Hvassahraun

Marta Valgerður Jónsdóttir skrifaði um Hvassahraun í Faxa árið 1961 undir yfirskriftinni “Horfinn gististaður”:
“Milli Vatnsleysu og Þorbjarnarstaða í Hraunum, er einstakt býli, Hvassahraun. Mun vera röskur Thorunn-21klukkutíma gangur til hvorrar hliðar, þó lengri til Hrauna. Bærinn stóð á hól, rétt neðan við þjóðveginn, sjávarmegin, sem liggur frá Reykjavík til Suðurnesja. Heimreiðin lá upp hólinn, fyrst í aflíðandi halla og í dálitlum boga, miðja vega var klifið og þar fyrir ofan brattara upp að bænum. Túnið lykkjaðist um hraunbolla og hóla meðfram ströndinni, en hraunið teygði sig milli fjalls og fjöru. Þar var góð beit fyrir fé og skjól fyrir veðrum í skútum og lautum, en fjörugrösin voru líka ágæt beit. Á skerjunum úti fyrir ströndinni, óx þangið, sem var ríkur þáttur í búskapnum, aðal-eldiviður búsins. Naustið og vörin, með hlöðnum kampi niður af bænum; hjáleigurnar, Hvassahraunskot og Sönghóll innan túns, Snæfellsjökull út við hafsrönd og hafið, vítt og voldugt, gulli líkt í roða sólarlagsins. Í fallegu lautunum meðfram túnjaðrinum, sýndist eins og hvíla væri búin þreyttum ferðalang. Það var eins og fyrirboði þess, er koma skyldi, er gengið var í bæinn.
Í Hvassahrauni var áningar- og gististaður ferðamanna og hressing ávallt til reiðu. Hafði svo verið frá því að menn fyrst mundu.
Það var löng leið, að ganga alla þessa strandlengju, með nesjum og vogum, milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Stundum voru fæturnir ekki stórir, sem löbbuðu þessa leið, og mörg konan fetaði leiðina með börnum sínum, vor og haust.
Var þá farið í sumardvöl austur um sveitir. Vegurinn var vHvassahraun-992íðast hvar mjög vondur og líkari tröðum en vegi, því svo var gatan gengin niður í svörð og grjót. Frá ómunatíð, höfðu menn og hestar fetað sig eftir hraunhólum, hryggjum og lautum og myndað götuna, sem víða var orðin furðu djúp, einkum í Kapelluhrauninu og Almenningnum, en þar var gatan víða svo djúp, að baggar á hestum, námu við vegarbarmana og rákust þá oft í. Í rigningum var þarna einn vatnselgur, sem hestarnir ösluðu, en gangandi fólk varð að klöngrast á eggjagrjótinu uppi á vegarbrúninni. Það mun vera erfitt fyrir nútímamanninn, sem ekur bíl alla þessa strandlengju á einum klukkutíma, að átta sig á þeim reginmun á ferðalögum, eða var á fyrsta tug þessarar aldar, en ferðalög, eins og þau tíðkuðust þá, hafa sjálfsagt ekki verið ýkja mikið breytt frá Hvassahraun-993fyrri öldum.
Að sjálfsögðu fóru margir ríðandi, en það voru þeir efnameiri. Allur almenningur fór gangandi, en aðbúnaður þessa fólks var oftast slæmur og stundum hræðilegur, matur af skornum skammti og jafnvel enginn, skór þunnir og ónýtir, hlífðarföt óhentug og oft engin, en byrðar stórar og þungar bornar í bak og fyrir. Það var því gott að koma að byggðu bóli á þessari löngu leið og eiga vísa hressingu, jafnvel bæði andlega og líkamlega. Það hygg ég, að þeir, sem þekktu þessi ferðalög, um Suðurnesjaveg, nefni vart Hvassahraun svo, að þeim komi ekki í hug sú kona, sem gerði þar garðinn frægan, fyrir og eftir síðustu aldamót, en sú kona var Þórunn í Hvassahrauni.
Þórunn húsfreyja í Hvassahrauni, var fríð sýnum og gervileg á að líta og bar í svipmóti mikla persónu.

Hvassahraun-994

Strax við fyrstu sýn, vakti hún traust, enda varð hún víðfræg á þeim þrjátíu árum, sem hún var húsfreyja í Hvassahrauni, sakir höfðinglegrar fyrirgreiðslu og hjartagæzku við ferðafólk og alla þá, er hún náði til. Var það allra manna mál, að hún vildi hvers manns vandræði leysa, ef þess var nokkur kostur og lét margur svo um mælt, að manngæzkan vísaði henni veginn í mörgum vanda og hefði hún verið fundvís á leið til líknar, enda var hún dugnaðarkona, eins og hún átti kyn til. Þórunn var greind kona og ljómandi skemmtileg og laðaði að sér gesti. Þótti öllum tíminn fljótur að líða í návist hennar. Snauðu fólki var svo vel tekið í Hvassahrauni, að á orði var haft. Var því öllu svo innilega vel tekið, engu síður en embættismönnum og efnuðu fólki, en öllum hjálpað og líknað, eins og vinir og ættingjar væru. Átti Guðmundur bóndi Stefánsson, maður Þórunnar, þar jafnan hlut að máli, en hann var valmenni og samhentur konu sinni til allra góðra verka.

gudmundur-21

Stundum var þannig komið högum ferðafólks, að lífsnauðsyn bar til að þetta fólk kæmist í góðra manna hús. Það kom ekki ósjaldan fyrir að fólk félli í yfirlið, er það hafði t.d. lagt af sér þungar byrðar sínar og setzt niður til hvíldar í hlýjunni, svo aðfram komnir voru sumir eftir langa göngu, lítið viðurværi og margs konar erfiðleika. Fyrir kom það, að Þórunn tók á móti fæðandi konu í forstofu sinni. Mun þá hafa komið sér vel, að Þórunn var skjótráð og kunni vel að líkna í þeim vanda, þar að auki var Ingibjörg móðir hennar á heimilinu, kempa mikil, og ljósmóðir frá fyrri árum. Konan var lögð í hjónarúmið, Ingibjörg tók á móti barninu og allt fór vel og að sængurlegu lokinni fór konan heim þaðan alheil með barn sitt.
Foreldrar Þórunnar, þau Ingibjörg Pálsdóttir og Einar Þorláksson, höfðu búið allan sinn búskap í Hvassahrauni og sýnt ferðafólki sömu góðvild og fyrirgreiðslu og þau Þórunn og Guðmundur. Þau giftust 7. júlí 1855 og tóku þá við búi þar, af Önnu Jónsdóttur, móður Ingibjargar, en Einar hafði það sama vor komið frá Neðradal í Biskupstungum, föðurleifð sinn.
Frú Þórunn var fædd í Hvassahrauni 2. júní 1864. Var hún fimmta barn foreldra sinna. Mun það hafa verið ættgengt í Hvassahraunsætt. Frú Þórunn var fimmti ættliður, sem sat að búi í Hvassahrauni, óslitið.

Hvassahraun-995

Um miðjan október 1908 voru opnaðar sex landssímastöðvar á nýrri símalínu er lögð hafði verið frá Hafnarfirði suður með sjó til Gerða í Garði. Stöðvarnar voru: Hvassahraun, Auðnar, Hábær í Vogum, Keflavík, Litli-Hólmur í Leiru og Gerðar. Það féll í minn hlut að vinna við Keflavíkurstöðina. Kynntist ég því vel fólki á stöðvunum og varð þetta líkast stóru heimili, einkum fyrst í stað meðan lítið var að gera, og það var tekið þátt í önn og ys dagsins, gleði og sorg, öllu smáu og stóru, sem gerðist á hverju heimili. Við vissum, að húsbóndinn í Hvassahrauni lá á spítala í Reykjavík og við vorum kvíðin. Nógur var sá ógnar harmur, sem yfir þetta heimili hafði dunið, er efnilegum einkasyni var á burtu kippt. Þessi uggur varð að veruleika. Húsbóndinn kom heim, helsjúkur, rétt til þess að eiga síðustu dagana heima.
Hvassahraun-996Guðmundur bóndi andaðist 10. des. 1910. Þórunn tók þessum harmi með hetjudug. Hún hélt áfram búi með börnunum, móður sinni og Margréti Matthíasdóttur, er lengi hafði verið í Hvassahrauni, góð kona og fyrirtaks dyggðahjú. Vorið 1914, er yngstu börnin fermdust, seldi Þórunn jörð og bú og flutti til Reykjavíkur með hópinn sinn, ásamt Ingibjörgu móður sinni og Margréti. Var þá lokið búsetu þeirra fimm ættliða í Hvassahrauni.
Ekki mun Þórunn hafa verið rík af veraldarauði, er hún hætti búskap og greiðasölu, því sú fyrirgreiðsla við ferðafólk, sem var þar í té látin, mun aldrei hafa verið nein tekjulind, engum var gert að skyldu að greiða fyrir sig, og margir voru svo snauðir, að þeir áttu ekki eyri til, og aldrei fengu þau hjón neinn opinberan styrk til þess að halda uppi greiðasölunni.
Frú Þórunn andaðist í Reykjavík hjá Stefaníu dóttur sinni 8. febr. 1942. Hafði hún þjáðst af hjartabilun hin síðustu ár. (Morgunbl. 2. júní 1939).
Ennþá má sjá gamla veginn um Hraunin, bæði í Kapelluhrauninu og víðar. Er hann nú orðinn gróinn, en furðu glöggur. Gvendarbrunnur var í hrauninu, við veginn milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða. Var það skál eða hola í hraunklöpp, en vatn sitraði í skálina, svo að alltaf var dreitill í skálinni, sem aldrei þornaði alveg. En þreytt og þyrst ferðafólki, sem um veginn fór, kraup niður við skálina, signdi sig og drakk svo, ýmist úr lófa sínum, eða að það lagðist alveg niður að vatnsfletinum.
Væri vel ef gamla veginum ásamt Kapellunni í Hrauninu og þessum Gvendarbrunni væri þyrmt, þegar nýr vegur verður lagður um Hraunin, sem þegar er byrjað á.”

Heimild:
-Faxi, 21. árg. 1961, 10. tbl., bls. 199-203.

Hvassahraun

Hvassahraun.