Sellesjupollur

Í Fréttablaðinu árið 2020 fjalla þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson um “Litadýrð” Soganna og nágrennis:

Spákonuvatn

Spákonuvatn- Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

“Stundum er leitað langt yfir skammt þegar kemur að náttúruperlum. Á Reykjanesi, við dyragætt höfuðborgarinnar, er fjöldi spennandi útivistarsvæða sem eru mörgum lítt kunn og ennþá færri hafa heimsótt. Eitt þeirra er sérkennilegt háhitasvæði upp af Höskuldarvöllum, ekki langt frá Keili og sunnan Trölladyngju og Grænudyngju. Þessi litríku leirgil kallast því skrítna nafni Sogin og hafa mótast af jarðhita og eldvirkni í iðrum jarðar. Í gegnum gilin rennur Sogalækur en á Reykjanessskaga eru ekki margir lækir eða ár, þar sem yfirborðið er víðast þakið gljúpum en fallega mosavöxnum hraunum.
Sogin eru einkar litrík og minna um margt á Jökulgil á Torfajökulssvæðinu, enda þótt þau séu miklu minni. Þau er því stundum kölluð Litlu Landmannalaugar en ólíkt Torfajökulssvæðinu og hverasvæðinu í Krýsuvík, sem er skammt frá, státa þau ekki lengur [af] spúandi hverum. Engu að síður er svæðið allt sannkölluð útivistarparadís og litadýrð Soganna minnir óneitanlega á olíumálverk.

Sogin

Ofan Soga.

Þarna býðst fjöldi spennandi gönguleiða sem henta flestum og eru tilvaldar fyrir hálfsdags- eða kvöldgöngu. Aðeins tekur hálftíma að komast að svæðinu akandi frá höfuðborginni og er einfaldast að aka veginn upp að Keili og áfram að bílastæði við ónýtta tilraunaborholu upp af Höskuldarvöllum.
Annar valkostur er að hefja gönguna austar, frá Krýsuvíkurvegi. Frá bílastæðinu upp af Höskuldarvöllum er gengið í suðaustur í átt að Spákonuvatni, en á leiðinni ber fyrir augu fallegan eldgíg með einkar fallegu útsýni vestur að píramídalaga Keili.
Stuttu síðar blasa tvö önnur falleg gígvötn við, Grænavatn og Djúpavatn, og þegar komið er upp á nálægan hrygg sést vel yfir Sveifluháls og stóran hluta Reykjaness. Sveigt er til norðurs og koma þá litrík Sogin skyndilega í ljós, líkt og úr leynum og með stórkarlalegar Grænudyngju og Trölladyngju í baksýn. Litadýrðin er ólýsanleg, ekki síst í björtu og annað hvort hægt að halda ofan í gilin eða halda sig ofar í gróðurvöxnum hlíðum. Áður en snúið er heim er tilvalið að ná tindi annað hvort Grænudyngju (400) eða Trölladyngju (375 m) en af þeirri síðarnefndu er frábært útsýni yfir höfuðborgina og fjöllin norðan hennar.
Þessi móbergsfjöll urðu til við gos undir ísaldarjöklinum, en í hlíðum þeirra eru síðan yngri eldgígar sem sumir hverjir hafa gosið á nútíma og skilið eftir sig falleg mosavaxin hraun.”

Heimild:
-Fréttablaðið, 216. tbl. 08.10.2020, Litadýrð í leynu, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 12.

Sogin

Sogin.