Færslur

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, vestan Rauðhóls norðan Keilis og síðan vestur undir Oddafelli, en fengu síðan mun betri selsstöðu í Sogaseli í skiptum við Krýsuvík fyrir uppsátur á Ströndinni.

Sogasel

Sogasel – tóftir einnar stöðunnar.

Enn má sjá leifar selstöðvanna, ekki síst í Sogagíg. Elsta selstöðin, frá Krýsuvík, er reyndar utan við gíginn, neðarlega í Sogadal. Tóftarhóllinn sést vel og enn má, ef vel er að gáð, greina þar rými.

Í Sogagígnum eru leifar þriggja selstöðva. Sú elsta er í miðjum gígnum. Þar má enn greina rými, en þær, sem eru austar og norðar undir gígveggjunum eru augljósar. Þar eru rýmin augljós, s.s. eldhús, baðstofa og búr. Rétt er í gígnum sem og stekkir og kvíar. Gerði norðan nyrstu selstöðunnar hefur nú orðið fyrir áhrifum nýlegrar jarðskjálftarhrinu.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gýgur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á Höskuldarvellina, allt niður í Sóleyjarkrika. Lækurinn hefur í gegnum tíðina myndað gróðið undirlendi vallanna. Gígurinn, gróinn, er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því ágætt aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og enn fyrrum Krýsuvík um tíma, sem fyrr sagði.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: “Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel”. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið “Sogaselshrygg”. Í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjörn má finna örnefndið “Krýsuvíkurvör” skammt austan Kálfatjarnarvararinnar.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Eiríksvegur

Hér er ætlunin að fylgja Almenningsveginum frá Kúagerði í Voga. Stuðst verður m.a. við lýsingu Sesselju Guðmundsdóttur í bókinni “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi” er endurútgefin var út árið 2007. Um er að ræða nákvæmasta rit um örnefni, vettvangsferðir og sagnir á svæðinu. Auk þess er stuðst við handrit Erlendar Magnússonar á Kálfatjörn þar sem hann lýsir Almenningsveginum svo allri leiðinni frá Reykjavík til Njarðvíkur, sem hann fór margoft.
BergþórsvarðaÞegar leiðin var gengin að þessu sinni, frá norðri til suðurs – og til baka (svona til að bera saman smáatriðin), kom ýmislegt áhugavert í ljós. Við meginleiðirnar liggja hliðarleiðir. Til dæmis má ætla að Almenningsvegurinn hafi fyrrum legið eins og hann liggur nú frá Kúagerði, með Arnarvörðu, niður að Kálfatjörn og áfram með Arnarbæli niður að Vogabæjum. Á þessari leið er hann lítt lagaður að öðru en því sem þótti allra nauðsynlegast. Vörður (vörðubrot) eru fáar, en fjölgar er nær dregur endimörkum hans beggja vegna. Út úr Almenningsvegi hefur þróast “Hestaslóð”, hestvagnsgata. Lagfæringar á veginum er allt frá Kúagerði að Bergþórsvörðu. Frá henni hefur verið lagður, annað hvort nýr vegur eða eldri vegur endurbættur, að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).

Almenningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Í örnefnalýsingu fyrir Flekkuvík er þar getið um “Almenningsgötur” er bendir til þess að þær hafi verið fleiri en ein á þessum slóðum, sem þær og eru. Gata liggur frá Bergþórsvörðu til norðurs, um náttúrulega steinbrú á Hrafnagjá og síðan áfram uns sést heim að Flekkuvík. Þar beygir gatan vestur heiðina, en Flekkuvíkurstígurinn liðast niður heiðina heim að bæjum. Efri hluti götunnar gæti hafa verið Flekkuvíkurstígur. Hestvagnsgatan er frá Kúagerði að Vatnsleysu. Þar hefur hún beygt áleiðis heim að bæ og kemur aftur í ljós á milli og sunnan bæjanna. Þaðan er stutt að gatnamótum Flekkuvíkurstígs.

Almenningsvegur

Almenningsvegur – ofan Kálfatjarnar.

Önnur gata, ólöguð, liggur svolítið upp fyrir Bergþórsvörðu og beygir þar einnig til norðurs, yfir hlaðna brú á Hrafnagjá. Þaðan er gatan óljós, en lengra má sjá hvar hún beygir um 90° til vesturs, áleiðis upp heiðina að Arnarvörðu, sem fyrr er nefnt. Þótt Almenningsvegurinn aðskiljist Eiríksvegi að mestu leyti frá Kúagerði að Bergþóruvörðu má ætla, af landfræðilegum aðstæðum, að Eiríksvegur hafi verið lagður ofan á Almenningsleiðina á þessum kafla því þar sem sá fyrrnefndi endar í Flekkuvíkurheiðinni heldur sá síðarnefndi áfram upp hana að Arnarvörðu. Þetta virðist flókið, en ef eftirfarandi skýringarmynd er skoðuð af götum í heiðinni ætti þetta að vera svolítið augljósara hvað framhaldið varðar.
Göngusvæðið

Ferðin hófts i Kúagerði; á Akurgerðisbökkum. “Sagnir eru til um að Akurgerði hafi forðum verið í Kúagerði. Fjórir vegir frá mismunandi tímum liggja um [Vatnsleysustrandar]hreppinn endilangan. Sá nýjasti og jafnframt efsti er línuvegur sem gerður var árið 1992 og fylgir hann rafmagnslínu frá Fitjum í Njarðvík að Hamranesi í Hafnarfjarðarlandi. Vegurinn er lokaður almennri umferð. Reykjanesbraut var gerð á árunum 1960-64 og fyrsti hluti tvöföldunar hennar var tekinn í notkun árið 2004 og enn er verið að vinna við breikkun, þ.e. árið 2007.
SkeifubrotGamli-Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegur var lagður á árunum 1906-’12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Ströndinni en um 1930 var sá partur færður neðar. Gamli-Keflavíkurvegurinn var í upphafi hestvagnavegur og mátti sjá langar vagna- og skreiðarlestir liðast eftir veginum en 1917 tók
u bílarnir við. Hér suður um Strönd og að Vogum verður nafnið Strandarvegur haft yfir Gamla-Keflavíkurveginn. Reiðvegur liggur og með Strandarveginum frá Vatnsleysu og suður í Voga (en hann verður ekki hafður í hávegum hér).”

Kúagerði

Kúagerði 1912.

Ef staðnæmst er við Kúagerði má sjá hvar Eiríksvegur liggur frá Akursgerðisflötum sem og Almenningsvegurinn. Við framangreindar götur á Ströndinni má bæta Kirkjugötunni er lá samfelldur um bæjartraðirnar. Kirkjubrúin sunnan Kálfatjarnar er á þeirri leið.
“Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn og innarlega í Hvassahraunslandi einnig ofan Reykjanesbrautar. Í lýsingu Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðavíkursókn frá árinu 1840 er leiðinni lýst svohljóðandi: “Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.” Almenningsvegurinn er til hliðar og sunnan við Eiríksveginn á þessum kafla.
SkeifaBátar voru notaðir en hestar til fólks- og vöruflutninga hér í sveit á öldum áður og margar heimildir bera vitni um.
Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar er hann frekar kallaður Alfaraleiðin. Nafnið sem við notum hér suður frá gæti tengst því að um veginn fóru Suðurnesjamenn um aldir til eldiviðartöku og kolagerðar í Almenning en það er kjarrsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns, ofarlega. Björn Gunnlaugsson, fyrsti íslenski kortagerðarmaðurinn, setur Almenningsveginn inn á kort árið 1831, en á kortum sem gerð hafa verið eftir það er hann ekki skráður
.”
Hverfum nú aftur til upphafsstaðar. “Við höldum nú í vesturátt frá Kúagerði meðfram Strandarvegi sem lá áður um Vatnsleysu og áfram (nú er búið að byggja brú og hringtorg aðeins sunnar á brautinni. Eftir u.þ.b. 400 m komum við að litlum uppmjóum hól með hundaþúfu fast við veginn sem heitir Tittlingahóll. Ein heimild segir hólinn hafa í upphafi heitað Þyrsklingahól en nafnið afbakast í tímans rás. Víða við sjó hjá Vatnsleysu einkennast hólarnir af háum “hundaþúfum”.
AlmenningsvegurNeðan vegar sjáum við Steinkeravík (Stekkjarvík) og upp af henni komum við fyrst á Almenningsveginn. Fyrrum kölluðu sumir hreppsbúar Almenningsveginn Einingaveg og kom það líklega til af því að í landamerkjalýsingu Jóns Daníelssonar í Stóru-Vogum frá árinu 1840 er eyða í handritinu fyrir framan orðið “…eningsveginn”. Einhverjum hefur sennilega þótt hægast að túlka þetta hálfa orð sem einingaveginn og þannig er það örnefni komið til.
Á
 þessum slóðum sjáum við annað sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en það er Eiríksvegur og liggur vegarstæðið þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og áfram vestur yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.

Almenningsvegur

Á Almenningsvegi.

Neðri-Grænhóll er u.þ.b. miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar, vestur af afleggjarnum að háspennutengingu fiskeldistöðvarinnar á Vatnsleysu. Efri-Grænhóll er ofan við brautina.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðuaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
Digravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.”

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg), (sjá síðar).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðuhól. Almenningsvegurinn (eystri) liggur hins vegar til norðurs skammt ofan við Bergþórsvörðu, á brú yfir Hrafnagjá skammt sunnan “hestvagnsgötunnar”. Skammt norðar beygir gatan um 90° til vesturs og liðast þaðan upp heiðina áleiðis að Arnarvörðu. Norðan Bergþórsvörðu er Almenningsvegurinn tvískiptur. Skýringin gæti verið þróun vegarins frá því að vera göngu- og hestagata yfir í að verða hestvagnagata. Þarna gæti hafa verið tenging við veg frá Vatnsleysu, en tenging inn á hestvagnagötuna (vestari götuna) er norðar, ofan túngarðs. Til gaman má geta þess að á báðum götunum mátti sjá leifar af skeifum. Hér á eftir er efri (eystri) leiðinni lýst.
BrúNæst liggur leið okkar um Hafnhóla. Suðvestur frá Bergþórsvörðu er hár og mikill hóll, nokkuð kúptur, sem heitir Litli-Hafnhóll, Neðri-Hafnhóll eða Eystri-Hafnhóll og við hann er loftnetsmastur og sjálfvirk veðurstöð. Sunnar og fast við Reykjanesbrautina að neðanverðu er svo Stóri-Hafnhóll, Efri-Hafnhóll eða Syðri-Hafnhóll. Jón Helgason (1895-1986) ömmubróðir minn sem alinn er upp í Litlabæ á Strönd sagði mér að sá hóllinn sem heitir Litli-Hafnhóll hafi heitið Stóri-Hafnhóll, og öfugt, því hann hafi sýnist stærri frá sjó.
Nú förum við yfir Hrafnagjá og þá rétt austan við afleggjarann að Minni-Vatnsleysu. Gjáin liggur niður um tún Stóru-Vatnsleysu og þar í sjó fram. Margir telja þessa gjá framhald hinnar eiginlegu Hrafnagjár sem er ofan og innan við Voga, en samkvæmt loftmynd og öðrum athugunum er svo ekki.

Arnarvarða

Rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar en stuttu ofan við nýju tengibrautina. Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir.” Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.

Almenningsvegur

Almenningsvegur – refaskyttubyrgi.

“Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg. Nú hækkar landið aðeins og til vinstri handar er rismikil og falleg hólaþyrping sem ber við himinn, heita þar Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
Á háheiðinni norðvestur af Miðmundahólum og nær Strandarveginum, er Arnarvarða eða hluti hennar á hól en við hólinn norðanverðan liggur Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálfatjarnar.”

Braggagrunnur

Þegar komið er upp að Arnarvörðu má sjá yfir gjörvalla heiðina. Ætla mætti að hér hafi tilgangum um verið náð með “ofanleiðinni”, en að sjálfsögðu hlýtur hann að hafa verið allt annar. Ef skoðaðar eru loftmyndir af svæðinu má ætla að í raunþrátt fyrir nokkra hækkun, hafi þessi “úrleið” ekki verið lengri svo nokkru nemi. “Vestari leiðin” liggur þó betur við fæti, liggur neðar og er greiðfærari. Hún liggur neðan við Stúlknabyrgi, en við nánari skoðun virðist þar hafa verið um “sæluhús” eða skjól að ræða á leiðinni. Nafnið er vel við hæfi.

Almenningavegur

Almenningsvegur genginn.

Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Miðmundastekkur sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur ef einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.
Suður af Tvívörðuhól sjáum við klapparhryggi með grasrindum utan í sem hita Löngubrekkur. Þesar slóðir eru kallaðar Hæðin en á há Hæðinni er Stefánsvarða neðan vegar. Stefánsvarðan er eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar. Varðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar.

Árnavarða

Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum. Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.”

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Hér “vatnar undir” lýsinguna. Verið var að rekja “eystri” leiðina um Almenningsveg, en hér er allt í einu komið niður á “vestari” leiðina, þ.e. hestvagnagötuna. Ástæðan er líklega sú að hvorutveggja er Almenningsvegur, frá mismunandi tímum. Skammt frá má sjá leifar af fyrstu vegagerð Strandarvegar, sem síðan hefur verðu færður skammt ofar.
Arnarvarðarleiðin, þótt hún virðist lengri í fyrstu, en einstaklega áhugaverð. Frá henni er hið ágætasta útsýn um gjörvalla Vatnsleysustrandarheiði. Ætla mó þá að ferðalangar fyrrum hafi ekki verið að leita eftir slíkum hughrifum á erfiðri þjólðeið millum áfangastaða.

Almenningsvegur

Vegur ofan Arnarvörðu.

Líklegt má telja ef nágrenni Arnarvörðu er skoðað nánar megi þar finna leiðir upp frá henni að áfangastöðum ofar í heiðinni.
Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur. Aðeins vestar en Löngubrekkur er svo klapparhóll, brattur að norðanverðu, sem heitir Grjóthóll. Á þessu svæði er Almenningsvegurinn frekar óljós.” Aftur er hér aftur horfið til “vestari leiðar” Almenningsvegar. Hún sameinast vestari leiðinni neðan undir Hæðinni. Engin ummerki um hana er að sjá vestar, ofan núverandi Strandarvegarm enda má ætla að leiðin hafi fyrrum legið áleiðis niður að Kálfatjörn.
GamlivegurFast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn. Suðaustur af vörðunni er langur klapparhóll með lítilli grjótþúst á og heitir hann Klifflatarhóll en fyrir austan og ofan hann er nokkuð stór þúfumói sem kallast klifflatir.” Reyndar eru engin ummerki eftir Almenningsveginn (eystri) á þessum slóðum. Líklegra er að hann hafi sameinast vestari götunni undir Hæðinni og legið með henni að garðhliði Kálfatjarnar.
Þegar skoðaðar eru aðstæður austan og vestan Kálfatjarnar má glögglega sjá hvar leiðir hafa legið að höfuðbýlinu. Hlið er á grjótgarði að vestanverðu þar sem Almenningsvegurinn hefur legið að. Vestan hans sést í hestvagnagötuna ofan suðurgarðs Kálfatjarnar. Þar liggur hún áleiðis upp með ofanverðum túnum Þórustaða, ofan við Þórustaðaréttina. Enda segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að vegurinn hafi legið þarna ofan túngarða.
ÁsláksstaðastekkurÞórustaðarstígur liggur frá túngirðingu Þórustaða, u.þ.b. 200 m norðan afleggjarans að bænum og allt upp að ufir fjallgarðinn (Vesturháls). Stígurinn er ógreinilegur fast við og ofan Strandarvegar. Skammt ofar við götuna er Þórustaðaborg. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin. Þórustaðaborgi hefur upphaflega verið fjárborg, en fjárborgum var stundum breytt í stekki eða aðrar byggingar sem hentuðu búskaparháttum hvers tíma og það virðist hafa verið gert þarna.
Stuttu ofan og á móti Landakoti er breitt og flatt holt sem heitir Skálholt og um það eru mörk Landakots og Auðna. Á Skálholti eru a.m.k. þrjár vörður og leifar af litlu grjótbyrgi með vörðu í. Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa s
unnin í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum er uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
VarðaRétt ofan við syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á “Hestaslóðina” sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð sunnan Brunnastaðahverfis. Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götur frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og  börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagur af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.”
StúlknabyrgiGamlivegur er að sjálfsögðu fyrrum hluti Gamla-Keflavíkurvegar (Strandarvegar). Líklegt má telja að hann hafi verið lagður yfir “hestvagnsgötuna”. Út frá henni liggur síðan gamli Almenningsvegurinn upp heiðina áleiðis að Arnarbæli.
“Vatnsleysustarndarrétt eða Strandarrétt stendur á sléttu klapparholti vestan Árnastekks. R
éttin var hlaðin úr múrestinum og var vígð árið 1956, en fyrir þann tíma var lögrétt hreppsins í Vogalandi suður undir Vogastapa. Fast við réttina að austanverðu stóð Ásláksstaðarétt en grjótið úr henni var notað í vegarlagningu. Fyrir ofan Strandarrétt standa tvær háreistar vörður þétt saman en þær hlóðu sér til gamans tveir vikapiltar á Sjónarhóli fyrir fáum áratugum.
Hér er mjög erfitt að rekja Almenningsveginn en þegar sunnar dregur verður hann greinilegri.

Friggjargras

Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki undir lágum hólum. Ofan og austan við Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur.
Vatnshólar heita tveir hólar fast ofan Gamlavegar beint suður af Árnastekk. Suðvestur af Rauðstekk eru fallegustu og grónustu hólar heiðarinnar en þeir heita Arnarbæli eða Arnarbælishólar. Hólarnbir eru mjög áberandi og sjást víða að Stuttu ofna og sunnan við Arnarbæli er Ásláksstaðastekkur í Kúadal, heillegar hleðslur.”
Við Arnarbæli greinist Almenningsvegur; annars vegar vestur fyrir hólana og hins vegar austur fyrir þá. Austari gatan er greinilegri. Líklega hefur Kúadalur verið talinn álitlegri áningastaður áður en lokaáfanganum var náð niður að Vogum.
“Slysabeyja er á mótum Gamlavegar og Strandarvegar. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því degur hún nafnið. Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáaanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað.

Almenningsvegur

Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar. Sigurjón Sigurðsson (1902-1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: “Sagt er, að þeir fragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og hafi prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari.”
Milli Presthólanna liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt a rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vörðuð á þessum kafla fyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarsstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppunum.”
Reyndar sjást engin fá hófaförin þarna, en af verksummerkjum að dæma má telja augljóst að þarna hafi gatan legið.

Almenningsvegur

Almenningsvegur.

Nú erum við komin á Hæðina við Voga þar sem Strandarvegur gengur út úr Vogaafleggjara. Ef grannt er leitað má finna syðsta hluta Almenningsvegar þar sem Hæðina þrýtur til austurs og þá sitt hvoru megin Strandarvegar.”
Reynt hefur verið að lýsa Almenningsveginum á Ströndinni af tímafrekri nákvæmni. Eflaust mun, við nákvæmari skoðun, koma í ljós einhverjar hjáleiðir, sem ekki hafa verið nefndar.
Í Ísafold, 11. okt. 1890, má lesa eftirfarandi:
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum “Svívirðingin”, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðsmarkið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við Varðahinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er
allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og
lengra ætla ég ekki að fara að sinni. Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi. Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Sá vegur liggur vestur
Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa).

Strandarvegur

Strandarvegur.

Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við
á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn. Ritað á Fidesmessu 1890. Vegfarandi.”
Gatnakerfi Vatnsleysustrandar verður gefinn nánari gaumur á næstunni. Hér var um að leiða lokaáfanga á 1200. FERLIRsáfanganum á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007.
Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl.
-Erlendur Magnússon, Kálfatjörn – handrit

Horft.

Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann fyrir nokkrum árum.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.
Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Hermannavarða

Hermannavarða.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kolhólasel

Gengið var suður Rauðhólsselsstíg frá Vatnaborginni norðvestan við Gráhellu vestan Afstapahrauns. Þegar komið var fyrir Hraunsnefið var stefnan tekin til suðsuðvesturs, í áttina að Kolhólaseli.

Keilir

Keilir.

Gamalli götu var fylgt austan Einiberjahóls á Efri-Heiði. Eftir u.þ.b. klukkustundar gang var komið að Kolhólagjá. Skammt sunnan (ofan) við gjána eru hólar með grasi grónum hliðum. Norðaustan undir þeim næst efsta í suðvestri er Kolhólaselið. Tóftirnar hafa verið kunnar, en ekki var vitað um sel eða örnefni því tengdu á þessum slóðum. Landið er í Vatnsleysulandi svo líklegt má telja að selstaðan hafi tilheyrt henni. Kolhóll er allnokkru ofar og þá Hrosshóll áður en komið er upp að Keili.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Vatnaborgin er skammt fyrir ofan Reykjanesbrautina. Hún er 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er skammt austar.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Litlu ofan við hólinn er Grindavíkurgjáin. Ofan hennar tekur við mosalægð en síðan hækkar landið í átt til Keilis. Á þessu svæði er Vatnsleysuheiðin kölluð Efri-Heiði. Þegar komið var yfir Kolhólagjá taka við nokkuð áberandi klapparásar með djúpum grasbollum milli þeirra. Sunnan við ásana er kúptur og hár hóll og norðaustan undir honum er fyrrnefndar seltóftir, í stórri gróinni lægð. Reyndar getur verið nokkrum erfiðleikum háð að finna minjarnar.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Fimm greinilegar, þrískiptar og afmarkaðar tóftir eru undir brekkunni. Sagnir munu vera til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði munu heita Kolhólar og grasrindirnar Kolhólalágar. Ein tóftin, tvískipt, er austan undir brekkunni. Önnur tví eða þrískipt tóft er norðan undir henni og austan hennar er greinilegur stekkur. Húsaskipan eru dæmigerð fyrir selshús á Reykjanesskaganum. Í langflestum seljanna 140, sem finna má á skaganum, eru þrjár vistarverur; búr og svefnaðstaða annars vegar og eldhús hins vegar. Sameiginlegur inngangur er í hinar fyrrnefndu og sérinngangur í eldhúsið. Hefur það verið gert af eðlilegum ástæðum.

Kolholasel-21

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef ekki hefur verið kolasel þarna má vel ímynda sér selráðskonuna, sem hafði öll völd í selinu yfir sumarið, hagræða sér í vistarverunni að loknu dagsverki. Hún hefur tekið daginn snemma, smalinn verið kominn með ærnar úr nátthaganum og hún fært hverja á fætur aðra í kvína til mjalta. Ef einhverja vantaði að morgni var alveg eins líklegt að hann fengi að “eta skömm sína”, þ.e. matarskammtur hans var skorinn við trog þann daginn. Það hefur verið erfitt að vera smali í seli, en samt minnast flestir, sem það voru, þeirra daga með söknuði. Smalinn hefur verið látinn aðstoða við að færa frá og gæta þess vandlega að ekki færi dropi til spillis. Að mjöltum loknum hefur selráðskonan hafist handa við mjólkurvinnsluna og látið smalann hamast við strokkinn. Hleypa hefur þurft undan, skekja smérskökuna, grysja skyrið og búa um allt vel og vandlega í búrinu svo hægt hafi verið að afhenda húsbóndanum afurðirnar skammlaust er hann kæmi í sína reglulegu vitjun til mjólkumatsins og afhenti fiskskammtinn til selsins. Áður en hann kvaddi kyssti hann selráðskonuna að skilnaði, en stundum var sagt að “útilegumenn” eða jafnvel “huldumenn” hefðu komist í þær bæru þær ávöxt eftir selsveruna.

Kolhólasel

Tóft í Kolhólaseli.

Svæðið í kringum Kolhólaselið var gaumgæft og kannað hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Fallin varða er á hól norðvestan við selið, en selsstígurinn liggur austan við hana. Erfitt var að finna hugsanlegt vatnsstæði nálægt selinu, en tveir staðir komu til greina, þ.e. klapparholtin umhverfis eða sjálf Kolhólagjáin.
Drjúgan veg frá Kolhólum, eða um miðja vegu að Keili, er Stóri-Kolhóll eða Kolhóll, eins og hann er nefndur í landamerkjalýsingum Kálfatjarnar og Vatnsleysu og liggur Þórustaðastígurinn fast við hann að vestanverðu. Ofan í miðjan hólinn er djúp og mikil skál og dregur hóllinn líklega nafn sitt af því að í skálinni hafi fyrrum verið gert til kola. Fyrir ofan Kolhól er svo Keilisvarðan, en hún stendur við Þórustaðastíginn.

Strandarheiði

Strandarheiði – vörðukort (ÁH).

Áberandi gata liggur upp og niður frá Selinu. Henni var fylgt til norðurs. Liggur hún niður heiðina nokkuð austan við Þórustaðastíg, en nær samhliða. Þegar komið var yfir Grindavíkurgjá beygði gatan meir til austurs, með stefnu á Djúpadal við Brennihóla. Á sléttlendinu sunnan við Djúpadal virðast hafa verið vatnsstæði, en þaðan er gatan óljósari til norðurs.
Þegar komið var norður fyri Brennihóla mátti sjá hleðslur á einum klapparhólnum. Ein þeirra var greinilega byrgi refskyttu. Frá því var auðvelt að fylgjast með tófuferðum ofar í heiðinni, ekki síst við möguleg vatnsstæði við selsstíginn, ofan við Djúpudali.
Þegar FERLIR fór upp í Kolhólasel frá Vatnsleysuströnd árið 2012, eftir níu ára fjarveru, var m.a. ætlunin að skoða hvort þar kynni að vera eitthvað “nýtt” að finna, þ.e. eitthvað sem hafði yfirsést í fyrri ferð. Enda kom í ljós að svo var.

Kolhólasel

Í Kohólaseli.

Tveir mosavaxnir stekkir og garður komu í ljós norðan við tóftirnar, sem fyrir voru. Þetta segir lærðum og reyndum einungis eitt; það er aldrei of lengi leitað á svæðum sem þarf að fornleifaskrá. Sá tími, sem nú er veittur til slíkra verka, er margsannanlega allt of skammur og því hætta á að merkilegar minjar glatist beinlínis vegna þessa.
Að þessu sinni var haldið áfram upp í Kolhól og han skoðaður nánar. Greinilega er að þarna er um örvarp að ræða en ekki fornleif. Örvarp er svo nefnt þegar náttúrulegum aðstæðum er gefið örnefni er ætla megi að kynni að eiga uppruna sinn í fornleifastað. Hér er um samlíkingu að ræða, líkt og Brunnhóll neðan við Lónakotssel. Þar er um að ræða stórt jarðfall er líkist stækkaðri mynd af brunni.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður. (Sjá meira undir Kolhólaselsstígur).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir- 1995.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um “Trölladyngju og nágrenni” í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
“Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást”.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði”. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi”. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Flekkuvíkursel

Ætlunin var að skoða dæmigert sel á Reykjanesskaganum, eitt af u.þ.b. 400 slíkum, sem FERLIR hefur skoðað hingað til í hinu upprunalega landnámi Ingólfs fyrrum. 

Tvöfaldur stekkur í Flekkuvíkurseli

Flekkuvíkurselið hefur að geyma húsaleifar typískrar húsaskipan seinni tíma selja á Skaganum sem og öll tilheyrandi mannvirki; stekk, kví, vatnsstæði, selstíg og selvörðu auk eldri selminja, sumar hverjar m.a.s. torráðnar. Auk þess eru í selstöðunni leifar eldri selja. Þá er staðsetningin t.a.m. dæmigerð fyrir sel á norðanverðum Reykjanesskaga, þ.e. í skjóli fyrir austanáttinni.
Þegar komið var upp í Vatnsleysuheiðina var selstígnum fylgt upp í Flekkuvíkursel. Tvær áberandi vörður, Bræður, hlið við hlið, eru í heiðinni. “Þær nefnast Bróðir nyrðri og Bróðir syðri”, segir í örnefnaskrá.
Selstaðan er í grónum hvammi. Í honum eru tvö sel, annað yngra. Skammt norðar, einnig í skjóli undir klapparhæð, er þriðja selið. Sjá má þrjá stekki ef vel er að gáð, en það bendir til þess að selstöðurnar í Flekkuvíkurseli hafi verið a.m.k. þrjár, ekki allar endilega frá sama tíma.
Vatnsstæðið í FlekkuvíkurseliÞannig er miðselið greinilega yngst og sennilega það sel er lagðist síðast af rétt fyrir 1880.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Flekkuvík: “Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Þetta ár eru hjáleigurnar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð.”
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli,  sem hétu Holt og Járnshaus, skv. örnefnalýsingu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.” “Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálftjarnar,” segir í örnefnaskrá GE. “Þar rétt hjá er Selstígurinn beint suður í Flekkuvíkursel.
Norðurstekkurinn í FlekkuvíkurseliÞað stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. .. Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka.” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. “Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs [Erlendssonar], Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa.” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1879.
“Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholt og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það.”
Kolagröf? í FlekkuvíkurseliFERLIR hefur nokkrum sinnum komið í Flekkuvíkursel. Í einni af fyrri lýsingunum segir: “Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursels, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.” Auk framangreinds má geta þess að í Seltúninu eru leifar eldri selja á tveimur stöðum, auk leifar af eldri stekk.
Yngsta tóftin í FlekkuvíkurseliAllnokkrar vörður eru ofan og umhverfis Flekkuvíkursel. Í örnefnalýsingu segir að: “Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestur-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum.”
Þegar selstöðurnar þrjár eru skoðaðar má sjá þrjú rými í sérhverri þeirra, dæmifert fyrir sel frá upphafi á Reykjanesskgagnum. Vestasta selið liggur svo til þvert á Vestari-Flekkuvíkurselás. Tóftirnar eru nokkuð reglulegar og ágætur vitnisburður um sel frá miðtímabili seljabúskaparins hér á landi. Þá var að komast skipulegri mynd á húsaskipanina. Rýmin eru í einfaldri röð og má vel greina hvar eldhús, baðstofa og búr hafa verið í húsaskipaninni. Tóftirnar eru grónar, en standa vel.
Selið skammt norðar eru miklu mun reglulegra og heillegra. Í því er miðhúsið heillegast; baðstofan. Í því sjást hleðslur í innanverðum veggjum. Dyr eru mót suðvestri. Veggirnir standa grónir.
Selvarða á Vestari-FlekkuvíkurselásnumStekkirnir gefa jafnan til kynna hversu margar selstöður hafa verið í hverju seli. Einungis einn stekkur virðist vera framan við framangreind tvö sel. Ef vel er að gáð má sjá að nýrri stekkur hefur verið hlaðinn upp úr eldri stekk. Fótstykki gamla stekksins sést norðan og austan við nýrri stekkinn, nú nær gróið yfir hann.
Vatnsstæðið sést enn á Nyrðri-Flekkuvíkurselásnum, norðavestan undir vörðubroti, sem þar er.
Nyrsta selið er líklega elst. Í því eru smæstu rýmin. Gengið hefur verið inn í baðstofuna og búrið frá sama stað; þ.e. búrið til suðurs og baðstofuna til austurs. Eldhúsið er rétt norðan við baðstofuna. Tóftirnar eru grónar. Stekkurinn frá þessu seli er í gróinni kvos skammt norðvestar.
Þegar selstöðurnar voru gistaðar í austanáttinni mátti vel finna hvers vegna þeim var valin þessi staðsetning.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Ein tóft, stök, skammt norðan nyrstu selstöðunnar, hefur vakið vangaveltur. Nú var hún gaumgæfð bæði vel og vandlega. Niðurstaðan er að þarna hafi verið kolagröf. Í tóftinni má sjá ferkantaðar hleðslur og virðist hafa verið hróflað að hleðlsunni. Það verður að þykja eðlilegt þarna því undir er slétt hraunhella í allar áttir. Sennilega má finna undir gröfinni gat á hraunhellunni. Hlaðið hefur verið upp með gatinu og þá myndast þetta mannvirki, sem virðast þá vera leifar fyrrum kolagerðar í heiðinni, sem áður var skógi vaxin. Kolagröfin er við hliðina á elsta selinu í Flekkuvíkurselstöðunni og verður því að teljast til eldri minja – og þar með sérstaklega áhugaverð fornleif.
Sjá MYNDIR frá Flekkuvíkurseli.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Bieringstangi

Gengið var niður að Halakoti. Þar voru bræðurnir Magnús og Ragnar Ágústssynir úti við. Þeir sýndu þátttakendum gamla bátinn frá Halakoti sem er geymdur þar í skemmu, hann var smíðaður árið 1908 og er vel sjófær. Þaðan var haldið út á Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði í leiðinni. Þar var tvíbýli fyrir 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin.

Bieringstangi

Grund – brunnur.

Við Grund á Bieringstanga tók Magnús aftur á móti þátttakendum og sýndi þeim bæinn Grund og fleiri minjar þar á staðnum. Á Bieringstanga var mikil útgerð áður fyrr. Þar var t.d. mikil sjóbúð og salthús. Magnús bendi einnig á letursteinn í fjörunni þar fyrir neðan. Þar virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa í það að þessu sinni.
Þaðan var haldið að Vorhúsum. Þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóftir.

Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo haldið áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Grænaborg

Grænaborg.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg.

Arahólavarða

Arahólsvarða.

Allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Gengið á Arahól að Arahólsvörðu. Arahólsvörðuna lét Hallgrímur Scheving reisa árið 1890. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson. Tilgangurinn er ekki ljós nema þá sem prýði fyrir plássið.
Frá Arahól héldu þátttakendur í kaffi að Sólbergi. Þar var borið á borð dýrindis kaffi og nýbakað rúgbrauð.
Veður var einstaklega gott, sól og blíða – gerist varla betra.
Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd, austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að draga þær til sín. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan. Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Hlaðin rétt er milli Bakka og Borgarkots, önnur ofar og austar og enn ein, minni, skammt frá (líklega þó gerði undir hraunhól).
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan. Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Rétt eða gerði suðaustan við BorgarkotKlaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
kot.

Borgarkot

Borgarkot – réttin ofan Réttartanga, austan Borgarkot.

Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarna var og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum. Stelkur lét ófriðlega, enda varptíminn í hámarki.
Tóftir í BorgarkotiÞegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brúnt, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum með bleikmynstraða polla innan um. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.
Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Handgert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.

Borgarkot

Helgahús – fjárhús vestan Borgarkots.

Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað.
Steinar í nautgripagirðingunni ofan BorgarkotsGirðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Margir þeirra eru nú fallnir á hliðina. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar. Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða boruð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.
Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í steini í girðingunni.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. HÉR má sjá nánari umfjöllun um nefnda girðingu.
Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá öðrum, sem kunna skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu – og jafnvel víðar.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól.

Borgarkot

Réttartangi – skotbyrgi er á tanganum (t.v.) og réttin er h.m. við hann.

Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Borgarkot

Borgarkot.

Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau,að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík. Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot.
Kirkjugatan frá Kálfatjörn um Borgarkot og FlekkuvíkÞarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar. Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn hafa einnig rutt um koll. Fornleifavernd ríkisins virðist ekki standa sína plikt á þessu landssvæði.
Vestast sést kirkjugatan vel í móanum – skammt ofan grjótgarðs Bakka. Þar lét stelkurinn öllum illum látum í sólblikinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

 

Gvendarborg

Gengið var um Hvassahraunsland, að Hjallhólum, Hjallahólsskúti var skoðaður, og síðan haldið suður yfir Reykjanesbrautina, yfir á Strokkamela, skoðuð hraundrýli, sem þar eru, og litið niður í brugghelli.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Þaðan var haldið yfir Gráhelluhraunið, gengið vestur um það að Gráhelluhelli og síðan upp Þráinsskjaldarhraun að Gvendarborg. Síðan var gengið spölkorn til baka yfir á Rauðhólsstíg og síðan norður hann áleiðis að Reykjanesbraut. Skömmu áður en komið var að brautinni við Kúagerði var beygt til vesturs og haldið að Vatnsstæðinu og staðnæmst við Vatnaborg.
Hjallhólar heita hólar innan við Vatnsgjárnar og liggur Reykjanesbrautin um þá. Í Hjallhólum er Hjallhólaskúti og var hann notaður sem fjárskjól, en skútinn er milli veganna og sést op hans frá Reykjanesbrautinni. Ekki er vitað með vissu af hverju Hjallhólanafnið er tilkomið, en ein heimild telur líklegt að í skútanum hafi verið geymdur fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisopinu.

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

Sunnan við Reykjanesbrautina heitir hraunsléttan Strokkamelur eða Strokksmelur. Hraundrýli, sem á honum er, draga líklega nafn sitt af lögun gíganna, sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimildir kalla gígana Hvassahraunsgíga eða Hvassahraunskatla og er katlanafnið notað í Náttúruminjaskrá. Þeir eru ekki ólíkir gervigígunum (Tröllabörnum) undir Lögbrergsbrekku eða í Hnúkum, nema hvað þeir eru minni í sniðum.

Fast við Strokkamelin að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og var til skamms tíma girðing umhverfis opið svo kindur hröpuðu ekki það niður. Í hellinum eru grjóthleðslur, en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum. Frásagnir eru til um ákafa leit yfirvaldsins (Björns Blöndal) að hellinum, en hann reyndist torfundinn. Ofan og sunnan Strokkamels eru Rjúpnadalir. Flatahraun er á milli þess og Afstapahrauns.

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamelum.

Gengið var í gegnum Afstapahraun til vesturs. Var þá komið niður í svonefnda Tóu eitt. Gengið var upp úr henni um Tóustíg, yfir hlaðinn garð í vesturkanti tóunnar og yfir að tungu í vesturkanti hraunsins er nefnist Gráhella. Hún var notuð sem mið af sjó. Í Gráhellukantinum að neðanverðu er lítill skúti, sem heitir Gráhelluhellir.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal, en suður af Hraunsnefi, er hálfhrunin fjárborg, Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmundur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskaganum um aldamótin 1900.
Haldið var spölkorn til baka, sem fyrr sagði, og Rauðhólsstígnum fyglt áleiðis að Kúagerði. Skammt áður en komið var þangað niður eftir var beygt til vesturs, áleiðis að Vatnaborginni.

Vatnaborg

Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg. Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt suðvestur af Kúagerði, sunnan Reykjanesbrautar, er vatnsstæði í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnaborg.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Hvasshraun

Hvassahraun lætur ekki mikið yfir sér þrátt fyrir að bæjarstæðið hafi lengi verið í þjóðleið. Framhjá því hafa farið milljónir ferðamanna, auk Íslendinga, sem átt hafa leið um Reykjanesbrautina millum Kapelluhrauns og Kúagerðis. 

Hvassahraun

Það, sem einkum hefur náð athygli augans á þessari leið, er brúnleitt mannlaust hús, braggi í sama lit og nokkrir kofar á stangli í hrauninu. Brúnleita yfirgefna húsið og bragginn eiga sér sögu, líkt og önnur hús. Rætt var m.a. við Pétur Kornelíusson, einn eigenda Hvassahraus, bæði um húsið og örnefnin.

Hvassahraun virðist ekki hafa tilheyrt Hraunabæjunum s.s. Straumi, Óttarsstöðum, Eyðikoti, Lambhaga, Þorbjarnarstöðum og Lónakoti. Ástæða mun að öllum líkindum fyrst og fremst hafa verið hreppamarkalegs eðlis því Hvassahraun var og er í Vatnsleysustrandarhreppi, en hinir voru í Garðahreppi (nú Hafnarfirði).

Hvassahraunsvörin

Tengslin við Hraunabæina hefur áreiðanlega verið meiri en af er látið. Óvenjulítið hefur verið skrifað um Hvassahraun sem bæjarkjarna, þrátt fyrir að hann hafi  verið í fjölfarinni þjóðleið millum Innnesja og Útsnesja á Reykjanes-skaganum. Hér er að mörgu leyti um áhugaverða fyrrum “sveit” að ræða þótt ekki væri lengur fyrir annað en minjarnar, sem þar eru; áþreifanlegur vitnisburður um gengnar kynslóðir.

Annað sérstaklega áhugavert við Hvassahraunssvæðið er fyrsta viðmót þeirra, sem þar búa, gagnvart ókunnugum. Ólíklegt er að það séu leifar frá löngu liðinni tíð, en einhverri þó. Þegar FERLIR skoðaði svæðið fyrsta sinni með örnefnalýsingar að vopni virtist við fyrstu sín af nógu að taka, enda tóftir, garðar, götur, lægðir og hólar hvert sem litið var, en þegar að íbúunum eða umráðamönnum kom mætti þátttakendum hvarvetna tortryggni og andúð – í fyrstu a.m.k.

Hvassahraun

Einn öskraði á þátttakendur og bað þá um að hypja sig af landinu (jafnvel þótt hann hefði ekkert með það að gera) og annar kom síðar út og heimtaði skýringar á veru þeirra á svæðinu. Í ljós kom, eftir stuttar viðræður við viðkomandi, að hinn fyrrnefndi var bara eins og hann er, og hinn síðarnefndi hafði ástæðu til að tortryggja fólk, sem gekk um svæðið. Öðrum hafði verið bolað frá með fé sitt og hinn hafði þurft að berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni á svæðinu.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Allir er ágætir inn við beinið. Samskiptin, þrátt fyrir tortryggni í upphafi, áttu eftir að breytast til hins betra við nánara samtal. Hafa ber í huga að FERLIR hefur haft þann hátt að kynna viðkomandi ekki strax tilefni ferðar á vettvang, heldur reynt að fá fram viðbrögð hjá viðkomandi er gætu gefið til kynna tilbrigði tilfinninga og ástæðna þeirra er undir liggja hverju sinni. Eftir að upphaflega viðmótinu sleppir og að útskýringum fengnum hefur FERLIR aftur á móti hvarvetna verið vel tekið – með tilheyrandi fróðleik og ávísun á nálægar minjar. Þessi ferð varð engin undantekning í þeim efnum.

Hvassahraun

Hvassahraun – Herforingjaráðskort 1903.

Áður en lagt var af stað voru vopn sótt til Örnefnastofnunar, á loftmyndavefinn og til Fornleifastofnunar Íslands. Fornleifakönnun var gerð um Hvassahraunsland árið 2002 að beiðni Styrktarfélags vangefinna, sem er eigandi Hvassahraunslands vestan og norðan túngarðs, í tilefni af skipulagningu sumarbústaða-byggðar á svæðinu.

Einbúi

Í skýrslunni er m.a. bæjarstæði Hvassahrauns-bæjanna (I og II – Vesturbæjar og Austur-bæjar) staðsett, auk kotanna; Suðurkots, Norðurkots, Þorvaldskots og Niðurkots.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvassahraun er m.a. fjallað um svæðið næst bæjarstæðinu. Þar segir m.a. að Hvassahraun sé  jörð í Vatnsleysus-trandarhreppi næst austan við Vatnsleysur og um leið austasta jörð hreppsins á þá vegu. Í lýsingunni segir að upplýsingar hafi Sigurður Sæmundsson frá Hvassahrauni gefið og aðallega kona hans. Hér er sennilega átt við Sæmund Sigurðsson.
“Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar.

Kirkjuhóll

Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði.” Skyggnir er áberandi hóll norðan við gamla Keflavíkurveginn. Á honum eru hlaðnar a.m.k. tvær vörður og þarf önnur af nútímafólki, sem hefur haft gaman að því að skilja eftir sig verksummerki. Hin varðan er gróin og gæti hafa verið eyktarmark frá Hvassahrauni.

SönghóllÞegar farið er beint niður að sjó neðan við Hvassahraun má líta yfir svæðið með hliðsjón af eftirfarandi í örnefnalýsinunni: “Svo er þar næst vík sem heitir Heimavík og inn úr henni Hvassahraunsvör. Þar fram af tanganum vestan vararinnar er sker sem heitir Snoppungur og þar uppaf er Litliklofi. Þessir Klofar stóðu hver á móti öðrum upp úr sjó þegar allt annað var farið í kaf um stórstraumsflóð [Þeir sjást mjög vel frá Austurbæjarstæðinu]. Þar er svo Sjávarbrunnur, þar er lón og þar er graslendi, Þaravíkur. Þar upp af er svonefnt Vesturhraun, nær upp að vegi. Fúla er vík sunnan við lendingarvík niður í fjöru, þar safnast saman þari og ýlda, þar voru grasflatir.
ÞjófagerðiSvo eru þar utar þrír hólar, Láturhólar, þar hjá eru Láturtjarnir og út af þeim eru tangar sem heita Láturtangar, þeir ná langt út um fjöru, á þeim er mikill þari. Svo er þar næst vestur dalur sem heitir Siggudalur þar sem vegurinn liggur næst sjó, er við veginn upp af Látrahólum. Þá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.” Að sögn Péturs fór Siggudals-Bakkatjörn undir Reykjanesbrautina þegar hún var lögð.
Hvassahraun 2Í örnefnalýsingu kemur fram að við Heimavík er Hvassahraunsvör. Við hana eru Lendingavör á Lendingum. Stutt er þarna á millum. Ofan við eru leifar af hlöðnu húsi og gamalt gerði. Búið er að byggja huggulegt hús ofan við gerðið, sem gæti vel hafa verið rétt um tíma, en segja má eigendunum til hróss að þeir hafa látið garðana halda sér ósnerta.
“Nú færum við okkur heim í tún. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn.
Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo Brunnurer þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni. Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella [sést mjög vel frá Vesturbænum]. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún.
Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.

Norðurkot

Þar niður af er svæði sem heitir Fjósatunga, svo er þar niður af býli nefnt Niðurkot og Sölvhóll er þar. Uppaf í túni er svo Fimmálnaflöt, er þar vestur af þar sem nú er sumarbústaður. Sú flöt var vanalega slegin þegar lítið var um þurrka. Þá brá vanalega til þerris. Vestur undan húsinu er dalur sem heitir Stekkjardalur, þar sunnar er svo flöt í túni sem heitir Kvíavöllur. Brunnur er suður af bæ. Gíslalaut er suður í túni og þar bak við hólana er Undirlendi sem er milli hólanna og túngarðsins. Þessir hólar voru svo nefndir Suðurhólar.”
Hér að framan er getið um Sönghól. Í skýrslu um ábúendur í Kálfatjarnarsókn um 1840 nefndir prestur býlið Saunghól sem hjáleigu frá Hvassahrauni. Þar hafi verið byggð 1803 og virðist búskapur þar hafa verið skammvinnur, ef til vill nokkur ár um 1830.

Niðurkot

Í örnefnalýsingu segir og að í Sönghól hafi verið álitin huldufólksbyggð. “Sönghóll hafi einnig verið nefndur Einbúi”. Hér hefur skrásetjari farið villur vegar um allnokkra metra þar sem hann hefur ruglað saman Sönghól og Einbúa, sem er sitthvor staðurinn, eins og annars staðar er lýst. Þegar Einbúi var skoðaður og leitað var skráningarskjóls undir honum mátti sjá þar vængbrotinn þúfutittling kúra undir honum í skjóli fyrir rammri austanáttinni, sem verið hafði undanfarna daga. Litli smáfuglinn virtist rólegur þar sem hann beið ásjár huldufólksins í hólnum – eða varanlegra örlaga sinna. Norðvestur undir hólnum mótar fyrir tóft.
“Nú flytjum við okkur vestur fyrir, þar upp á flatneskjuna og tókum þaðan svæðið þar vestar og ofar vegar. Utan við túnið er flatlendi, hraun með lausagrjóti, nefnt Melurinn, þetta er flatneskja. Vestan hans eru svo Vatnsgjár.
ÞorvaldskotOfan við núverandi veg vestur af Melnum, neðan við veg á melnum er nafnlaust þúfubrot. Vatnsgjárnar eru svo þrjár og er það Helguhola næst vegi, svo er þar Þvottagjá. Þar austar og ofar er svo smáhóll á milli, þá er Ullargjá, er svo syðst og þar fram af er svo Strokksmelur, þar eru gamlir gígir og smá gömul eldvörp.”

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson [f: 1919] gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, segir auk þessa um sama svæðið (sumt er endurtekið og annað hefur ekki verið skráð áður): “Hvassahraun er austust jarða Vatnsleysu-strandarhrepps. Hún er mikil að flatarmáli, en eldri og yngri hraunbreiður þekja hana alla. Um jörðina hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin.

Hvassahraunsbrunnur

Hvassahraun var aðallega fjárjörð, því að erfitt var til slægna. Líka var stundaður sjór, og þurfti ekki langt að fara til fanga. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana.” Í fornleifakönnuninni segir að bæjarstæðið hfi veri þar sem íbúðarhúsið með steyptum kjallara stendur nú. “Það sem er hæð virðist að mestu náttúrlegt enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn, Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið”. Aðalheimildarmaður fornleifa-könnunarinnar er sagður Guðmundur Stefánsson, en á að öllum líkindum að vera fyrrnefndur Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraunsbrunnur

Þá segir í örnefnalýsingunni: “Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær (001).” Í fornleifakönnunni segir um Austurbæinn: “Um 30 m suðaustan við [Vesturbæinn] 001 er merkt hús inn á túnakort. Guðmundur Sigurðsson telur þetta vera það hús sem kallað var Austurbær eða Hvassahraun 2. Þar er nú hlað”. Ef vel er að gáð má sjó ummerki eftir Austurbæinn á hlaðinu framan við fjárhúsbraggann. Þar mótar fyrir vegghleðslum. Ofar, vestan við braggann, eru leifar af húsi og vestan við þær eru bæjarhólshleðslur. Undir þeim er ferhyrndur torfgarður, augljóslega matjurtargarður.

SauðakofiÍ örnefnalýsingunni segir síðan: “Hvassahraunstún var allmikið um sig og lá á hraunklöppum og í lægðum milli þeirra. Túnið var girt túngarði, aðallega austan og sunnan. Hvassahraunstraðir lágu í suðaustur frá bænum. Á túngarðinum var Traðarhlíð. Suðurtún lá sunnan bæjar og traðanna. Undirlendi var lægð suðaustan við bæinn og lá út að túngarðinum við þjóðveginn. Fjósatunga var hluti túnsins, suður frá bænum. Þar rétt hjá var Fjóshóll og annar hóll, Einbúi. Þar átti að vera huldufólksbyggð. Kvíadalur er einnig í Suðurtúni og Hjallhólar. Í Kvíadal voru ærnar mjólkaðar, en það var löngu fyrir minni Guðmundar. Vestan til í Suðurtúni var Gíslalaut. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Austurtún lá austan og ofan bæjar og norðan við traðirnar.

Austurbærinn

Rófa var slakki nefndur meðfram traðarveggnum nyrðri. Beinateigur var í túninu norðan Austurbæjar. Sönghóll var í Austurtúni. Hann var álitinn huldufólksbústaður. Þarna var Sönghólsbær, stundum tvíbýli, og man Guðmundur eftir görðum þar. Langhóll var norðan við Beinateig. Norðan við Langhól voru Leynir og Þjófagerði, kriki á milli hóla. Þegar verið var að verja túnið, gátu kindur oft laumazt þangað án þess að nokkur sæi. Í Þjófagerði er tóft af hrútakofa. Norðurvöllur var einn partur túnsins, norðan Langhóls. Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Sölvhóll var niður með götunni. Þar voru sölin þurrkuð. Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði, Norðurkot með Norðurkotstúni, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir. Gerði eða Sjávargerði voru túnin og gerðin kringum kotin kölluð einu nafni, og einnig Kotabalar og Kotagerðin og Kotatún.”
SjávargatanSjávargatan er augljós niður frá Hvassahraunsbæjunum áleiðis niður að Hvassahraunsvör. Hún hefur verið gerð bílfær undir það síðasta þótt gróið sé yfir hana nú. Þá mótar fyrir Vatnsgötunni, en líklegt má telja að hún hafi öðru fremur legið að brunni í Suðurtúni. Þar mótar enn fyrir stórum brunni, sem gróið er yfir. Hvasshraunstraðirnar lágu hins vegar til suðausturs vestan við Sönghól og sést enn hvar þær lágu í gegnum Austurgarðinn skammt vestan við Braggann sem þar er. Þær hafa legið inn á Alfaraleiðina, sem þarna liðast á milli Nesjanna.

Suðurkot

Í fornleifakönnunni eru kotin staðsett. Um Suðurkot segir: “Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn (001) voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Samkvæmt örnefnalýsingu átti Suðurkot hins vegar að vera austan Sjávargötunnar, þ.e. norðan bæjarins. Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu”. Ályktun skrásetjara um að Suðurkot hafi verið við Suðurtún er að öllum líkindum rétt. Þar er tóft á grónum klapparrana, Suðurhólum, sunnan við túnið, er tóft með op mót suðvestri, svipuð að stærð og Niðurkotið. Þarna gæti vel hafa verið nefnt Suðurkot og hefur það þá verið við Vatnsgötuna en ekki Sjávargötuna. Reyndar eru hin kotin ekki við Sjávargötuna heldur nokkuð austan hennar.

Suðurkot

Um Norðurkot segir: “Sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dælum”. Norðurkotið hefur verið stærst kotanna; þrjú rými og stórt útihús. Af ummerkjum að dæma virðast bæði Niðurkot og Suðurkot hafa verið tómthús eða þurrabúðir, en Norðurkot og Þorvaldskot kotbýli eða grasbýli.
Um Niðurkot segir: “Enn sjást leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir”.

Garður

Um Þorvaldskot segir: “Þorvaldskot virðist hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni”.
Í lýsingum er einnig getið um Þóroddskot. Ekki er vitað hvar það var, en möguleiki er á að það sé annað hvort annað nafn á Þorvaldskoti eða að eitthvert hinna kotanna hafi tímabundið verið nefnt því nafni.
Auk þessa segir um Kirkjuhól: “Skáhallt suðaustru af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norð-
vestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Gróinn aflangur hóll í túni. Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.” Fjárréttin er svo byggð utan í klapparhól. “Vesturvegginn myndar klöppin og suðurvegginn myndar túngarðurinn. Allir veggir eru sérstaklega hlaðnir. Réttin er alveg grjóthlaðin”. 

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

Í örnefnalýsingunni segir svo: “Bak við Gerðin er hóll, nefndur Miðmorgunshella, eyktamark frá Hvassahrauni.” Hella þessi ber við Hjallhól. “Uppi í Norðurkotstúni er flöt, nefnd Fimmálnaflöt. Þar hraktist aldrei taða. Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfhóll, því að þar messaði huldufólkið. Þangað mátti einnig sjá jarðarfarir huldufólks frá Miðmorgunshellu. Gísli Sigurðsson segir, að í túninu nyrzt sé Stekkur og Stekkjardalur, en Guðmundur kannast ekki við, að þar séu nein stekkjarbrot.

 

Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Þar rétt hjá voru Suðurhólar, klappir. Stóri-Klofi er klettur vestan við Stekkjarnes. Frá honum og vestur að Litla-Klofa er Víkin eða Heimavík. Stóri- og Litli-Klofi eru klofnir klettar í fjörunni.
HvassahraunAustast í Víkinni er Svartiklettur. Ofan sjávarkampsins er fjárréttin gamla. Þar litlu vestar eru Sjávarbrunar. Fellur saltvatn inn í þá í stórstraumi, og er þar hálfgerð fúlutjörn. Næst er svo Hvassahraunsvör eða Vörin. Hún var einnig nefnd Lendingin og Víkin stundum kölluð Lendingarvík. Upp af Vörinni var Naustið. Víkurtangar heita vestan Víkurinnar og þar fram er sker, sem heitir Snoppungur. Sunnan við Lendingarvík er önnur vík, sem kallast Fúla. Þar safnast þari, sem fellur inn í stórstraumi og fúlnar í smástraumi. Þarna er einnig Fúlaklöpp og Fúlubakkar. Þá er komið að Látrum, klöppum vestan við Fúluvík. Ekki er vitað, hvort þar hefur verið selalátur áður fyrr. Þarna eru grasi grónir hólar, sem nefnast Láturhólar. Þeir eru þrír, aðgreindir sem Láturhóllinn yzti, Mið-Láturhóll og Láturhóllinn syðsti. Vestan þeirra er Látrasund. Í Látrunum er einnig Láturtjörn eða Láturtjarnir. Þangað slæddist fiskur, koli og ufsi og þyrsklingur smár. Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti.
NaustVestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur. Austast og næst vegi er Siggudalur og Siggudalstjörn, ein fúlutjörnin ennþá. Hún er alveg við veginn. Ekkert er vitað um Siggu þá, sem þessi örnefni eru dregin af. Þá voru þarna Syðri-Bakkar og Innri-Bakkar og lágu umhverfis Siggudal, einnig nefndir aðeins Bakkar eða Hvassahraunsbakkar.
Utar voru svo Ytri-Bakkar eða Lónabakkar. Svæðið þarna var líka kallað Vestur-Látrar og tjarnir utan Siggudals Bakkatjarnir.”
Að þessu sinni var athyglinni, sem fyrr sagði, beint að heimatúninu og næsta nágrenni þess að vestanverðu. Utan heimatúnsins eru fjölmargar minjar, s.s. fjárskjól, gerði, réttir, hústóftir, götur o.fl.

HvassahraunstraðirAð sögn Péturs Kornilíussonar, eiganda Hvassahrauns, væri þekking hans á örnefnum á jörðinni takmarkaður. Eftir viðræður við hann kom þó hið gagnstæða í ljós.
Pétur sagðist hafa keypt hluta af jörðinni með fermingarpeningum sínum. Hann myndi eftir því að núverandi íbúðarhús, brúnmálað þrílyft, var flutt frá Bergstaðastræti 7 að Hvassahrauni annað hvort árið 1966 eða ’67. Kirkjuhóll (Álfhóll) væri rétt austan við íbúðarhúsið. Norðan hans væri stakur hóll eða klettur; Einbúi. Hann væri álfakirkja. Langaflöt væri svo sunnan við húsið, en þar á millum væri Brunnurinn. Hann væri hlaðinn hringlega, ferlega djúpur. Sönghóll væri austan við fjárhúsið og Langhóls norðan hans. Austan þess væri Leynir því það svæði sæist ekki frá bænum. Þjófagerði væri litlu innar þar sem sauðhústóftin væri. Uppi á holti norðan við Þjófagerði væru útihúsatóftir, líklega frá þeim tíma er síðast var búið torfbæjarbúskap að Hvassahrauni.
Pétur staðsetti Bakka, Bakkatjarnir og Sigguvík neðan við Siggudals. Bakkatjarnir þar ofan við hefðu farið undir Reykjanesbrautina líkt og brugghola Hvassahraunsbónda, sem þar var skammt vestar.

Hvassahraun

Á bökkum sagði hann hafa verið fjárhús er sjá mætti leifar af. Túnið hefði fyrrum verið grónir blettir í hrauninu, en væri nú orðið samfelldara og hefði verið stækkað mikið.
Hvassahraun er í dag vel í sveit sett milli byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Suðurensjum hins vegar. Svæðið gefur góða mynd af heilstæðu bússetulandslagi sem telja verður dæmigert fyrir útvegsbændasamfélag fyrri tíma. Með skipulegum göngustígum og góðum merkingum á heimajörðinni og næsta nágrenni hennar mæti gera þarna eftirsóknarverðan áfangastað ferðamanna, en um 90% þeirra fara um Reykjanesbrautina, örskammt frá, á leið sinni til og áleiðis frá landinu hverju sinni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.
-Fornleifakönnun fyrir Hvassahraun, Elín ÓSk Hreiðarsdóttir fryir Fornleifastofnun Íslands, 2002.
-Pétur Kornelíusson, eigandi Hvassahrauns, f: 29.03.1953.
-Róbert Kristjánsson, Hvasssahrauni.
-Arndís Einarsdóttir, Hvassahrauni.
-Túnakort af Hvassahrauni frá 1919.
-Jarðatal Johnsen 1847.
-Jarðabók JÁM 1703 (Kaupm.höfn 1943).

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.