Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.