Færslur

Auðnasel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.

Knarrarnessel

Í Knarrarnesseli.

U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Einiber

Ákveðið var að reyna að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.
Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraunssel-22

Hvassahraunssel – stekkur.

Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Hvassahraun segir m.a. um Hvassahraunssel: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hHvassahraunssel-21raunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.
Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings.
Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.
Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krosstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu. Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring.

Urðarás

Urðarás.

Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra. Örn kom fljúgandi úr vestri á leið yfir að Skógarnefi og flaug lágt. Ótrúleg stærð. Hefur líklega komið úr Arnstapahrauni [Afstapahrauni] þarna vestan við.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um Lónakotssel: “Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum.  Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali, klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.” 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvassahraun

Hvassahraunssel

Í Hvassahraunsseli.

Flekkuvíkursel
Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni.

Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkur

seli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóftir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Enn norðar er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – selsvarðan.

Skýringin á vörðunum tveimur, “Bræðrum”, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.

Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu.

Flekkuvíkursel

Flekkavíkursel – refagildra.

Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. “Gildrur” þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesskaga fyrrum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Gangan tók 1 og ½ klst.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

 

Hólmur

Í BS ritgerð Gunnars Óla Guðjónssonar í maí 2011 um “Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd“, sem skrifuð var í Landbúnaðarháskóla Íslands, má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um verstöðvar og aðbúnað í verum með áherslu á svæðið í kringum Stapann við Voga.

Verstöðvar

Verstöðvar á Suðvesturlandi.

Öll hin gömlu ver eru nú horfin. Gunnar leggur t.d. til endurgerð vers á svæðinu í ljósi sögunnar. Sambærilega tillögu má finna annars staðar á vefsíðunni þar sem lagt er til að slíkt mannvirki verði endurgert í umdæmi Grindavíkur.

Verbúð

Verðbúð síðari tíma.

“Verstöðvum á Íslandi má skipa í fjóra flokka. Frá heimvörum réru menn frá vör er var í nánd við bæinn. Í margbýli var venja að bændur sameinuðust um heimvör og gerðu þá út saman. Eins og nafnið gefur til kynna, voru útverin andstæða við heimverin. Benda heimildir til þess að útverin hafi snemma komið til sögunnar en m.a. er talað um veiðistöðvar í þjóðveldisaldarritum. Það tíðkaðist í útverum að menn dveldust þar á meðan vertíð stóð. Í upphafi voru verbúðirnar ekki rismiklar, aðeins tóftir sem tjaldað var yfir. Tímar liðu og verbúðirnar fóru smám saman að minna meira á hýbýli manna þar sem fólk gat hafist við allan ársins hring (Lúðvík Kristjánsson, 1982).

Aðbúnaður í verum

Stapabúð

Stapabúð undir Stapa.

Í blönduðum verum og heimverum tíðkaðist að vermenn gistu á bæjunum í kring eða bændur sáu um að útvega gististað. Í útverum voru hinsvegar sérstakar verbúðir. Stærð búðarinnar fór eftir gerð skipsins sem gert var út í verstöðinni. Tíðkaðist að ein skipshöfn hefði eina verbúð útaf fyrir sig. Veggir verbúðarinnar voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Þakið var úr sperrum og yfir þær lagt torf. Dyr voru ýmist á gafli eða hlið. Eini gluggi verbúðarinnar var skjár á þaki eða þá yfir dyrum.

Þorlákshöfn

Verbúð í Þorlákshöfn.

Byggingarlag verðbúðar líktist útihúsum á sveitabæjum. Í flestum tilvikum voru stutt göng inn af dyrum. Inn af þeim tók við aðalvistarveran sem var sjálf búðin, þar sem verbúðarmenn höfðust við. Ekki var verbúðin hólfuð niður, heldur opin og rúmstæðin gerð úr torfi og grjóti meðfram veggjum.
Í stærri verbúðum var oft autt rúm innaf búðinni og kallaðist kór.

Verbúðarmenn deildu rúmum eða bálki eins og það var kallað. Var það í höndum formanns að velja hvaða tveir og tveir menn lágu saman. Þeir skiptu svo með sér verkum, hvort sem það var að sækja vatn, eldivið eða sjá um lampann í verbúðinni. Önnur tilfallandi verk voru t.d. að elda mat og hita kaffi í morgunsárið. Kjásarhaldari var sá sem tæmdi hlandkoppa verbúðarmanna.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Til þess að komast að í verbúð, varð að fylgja mönnum ákveðinn skammtur af fæði. Reglur voru þær að hverjum manni yrði að fylgja kjöt, rúgur, feitmeti, harðfiskur og sýra. Þessi kostur var kallaður mata. Yfir daginn fengu verbúðarmenn eina heita máltíð, soðninguna. Áður en farið var á sjó fengu verbúðarmenn sér að éta en ekki tíðkaðist að taka með fóður í róðra, nema þá einn blöndukút með sýru. Eftir túr, þegar búið var að draga bát í land beið þeirra saðning, var það í hlutverki fanggæslunnar að matreiða hana. Er menn höfðu étið nægju sína var gengið frá skipinu og aflanum. Fanggæslan var kona sem þjónustaði vermenn. Hún þvoði þvott, bjó um rúm, sá um matseld og þreif. Á Suðurnesjum voru þessar konur nefndar hlutakonur (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Vermaður

Vermaður í sjóklæðum.

Vermenn klæddust skinnklæðum sem hlífðarfatnaði. Í Íslenskum sjávarháttum III, segir Lúðvík Kristjánsson svo frá að tíðkast hafi að kenna piltum að sauma sér klæði úr skinni strax að lokinni fermingu. Þó svo að konur hafi fengist við skinn má víst telja að það hafi verið karlmannsverk. Í fötin var brúkað sauðskinn en nautshúð í skógerð, þó kom fyrir að skór væru gerðir úr hákarlaskráp, þá ef hann fékkst. Um sjóklæðin má segja að þau hafi verið stakkur sem náði niður á mið læri og brækurnar best heppnaðar ef náðu þær upp undir hendur. Þó voru til margvíslegar gerðir af sjóbuxum sem kallaður voru nöfnum eins og skóbrók, ilbrók og sólabrók. Saumaðir voru leðurskór við skóbrókina en ilbrókin saumuð saman að neðan á meðan sólabrókinni var hafður sóli í stað skós. Sjóskór voru svo notaðir við sólabrækur sem og ilbrækur. Skinnklæðum varð að halda mjúkum og voðfelldum, til þess voru þau reglulega mökuð feiti. Í verkið notuðu menn lifur og til að ná sem bestum árangri varð hún að vera ný og mátti helst ekki vera mjög feit.

Vermaður

Skinnbrækur vermanns.

Bestu útkomuna fengu menn ef þeir komust yfir skötulifur, en hrálýsi var notað í hallæri og þótti ekki eins gott. Svo má geta þess að selspik þótti skila góðum árangri. Eftir að klæðin höfðu verið mökuð voru þau samanbrotin og sett undir farg í rúman sólarhring. Eftir það voru þau þurrkuð í tvo þrjá daga. Uppúr 1870 fóru menn að leggja skinnklæðum sínum og með tímanum hurfu þau úr sögunni. Í staðinn komust í tísku olíustakkar og klæði úr öðrum efnum. Í köldum veðrum og vistarverum voru vettlingar ómissandi og tíðkaðist að vermenn kæmu með nokkur pör með sér. Við róður þófnuðu vettlingar eins og svo var kallað og urðu vel rónir vettlingar næsta vatnsheldir. Á höfði í róðri, báru menn hettu en síðar kom hattur til sögunnar. Algengt var að sjóhattar væru innfluttir og framleiddir úr lérefti (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Saga og búseta

Stapi

Stapinn – Brekka t.v. og Hólmabúð fjær.

Þegar gengið er niður bratta, hlykkjótta götuna niður Brekkuskarðið birtist fyrir augum manns Hólmabúðir. Greinilegt er að hér hefur verið mikið líf og hér hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir, en saga þeirra er nú glötuð. Þó nokkuð er þó vitað um sögu Hólmans síðan 1830-1940, þegar hið svonefnda anlegg rís. Anlegg var það sem menn nefndu salthúsið og fiskitökuhúsið sem P. Chr. Kundtzon lét reisa. (Árni Óla, 1961) Á loftum þessara húsa munu hafa verið bækistöðvar aðkomusjómanna, en sjálfir gerðu þeir sér grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður. Saltið fengu þeir aðflutt á skútum á sumrin, á sama tíma og fiskurinn var sóttur.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Á svæðinu er skrokkur af innrásarpramma sem bandamenn smíðuðu til þess að flytja herlið sitt til Frakklands. Þegar komið er út í Hólmann er hann nokkuð stór og hringlaga og þar má finna margar leifar af mannvirkjum fyrri tíma. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fiskitökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins sem þar var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breidd. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús sem gætu hafa verið nýttar til þess að breiða út fisk.

Stapi

Brekkuvör – Hólmurinn fjær t.h.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefur sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum niður í gegn um tíðina og ekki er hægt að sjá hve mörg þau hafa verið, en þó standa heillegar tóftir af sumum. Þarna er að finna leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðal kálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, sem gætu hafa verið nýtt sem bátaskýli, en þangað höfðu bátar verið dregnir inn í skjól þegar illa viðraði. Þessi rétt eða skýli hafa verið rétt við lendinguna innan á Hólmanum, en síðan var önnur lending utan á honum.

Hólmur

Hólmurinn.

Seinustu útgerðarmenn á svæðinu á meðan anleggið var og hét, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík (Árni Óla, 1961). Það er talið að þeir hafi gert út á 18 bátum á þeim tíma og ef áætlað er að jafnaði séu um sjö menn á hverju skipi verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna á bilinu 140-150 manns (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Hólmur

Hólmurinn.

Þurrabúð rís fyrst í Hólmi árið 1830. Bjarni Hannesson hét sá er þar bjó fyrstur, en hann lést árið 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni sem var vinnumaður hjá þeim og bjuggu þau í Hólmabúðum fram til ársins 1848. Það er á þessum tíma sem Knudtzon byrjar að byggja anleggið og leggur hann undir sig Hólmabúðir eftir að Guðmundur fer þaðan. Á þessum tíma tóku kaupmenn að hugsa um að tryggja sér þann mikla fisk sem barst að landi á Suðurnesjunum og greiddu þeir mönnum utan af landi sem vildu gera út á vertíð, en mynd 20 sýnir verstöðvar á suð-vesturlandi.

Hólmur

Hólmurinn.

Vorið 1876 fluttist Stefán Valdimarsson Ottesen í Hólmabúðir og bjó þar til 1882. Þá var mjög farið að draga úr útgerð á svæðinu og árið 1898 tók við Björn Guðnason og var væntanlega seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður sem þar bjó, var Elís Pétursson og var hann þar í aðeins eitt ár, en eftir þann tíma fara engar sögur af stöðinni og munu húsin hafa verið rifin um aldamót, efnið flutt í burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Stapi

Stapinn – Brekkutóftir og Hólmurinn.

Seinasti aðkomumaðurinn, eða útlendingurinn eins og þeir voru kallaðir í Vogum, sem gerði út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn Höfrung árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum. Þetta var 8 tonna bátur og Haraldi leist ekki á að gera út þaðan, en taldi hann Hólmabúðir henta vel sem útgerðarstað fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn og ef illa viðraði var hægt að draga bátinn á land. Þegar Haraldur flutti var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en þar reisti hann og stundaði útgerð í þrjú ár, en flutti síðan til Sandgerðis.

Stapi

Brekka undir Stapa; minjar.

Á undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka sem var reist af Guðmundi Eysteinssyni þegar hann fór frá Hólmabúðum árið 1848 og bjó hann þar fram til 1861. Eftir það voru þó nokkrir ábúendur sem stöldruðu við í stuttan tíma, áður en Guðmundur Jónsson fluttist þangað árið 1869 og bjó þar í 30 ár.

Brekka

Brekka udir Vogastapa.

Árið 1899 komu þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex börnum sínum. Pétur bjó í Brekku til dauðadags árið 1916 og ekkja hans bjó þar eitt ár eftir dauða hans, en þá tók tengdasonur hennar Magnús Eyjólfsson við búinu og bjó þar til ársins 1930. Greinilega má sjá vel hlaðinn stofuvegg bæjarins uppistandandi. (Árni Óla, 1961)”
(Brekka fór í eyði 1928 og íbúðarhúsið flutt í Voga.)

Heimild:
-Gunnar Óli Guðjónsson, BS – ritgerð; Maí 2011. Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd, Umhverfisskipulag – Landbúnaðarháskóli Íslands.

Stapi

Stapabúð undir Vogastapa.

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, en fengu síðan selsstöðu í Sogaseli.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gígur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á vellina. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík um tíma. Margar kofatóttir eru í gígnum og a.m.k. ein utan hans til suðvesturs, handan lækjarins.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: “Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel”. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið “Sogaselshrygg”.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlöðunessel

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er getið um öll sel, sem þar er að finna.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vantsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. Árið 1703 var búfénaður á Brunnastöðum sem hér segir: 10 nautgripir, 27 kindur ásamt lömbum, 29 sauðir og 4 hestar. Heimilsfólk var 14 talsins. Hjáleigurnar voru 5 og þar 8 kýr og 7 kindur. Því má ætla að um aldamót 1700 hafi 10-12 kýr verið í Brunnastaðaseli og 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
[Þess skal geti að höfundur hefur gengið mikið með Sesselju um selin ofan Vatnsleysustrandar og orðið margs áskynja. Eitt af merkilegri seljum þar er Gjásel. Það er undir Stóru-Aragjá og er sennilega eitt fyrsta “raðhúsið” hér á landi. Í einni keðju eru a.m.k. 7-8 hús undir gjárveggnum og tveir stekkir. Þarna hefur greinilega verið um einhvers konar samyrkjubúskap að ræða, sem fróðlegt væri að reyna að fá gleggri upplýsingar um].

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Í upphafi voru líklega bæði kýr og kindur hafðar í seli hér í hreppnum og afurðirnar, jafnvel ullin, unnar á staðnum. Selfarir lögðust trúlega endanlega af hér og víðar á landinu upp úr miðri nítjándu öldinni, og þá á bilinu 1850-1880. Selstæðin voru kennd við höfuðbýlin en hjáleigubændurnir höfðu líka afnot af þeim og víða voru því 4-6 búendur á sama selstæðinu.
Í heimildum um seljabúskap í Dalasýslu er sagt að sumir bæir hafi átt tvö sel og þrjú sel og notað a.m.k. tvö sama sumarið, þ.e. flutt búpeninginn á milli selja þegar beit var uppurin í því sem fyrst var flutt í. Ekki er getið um kýr í seljum þar vestra á 19. öldinni, aðeins kindur. Í ritinu segir: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Vogasel

Vogasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Líklega hefur seljabúskapurinn hér verið með svipuðu sniði og fyrir vestan en ekki er vitað til þess að býli hafi átt tvær selstöður. Hér í hreppi hefur verið meiri nauðsyn á að hafa kýr í seli en í Dölunum vegna þess hve heimahagarnir vorur rýrir.
Vatnsskorturinn í heiðinni er tíundaður í Jarðarbókinni 1703 og er sagt þar að fólk hafi þurft að flytja hem úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimidlir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til sömu nota. Það sama hefur eflaust gilt hvað varðar selstöðurnar hér og víðar þegar þurrviðrasamt var. Við nokkur selin í heiðinni eru smá vatnsstæði í klöppum og gamlar heimildir eru til um vatnsból við önnur en þau hafa ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

[Selin á Vatnsleysustrandarheiði eru öll ofan Reykjanesbrautar]. Norðaustur og upp frá Pétursborg [á Huldugjárbarmi] en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegn um einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel enda engar húsarústir sjáanlegar. [Minjarnar í og við hólana benda til þess að þarna hafi verið sel. Ekki er útilokað að tjaldað hafi verið yfir gjána, en í henni eru hleðslur veggja].

Undir Arahnúk [þar sem Stóra-Aragjá rís hæst] er Arahnúkasel eða Arasel. Ekki er vitað við hvern þennan Ara selið er kennt við, en getgátur hafa verið uppi um það, sem ekki verður fjallað nánar um hér. Selið dæmigert fyrir selin á Reykjanesskaganum; í skjóli fyrir austanáttinni.

Arasel

Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
[Þess ber að geta framangreindu til staðfestingar, að við leit að vatnsstæðum og vatnsbólum við sel á Reykjanesi sumrin 2002 og 2003 kom í ljós að sum þeirra höfðu þornað alveg upp miðsumars, enda um óvenjuhlý sumur að ræða.]

Fjárborgir eru margar hér enda hreppslandið talið gott sauðfjárland. Skúli Magnússon segir í landlýsingu sinni árið 1785 að Strandarheiðin sé “….eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar það sem ég hefi séð á Íslandi….”.
Merki um 10 fjárborgir eru sjánlegar og eru þær mismunandi heillegar, allt því að vera svo til óskemmdar niður í illgreinanlegar hringlaga grjóthrúgur.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Um síðustu aldarmót var t.d. setið yfir tugum sauða í Kálffelli [sunnarlega í Vogaheiðinni]. [Þar má bæði sjá hleðslur við fjárskjól á a.m.k. tveimur stöðum, stekk og hlaðið gerði. Auk þess er þar að finna helli Odds frá Grænuborg, en hann hélt til í honum um aldarmótin 1900]. Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d: 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.

Oddshellir

Oddshellir.

Oddshellir er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið neðan dyranna. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

[Nýjasel er austanvið Snorrastaðatjarnir. Þar mótar fyrri nokkrum tóftum og stekk undir lágreistum bjalla. Snorrastaðasel er norðan við Snorrastaðatjarnir. Um eina tóft er að ræða. Í hana hefur, af öllum stöðum, verið plantað grenitré. Talið er að Snorrastaðasel hafi verið kúasel].

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Nokkurn spöl vestan við [svonefnda] Viðaukahóla er nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan við Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel. Víst er að Þórunafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en í því átti að satnda höfuðból með átján hurðir á hjörum. Engar rústir eru sjánlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað, en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð.
[Rétt er að geta þess að þarna skammt vestar er gróinn hóll. Í honum má sjá marka fyrir hleðslum í klofi hans. Utan með er það gróið og enn utar það mikil eyðing, að erfitt er að sjá hvor þar geti verið hægt að finna heilleg mannvirki. Þó er það ekki útilokað]. Ein sögn er til að Þórusel hafi verið um tíma í Fornuseljum í Sýrholti.

Kvíguvogasel - SnorrastaðirUtan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar sjást þrjár gamalgrónar tóftir og ein nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 17003 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel.
[Í brekkunni suðaustan við Gömlu-Vogasel má sjá tóftir Nýju-Vogaselja. Þær eru nokkrar á a.m.k. tveimur stöðum; aðrar undir klapparhól og hinar skammt neðar utan í grónum hól. Ofar er stekkur og fleiri hleðslur].
Frá Gamla-Vogaseli, austur af Vogaholtinu, er Brunnastaðasel undir Brunnastaðaselsgjá og er um 15 mín. gangur á milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru um Brunnastaðaselsvansstæði ofan við og sunnan selsins en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggnirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.

Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og liggur um Gjásel og Brunnastaðasel.
Undir Hlöðunesskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel og þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikill þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðunesi sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.[Þegar Hlöðunessel var skoðað komu í ljós mjög gamlar tóftir á tveimur stöðum á torfu þeirri, sem enn er heil, en í kringum selið er mikill uppblástur, eins fram hefur komið, en þarna er greinilega um mjög gamalt sel að ræða, sem erfitt er að koma auga á].

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðarbókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni.
Selið sést vel frá Skrokkum og er stutt ganga að því. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt fyrir ofan hólinn að austanverðu er smá vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á legnd, um 2 m á breidd með grjóthleðslu í kring.
Fyrir ofan fornasel liggur Línuvegurinn. Ofan hans blasir Klifgjá við og framundan er bergveggur hennar hár og mikill, en lækkar til austurs og vesturs þegar fjær dregur.
Yfir gjána á þessum slóðum eru tveir stígar með nokkru millibili; Knarranesselstígur og Auðnaselsstígur nokkurn spöl norðaustar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan við Klifgjá og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selsstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnstæðið sem er um 100 m neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Næst er Auðnasel, en það er norðaustur af Knarranesseli innan við [Breiðagerðisslakka]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól. [Við leit að vatnsstæðinu sumarið 2003 kom í ljós að það er niðurgrafið undir nefndum klapparhól, skammt norðan vestustu tóftanna].
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræsluflug. [Við skoðun á Sýrholti og Fornuseljum sumarið 2002 komu í ljós tóftir á tveimur stöðum. Tóftir eru norðvestan í holtinu. Þá eru tóftir nokkru norðar. Norðan þeirra, í gjá, er hlaðin kví].

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts, en norðan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.

Flekkuvíkursel

Selsvarða við Flekkuvíkursel.

Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-
Flekkuvíkurás og Nyrðri-Flekkuvíkurás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Þórustaðastígurinn liggur milli Selshálsins og Sýrholtsins, síðan yfir Grindarvíkurgjána og áfram upp í heiðina.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan Flekkuvíkursels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman og heita Bræður.
Undir norðaustanverðum Rauðhól er Rauðhólssel, en það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból. Upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði liggur Rauðhólsselsstígur, eða Rauðhólsstígur, upp í selið.
Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur frá Brennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel. Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tvennar tóftir af kofayrpingu, en kvíin er vestarlega í seltúninu. Austarlega á Selásnum er há varða sem sést víða að.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum, en hún lifði líklega fram á anna tug þessarar aldar”.

Arasel

Ara(hnúks)sel – Uppdráttur ÓSÁ.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel fram á 19. öldina; það eru Hvassahraun og Flekkuvík. Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð nýlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir eins og [áður] er getið um.
Hvassahraunsselstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina. Líklega eru örnefnin Selskrínshæð og Hálfnaðarhæð við stíginn og þá Hálfnaðarhæðin fast hægra megin við hann sé gengið upp eftir. Örnefnið Selskrínshæð gefur til kynna að þangað hafi selfólkið farið með selskrínunarr og þær síðan verið sóttar á hæðina af heimafólki og eða skipt um ílát þar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur úr Hafnarfirði um Óttarstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn: Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðhólsstígur eða Óttarstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargatan og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir geta um vatnsból við Hvassahraunssel og þá undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það. Nokkur leit hefur verið gerð að vatnsstæðinu, en það hefur ekki fundist. [Gerð var leit að því sumarið 2003 og fannst það á nefndu stað skammt fyrir ofan selið. Þar eru nokkrir hraunbollar og í einum þeirra var greinilegt vatnsstæði undir].
Næst er fallegasta gróðursvæðið á öllum Reykjanesskaganum, en það eru Selsvellirnir, sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænuvatnseggjum af smá dalverpi eða gili, en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd, en aðeins rúmlega 0.2 km á breidd.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir í lýsingunni að Selsvellir séu “í Strandamannalandi eður fyrir norðan Grindavíkurlandamerkin”. Þrátt fyrir þess heimild og fleiri hafa bændur í Grindavíkurhreppi eignað sér Selsvellina í tugi ára og á kortum Landmælinga Íslands er línan alltaf Grindvíkingum í hag þó svo hún sé að vísu einatt skráð sem óviss mörk.
Tveir lækir, Selsvallalækir, ranna um sléttuna, en hverfa svo niður í hraunjaðarinn, sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili sunnan Kúalága, en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nokkuð nálægt Selsvallaseli.
Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Backmann, Staðapresti, til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. [Þess ber að geta til glöggvunar að eldri seltóftir eru austan Selsvalla skammt norðar. Á milli þeirra liggur greinilegur stígur að nýrri selstóftunum. Kemur hann inn á selstíginn yfir hraunið, áleiðis til Grindavíkur, vestan þeirra. Stígurinn, sem reyndar greinist í fleiri stíga, er djúpt markaður á kafla eftir lappir og fætur liðinna kynslóða.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Handan við hraunkantinn að vestanverðu er Hraunsels-Vatnsfell. Uppi á því austanverðu er gígur með vatni í; vatnsstæði. Það hefur greinilega verið mikið notað í gegnum aldirnar, ef marka má hinn markaða stíg, sem þarna liggur á millum].

Heimild:
-Selin í Vatnsleysustrandarheiði – eftir Sesselju Guðmundsdóttur – “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd”.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða “Menningsleið” vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.

Þráinsskjöldur

Á Vísindavef Háskóla Íslands er spurt: “Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?”
Hallgrímur J. Ámundason, fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svarar:

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígar dyngjunnar láta ekki mikið yfir sér.

“Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gígurinn.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni.

Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð. Sjá rit Sesselju: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út 2007.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.”

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Virkishólar

Gengið var til suðurs frá Reykjanesbrautinni austan við Hvassahraun að svonefndum Virkishólum. Ætlunin var að skoða Virkið, sem þar er á milli hólanna. Virkishólarnir þrír eru áberandi skammt sunnan við veginn.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Skv. upplýsingum Kristján Sæmundssonar, jarðfræðings, myndast hólar sem Virkishólar þannig að glóandi kvikan safnast saman á einum stað og nær ekki að renna frá. Massi hraunsins þenst út vegna hitans og gúlpar og sprengir af sér harnaða hraunskorpuna.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Djúp sprunga er í efsta hólnum. Greinilegur gróinn stígur lá frá Hvassahrauni áleiðis upp að hólunun. Liggur stígurinn í reglulega lagað, nokkuð djúp og gróið jarðfall; Virkið. Það var notað til að hleypa til í um fengitímann. Fyrirhleðslur eru í norðanverðu jarðfallinu þar sem farið er ofan í það og skúti norðarlega. Vel gróið er í kringum Virkið sem og inni á milli og utan í hólunum. Ekki er útilokað að Virkið hafi einnig verið notað sem nátthagi því greinlega hefur verið beitt þarna um nokkurn tíma.
Skammt austan við Virkishólana eru aðrir hraunhólar í hólóttu helluhraunnu. Suðvesturundir einum þeirra (varða ofan við) er jarðfall. Í því er hlaðið fyrir skúta, Lofstkúta. Þarna munu Hvasshraunsmenn hafa m.a. geymt rjúpur o.fl. þegar þeir voru við veiðar í hrauninu.
Gangan tók 53 mín. Blanka logn og sól.

Loftsskúti

Í Loftsskúta.

Borgarkot

Gengið var frá Minni-Vatnsleysu að Þórustöðum. Skoðuð var stórgripagirðingin vestan Vatnsleysu, en hún liggur í beina línu frá hæðinni vestan bæjar niður að sjó.

Flekkuvík

Flekkusteinninn.

Einmana ryðgaður mjólkurbrúsi, merktur MSR, stóð þar uppréttur á mosavaxinni hæð, líkt og hann vildi enn um sinn minna á hina gömlu búskapahætti. Staldrað var við vatnsstæði á milli kletta austan Flekkuvíkur og síðan haldið yfir túnið með viðkomu við Flekkuleiði og skoðaður rúnasteinninn, sem þar er. Litið var á Stefánsvörðu efst á Almenningsleiðinni, en í henni er letursteinn eftir þá feðga, Jón og Magnús, sem hlóðu hana á sínum tíma. Austan við Litlabæ var gengið að stórgripagirðingunni gömlu, sem þar liggur frá austri til vesturs og komið að gamalli refagildru skammt ofan hennar. Þaðan var haldið yfir og niður fyrir Kálfatjörn, þar sem ætlun var að skoða letursteininn frá 1674.

Borgarkot

Girðingarsteinn ofan við Borgarkot.

Sjórinn er búinn að róta grjóti yfir hann að nýju. Hann fannst þó eftir nokkra leit, en er nú að færast neðar í fjörukambinn. Skoðaðar voru tóttir suðvestan sjóbúðanna. Við þær er greinilega gamall brunnur eða vatnsstæði, hlaðið undir hól. Þegar komið var að Þórustöðum blasti við hópnum hinn fallegasti brunnur, hlaðinn niður og í kringum opið, ca. 7-8 metra djúpur. Myndaði brunnurinn fallegan forgrunn við gamla hrörlega bárujánshúsið á hólnum ofan við hann.
Golfararnir á Kálfatjarnarvelli gerðu hlé á iðju sinni þegar FERLIRsfólkið gekk þvert yfir völlinn á bakaleiðinni, tóku niður derhúfur og lutu höfði – fullt lotningar yfir að til væri fólk er getur gengið lengra en að endimörkum vallarins…

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.