Færslur

Kálfatjörn

Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi.

GoðhóllKálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað fjöruparti þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka.

Kálfatjörn

Landabrunnur við Kálfatjörn. Ólafur Erlendsson við brunninn ásamt Selvogs Jóa.

Rétt við túngarðinn á Kálfatjörn er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur. Þar þrýtur sjaldan vatn. Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur. Þá voru teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina. Þessi brunnur er fallega hlaðinn með með heillegri á svæðinu. Væri vert að skoða hvort hægt væri að endurbyggja yfir hann vindu og lok. Færi það væntanlega vel við hugmyndir fólks um að byggja þarna upp minjasvæði.

Hólskot

Hólskot – brunnur.

Á sumrum, einum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu í ljós þegar út fjaraði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvottur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón sem skola mátti.
Flæðibrunnar voru gerðir við flesta bæi og kot á Reykjanesi. FERLIR hefur skoðað um 90 slíka.

Staður

Brunnur við Stað.

Sumir eru djúpir, rúmgóðir og fallega hlaðnir, s.s. brunnurinn á Stað við Grindavík, sem nú er verið að gera upp (hlaðinn árið 1914), brunninn á Stóra-Hólmi við Garð, Kotvogsbrunninn í Höfnum, brunnana í Flekkuvík og Norðurkotsbrunninn. Marga brunna hefur verið fyllt upp í til að afstýra hættum, s.s. brunninn á Þórkötlustöðum og á Selatöngum. Sumir brunnanna eru upprunanlegir og standa enn vel fyrir sínu, s.s. brunnurinn við kot Hólmfasts í Njarðvíkum og brunnurinn í Merkinesi, sem gengið er niður í og inn í, líkt og gamli brunnurinn við Reykjanesvita (1872) sem og brunnurinn við Nes í Selvogi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Brunnarnir eru oft það eina, sem eftir er af minjum sumra kotanna. Ofan við Gufuskála er fallegt vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Vatnsstæðið eða brunnurinn er í raun lind, sem kemur undan klöppunum. Ekki er ólíklegt að þessi lind hafi verið ástæðan fyrir því að Steinunn gamla setti niður bæ sinn á Rosmhvalanesi.

Heimild:
-Úr örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi, Ólafur Erlendsson, 18.11.1976, skráð af Kristjáni Eiríkssyni.

Norðurkotsbrunnur

Norðurkotsbrunnur.

Kálfatjörn

Ofan Kálfatjarnarvarar á Vatnsleysuströnd er upplýsingaskilti með eftirfarandi fróðleik:

Kálfatjörn“Í fjörunni hér að vestanverðu er Kálfatjarnarvör. Út af vörinni er legan en svo nefnist lónið innan stærsta kersins, Markkletts. Norðan klettsins er Kálfatjarnarsund, þröng og skerjótt innsigling inná Lónið. Miðið í Kálfatjarnarsund er Sundvarða í Keili. Varðan er á Klapparhól nyrst í Goðhólstúni. Hún er nú hrunin en leifar hennar má enn sjá á hólnum. Keilir var algengt fiskimið enda áberandi í landslagi. Vestur af Markkletti er lítið sker, Geitill. Í stillu má oft sjá og heyra í selum sem liggja þar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Strandlengja hreppsins var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins, allt þar til enskir togarar lögðu undir sig fiskimiðin við sunnanverðan Faxaflóa í lok 19. aldar. Hver einasti bóndi á Ströndinni var þá útvegsmaður og áttu sumir marga báta. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomusjómenn og íbúar í sveitinni. Á vertíðum var fólksfjöldinn í hreppnum vel á annað þúsund.

Kálfatjörn

Kálfatjörn. Bakki fjær.

Fisk var að fá meðfram öllum Strandarbrúnum og á Strandarleir út af þeim, ýmist á handfæri eða í net. Einnig var fiskur sóttur á Sviðin og í Garðsjó. Strandarbrúnir eru hraunbrúnir nokkuð undan landi sem mynduðust á þurru í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum þegar sjávarstaða var lægri. Meðfram allri starndlengjunni má finna fjölda mannvistarleifa sem vitna um liðna búskapar- og atvinnuhætti.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð séra Stefáns.

Á klapparhól sunnan við Kálfatjörm stóð sjóbúð sem séra Stefán Thorarensem prestur á Kálfatjörn (1857-1886) lét reisa. Sjóbúðin rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Stefán hafði lengi útgerð á Kálfatjörn.”

Kálfatjörn

Kálfatjörn – upplýsingaskiltið ofan Kálfatjarnarvarar.

Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að brjóta þær niður. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan.

Reykjanesskagi

Landeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga – kort.

Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn. Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar.
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.

Reykjavík

Víkurkirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 en
elsti máldagi hennar er frá árinu 1379. Kirkjan var helguð Jóhannesi postula. Gamla
Víkurkirkjan stóð þar sem nú er horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Hún var aflögð árið
1796 og Dómkirkjan reist í staðinn, en gamla kirkjan jöfnuð við jörðu tveimur árum
seinna. Hugmyndir voru upp um að byggja hina nýju dómkirkju utan um Víkurkirkju en
þegar hafist var handa við að grafa fyrir undirstöðum var komið niður á grafir þeirra
sem höfðu látist úr bólusótt. Jón Sveinsson landlæknir lagðist harðlega gegn því að
hreyft yrði við gröfunum vegna smithættu. Sökum þessa var ákveðið að velja hinni nýju
kirkju nýjan stað fyrir utan kirkjugarðinn.22
Kirkjugarðurinn var talinn fullnýttur um aldamótin 1800, um það leyti sem
gamla Víkurkirkjan við Aðalstræti var aflögð.
Upp úr 1883 var gamla kirkjugarðinum breytt í skrúðgarð að undirlagi
Georgs Schierbecks landlæknis en hann fékk lóð undir íbúðarhús norðan við garðinn er
varð Aðalstræti 11.

Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.

Klaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.

ViðeyEftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
Fornleifauppgröftur fór fram í Viðey á árunum 1987-1995 á vegum Árbæjarsafns – Minjasafns Reykjavíkur og fundust við hann margar merkar minjar, ekki síst frá klausturtímanum.

Heimild m.a.:
-nat.is

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðisslakki

Gengið var upp í Eldborgir og reynt að finna Eldborgahelli, skúta, sem grenjaskyttur gistu í þegar þeir lágu á grenjum undir Eldborgum ofan við Knarrarnessel. Um er að ræða athyglisverðan, en oft gleymdan, kafla í mannlífssögunni.

Eldborgir

Eldborgir.

Upplýsingarnar voru komnar frá Lárusi Kristmundssyni frá Brunnastöðum (Stakkavík) að tilstuðlan Birgis Þórarinssonar frá Minna-Knarrarnesi. Jafnframt var afráðið að ganga til baka til norðurs ofan Knarrrarnessels að Breiðagerðisslakka þar sem eru fyrir leifar af þýskri vél, sem brotlenti þar árið 1943.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Gengið var frá línuveginum ofan Hrafnagjár áleiðis upp að Eldborgum. Eldborgir eru nokkrir gjallgígar er mynda tæplega kílómetralengan svo til beinan hrygg. Lítið hraun hefur komið úr gígunum, en þeir eru á brotabeltinu frá SA til NV og liggja samhliða sprungunum á Strandarheiði. Borgirnar eru einkar athyglisverðar og skera sig úr öðru landslagi utan í norðvestanverðum Þráinsskyldi. Ofan og neðan við þær eru grágrýtismyndanir. Áberandi klettar eru ofan við Borgirnar og góð mið í landslaginu á göngu um þennan hluta heiðarinnar.

Elborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgagrenjum.

Á leiðinni upp eftir var varðaðri leið fylgt langleiðina. Litlar vörður eru við hana svo til alla leiðina. Neðan við Eldborgir beygir gatan til austurs, áleiðis að Keili.
Samkvæmt lýsingu Lárusar Kristmundssonar átti hellirinn að vera vestan við syðsta Eldborgargíginn. Suðvestan við gíginn er hlaðið skjól fyrir refaskyttur og tvö önnur norðan við hann. Enn eitt byrgið er skammt norðvestar. Eldborgargrenin eru þarna við, en vel má sjá á byrgjunum hvar þau liggja. Við op þeirra eru tveir til þrír steinar. Greni þessi hétu ýmsum nöfnum, s.s. Brúnagrenið, Sléttugrenin, Skútagrenið og Hellisgrenið. Að sögn Lárusar hafði verið greni í umræddum helli. Um opið er hlaðin skeifulaga hleðsla. Sjálfur hellirinn er fremur lágur, ca. 60 cm, og um 60 m langur. Hann er víða breiður, en þrengist. Lárus sagði að ratljóst hefði verið um hellinn því víða hafi verið göt á þakinu. Við eftirgrennslan reyndist það rétt vera. Fyllt hafði verið upp í opin, en endaopin látin óáreitt. Skotbyrgin taka m.a. mið af því.

Eldborgargren

Skútinn í Eldborgargrenjum.

Lárus sagðist hafa gist þarna við grenjayfirleguna. Þá hefði hann gist þarna með Gísla Sigurðssyni og Árni Óla er sá fyrrnefndi var við örnefnasöfnun í heiðinni.

Ekki er að sjá mannvistarleifar í hellinum, en hins vegar er hann ágætt skjól á annars skjóllausri heiðinni.

Lárus sagði tvær refagildrur hafa verið þarna, líklega frá 1600 eða 1700, en þær væru nú orðnar ónýtar. Ein þeirra sést þó enn nokkuð norðan við hellinn. Hún var skoðuð í ferðinni.
Hellisopið er gróið í botninn, en innar er mold og  sandur.

Anton við yfirheyrslu

Í Breiðagerðisslakkanum var gengið svo til beint á brakið úr hinni þýsku flugvél. Um er að ræða Junkers 88 könnunarherflugvél. Þýska flugvélin sást nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af landgönguliðum.
Bræðurnir Hafsteinn og Þórir Davíðssynir frá Ásláksstöðum höfðu gengið fram á þýska flugmanninn við Arnarbæli og fylgdu honum niður á gamla Keflavíkurveginn þar sem landgönguliðarnir tóku hann til fanga.

Breiðagerðisslakki

Brak úr flugvélinni.

Sveinn Þór Sigurjónsson frá Traðarkoti í Brunnastaðahverfi var 9 ára þegar hann sá skýhnoðrana á lofti eftir loftvarnarskothríð Ameríkana við flugvöllinn á Miðnesheiði. Síðan hafi hann séð hvar tvær amerískar flugvélar flugu á eftir þeirri þýsku til austurs í svipaðri línu og Reykjanesbrautin er nú og skutu á eftir henni. Þýsku vélinni var þá flogið til suðurs þar sem hún lenti í heiðinni. Sveinn er 73 ára þegar þetta er skrifað, búsettur í Grindavík.

Báðir hinir bandarísku flugmenn voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið. Þessi Þjóðverji var fyrsti flugliðinn sem Bandarríkjamenn handtóku í Seinni heimstyrjöldinni.

Breiðagerðisslakki

Brak í Breiðagerðisslakka.

Lík þeirra sem fórust voru grafin að Brautarholti á Kjalarnesi, en eftir stríð voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Sá, sem bjargaðist, kom hingað til lands mörgum árum seinna. Lýsti hann fangavistinni í bragga við Elliðaár, en þar átti hann slæma vist fyrstu dagana í kulda og einangrun.
Talsvert er af braki úr vélinni við hraunhól í slakkanum, m.a. hluti af hjólastellinu, annað dekkið, vélarhluta, slöngur og tannhjól. Álhlutar eru úr vélinni í slakkanum skammt norðvestar. Við skoðun á brotunum mátti vel finna fyrir hlutaðeigandi, sem enn virðast vera þarna á sveimi og fylgjast grannt með.
Gengið var til norðvesturs yfir gjár og sprungur. Við brýr á þeim eru jafnan vörður svo tiltölulega auðvelt er að rata rétta leið. Sumar gjárnar eru hyldjúpar og enn snjór í botni sumra þeirra, þrátt fyrir einstaklega hlýtt sumar. Á brú yfir Klifgjá, þar sen Knarrarnesselsstígur liggur yfir gjána, er merkt greni. Varða er bæði við það sem og brúna yfir gjána.
Veður var frábært – stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða.

 

Stapagata

Gengið var upp Reiðskarð austast á Vogastapa með útsýni yfir Hólmabúð, Brekku, Stapabúð og Vogavík. Rifjuð var upp sagan af huldukonunni með kúna er hvarf sjónum vegfaranda efst í þokukenndu skarðinu.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Stapagötunni var fylgt að Grímshól, en þar segir þjóðsagan að vermaður hafi gengið í hólinn og róið með hólsbónda, huldumanni. Gamla Grindavíkurveginum var fylgt til suðurs niður Selbrekkur að Selvatni (Seltjörn), kíkt á Njarðavíkursel og þaðan gengið til norðausturs með Háabjalla.

Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól, Stapagatan. Neðan við skarðið er hlaðið undir nýjasta vegstæðið, en gamla leiðin, eða öllu heldur gömlu leiðirnar, lágu í hlykkjum efst í því. Í þeirri nýrri hafa myndast háir ruðningar beggja vegna.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir hún sér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.

Stapagata

Stapagata.

Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.

Stapi

Brekka undir Stapa.

Gengið var yfir að Brekkuskarði og litið yfir bæjarstæðið undir Stapanum sem og Hólmabúðir. Sjá má móta fyrir minjum í hólmanum. Austan við hann hvílir gamall innrásarprammi, sem siglt hefur verið þar í strand. Lágsjávað var svo leirurnar í Vogavíkinni iðuðu af fugli.
Vogastapi (80m) hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi og er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó fram. Uppi á Grímshóli, hæsta stað Stapans, er útsýnisskífa og útsýni gott á góðum degi.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Reykjanesbraut liggur um undirhlíðar Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Fyrrum fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg. Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. (Atburðir á Stapa eftir Jón Dan).
Fiskislóðin Gullskista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á þessum miðum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúðin, sem kennd var við hólmann skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes, þar sem fyrirtækið er enn í dag.

Grímshóll

Á Grímshól.

Stapagötunni var fylgt áfram upp á Grímshól og fjallamið tekin af útsýnisskífunni. Á hólnum hefur einhvern tímann verið tóft og mótar enn fyrir henni. Gerði hefur og verið við götuna sunnan í hólnum, en búið er að fjarlægja mesta af grjótinu. Sennilega hefur hluti þess verið notað utan um bragga, sem staðið hefur suðvestan við hólinn. Hleðslan sést enn.

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér.

Kerlingarbúðir

Kerlingarbúðir undir Stapa.

Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og reri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðina. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn reri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann að hann reri einhvers staðar þar sem hann aflaði vel.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Gengið var suður Njarðvíkurheiði, yfir gamla Keflavíkurveginn. Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og tóttir þess húss standa enn þá. Sjá má þær í suðvestri. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum.

Á heiðinni mátti m.a. sjá hlaðið byrgi og skjól. Neðar eru trölllistaverk ofan við Reykjanesbæjarskiltið.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt vestan þess liggur gamli (elsti) Grindavíkurvegurinn niður heiðina, hér nefndur Grindavíkurgata, því hann hefur verið lítið annað en hestagata. Liggur hún svo til þráðbein til suðurs, liðast niður Selbrekkur (Sólbrekkur) og vel má sjá stefnu hans í beina línu í beygjuna þar sem nýi og gamli Grindavíkurvegurinn komu saman norðaustan við Seltjörn (Selvatn). Suðaustan við vatnið, undir hraunbrúninni, eru tóftir Njarðvíkursels (Innri) og stekkur og gerði nær vatninu.
Gengið var norðaustur að Bjalla og þar undir Háabjalla. Bjallinn er skýrt dæmi um misgengi á vestanverðu rekasprungubeltinu, sem gengur NA og SV um Ísland. Skammt norðar, norðan núverandi Reykjanesbrautar, sést vel hvar gömul reiðgata, greinilega mikið farin, liggur upp á Stapann og fer undir gamla Keflavíkurveginn skammt ofar. Svipuð ásýnd vegar og efst í Reiðskarðinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir:
-nat.is
-Reiðskarð: (Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961)
-Grímshóll: (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I: 14)

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Ásláksstaðir

Gengið var frá Strandarvegi á Vatnsleysuströnd áleiðis að Gerðistangavita á Atlagerðistanga. Lagt var af stað frá gamla samkomuhúsinu Kirkjuhvoli.

Gerðistangaviti

Gerðistangaviti.

Við veginn að norðanverðu er gróinn hóll. Við hann er hlaðið umhverfis ferkantaðan lítinn túnvöll eins og svo víða þarna norðan af. Sjá má hvernig grjótið hefur verið borið til í litlar hrúgur og þúfurnar sléttaðar. Síðan hefur frostið verið að hjálpa grjótinu að ganga upp úr sverðinum. Handan við hólinn er annar völlur og aðrir utan við hlaðin heimatúngarð við gamla tvískipta tóft. Sunnan hennar er heillega hlaðinn veggur. Norðvestan við hana er einnig hlaðinn veggur, nær kominnn í kaf í jarðveginn. Sjórinn gengur inn á hann í háflæði. Svo er að sjá að landið hafi lækkað þarna nokkuð frá því sem var því víða eru túnbleðlar undir sjó.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir og Narfakot eru vestar, en austar eru Ytri-Ásláksstaðir. Aðrir bæir á Ásláksstaðatorfunni eru (voru) Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandinn, Miðbæjarbúð, Móakot og Knarrarnes.
Úti á Altagerðistanga er vitinn. Við hann er tóft sem sjórinn er smám saman að brjóta niður, ágætt dæmi um ágang sjávar þarna við ströndina og breytingarnar sem hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Vitinn stendur á tanga, en sunnan og vestan við hann eru smáar víkur og vogar. Austar er samfelld strönd utan við Brunnastaðahverfið.
Mikið fuglalíf er við ströndina.
Þetta svæði er kjörið til kvöldgöngu eða styttri gönguferða.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 43 mín.

Atlagerðistangaviti

Atlagerðistangaviti og Atlagerði.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I” frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
“1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” “Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. ” Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: “Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd”.

Í “Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd” eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
“Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru “kreppuárin” farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.”

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Guðmundur Björgvin Jónsson

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar frá Brekku, “Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, útg. 1987, segir bæði frá hreppamörkunum sem og misskiptu mannlífinu fyrrum:

Skógfellastígur

Merkin við “gömlu götuna” millum Voga og Grindavíkur. Skv. landamerkjalýsingunni voru mörkin miklu mun norðaustar en nú er sýnt á kortum.

“Hreppurinn nær frá miðjum Vogastapa og byggðin með sjávarströndinni að jafnaði hvergi fjær sjá en 1 km þar til hún endar við Hvassahraun, en hreppamörk eru hin sömu og fyrrnefnd sýslumörk við Markaklett. Austan Hvassahrauns er Hvassahraunsbót og eystra nesið heitir Hraunsnes, en það vestara Stekkjarnes. Við Hraunsnes er Markaklettur.
Eins og áður segir eru sýslur beggja vegna línunnar frá Markakletti að Markhelluhól. Þar um er framhald sýslumarka til vinstri en hreppamörk til hægri og stefna þau vestan við Trölladyngju. Er þá Grindavíkurland vinstra megin og Vatnsleysustrandarland hægra megin, en við Trölladyngju og austurkant Höskuldarvalla eru óviss mörk. Á þessu svæði beygir línan beint vestur að Lilta-Keili, síðan lítið eitt til vinstri í Hagafell, þaðan aftur til hægri í Kálffell og enn til vinstri að Litla-Skógfelli í stóran klett, sem stendur við gamla götuslóð þar er sést vel enn. Þessar bugðóttu línur hreppamarkanna eru umdeildar.

Arnarklettur

Arnarklettur.

Frá Litla-Skógfelli er farið í norður beina línu í Arnarklett, sem stendur nálægt hraunjarðrinum austur af Seltjörn. Við klettinn mætast þrír hreppar. Síðasti áfanginn er frá Arnarkletti í sjó fram að vesturþúfu við Innri-Skor í Voga-Stapa. Þarna eru einni umdeild mörk, ein landlýsingin segir í miðja Skor, sem er mjög ónákvæmt.
Þar með er lokið landleiðinni um hreppamörkin en sjávarmegin lemja bárur Stakksfjarðar landið allt, að markakletti austan Hvassahrauns.
Þegar um er að ræða býli og búendur allt fram á annan og þriðja tug þessarar aldar [þeirrar síðustu], kemur í ljós að stéttarskipting var sérstaklega áberandi, sér í lagi þegar illa áraði og veiðivon í sjó og veðurfar í landi brást þeim er byggði afkomu sína á sávarafla og landbúnaði. Þá urðu þeir er minna máttu sín, að gera sér að góðu að heyra í og horfa á þá ríku. Vil ég hér nefna flokka:

Steinsholt

Steinsholt í Vansleysustrandarhreppi – dæmi um kotbýli.

1) Bændur á lögbýlum, er stunduðu bæði landbúnað og sjávarútveg, höfðu kaupafólk, vermenn og leiguliða þar sem landrými var umtalsvert.
2) Grasbýlingar, sem bjuggu í hjáleigum eða húsum á lögbýlisjörð, höfðu gransnyt án beitilandsréttar.
3) Tómthúsmenn, er höfðu efni á málnytu þ.e. ekkert grasland til að fæða kind eða kú og urðu því að vinna fyrir öllum nauðþurftum hjá öðrum og greiða leigu til landleiganda þess er hús þeirra stóðu á. Í mesta lagi gátu tómthúsmenn (kotungar) útbúð kálgarð, en þó aðeins með leyfi landeiganda.

Stapi

Brekka undir Stapa – dæmi um dugmikla Grasbýlinga.

4) Vinnufólk, húsfólk eða húshjón, bæði konur og karlar, sem var kaupafólk, ýmist árstíðarbudnið eða ársráðið. Þeir sem þóttu duglegir og voru eftirsóttir gátu unnið sig upp og orðið sjálfstæðir eignamenn.
5) Þeir aumustu sem ekki gátu uppfyllt kröfur þær sem til þeirra voru gerðar og áttu oft ekki annan kost en að verða þurfamenn eða niðursetningar”.

Af framangreindri lýsingu Guðmundar Björgvins á aðbúnaði fólks á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. virðist lítið hafa breyst – ef horft er til nútíðar…

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Bergsstaðir

Bergskot, einnig nefnt Auðnakot, á Vatnsleysuströnd getur í dag varla talist minnugt mörgum. Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I” árið 2011 er m.a. fjallað um kotið.

Bergskot

Bergskot – túnakort 1919.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergsstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu.

Bergskot

Bergskot – tóttir. Bergsstaðir fjær.

Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergsstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést á hólnum (Bergkotshól). Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Bergskot

Bergkotsbrunnur.

Bergkotsbrunnur var austan við bæinn. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,” segir í örnefnaskrá.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar. … Túnið fyrir sunnan bæinn var nefnt Suðurtún. Það nær að Höfðatúni. Grjótgarðar skýldu túninu að, en grjótgarðslögin sjást enn að mestu leyti og skilja túnið frá óræktuðum móum og klöppum,” segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn sést enn á stuttum kafla.

Bergskot

Bergskot.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Auðnahverfi. Þar segir m.a.: “Innströnd byrjar við syðri landamerki Breiðagerðis. Auðnahverfi liggur þar innar. Þar eru bæirnir Auðnir, Höfði og Bergskot sem fyrrum nefndist Auðnakot og svo er eitt tómthús, Hóll.
Vestast í fjörunni er Bergskotsvör eða Bergskotslending. Milli fjöru og túna Auðnahverfis er Auðnakampur og þar á er sjávargarðurinn. Liggur hann allt inn að mörkum milli Auðnahverfis og Landakots. Við Bláklett taka við Bergskotsfjörur og þá taka við Höfðafjörur og þar er Höfðavör.
Bergskot stóð á Bergskotshól í Bergskotstúni en neðan hólsins.

Bergskot

Bergskot – útihús.

Ari Gíslason skráði örnefni fyrir Auðnar og Höfða. Þar segir: “Upp af Höfðatúni er gamalt býli sem heitir Bergskot og upp af því er Bergskotshóll með steinum eftir endilöngu og grasigrónum sprungum. Efri-Sundvarðan hefur verið nefnd fyrr og stendur hún á Þúfuhól sem er skammt austan tómthúsið Hól. Þá er talið að allt sé búið fyrir neðan veg.

Í ritinu “Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd” frá árinu 1987 segir Guðmundur Björgvin Jónsson m.a. eftirfarandi um Bergskot: “Bergskot var einnig nefnt Borghús. Um 1900 voru í Bergskoti Árni Sæmundsson, f. 1862 og kona hans, Sigrún Ólafsdóttir, f. 1872.

Jón Guðbrandsson

Jón Guðbrandsson.

Árið 1902 flutti fjölskyldan burt úr hreppnum til Reykjavíkur en þá komu að Bergskoti Árni Þorláksson og kona hans, Helga.
Bergskot var í upphafi tómthús og áttu búendur þar ekki annarra kosta völ en að vinna hjá öðrum fyrir öllum nausynjum og var því oft stuttur stans á þessum kotum, enda var Árni Þorláksson ekki lengi í Bergskoti.
Næst komu í Bergskot Þórarinn Einarsson, 24 ára, með foreldra sína, Einar Einarsson og konu hans, Margréti Hjartardóttur. Þórarinn giftist Guðrúnu Þorvaldsdóttur frá Álftártungukoti í Álftaneshreppi. Þau voru þar til 1925. Þá voru þau búin að eignast jörðina sem þá var orðin grasbýli. Þegar Þórarinn keypti Höfða þá sameinuðust jarðirnar og er svo enn.
Þegar Jón Guðbrandsson, tengdasonur Þórarins, byggði upp Bergskot og kallaði nýja húsið Bergsstaði, þá fylgdi gamla Bergkotsjörðin ekki með”. sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Bergskot

Bergskot – túnakortið frá 1919 lagt ofan á loftmynd frá 2022.

Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.