Tag Archive for: Vogar

Kálfatjörn

Byggingin Skjaldbreið, eða Skjalda, á Kálfatjörn er steinhlaðin, upphaflega byggð sem fjós með sambyggðri hlöðu. Minja- og sögufélag Vatnsleystrandarhrepps hefur látið gera bygginguna upp, en hún var nánast komin að fótum fram. Við uppbygginguna var hún stækkuð til vesturs.

Skjaldbreið

Skjaldbreið 2025.

Í glugga Skjaldbreiðar er A4 blað. Á því má lesa eftirfarandi:
„Skjaldbreið var byggð á árunum 1883-1884 í tíð Stefáns Thorarensen sóknarprests og sálmaskálds á Kálfatjörn. Stefán var stórtækur og byggði fjögur hús á Kálfatjörn með sama lagi. Þetta staðfestir úttekt sem gerð var á jörðinni þegar Stefán lét af störfum árið 1886. Í úttektinni er talað um að 2500 kr. lán hafi verið veitt til byggingarinnar. Þar á finna greiðargóða lýsingu á Skjaldbreið þar sem talað er um heyhlöðu fyrir 400 hesta heys og fjós fyrir t til 8 nautgripi í sama húsi.
Stefán hafði mikil áform um uppbyggingu á Kálfatjörn og sóttist meðal annars eftir því að byggja þar steinkirkju. Þau áforn runnu út í sandinn.

Skjaldbreið

Skjaldbreið innanhúss 2025.

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur staðið fyrir endurbótum á Skjaldbreið. Hleðslumeistari var Guðjún Kristinsson og um smíði burðarvirkis og þaks sá Jón Ragnar Daðason. Verkefnið hefur verið styrkt af Húsfriðunarsjóði, Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Sveitarfélaginu Vogum.

Myndir og frásögn má finna á facebokk/minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar og Instagram/Vogaminjar.“

Sjá meira um grjóthleðsluendurgerðina HÉR.

Skjaldbreið

Skjaldbreið innanhúss 2025.

Knarrarnes

Á göngu FERLIRsfélaga í heiðinni ofan Vatnsleysustrandar, millum Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, rákust þeir m.a. á fjórar nálægar tóftir á grónum klapparhrygg, á og við svonefnd Sauðholt.

Krummhóll

Krummhóll – „vörðubrot“.

Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Kristján getur ekki um tóftir í Sauðholtum.

Framangreind lýsing skýrir margt enn óskýrt á þessu svæði, auk þess að nauðsynlegt var að skýra það um betur. Vörðubrotið á Krummhól sést enn, Vorkvíar voru afgirtur gróinn blettur ofan við Hellur í landi Minni-Knarrarvogs. „Grashóllinn gróni“ er reyndar austan Krummhóls. Á honum er gömul fjárborg. Lynghóll er langt farri í suðvestri. Lýsing Kristjáns er þrátt fyrir framangreint ágæt ávísun á Sauðholtin. Hún vakti áhuga á nánari könnun á vettvangi.

Knarrarnes - refagildra

Knarrarnes – refagildra.

FERLIR gekk í framhaldinu með Birgi Þórarinssyni, húsbónda á Minni-Knarrarnesi, upp í heiðina á tilnefndu svæði. Birgir er þarna öllum hnútum kunnugur.

Eftir að hafa gengið að Digruvörðu, landamerkum Minni-Knarrarness og Ásláksstaða vestan yfir Vorkvíar og skoðuð tóft „brúsahússins“ við Gamlaveg ofan Hellu var staðnæmst við litla landamerkjavörðu á klapparhól ofan vegarins. Ljóst var að varðan sú var í sjónhendingu við Digruvörðu í línu upp heiðina að áberandi vörðu á Knarrarstaðaholti með beina stefnu í „Nyrðri-Keilisbróður“.

Minna-Knarranes

Minna-Knarrarnes – minnismerki um ítalskan hund.

Skammt austar var stölluð nútímavarða í lægð á millum skollóttra hraunhraunhóla. Birgir sagði að hann hefði leyft Ítala nokkrum, eftir hans þrábeiðni, að grafa dauðan hundinn hans þarna og auk þess að hlaða minnismerki hundinum til heiðurs. Birgir sagðist hafa verið fjarverandi þegar leyfið var veitt svo umfangið hafi komið honum á óvart er heim kom.

Haldið var áfram upp heiðina og staðnæmst við vörðubrotið á Krummhól. Auðljóst var að þarna hafði verið skjól refaskyttu fyrrum. Leifar af torfhlaðna skjólinu gáfu það til kynna, auk þess sem varðan virtist skjól fyrir skyttuna fyrir niðurkomu refsins beggja vegna ofanverðar klapparhæðar.

Minna-Knarrarnes

Krummhóll – „vörðubrot“.

Töldu viðstaddir líklegt, að fenginni reynslu, að hlaðna refgildru væri að finna í nágrenninu. Bæði var það vegna staðsetningar skjólsins með hliðsjón af landslaginu og tilkomu byssunnar á síðari tímum. Hafa ber í huga að refurinn hefur frá örófi alda fetað sömu slóðirnar fram og til baka eftir árstíðum. Forfeðrum vorum var kunnugt um það. Þeir hlóðu því gildrur í gegnum aldir á sömu slóðum og seinni tíma veiðimenn nýttu sér aðstöðuna með nýjum og nútímalegri áhöldum.

Eftir stutta göngu var gengið, að því er virtist fram á vörðubrot á klapparhrygg. Við nánari skoðun var þarna greinilega um forna hlaðna refagildru að ræða, þá 98. fundna og skráða á Reykjanesskaganum.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – forn refagildra, óskráð, opinberuð um skamma stund.

Skv. Þjóðminjalögum má að vísu ekki hreyfa við fornleifum án heimildar Minjastofnunar, en þar sem reyndasti fornleifafræðingurinn á svæðinu var með í för, var ákveðið að sýna þátttakendum hleðslutæknina, innvolsið og lýsa tilgangi og tilurð þess fyrir viðstöddum. Að því loknu voru allir fyrrum steinar fjarlægðir ofan af innganginum, mannvirkinu lýst af nákvæmni, og steinarnir síðan settir nákvæmlega á sinn stað aftur.

Hlaðnar refagildrur eru mannvirki er komu hingað til lands með forfeðrum og -mæðrum vorum frá Noregi. Þær voru notaðar, sem fyrr sagði, allt umfram tilkomu skotvopna. Með tilkomu þeirra voru gildrurnar jafnan virkjaðar að vetrarlagi. Eftir því sem skotvopnin urðu algengari og betri lagðist gildrunotkunin af. Þeir síðustu manna er vitjuðu gildranna gengu illa um þær. Þeir rótuðu grjótinu ofan þeim án þess að laga til eftir sig. Þess vegna líta fornar refagildrur út líkt og fallnar vörður í augum nútíma fornleifafræðinga. A.m.k. hafa þær sjaldnast verið skráðar sem slíkar í nútíma fornleifaskráningum.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Steinhlaðin refagildra felur í sér op, gang, farg, lokhellu og fyrirstöðu. Hér verður ekki eytt stöfum í að lýsa veiðiaðferðinni. Henni hefur áður verið lýst á vefsíðunni.

Skammt ofar var komið upp á Sauðholtin fyrrnefndu. Á þeim bar fyrir augu þrjár hlaðnar tóftir; fremst beitarhúsið framangreint, og ofar hlaðinn stekkur með aðtengdri tóft. Augljóslega var þarna um að ræða fyrrum heimasel frá Minna-Knarrarnesi, þrátt fyrir að minjarnar væru skráðar með Ásláksstöðum, næsta bæ að vestanverðu.
Stekkurinn og aðliggjandi tóft bárum þess merki að um heimasel hafi verið að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðinni í Knarrarnesseli ofar í heiðinni lokinni. Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Það er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.
Selshúsin eru hefðbundin, með þremur rýmum. Grjóthleðsslur í veggjum sjást enn vel.

Minna-KnarrarnesÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ segir undir skráningu Ásláksstaða: „Beitarhústóft; Tvískipt tóft er um 1,2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan/suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er til norðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8,5×6 m að stærð. Mesta hæð veggja er um0,5 m og sjást 2 umför hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar. Hólf I er nyrst í tóftinni, það er um 5×2,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki virðist vera veggur fyrir austurhlið hólfsins og er það því opið til þeirrar áttar. Hólf II er samsíða hólfi I en ógreinilegra. Það er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést op á því. Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – beitarhús.

Í fornleifaskráningunni fyrir Stærra-Knarrarnes segir: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel). Beitarhús efst t.h.

Aðeins neðar á holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Allar þær minjar sem að framan eru nefndar eru skráðar saman og fleiri til en vatnsstæðið fannst ekki. Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Í örnefnaskrá er það sagt vera grasigróinn, toppmyndaður hóll, en í bókinni Örnefni og gönguleiðir er það sagt vera holt. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Þessar minjar hafa bókstafinn C í nánar umfjöllun hér fyrir neðan. Minjarnar eru um 1 km sunnan við bæ. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður.

Minna-Knarrarnes

Minna-Kjarrarnes – heimasel.

Minjarnar eru á svæði sem er um 55×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nyrst á svæðinu er tóft A. Hún er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 7×5 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Hún virðist vera einföld og er op á henni til norðvesturs. Mikið grjót hefur hrunið inn í hana og norðausturlangveggur hefur allur hrunið inn í tóftina. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega er þessi tóft sú sem sögð er „nýrri fjárhústóft“ í tilvísun hér að ofan eða beitarhús.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – búr.

Um 40 m suðaustan við tóft A er gróin tóft B. Hún er einföld, um 4×4 m að stærð og er inngangur inn í hana úr austri. Mesta hæð veggja er um 0,5 m. Lítillega sést í grjót í norðausturhorni tóftarinnar. Til austurs frá tóftinni er greinilegur niðurgröftur eða renna sem virðist vera manngerð. Hún er um 6×3 m að innanmáli, snýr austur-vestur og mjókkar í austurenda. Mesta dýpt er um 0,3 m. Um 5 m austan við endann á rennunni er tóft C, meint stekkjartóft. Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg.

Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr. Símastrengur hefur verið grafinn í gegnum hana og skemmt hana.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel).

Tóftin er nokkuð gróin þó enn sjáist í grjóthleðslur. Hún er um 9×12 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Hún skiptist í þrjú hólf en hólfin eru nefnd tóftir í tilvísun hér að framan. Hólf I er í norðvesturhorni. Það er um 1×3,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Inngangur er úr suðri. Hólf II er samsíða hólfi I. Það er um 1×2,5 m að innanmáli. Það snýr eins og hólf I og inngangur í það er einnig úr suðri. Hólf III er sunnan við hólf I og II og er um 4×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hæð tóftar er um 1 m. Mest sjást 2 umför í innanverðum hleðslum. Gróin en grýtt tota liggur úr tóftinni til austurs sem er um 4 m löng og um 2 m á breidd. Mögulegt er að rekstrargarður hafi verið þar og inngangur inn í tóftina (hólf III) en það sést ekki lengur. Gryfja D er um 2 m suðaustan við tóft C. Hún er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Mesta dýpt er um 0,5 m. Ógreinilegar grjóthleðslur eru í innanverðum veggjum.“

Knarrarnes

Knarrarnes – beitarhús.

Um er að ræða áhugaverðan stað í hvívetna, ekki síst að teknu tilliti í sögulegu samhengi fyrrum búskaparhátta. Um er að ræða 424. þekktu selstöðuna á Reykjanesskaganum.

Í „Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga“ um „Vitnisburð búsetuminja“ árið 2010 segir um beitarhús: „Beitarhús – sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var.
Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust var var hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Í neðanverðri heiðinnni, ofan bæjanna við ströndina, er að öllu jöfnu tiltölulega snólétt og því er staðsetning beitarhússins vel skiljanleg. Augljóst er að „stekkurinn“ hefur verið notaður um alllangt skeið og eftir að beitarhúsið var byggt  því annars hefði grjótið verið tekið úr hleðslum stekksins við byggingu þess. Hvorutveggja hefur farið vel saman því um notkun hvors um sig voru á sitthvorri ártíðinni.

Knarrarnes

Knarrarnes – heimasel.

Skammt sunnan við Sauðholt eru tóftir í gróinni kvis undir lágum aflöngum klapparhól. Um er að ræða stekk og litla byggingu með einu rými. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, mun eldri en minjarnar á Sauðholti. Líklega hefur þarna verið heimasel frá Minna-Knarrarnesi. Þessara minja er hvorki getið í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum af svæðinu.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1.mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Keilir

Keilir – með tilheyrandi stauramengun.

Kjói

FERLIRsfélagar ákváðu á blíðviðrismorgni júnímánaðar að skoða ofanvert svæðið ofan Knarrarness og Ásláksstaða millum Gamlavegar og Reykjanesbrautar með það að markmiði að skoða m.a. Ásláksstaðastekk frá Ásláksstöðum Innri og hina meintu Knarrarstaðafjárborg upp við Geldingahóla, austan Lynghóls.

Knarrarnesfjárborg

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg (-stekkur) – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselju Guðmundsdóttur segir: „Ofan sléttlendisins sem er austur af Lynghól liggur stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparholti og er hann u.þ.b. 8m í þvermál og innan í hinum sléttur bali. Vegghæðin er mjög lág og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborg en verið hætt við verkið af einhverjum ástæðum. Einnig gæti svo sem verið að unglingar hefðu gert sér það til dundurs að mynda hringinn“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um borgina: „Tvær tóftir fundust á þessum stað, um 2.4 km suðastan við Ásláksstaði. Tóft meints fjárskýlis er uppi á nokkuð flötum hraunhól í heiðinni suður af ströndinni. Dálítil grashvilft er NNA við hana sem þó er að blása upp að hluta og er hin tóftin í hvilftinni.

Knarrarnesfjárborg

Knarrrarnesfárborg.

Minjarnar eru á svæði sem er um 24x24m að stærð. Hringlaga tóftin er, sem fyrr segir, um 9 m í þvermál. Veggir hennar eru grjóthlaðnir en signir og grónir, um 0.5m á hæð þar sem þeir eru hæstir. Ekki sést fjöldi hringfara. Mesta breidd veggja er um 1.0m. Op er á tóftinni til norðurs.
Hin tóftin er af meintu fjárskýli, 10x6m að stærð og snýr austur-vestur. Hvergi sést grjót í hleðslum. Tóftin er mjög grasi vaxin og sker grasvöxtur á henni sker sig úr öðrum gróðri í nágrenninu. Tóftin er öll hlaupin í þúfur. Ekki er augljóst hvaða hlutverki hún hefur gegnt en mögulega hefur þarna verið stekkur.“

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Þegar staðið er í „borginni“ og horft umhverfis, með Lynghól til vesturs þar sem nánast jarðlæg lágreist Lynghólsfjárborgin hvílir og Breiðagerðiskrossgarðinn í austri er ekki ólíklegt að Knarrarnesbændur hafi ekki viljað vera minni menn en nágrannar þeirra og ákveðið að gefa þau skilaboð um að þeir ætluðu að byggja fjárborg á þessu víðsýna holti – á þeirra landi.
U.þ.b. klukkustundargangur er á vettvang frá bæ. Norðan holtsins er falleg startjörn og sunnan þess ferhyrnt flag í gróningum. Vestan svæðisins má sjá grasi grónar lendur, sem bendir til góðrar staðbundinnar fjárnýtingar í heiðinni.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg, torftökusvæðið og startjörnin.

Líklegt má telja að verkamennirnir hafi þar skorið torf í bygginguna, sem augljóslega er byggð úr torfi og grjóti, en af hinu síðarnefnda er gnótt í nágrenninu. Borgarstæðið horfir vel við landamerkjum, sem gæti reyndar hafa verið tilefni staðsetningarinnar. Eins og vitað er voru bændur jafnan uppteknir fyrrum að því að verja landamerki sín fyrir ágengi nágrannanna. Tíð eignarskipti á jörðum voru ekki síst ástæðan. Þess vegna má í dag sjá fjölmargar minjar út frá einstökum bæjum nálægt landamerkjum, s.s. selstöður, stekki, útihús, beitarhús  o.s.frv. Viðkomandi staðsetningar minjanna voru öðrum þræði ætlaðar til að undirstrika eignarhald viðkomandi jarðar á landssvæðinu.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Kannski að „borgin“ hafi einfaldlega verið hlaðin sem málamyndarkennileiti í skammvinnum deilum til að undirstrika eignarhaldið, þ.e. grunnur að einhverju sem gæti orðið ef… Stríð hafa jú brotist út af minna tilefni. Hvað svo sem því líður er staðurinn vel valinn og eflaust af einhverri ástæðu, t.d. startjörninni, sem hefur þótt verðmæt út af fyrir sig í annars vatnslítilli heiðinni er líða tók á sumarið. Mannvirkið sem slíkt virðist ekki hafa þjónað nokkrum öðrum tilgangi. Knarrarnesbændur hafa a.m.k. ekki haft neina burði til að skáka staðarklerki á Kálfatjörn, enda aldrei komist upp með slíkt ef saga Staðarborgarinnar er skoðuð.
Eðlilegasta skýringin er þó sú það þarna hafi bóndi ætlað að vista geldinga sína tímabundið sbr. örnafnið á holtinu.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkur á gróinni klapparhæð ofan Ásláksstaða Innri er hér nefndur „Ásláksstaðastekkur II“ til aðgreiningar frá „Ásláksstaðasekk“ í Kúadal frá Ásláksstöðum Ytri.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um stekkinn: „Tvískipt tóft um 1.2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan og suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er tilnorðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8.5c6m að stærð. Mesta hæð veggja er um 0.5m og sjást 2 umför í hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar.
Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks“.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.

Þrátt fyrir framangreinda fullyrðingu að stekkurinn sá hafi verið beitarhús verður með fullri virðingu að telja að þarna hafi aldrei verið annað skepnuhald en til tímabundins aðhalds. Stekkur er meira lagi.

Lýsing á tóftum stekksins er ágæt en gleymst hefur að tilefna tættur tveggja óskilgreindra húsa vestan þeirra. Þarna er um að ræða stekk frá Ásláksstöðum Innri.

Víða í heiðinni mátti líta augum skjól og byrgi refaskyttna frá fyrri tíð.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 46.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.

Rjúpa

Á Vatnsleysuströnd eru fjölmörg sel og stekkir frá nánast öllum bæjum þar fyrrum, jafnvel fleiri en ein/n frá sumum þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Saga seljanna og stekkjanna verður ekki sögð hér, enda hefur ítarlega verið um hana fjallað bæði annars staðar á vefsíðunni og víðar.
Í stuttu máli má þó segja að sagan hafi enduspeglað búskaparsögu landssvæðisins, frá upphafi þess til loka hinna gömlu búskaparhátta, sem óðum hafa fjarlægst okkur „nútímafólki“, eða við „nútímafólkið“ hefur fjarlægst því, þótt ekki væri nema hugafarslega.
Gallinn er hins vegar sá, ef marka má skráðar heimildir, að hvorki ábúendur né fornleifaskráendur virðast hafa áttað sig á forsögunni til vorra daga. Fornleifaskráningar bera a.m.k. þess skýr merki. Margra fornleifa er jafnan getið með vísan til örnefnalýsinga og annarra skráðra heimilda, einstaka er bætt um betur, s.s. „vörður“, sem oftar en ekki eru reyndar fornar refagildrur eða grenjamerkingar, en þá er því miður ógetið hinna mörgu fornleifa, sem hvergi er getið í skráðum skrám.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Reynsla FERLIRsfélaga er sú að verulega reynslu og góða innsýn í búsetusögu viðkomandi svæðis þarf til að skrá fornleifar af einhverju viti. Dæmi: Þegar félagsskapurinn byrjaði að leita uppi sel og selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, var í fyrstu byggt á skráðum heimildum, s.s. jarðabókinni 1703 og öðrum slíkum. Þannig var hægt að staðfesta a.m.k. 103 slíkar. Næsti áfanginn var að leita uppi öll skráð örnefni með selsörnefni. Í kjölfarið bættust 121 áður óþekkt selstaða. Loks var stefnt að því að skoða allar landfræðilegar aðstæður er gætu boðið upp á selstöður, þ.e. dalverpi upp frá fornu bæjarstæði, graslendi í skjóli fyrir austanáttinni, graslendi við læk, við á eða vatnsstæði þar sem mætti a.m.k. merkja einhverjar mannvistarleifar, s.s. stekk, vörðu, nátthaga, fjárskjól eða smalabyrgi.

Hraunssel

Hraunssel.

Niðurstaðan varð 444 skráðar selstöður á landssvæðinu.
Hafa ber í huga að sel á Reykjanesskaganum eru að mörgu leiti ólík seljum í öðrum landshlutum þar sem bússmalinn var jafnan fluttur í sel inni djúpum grónum dölum yfir sumarið. Mörg þau selin urðu síðar að kotbýlum að seltiðinni lokinni. Á Skaganum eru hins vegar aðeins örfá dæmi um slíkar umbreytingar.
Reykjanesskaginn er hraunum þakin að vestanverðu, en austurhlutinn hefur boðið upp á djúpa dali (Kjalarnes og Kjós). Þrátt fyrir tilbrigðin virðast húsaskipan seljanna löngum hafa verið þau sömu, þ.e. baðstofa, búr og eldhús, ýmist innbyggt eða frístandandi.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Margar selstöðurnar hafa ýmist verið endurbyggðar, jafnvel oftar en tvisvar, eða fluttar um set. Líklega hefur aðgengi að vatni haft mest um það að segja hverju sinni. Nokkur dæmi eru um að bæir einstaka hverfa með ströndinni hafi tekið sig saman og byggt upp selstöðuþyrpingu, s.s. Brunnastaðahverfi, Knarrarneshverfi og Breiðagerðishverfi sem og Grindavíkurbændur, sem byggðu selstöður sínar um stund á Selsvöllum, færðu þær á Baðsvelli og síðan aftur á nýjan stað á Selsvöllum. Forn sel eru á Skaganum sem hvorki hafa verið fornleifaskráð né þeirra getið í örnefnaskrám.

Selsbúskapurinn, sem verið hafði með einhverjum smábreytingum allt frá landnámi, lagðist af skömmu fyrir aldamótin 1900. Útselin fyrrum, sem var bæði ætlað að bæta um betur jarðnæðið í neðra og staðfesta landamerki viðkomandi jarða, færðust undir lokin smám saman nær bæjunum í takt við fækkun heimilis- og þjónustufólksins. Í lok hins gamla bændasamfélags í upphafi 20. aldar urðu selstöðurnar og stekkirnir nánast komnir inn að túngarði viðkomanda bæja. Hafa ber í huga að fyrir þann tíma voru nánast engir túnbleðlar til umleikis þá. Með miklum dugnaði og þrautseigju tókst bændum, með aðstoð vinnu- og útróðramanna, að græða upp velli, lægðir og jafnvel holt, sem barin voru jafnvel niður af handafli með sleggjum og síðan borin á þau þari og sló til uppgræðslu.

Árnastekkur

Árnastekkur.

FERLIR hefur jafnan borðið gæfu til þess að allir er til hefur verið leitað hafa verið fúsir til að útskýra og gefa upplýsingar um fornar minjar á sínum landssvæðum. Flestir eru nú, því miður, nú horfnir til annarra starfa handan við Móðuna miklu. Segja má því að www.ferlir.is sé lifandi vefsíða um minjar hins liðna!

Að þessu sinni leituðu FERLIRsfélagar að Rauðstekk, Brunnhólsstekk, Árnastekk og Vorkvíum – og skoðuðu.
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir um framangreindar minjar.

Rauðstekkur

Rauðstekkur.

Um Árnastekk segir: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“

Rauðstekkur er sagður „nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi með stefnnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur.

Um Brunnhól segir: „Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er llítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum.
Stekkurinn gæti einnig með réttu verið nefndur Arnarbælisstekkur.

Þá er getið um Vorkvíar, sbr. „Vorkvíar eða Vorkvíablettur heitir nokkuð stór grasmói í vikinu milli veganna“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrslu II“ frá árinu 2014 koma fram athuganir á framangreindum minjastöðum:

Árnastekkur

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Ofar nokkuð í Strandarheiði var Árnastekkur við Árnastekkshæð“, segir í örnefnskrá Hlöðuness. Árnastekur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn.
Tvær tóftir um 5x10m að stærð og snýr nálega austur -vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5x7m að stærð…. og síðan kemur einhver steypa…“.

Rauðstekkur
„Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: „Fyrir innan Arnarbælishólanna er Rauðstekkur, og var grjóthrúga upp á hólnum, sem hér Rauðhóll. Í sömu heimild segir: „Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið í 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.“

Rauðstekkur

Rauðstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkurinn er greinilegur. Hann er um 1.3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk [í Kúadal].
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir.
Stekkurinn er 13×3.5m á stærð, snýr noður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðin að hluta. Hann skiptist í 4 hólf. Hólf I er syðst. Það er sporöskjulaga og er innanmál þess 3x2m og í veggjum þess sjást grjóthleðslur. Hólf II norðan við hólf II. Það er 2.5x2m að innanmáli og snýr norður-suður. Í veggum þess sjást grjóthleðslur líkt og í hólfi II. Á milli hólfs II og III er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er norðan við hólf II og á milli þeirra er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er sporöskjulaga og er op á suðvesturhliðinni. Innamál hólfsins er 4x3m og snýr norður-suður.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Stekkurinn er efst í hæsta hól Arnarbælis, í sprungnum hraunhól. Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 10x4m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð veggja utanmáls er 0.3m en innanmáls er mesta hæð um 1m. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk tóftarinnar var.“
Bæði Rauðstekkur og Brunnhólsstekkur bera keim að fyrrum heimaseljum, þ.e. tvískiptir stekkkir með hliðar(geymslu)tóft.

Vorkvíar
„Vorkvíar eru lítil tóft í litlu viki inn í hólinn Stakk. Til vesturrs við hana er Vorkvíablettur. lítið flatlent og sléttað tún. Tóftin er einföld og gróin. Ekki sést í grjóthleðslurþ Mesta hæð veggja er um 0.4m. Óvíst er að þetta sé kvíatóft.“

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1. mín.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 42 og 48-49.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.

Vorkvíar

Vorkvíar.

Háibjalli

Við Háabjalla ofan Voga er skilti með eftirfarandi fróðleik:

„Skógræktin á Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.

Saga skógræktar

Háibjalli

Háibjalli – upplýsingaskilti.

Upphaf skógræktar við Háabjalla má rekja til ársins 1948 er Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík fékk 15 ha land gefins frá Vogabændum. Landið var strax girt af en gróðursetning hófst árið eftir. Á árunum 1949-1961 var talsvert gróðursett. Sitkagreniið í skjóli við Bjallann lifir vel og er hér að finna hæstu trén á Suðurnesjum. Árið 2002 eignaðist Skógræktarfélagið Skógfell landið og hóf ræktun að nýju.
Undir klettaveggnum er skjólgott og frjósamt og því góð skilyrði til skógræktar, þar nýtur þó ekki sólar á kvöldin. Undanfarin ár hafa skólarnir í sveitarfélaginu plantað í afmarkaða reiti.
Einn af frumkvöðlum skógræktarinnar við Hábjalla var Egill Hallgrímsson frá Austurkoti í Vogum. Hann var jafnframt einn af stofnendum Skóræktarfélags Suðurnesja árið 1950.

Snorrastaðatjarnir

Háibjalli

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Suðaustan við Háabjalla eru tjarnir nefndar eftir Snorrastöðum. Snorrastaðir er forn eyðijörð sem var komin í eyði áður en fyrsta jarðabókin á Íslandi var gerð árið 1703.
Stærstu tjarnirnar eru í gömlum heimildum nefndar Vatnsgjár. Þar streymir vatn undan hrauninu í gegnum tjarnirnar og er syðsti hluti þeirra yfirleitt íslaus. Mikill og fjölbreyttur gróður er í og við tjarnirnar. Þar blómstrar engjarós á bökkum og horblaðka eða reiðngsgras í tjörnunum. Áður var tjarnargróðurinn nytjaður og þótti horblaðkan góð til lækninga. Á svæðinu má finna flestar plöntutegundir sem vaxa á Suðurnesjum.
Á norðurbakka stærstu tjarnarinnar má sjá tóftir af Snorrastaðaseli og rétt austan við tjarnirnar er Skógfellavegur, gömul þjóðleið til Grindavíkur. Háibjalli og Snorrastaðatjarnir eru á náttúruminjaskrá.

Jarðfræði

Háibjalli

Háibjalli.

Háibjalli er um 10-12 m hátt hamrabelti, norðvesturbarmur einar af fjölmörgum misgengissprungum á þessu svæði. Sprungurnar myndast þegar landið gliðnar er Norður-Ameríkufleki og Evrasíufleki reka hvor í sína átt. Suðuausturbarmur Hábjallasprungunnar hefur sigið mikið og því er norðvesturbarmurinn svo hár sem raun ber vitni og nýtur skógurinn skjóls af honum.

Háibjalli

Háibjalli.

Fjöldi sprungna með svipaða stefnu (NA-SV) er að finna frá hábungu Vogastapa langleiðina að Fagradalsfjalli í suðaustri. Misgengissprungurnar mynda nokkra stalla suðaustan í Vogastapa sem nefndir eru bjallar og er Háibjalli hæstur þeirra. Sunnan við Snorrastaðatjarnir er nútímahraun sem ýmis er nefnt Skógfellahraun eða Arnarseturshraun. Það rann á 13. öld og er 22 km2 að stærð. Arnarklettur skagar upp úr hrauninu skammt frá suðurenda tjarnarinnar.“

Háibjalli

Háibjalli – tóft.

Hæaibjalli

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði í Skógræktarblaðið árið 2011 um Hábjalla í Vogum:

Háibjalli„Þegar ekið er vestur eftir Reykjanesbraut í átt til Keflavíkur og komið er framhjá Vogavegamótum gefur að líta í suðurátt trjáreit undir klettabelti. Það er skógræktin við Háabjalla í Vogalandi.
Bjallinn er misgengi sem er austast af fimm misgengjum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Skógrækt hófst við Háabjalla 1949 og er þar nú gróðursæll skógarreitur í eigu Skógræktar- og landgræðslufélagsins Skógfells. Eru hæstu trén allt að 17 m. Þangað er aðeins um hálftíma gangur frá Vogum.

Veður, jarðvegur, gróður
Veðurfar á Suðurnesjum er að sumu leyti hagstætt gróðri en að öðru leyti ekki. Meðalárshiti er meðal þess sem hæst gerist á landinu, en hitasveiflur litlar svo lítið er um heita daga og frost eru væg. Ársúrkoman var 1.124 mm og fellur verulegur hluti hennar sem regn. Í janúar ríkja norðaustlægar áttir en á sumrin suðlægar.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þótt megnið af bæjarlandinu einkennist af hrauni er þar meira af gróðurmold en sýnist, milli hraunhóla og klappa. Það kom berlega í ljós þegar verið var að grafa fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar svo og í húsgrunnum nýbygginga í Vogum. En það skiptast á hólar og lautir og á hólunum eða hraunkollunum er jarðvegur víða mjög þunnur. Þannig háttar einmitt til á skógræktarsvæðinu við Háabjalla þegar fjær dregur klettabeltinu.
Búskaparhættir fyrr á öldum gengu mjög nærri gróðri og jarðvegi hér, einkum beit búfjár og eldiviðartaka. Þegar allur skógur og kjarr var uppurið í nágrenninu var rifið upp lyng og mosi til að brenna og til að greiða með skatt til kóngsins manna á Bessastöðum. Með batnandi efnahag dró mjög úr eldiviðartöku og nú hefur jarðhitinn tekið við.
Nokkuð fjölbreyttur gróður þrífst í skjólinu af Háabjalla. Má þar nefna blágresi, brönugrös, jarðarber, hrútaber og síðast en ekki síst skógfjólu. Sitkagrenið er byrjað að sá sér í skóginum.

Búfjárbeit og friðun

Háibjalli

Háibjalli.

Skógræktarfélag Suðurnesja hóf strax eftir stofnun þess 1950 baráttu fyrir friðun Suðurnesja fyrir beit. Árið 1969 gerði Skógræktarfélag Suðurnesja samþykkt um nauðsyn þess að lausaganga sauðfjár yrði bönnuð en einungis leyft að hafa fé í afgirtum hólfum. Leitað var til sveitarfélaganna og var Rosmhvalanesið þá friðað fyrir beit og girt af árið eftir. Árið 1977 létu öll sveitarfélögin og Landgræðslan girða þvert yfir skagann frá Vogum til Grindavíkur og friða svæðið vestan þeirrar girðingar fyrir beit, Háibjalli þar með talinn. Sauðféð er síðan í sérstökum beitarhólfum en því hefur fækkað verulega.

Háibjalli

Háibjalli.

Sauðfé frá Grindavík hefur sótt nokkuð inn í Vogalandið og stundum unnið skaða á trjárækt við Háabjalla. Fyrir fáeinum árum náðist samkomulag um að banna lausagöngu sauðfjár einnig í landi Grindavíkur og girti Landgræðslan þá víðáttumikið beitarhólf við Núpshlíðarháls sunnan Trölladyngju.
Þessi beitarfriðun Suðurnesja skiptir gríðarmiklu máli fyrir þá sem rækta og annast um skóga og garða. Áður en hún kom til fór drjúgur hluti orku og fjármuna skógræktarfólks í að girða, viðhalda girðingum og reka út fénað sem slapp inn. Þannig stríð heyja menn enn víða um land.

Landslag við Háabjalla

Háibjalli

Háibjalli.

Háibjalli er um 20 m hár hamar, norðvesturbarmur einnar af fjölmörgum misgengissprungum á þessu svæði. Sprungurnar myndast þegar landið gliðnar er Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn reka hvor í sína átt. Þannig er líklegt að vegalengdin milli Voga og Grindavíkur lengist að meðaltali um 2 cm á ári af þeim sökum. Suðausturbarmur Háabjallasprung unnar hefur sigið mikið og því er norðvesturbarmurinn svo hár sem raun ber vitni og nýtur skógurinn skjóls af honum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir. Háibjalli fjær.

Snorrastaðatjarnir eru þar sem landið hefur sigið mest. Fjöldi sprungna með svipaða stefnu (NA-SV) eru beggja vegna Snorrastaðatjarna, alveg frá hábungu Vogastapa og langleiðina að Fagradalsfjalli í suðaustri. Misgengissprungurnar mynda nokkra stalla suðaustan í Vogastapa sem nefndir eru bjallar og er Háibjalli hæstur þeirra.
Hægt er að líta á landslag þetta sem smækkaða mynd af Þingvöllum, þar sem Háibjalli eða Hrafnagjá (hæstu misgengissprungurnar í Vogum) myndu svara til Almannagjár og Snorrastaðatjarnir til Þingvallavatns.

Seltjörn

Seltjörn – náttúruminjasvæði.
Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Grindavík, Reykjanesbæ (áður Njarðvík), Vatnsleysustrandarhreppi, Gullbringusýslu. (1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.

Háibjalli er á náttúruminjaskrá, ásamt Snorrastaðatjörnum og Hrafnagjá austan við, og Seltjörn og Sólbrekkum vestan við. Megnið af þessu svæði tilheyrir Sveitarfélaginu Vogum en Seltjörn og Sólbrekkur tilheyra Reykjanesbæ og syðsti hluti Hábjallamisgengisins er í Grindavíkurlandi. Samkvæmt aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga er stefnt að friðlýsingu þessa svæðis. „Til greina kemur að friða þetta svæði sem fólkvang, e.t.v. framhald af Reykjanesfólkvangi ef hann verður stækkaður til vesturs, nema það verði hluti af eldfjallagarði.“
Víst má telja að land þetta og Vogaheiðin öll hafi verið viði vaxið við landnám. Eftir beitarfriðun í rúm 30 ár er birki- og víðikjarr mikið að sækja í sig veðrið, t.d. austan við Litla-Skógfell og þar austur af við Kálffell. Líklega verður þetta allt vaxið lágu kjarri eftir nokkra áratugi ef búfé verður að mestu haldið frá því.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir.

Um 600 m suðaustan við Háabjalla eru tjarnirnar sem bera nafn Snorrastaða, en sá bær var löngu kominn í eyði 1703. Stærstu tjarnirnar eru í gömlum heimildum nefndar Vatnsgjár, enda frýs aldrei í þeim næst hrauninu. Í leysingum á vorin og í vætutíð eru tjarnirnar fimm að tölu. Á öðrum árstímum eru þrjár þeirra mest áberandi. Ef gengið er eftir göngustíg að fyrstu tjörninni er komið að þrem grónum tóftum af seli alveg við vatnsbakkann. Það gæti hafa verið kúasel frá Vogabændum (kúaselin voru jafnan nær byggð en sel fyrir fráfærufé).
Mikill og fallegur gróður er í tjörninni, einkum nær hrauninu. Þar blómstrar m.a. engjarós á bakkanum og horblaðka eða reiðingsgras úti í tjörninni. Á vorin má stundum sjá myndarlegar reiðingstorfur úr reiðingsgrasi reknar á land.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir.

Sunnan við tjarnirnar er nútímahraun sem ýmist er nefnt Arnarseturshraun eða Skógfellahraun. Það er 22 km2 að stærð og rann líklega á 13. öld allar götur ofan í suðurenda tjarnanna. Arnarklettur skagar upp úr hrauninu þar skammt frá, en þar var áður Arnarhreiður. Vatn streymir sífellt undan hrauninu og gegnum tjarnirnar enda er syðsti hluti þeirra yfir leitt íslaus. Silungur mun vera í tjörnunum og sögur um að honum hafi verið sleppt þar um 1950.

Háibjalli

Háibjalli – grillaðstaða.

Skátar í Keflavík (Heiðabúar) hafa lengi haft dálæti á Snorrastaðatjörnum. Þeir Emil Birnir Sigurbjörnsson, Guðbrandur Sörenson, Guðleifur Sigurjónsson (síðar garðyrkjumaður og landgræðslufrömuður í Keflavík) og Júlíus P. Guðjónsson voru hópur stráka sem voru oft í tjaldútilegu við Snorrastaða tjarnir árin 1948–1949. Faðir Guðbrandar var seglasaumari og fengu þeir seglaafganga frá honum til að klæða á grind og smíða sér báta. Seglin voru svo tjörguð og sigldu þeir á þessum heimasmíðuðu bátum á tjörnunum og geymdu svo í hraungjótum. Þetta voru mikil ævintýri fyrir stráka um fermingu.

Jakob Árnason

Jakob Árnason (1926-2020), félagsforingi Heiðabúa. 13 skátadrengir mættu á laugardagsmorgnum í  að
smíða og reisa skála á skáta-
lóðinni við Hringbraut.
Skálinn var svo fluttur 27. feb. 1993.

Hvernig tengist þessi skátasaga skógræktinni í Háabjalla? Jú, á þessum tíma var þar fleira ævintýrafólk á ferð – komið til vits og ára. Það voru þeir sem hlustuðu ekki á úrtöluraddir og hófust handa við að rækta skóg undir Háabjallanum, en það þótti klikkun á þeim tíma. Skátarnir slógust stundum í hóp skógræktarfólksins og voru nýttir til að gróður setja eins og einn þeirra komst að orði.
Á 9. áratugnum komu Heiðarbúar með skála og settu inn á milli tveggja vestustu tjarnanna. Var hann töluvert áberandi kennileiti, en gekk síðan úr sér og hrundi 2010.
Skógfellavegurinn, gamla þjóðleiðin milli Voga og Grindavíkur, liggur skammt austan við tjarnirnar. Hann hefur nú verið stikaður og er oft genginn. Þar sem þjóðleið þessi sker Reykjanesbraut var gerður undirgangur sem nýtist Vogabúum vel þegar þeir fara á útivistarsvæði sitt við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.“

Skátaskálinn Heiðaból

Í Skátablaðinu 1994 er fjallað um Heiðaból – nýjan skáli Keflavíkurskáta við Snorrastaðatjarnir:

„Þann 28. nóvember sl. vígðu Heiðabúar í Keflavík nýjan skátaskála sem staðsettur er við Snorrastaðatjarnir á Reykjanesi.

Snorrastaðatjarnir

Skátaskáli Heiðabúa við Snorrastaðatjarnir eftir að hafa fokið um koll 2010.

Skálinn hafði verið byggður á lóðinni við skátaheimilið og síðan var honum ekið á leiðarenda.
Félag Suðurnesjamanna afhenti skátafélaginu landskikann til eignar árið 1985 og hófust byggingarframkvæmdir um haustið 1989 undir stjórn Jakobs Árnasonar. Öll vinna við skálann fór fram í sjálfboðavinnu og komu margir við sögu. Það var svo í febrúar á síðasta ári sem skálanum var lyft af lóðinni og hann settur á flutningabíl sem flutti skálann á áfangastað.
Keypt hefur verið innbú í skálann og er hann allur hinn hentugasti fyrir skátastarfsemi og það uppgræðslustarf sem sunnanmenn
hyggjast ráðast í við skálann.

Við vígslu skálans flutti skátahöfðingi Gunnar Eyjólfsson ávarp, en eins og allir vita var Gunnar skáti í Keflavík.

Snorrastaðatjarnir

Heiðabúar fjarlægja leifar skátaskálans.

Gunnar Sveinsson og Fjóla Sigurbjörnsdóttir gáfu myndarlega peningagjöf í minningarsjóð sem þau stofnuðu til minningar um son sinn Magnús Gunnarsson, fv. félagsforingja sem féll frá langt fyrir aldur fram.
St. Georgsgildið í Keflavík afhenti fánastöng og íslenskan fána og Sigurður Guðleifsson fv. félagsforingi gaf áletrað skinn með byggingarsögu skálans.
Skátablaðið óskar Fleiðabúum til hamingju með skálann og vonar að hann eigi eftir að veita húsasjól mörgum skátanum í leit að ævintýrum og þekkingu í fjölbreyttu starfi.“

Skátaskálinn fauk um koll árið 2010. Skátarnir fjarlægðu síðan brakið. Síðan hefur ekkert hús verið við Snorrastaðatjarnir, en Keflvíkingar hafa löngum sóst eftir því að fá byggja sumarhús sín við tjarnirnar.

Sprengjur – leifar heræfinga Bandaríkjahers

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Í tvígang a.m.k. hafa fundist sprengjur við Háabjalla. Síðast árið 2003 fundu börn að leik virka sprengju. Líklega hefur hún fundist áður á gömlu æfingasvæði hersins þar skammt frá og verið borin að bjall anum. Landhelgisgæslan sprengdi hana á staðnum og myndaðist lítill gígur í moldina. Þá var enn og aftur farið og leitað með tækjum en ekki fundust fleiri sprengjur á Háabjallasvæðinu, en margar nær Skógfellaveginum.
Adrian J. King, sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, upplýsti 2003 að á árunum 1952–1959 hefðu átt sér stað miklar heræfingar á 15 ferkílómetra svæði í Vogaheiði og þar hafi rignt hundruðum þúsunda sprengna af ýmsum stærðum og gerðum. Mesti þéttleikinn væri rétt austan við Snorrastaðatjarnir. Slík æfingarsvæði væru víðar á Suðurnesjum, svo sem við Stapafell, Sandgerði, Krýsuvík og Kleifarvatn, en 1985 hefði herinn hætt að nota virkar sprengjur í æfingum. Útilokað er að hreinsa svæði sem þetta þannig að það verði öruggt, en hægt er að hreinsa litla bletti með nokkru öryggi.

Snorrastaðatjarnir

Sprengjur eftir leit við og ofan Snorrastaðatjarna.

Bandaríkjaher gat ekki afhent almennilegt kort af svæðinu en Landhelgisgæslumenn fundu loks útlínur skotæfingasvæðisins á korti sem Landmælingar gerðu 1951. Svo virðist sem aðallega hafi verið skotið frá einum stað nálægt Háabjalla rétt við Reykjanesbraut. Fullvíst má telja að einhverjar sprengjuhleðslur hafi lent utan hins afmarkaða æfingasvæðis. Skothríðin dundi þaðan til suðausturs og sést víða hvernig molnað hefur úr klettabeltum marga kílómetra þaðan. Einnig voru búin til skotmörk austan við tjarnirnar úr ýmsu járnadrasli, m.a. vörubílsflaki, og er mest hætta á ósprungnum sprengjum þar í kring. Eitt slíkt svæði er nálægt Skógfellaveginum og ekki fjarri þar sem skátaskálinn var. Draslinu var síðan ýtt ofan í gjár og sprengt eða mokað jarðvegi yfir.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir – viðvörunarskilti.

Síðan hefur hluti af því komið upp úr jarðveginum vegna frostlyftingar. Gera má ráð fyrir að stærstu sprengjuhleðslurnar hafi borist um 7 km inn á heiðina.
Landhelgisgæslumenn hafa teiknað kort af svæðinu þar sem því er skipt í belti eftir því hvar líklegast er að finna hleðslur af hverri stærð. Þeir hafa einnig gert leitaráætlun og leggja mesta áherslu á að leita með Skógfellaveginum. Þeir töldu mikilvægt að sem flestir þekktu hættuna og þess vegna fær þetta mál nokkurt rými í þessari grein þó svo að æfingasvæðið sé utan við sjálfan skógræktarreitinn.
Á heræfingu sumarið 1955 kviknaði í mosanum í hrauninu austan tjarnanna og er það svæði ennþá dekkra yfirlitum. Menn reyndu árangurslaust að slökkva í 3 vikur uns skaparinn tók til sinna ráða og lét rigna.

Upphaf skógræktar við Háabjalla

Háibjalli

Háibjalli.

Árið 1948 fékk Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík 15 ha land gefins frá Vogabændum. Í afsali dags. 28. ágúst það ár segir m.a.: „Þar sem Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík hefir í hyggju að hefja skógrækt og aðrar framkvæmdir á landsvæði suður af svonefndum Háa-Bjalla við Vogastapa, þá afsölum vér undirrituð endurgjaldslaust til Félags Suðurnesjamanna í Reykjavík þeim hluta úr þessu landsvæði sem tilheyrir jörðum okkar.“ Undir bréfið rita eigendur Vogajarða.
Landið var girt strax 1948 og hófst gróðursetning árið eftir. Land þetta nær frá Háabjalla og að enda Arnarseturshrauns (tunga af því lendir innan girðingar) og lenda 1–2 af Snorrastaðatjörnunum innan hennar. Þetta er ákaflega fallegt og fjölbreytt land og hefur eflaust verið hugsað sem útivistarparadís með fjölbreyttum trjágróðri til viðbótar því sem náttúran hafði að bjóða. Undir klettaveggnum (bjallanum) er gott skjól í flestum vindáttum og góð skilyrði fyrir skógrækt. Þar nýtur þó ekki sólar á kvöldin.
HáibjalliUndir Háabjalla voru gróðursettar 27.500 plöntur á árunum 1949–1961. Meirihlutinn drapst, en sitkagrenið í skjóli við bjallann lifði vel og er orðið allt að 17 m hátt. Athygli vekur að ekki virðist hafa verið reynt að gróðursetja reynivið.
Sigurður Blöndal og fleiri skógræktarmenn könnuðu trjágróður á Suðurnesjum árið 1985 vegna ályktunar Alþingis það ár um könnun á möguleikum á skóg- og trjárækt á Suðurnesjum og var árið eftir tekin saman skýrsla fyrir forgöngu nefndar sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum kaus til þess að vinna að átaki í skóg- og trjárækt á svæðinu. Niðurstöður um Háabjallareitinn voru m.a.
þessar: „Af allri þessari gróðursetningu sést nú lítið af trjám nema á 15–20 m belti út frá hamrinum …

Háibjalli

Háibjalli – Fjallafinka.

Sitkagrenið er eina trjátegundin sem hefur spjarað sig vel í Háabjalla, auk nokkurra trjáa af rauðgreni. Nokkur ljómandi falleg sitkagrenitré eru þarna núna, sum um 10–12 m há.“ Sigurður gefur jafnframt út dánarvottorð fyrir trjátegundirnar þar sem hann getur til um hvað gæti hafa orðið plöntunum að fjörtjóni, svo sem furulús, vorhretið 1983, sauðfjárbeit eftir að hætt var að hugsa um girðinguna (fé er einkar sólgið í lauftré og lerkið) og sinubruna þar sem mikið af trjám brunnu.
Stopular heimildir eru tiltækar um gróðursetningaraðferðir, áburðargjöf og umhirðu skógarins framanaf. Lengi vel var mjög erfitt að koma ökutæki að og kann það að hafa dregið úr að menn notuðu húsdýraáburð við gróðursetninguna. Guðbrandur Sörenson mundi eftir að einhverju sinni hafi verið sturtað loðnu inn í skóginn í Háabjalla á nokkrum stöðum upp úr 1970 og var ólíft þar það sumar að hans sögn.

Frumherjar

Háibjalli

Háibjalli – tóft (Snorrastaðir?).

Félag Suðurnesjamanna átti Háabjallareitinn þar til honum var afsalað til Skógræktarfélags Suðurnesja þann 20. mars 1970,30 en félagið var stofnað 1950 að frumkvæði Félags Suðurnesjamanna. Í afsalinu er tekið fram að Skógræktarfélagið skuli endurbyggja girðingu utan um landið, sem gæti þýtt að hún hafi verið orðin léleg og fénaður gengið út og inn og átt þátt í því hve margar af plöntunum drápust. Árið 1985 er girðingin dæmd ónýt. Starf Skógræktarfélagsins var öflugt fyrst en svo dró úr því. Í skýrslu Skógræktar ríkisins frá 1986 segir um félagið: „Þarna var starfað af nokkrum krafti og áhuga fyrstu árin, en úr því lognaðist starfið útaf svo að í 20–25 ár hefir það legið niðri að mestu og skógræktarfélagið að heita má óvirkt nema í Grindavík.“

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Af einstökum frumkvöðlum ber fyrst að nefna Egil Hallgrímsson, kennara og kortagerðarmann, frá Austurkoti í Vogum (f. 1890). Hann bjó og starfaði í Reykjavík og kom mörgu til leiðar. Hann hafði frumkvæði að skógræktinni við Háabjalla og einnig í Aragerði í Vogum. Hann var frumkvöðull að stofnun Skógræktarfélags Suðurnesja 1950 og gaf 1000 kr. við stofnun þess og urðu þeir peningar síðan að Skógræktarsjóði Suðurnesja. Hann var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Skógræktarfélagsins á aðalfundi þess 1955. Yngri bróðir Egils, Árni Klemens Hallgrímsson hreppstjóri í Vogum, kemur einnig mikið við sögu skógræktar á Suðurnesjum. Svo virðist sem landgræðsluskógaátak hafi þegar verið hafið á 6. áratugnum því í frétt frá aðalfundi félagsins 1958 segir m.a.: „Grasfræssáning hefur farið fram í girðingunum með góðum árangri og er unnið að því að græða þar upp öll flög, jafnhliða trjáræktinni.“

Háibjalli

Háibjalli um haust.

Næstur er nefndur til sögunnar Siguringi E. Hjörleifsson, kennari við Austurbæjarskóla og tónskáld, kjörinn heiðursfélagi í Tónskáldafélagi Íslands 1963.17 Þeir Egill voru vinir og stóðu saman í frumkvöðlastarfi ásamt fleirum. Hann kom á Willis-jeppa úr Reykjavík með plöntur á toppnum til að gróðursetja upp úr 1960 að sögn Særúnar Jónsdóttur í Vogum. Siguringi var kunnugur Árna Klemens í Austurkoti sem aðstoðaði hann við að fylla bílinn af unglingum úr Vogum til að aðstoða hann við skógræktina. Þar á meðal voru 3 dætur Árna, þær Ása, Helga Sigríður og Halla. Magnús Ágústsson man eftir Siguringa að stinga út úr fjárhúsum í Halakoti á Vatnsleysuströnd, setja taðið í poka og upp á bílinn og flytja í Sólbrekkur, einn af reitum Skógræktarfélags Suðurnesja, þar sem hann vann mikið að gróðursetningu.

Skógrækt og umhirða nú

Háibjalli

Háibjalli.

Skógræktar- og landgræðslufélagið Skógfell hefur starfað af krafti síðan það var stofnað 1998. Nafn félagsins er dregið af nafni Litla-Skógfells sem er í Vogalandi í átt að Grindavík. Það er nú skóglaust að mestu en hefur eflaust verið klætt skógi áður fyrr. Félagið hefur gróðursett hátt í 1000 trjáplöntur árlega og auk þess hirt um eldri reiti og grætt upp moldarflög.
Haldin eru vinnukvöld á vorin auk fleiri tilfallandi verkefna og lögð áhersla á þægilegt andrúmsloft og notalega kaffipásu auk þess að vinna. Að jafnaði mæta 10–15 manns.
Skógfell hefur til afnota 10 ha landgræðsluskógasvæði í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og hefur gróðursett þar, sáð og borið á frá því að félagið var stofnað. Einnig hefur félagið annast um fleiri skógarreiti í Sveitarfélaginu Vogum.

Háibjalli

Háibjalli – sveppir.

Landgræðslu- og skógræktarfélagið Skógfell eignaðist skógræktarlandið við Háabjalla 1. október 2002 með afsali eftirlifandi félaga í Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík. Skógfell hafði þá þegar tekið reitinn að sér og hafist handa við að bæta við trjágróðri, hlú að og bera á eldri tré og bæta aðgengi, ásamt því að hreinsa og fegra svæðið. Gróðursett hefur verið í móa á bersvæði, nokkru fjær hamrinum, aðallega birki, sitkagreni, alaskavíði (Hríma), jörfavíði og furu.
Borinn hefur verið skítur með flestum gróðursettu plöntunum auk tilbúins áburðar og borinn tilbúinn áburður á þau af eldri trjánum sem ekki var góð rækt í. Stærstu trén hefur ekkert verið gert fyrir en þau vaxa mjög vel og eru árssprotar tugir cm á lengd.

Háibjalli

Háibjalli.

Borð með bekkjum og hlaðið grill er til staðar fyrir gesti og gangandi og talsvert notað á sumrin. Umferð á eflaust eftir að aukast þegar lokið verður við gerð stíga frá Vogum undir Reykjanesbraut. Umgengni er góð með undantekningum þó.

Síðustu ár hafa bæði elstu börn Heilsuleikskólans Suðurvalla og miðstig Stóru-Vogaskóla gróðursett á sérstökum svæðum nálægt Háabjalla. Skógfell hefur aðstoðað starfsfólk skólanna við þá vinnu og lagt leikskólanum til 2–3 ára plöntur en grunnskólinn fær plöntur frá Yrkju. Þarna er mjög spennandi leiksvæði fyrir börn, samspil trjáa og hárra kletta, en betra er að fara varlega. Skógurinn er hæfilega þéttur og skjólgóður en þyldi vissulega snyrtingu.

Háibjalli

Háibjalli.

Stefnt er að því að koma upp skógi í móanum milli bjallans og tjarnanna en þó með góðum rjóðrum og ekki alla leið að tjörnunum svo útsýnið við þær haldist. Ákveðið hefur verið að ekki verði um frekari gróðursetningu trjáa að ræða við klettabeltið til að það fái að njóta sín líkt og trjágróðurinn. Einnig má geta þess, að björgunarsveitarmenn hafa notað klettana til æfinga, en það kemur samfélaginu til góða á sinn hátt.
Það sannast á Háabjalla að maður gróðursetur fyrir næstu kynslóðir. Nú eru þeir sem gróðursettu þessi háu, skjólgefandi tré flestir fallnir frá en næstu kynslóðir njóta verka þeirra og fyrirhyggju. Um leið leitast Skógfell við að tryggja að núlifandi kynslóðir hafi sem mest að gefa komandi kynslóðum.“

Heimildir:
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.o5.2011, Þorvaldur Örn Árnason, Háibjalli í Vogum, bls. 66-73.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.04.1994, Heiðaból – nýr skátaskáli, bls. 8.

Háibjalli

Undir Háabjalla.

Hvassahraun

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um Hvassahraunsstekk í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi):

Hvassahraun

Hvassahraun – varða ofan stekksins í Stekkjarnesi. Gerði og skúti á miðri mynd.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur,“ segir í örnefnaskrá.
„Svo er næst við sjó Stekkjarnef þar er rúst eftir Stekk þar er og Stekkjardalur, niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll klofinn grashóll,“ segir í örnefnalýsingu AG. Ekki er annað að skilja af þessum lýsingum að Stekkjarnef/-nes og Stekkjardalur séu á svipuðum slóðum. Það er því líklegt að báðir þessir staðir dragi nafn sitt af Stekk sem þekktur er í Stekkjardal.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjarnesi.

Ekki fannst nema einn stekkur á þessu svæði og er hann í Stekkjardal, allstóru og flatlendu viki inn í hraunið sunnan við grýttan sjávarkampinn, um 760 m norðan við bæ. Auk stekkjartóftar er gerði og hleðsla framan við skúta í dalnum og ungleg varða er austan við stekkinn. Flatlent og smáþýft er í Stekkjardal. Grjót berst á land í sjógangi.
Minjarnar eru á svæði sem er um 28×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í norðausturenda þess er ungleg varða.
Hún er uppi á hraunhól um 15 m austan við stekkjartóft. Hún er um 0,5 m í þvermál og á hæð. Í henni sjást 4 umför en hleðslan er óvönduð.

Hvassahraun

Hvassahraunssstekkur í Stekkjarnesi – Uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjartóftin er austast í Stekkjardalnum, vestan undir hraunvegg. Tóftin er mjög sigin og grjóthleðslur jarðlægar en hún er tvískipt. Tóftin er um 5×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er í norðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 3×1 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er í suðausturenda tóftarinnar. Það er einnig um 3×1 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Op er á báðum hólfum til suðvesturs. Mesta hæð veggja er 0,2 mog er hvergi steinn yfir steini. Gerði B er um 15 m suðvestan við tóft A. Það er einfalt og virðist vera grjóthlaðið. Gerðið er sporöskjulagaog er um 9×7 m að stærð, snýr VSV-ANA. Skýrir veggir eru til norðurs en ógreinilegir til suðurs þar sem hlaðið ermeðfram hraunvegg. Ekki er skýrt op á gerðinu en þaðkann að hafa verið í norðvesturhorni. Hleðslur í gerðinu eru að mestu hrundar en eru 0,2-0,3 m á hæð og mest sjást 2 umför.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Grjót sem sjórinn ber á land er komið fast að gerðinu. Hlutverk gerðisins er óljóst en líklega er það „byrgið“ sem nefnt er í örnefnaskrá AG. Fast vestan við gerðið er skúti. Op hans er um 10 m á lengd. Hlaðið er fyrir skútann að mestu leyti. Sumt af grjótinu í opinu hefur hrunið og svo hefur verið hlaðið ofan á hrunið. Mest sjást 2-3 umför hleðslu.

Hvassahraun

Hvassahraun – fyrirhleðsla við skúta í Stekkjarnefi.

Mögulega hefur norðurhluti skútans verið nýttur sem fjárskjól þar sem gólf er tiltölulega slétt og hæst er til lofts. Ekki er að sjá að skýrt op sé inn í hann og samband gerðis og skúta er óljóst.“

Sem fyrr segir kemur fram í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar fyrir Hvassahraun að svo er næst við sjó Stekkjarnef, þar er rúst eftir Stekk. Þar er og Stekkjardalur niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll, klofinn grashóll.“

Í örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar og Guðmundar Sigurðssonar segir:

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur. Þar upp af er Stekkjarhóll og á honum Stekkjarhólsvarða.“

Stekksins í „Stekkjardal“ er ekki getið sem slíks í fornleifaskráningunni, einungs stekksins í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi), sem sagður er vera í Stekkjardal. Hins vegar er getið um „gerði/kálgarð“ neðst í dalnum, líkt og segir í örnefnalýsingum, sbr. „Grjóthlaðið gerði er um 100 m norðvestan og 380 m NNV við bæ. Líklega afmarkaði gerðið kálgarð. Gerðið er nærri sjó, í grasi vöxnum, hólóttum móa.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðið er um 18×13 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur, mjókkar lítillega til norðvesturs. Veggjahleðslur eru hrundar og eru 1-1,5 m á breidd og hæstar 0,5 m. Mest sjást 2-3 umför hleðslu. Tréstaurar eru hér og hvar í grjótinu og hefur verið girðing ofan á grjóthleðslunni. Ekki sést skýrt op á gerðinu.“

U.þ.b. 20 metrum norðan við „gerðið/kálgarðinn“ mótar fyrir ferhyrndum hleðslum á gróðurbleðli, rétt ofan við núverandi grjótuppkastaðan fjörukampinn. Um er að ræða tvö hólf í aflöngu gerði, 2x 6x12m með op móti suðri. Einungis sést móta fyrir einu umfari, en skýrastir eru veggirnir að austan og norðanverðu. Hér er greinilega um leifar af stekk að ræða, enda stemmir hann við lýsingar í framangreindum örnefnaskrám. Minjarinnar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi; eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt. Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900.

Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt.

Hvassahraun

Hvassahraun – matjurtargarður.

Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þessi virðist hins vegar ekki hafa verið notaður sem slíkur. Hins vegar eru þrír stórir matjurtargarðar með grjóthlöðnum veggjum umhverfis skammt ofar í dalnum.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Gísli Sigurðsson og Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Borgarkotsstekkur

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ fjallar höfundurinn, Sesselja Guðmundsdóttir, um stekkina ofan Vatnsleysu, Flekkuvíkur, Borgarkots, Bakka og Kálfatjarnar.

Miðmundarstekkur

Mundastekkur.

Um Mundastekk segir: „Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.“

Um Borgarkotsstekk segir: “ Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða.

Stefánsvarða

Stefánsvarða.

Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á lcöflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líldega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar og norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.“

Staðarstekkur

Staðarstekkur – teikning.

Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni fyrir Kálfatjörn og Litlabæ frá Bakkastekk: „Upp frá Nausthól er Vatnsstæðið, áður nefnt, en þar ofar eru svo kallaðar Kálfatjarnarmógrafir rétt ofan við Langahrygg. Þar enn ofar er Bakkastekkur og sjást þar rústir. Þá er hér einnig að finna Borgarkotsstekk suður og upp frá Borgarkoti.“

Sesselja segir: „Norður af Staðarborg og vestur af Þorsteinsskála er Staðarstekkur.“ Um er að ræða óljósar tóftir í lágum klofnum klapparhól. „Nú förum við aftur niður á Strandarveg og fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ, (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur vestan undir Heimristekkhól. A hólnum er há þúfa en hóllinn er rétt fyrir ofan Almenningsveginn. Heimari = heimri þýðir það sem er nær bæ af tvennu og í þessu tilviki var Heimristekkur nær bæ en Staðarstekkur.“

Bakkastekkur

Bakkastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir um Bakkastekk: „Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,“ segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ.
Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að Gamla-Bakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5x  m að stærð og snýr NNV-SSA. Í suðurendanum er lítið hólf, um 1 x 2 m að innanmáli, snýr VSV-ANA. Í norðurendanum er óljós grjótþúst, um 1,5×1,5 m að stærð.“

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur.

Um Borgarkotsstekk segir: „Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti 027 og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn. Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs. Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6×3 m og mesta hleðsluhæð er 0.5-10 cmetrar. Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.“

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Um Heimristekk segir: „Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll.Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,“ segir í örnefnaskrá. Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn.
Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu.
Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1×1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.“

Staðarstekkur

Staðarstekkur.

Um Staðarstekk segir: „Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,“ segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg 049 og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn.
Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22×3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m.  Almennt fer lítið fyrir hleðslum sem eru þvert á sprunguna því hún er mjög grasi vaxin og hleðslur eru flestar lágar. Sumstaðar sést í grjót.“

 

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Um Flekkuvíkurstekk segir: „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,“ segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ.
Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Hólf I) er í norðurenda, það er um 1,5 x 0,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur, ógreinilegt. Op er á því til austurs.“

Vatnsleysustekkur

Flekkuvíkurstekkur II.

Um Flekkuvíkursel II segir: „Á heimasíðu Ferli[r]s segir: „Annar stekkur, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.“ Steinhlaðin tóft er skammt utan túns, um 10 m vestan við núverandi veg heim að Flekkuvík og um 180 m norðaustur af bænum.
Tóftin er í grasgefnum móa þar sem eru lágir klapparhólar. Tóftin er grjóthlaðin og skiptist í þrjú hólf. Hún er um 10×5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er hlaðin sunnan í lágan klapparhól og er lágur bergveggur notaður í norðausturvegg. Hlaðið er ofan á hann að hluta.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftin er hlaðin úr stóru hraungrýti en hleðslur hrundar að miklu leyti. Hólf A) er stærsta hólfið, það er um 4×3 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Innan við það til vesturs er lítið hólf B) , um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Í suðausturenda tóftarinnar er svo hólf C) sem er að innanmáli um 3, 5 m í þvermál. Einföld hleðsla er í veggjum þess og hefur sennilega verið aðhald í því framan við tóftina. Op er á þessu hólfi til norðausturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,4 m. Ekki sjást op inn í hólf A eða B. Hlutverk tóftar er ekki þekkt með vissu en höfundur texta á heimasíðu Ferli[r]s telur að um stekk sé að ræða. Ef til vill er hér um útihús eða kvíar að ræða.“
Ef um útihús hafi verið að ræða á nefndum stað mætti nefndi „höfundur“ þess vegna heita haughús. Þarna eru engar minjar um útihús, hvorki á stanum né í umhverfinu. Ef ekki hafi verið um stekk að ræða þarna hefur þar verið tvískipt gerði, jafnvel rúniningsrétt. Af umhverfinu að dæma virðist hún ekki hafa verið varanlega notuð.

Mundastekkur

Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Um Mundastekk segir: „[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ.
Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7×6 m að stærð og snýr austur-vestur.

Mundastekkur

Mundastekkur.

Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt. Hólfin eru samsíða í sömu stefnu og tóftin. Syðra hólfið I) er um 1×3 m að innanmáli og nyrðra hólfið II) er um 4,5×2 m að innanmáli. Í austurenda þess virðist vera lítið hólf sem er um 1×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður en það getur verið að það sé aðeins hrun úr veggjum.“

Stekkir eru hluti búsetuminja fyrri tíðar. Þá ber að varðveita, líkt nauðsynlegt er að varðveita söguna.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjörn, Litlibær – Gísli Sigurðsson.

Heimristekkur

Heimristekkur.

Fornistekkur

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir m.a. um svæðið neðan Arnarbælis í landi Brunnastaða:

Gamlivegur

Gamlivegur.

„Nú förum við niður og vestur fyrir Arnarbæli en þar er stekkur í lágri grasbrekku sem snýr í norðvestur og heitir Fornistekkur. Stekkurinn er á milli Skjaldarkotslága og Arnarbælis.
Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er lítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum. Vestan undir Brunnhóli er gamall nafnlaus stekkur.“

Fornistekkur

Hlöðunes – Fornistekkur.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur.“

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ er getið um Fornastekk: „Fornistekkur er um 1,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Stekkurinn er um 50 m norðaustan við núverandi landamerki á móti Hlöðunesi og kann því að hafa tilheyrt þeirri jörð.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – Nafnlausistekkur.

Stekkurinn er í aflíðandi brekku í norðvestanverðu holti. Uppgræddur mói er til norðvesturs. Tóftin er um 10×5,5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún skiptist í tvö hólf og er sigin og gróin. Hólf I er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á því.
Hólf II er í suðvesturenda tóftar. Það er um 4 m á lengd og 2-3 m á breidd, breiðast í suðausturenda. Op er á hólfi II í norðurhorni.

Brunnastaðir

Nafnlausistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftin er að mestu leyti grjóthlaðin en torf hefur líklega einnig verið í hleðslum í hólfi I í norðausturhlutanum. Mesta hleðsluhæð er 0,3 m, ekki sést fjöldi umfara í hleðslum sem eru allar hrundar. Um 4 m suðaustan við tóftina og ofar í brekkunni er þýfð þúst sem er um 3×3 m að stærð og 0,3 m á hæð. Þar kunna frekari mannvirki að leynast undir sverði.“

Um nafnlausa stekkinn í Brunnhól segir: „Stekkurinn er í grasi gróinni, aflíðandi brekku til norðvesturs. Allstórt, flatlent og grösugt svæði er norðvestan við stekkinn í annars fremur hrjóstrugum hraunmóa.
Stekkjartóftin er grjóthlaðin og skiptist í 3 hólf. Hún er um 6×6 m að stærð. Hólf I er í suðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 0,5×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því til norðvesturs.

Brunnhóll

Brunnhóll – stekkur.

Hólf II er í austurhorni tóftar og er um 1×1 m að innanmáli. Ekki sést skýrt op á því. Hólf III er fast norðvestan við hólf II og er um 2×1 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Ekki er veggur fyrir norðvesturhlið hólfsins og það því opið til þeirrar áttar. Frá norðurhorni tóftarinnar liggur aðrekstrargarður til suðvesturs og er um 6 m að lengd og 0,5 m á breidd. Tóftin er gróin í suðvesturhluta. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m og mest sjást 3 umför.“

Reyndar eru leifar þriggja fornra stekkja í og við Brunnhól, auk smalabyrgis og refaskyttuskjóls. „Brunnurinn“ er þar skammt frá. „Nafnlausi“ stekkurinn er ólíkur hinum, þ.á.m. Guðmundarstekk og Fornastekk, að í honum eru þrjú afmörkuð hólf. Heimastekkir höfðu jafnan tvö hólf líkt og stekkir í seljum (þar voru líka kofar fyrir búr, baðstofu og eldhús), en „millistekkir“, þ.e. á millum seljanna í heiðinni og bæja, höfðu þessi þrjú hólf, en voru án fyrrnefndra kofa. Aukahólfið var notað til skammtímageymslu afurðanna. Nafnlausistekkur ber því keim af heimaseli.

Brunnhóll

Brunnhóll – stekkur.

Í „Örnefni og göngleiðir“ er Guðmundarborg lýst: „Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar og var honum lýst hér á undan. Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti.
Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar, Efri-Presthóll og Neðri-Presthóll, og sagt var að þar væri mikil huldufólksbyggð. Sigurjón Sigurðsson (1902—1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: „Sagt er, að þeir dragi nafn sitt afþví, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og haft prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari. “

Brunnhóll

Brunnhóll – vatnsstæði.

Milli Presthóla liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vel vörðuð á þessum kafla íyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppum.“

Í Örnefnalýsingunni fyrir Brunnastaði segir: „Austan Lúsaborgar er hóll með vörðu á, upp af Grænhól, sá heitir Lambskinnshóll. Og þar upp af eru tveir hólar, allstórir klapparhólar, mjög líkir og skammt á milli þeirra. Þeir heita Presthólar, sunnan þeirra er varða sem er á merkjum. Í Presthólum er allt iðandi af lífi, það er huldufólkslífi. Milli Lambskinnshóls og Presthóla er stekkur, Guðmundarstekkur, stekkur þessi var frá Neðri-Brunnastöðum.“

Brunnhóll

Brunnhóll – refaskyttuskjól.

Guðmundarstekk er lýst í fornleifaskráningunni: „Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól og 390 m suðvestan stekk. Stekkurinn er um 1,72 km sunnan við bæ.
Stekkurinn er norðan undir hlíðum lágs hóls eða holts sem er norðvestur af Presthólum. Umhverfis stekkinn er allgróið en annars er hraunmóinn í kring gróðurlítill.

Guðmundarstekkur

Brunnastaðir – Guðmundarstekkur.

Stekkurinn er grjóthlaðinn og skiptist í þrjú hólf. Hann er um 11×9 m að stærð og snýr norður-suður. Hólf I er um 4×7 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á því í norðurenda. Innan þess er lítið hólf II sem er um 2×2 m að stærð og snýr NNV-SSA. NNV-endi þess er óskýr og kann það að hafa náð lengra í þá átt. Ekki er veggur fyrir þeim enda. Mögulega var op úr hólfi II til austurs inn í hólf III sem er um 2,5×1,5 m að innanmáli og snýr nálega norður-suður. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og sjást mest 3 umför. Suðvesturhornið er mjög gróið og óskýrt.“
„Ekki fjarri stekknum eru Neðri- og Efri-Presthóll, sem oft eru aðeins nefndir Presthólar. Presthólar eru 1,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 100 m suðaustan við Guðmundarstekk.

Framangreindir stekkir eru nokkurn veginn í línu í skjóli fyrir austanáttinni til norðnorðausturs frá Prestshól að Brunnhól.

 

Guðmundarstekkur

Guðmundarstekkur – uppdráttur ÓSÁ

Presthólar eru allháir hraunhólar í móa sem er að nokkru leyti uppblásinn. Varða er á Neðri-Presthól og hleðsla er á Efri-Presthól. Minjarnar eru á svæði sem er um 145×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Varðan A á Neðri-Presthóli er norðvestast á svæðinu. Hún er um 1,2×1,2 að grunnfleti. Varðan er nokkuð ferköntuð að lögun og eru hleðslur hennar hrundar. Hún er um 0,5 m á hæð og sjást 3 umför í henni en þau eru illgreinanleg. Ekki er vitað í hvaða tilgangi varðan var hlaðin en hún kann að hafa vísað á Almenningsleið/Alfaraleið sem lá á milli Presthólanna.
Hleðsla B á Efri-Presthól er suðaustast á svæðinu. Hún er á háhólnum í grunnri sprungu sem liggur eftir hólnum. Hleðslan er útflött og gróin. Hún er um 1,5×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð hleðslunnar er 0,3 m og 2 umför sjást á einum stað. Hlutverk hleðslunnar er ekki þekkt en þarna kann að hafa verið vatnsstæði.“

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir 2007.
-Örnefnalýsing fyrir Brunnastaði – Ari Gíslason.
-Ragnar Ágústsson – Ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.

Guðmundarstekkur

Guðmundarstekkur.