Færslur

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Sogasel

Gengið var um nýja borsvæðið vestan Trölladyngju, yfir að Oddafelli og með því að Hvernum eina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Áður en komið var að syðsta hluta Oddafellsins mátti sjá gamlan stíg yfir hraunið norðan fellsins í átt að norðausturenda Driffells. Einungis lítill gufustrókur stendur nú upp úr hvernum, sem eitt sinn var stærsti gufuhver landsins, sást jafnvel frá Reykjavík þegar best lét. Frá hvernum var genginn gamall stígur er liggur austan hversins og inn með Selsvallalæknum. Þórustaðastígurinn liggur þar upp úr Kúalág, en gegið var áfram suður yfir vellina, framhjá seljunum undir hlíðinni og að vestari seljunum suðvestast á þeim. Norðan þeirra er stígur yfir hraunið að Hraunsels-Vatnsfelli. Ákafla er hann vel markaður í klöppina. Uppi á því austanverðu er allstórt vatnsstæði. Þarna er um að ræða þrjú sel og eru fallegir stekkir við þau öll, auk réttar og fjárskjóla í hrauninu innan þeirra.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Gengið var upp með Núpshlíðarhálsi, með læknum þar sem hann kemur niður gil í hálsinum (Sogadal) og áfram utan í honum að Sogagíg. Þegar komið er að honum myndar gígurinn fallega umgjörð um selið með Trölladyngjuna í bakgrunni. Í gígnum eru a.m.k þrjár tóttasamstæður og mjög heillegur og fallegir stekkir og rétt, hlaðinn utan í norðurhlið gígsins, auk smalaskjóls. Ein tóft til viðbótar er utan gígsins. Handan hans í norðri myndaði Oddafellið litskrúðungan forgrunn að Keili er sveipaði um sig þunnri skýjahulu.

Sogasel

Í Sogaseli.

Á leiðinni var gerð leit að útilegumannahelli sem átti skv. þjóðsögunni að vera nálægt Hvernum eina. Ekki er ólíklegt að hann sé fundinn. Í hellinum áttu útilegumenn að hafa hafst við í byrjun 18. aldar. Þeir herjuðu á bændur á Vatnsleysuströnd og er Flekkuvík sérstaklega tilgreind í sögunni. Gerðir voru út leiðangrar til að handsama þá, sem að lokum tókst. Voru þeir þá færðir að Bessastöðum og hengdir í Gálgaklettum (sjá HÉR). Sagt er að bændur hafi eyðilagt bæli útilegumannanna svo aðrir tækju ekki þeirra stað.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Staðurinn, sem um ræðir er hinn ákjósanlegasti. Á aðra hönd er jarðhiti og hina kalt vatn. Innan seilingar hefur fé gengið um haga. Ofan við bælið er hæð og má auðveldlega sjá til mannaferða úr öllum áttum. Er þá auðvelt að dyljast í nágrenninu. Misskilningur er að menn hafi hafst við í hraunhellum til dvalar eða búsetu. Til þess voru þeir of rakakenndir, kaldir og hreinlega blautir. Þessi staður hefur aftur á móti að öllum líkindum verið reftur og þakinn hellum og mosa og þannig haldist þurr og verið ágæt vistarvera. Í honum hafa þrír til fimm menn auðveldlega getað dvalið með góðu móti.
Gangan tók 3 klst og 24 mín. Frábært veður – logn og hlýtt – roðagyllt fjöllin.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Spákonuvatn

Óvenju litlar heimildir virðast vera til um jafn stórbrotið svæði og umleikur Spákonuvatnið undir norðurhlíð Selsvallafjalls. Hér er þó getið a.m.k. tveggja:
Spakonuvatn-2“Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ. á m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru
hugsanlega runnin eftir landnám. Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður.
Til Spakonuvatn-3norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður. Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta
sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Spakonuvatn-4

Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog. Spákonuvatn er sennilega gígvatn. Úr Sogum fellur lækur norður á Höskuldarvelli og annar úr Núpshlíðarhálsi niður á Selsvelli.”
“Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku.
Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði seSpakonuvatn-5m kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn (Jón Jónsson, 1978). Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól. Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu.

Spakonuvatn-6

Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis. Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins. Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.”

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Reykjavík, október 2009
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga. Helgi Páll Jónsson, HÍ 2011.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Sellesjupollur

Í Fréttablaðinu árið 2020 fjalla þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson um “Litadýrð” Soganna og nágrennis:

Spákonuvatn

Spákonuvatn- Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

“Stundum er leitað langt yfir skammt þegar kemur að náttúruperlum. Á Reykjanesi, við dyragætt höfuðborgarinnar, er fjöldi spennandi útivistarsvæða sem eru mörgum lítt kunn og ennþá færri hafa heimsótt. Eitt þeirra er sérkennilegt háhitasvæði upp af Höskuldarvöllum, ekki langt frá Keili og sunnan Trölladyngju og Grænudyngju. Þessi litríku leirgil kallast því skrítna nafni Sogin og hafa mótast af jarðhita og eldvirkni í iðrum jarðar. Í gegnum gilin rennur Sogalækur en á Reykjanessskaga eru ekki margir lækir eða ár, þar sem yfirborðið er víðast þakið gljúpum en fallega mosavöxnum hraunum.
Sogin eru einkar litrík og minna um margt á Jökulgil á Torfajökulssvæðinu, enda þótt þau séu miklu minni. Þau er því stundum kölluð Litlu Landmannalaugar en ólíkt Torfajökulssvæðinu og hverasvæðinu í Krýsuvík, sem er skammt frá, státa þau ekki lengur [af] spúandi hverum. Engu að síður er svæðið allt sannkölluð útivistarparadís og litadýrð Soganna minnir óneitanlega á olíumálverk.

Sogin

Ofan Soga.

Þarna býðst fjöldi spennandi gönguleiða sem henta flestum og eru tilvaldar fyrir hálfsdags- eða kvöldgöngu. Aðeins tekur hálftíma að komast að svæðinu akandi frá höfuðborginni og er einfaldast að aka veginn upp að Keili og áfram að bílastæði við ónýtta tilraunaborholu upp af Höskuldarvöllum.
Annar valkostur er að hefja gönguna austar, frá Krýsuvíkurvegi. Frá bílastæðinu upp af Höskuldarvöllum er gengið í suðaustur í átt að Spákonuvatni, en á leiðinni ber fyrir augu fallegan eldgíg með einkar fallegu útsýni vestur að píramídalaga Keili.
Stuttu síðar blasa tvö önnur falleg gígvötn við, Grænavatn og Djúpavatn, og þegar komið er upp á nálægan hrygg sést vel yfir Sveifluháls og stóran hluta Reykjaness. Sveigt er til norðurs og koma þá litrík Sogin skyndilega í ljós, líkt og úr leynum og með stórkarlalegar Grænudyngju og Trölladyngju í baksýn. Litadýrðin er ólýsanleg, ekki síst í björtu og annað hvort hægt að halda ofan í gilin eða halda sig ofar í gróðurvöxnum hlíðum. Áður en snúið er heim er tilvalið að ná tindi annað hvort Grænudyngju (400) eða Trölladyngju (375 m) en af þeirri síðarnefndu er frábært útsýni yfir höfuðborgina og fjöllin norðan hennar.
Þessi móbergsfjöll urðu til við gos undir ísaldarjöklinum, en í hlíðum þeirra eru síðan yngri eldgígar sem sumir hverjir hafa gosið á nútíma og skilið eftir sig falleg mosavaxin hraun.”

Heimild:
-Fréttablaðið, 216. tbl. 08.10.2020, Litadýrð í leynu, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 12.

Sogin

Sogin.