviður hafi verið ein forsenda seljabúskaparins. Það gæti að hluta til skýrt hinn mikla fjölda selja á Reykjanesi miðað við aðra landshluta því jafnan var, a.m.k. framan af, næg hrístekja og runnagróður í eldri hraununum á skaganum, s.s. í Almenningum, í Skógarnefi ofan við krosstapana og jafnvel á Selvogsheiðinni. Víða annars staðar á landinu voru “áreiðanlegir” lækir eða jafnvel ár, en víðast hvar á Reykjanesi urðu bændur að treysta á úrkomu til að halda við vatnsbólum og brunnum í hraununum].

Kárastaðasel

Kárastaðasel.

Auk harðanandi veðráttu og rýrnunar landgæða hefur verðlag eflaust haft sín áhrif. Hækkað verð á smjöri og aukin eftirspurn hafa líklega bæði ýtt undir fækkun selja með því að sel voru þá gerð að föstum bylum og fjölgun vegna þess að ný sel hafa verið tekin upp eða gömul tekin upp að nýju. Eftirspurnin eftir vinnufólki hefur eflaust einnig haft áhrif. Í Noregi er yfirleitt talið að kostnaður í sambandi við vinnufólk og skortur á vinnuafli hafi verið ein meginástæðan fyrir því að sel lögðust af. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær, sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skiptu minna máli.

Selvogsheiði

Selsminjar í Selvogsheiði.

Í síðasta kaflanum reynir höfundur að setja íslenska seljabúskapinn í alþjóðlegt samhengi. Það kemur víst engum á óvart að hann virðist vera sama eðlis og sá sem í Noregi kallast sæter (seter) bruk, í Þýskalandi Alm-Alp- eða Sennwirtschaft. Helstu einkenni hans eru að búsmalanum er haldið til haga fjarri heimahögum til þess að létta af þeim og tryggja betri beit. Unnið er úr afurðunum í seljunum og þær fluttar til heimabæjar annað hvort að hausti eða við og við. Dæmi eru einnig um að önnur fæðu- eða forðaöflun hafi átt sér stað. Höfundur hefur ekki fundið neitt, sem sérkennir íslensku selin nema hvað helst að yfirleitt er lítill, ef nokkur, hæðarmunur á heimabæ og seli hér á landi, enda staðhættir aðrir en í Noregi og Ölpunum. Á þeirri forsendu hafnar hann líka kenningu Lars Reitons (1946), að hér á Íslandi hafi mátt finna vor-, sumar- og haustsel líkt og sums staðar í Ölpunum og Noregi. Vorselin og haustselin gegndu því hlutverki að létta af heimahögum á meðan fjallagrösin voru ósprottin eða farin að sölna.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Höfundur lýkur bók sinni á þeirri frómu ósk, að hann hafi lagt grundvöll sem nýta megi til framtíðarrannsókna á sérstökum þáttum sem enn þurfi nánari athugunar við og bíði fræðimanna í öðrum greinum og með öðrum aðferðum en fílólógískum og sagnfræðilegum. Vissulega vakna ýmsar spurningar við lestur bókarinnar. Fengur væri að uppgrefti á einhverjum seljarústum. Rannsóknir á örnefnum, þjóðsögum og munnmælum tengdum seljum gætu einnig varpað ljósi yfir þenann þátt menningarsögu okkar. En hvað sem því líður þá verður ekki annað sagt en að Egon Hitzler hafi með bók sinni rennt traustum stoðum undir þær niðurstöður, sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1961) og Þorvaldur Thoroddsen (1908-22) voru búnir að setja fram fyrr á öldinni”.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Hitzler byggir lýsingar sínar og athuganir að meginefni á heimildum úr þremur sýslum norðanlands. Þótt seltíminn og verklag í seljum hafi ekki verið svo ólíkt á milli einstakra landshluta hafa aðstæður á hverjum stað þó áreiðanlega sett mark sitt á hvorutveggja, líkt og var með aðra atvinnuhætti eða jafnvel talað mál. Ekki er því alveg hægt að heimfæra niðurstöður Hitzlers ógagnrýnislaust upp á selbúskapinn á Reykjanesi því aðstæður þar hafa verið ólíkar öðrum hluta landsins þótt ekki væri fyrir annað en hraunin, takmarkað landrými eða beitarmöguleika og heyjanir. Líklegt má þó telja að verklagið sjálft hafi verið svipað um land allt, ef ummerkjum í seljunum að dæma virðist húsakostur yfirleitt hafa verið fremur rýr á Nesinu ef bornar eru t.a.m. saman tóftir í seljum norðanlands.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðasel

Gengið var að Óttarstaðafjárborginni (Kristrúnarborg). Borgin er mjög heilleg,

Brennisel

Hleðslur og tóft í Brenniseli.

Skammt austan við borgina er Slunkakríki, rauðamölshóll í djúpri hraunkvos. Á hólnum stóð eitt sinn listaverk, en er nú niðurnítt. Gengið var upp að Brenniseli, en á leiðinni var leitað að öðru kolaseli, sem fannst fyrir u.þ.b. tveimur árum, en týndist aftur. Það kom í leitirnar skammt norðan við Brennisel. Það virðist vera mun eldra. Brenniselið er með fallegri fyrirhleðslu og tótt í gróinni kvos. Fast austan hennar er hlaðið fjárskjól. Í tóftinni er talsvert hrís. Erfitt er sjá tóftina eftir að runnar fara að laufgast í byrjun sumars.

Álfakirkja

Álfakirkja í Hraunum.

Haldið var upp í Álfakirkjuna og hún skoðuð. Norðan undir henni er hlaðið fjárskjól með fyrirhleðslum. Álfakirkjan var talinn einn helgasti staður álfanna í Hraunum. Hraunamenn trúðu því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skútanum.
Þá var haldið til suðurs upp í Lónakotssel. Í selinu eru fjögur hús, þrír stekkir og fjárskjól í hraunkvos. Fjárskjólið er niður og utan í hraunkvosinni vestan við selið. Í henni er einnig einn stekkjanna eða gömul rétt. Norðaustan seljanna er stekkur og annar sunnan þeirra. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Þá var haldið yfir að Óttarstaðaseli. Vestan þess er Tóhólaskúti, hlaðið fjárskjól. Selið sjálft er einungis eitt hús með þremur rýmum (dæmigerð selstaða á Reykjanesskaganum). Sunnan þess er þrískiptur stekkur og lítil rétt. Enn sunnar er Rauðshólsskúti, hlaðið fjárskjól. Norðnorðaustan hans er hlaðinn nátthagi. Norðan selsins er Norðurskjól, svo til alveg við Óttarstaðaselsstíginn. Stígnum var fylgt til norðurs. Á leiðinni var komið við í Sveinsskúta, hlaðið fyrir fjárskjól, og Bekkjakúta, einnig hlöðnu fjárskjóli í hraunkvos. Komið var niður á Alfararleiðina og henni fylgt til vesturs uns hringnum var lokað.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hólmur

Í BS ritgerð Gunnars Óla Guðjónssonar í maí 2011 um “Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd“, sem skrifuð var í Landbúnaðarháskóla Íslands, má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um verstöðvar og aðbúnað í verum með áherslu á svæðið í kringum Stapann við Voga.

Verstöðvar

Verstöðvar á Suðvesturlandi.

Öll hin gömlu ver eru nú horfin. Gunnar leggur t.d. til endurgerð vers á svæðinu í ljósi sögunnar. Sambærilega tillögu má finna annars staðar á vefsíðunni þar sem lagt er til að slíkt mannvirki verði endurgert í umdæmi Grindavíkur.

Verbúð

Verðbúð síðari tíma.

“Verstöðvum á Íslandi má skipa í fjóra flokka. Frá heimvörum réru menn frá vör er var í nánd við bæinn. Í margbýli var venja að bændur sameinuðust um heimvör og gerðu þá út saman. Eins og nafnið gefur til kynna, voru útverin andstæða við heimverin. Benda heimildir til þess að útverin hafi snemma komið til sögunnar en m.a. er talað um veiðistöðvar í þjóðveldisaldarritum. Það tíðkaðist í útverum að menn dveldust þar á meðan vertíð stóð. Í upphafi voru verbúðirnar ekki rismiklar, aðeins tóftir sem tjaldað var yfir. Tímar liðu og verbúðirnar fóru smám saman að minna meira á hýbýli manna þar sem fólk gat hafist við allan ársins hring (Lúðvík Kristjánsson, 1982).

Aðbúnaður í verum

Stapabúð

Stapabúð undir Stapa.

Í blönduðum verum og heimverum tíðkaðist að vermenn gistu á bæjunum í kring eða bændur sáu um að útvega gististað. Í útverum voru hinsvegar sérstakar verbúðir. Stærð búðarinnar fór eftir gerð skipsins sem gert var út í verstöðinni. Tíðkaðist að ein skipshöfn hefði eina verbúð útaf fyrir sig. Veggir verbúðarinnar voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Þakið var úr sperrum og yfir þær lagt torf. Dyr voru ýmist á gafli eða hlið. Eini gluggi verbúðarinnar var skjár á þaki eða þá yfir dyrum.

Þorlákshöfn

Verbúð í Þorlákshöfn.

Byggingarlag verðbúðar líktist útihúsum á sveitabæjum. Í flestum tilvikum voru stutt göng inn af dyrum. Inn af þeim tók við aðalvistarveran sem var sjálf búðin, þar sem verbúðarmenn höfðust við. Ekki var verbúðin hólfuð niður, heldur opin og rúmstæðin gerð úr torfi og grjóti meðfram veggjum.
Í stærri verbúðum var oft autt rúm innaf búðinni og kallaðist kór.

Verbúðarmenn deildu rúmum eða bálki eins og það var kallað. Var það í höndum formanns að velja hvaða tveir og tveir menn lágu saman. Þeir skiptu svo með sér verkum, hvort sem það var að sækja vatn, eldivið eða sjá um lampann í verbúðinni. Önnur tilfallandi verk voru t.d. að elda mat og hita kaffi í morgunsárið. Kjásarhaldari var sá sem tæmdi hlandkoppa verbúðarmanna.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Til þess að komast að í verbúð, varð að fylgja mönnum ákveðinn skammtur af fæði. Reglur voru þær að hverjum manni yrði að fylgja kjöt, rúgur, feitmeti, harðfiskur og sýra. Þessi kostur var kallaður mata. Yfir daginn fengu verbúðarmenn eina heita máltíð, soðninguna. Áður en farið var á sjó fengu verbúðarmenn sér að éta en ekki tíðkaðist að taka með fóður í róðra, nema þá einn blöndukút með sýru. Eftir túr, þegar búið var að draga bát í land beið þeirra saðning, var það í hlutverki fanggæslunnar að matreiða hana. Er menn höfðu étið nægju sína var gengið frá skipinu og aflanum. Fanggæslan var kona sem þjónustaði vermenn. Hún þvoði þvott, bjó um rúm, sá um matseld og þreif. Á Suðurnesjum voru þessar konur nefndar hlutakonur (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Vermaður

Vermaður í sjóklæðum.

Vermenn klæddust skinnklæðum sem hlífðarfatnaði. Í Íslenskum sjávarháttum III, segir Lúðvík Kristjánsson svo frá að tíðkast hafi að kenna piltum að sauma sér klæði úr skinni strax að lokinni fermingu. Þó svo að konur hafi fengist við skinn má víst telja að það hafi verið karlmannsverk. Í fötin var brúkað sauðskinn en nautshúð í skógerð, þó kom fyrir að skór væru gerðir úr hákarlaskráp, þá ef hann fékkst. Um sjóklæðin má segja að þau hafi verið stakkur sem náði niður á mið læri og brækurnar best heppnaðar ef náðu þær upp undir hendur. Þó voru til margvíslegar gerðir af sjóbuxum sem kallaður voru nöfnum eins og skóbrók, ilbrók og sólabrók. Saumaðir voru leðurskór við skóbrókina en ilbrókin saumuð saman að neðan á meðan sólabrókinni var hafður sóli í stað skós. Sjóskór voru svo notaðir við sólabrækur sem og ilbrækur. Skinnklæðum varð að halda mjúkum og voðfelldum, til þess voru þau reglulega mökuð feiti. Í verkið notuðu menn lifur og til að ná sem bestum árangri varð hún að vera ný og mátti helst ekki vera mjög feit.

Vermaður

Skinnbrækur vermanns.

Bestu útkomuna fengu menn ef þeir komust yfir skötulifur, en hrálýsi var notað í hallæri og þótti ekki eins gott. Svo má geta þess að selspik þótti skila góðum árangri. Eftir að klæðin höfðu verið mökuð voru þau samanbrotin og sett undir farg í rúman sólarhring. Eftir það voru þau þurrkuð í tvo þrjá daga. Uppúr 1870 fóru menn að leggja skinnklæðum sínum og með tímanum hurfu þau úr sögunni. Í staðinn komust í tísku olíustakkar og klæði úr öðrum efnum. Í köldum veðrum og vistarverum voru vettlingar ómissandi og tíðkaðist að vermenn kæmu með nokkur pör með sér. Við róður þófnuðu vettlingar eins og svo var kallað og urðu vel rónir vettlingar næsta vatnsheldir. Á höfði í róðri, báru menn hettu en síðar kom hattur til sögunnar. Algengt var að sjóhattar væru innfluttir og framleiddir úr lérefti (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Saga og búseta

Stapi

Stapinn – Brekka t.v. og Hólmabúð fjær.

Þegar gengið er niður bratta, hlykkjótta götuna niður Brekkuskarðið birtist fyrir augum manns Hólmabúðir. Greinilegt er að hér hefur verið mikið líf og hér hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir, en saga þeirra er nú glötuð. Þó nokkuð er þó vitað um sögu Hólmans síðan 1830-1940, þegar hið svonefnda anlegg rís. Anlegg var það sem menn nefndu salthúsið og fiskitökuhúsið sem P. Chr. Kundtzon lét reisa. (Árni Óla, 1961) Á loftum þessara húsa munu hafa verið bækistöðvar aðkomusjómanna, en sjálfir gerðu þeir sér grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður. Saltið fengu þeir aðflutt á skútum á sumrin, á sama tíma og fiskurinn var sóttur.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Á svæðinu er skrokkur af innrásarpramma sem bandamenn smíðuðu til þess að flytja herlið sitt til Frakklands. Þegar komið er út í Hólmann er hann nokkuð stór og hringlaga og þar má finna margar leifar af mannvirkjum fyrri tíma. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fiskitökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins sem þar var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breidd. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús sem gætu hafa verið nýttar til þess að breiða út fisk.

Stapi

Brekkuvör – Hólmurinn fjær t.h.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefur sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum niður í gegn um tíðina og ekki er hægt að sjá hve mörg þau hafa verið, en þó standa heillegar tóftir af sumum. Þarna er að finna leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðal kálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, sem gætu hafa verið nýtt sem bátaskýli, en þangað höfðu bátar verið dregnir inn í skjól þegar illa viðraði. Þessi rétt eða skýli hafa verið rétt við lendinguna innan á Hólmanum, en síðan var önnur lending utan á honum.

Hólmur

Hólmurinn.

Seinustu útgerðarmenn á svæðinu á meðan anleggið var og hét, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík (Árni Óla, 1961). Það er talið að þeir hafi gert út á 18 bátum á þeim tíma og ef áætlað er að jafnaði séu um sjö menn á hverju skipi verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna á bilinu 140-150 manns (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Hólmur

Hólmurinn.

Þurrabúð rís fyrst í Hólmi árið 1830. Bjarni Hannesson hét sá er þar bjó fyrstur, en hann lést árið 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni sem var vinnumaður hjá þeim og bjuggu þau í Hólmabúðum fram til ársins 1848. Það er á þessum tíma sem Knudtzon byrjar að byggja anleggið og leggur hann undir sig Hólmabúðir eftir að Guðmundur fer þaðan. Á þessum tíma tóku kaupmenn að hugsa um að tryggja sér þann mikla fisk sem barst að landi á Suðurnesjunum og greiddu þeir mönnum utan af landi sem vildu gera út á vertíð, en mynd 20 sýnir verstöðvar á suð-vesturlandi.

Hólmur

Hólmurinn.

Vorið 1876 fluttist Stefán Valdimarsson Ottesen í Hólmabúðir og bjó þar til 1882. Þá var mjög farið að draga úr útgerð á svæðinu og árið 1898 tók við Björn Guðnason og var væntanlega seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður sem þar bjó, var Elís Pétursson og var hann þar í aðeins eitt ár, en eftir þann tíma fara engar sögur af stöðinni og munu húsin hafa verið rifin um aldamót, efnið flutt í burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Stapi

Stapinn – Brekkutóftir og Hólmurinn.

Seinasti aðkomumaðurinn, eða útlendingurinn eins og þeir voru kallaðir í Vogum, sem gerði út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn Höfrung árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum. Þetta var 8 tonna bátur og Haraldi leist ekki á að gera út þaðan, en taldi hann Hólmabúðir henta vel sem útgerðarstað fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn og ef illa viðraði var hægt að draga bátinn á land. Þegar Haraldur flutti var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en þar reisti hann og stundaði útgerð í þrjú ár, en flutti síðan til Sandgerðis.

Stapi

Brekka undir Stapa; minjar.

Á undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka sem var reist af Guðmundi Eysteinssyni þegar hann fór frá Hólmabúðum árið 1848 og bjó hann þar fram til 1861. Eftir það voru þó nokkrir ábúendur sem stöldruðu við í stuttan tíma, áður en Guðmundur Jónsson fluttist þangað árið 1869 og bjó þar í 30 ár.

Brekka

Brekka udir Vogastapa.

Árið 1899 komu þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex börnum sínum. Pétur bjó í Brekku til dauðadags árið 1916 og ekkja hans bjó þar eitt ár eftir dauða hans, en þá tók tengdasonur hennar Magnús Eyjólfsson við búinu og bjó þar til ársins 1930. Greinilega má sjá vel hlaðinn stofuvegg bæjarins uppistandandi. (Árni Óla, 1961)”
(Brekka fór í eyði 1928 og íbúðarhúsið flutt í Voga.)

Heimild:
-Gunnar Óli Guðjónsson, BS – ritgerð; Maí 2011. Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd, Umhverfisskipulag – Landbúnaðarháskóli Íslands.

Stapi

Stapabúð undir Vogastapa.

Hvaleyrarsel

Hús Skógræktarfélags Hafnarjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna; Skátalundur. Sumarhús er og undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Hvaleyrarvatn

Tóft í Húshöfða við Hvaleyrarvatn.

Í Húshöfða má t.d. sjá tótt af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tótt í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðastöðum, en var síðast nótað árið 1922 frá Ási. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.
Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóttir tveggja selja.

Ássel

Ássel.

Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóttir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli. Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, upp á klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fók að koma auga á þær, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni; minjar – uppdráttur ÓSÁ.