Færslur

Bræðrapartur

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi”, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Bræðrapartur
Bræðrapartur
Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti núr Suðurkots- og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það var grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag.
Í þeim tíma er Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fékk skotæfingasvæði til afnota í Vogaheiði um 1960, var deilt um það hvort Bræðrapartur ætti að fá leigugjald í hlutfalli við aðra landeigendur í Vogum, og svo fór að þáverandi ábúandi fékk sinn hlut í landleigunni.
BræðraparturÁrið 1929 byggði Guðmundur Kotsson nýtt hús í Bræðraparti. Eitt var öðru fremur merkilegt við húsið því á því var innsiglingarmerki inn í Vogahöfn. Eftir að Vogavík fékk löggildingu sem höfn árið 1893 voru settir upp tveir staurar um 3 metrar á hæð og stóð annar við suðvesturhornið á Bræðraparti, um 10 metra frá húsinu, en hinn var niður við sjó sunnan við sjávarhúsið. Þessir staurar þurftu að bera saman svo rétt væri siglt inn í höfnina. Í myrkri var ljósker sett á staurana sem sýndu rétta leið. Nokkru eftir að nýja húsið var byggt var ljósker sett í loftglugga er sneri til sjávar og þannig gert að ekki þurfti staurana. Svo þegar húsinu var breytt árið 1947 og sett á það brotið þak, var kvistur settur á á vesturþekjuna og þar í gluggli með ljóskerinu. Þetta þótti nauðsynlegt fyrir skipaferðir, þar til hafnarsvæðið var tekið til endurskoðunar og mælt upp að nýju, Þá kom í ljós að gamla innsiglingaleiðin var talin ónothæf miðað við nýja leið inn í höfnina, er þáverandi vitamálastjóri Axel Sveinsson fann og mældi út. Eftir það voru sett upp ný innsiglingaljós 200 metrum suður af Bræðraparti. Eru það tveir ljósastaurar með sjálfvirku ljósnæmi á 100 metra millibili.

Stóru-Vogar

Í máldaga frá 1367 í Fornbréfasafninu 3. bindi bls. 221 segir: “Maríukirkja og hins heilaga Þorláks biskups í Kvígubogum”, ennfremur segir í bréfi frá 1533, 9. bindi bls. 660, “að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi slegið prest með könnu til blóðs í hálfkirkjunni í Vogum”.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 2020.

Trúlega er hér átt við Stóru-Voga og bendir allt til þess að þar hafi verið kirkja fram undir siðaskiptin.
Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 af Jóni, bróður Magnúsar Waage, og byggingameistari var Sverrir Runólfsson steinsmiður, sá hinn sami er byggði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu. Allar byggingar Sverris bera vott um vandvirkni vel hugsandi manns. Þess má geta hér að Sverrir gerði tillögu til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1870, um að byggja veitingahús í Tjarnarhólmanum og leggja brú frá Lækjargötu og út í hólmann, en meirihluti í borgarstjórn felldi þá hugmynd Sverris.
Stóru-VogarÞað Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. Nýja Stóra-Vogahúsið var með glæsilegustu húsum á Suðurnesjum. Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.
Stóru-Vogar áttu helming Vogalands á móti Minni-Vogum. Um aldamótin 1900 voru nær allar jarðir og tómthús í Suður-Vogum nýttar af Waageættinni eða niðjum Jóns Daníelssonar, föður Magnúsar Waage. Allir Suður-Vogabúendur greiddu landskuld til Stóru-Voga, þar með Stapabúð, Brekka og Hólmabúðir, nema þeir er voru orðnir sjálfseignabændur og höfðu keypt sig úr Stóru-Voga tofunni.
Þegar minnst er á Stóru-Vogaættina, er gjarnan nefndur sem forfaðir hennar Jón Daníelsson “hin ríki og- eða sterki”. Var hann f. 23. mars 1771, d. 16. nóv. 1855.
Í dag á Vatnsleysustrandarhreppur Stóru-Vogajörðina að undanskildum hluta heiðarlands, sem erfingjar Jóns Eyjólfssonar Waage á Seyðisfirði tóku undan við söluna á sínum tíma, og eru eigendur að.

Minni-Vogar
Minni-Vogar

Í Minnivogum bjuggu hjónin Klemens Egilsson, f. 31. okt. 1844, og kona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 1846. Klemens var einn af stórbændum hreppsins.

Klemens lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, smiður var Þorbjörn Klemensson úr Hafnarfirði. Húsið var byggt sem tvíbýli.

Minni-Vogar

Minni-Vogar. Verkið er eftir B. Hrein Guðmundsson en í eigu Sigríðar Jakobsdóttur.

Klemens Egilsson ýmist keypti eða lét smíða skip, sem m.a. fluttu vörur milli landa. Hann og Sigurjón J. Waage létu smíða dekkbát í Noregi og þegar hann var tilbúinn til afgreiðslu, þá sigldi framleiðandinn honum til Íslands. Þetta skip hét Sörli. Skipstjóri var Sigurjón J. Waage, vélstjóri var Sæmundur Klemensson í Minni-Vogum. Útgerðin gekk vel að jafnaði, en Sörli var brellinn. Hann slitnaði tvívegis frá bátalegunni, í fyrra skiptið náðist hann og var fluttur heim, eins og hver annar strokuhestur, en í seinna skiptið tók breskur togari hann og ætlaði að færa hann til Keflavíkur. Hafði áhöfn togarans bundið dráttartaugina um mastrið og talið það öruggt, en Sörli sökk í þessari ferð. Togarinn dró inn dráttartaugina og mastrið fylgdi með. Það komast til eigendanna og mun nú vera notað fyrir ljósastaur við Vogabryggju.

Austurkot
Austurkot
Í manntali árið 1703 er sagt að búið hafi verið á sitt hvorum helmingi jarðarinnar í Minni-Vogum, eða hálflendum sem þá var kallað. Mun þar átt við tvíbýli, en norðurhverfið allt var var Minni-Voar og því síðan skipt í hálflendur, þannig að Minni-Vogar héldu 2/3 af heildinni og Austurkot 1/3 og er svo enn í dag. Að auki er nokkur hluti landsins beggja eign, s.s. Norðurkot, Grænaborg og óunnið land að mörkum Brunnastaðahverfis.

Norðurkot
Norðurkot
Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. Ábúandi þar var Nikulás Jónsson, f. um 1830. Hann var af Stóru-Vogaættinni. Kona hans var Guðrún Gísladóttir frá Kröggólfsstöðum í Ölfushreppi, Árnessýslu.
Nikulás var dugnaðarmaður. Hann átti og gerði út marga báta þegar best lét og gerði einnig út með öðrum, s.s. Klemensi í Minni-Vogum. Hann átti lengi lítinn bát sem hann kallaði Þurfaling, enda var sagt að Nikulás berði lóminn manna best, þó talinn væri ríkur. Hann lét breyta opnu skipi sínu í dekkbát og var sá bátur kallaður Lásabátur.
Norðurkot
Nikurlás lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. Þótt ekki sé mér kunnugt um hvenær það var gert, þá tel ég að hann hafi látið gera það eftir að hann efnaðist og þó ekki fyrr en eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn árið 1856. Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Í rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest rætur á þeim. Hluti húsanna eru þó hruninn fram á sjávarbakkanum. Var því byggt nýtt hús úr timbri árið 1882, (úr James-Town strandinu). Var Nikulás þá um fimmtugt.

Grænaborg
Grænaborg
Grænaborg var byggð árið 1881 í landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots að 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir eru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar.
Ari Egilsson var lærður skipstjóri og stjórnaði bæði eigin skútum og bróður síns og föður frá Minni-Vogum. En stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann voru 1883, þá tveggja ára gamalt. Þá voru þar vermenn auk heimilisfólks og komust allir af, nema ein vinnukona er brann inni.
Grænaborg
Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1816, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í Stóra-Knarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg.
Grænaborg brann síðan þriðja sinni 2002.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Norðurkot

Skoðað var umhverfi Norðurkots á Vatnsleysuströnd. Ætla mætti af áhuganum að dæma að þar hafi verið um höfuðbýli að ræða, en eittvað öðru nær – og miklu merkilegra. Norðurkot var dæmigert kotbýli frá höfuðbýlinu Þórustöðum. Þrátt fyrir það var á Brunnurstaðnum stofnsettur einn fyrsti barnaskóli landsins, auk þess sem staðurinn á sér bæði fagurt og blómlegt mannlíf frá fyrri tíð. Í Norðurkoti hafa varðveist heillegar grunnhúss- og garðhleðslur dæmigerðs kotbýlis þar sem ábúendur byggðu afkomu sína á sjósókn og dæmigerðu búfjárhaldi;  2 kýr og 12 ær á vetur setjandi. Síðasta íbúðarhúsinu var lyft af grunni sínum árið 2007 og flutt á fyrirhugað húsminjasvæði við Kálfatjörn – á nútímalegan steinsteyptan grunn.
Lýsingu þessa af Norðurkoti sömdu bræðurnir frá Kálfatjörn, Ólafur og Gunnar Erlendssynir. Báðir eru þeir gagnkunnugir í Norðurkoti. Ólafur er fæddur í Tíðagerði 23. október 1916. Hann kemur að Kálfatjörn fjögra ára gamall og elst þar upp til tvítugs. Gunnar er fæddur í Tíðagerði 7. febrúar 1920. Hann flytur að Kálfatjörn nokkurra vikna gamall og hefur búið þar síðan. Þá ræddu þeir bræður við Jón Björnsson frá Norðurkoti og Egil Kristjánsson frá Hliði. Lýsingin er skráð í nóvember 1976. Kristján Eiríksson gekk frá handriti.

Uppdráttur

“Á torfunni milli Kálfatjarnar og Þórustaða eru m.a. tóftir býlanna Hliðs, Tíðargerðis og Norðurkots. Hlið var byggð úr Kálfatjarnarlandi, en Tíðargerði og Norðurkot voru byggð úr Þórustaðalandi og liggur milli þess og Kálfatjarnartorfunnar, eins og fram kemur í landamerkjabréfi. “Örnefni virðast hér heldur fá. Ofan við bæinn, á mörkum milli Þórustaða og Norðurkots, er Tíðhóll. Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum. Vatnagarður nefnist blautlendur mói, sem er neðan Norðurkotstúns; nær hann óslitið ofan kampsins að Goðhólsmörkum. Uppsátrið í Norðurkoti er í svokölluðum Krókavörum. Þær eru  neðan undan bænum, nokkurn veginn miðja vegu milli syðri og nyrðri landamerkja. Þar átti einnig Tíðagerði uppsátur. Framundan vörunum, hið næsta, er dálítið sandlón í skerjaklasanum, upp við kampinn. Þar er kallað Lónið. Framan við Lónið eru allhá þangsker og aðeins eitt mjótt skarð í, og flýtur þar nokkru síðar en í Lónum. Þar kallast Þröskuldur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Þá tekur Legan við og Kálfatjarnarsund. Þarna við vörina eru skiparéttir og fiskbyrgi, þar á meðal stæðileg tóft mjög vel hlaðin úr löguðu grjóti, lögð í sement. Það var fiskbyrgi.

(Ath.: Naustin voru alltaf á sjávarkampinum, venjulega með hlöðnum veggjum a.m.k. á tvo vegu. Í þau voru skipin sett þegar búizt var við vondu veðri og einnig að lokinni vertíð. Var það kallað að nausta. Stundum voru naustin notuð sem skiparéttir. Þær stóðu þó oftast hærra yfir sjávarmál. Var lögun þeirra svipuð og naustanna. Upphaflega hafa þær líklega verið hlaðnar á þrjá vegu þótt á seinni tíð hafi þær verið alla vega. Í skiparéttunum var bátunum hvolft yfir veturinn.)
Við sjávargötuna, skammt ofan við naustin, var pyttur einn, er Árnapyttur nefnist. Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór.  Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
FiskbyrgiTíðagerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar. Djúp graslaut er rétt norðan við bæjarstæðið í Tíðagerði. Hún var kölluð Lautin. Á klöppinni norðan við Lautina, rétt utan við túngarðinn, er vatnsstæði, Klapparvatnsstæði.
Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarðar upphaflega.”
Ari Gíslason skráði örnefni í Norðurkoti. “Jörð í eyði, næst við Þórustaði á Vatnsleysuströnd, er í eyði. Uppl. eru frá Erlendi Magnússyni, Kálfatjörn, en er eitthvað málum blandið. Neðan við Tíðhól sem nefndur var hjá Þórustöðum og er mjög nærri merkjum heitir Tíðagerði. Þá er þar frammi í sjó tvö sker sem heita Stóri-Geitill og Litli-Geitill, þessi sker fara í kaf um flóð. Milli þeirra og nafnlausra skerja sem tilheyra Þórustaðatöngum heitir Geitlasund. Þá eru hér þrjár lendingar; Krókar, þar var lent frá norðurbæ Þórustaða, Norðurkoti og Tíðagerði.

Sjávargata

Fram af Markkletti er flúð sem heitir Sigga, í Kálfatjarnarlandi. Goðhóll er í landi Kálfatjarnar, niður af er Goðhólsvör og Goðagljá. Auðnagljá og Þórustaðagljá eru sandpollar þar sem skipin lágu. Hlíð var eyðibýli á merkjum. Vatnsstæðisklöpp er fyrir neðan Tíðagerði, neðst á Vatnagörðum er Árnapyttur. Gljárnar eru framan við hnýflana en fremstur allra hnýfla er Þórustaðahnýfill.
Frá landi skiptast sker í fjóra flokka eftir gerð og lögun. Næst landi eru sker, þau eru allavega löguð. Næst eru flúðir, það eru yfirleitt flöt, mikil um sig og koma upp um fjöru. Hníflar, háir hólmyndaðir, koma upp um fjöru, eru ekki klapparbalar heldur grjót og oft vaxnir geysistórum þönglum (graðhestaþönglum). Boðar eru lengst frá landi, utastir allra, allavega lagaðir og stundum án þess að koma upp úr um stórstraumsfjörur.”

NorðurkotGísli Sigurðsson skráði einnig örnefni í Norðurkoti. “Norðurkoti við Þórustaði tilheyrir land allt innan girðingar sem nær frá Merkjagarði þeim sem er í milli Kálfatjarnar og Tíðagerðis að norðanverðu við hinn svonefnda Vatnagarð, allt suður að vírgirðingu þeirri sem Björn Jónsson hefur sett yfir túnið milli Norðurkots og Austurbæjarparts Þórustaða.
Úr neðri enda girðingar eru mörkin beina stefnu í útnorður niður á sjávarbakkann sem er fyrir neðan, í austurhornið á girðingunni sem þar er á bakkanum, gjörð kringum túnblett sem Eyjólfur á Þórustöðum hefur ræktað þar upp úr gömlum tóftum. Túnmörk þessi stefna beint á Geitil en þannig nefnist útsker sem er norðanvert við Þórustaðatanga.
Innan áðurnefndrar girðingar fylgir túnið og Vatnagarðurinn nefndu býli, Norðurkoti, allt frá túngarði þeim sem hlaðinn er landsunnan megin við býlið, allt beint niður á Sjávarkamp.
NorðurkotSamt er hér frá undanskilið tún það og hússtæði og kálgarður sem útmælt hefur verið býlinu Tíðagerði sem liggur innan fyrrnefndra girðinga og er það á stærð hér um bil 2400 ferfaðmar, fyrir utan útfærslu þá sem síðan var útmæld, landsunnan megin við Tíðagerðistúnið handa því býli.
Í óskiptu heiðalandi utan túns hafa nefnd býli, Norðurkot og Tíðagerði, beitarrétt fyrir fénað sinn sem tiltölu við ¾ hluta Þórustaðatorfunnar. Landamerki þessi eru þannig samin af mér undirskrifuðum eiganda að Norðurkoti, Tíðagerði og Austurbæjarparti Þórustaða – Fjármálaráðuneytið 26.8. 1927.”

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið. -RS

Norðurkot virðist að venjulega hafi verið talið með Þórustöðum og tilheyrði því Norðurkotstún. Á norðurmörkum voru Merkjagarður og Vatnagarður og túnmörk milli Norðurkots og Þórustaða-Austurbæjarparts. Úr þessum túnmörkum með girðingu liggur lína niður á sjávarbakkann við girðingu, kringum túnblett Eyjólfs á Þórustöðum. Túnmörkin stefna síðan í útnorður á Geitil sem ekki mun heyra til býli þessu að neinu leyti. Vatnagarðurinn er talinn fylgja nefndu býli en í honum er Árnapyttur og svo tilheyrir þessu býli Vatnsstæðisklöpp. Norðurkot virðist vera í eyði nú.
Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi garður, matjurtagarður, og svo var heiðarlandið óskipt en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins en Tíðagerði átti 2400 ferfaðma land.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ólafs og Gunnars Erlendssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Norðurkot

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

“Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.”

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Móakot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, segir m.a. frá bæjunum í Ásláksstaðahverfi.

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið, sem nú stendur, var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum árið 1881.

Lúðvík og Friðrik Davíðssynir eru eigendur að jörðinni og er Atlagerði, Móakot og Nýjibær í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða þann 16. október 2017 kl. 17:09.

Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Atlagerði

Atlagerði

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða, móðurjörð hvrefisins. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.

Fagurhóll
Fagurhóll var í suðausturhorni Áslákstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus.

Nýibær

Nýibær

Nýibær (Hallandi).

Nýibær hét áður Hallandi. Tóftir bæjarins sjást enn. hann var byggður 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.

Móakot
Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðuhluta Ásláksstaðarjarðarinnar og er nú sameinuð aðaljörðinni.

Sjónarhóll

Sjónarhóll

Sjónarhóll. Innri-Ásláksstaðir að baki.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson “homapati” Sjónarhól. Árið 1885 hafði Lárus keypt hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi hálflendunnar Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott. Núverandi steinhús var byggt 1929. Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, keypti Sjónarhól og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir. Sjónarhóll t.h.

Um aldamótin 1900 bjuggu á Innri Ásláksstöðum Magnús Magnússon og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Eftir að Magnús brá búi og fluttist til Hafnarfjarðar lagðist jörðin undir Sjónarhól og hús Innri-Ásláksstaða voru eftirleiðis notuð sem útihús.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 261-272.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi.

Hólmsbúð

Í bók Árna Óla “Strönd og Vogar“,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um “Gömlu veiðistöðina” Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.

Strönd og vogar

Strönd og vogar – Árni Óla.

“Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Stóru-VogarVið gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun vera landnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með merkilegri minjum. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). 

En grunnur þess er óbifanlegur. Það eru útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
HómabúðÁ þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.

Vogar

Brekkuvörin. Hólmabúð h.m.

Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
HólmabúðVið höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu.

Stapinn

Stapabúð.

Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg” rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn”.
HólmabúðMjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Hólmabúð

Hólmabúð séð af Stapanum.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.

Stapabúð

Stapabúð.

Seinasti „útlendingurinn”, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti.

Stapinn

Hólmabúð 2022.

Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið” þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.

Hólmabúð

Hólmabúð.

Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.

Stapinn

Hólmabúð.

Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið.

Stapinn

Brekka 2022.

Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: “Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to  Hólmabúð   twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide.  It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.“]

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.

Stapakot

Stapabúð.

Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur.

Stapinn

Stapabúð 2022.

Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er.

Stapinn

Upplýsingaskilti við Stapann.

Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.”
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.”

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.

Hólmabúð

Pramminn innan við Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um “Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd“.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn. Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi. Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.

-Þorvaldur Örn Árnason
íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll var steinsteypt samkomuhús á Vatnsleysuströnd. Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur nú fest kaup á húsinu og landareign sem því tilheyrir.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll árið 2018.

Kirkjuhvoll var byggður af Ungmennafélaginu Þrótti og Kvenfélaginu Fjólu árið 1933. Skortur var á húsnæði fyrir starfsemi félaganna og almennt samkomuhald í hreppnum. Haldnar voru ýmsar samkomur í húsinu í þá tvo áratugi sem það var starfrækt.

Kirkjuhvoll hefur verið í einkaeign undanfarin ár og látið mjög á sjá. Búið er að hreinsa út úr húsinu og rífa viðbyggingu, anddyri, á norðurhlið þess. Endurbætur hafa verið skipulagðar hafist handa um uppbyggingu.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2020.

Það er með tilhlökkun sem Minjafélagið ræðst í þessa framkvæmd, segir á vef bæjarins. „Samfélagið allt nýtur góðs af varðveislu sögunnar,“ segir að lokum.

Innan við glugga á vesturhlið, við sviðsinnganginn, má lesa eftirfarandi:

“Búið var að fá kvenfélagið “Fjóla” í samband við ungmennafélagið um bygginguna, sem átti að vera timburhús 18×12 álnir að stærð með leiksviði. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir nokkra ungmennafélaga sem voru að byrja að keyra grjót í húsgrunninn þann 23. nóv. að nú væri Jakob búinn að ákveða að húsið skildi vera úr steinsteypu.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2020.

Það var næstum orðið verkfall og óánægjan með þessa einræðisráðstöfun framkvæmdastjóra bygginganefndarinnar, eins og Jakob var titlaður, breiddist um allan hreppinn. Álitið var að steinhús yrði dýrara, að það kæmist aldrei upp o.s.frv. en framkvæmdastjórinn sat við sinn keip. Hann þaggaði alla óánægju niður með ýmsum röksemdum, sem hann hafi á reiðum höfnum og vinnan hélt áfram. En Jakob gekk lengi á eftir undir nafninu Hitler. Það var snjólítið og frostlaust fram eftir öllum vetri svo að steypan gekk vel. Húsið komst undir þak og var innréttað, og á aðfangadag jóla var meðal annars unnið að því að reka saman bekki svo hægt yrði að vígja húsið um jólin. Á annan í jólum var svo haldin vígsluskemmtun fyrir innansveitarfólk. Húsið átti að heita fullgert og hafði öll vinna við það verið gefin af meðlimum félaganna nema vinna yfirsmiðsins.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2024. Kirkjuhvoll var byggður af Ungmennafélaginu Þrótti og Kvenfélaginu Fjólu árið 1933.

Mikið hefur unnist síðan Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar eignaðist Samkomuhúsið Kirkjuhvol 2019. Fyrsta og ef til vill stærsta verkefnið var að tæma húsið og komu margar hendur að því verki.

Svona verkefni verður aldrei að veruleika ef ekki kemur til fjármagns. Félagið hefur fengi styrki víðs vegar að. Segja má að þetta hafi mesta tilfinningalega gildi allra verkefna sem félagið hefur ráðist í. Ýmsir einstaklingar hafa styrkt það með peningagjöfum og vinnuframlagi. Sveitarfélagið hefur einnig stutt verkefnið með styrkjum og velvild ásamt Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Húsfriðunarsjóði.

Mörgum þykir mikið verk eftir svo vel megi vera. Við segjum; mikið hefur verið unnið og frábært að vera komin svona langt.

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2024.

Markmið sumarsins er að ljúka sem mestu utanhúss. Nú þegar hafa gluggar verið smíðaðir og settir í, bíslag rifið, bíslagið teiknað, leitað tilboða, fleygað fyrir lögnum, steypt vatnsbretti, spáð í múrprufur, rifið innanhúss og farnar margar ruslaferðir.

Von er á smiðum vegna vinnu við bíslag á allra næstu dögum. Og svo er alltaf eitthvað sem tínist til í dagsins önn.

Gerð hefur verið spjallsíða þar sem framgangur verksins er tíundaður og boðað til vinnustunda. Félagið tekur fagnandi við öllu vinnuframlagi, það eru alltaf verk fyrir alla og ómetanlegt líka að finna fyrir stuðningi almennings við verkið.”

Kirkjuhvoll

Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

“Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á “hafnfirskan” stein í vörðunni er klappað nafnið “Stefánsvarða”.” (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

“Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga. Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: “Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson”.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: “Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána”.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – “Hot Stuff”
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

 

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.

Eggert Kristmundsson

Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum.

“Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.

Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.

Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?

Stakkavík

Stakkavík – loftmynd.

Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Efri-Brunnastaðir

Hvert fóruð þið með sláturfé?

Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.

Stakkavík

Stakkavík – Stakkavíkurborg.

Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Stakkavík

Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.

Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.

Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Hlín JohnsonÉg hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.

En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.

Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.

Hvað bjó hún þarna lengi?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.

Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.

Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.

Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Efri-BrunnastaðirNei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.

Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.

Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.

Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.

Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.

Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.

En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.

Efri-Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir (h.m.) – flugmynd.

Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.

Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.

Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Eggert KristmundssonJá, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.

Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.

Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.” -M.F.

Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Halldórsstaðir

Þegar fyrirliggjandi upplýsingar um Halldórsstaði á Vatnsleysuströnd eru skoðaðar kemur ýmislegt, sem ekki hefur verið svo augljóst, í ljós.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – málverk; hangir uppi í Kaplakrika.

Bærinn er á túnakorti frá 1919 sýndur austan við Narfakot. Þar hefur verið steypt fjós og grunnur undir timburhús.

Á málverki eftir teikningu frá því um aldamótin 1900 er bærinn hins vegar sýndur ofan við sjávarkampinn vestan Narfakots. Þar eru miklar tóftir, gerðar úr torfi og grjóti. Norðan við tóftirnar er nýrra sjóhús, hlaðið úr grjóti líkt og sjá má neðan við Þórustaði og Kálfatjörn. Frá horni bæjartóftanna eru leifar stórgripagirðingar er nær að hlöðnum garði Miðhúss.

Björn Eiríksson

Björn Eiríksson, fyrir miðju, ásamt tveimur öðrum við bautastein sem var bak við hús á Reykjavíkurvegi 22 en er nú á Kaplakrika.

Teikningin er í bók Guðmundar Gísla Hagalíns. “Að duga eða drepast“, saga Björns Eiríkssonar, skipstjóra og bifreiðarstjóra, síðar á Sjónarhóli í Hafnarfirði.  Þar lýsir Guðmundur aðstæðum að frásögn Björns og falla þær vel að lýsingum hans af þessum tóftum.
Eiríkur Jónsson fluttist ásamt eiginkonu sinni Sólveigu G. Benjamínsdóttur að Halldórsstöðum árið 1889. Þau bjuggu þar í 18 ár og eignuðust 11. Eiríkur flutti að Sjónarhóli í Hafnarfirði 1907.
Eiríkur drukknaði þann 18. apríl 1922 í fiskiróðri ásamt Jóni Ágústi syni sínum og Ara B. Magnússyni. Meðan hjónin bjuggu að Halldórsstöðum lifðu þau jafnan við rýrarn kost líkt og segir í framangreindri bók Guðmundar Hagalíns er kom út árið 1962.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Kampinum.

Ekki er ósennilegt að bærinn Hlöðversnes hafi verið þarna á kampinum, hann hafi síðan verið færður ofar í ofanverða túnræktina og nýtt hús byggt, auk þess fjós hafi síðar verið reist við það úr steinsteypu. Bærinn hefur þá fengið nafnið Halldórskot, en síðan verið fært ofar í landið, líkt og fyrirrennarinn.
Bærinn á kampinum hefur verið notaður sem útihús og sjóhús um tíma, áður en þau féllu endanlega. Steinsjóhúsið var reist þar sem áður var hlaðinn hringlaga steinhjallur.

Í skráðum heimildum má lesa eftirfarandi um bæina við Hlöðversnes:

Hlöðversnes (Hlöðunes)

Hlöðversnes

Hlöðversnes – túnakort 1919.

Bæði nöfnin virðast notuð nokkuð jafnt og má sennilega deila um það hvort réttara sé. Hlöðversnes er ritað þannig í kirkjubókum seinni tíma. Nafnorðið Hlöðver er komið allt frá Landnámu og merking orðsins er “sá sem sigrar, vinnu stríð (orrustu)”.
Klemens Kristmannsson bjó árið 1959 á Hlöðversnesi með sambýliskonu sinni, Guðlaugur Sigríði Sveinsdóttur, en síðan lagðist Hlöðversnes í eyði og eru þar rústir einar eftir.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 127. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.

Halldórsstaðir

Gamla Hlöðversnes (Halldórsstaðir)?

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703: Hlöðuneskot eina hjáleigan. JÁM III, 129.
1847: Hjáleigur í byggð eru Narfakot og Hlöðuneskot. JJ, 90. “Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.” Ö-Hlöðunes, 3, 5. Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. GJ: Mannlíf og mannvirki, 253.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á kampinum – sjóhús.

Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot.
1703: “Túnin brýtur sjór með sandi og grjóti æ meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagar litlir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 129.
1919: Tún 3,6 teigar, garðar 1500m2 samkvæmt túnakorti.
Bæjarhóll Hlöðuness er á náttúrulegri hæð í miðju túni. Jörðin fór í eyði í kringum 1960 og er nú í eigu Nesbús sem rekur eggjabú á jörðinni suðaustan við gamla heimatúnið, fast norðan við Vatnsleysustrandarveg.

Hlöðversnes

Hlöðversnes.

Á bæjarhólnum sjást nokkrir grunnar, m.a. líklega síðasta íbúðarhússins. Engar vísbendingar eru um annað en að bærinn í Hlöðunesi hafi staðið á þessum stað um aldir. Í túninu eru grónar hæðir og suðaustan við bæinn hefur verið tjörn eða mýrlendi en það var þurrt þegar skráningarmaður var á ferð í júní 2012.
Sem fyrr segir er bæjarhóll Hlöðuness á náttúrulegri hæð og er bæjarhóllinn sjálfur ekki afgerandi. Hann virðist vera um 30×25 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Hann er um 1 m á hæð.

Hlöðversnes

Hlöðversnes.

Á bæjarhólnum er hlaðinn grunnur íbúðarhúss og ummerki um tengd hús. Húsgrunnurinn (kjallarinn) A snýr orðvestur-suðaustur. Hann er um 7×5 m að stærð. Op er á honum á miðri suðvesturhlið. Þar eru þrep ofan í kjallarann. Í veggjum er sementslím milli steina og eru þeir múraðir að utan að hluta. Kjallarahleðslurnar standa um 0,6 m upp úr jörðu. Kjallarinn er um 1,2 m á dýpt og sjást 8 umför í hleðslum. Veggir eru 1-1,5 á þykkt. Hlaðinn skorsteinn er í kjallaranum.

Hlöðuneskot

Hlöðuneskot

Hlöðuneskot / Miðhús.

Hjáleiga Hlöðuness 1703 og 1847. JJ, 90. Jarðardýrleiki óviss 1703. JÁM III, 129.
Ekki er vitað hvar Hlöðuneskot var og ekki reyndist því unnt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju. Ekki er ósennilegt að þetta býli hafi verið á sama stað og eitthvert þeirra býla sem nú eru þekkt undir öðrum nöfnum s.s. Halldórsstaðir 137:021 eða Miðhús 137:022 en hvorki fundust heimildir né heimildamenn sem gátu varpað ljósi á það.

Miðhús

Hlöðuneskot

Miðhús / Hlöðuneskot.

Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi. Þar bjó m.a. Ólafur Þorleifsson er týndist í Vogaheiði við fjárleitir rétt fyrir jólin árið 1900. Bein hans fundust í gjá í heiðinni um 30 árum síðar.
Miðhús varð eign “Narfakotsbræðra”.

“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: “Miðhús er álitið að sé 10 álnir, að fornu mati úr Hlöðuneshverfi. Lóð sú er býli því fylgir, sem er upphaflega Matjurtagarður og Stakksstæði, er öll afgirt með Grjótgörðum og liggur við sjóinn …”.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi – mynd í bók Guðmundar Björgvins; Mannlíf og mannvirki í vatnsleysustrandarhreppi.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi.” Miðhús fóru í eyði upp úr aldamótunum 1900 og lagðist býlið undir Narfakot. Minjar um Miðhús eru um 200 m norðan við bæ.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var tún Miðhúsa afmarkað með túngarði B og innan hans voru tvö mannvirki; bæjarhús.
Minjarnar eru í suðausturhorni lítils túns niður við sjó sem afmarkað er með grjótgörðum. Sjórinn hefur mjög gengið á land á þessum stað og brotið af túninu. Meint bæjartóft er á hól í túninu.
Minjar um Miðhús sjást á svæði sem er um 50×30 m að stærð og snýr austur-vestur.

Nýlenda
Nýlenda var í landi Höðversness. Bærinn lagðist í eyði um 1900.

Hlöðversnes

Hlöðversnes á ofanverðu túninu.

“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Nýlenda var í landi Hlöðversness. … Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um 1900 og þá lagðist Nýlenda í eyði.” Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Nýlenda var og því var ekki unnt að staðsetja býlið.

Holt

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir austan Narfakots.

Holt var í Hlöðversneslandi. Bærinn fóri í eyði skömmu eftir 1900.

Bjarghóll
Bjarghóll í landi Hlöðversness fór í eyði fyrir aldamótin 1900.

“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá.

Gerðisviti

Gerðisviti og Gerði.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Jörðin fór í eyði fyrir aldamótin 1900.” Á túnakorti frá 1919 er staðsetning býlisins Bjarghóls sýnd en þar stendur einnig að öll ummerki um býlið séu horfin. Býlið var um 60 m norðan við Halldórsstaði og um 185 m norðaustan við Hlöðunes. Bjarghóll var á fremur litlum og lágum hól í flatlendu og sléttlendu túnstykki norðaustan við veg heim að Narfakoti. Í norðausturhorni túnsins er allhár hóll sem er að hluta innan túns og að hluta utan þess. Hlaðinn garður er meðfram túni og tengist Narfakotstúngarði.

Hlöðversnes

Tóft í vesturtúni Hlöðversness.

Engar minjar um býlið Bjarghól sjást á vettvangi og hefur það líklega allt verið rifið og sléttað út við túnrækt. Ekkier hægt að útiloka að einhverjar leifar af því leynist enn undir sverði.

Klöpp
Farin í eyði fyrir aldamótin 1900, en var í landi Hlöðversness.

Narfakot
Narfakot var grasbýli. Narfakotsbræður, Sigurður og Páll. Þeir höfðu vitavörslu á Gerðistangavita (Áður atlagerðisviti). Árið 1886 var þar byggð varða og upp úr henni var staur allhár og var olíuljósker halað upp og niður, eftir því hvað við átti. Ljóskersstaurinn var látinn duga þar til viti, sá sem enn stendur, var byggður árið 1918.

Narfakot

Narfakot.

Eftir lát þeirra bræðra lagðist búskapur niður í Narfakoti að mestu um miðja 20. öld.

Hjáleiga Hlöðuness 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 700 m2 samkvæmt túnakorti.
Gamli bærinn í Narfakoti stóð á sama stað og núverandi íbúðarhús, á fremur lágum hól í miðju Narfakotstúni. Heilsársbúseta er í Narfakoti.
Umhverfis núverandi íbúðarhús eru kálgarðar 004 og 012 til norðvesturs og suðvesturs. Suðaustan við húsið er sléttuð flöt sem er að hluta grasi gróin og að hluta hellulögð.
Engar minjar um gamla bæinn sjást og ekki virðist um uppsöfnun mannvistarlaga að ræða á bæjarstæðinu svo að hægt sé að tala um bæjarhól. Ekki virðist vera kjallari undir íbúðarhúsinu en ætla má að eitthvert rask hafi orðið á bæjarstæðinu við byggingu þess.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir voru 1/4 úr Hlöðunestorfunni. Búið var á bænum fram yfir 1960.

“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, og Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Utan um Halldórsstaðatún er túngarður. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Jörðin var byggð úr 1/4 af torfunni. Búið að slétta allt.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru Halldórsstaðir um 150 m norðaustan við bæ.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Jörðin fór í eyði á síðari hluta 20. aldar. Á túnakortinu eru sýnd 5 útihús, einn brunnur, ein þró og þrír kálgarðar. Fyrir utan bæjarstæðið sáust þrjár tóftir (ein þeirra er ekki sýnd á túnakorti), leifar af brunni og leifar af tveimur kálgörðum. Á túnakorti er afgirt tún NNA við tún Halldórsstaða og stendur þar að það sé útgræðsla og að þar hafi þurrabúðin Bjarghóll staðið en búið sé að slétta úr minjum um það. Ekki er ljóst hvort að útræktin hafi tilheyrt Halldórsstöðum eða Narfakoti á fyrri hluta 20. aldar þegar túnakortið var gert. Í dag (2012) tilheyrir það hins vegar ábúendum í Narfakoti.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Túnið á Halldórsstöðum er nokkuð flatlent nema meðfram austurjaðri þess en þar eru grónar klappir. Vegur heim að Narfakoti liggur austan og norðaustan við túnið og hefur valdið raski á þeim kálgarði sem er næstur bæjarstæðinu.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 1300m2. Hér eru þær minjar sem tilheyra býlinu skráðar saman undir einu númeri en hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Minjasvæðið er um 145×50 m að stærð og snýr norður-suður.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – Fornleifastofnun Íslands, 2014.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – mynd á málverkinu felld í afstöðumynd árið 2024.