Færslur

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Stapagatan um Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana. Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapagatan.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.

Knarrarnessel

Gengið var um Knarrarnesland og skoðaðar minjar, sem ekki hafði verið litið á áður í fyrri SkemmaFERLIRsferðum. Þessarra minja er getið í örnefna-lýsingum og öðrum heimildum. Fjóla Jóhannsdóttir (72 ára) dvelur nú í húsi skammt sunnan við Stóra-Knarrarnes. Hún hefur verið tengd svæðinu í yfir hálfa öld, en hún er gift Guðmundi Viggó Ólafssyni frá Stóra Knarrarnesi. Kritur hafa löngum verið millum fólks á Knarrarnestorfunni vegna landamerkjaágreinings – og það þrátt fyrir að nægt land virðist vera þarna til handa öllum lítilmátlegum til allra nútímaþarfa. Gamlar lýsingar á fyrrum „Nesi“ og „Höfða“ virðast hafa færst um set í baráttunni og jafnvel landamerkjasteinar lagt land undir fót. Þátttakendur í deilunni hafa og verið skipulagsyfirvöld í Vogum, sem að sögn virðast varla hafa skilið (árið 2006) hvað snýr upp eða niður í þeim málum. En í sæmilega litlu, en upplýstu sveitarfélagi, þar sem starfsfólk fær greitt fyrir að leysa vandamál frekar en að búa þau til, ætti að vera tiltölulega auðvelt að skapa sátt meðal þegnanna. Það er a.m.k. eitt af opinberum markmiðum stjórnsýslunnar.

Sjá meira undir Lýsingar.

Tekinn hefur verið saman listi yfir helstu elstu byggingar í Sveitarfélaginu Vogum. Hafa ber í huga að ekki er um Arahólavarðatæmandi upptalningu að ræða heldur eru upplýsingarnar fyrst og fremst settar fram til fróðleiks. Þorvaldur Örn Árnason tók saman. 
(?) Staðarborg – mannhæðar há, hringlaga fjárrétt hlaðin úr grjóti í landi Kálfatjarnar.
(1850?)
Skjaldbreið – hlaða á Kálfatjörn. Minjafélagið í Vogum var byrjað að gera hana upp en þakið fauk í ofviðri í ársbyrjun 2008 og var rifið, hluti af efniviðnum er geymdur.
(1871) Stóru-Vogar – Enn standa steinhlaðnir veggir hæðar upphaflega hússins, en urðu kjallaraveggir er það var endurbyggt 1912 með hæð og risi ofaná. Búið í því til 1940, rifið 1964. Er nú í jaðri leikvallar Stóru-Vogaskóla og nýtist sem leiktæki barna.
(1872) Grunnur fyrsta skólahússins í Suðurkoti í Brunnastaðahreppi.
(1884) Ytri-Ásláksstaðir – úr Jamestownviði, síðar múrhúðað utan. Geymslukjallari, hæð og ris, um 35 m2. Mjög heillegt hús og merkilegt, en mannlaust.
(1885) Grænaborg – brann 1887, endurbyggð og hækkuð 1916, brann 2002. Jöfnuð við jörðu 2004.
(1890) Arahólavarða – lagfærð 1982.

Sjá meira undir Fróðleikur.

Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennileg sveit. Hún er löng og mjó, um 15 km á lengd og 10 km á breidd. Þar er lítið rennandi vatn, því hraunið gleypir allt rigningarvatn og leysingarvatn. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni en þó sundurslitin. Hver einasti bóndi hér áður fyrr var útvegsbóndi og áttu þeir mismargar fleytur. Margir bændur voru framfarasinnaðir og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt, sem sést best á því að það var bóndi í Vogum sem keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn.

Sjá meira undir Lýsingar.

„Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti stapabud-221sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld.
Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma.“

Sjá meira undir Frásagnir.

Málþing var haldið í apríl 2010 um sögu Vatnsleysustrandarhrepps/Sveitarfélagsins Voga á vegum Minjafélags Vatnsleysustrandarhrepps. Fjölmargir, Magnús í Halakotilærðir og leiknir, héldu þar fróðleg erindi og lýstu sögu sveitarfélagsins.
Árið 1889 var að frumkvæði heimamanna samið um að skipta hreppnum upp í Vatnsleysustrandar-hrepp og Njarðvíkurhrepp. Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu heimilaði skiptingu hreppanna. Skiptingin var svo samþykkt með landshöfðingjabréfi 21. sept. 1889 og tók gildi 1. október það ár. Vogar urðu hins vegar löggildur verslunarstaður (kaupstaður) 24. nóv. 1893. Magnús Ágústsson í Halakoti stundaði útgerð um 60 ára skeið um og eftir miðja 20. öld, fyrst á Neðri-Brunnastöðum og síðan frá Vogum.

Sjá meira um sögulegar minjar í Sveitarfélaginu Vogar HÉR.

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 er m.a. fjallað um mannvirki og minjar vestan Voga:
„Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), „anleggs-húsum“ Knudtzons gróssera kristjanstangi-221reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Ánlegg“ nefndust salt- og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátai, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.
Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk.
Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld.
Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma.
Kerlingabúðir voru nokkru utar.
Um Reiðskarð lágu forun reiðgöturnar upp Stapann.
Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku.
Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Strákar heita þrjár vörður, gömul mið nær Njarðvíkum.
Kópa er vík við bergshalann, ytri enda Stapans hjá Stapakoti í Innri-Njarðvík. Fiskimiðin eyðilögð.— Hernám Englendinga. Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883

„Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa í nýbyggðu húsnæði. Þeir voru báðir á Suðurnesjum; Vogaskolar-8Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík. Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: “Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli og þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli.“

Sjá meira undir Fróðleikur.

Vogaskolar-1
Stóru-Vogaskóli er 140 ára í haust. Afmælisveislan hefst kl.12 á hádegi fimmudaginn 18. október n.k. Brunnastadaskoli-yngri-221Dagana áður munu nemendur og starfslið skólans sökkva sér í þessa löngu sögu og árangur þess mun væntanlega sjást upp um alla veggi skólahússins. Einnig verður bakað baki brotnu, kræskingar lagðar á borð og hellt uppá. Flutt verða ávörp og erindi og ýmislegt til gamans gert.

Einn af elstu skólum landsins
Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa í nýbyggðu húsnæði. Þeir voru báðir á Suðurnesjum; Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík. Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: “Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Vogaskolar-4Brunnastaðahverfi. Seinna breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli og þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Rústir tveggja síðustu íbúðarhúsanna að Stóru-Vogum, sem reist voru 1871 og 1912, eru nú hluti af leikvelli skólans.
Allan tímann er þetta sama stofnunin þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Grunnur elsta skólahússins er enn heillegur og aðalbygging skólans frá 1944 – 1979 er nú íbúðarhúsið Skólatún í Brunnastaðahverfi. Byggð voru tvö minni hús, annað í Kálfatjarnarhverfi og hitt á Vatnsleysubæjum og kennt þar um tíma þegar hverfin voru barnmörg. Síðan kom skólabíll til sögunnar 1942 – með þeim fyrstu á vogaskolar-2landinu – og eftir það var ekki lengur þörf á kennslu í einstökum hverfum. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur nú endurbyggt annað þessara húsa að Kálfatjörn og stendur til að koma þar upp skólasafni.

Thorchilliisjóður fyrir fátæk börn
Hver var þessi Thorchillii sem skólinn var kenndur við? Hann hét Jón Þorkelsson (1697-1759), barn efnaðra foreldra í Innri-Njarðvík. Hann varð mikill lærdómsmaður og rektor Skálholtsskóla um tíma og kallaði sig Thorchilliius upp á Latínu. Hann eignaðist ekki börn en efnaðist vel og gaf eftir sinn dag eigur sínar í sjóð til að “allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi skyldu fá kristilegt uppeldi, þ.m.t. húsnæði, fæði og klæði”. Árið 1870 hóf Stefán Vogaskolar-5Thorarenssen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, undirbúning stofnunar barnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi. Efnt var til samskota, keyptur jarðarpartur og reist skólahús sem var vígt 13. sept. 1872 með því að halda þar stofnfund skólans sem hóf starfsemi skömmu síðar og hefur starfað óslitið síðan, stundum á fleiri en einum stað samtímis. Með leyfi kóngsins og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchillii-sjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir vel börnum sem minna mega sín.
Thorchilllii-sjóðurinn greiddi  um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna í þessum skóla og síðar í fleiri skólum sem stofnaðir voru á Reykjanesskaga. Mörg “Thorchillii-barnanna” bvogaskolar-3juggu á skólatíma í risi skólahússins og ráðið var fólk til að ala önn fyrir þeim. Þannig var skólinn bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli og einnig var börnum komið fyrir á nálægum bæjum, m.a. börnum úr Njarðvík, en fyrstu árin var þessi skóli líka fyrir Njarðvíkinga uns þeir komu sér upp eigin skóla rúmum áratug síðar. Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (fyrir fermd börn) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur. Fyrsta veturinn voru 30 börn í skólanum, þar af 8 fermdir unlingar, og bjuggu 10 af börnunum í skólahúsinu. Í húsinu, sem var 56 m2 að grunnfleti, hæð og ris, var einnig íbúð fyrir kennarann svo það hefur verið búið þröngt. Kannski hefur það komið sér vel því timburhús á þessum tíma voru mjög köld.

Vatnsleysustrandarhreppur í fremstu röð á 19. öld
Vogaskolar-6Hvers vegna voru stofnaðir skólar svo snemma í Vatnsleysustrandarhreppi og Garði? Þá voru komnir barnaskólar á verslunarstöðunum Eyrarbakka (frá 1852) og Reykjavík (frá 1862). Það fiskaðist vel á grunnslóð á þessum tíma áður en togveiðar komu til. Hér var þéttbýlla en víða annars staðar, enda fór fjöldi íbúa í Vatnsleysustrandarhreppi yfir 1000 áður en hreppnum var skipt og Njarðvík klofin frá 1890. En það þarf meira en peninga til að stofna og reka skóla. Það þarf ekki síður menningarlegt atgervi og framsýni. Ég læt Árna Daníel Júlíussyni, sagnfræðingi, eftir að svara þeirri spurningu ásamt mörgu öðru sem á hugann leitar, en hann flytur erindi og situr fyrir svörum á afmælishátíðinni 18. okt. n.k. Sjálfur þakka ég Hauki Aðalsteinssyni, skipasmið og áhugasagnfræðingi, fyrir að afla mikilvægra gagna um þetta mál á Þjóðskjalasafni og víðar, sem ég byggi grein þessa á.

Hvar stöndum við nú?
Stóru-Vogaskóli er í dag 180 barna grunnskóli með 1. – 10. bekk í 2700 m2 húsnæði, en íbúar í Sveitarfélaginu eru rúmlega 1100, ívið fleiri en Vogaskolar-7þegar skólinn var stofnaður. Skólinn hefur á að skipa metnaðarfullu starfsliði sem rækir starf sitt af alúð. Eins og í upphafi er vel hugsað um börn sem minna mega sín eða hafa ýmis konar sérþarfir og er skipulega unnið gegn einelti. Að einu leyti  hefur skólinn sérstöðu á landsvísu: Hér fá börnin hádegismat í boði sveitarfélagsins. Hér sitja allir við sama borð og fá einstaklega góðan og hollan mat sem eldaður er í skólanum af snilldarkokki. Hér er leitast við að sinna vel bæði líkamlegum og andlegum þörfum barna, óháð efnahag foreldra.

– Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla.

snorrastadatjarnir-311
Eftirfarandi umfjöllun um skotæfingasvæði fyrir bandaríska herinn í heiðinni ofan Voga birtist í Nja tímanum 1953:
herinn-221„Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleysustrandar-bænda til skotæfinga fyrir herinn Heiðin frá Grindavíkurvsgi allt snn hjá Keili á að vera bannsvæði fyrir Íslendinga.
Guðmundur Í. Guðmundsson, varnarmálanefndar-maður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og þingmaður Alþýðuflokksins fer nú hamförum við að afhenda bandaríska hernum lönd Suðurnesjamanna. Í júní í fyrra skýrði Nýi tíminn frá því að bandaríski herinn hefði gert kröfu til að fá til sinna umráða Reykjanesið frá Keflavíkurflugvelli allt suður til Grindavíkur, og síðan að fyrirhugað væri að herinn teygði umráðasvæði sitt lengra inn eftir nesinu. Svæðið milli Grindavíkur og flugvallarins hefur bandaríski herinn haft til umráða síðan í fyrrasumar og það er nú einnig komið á daginn að umráðasvæði hersins sé teygt inn eftir skaganum. Síðasta afrek Guðmundar Í. Guðmundssonar við að leggja lönd Suðurnesjamanna undir bandaríska herinn er það að afhenda hernum beitiland Vatnsleysustrandarbúa frá Grindavíkurvegi að vestan allt austur hjá Keili. Að norðan eru takmörkin skammt ofan við Vatnsleysustrandarbyggðina, að sunnan lína frá Skógfellinu austur með Fagradalsfjalli til Keilis.
herinn-222Eins og skýrt er frá annarsstaðar í blaðinu er bandaríski herinn nýbúinn að afmarka bannsvæði á landi Vogamanna ög hefur m.a. tekið skógræktarsvæði Suðurnesjamanna undir skotæfingar sínar. En það var’ ekki aðeins að bandaríski herinn tæki skógræktarsvæðið heldur raðaði hann bannmerkjum sínum allt frá Stapanum og skammt fyrir ofan byggðina inn móts við vitann í Ásláksstaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni. Til suðurs frá Stapanum var bannmerkjunum raðað fast við Grindavíkurveginn allt suður hjá Arnarsetri. Guðmundur Í. í landvinningahug. Að liðnum uppstigningardegi skrapp fréttam. Nýja tímans á fund Suðurnesjamanna til að kynna sér landvinninga Guðmundar Í. Guðmundssonar o.g. bandaríska hersins. Jú, Vatnsleysustrandarbúar sáu það frá húsum sínum að komin voru merki þónokkuð fyrir ofan sem bönnuðu þeim að stíga fæti sínum ofan við vissa línu. Fyrir um það bil mánuði lét Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður og alþingismaður einn starfsmann embættis síns spyrja Vatnsleysustrandarbúa um landamerki og hreppamörk. Hvers vegna var Guðmundi Í. allt í einuu orðið svona annt um landamerki? Jú, elsku Kaninn þurfti að fá meira land undir skotæfingar. Og Guðmundur Í var þjónustusamlegast reiðubúinn að heimta meira land af Suðurnesjamönnum handa bandaríska hernum.
Forsvarsmönnum Vatnsleysustrandarbúa var tjáð að land það sem bandaríski herinn hefði nú litið girndarauga væri í línu frá Litla-Skógfelli (sem er á leiðinni til Grindavíkur) til Keilis og frá suðausturenda Stapans einnig til Keilis. Var Vatnsleysustrandarbúum boðið að tilnefna fulltrúa sinn við landaafsal þetta og skyldi hann sitja í gerðardómi til að meta leigu fyrir landið.
Þegar landeigendur á Vatnsleysuströndinni ræddu þetta mál kom strax fram það sjónarmið að neita þessari landakröfu. Völdu þeir sem málsvara sinn mann af Vatnsleysuströndinni, sem nú er búsettur í Rvík. Hann neitaði hinsvegar að eiga þátt að landaafsali þessu og setjast í slíkan gerðardóm. Til að byrja með var Vatnsleysustrandarbúum tjáð að elsku Kaninn þurfi land þetta ekki nema haust og vor, 6 vikna tíma á vorin, jafnlengi á haustin. Þyrftu bændur að smala búsmala sínum brott, — og reka hann hvert?!
herinn-223Fyrir fáum dögum kom svo bandaríski herinn á vettvang og raðaði upp bannmerkjum sem á var letrað: ? Bannmerki þessi setti hann upp frá útvarpsstöðinni sinni alræmdu á Stapanum og fast með Grindavíkurveginum suður móts við Arnarsetur, skammt frá í Stóra-Skógfelli, en línan þaðan til Keilis liggur fast við norðurhlíð Fagradalsfjallsins. Beitilandið tekið. Samskonar merki setti herinn upp fast við Keflavíkurveginn fyrir ofan gamla herspítalagrunninn austast á Stapanum. En frá austurenda Stapans var merkjalínan ekki í stefnu á Keili, eins og upphaflega hafði verið látið í veðri vaka, heldur þvert á móti inn ströndina í átt til Hafnarfjarðar, skammt fyrir ofan Vatnsleysustrandarbyggðina — innsta merkið. sem frá veginum sást ofan við Ásláksstaðahverfi. Hvað langt inn eftir ströndinni að fyrirhugað er að herinn teygi sig hefur enn ekki verið uppskátt látið.
Þegar fréttamaður Nýja tímans leit þarna suður eftir í fyrradag voru öll bannmerkin þar sem þau höfðu upphaflega verið sett af herraþjóðihni, og eru meðfylgjandi myndir sýnishorn af þeim. Síðan skrapp fróttamaðurinn til Grindavíkur, en þegar hann kom til baka eftir skamma viðdvöl í Grindavík höfðu merkin, er áður stóðu fast við veginn til Grindavíkur, verið færð nokkurn spöl austur í hraunið. Aðeins eitt merki stóð enn uppi, var það rétt við veginn austan við Seltjörnina, þ.e. í lægðinni milli hraunsins og Stapans. En um sama leyti komu þar Bandarikjamenn í bíl, hljóp einn þeirra út úr sprengja-21bílnum, réðist á merkið og fleygði því niður fór svo inn í bílinn aftur! — Hin merkin höfðu verið flutt þangað sem þau voru ekki eins áberandi frá veginum! Þar á ekki að slaka til. Merkin sem áður voru uppi á Stapanum höfðu einnig verið felld, en þótt merkin við Grindavíkurveginn hefðu verið færð, þá var bannmerkjalínan inn ströndina ófærð með öllu. Þar virtist ekki ætlunin að hopa hið minnsta. Guðmundur Í. Guðmundsson Bandaríkjafógeti virðist ekki geta hugsað sér að færa það bannsvæði hóti fjær byggðinni.
Vatnsleysustrandarbúar tóku sauðfé aftur á sl. hausti. Auk þess eiga þeir hross og kýr. Landið sem Guðmundur í og bandaríski herinn hafa nú gert að bannsvæði fyrir þá er beitilandið fyrir búsmalann. Auðvitað tekur enginn mark á því að herinn noti ekki landið nema nokkrar vikur haust og vor. En segjum að svo væri. Hvar eiga bændurnir að geyma búsmala sinn á meðan herinn rótar upp beitilandinu með byssum sínum? Hver vill eiga búfé sitt á skotæfingasvæði hers? Og hver vill smala skotæfingasvæði (þótt herinn heiti því að skjóta ekki rétt á meðan)?
sprengja-222Allt fram á þennan dag hafa verið að finnast ósprungnar sprengjur frá skotæfingum er fram fóru á stríðsárunum, og oft hafa hlotizt af þeim slys. Á sú saga nú að endurtaka sig? Með því að taka beitiland Vatnsleysu-strandarbúa undir skotæfingar hersins, gera það að bannsvæði fyrir bændunum sem þarna búa er ekki annað sýnilegt en ætlunin sé að hrekja þá á brott af jörðum sínum; — en um þetta verður meira rætt síðar.“
Í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu árið 2003 segir m.a.: „
Eins og fram kom í fréttum fann barn virka sprengju úr sprengjuvörpu á Vogaheiði 12. apríl sl. Síðan hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins rannsakað svæðið við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir. Bandaríski herinn notaði svæðið frá 1952-1960 til að æfa skotárásir með sprengjuvörpum, fallbyssum, skriðdrekum og öðrum vopnum sem landherir nota.
Frá 12. apríl hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fundið og eytt yfir 70 virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæðinu. Samanlagt innihalda þessar sprengjur 60 kíló af TNT og öðrum sprengiefnum. Meirihluti sprengjanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir. Um er að ræða allt frá 60 mm. sprengjum úr sprengjuvörpum til 105 mm. fallbyssukúla sem m.a. eru notaðar til að ráðast á skriðdreka. Þetta eru hættulegar sprengjur sem geta valdið slysum og dauða ef hreyft er við þeim.
sprengja-223Árið 1986 og 1996 gerði varnarliðið umfangsmikla yfirborðsleit að sprengjum á svæðinu. Við leitina fundust alls 600 virkar sprengjur. Í kjölfar þess voru sett upp aðvörunarskilti á svæðinu sem gert er ráð fyrir að verði endurnýjuð á næstunni. Samtímis verður svæðið rannsakað betur til að gera það öruggt yfirferðar.
Hernaðarsprengjur eru hannaðar til að bana fólki og eyðileggja eignir. Sprengjurnar á Vogaheiði eru ekki frábrugðnar þeim að neinu leyti. Þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna eru þær jafn virkar og þær voru í upphafi, jafnvel enn hættulegri. Landhelgisgæslan varar fólk við að snerta eða taka upp hluti sem grunur leikur á að séu sprengjur.“
Í frétt frá Landhelgisgæslunni um þetta svæði árið 2004 segir: „
Í gær voru endurnýjuð viðvörunarskilti við gamalt skotæfingasvæði bandaríska hersins á Vogaheiði.  Einnig voru sett upp ný skilti og enn á eftir að bæta nokkrum við.
Það er full ástæða til að vara almenning við þeirri hættu sem getur stafað af gömlum sprengjum á svæðinu.  Þær hafa fundist í miklu magni á Vogaheiði sem er vinsælt útivistarsvæði.
Bandaríski herinn stóð fyrir mikilli leit á svæðinu árið 1986 í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.  Aftur var hafist handa við að leita að sprengjum á svæðinu árið 1996 og í fyrra stóð Landhelgisgæslan fyrir nokkuð ítarlegri leit.  Alls hafa fundist u.þ.b. 800 ósprungnar sprengjur á svæðinu síðan 1986 og telja sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar víst að þar sé enn mikið magn af sprengjum. Sprengjurnar eru yfirleitt undir jarðveginum en geta komið upp á yfirborðið þegar rignt hefur um tíma eða vegna annarra jarðvegsbreytinga.“

Heimild:
-Nýi tíminn, 13. árg. 1953, 19. tbl. bls. 2 og 11
-Fréttatilkynning frá Utanríkisráðuneytinu 3. 7. 2003
-Landhelgisgæsla Íslands 6. apríl 2004