Færslur

Loftsskúti

Gengið var frá gömlu (malbornu) Reykjanesbrautinni þar sem hún kemur undan nýju brautinni að sunnanverðu vestan Lónakots.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Tekið var mið að vörðu á hól í suðri. Frá henni sést yfir að annarri vörðu á hól í suðri, ekki langt frá. Sunnan undir þeim hól er jarðfall og hlaðið fyrir skúta í því norðanverðu, Loftskútahellir. Þarna geymdu Hvassahraunsmenn m.a. skotnar rjúpur á veiðum sínum. Þarna er skjólgott, en hins vegar gæti verið erfitt að finna skútann í snjóum. Varðan á hólnum gæti bætt úr því.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Þegar komið er að línuveginum sést í vörðu á hól í suðri. Ef þeirri vörðuröð er fylgt til austurs er komið á Hvassahraunsselsstíginn. Hann er vel greinilegur á köflum og liggur að Hvassahraunsseli. Háa vörðu ber við himinn á hól. Vestan við hólinn kúrir selið undir skeifulaga hraunhæð, tvær tóttir og fallegur stekkur í krika undir hraunhól. Selssvæðið er vel gróið. Háa varðan í austri er á fallegum gjábarmi.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – selsvarða.

Gengið var í norðnorðvestur frá henni. Þegar komið var yfir línuveginn tekur við talsvert kjarr á hæðum og hólum. Á einum þeirra var komið að fallinni refagildru. Skammt frá henni var önnur fallinn. Líklega hefur þarna verið um að ræða refgildrur frá Lónakoti, en vörðurnar upp í Lónakotssel liggja þarna til suðausturs skammt austar. Refagildrur sem þessar hafa sést víða um Reykjanesið, s.s. Á Selatöngum, við Grindavík, á Vatnsleysustrandarheiði, ofan við Hafnir og við Húsfell ofan við Hafnarfjörð. Þá má víða sjá hleðslur, byrgi og önnur merki eftir refaskyttur á skaganum.

Loftskúti

Í Loftskúta.

Stapinn

Lengi hefur verið leitað að Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Hún var sögð vera við Innri-Skoru, á landamerkjum Voga og Njarðvíkur. Hið rétta er að við Innri-Skoru, vestanverða, eru landamerkin í sjó. Ofan hennar er Brúnavarðan og í sjónhendingu frá henni er Kolbeinsvarða, en úr Kolbeinsvörðu áttu landamerkin að liggja í Arnarklett sunnan Snorrastaðatjarna.

Vogastapi

Vogastapi – kort.

Eftir vísbendingu Ólafs frá Stóra-Knarrarnesi, sem hafði séð Kolbeinsvörðu er hann var ungur, var haldið inn á gamla Grindavíkurveginn frá nýja Keflavíkurveginum og honum fylgt u.þ.b. 50 metra. Þá var stöðvað og haldið til vesturs í u.þ.b. 100 metra. Þar upp á hól stendur Kolbeinsvarða. Fótur hennar stendur enn og einnig svolítið af vörðunni. Hún hefur greinilega verið sver um sig, u.þ.b. 3 metrar að ummáli og sést neðsti hringurinn nokkuð vel. Fokið hefur yfir hluta vörðunnar að vestanverðu og gróið yfir.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða?

Á steini í vörðunni á að vera ártalssteinn (1724). Gera þarf talsvert rask við vörðuna ef finna á steininn (ef hann er þá þarna enn). Frá vörðunni sér í Brúnavörðu í norðri og Arnarklett í austri. Að sögn Ólafs mun hafa verið tekið úr vörðunni, líkt og úr svo mörgum öðrum vörðum og görðum, er verið var að ná í grjót í hafnargarðinn í Vogum. Hann myndi vel eftir því þegar hún stóð þarna, fallega hlaðin upp.

Grindavíkurveginum var fylgt upp Stapann. Víða má sjá fallega handavinnu vegagerðarmanna á veginum, s.s. ræsi og kanthleðslur, einkum þegar stutt er eftir yfir á gamla Keflavíkurveginn.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Skammt vestan við veginn áður en komið er að gatnamótunum eru allmikil gróin börð. Ef vel er að gáð má sjá mótaða hleðslu er myndar gerði á milli barðanna. Á einum stað sést vel hvernig gerður hefur verið garður úr mold og grjóti umhverfis gerðið. Innan þess er nokkuð gróðið svæði, hornlaga. Ekki er ósennilegt að þarna hafi vegagerðarmennirnir, er tóku til við að byggja Grindarvíkurveginn árið 1913 á Vogastapa, hafi haft sínar fyrstu búðir. Frá Seltjörn (Selvatni) hafa búðir þeirra eða aðstaða verið með u.þ.b. 500 metra millibili. Sjá má móta fyrir þeim á a.m.k. 12 stöðum við Grindavíkurveginn, en svo mikið hefur verið nýtt af hrauninu við gerð nýja vegarins að telja má fullvíst að margar aðrar hafi þá farið forgörðum.
Mikil landeyðing hefur orðið þarna á heiðinni og því erfitt að greina fleiri mannvirki. Þó á eftir að skoða þetta svæði betur með tilliti til fleiri ummerkja.
Nú væri tilvalið að skella þarna svo sem einu steintrölli til að vekja athygli á minjunum, sem nú eru að verða aldargamlar, en það mun jú vera einn yfirlýstur tilgangur tröllasmíðanna á heiðinni.
Frábært veður.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Staðarborg

Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.

Stadarborg

Staðarborg.

Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Stadarborg-2

Staðarborg í kvöldsólinni.

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Kálfatjörn
Gengið var um Flekkuvík, Keilisnes, Borgarkot og Kálfatjörn.
Í Flekkuvík er Flekkuleiðið, gróin þúst yst (syðst) í heimatúninu. Segir sagan að Flekka gamla, sem samnefnd vík heitir eftir, hafi mælt svo fyrir um að hún skyldi dysjuð á þessum stað þar sem hún sæi yfir að Flekkuvörinni. Rúnarsteinn er á leiði Flekku, en sérfræðingar segja hann geta verið frá 17. öld.

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Fallega hlaðnir brunnar eru við bæinn og mikið af hlöðnum görðum og tóftum.
Gengið var um Keilisnesið og yfir að Borgarkoti. Landamerkjagirðing liggur þar niður að sjó við Hermannavörðuna. Innan við hana eru tóftir Borgarkots, hlaðinn krossgarður, gamlir garðar o.fl. Gömul stórgripagirðing liggur á mörkunum áleiðis upp heiðina, en beygir síðan til vesturs, áleiðis að Kálfatjörn. Steinarnir í girðingunni eru með u.þ.b. 20 metra millibili. Í hvern þeirra eru klappaðar tvær holur og í þær reknir trétappar. Á þessa tappa hafa síðan verið strengd bönd. Tilgangurinn var að halda stórgripum, s.s. kúm á beit innan afmarkaðs svæðis. Borgarkot heyrði um tíma undir Viðey og mun klaustrið m.a. hafa haft þar kálfa á beit. Þar hafa, eins og svo víða, kýr getað mælt mannamál á nýársnótt, sumir segja á þrettándanum skv. þjóðtrúnni. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýjársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.
Gengið var um Réttartanga, framhjá Litlabæ og Bakka, gömlu eyðibýlin austan Kálfatjarnar, s.s. Bjarg og Móakot. Móakotsbrunnurinn var m.a. barinn augum.
Kálfatjörn er lýst í annarri FERLIRslýsingu. Norðan bæjarins er Kálfatjörnin. Í henni áttu sækýr að búa. Árið 1892 gerðist eftirfarandi saga á Kálfatjörn. “Þegar ein heimasætan var fermd, fékk hún peysuföt eins og þá tíðkaðist. Yngri systirin hafði safnað saman nokkrum flauelspjötlum og náði sér í viðbót í það, er féll frá peysufötum systurinnar. Með þessu ætlaði hún að skreyta skautföt brúðu sinnar. Hún hafði þetta allt í litlum lokuðum kistli og hafði alltaf lykilinn í bandi um hálsinn því að enginn mátti komast í kistilinn.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Rétt eftir ferminguna dreymir litlu stúlkuna að hún sé stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Þá þykist stúlkan segja við hana: “En hvað ég er glöð að hitta huldukonu. Þiggðu nú af mér hringinn hennar ömmu sem ég er með á hendinni, því að mig hefur alltaf langað svo til þess að hitta huldukonu og gleðja hana”.
Þá mælti konan: “Ekki skaltu gera það, góða mín, því að þú færð illt fyrir það að glata honum. En þú getur gert mér annan greiða. Lánaðu mér flauelspjötlurnar þínar. Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”.
Stúlkan lofaði þessu með ánægju og segir: “Vertu nú sæl”. Þá segir hún ósköp hrygg: “Segðu ekki sæl við mig, við erum ekki sæl, en ég get ekki launað þér með öðru en því að ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”. Var svo draumurinn ekki lengri.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í stórgripagirðingunni.

Eftir nokkurn tíma ætlar stúlkan að fara að sauma á brúðuna sína. Hún lýkur upp kistlinum en bregður heldur en ekki, því að allar flauelspjötlurnar eru horfnar. Man hún þá ekkert eftir draumnum. Fór hún nú að grennslast eftir því, hvort nokkur hafi komist í kistilinn og sannfærðist um að enginn hafði farið í hann. Þá man hún allt í einu eftir draumnum og segir mömmu sinni frá honum.
Þá mælti hún: “Góða mín, vertu ekki að leita úr því að þetta er svona, álfkonan skilar þeim aftur”. Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.”
Þegar golfvöllurinn var gerður á Kálfatjörn var sléttað yfir klöppina svo hún sést ekki lengur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2435
-Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609.
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=150
-Rauðskinna II 301.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Staðarborg

Gengið var frá Prestsvörðu ofan við Strandarveg að Staðarstekk ofan við Löngubrekkur og að Staðarborg á Kálfatjarnarheiði, yfir að Þórustaðaborg og Þórustaðastígur fetaður til baka niður að Strandarvegi.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin stendur nokkurn veginn miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Í hana er u.þ.b. 15 mín. gangur. Hún er með stærri borgum á Reykjanesi og vel hlaðin fjárborg. Borgin tilheyrir Kálfatjörn og er að mestu óskemmd. Af nálægt 80 fjárborgum á Reykjanesi standa einungis nokkrar enn mjög heillegar, s.s. Hólmsborg (endurhlaðin 1918), Djúpudalaborg, Þorbjarnarstaðaborg, Óttarstaðaborg og Árnaborg ofan við Garð. Stór hella var yfir dyrum, sem snúa í norðvestur, en er nú inni í borginni öndvert. Vegghæðin er um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951.
Staðarstekkur er norðaustur af Staðarborginni. Hann er þar utan í grónum hraunhól.
Þórustaðaborgin er norðvestan við Staðarborgina. Hún hefur verið fjárborg eða stór stekkur og liggur suðvestan undir háum grónum hólum, Borginni hefur greinilega verið breytt til annarra nota.
Þórustaðastígur liggur þarna vestan hólanna frá túngirðingu Þórustaða og áfram yfir Núpshlíðarhálsinn. Stígurinn sést greinilega á köflum, en annars staðar er gróið yfir hann.
Gengið var eftir stígnum niður heiðina að læg við Strandarveginn skammt vestan við hliðið að Kálfatjarnarkirkju.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Staðarborg

Staðarborg.

Hvassahraun

Marta Valgerður Jónsdóttir skrifaði um Hvassahraun í Faxa árið 1961 undir yfirskriftinni “Horfinn gististaður”:
“Milli Vatnsleysu og Þorbjarnarstaða í Hraunum, er einstakt býli, Hvassahraun. Mun vera röskur Thorunn-21klukkutíma gangur til hvorrar hliðar, þó lengri til Hrauna. Bærinn stóð á hól, rétt neðan við þjóðveginn, sjávarmegin, sem liggur frá Reykjavík til Suðurnesja. Heimreiðin lá upp hólinn, fyrst í aflíðandi halla og í dálitlum boga, miðja vega var klifið og þar fyrir ofan brattara upp að bænum. Túnið lykkjaðist um hraunbolla og hóla meðfram ströndinni, en hraunið teygði sig milli fjalls og fjöru. Þar var góð beit fyrir fé og skjól fyrir veðrum í skútum og lautum, en fjörugrösin voru líka ágæt beit. Á skerjunum úti fyrir ströndinni, óx þangið, sem var ríkur þáttur í búskapnum, aðal-eldiviður búsins. Naustið og vörin, með hlöðnum kampi niður af bænum; hjáleigurnar, Hvassahraunskot og Sönghóll innan túns, Snæfellsjökull út við hafsrönd og hafið, vítt og voldugt, gulli líkt í roða sólarlagsins. Í fallegu lautunum meðfram túnjaðrinum, sýndist eins og hvíla væri búin þreyttum ferðalang. Það var eins og fyrirboði þess, er koma skyldi, er gengið var í bæinn.
Í Hvassahrauni var áningar- og gististaður ferðamanna og hressing ávallt til reiðu. Hafði svo verið frá því að menn fyrst mundu.
Það var löng leið, að ganga alla þessa strandlengju, með nesjum og vogum, milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Stundum voru fæturnir ekki stórir, sem löbbuðu þessa leið, og mörg konan fetaði leiðina með börnum sínum, vor og haust.
Var þá farið í sumardvöl austur um sveitir. Vegurinn var vHvassahraun-992íðast hvar mjög vondur og líkari tröðum en vegi, því svo var gatan gengin niður í svörð og grjót. Frá ómunatíð, höfðu menn og hestar fetað sig eftir hraunhólum, hryggjum og lautum og myndað götuna, sem víða var orðin furðu djúp, einkum í Kapelluhrauninu og Almenningnum, en þar var gatan víða svo djúp, að baggar á hestum, námu við vegarbarmana og rákust þá oft í. Í rigningum var þarna einn vatnselgur, sem hestarnir ösluðu, en gangandi fólk varð að klöngrast á eggjagrjótinu uppi á vegarbrúninni. Það mun vera erfitt fyrir nútímamanninn, sem ekur bíl alla þessa strandlengju á einum klukkutíma, að átta sig á þeim reginmun á ferðalögum, eða var á fyrsta tug þessarar aldar, en ferðalög, eins og þau tíðkuðust þá, hafa sjálfsagt ekki verið ýkja mikið breytt frá Hvassahraun-993fyrri öldum.
Að sjálfsögðu fóru margir ríðandi, en það voru þeir efnameiri. Allur almenningur fór gangandi, en aðbúnaður þessa fólks var oftast slæmur og stundum hræðilegur, matur af skornum skammti og jafnvel enginn, skór þunnir og ónýtir, hlífðarföt óhentug og oft engin, en byrðar stórar og þungar bornar í bak og fyrir. Það var því gott að koma að byggðu bóli á þessari löngu leið og eiga vísa hressingu, jafnvel bæði andlega og líkamlega. Það hygg ég, að þeir, sem þekktu þessi ferðalög, um Suðurnesjaveg, nefni vart Hvassahraun svo, að þeim komi ekki í hug sú kona, sem gerði þar garðinn frægan, fyrir og eftir síðustu aldamót, en sú kona var Þórunn í Hvassahrauni.
Þórunn húsfreyja í Hvassahrauni, var fríð sýnum og gervileg á að líta og bar í svipmóti mikla persónu.

Hvassahraun-994

Strax við fyrstu sýn, vakti hún traust, enda varð hún víðfræg á þeim þrjátíu árum, sem hún var húsfreyja í Hvassahrauni, sakir höfðinglegrar fyrirgreiðslu og hjartagæzku við ferðafólk og alla þá, er hún náði til. Var það allra manna mál, að hún vildi hvers manns vandræði leysa, ef þess var nokkur kostur og lét margur svo um mælt, að manngæzkan vísaði henni veginn í mörgum vanda og hefði hún verið fundvís á leið til líknar, enda var hún dugnaðarkona, eins og hún átti kyn til. Þórunn var greind kona og ljómandi skemmtileg og laðaði að sér gesti. Þótti öllum tíminn fljótur að líða í návist hennar. Snauðu fólki var svo vel tekið í Hvassahrauni, að á orði var haft. Var því öllu svo innilega vel tekið, engu síður en embættismönnum og efnuðu fólki, en öllum hjálpað og líknað, eins og vinir og ættingjar væru. Átti Guðmundur bóndi Stefánsson, maður Þórunnar, þar jafnan hlut að máli, en hann var valmenni og samhentur konu sinni til allra góðra verka.

gudmundur-21

Stundum var þannig komið högum ferðafólks, að lífsnauðsyn bar til að þetta fólk kæmist í góðra manna hús. Það kom ekki ósjaldan fyrir að fólk félli í yfirlið, er það hafði t.d. lagt af sér þungar byrðar sínar og setzt niður til hvíldar í hlýjunni, svo aðfram komnir voru sumir eftir langa göngu, lítið viðurværi og margs konar erfiðleika. Fyrir kom það, að Þórunn tók á móti fæðandi konu í forstofu sinni. Mun þá hafa komið sér vel, að Þórunn var skjótráð og kunni vel að líkna í þeim vanda, þar að auki var Ingibjörg móðir hennar á heimilinu, kempa mikil, og ljósmóðir frá fyrri árum. Konan var lögð í hjónarúmið, Ingibjörg tók á móti barninu og allt fór vel og að sængurlegu lokinni fór konan heim þaðan alheil með barn sitt.
Foreldrar Þórunnar, þau Ingibjörg Pálsdóttir og Einar Þorláksson, höfðu búið allan sinn búskap í Hvassahrauni og sýnt ferðafólki sömu góðvild og fyrirgreiðslu og þau Þórunn og Guðmundur. Þau giftust 7. júlí 1855 og tóku þá við búi þar, af Önnu Jónsdóttur, móður Ingibjargar, en Einar hafði það sama vor komið frá Neðradal í Biskupstungum, föðurleifð sinn.
Frú Þórunn var fædd í Hvassahrauni 2. júní 1864. Var hún fimmta barn foreldra sinna. Mun það hafa verið ættgengt í Hvassahraunsætt. Frú Þórunn var fimmti ættliður, sem sat að búi í Hvassahrauni, óslitið.

Hvassahraun-995

Um miðjan október 1908 voru opnaðar sex landssímastöðvar á nýrri símalínu er lögð hafði verið frá Hafnarfirði suður með sjó til Gerða í Garði. Stöðvarnar voru: Hvassahraun, Auðnar, Hábær í Vogum, Keflavík, Litli-Hólmur í Leiru og Gerðar. Það féll í minn hlut að vinna við Keflavíkurstöðina. Kynntist ég því vel fólki á stöðvunum og varð þetta líkast stóru heimili, einkum fyrst í stað meðan lítið var að gera, og það var tekið þátt í önn og ys dagsins, gleði og sorg, öllu smáu og stóru, sem gerðist á hverju heimili. Við vissum, að húsbóndinn í Hvassahrauni lá á spítala í Reykjavík og við vorum kvíðin. Nógur var sá ógnar harmur, sem yfir þetta heimili hafði dunið, er efnilegum einkasyni var á burtu kippt. Þessi uggur varð að veruleika. Húsbóndinn kom heim, helsjúkur, rétt til þess að eiga síðustu dagana heima.
Hvassahraun-996Guðmundur bóndi andaðist 10. des. 1910. Þórunn tók þessum harmi með hetjudug. Hún hélt áfram búi með börnunum, móður sinni og Margréti Matthíasdóttur, er lengi hafði verið í Hvassahrauni, góð kona og fyrirtaks dyggðahjú. Vorið 1914, er yngstu börnin fermdust, seldi Þórunn jörð og bú og flutti til Reykjavíkur með hópinn sinn, ásamt Ingibjörgu móður sinni og Margréti. Var þá lokið búsetu þeirra fimm ættliða í Hvassahrauni.
Ekki mun Þórunn hafa verið rík af veraldarauði, er hún hætti búskap og greiðasölu, því sú fyrirgreiðsla við ferðafólk, sem var þar í té látin, mun aldrei hafa verið nein tekjulind, engum var gert að skyldu að greiða fyrir sig, og margir voru svo snauðir, að þeir áttu ekki eyri til, og aldrei fengu þau hjón neinn opinberan styrk til þess að halda uppi greiðasölunni.
Frú Þórunn andaðist í Reykjavík hjá Stefaníu dóttur sinni 8. febr. 1942. Hafði hún þjáðst af hjartabilun hin síðustu ár. (Morgunbl. 2. júní 1939).
Ennþá má sjá gamla veginn um Hraunin, bæði í Kapelluhrauninu og víðar. Er hann nú orðinn gróinn, en furðu glöggur. Gvendarbrunnur var í hrauninu, við veginn milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða. Var það skál eða hola í hraunklöpp, en vatn sitraði í skálina, svo að alltaf var dreitill í skálinni, sem aldrei þornaði alveg. En þreytt og þyrst ferðafólki, sem um veginn fór, kraup niður við skálina, signdi sig og drakk svo, ýmist úr lófa sínum, eða að það lagðist alveg niður að vatnsfletinum.
Væri vel ef gamla veginum ásamt Kapellunni í Hrauninu og þessum Gvendarbrunni væri þyrmt, þegar nýr vegur verður lagður um Hraunin, sem þegar er byrjað á.”

Heimild:
-Faxi, 21. árg. 1961, 10. tbl., bls. 199-203.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið. Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.”
Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Pétursborg

Gengið var að Nýjaseli. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga.

Pétursborg

Pétursborg.

Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Sunnan við borgina eru tvær tóttir. Önnur þeirra, sú sem er nær, virðist hafa verið stekkur. Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkssel. Þetta eru 5 tóttir undir gjárveggnum.

Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Arasel

Ara(hnúks)sel – uppdráttur ÓSÁ.

Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóttir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Oddshellir

Oddshellir.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Gengið var til vesturs með sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána. Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána. Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegn skátaskálanum (sem nú er reyndar horfinn).
Gangan tók í allt um 3 klst. Frábært veður.

Oddshellir

Í Oddshelli.