Færslur

Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg
Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn.
Staðarborg

Staðarborg.

Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana.
Staðarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Fjárborgir voru víða hlaðnar í heiðinni. Sumar eru horfnar í svörðinn. Sérstök hús yfir fé voru ekki byggð fyrr en í byrjun 20. aldar. Þangað til var það vistað í fjárskjólum (hellum og hraunskútum) nærri bæjum. Tilgangur borganna var að veita fé, sem var á útigangi, skjól í vondum veðrum.

Staðarborg

Staðarborg.

Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Staðarborg

Staðarborg.

Borgin er í þægilegu göngufæri frá Strandarvegi, u.þ.b. miðja vegu á milli hans og Reykjanesbrautar. Vestar eru nokkrar gamlar fjárborgir, sem áhugavert er að skoða, s.s. Þórustaðaborg, Auðnaborg, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.

Staðarborg

Staðarborg og nágrenni.

Að sögn Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu var borgin ávallt nefnd Prestborg fyrrum.
Af ummerkjum að dæma í nágrenni borgarinnar virðist sem þunn hraunskorpan hafi verið brotin skipulega niður og grjótið notað í hleðsluna. Hleðslan sjálf virðist einnig staðfesta það.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.
Krækiberjalyngið er farið að reskjast. Sólstafir kitluðu Vogana. Krían átti í erfiðleikum með að fljúga gegn hreyfanlegu logninu. En þrátt fyrir það var veður með ágætum – bjart og hlýtt.

Heimild: http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_stadarborg.htm

Staðarborg

Staðarborg
Knarrarnes

Gengið var frá letursteininum við garðhliðið að Stóra-Knarrarnesi, um fjöruna og litið á hlaðna garða og sjávarhús á bakkanum neðan við Minna-Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Birgir Þórarinsson, prestur í Vogum og ábúandi á Minna-Knarrarnesi, fræddi þátttakendur um örnefni, fyrrum bæjarstæði, álagabletti, dysjar, brunna og leturstein. Gamli bærinn að Knarranesi stóð þar sem útihúsin eru núna suðvestan við núverandi hús. Útihúsin eru að hluta til (einn veggur um mið húsin) er hlaðinn úr grjóti er hrökk til afgangs úr byggingu Alþingishússins við Austurvöll (líkt og Breiðabólstaður á Álftanesi). Sjá má í enda vegghleðslunnar á miðjum framgaflinum. Ofar á túninu er svonefnt Brandsleiði, álagablettur, sem ekki hefur mátt hreyfa við.

Knarrararnes

Knarrarnesbrunnur.

Ofan við þjóðveginn er hlaðinn brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir hafa séð vatn efst í brunninum s.l. vetur. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Digravarða (landamerki) er þarna skammt austar á hól. Úr henni liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Digravarða er ofan við hlaðinn garð vestan og sunnan við Hellur. Talið er að hún hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Skoðaður var letursteinn í garði norðan við íbúðarhúsið að Minna-Knarrarnesi. Um er að ræða brotinn myllustein með áletrun. Hann er mosavaxinn og því erfitt að ráða í áletrunina. Birgir taldi að áletrunin gæti verið 1823. Eitthvert skraut er einnig á steininum. Norðan við garðinn eru Krosshólar og Breiðihóll enn norðar.

Knarrarneshverfi

Knarrarneshverfi.

Knarrarnesbrunnurinn er nálægt íbúðarhúsinu. Á túninu eru ýmsar hleðslur og gömul mannvirki, sem fróðlegt væri að skoða nánar.
Sandlóa hafði verpt öðru sinni á einum hraunhólnum. Krían lét illa, enda að verja afkvæmi sín. Birgir sagði krívarpið hafa stækkað umtalsvert undanfarin ár.
Frábært veður.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Knarrarnes.

Bakki

Markmið FERLIRsferða hefur verið að leita að, skynja og finna minjar og sögulega eða safaríka staði. Þrátt fyrir það hefur engin ein ferð verið nákvæmlega eins og önnur.

Borgarkot

Skeljafjara við Borgarkot.

Nú átti að gera tilraun til að nýta fyrirliggjandi þekkingu á afmörkuðum sviðum og reyna að finna einstakar blómategundir í móa og á melum og kíkja á það sem fjaran er að ala af sér.
Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarn avar og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Þegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brún, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Hangert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.
Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað. Sjá nánari umfjöllun HÉR.
Frábært veður – hiti og bjart. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Flekkuleiði

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði, enda hitinn yfir 20°C. Sól skein bæði í heiði og á bæ.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn í túninu.

Byrjað var að skoða letursteininn á túninu sunnan við bæinn. Á honum eru klappaðir stafirnir GI og koma þeir saman með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. FERLIR réð leturgátuna á sínum tíma, en enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Sæmundur sagði að þarna hefði verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar presti að messa þar annan hvern helgidag að minnsta kosti. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.

Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Minni-Vatnsleysu.

Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.n. 130 cm háan, en húsið hafi verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreituninn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.
Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð. Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra hár klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmudnur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.

Hrafnagjá

Hrafnagjá áletrun við Magnúsarsæti á Stóru-Vatnsleysu.

Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá. Álterunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.
Hrossagaukur flaug upp af hreiðri sínu þegarverið var að mynda einn hinna hlöðnu garða umhverfis Vatnsleysubæina. Í hreiðrinu voru fjögur egg, snyrtilega raðað upp að venju. Umhverfis voru gleyméreiar og holtasóleyjar.
Vestan við túnið liggja steinar úr stórgripagirðingu áleiðis niður að sjó annars vegar og til vesturs, áleiðis að Flekkuvík, hins vegar. Um er að ræða svipaða girðingu og ofan við Borgarkot , vestan við Flekkuvík. Tveir holur eru í hverjum steini og í hana reknir tappar, ýmist úr tré eða járni.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Flekkuvíkurvatnsstæðin voru uppþornuð. Á ströndinni var bláliljan byrjuð að blómstra, kuðungar og skeljar voru innan um beitukóngshreiður, en handan við spegilsléttann hafflötinn reis hvannhvítur Snæfellsjökull upp úr láréttunni. Tignarleg sjón.
Umfeðmingsgras umlukti rústir sjóbúða austan við Flekkuvík. Ofan við þær er hlaðið gerði, en vestan þeirra tekur hlaðinn túngarðurinn við. Neðan við rústirnar, sem á einhverju tímabili hefur verið breytt að hluta í matjurtargarð, mótar greinilega fyrir gamalli vör.

Flekkuvík

Flekkuvík – brunnur.

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er dýpri og virðist nýrri. Sunnan við húsið, suður undir túngarðinum er Flekkuleiðið. Á því er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta hola sér niður í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Fagur fuglasöngur fyllti gyllt loftið þessa kvöldstund.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 58 mín.

Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Oddafellssel

Gengið var frá nyrðri enda Oddafells frá Höskuldarvöllum og suður með vestanverðu fellinu. Gott rými er á milli hlíðarinnar og mosahraunsins.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Eftir stutta göngu var komið að tóftum hluta Oddafellsseljanna. Gengið er yfir eina tóftina, en sjá má móta fyrir öðrum. Stekkur eða kví er utan í hraunkantinum. Skammt sunnar eru fleiri tóftir. Er þá komið framhjá stíg er liggur inn á hraunið, áleiðis að Keili. Sunnan við þær eru hleðslur, stekkur og gerði, utar með hraunkantinum. Minni-Vatnsleysa hafði þarna selstöðu fyrrum. Eldri stígur (Oddafellsselsstígur) liggur inn í hraunið frá hleðslunum og kemur inn á hinn stíginn eftir stutta göngu. Stígnum var síðan fylgt í gegnum hraunið. Hann er tiltölulega greiðfær.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Nýr, ógreiðfærari, stígur hefur verið lagður yfir hraunið nánast samhliða, líklega fyrir Keilisfara. Þegar út úr hrauninu var komið var stígnum fylgt áfram áleiðis að Keili yfir móa og mela. Á leiðinni mátti sjá annan stíg liggja þvert á hann, Þórustaðastíginn.
Göngustíg var fylgt upp á Keili. Tiltölulega auðvelt er að ganga upp hlíð fjallsins, aflíðandi í fyrstu, en brattara ofar. Áð var um stund á móbergssyllu að 2/3 leiðarinnar genginni og útsýnið dásamað.

Keilir

Gengið á keili.

Rétt áður en komið var upp var komið uppá hraunnef þar sem horft er niður hinum megin. Sumum finnst nóg um, en ástæðulaust er að örvænta. Af toppnum er útsýni til allra átta. Sjórinn í norðvestri, Stór-Hafnarfjarðarsvæðið í norðri, Esjan og tengdafjöll hennar, Vífilssfell, Bláfjöllin, Þríhnúkar, Lönguhlíð, Helgafell, Fjallið eina, Mávahlíðar, Trölladyngja, Núpshlíðarháls, Driffell, Stóri Hrútur, Litli Keilir, Fagradalsfjöllin, Skógfellin, Þorbjarnarfell og Sandfellsfjöllin (Súlur, Þórðarfell og Stapafell, eða það sem eftir er af því) o.fl. o.fl. Keilir er móbergsfjall (379 m.y.s). Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er helst þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Tapinn ver það gegn veðrun.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Gengið var niður Keili um stíg að austanverðu og þaðan yfir á stíg norðan Driffells er liggur upp af heiðinni sunnan Keilis. Sást hann vel á köflum ofan af fjallinu þar sem hann lá á ská niður heiðina til vestnorðvesturs. Honum var fylgt yfir úfið hraunið austan fellsins. Um stutt hraunhaft er að ræða. Handan þess er stutt yfir í Hverinn eina, en mann má muna sinn fífil fegurri, Nú stendur fremur lítill gufustrókur upp úr hveraholunni, en á árum áður sást þessi stóri gufuhver alla leið frá Reykjavík í staðviðri og góðu skyggni. Hitasvæði er umhverfis hverinn og ber umhverfið þess glögg merki.
Oddafellinu var fylgt til norðurs að austanverðu, gengið um Höskuldarvelli og komið að upphafsstað á tilskyldum tíma.
Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 59 mín.

Oddafellssel

Í Oddafellsseli.

Norðurkot

Í ferð FERLIRs um Norðurkot sást snáð stílabók fjúka fram og aftur um hlaðið, eins og hún vildi með því vekja athygli á sér. Þegar litið var í bókina kom í ljós handrituð kennsluritgerð, sem Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn, hafði skráð sem verkefni í Kennaraskólanum árið 1942. Eftirfarandi er efnið, sem skráð var upp úr bókinni, áður en henni var komið fyrir að nýju í hinu vind- og vatnsumgegna Norðurkoti. Birtist það hér öðrum til fróðleiks, en flest það er þar er skráð er enn í fullu gildi ef vel er að gáð. Hér er um að ræða nokkrar forsendur og grunnreglur barnaskólastarfs.

Ingibjörg Erlendsdóttir
III. b. – Kennaraskólinn

Kennsluritgerð 1942:
Nokkrir meginþættir í stjórn og starfi barnaskóla.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja. Norðurkotshúsið var fært að Kálfatjörn, lengst til vinstri.

Efnisyfirlit:
I.     Inngangur – Um uppeldi.
II.    Tilgangur skóla.
III.   Stjórn skóla.
IV.    Niðurskipan skólastarfs.
V.     Refsingar.
VI.    Kennsla og kennsluaðferðir.
VII.   Námið og gildi þess.
VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

I. Inngangur.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Frá aldaöðli hefur mannkynið verið þeim örlögum háð, að fæðast í heiminn, sem ósjálfbjarga börn og þar af leiðandi þurft mikillar hjálpar og umönnunar. Samkvæmt lögmáli lífsins sjálfs er þessi umönnun í té látin af foreldrunum. Dýrin annast afkvæmi sín, hví skyldi maðurinn, miklu fullkomnari vera, ekki gera slíkt hið sama.

Öllum lifandi verum, hversu ófullkomnar sem þær fæðast, er það áskapað að þroskast og ná þeirri fullkomnun, sem þeim er ætluð, samkvæmt lögum náttúrunnar. Þessi þroski er röð af samfeldum breytingum, sem fara fram á ákveðinn hátt og eftir föstum lögum. Við sjáum ekki líkama barnsins vaxa með áberandi rykkjum og við getum ekki stækkað hann eftir eigin geðþótta. Þroskinn er lögmálsbundinn. Hið sanna verður okkur ljóst er við lítum á andlegan þroska.
Þroski mannsins er þó jafnframt bundinn ytri skilyrðum sem eru svo nauðsynleg, að ef þau vantar verður hann enginn, en því betri sem þau eru því betri verður hann.
Barninu er fullkomin nauðsyn að fá að hreyfa sig frjálst og óþvingað. Heilbrigt lítið barn er á sífelldu iði og hreyfingu. Allur þessi fyrirgangur þess, er merki um vöxt þess og þroska. Það getur oft valdið fullorðna fólkinu óþægindum og sumir eru því miður svo heimskir að þvinga barnið til að sitja og standa eins og því þóknast án tillits til eðlis barnsins, þroska þess og getu. Það barn, sem er líkamlega heilbrigt og fær að njóta orku sinnar á eðlilegan hátt, hefur skilyrði til að þroskast eðlilega, á sál og líkama. Sál barnsins iðar í öllum líkama þess. Heilbrigði líkamans er skilyrði fyrir heilbrigði sálarinnar, þroski líkamans skilyrði fyrir þroska sálarinnar.
Leikir eru börnum eðlilegir og nauðsynlegir. Meðal frumstæðra þjóða veitir náttúran sjálf börnunum ótakmörkuð skilyrði til margvíslegra leikja.
Börn menningarþjóðanna eiga margfalt erfiðara uppdráttar að þessu leyti. Leikir barna eru smækkuð mynd af störfum fullorðna fólksins. Í leiknum er best hægt að kynnast eðli barnsins og kynnast lífi þess. Þeir eru þýðingarmeiri þáttur í lífi barnsins, en margur hyggur. Í leiknum er lagður grundvöllurinn að námi barnsins og starfi síðar meir, þar er rakinn áhugi þess, vinnugleði og þolgæði.
Börn vilja rannsaka, athuga og læra sjálf. Aðeins leikurinn getur á fyrsta skeiði ævinnar veitt þeim möguleika til þessa. En einmitt þessir eiginleikar verða síðar aðaluppistaðan í námi þeirra og störfum.
Það þarf margs að gæta í uppeldi barnsins, ef vel á að fara. Það er því engan veginn ábyrgðarlítið starf, sem foreldrunum er á herðar lagt með fæðingu lítils barns í þennan heim.
Uppeldið er sá þáttur mannlífsins sem mest veltur á. Þrátt fyrir ólíkt upplag, allt frá fæðingu og arfgenga eiginleika er það þó uppeldið, sem miklu, ef til vill, mestu varðar um lífskjör mannanna. Meðfætt eðli og uppeldi í sameiningu gera hvern mann
[að því] sem hann verður. Uppeldið á að stuðla að því, að hvert barn verði svo mikill og góður maður, sem framast er unnt.
Heimilið er sú stofnun þjóðfélagsins sem annast uppeldi barnsins fyrstu ár ævinnar. Þar ber að leggja grundvöllinn. Þar er spurningunum svarað, fyrsti leiðbeiningar látnar í té. Áður var heimilið að mestu leyti eitt um uppeldi og fræðslu þá sem barnið hlaut. En þegar farið var að gera meiri kröfur til afkasta einstaklingsins í þjóðfélaginu, fór mönnum brátt að skiljast að heimilið var ekki einfært um uppeldi barnsins, þ.e. það hafði ekki skilyrði til að veita þann undirbúning, sem hinn verðandi maður og þjóðfélagsborgari þurfti að fá.
Heimilið þarfnaðist aðstoðar í starfi sínu. Nýjar stofnanir risu upp er tóku að sér hlutverk heimilanna á því sviði er getu þeirra þraut. Þessar stofnanir eru skólarnir.

II. Tilgangur skóla.

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Í öllu starfi er best að vita að hvaða marki stefnir, hvers vegna það er unnið og hver er tilgangurinn með því.
Skólar er frá öndverðu stofnanir til hjálpar heimilunum. Starf þeirra er að leiða börnin inn á þær brautir er heimilin síst hafa aðstöðu til, láta þeim í té þá fræðslu er þroski þeirra getur tekið við. Þeir eiga að taka á móti börnum á þeim aldri er lög mæla fyrir að skuli njóta kennslu á slíkum stofnunum. En með öllum menningarþjóðum er nú lögboðið að börn á vissu aldursskeiði skuli ganga í skóla. Það nefnist skólaskylda.
Meginþáttur þess sem skólinn lætur nemendunum í té er þekking. Barnafræðslan verður þó fremur að teljast lykill að þekkingunni um þekkinguna sjálfa. Hún er grundvöllur þeirrar þekkingar sem hver einstaklingur síðar kann að afla sér.
Tökum t.d. lestarkunnáttuna. Hún veitir aðgang að þekkingu og lærdómi gegnum bækur. Hún er sá grundvöllur er byggja má á. Þessi grundvöllur er þó ekki einhlýtur, til þess að geta lifað lýtilegu lífi og koma fram sem siðuðum manni sæmir. Mönnum verðir oft um of starsýnt á þekkinguna eins og hún væri eina menntunin og allt með henni fengið. Þekkinguna má nota jafnt til ills og góðs (kunnáttan er eins og tvíeggjað sverð sem nota má til gagns eða tjóns). Vel læst barn getur notað kunnáttu sína til að lesa spillandi bækur jafnt sem góðar.
Hlutverk skólanna er að beina huga nemendanna á hollar og góðar brautir. Þeir eiga að leita uppi hvern góðan neista í sál barnsins og glæða hann sem best, veita starfskröftum þeirra í þroskandi farvegi, æfa það í sjálfsstjórn, vekja hjá því hjálpfýsi og bróðurhug, og hvetja til hugsunar og framkvæmda.
Þroski og þekking er sitthvað. Þekking er skilyrði til að geta afkastað einhverju. Þroskinn er skilyrði til þess að vinna það vel, sem þekkingin veitir möguleika til að vinna. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þroskinn er lögmálsbundinn og kemur innanað, frá einstaklingnum sjálfum. Hann er sá gróður lífsins er hver maður á í sér fólginn. Að þroska aðra er ekki hægt, en það er hægt að glæða þroskann. Það er hlutverk skólanna.
Skólarnir eiga að skapa vaxtarskilyrði fyrir þroska nemendanna, alhliða þroska þekkingar og siðgæðis. Það á [ ]líf þeirra að mótast og þroskast, andlegur sjóndeildarhringur þeirra að víkka.
Skólarnir eru ekki reknir vegna einstaklinganna eingöngu, heldur og vegna heildarinnar. Þjóðfélaginu er það hinn mesti hagur að hver maður verði eins mikill og góður og honum er áskapað að verða.
Það er því tilgangur og höfuðmarkmið hvers skóla að búa nemendurna sem best undir þau störf er lífið síðar meir kann að leggja þeim á herðar. Veita undirbúning undir þann skóla, en stundum alla ævi, skóla lífsins. Enginn veit hve miklu sá undirbúningur veldur um árangur allrar þeirra skólagöngu.

III. Stjórn skóla.

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Góð stjórn er meginskilyrði hvers skóla. Hún veldur mestu um uppeldisáhrif skólans, auk þess sem hætt er við að mikið af því sem kennarinn segir börnunum, fari fram hjá þeim, ef ekki tekst að beina eftirtekt þeirra að umræðuefninu.
Til þess að halda uppi stjórn er nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur til að styðjast við. Kennari verður því í upphafi að setja reglur um það, sem hann þykir máli skipta og hann hyggst koma í framkvæmd í starfi sínu. best er að þær séu fáar, skýrar, en réttlátar og settar með heill nemendanna fyrir augum. Ekki skulu þær skráðar í lagaformi, með hótun um refsingu ef útaf er brugðið en umbuna að öðrum kosti. Sú stjórn er best sem minnst ber á. Ofstjórn er ill stjórn.
Kennari verður að hugsa ráð sitt vel og velja þær reglur einar er hann telur nauðsynlegar og hollar og treystir sér að fylgja fram. Síðan verða þær að koma fram í starfi hans með festu og samkvæmni.
Þess verður að gæta að börnin hlýði þeim reglum sem settar eru. Eftirgjöf á slíku er skaðleg og veikir viljann.
Barnið verður að læra að hlýða, bæði sjálfs síns vegna og annarra. Það á eftir að reyna ýmislegt í lífinu, sem það verður að beygja sig fyrir og því er gott að það venjist snemma á að hlýða. Auk þess sem brýna nauðsyn ber til að krefjast hlýðni í skólastarfinu. Barninu mun finnast eðlilegt að hlýða, aðeins ef fyrirmælin séu gefin á réttan hátt og á réttu augnabliki. Barninu er eðlilegt að leita stuðnings hjá þeim sterkari. Því myndi finnast það áttavilt og ruglað ef því væri ekki að einhverju leyti stjórnað eftir föstum reglum.
En kennarinn verður ávallt að gera sér ljóst hvers vegna hann krefst hlýðni af barninu. Það dugar ekki að krefjast hlýðni af barni aðeins af gömlum vana eða duttlungum kennarans. Með slíkri framkomu er ekki að vænta mikils árangurs þegar nauðsyn krefur.
Til eru þrjár leiðir til stjórnar nemendunum, en ekki eru þær allar jafn gæfuríkar og verður hver kennari að gera sér ljósa kosti þeirra og lesti.
Til er sú leið að segja: “Þú skalt” og standa síðan uppi í hárinu á þeim sem óhlýðnast og óskapast yfir slæmu uppeldi og illu innræti. Með slíkri framkomu, sem sýnir lítinn skilning á eðli barnsins, er tekin sú stefna, sem hlýtur að leiða til glötunar, því að hún drepur viljann, sljóvgar hugsunina og vekur mótþróa.
Önnur leið er sú að láta barnið haga sér eins og því sýnist og skipta sér ekkert af því. Þessi aðferð er fráleit. Því til hvers er barnið komið í skólann og hvert er hlutverk kennarans?
Þá er þriðja leiðin, sú sem uppeldis- og sálfræðingar telja besta og brjóstvit og þekking kennarans rökstyður. Hún er sú að kennarinn leiðir barnið og hjálpar því. Hann leitast við, með starfi sínu, að koma því í skilning um réttlæti þeirra reglna, sem settar eru, gildi þeirra og að nauðsyn beri til að fylgja þeim.
Kennarinn veit að barnið á ótamda krafta, sem þarfnast útrásar. það hefur ekki þorska né skilning til að leiða þessa krafta fram á réttan hátt. Því brjótast þeir út í óþekkt. Hann leitast því við að leiða það á réttar brautir, veita framtakslöngun þess útrás á heppilegan hátt, og veita kröftum þess næg og hentug viðfangsefni.
Ekki er öllum kennurum jafnsýnt um að skapa hlýðni og góðan aga, innan skóla síns. Virðist í fljótu bragði sem sumum kennurum sé gefið dularfullt vald eða töfrasproti, er þeir geti brugðið á loft með þeim árangri að nemendur þeirra vaka yfir hverri bendingu frá þeim til þess að geta fylgt henni. Slíkir kennarar eru öfundverðir. En ef til vill eiga þeir að baki sér erfiða baráttu.
Kennari verður margs að gæta áður en hann kemur fram fyrir nemendur sína í fyrsta sinn og hann verður alltaf að vanda framkomu sína í viðurvist barnanna. Hann verður að vera sú fyrirmynd er þau vilja líkast, sá foringi er þau geta treyst. Takist kennaranum að ná virðingu barnanna og tiltrú er auðvelt fyrir hann að skapa innan skólans þann anda, sem æskilegt er að þar ríki, og sem getur orðið börnunum hollur förunautur á lífsleiðinni. Þá er auðvelt að fá börnin til að haga sér samkvæmt settum reglum af fúsum vilja. En það er einmitt það sem keppa ber að, að skapa innan skólans fastar venjur, sem ekki kostar sífelldrar baráttu að halda uppi.

IV. Niðurskipun skólastarfs.

Norðurkot

Norðurkot.

“Reglusemin stjórnar heiminum”. Þessi orð mætti með réttu heimfæra upp á skólana. Kennari verður í upphafi að ákveða niðurröðun kennslustunda og námsefni. Kennarinn þarf að vera börnunum til fyrirmyndar í allri reglusemi, annars getur hann ekki með réttu krafist hennar af þeim. Stundvísi er eitt af því sem hverjum kennara ber að temja sér og krefjast af nemendum sínum.
Börnin eiga að ganga stillt og skipulega inn í kennslu og að sætum sínum, þegar kennarinn gefur merki. Þau eiga að hafa sitt ákveðna sæti allan veturinn og ber kennara strax á haustin að sjá um að þau fái hentug sæti. Þau börn sem eru lægst vexti ættu að sitja framar en hin stærri aftar til að fyrirbyggja að þau skyggi á. Þá er nauðsynlegt að þau börn sitji framarlega, sem hafa slæma sjón eða heyrn.
Nauðsyn er að venja börn á reglusemi með áhöld sín og bækur, “hver hlutur á sínum stað og staður fyrir hvern hlut”, er regla, sem fylgja ber í skólastarfinu.
Fullkomin stjórn í kennslustund er skilyrði fyrir því að hún komi að notum. Takist ekki að halda eftirtekt barnanna vakandi er tímanum varið ver en til einskis. Kennarinn verður að vera vakandi í starfi sínu, annars gæti hann óafvitandi stofnað til ástands, sem væri miður æskilegt. Augu og eyru þarf hann að hafa allstaðar og vera viðbragðsfljótur og hittinn að finna einhverja brellu til að vekja eftirtekt barnanna ef hún er farin að dofna.
Best er að kennari venji sig á að vera viðmótsþýður og alúðlegur, en komi samt alltaf fram eins og honum er eðlilegt. Öll stæling fer illa, hánotaðar fjaðrir vilja fjúka og hætt er við að gríman gleymist einhvern tímann, svo að hið rétta andlit komi í ljós.
Kennari þarf að venja sig á að tala í þeim rómi er hann finnur að hafi best áhrif á börnin og honum er tamast að beita, án allrar tilgerðar.
Kennari sem hefur fullt vald yfir nemendum sínum og finnur að hann nær tökum á viðfangsefni sínu getur vonglaður haldið áfram því starfi er hann hefur valdið sér, í trú á góðan árangur.
Enginn má missa þolinmæðina þótt ekki gangi allt að óskum fyrst í stað. Þá er að leta fyrir sér í hverju mistökin liggja og gera nýja tilraun. “Aðeins mikil áreynsla skapar stóra sál”.
Aldrei má kennari þó nota börnin sem “tilraunadýr”. Börnin eru viðkvæmir einstaklingar og sá kennari sem finnur að hann veldur ekki viðfangefni sínu ætti að hætta þegar í stað og hefja starf á öðru sviði (“ef þú getur ekki spennt bogann er hann ekki þinn”).

V. Refsingar.

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Refsingar hafa lengi verið álitnar nauðsynlegar til þess að halda uppi stjórn ís kólum. refsingar eiga að koma í veg fyrir brot á reglum séu endurtekin, kenna börnum stjórn á sjálfum sér og venja þau af ósiðum.
Allir eru sammála um að kennari beri siðferðileg og uppeldisleg skylda til að refsa barni, ef hann álítur þess brýna nauðsyn og að þessi refsing geti orðið barninu til góðs. En þá vaknar spurningar: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisgildi? Með hverju, fyrir hvað og hvernig og hvenær á að refsa?
Þessar spurningar hljóta að valda hverjum góðum og samviskusömum kennara mikillar umhugsunar.
Eigi refsingar að hafa betrandi áhrif á barn, – sem er tilgangurinn, verður hún að vera þannig að barninu finnist, að þetta eigi það skilið. Tilfinning barnsins fyrir réttu og röngu er furðu næm. Barn á skólaaldri á að geta gert sér grein fyrir sambandi orsaka og afleiðinga. Fyrsta skilyrði þess að refsing komi að notum er, að hún sé bein afleiðing af broti barnsins eða yfirsjón. Kennarinn má aldrei refsa í bræði eða reiði, en með festu og alvöru. Hefnigirni eða persónuleg móðgun má aldrei koma fram í afstöðu kennarans til barnsins. Refsingin er neyðarúræði er kennarinn grípur til ef hann sér siðferðilegri velferð barnsins það fyrir bestu.
Áður en kennari refsar verður hann að gera sér fulla grein fyrir hvort ástæða sé til slíkra aðgerða, og hvaða aðferð skuli beitt. Kemur þá til greina skapgerð barnsins og þroski þess. Undir hvaða atvikum brotið er framið og hvaða orsakir liggja til þess. Fullan mun verður kennari að gera á þeim yfirsjónum sem framdar eru af hugsunarleysi eða fyrir áhrif og eggjan annarra og þeim sem barn fremur að yfirlögðu ráði. hann verður að reyna að skilja orsakirnar og er þá athugun á sálarlífi barnsins nauðsynleg.
Þá kemur spurningin: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisleg gildi? Franskur uppeldisfræðingur hefur sagt: “Kjarni refsingarinnar er ávítunin. Að refsa er að ávíta, og besta hegningin er sú, sem lætur í ljósi á skýrastan og hagkvæmastan hátt, ávíturnar sem refsing felur í sér”.
Kjarni refsingarinnar er því ávítunin, en barnið verður að viðurkenna réttmæti þessarar ávítunar ef hún á að hrífa. Ávítunin verður að vekja samvisku barnsins, vekja hjá því löngun til að bæta fyrir brot sitt og styrkja vilja þess til að bæta sig. Þetta eru skilyrði fyrir því að ávítunin missi ekki marks.
Gamall málsháttur segir: “Enginn verður óbarinn biskup”. Væri er ekki eins hægt að snúa honum við og segja: “Enginn verður barinn til biskups”. Það er glæpur að refsa barni fyrir ósjálfráðan veikleika og vangetu. Slík börn þarfnast öllu fremur sterkrar en mildrar handleiðslu og leiðsagnar.
Forðast skal refsingar eins og hægt er. Það er vandi að beita þeim þannig að þær komi að tilætluðum notum. Þær geta í meðferð kennarans, sem hefur litla æfingu í sjálfsstjórn og ónóga þekkingu á sálarlífi barnsins, haft þveröfug áhrif við það sem þeim ber að hafa. Þær geta þá vakið hjá barninu þrjósku og löngun til að hefna sín á þeim sem það finnst hafa beitt sig órétti.
Best er að geta stjórnað þannig að aldrei þyrfti að koma til refsinga. Allar refsingar verða því áhrifaminni sem þeim er oftar beitt. Ætti það einnig að styðja þá skoðun að refsingin á aldrei að vera annað en örþrifaráð, sem grípa verður til þegar önnur uppeldisráð duga ekki, eða barn hefur gert sig brotlegt í yfirsjón og skaðleg stjórn og starfi skólans.
Framkoma kennarans, persónuleiki og samstarf hans og barnanna, er það sem mestu máli skiptir í stjórn skólans. Hátterni hans allt, persónuleiki, hreimur raddarinnar og það hversu hann snýst við þeirra vandamálum er að steðja markar dýpstu áhrifin á sálarlíf barnsins og veldur mestu um framkomu þess.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að áhrif ávítanna hafa neikvæð áhrif, þar sem áhrif viðurkenninga eru jákvæð.
Kennari á því að vera örari á lof en löst. Það vekur allan metnað. Uppörvunin leysir úr læðingi nýja krafta, en sífelld aðfinnsla lamar.
“Leyndardómur uppeldisins er fólginn í lotningu fyrir barnseðlinu”.

VI. Kennsla og kennsluaðferðir.

Norðurkot

Norðurkot – Norðurkotsskóli.

Umgerðin að skólastarfinu er lögð með lögum og reglum stjórnvalda. Þessi lög leggja skólum að nokkru starfsáætlun. Þau ákveða aldurstakmark barna, hvert ber að komast í hverri námsgrein áður en lokið er fullnaðarprófi og hvaða námsgreinar skulu kenndar. Þessi lög verður kennari að kynna sér áður en hann hefur starfs sitt.
Kennara er samt sem áður nauðsynlegt að leggja niður fyrir sér að hvaða marki hann ætlar að keppa og hvernig hann hyggst ná því.
Verkefni kennslunnar á að verða “að skipa í röð skynáhrifum allt frá þeim einföldustu til hinna samsettu”. Þannig að á hverjum tíma sé samræmi milli áhrifanna og þroskastigs barnsins.
Grundvöllur allrar þekkingar, er það sem maðurinn sjálfur og hugurinn finnur, þ.e. allar skynleiðir hans, “kenndir vorar eru steinarnir í heimsmynd vorri”.
Til að taka tillit til alls þess í kennslunni voru tekin upp átthagafræðileg vinnubrögð í skólunum. Þar er gengið út frá því þekkta til hins óþekkta. Byrjað í heimahögunum og haldið lengra út. Hið óþekkta ávallt borið saman við hið þekkta.
Kennslan á að byrja á því létta og halda til þess sem þyngra er. Hún á að miðast við það að vekja börnin til umhugsunar, glæða hæfileka þeirra og löngun til að afla sér þekkingar. Börnin eiga innibyrgða krafta. Það er hlutverk kennslunnar að glæða starfshvötina, gefa börnum tækifæri til að láta hönd og auga vinna með huganum. Kenna börnunum að starfa sem mest að því sjálft að afla sér þekkingar og kunnáttu, til þess að gera þau sem mest sjálfbjarga einstaklinga. Sú regla að börnin eigi sem mest að starfa að náminu sjálf, byggist á því lögmáli náttúrunnar, að framför og þroski næst ekki nema með því að beita kröftunum. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þekkingin verður einnig að byggjast á því sem fyrir er. Sú þekking er haldbetri og minnistæðari en einstaklingurinn aflar sér með fyrirhöfn, en sú er hann þiggur fyrirhafnarlaust.
Kennsluaðferðir eru með mörgu móti og verður hver kennari að finna sér út að nokkru leyti sjálfur þá aðferð er honum tekst best að nota. Einn getur komið með aðferðir, sem honum gefst vel, en þegar annar ætlar að fara að nota þá sömu aðferð, getur allt farið í handarskolum. Einstaklingarnir eru svo ólíkur að þeir geta ekki allir notað sömu aðferðir og verða því að skapa sér þá aðferð er best hæfir einstaklingseðli þeirra. Ekki hæfir heldur sama aðferð öllum námsgreinunum.
Ein er sú aðferð er mikið er notuð í kennslu eldri barna, en það er frásögn. Til þess að þessi aðferð beri árangur þarf kennarinn að kunna vel að segja frá, svo a’ börnin hafi ánægju af og fylgist með af lífi og sál. Frásögnin þarf að vera sýr og greinileg og svo lifandi að börnunum finnist þau sjá og heyra þá atburði er frá er sagt. Aðferð þessi getur orðið þreytandi til lengdar og er því ekki rétt að beita henni lengi í einu. Gott er að flétta spurningar inn í frásögnina til að halda eftirtekt barnanna betur vakandi og tryggja sér að frásögnin nái hugarheimi þeirra. Aðferð þessi ber því aðeins árangur að kennarinn kunni vel að segja frá og á því máli er nær best til skilnings barnanna. Allir barnakennarar ættu að temja sér þá list.
Í sumum námsgreinum er nauðsynlegt að beita sýnikennslu, eins og t.d. undirstöðuatriðum reiknings, skrift, teikningu o.fl. Myndir og áhöld eru nauðsynleg tæki í kennslustarfinu.
Spurningar eru nauðsynlegur þáttur í kennslu og námi. Þeim er beitt til að kanna þekkingu barna og glöggva skilning þeirra og ályktunargáfu. Þær þurfa að vera skýrar og beinar, svo að börnin séu ekki í vafa um, við hvað er átt. Kennarar ættu að varast að spyrja “já” og “nei”, spurninga.

VII. Námið og gildi þess.

Norðurkot

Norðurkot.

Börnin koma í skólann til að nema. Eitt meginatriði í kennslu barna er það að gera námið skemmtilegt. Börnin eru skylduð til að vera í skólanum. Þau hafa því að öðru jöfnu minni áhuga fyrir náminu en þeir nemendur, sem fara í skólann af fúsum vilja. Auk þess eru þau óþroskaðri en aðrir nemendur og áhugasvið þeirra oft fjarri skólanum.
Kennarinn verður því að gera þeim skólavinnuna sem skemmtilegasta og aðgengilegasta. Starf, sem unnið er af litlum áhuga eða engum hefur minni árangur, en það sem unnið er af áhuga og ánægju.
Ekki má þó gera námið alveg erfiðleikalaust. Það á ekki að vera alvörulaus leikur heldur skemmtilegt, en þó alvarlegt starf. Fyrsta skylda kennarans er að vera skemmtilegur í starfi sínu. Það er oft erfitt en á því byggist að námið verði aðgengilegt og veki áhuga og ánægju hjá börnunum.
Sú aðferð hefur mjög tíðkast í skólastarfinu að leggja áherslu á að efnið sem numið er, sé munað sem nákvæmast og því sé skilað sem líkustu því er í bókinni stendur. Hitt lagði skólinn minni áherslu á hvort nemendurnir skyldu það efni sem munað var. Hvort þeir skyldu samhengið milli orsaka og afleiðinga og annað sem fyrir kom. Í þessu efni var þululærdómurinn kunnastur. Það er hægt að læra utanað ýmislegt það, sem orkar á fegurðarsmekk og tilfinningarnar, en án þess að efni hins lærða sé skilið, t.d. vísur.

Gildi utanbókarlærdómsins má þó ekki fordæma með öllu. Í sumum námsgreinum er hann nauðsynlegur. Kvæði verður að læra utanað, ártöl þarf að muna, ýmislegt úr landafræði og reglur í reikningi. Í reikningi á sér oft stað minni án skilnings og hefur gildi.
Efni sem skilið er hefur þó margfalt meira gildi en minnisnámið eitt. Skilningurinn getur oft komið til sögunnar þó að minnið bili og rifjað upp það sem annars hefði glatast.
Skilningurinn vekur hugsun, opnar útsýn og gefur margfalt betri árangur. Ártöl sögunnar eru lítils virði ef ekkert atriði er til að skýra í sambandi við þau. Skilningur og minni þurfa ávallt haldast í hendur) að fara saman ef góður árangur á að nást.
Talað er um tvenns konar gildi námsins; menningarlegt gildi og hagnýtt gildi. menningarlegt gildi náms glæðir og eflir vitsmunina, skerpir viljann og gerir manninn að siðmenntaðri manni. Hagnýtt gildi hefur nám að því leyti að það á að gera einstaklinginn færari í lífsbaráttunni, veita honum skilyrði til betri afkomu.
Allar námsgreinar ber að kenna með þetta tvennt fyrir augum. Engin námsgrein hefur svo mikið menningargildi í sér, að það geti ekki farist í meðferð lélegs kennara. Allar námsgreinar hafa mikið gildi, séu þær kenndar með menningarleg og hagnýt sjónarmið fyrir augum. Skólanám á að auka manngildi nemandans og hæfi hans til að lifa lífinu og vinna störf sín vel og einlæglega.

VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

Norðurkot

Norðurkot – sjóhús.

“Kenn þeim unga þann veg sem hann á að ganga og þegar hann eldist mun hann ekki ef honum beygja”.
Þessi orð eru ekki sögð út í bláinn, því ef svo væri hefðu þau ekki staðist próf þeirra alda, sem liðin eru síðan þau voru sögð. Svo mikið hefur það að segja að vandað sé til þess vegarnestis sem barnið fær með sér út í lífið að undir því er kominn lífshamingja manna allt til elliára.
“Af því læra börnin málið að það sé fyrir þeim haft”. Það er á valdi hinna fullorðnu, hvernig það mál er, hvernig þær venjur eru, sem barnið á við að búa, hvernig sá andi er sem umhverfis það ríkir.
“Æskan er á öllum tímum það akurlendi mannlífsins sem besta umönnun þarfnast”.
Allur gróður þarfnast umhirðu og nærgætni, einkum sá sem er ungur og veikbyggður. Þetta vita garðyrkjumennirnir og breyta samkvæmt því.
Kennararnir eru garðyrkjumenn á akri mannlífsins. Þeir eiga að vernda gróður mannlífsins og hlúa að honum á viðkvæmasta skeiði ævinnar. Þeir eiga að búa barnsálirnar undir lífið og gróðursetja fræin, sem framtíð þjóðarinnar sprettur upp af.
Þeir eiga að vekja til lífsins hæfileika barnanna og blundandi krafta og beina þeim í rétta átt.
Á kennurunum hvíla miklar skyldur gagnvart börnunum. Meðan barnið dvelur í skólanum hefur kennarinn mikil áhrif á uppeldi þess. Sá kennari, sem hefur sama barnið undir höndum í marga vetur á áður en yfir lýkur, mikil ítök í huga þess.
Kennurum ber skylda til að rækja starf sitt af bestu getu, skyldu við þjóð sína, nemendur sína og samvisku sína.
Kennari, sem veit hlutverk sitt, gerir sér ljóst að það er mikilvægt ábyrgðarstarf. Hann leitast við að gera sér grein fyrir þroskaferli barnsins og miðar störf sín á hverjum tíma við að getu nemenda sinna. (Hann veit að hann þarf að þekkja þau vel og kynnast einstaklingseðli þeirra hvers fyrir sig).
Kennarinn þarf að þekkja börnin vel. Hann þarf að þekkja einstaklingseðli hvers barns er hann hefur undir höndum. “Það er kennarans sök ef barnið lærir ekki”, sagði [Gormenins]. Kennarinn verður að gera sér ljóst hvers hægt er að krefjast af barninu og haga starfi sínu eftir því.
Góður kennari setur sér það takmark að leiða nemendur sína á rétta braut. Vekja áhuga þeirra, starfslöngun, vilja og manndóm, vekja þá til umhugsunar og leitast við að benda þeim á hið góða og fagra í lífinu. Sá kennari, sem getur skilið við börn sín ánægð, og sjálfur ánægður yfir vel unnu starfi, hann má vita að hann hefur unnið landi sínu og þjóð gæfuríkt starf.

Heimildarrit:
-Uppeldismál eftir Magnús Helgason,
-Þroskaliðinn eftir S. Jóhann Ágústsson,
-Fyrirlestar Hallgríms Jónassonar í Kennaraskólanum.

 ÓSÁ skrifaði upp.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Hvassahraunssel

Ákveðið var að freista þess að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli. Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hraunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings. Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.

Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krossstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring. Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar. Önnur gildran virðist hafa verið hlaðin upp úr merkjavörðu, sem þarna var.
Þegar gengið er um ofanverð hraunin má segja að minjar séu við hvert fótmál. Mikilvægt er að kunna að lesa úr þeim. Vörðurnar eru t.d. af margvíslegum toga, s.s. leiðarvörður við götur og stíga, staðsetningavörður við einstaka merkilega staði, grenjavörður (þrjár umhverfis greni – tveir steinar í hverri), sögulegar vörður (er staðsetja sögulega atburði) og refagildrur í vörðulíki.
Gangan tók 2 og ½ klst. Veður var frábært – fjórðungssól og hlýtt.

Hvassahraunssel

Rjúpur við Hvassahraunssel.

Brunnastaðir

Skoðaður var nýlega fundinn letursteinn á bæ á Vatnsleysuströnd. Hann fannst nýlega þegar verið var að grafa á hlaðinu fyrir símastreng nálægt bænum.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn – 1779.

Steinninn er sæmilega stór, með áletruninni 1779 á annarri hlið og skrautletruðum stöfum (GL & ED) á hinni. Svo virðist sem steinninn hafi áður haft járnvirki yfir sér því grópað er efst í hann á fjóra vegu. Fyrsta sem heimilisfólki datt í hug eftir fundinn var að hafa samband við FERLIR. Skoðað verður nánar hverjum steinnin kann að hafa tilheyrt og af hvaða tilefni hann kann að hafa verið gerður. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið til gjafa að sérstöku tilefni, t.d. brúðkaupi, enda vel til fundið.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Fólkið á bænum er margfrótt, bæði um sögu og staðhætti. Það er í rauninni ágætt dæmi og þörf ábending um það hversu mikilvægt er að vera í góðu sambandi við fólkið í landinu, sem býr yfir reynslu og vitneskju, og leyfa því góðfúslega að miðla fróðleik til skráningar, eftirkomandi kynslóðum til gangs. Ef ekkert er að gert verður ekkert að gert, að því gengnu. Og þvílík sóun…
Þessu tiltekna fólki datt ekki einu sig í hug að fela einhverri opinberri stofnu steininn til varðveislu, enda “sóun” á góðum grip…

Brunnastaðasteinninn

Letursteinn á Brunnastöðum.

Loftsskúti

Gengið var frá gömlu (malbornu) Reykjanesbrautinni þar sem hún kemur undan nýju brautinni að sunnanverðu vestan Lónakots.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Tekið var mið að vörðu á hól í suðri. Frá henni sést yfir að annarri vörðu á hól í suðri, ekki langt frá. Sunnan undir þeim hól er jarðfall og hlaðið fyrir skúta í því norðanverðu, Loftskútahellir. Þarna geymdu Hvassahraunsmenn m.a. skotnar rjúpur á veiðum sínum. Þarna er skjólgott, en hins vegar gæti verið erfitt að finna skútann í snjóum. Varðan á hólnum gæti bætt úr því.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Þegar komið er að línuveginum sést í vörðu á hól í suðri. Ef þeirri vörðuröð er fylgt til austurs er komið á Hvassahraunsselsstíginn. Hann er vel greinilegur á köflum og liggur að Hvassahraunsseli. Háa vörðu ber við himinn á hól. Vestan við hólinn kúrir selið undir skeifulaga hraunhæð, tvær tóttir og fallegur stekkur í krika undir hraunhól. Selssvæðið er vel gróið. Háa varðan í austri er á fallegum gjábarmi.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – selsvarða.

Gengið var í norðnorðvestur frá henni. Þegar komið var yfir línuveginn tekur við talsvert kjarr á hæðum og hólum. Á einum þeirra var komið að fallinni refagildru. Skammt frá henni var önnur fallinn. Líklega hefur þarna verið um að ræða refgildrur frá Lónakoti, en vörðurnar upp í Lónakotssel liggja þarna til suðausturs skammt austar. Refagildrur sem þessar hafa sést víða um Reykjanesið, s.s. Á Selatöngum, við Grindavík, á Vatnsleysustrandarheiði, ofan við Hafnir og við Húsfell ofan við Hafnarfjörð. Þá má víða sjá hleðslur, byrgi og önnur merki eftir refaskyttur á skaganum.

Loftskúti

Í Loftskúta.