Færslur

Þórustaðir

Í frétt Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar má lesa eftirfarandi um “brúsapalla” í sveitarfélaginu:

Brúsapallur

Brúsapallur ofan Litlabæjar og Bakka.

“Brúsapallar voru víða um sveitir landsins á árunum 1940 til 1970. Þar þjónuðu þeir hlutverki sínu fyrir mjólk sem beið þess að verða sótt, á leið sinni í mjólkurbúið. Þar beið líka stundum heimasætan og annað fólk sem þurfti bílfar um sveitina.
Árið 2009 voru nokkrir brúsapallar friðaðir í Noregi þar sem talið var að þeir hefðu að geyma merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snerti bæði framleiðsluhætti og félagslíf.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru enn uppistandandi tveir brúsapallar, smáhýsi sem standa við afleggjarana að Litla-Bæ og Bakka og Þórustöðum. Sannarlega merkur hluti menningarsögu sveitarfélagsins.
Er ástæða til að halda sögu þessara brúsapalla okkar lifandi? Hefðu vegfarendur um sveitina okkar hugsanlega gagn og gaman af að fræðast um hluta menningarsögu okkar við smáhýsin við Vatnsleysustrandarveg?”

Brúsapallur

Búsapallur ofan Þórustaða.

Á mbl.is var grein um brúsapalla undir fyrirsögninni “Kennari, hvað er brúsapallur?
“Nú eru komin ný orð yfir þetta, ferlega ljót, nánast afstyrmi að því er mér finnst: samnemendur eða samstúdentar .
Öllum er ljóst að samfélag okkar, sem og þau sem við höfum mest saman að sælda við, breytist ört. Það veldur því að við þörfnumst sífellt nýrra orða til að gera okkur jarðvistina léttbærari og skiljanlegri. Ný orð yfir ný fyrirbæri gera okkur kleift að vera virk í þessum nútíma sem þó staldrar svo stutt við áður en sá næsti birtist.
Í því augnamiði smíðum við nýyrði mörg, lögum erlend orð að íslensku beygingar- og hljóðkerfi og tökum gömul íslensk orð, sem misst hafa af hraðlestinni, orðið eins konar strandaglópar eins og orðið skjár svo dæmi sé nefnt. Mörg hinna nýju orða verða gildir þegnar málsamfélagsins, önnur týnast brátt; verða undir í samkeppninni.

Brúsapallur

Brúsapallur í Flóa.

Fylgifiskur alls þessa er náttúrlega sá að sum gömul og gegn orð glatast með öllu eða verða svo fágæt í munni manna og skrifum að þeir sem þau nota teljast til sérvitringa, eins konar fornmanna sem neita að hlýða kalli tímans.
Þessi orð verða úti og rata ekki til hinna nýju byggða af því að þeirra virðist engin þörf lengur. Þau verða samferða í útlegðina gömlum atvinnuháttum og verkmenningu sem gengin er sér til húðar.

Brúsapallur

Brúsapallur.

Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni: „Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“
Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).
Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:

Öðruvísi allt í gær;
aldni tíminn fallinn.
Okkar bíður engin mær
við engan brúsapallinn.

Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir.
Stundum gerist það og að orð sem notuð hafa verið í áratugi, jafnvel aldir, um fyrirbæri sem enn eru í fullu gildi í samfélaginu, verða að víkja, gjarna vegna erlendra áhrifa. Að sumum þessara orða þykir mér mikil eftirsjá.”

Í Degi árið 1956 er stutt skrif um brúsapalla:

Brúsapallur

Brúsapallur.

“Brúsapallar ættu að vera á hverjum stað, þar sem mjólk þarf að skilja eftir við veginn og mjólkurbíllinn tekur síðan. Ef einhverjum finnst þetta hégómamál, ættu þeir að hugleiða það ofurlítið nánar og hafa þá jafnframt hreinlætið í huga. Brúsarnir eru settir á vegarbrún. Bílar fara um og aursletturnar ganga yfir brúsana þegar blautt er um. Í þurrki leggur rykmökkinn yfir þá. En verstur er þó staðurinn sjálfur, þar sem þeir standa á. Þar er traðk manna, hunda og stórgripa. Eitt og annað loðir svo við botngjörðina þegar brúsarnir eru látnir á pallinn. Það hristist að mestu af á leiðinni og þá gjarnan á aðra brúsa er neðar standa. En ef svo ólíklega skyldi vilja til, að eitthvað væri enn eftir þegar að því kemur að hella mjólkinni í vigtina við móttöku í mjólkursamlaginu, er hætt við að mjög óvelkomin óhreinindi verði nærgöngul við hina ágætu mjólk.
Ekki skal í efa dregið að vígreifar hersveitir Jónasar samlagsstjóra, sem hafa þrifnaðinn að vopni, auk sjóðandi vítisvéla, grandi sýklum og öllum þeim ósýnilegu og mögnuðu kvikindum, sem teljast óvinveittar heilbrigði dauðlegra manna og kynnu samkvæmt framansögðu að eiga greiðari leið en æskilegt væri inn á aðalstöðvar mjólkuriðnaðarins. En betra væri samt að loka þessari leið með þeirri þrifnaðarráðstöfun að hafa brúsapalla á hverjum bæ og eru þessar línur skrifaðar í því skyni að þeim mætti fjölga sem fyrst og sem mest. – Spói.”

Á vefsíðu Þjóðminjasafnsins er fjallað um brúsapalla:
Brúsapallur
“Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.”

Á bloggsíðunni bilablogg.is segir m.a. af sannleiknum um Bjössa á mjólkurbílnum:
Brúsapallur
“Starf mjólkurbílstjóra var margþætt á þessum árum og fólst að hluta til í því að koma pökkum á milli staða. Ekki þurfti meira til en það og útkomuna þekkjum við í textanum við ítalska lagið Poppa Piccolino sem varð einfaldlega að: “Bjössi á mjólkurbílnum“.
Höfum í huga við lestur textans í heild hér fyrir neðan að Björn var kvæntur maður og faðir tveggja ungra barna, en alls urðu börnin fjögur. Björn var maður sem fólkið í sveitinni fagnaði þegar hann birtist með nauðþurftir og annað. Hann þótti með eindæmum lunkinn bílstjóri og í minningarorðum um Björn skrifaði dóttir hans að „[…] varla var til sú bíldrusla sem hann gat ekki gert gangfæra“.

Brúsapallur

Brúsapallur austur í sveitum.

Höfum líka í huga að maðurinn sem gerði Kolbein kaftein að hamfarakjafti í íslenskri þýðingu Tinnabókanna samdi textann um Bjössa og var það sem fyrr segir gert af glettni. Má sjá fyrir sér Loft Guðmundsson, sposkan á svip, hripa niður textann sem er svona:

Hver ekur eins og ljón
Með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.
Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Hann Bjössi kvennagull.
Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
Alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.

Heimildir:
-https://www.facebook.com/510788858933519/photos/br%C3%BAsapallar-voru-v%C3%AD%C3%B0a-um-sveitir-landsins-%C3%A1-%C3%A1runum-1940-til-1970-%C3%BEar-%C3%BEj%C3%B3nu%C3%B0u-%C3%BEei/584589608220110/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1364905/
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/adrar-syningar/ljosmynd-manadarins/hver-ekur-eins-og-ljon
-Dagur, 52. tbl. 06.10.1956, Fokdreifar, bls. 4.
-https://www.bilablogg.is/frettir/sannleikurinn-um-bjossa-a-mjolkurbilnum

Vatnsleysuströnd

Brúsapallurinn ofan Litlabæjar og Bakka 2022.

Kálffell

Í Nýja tímanum árið 1953 segir frá því er “Guðmundur Í. heimtaði beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn“, eins og segir í fyrirsögninni:

“Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleysustrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn. Heiðin frá Grindavíkurvegi allt inn hjá Keili á að vera bannsvæði fyrir Íslendinga.

VogaheiðiGuðmundur Í. Guðmundsson, varnarmálanefndarmaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og þingmaður Alþýðuflokksins, fer nú hamförum við að afhenda bandaríska hernum lönd Suðurnesjamanna.
Í júní í fyrra skýrði Nýi tíminn frá því að bandaríski herinn hefði gert kröfu til að fá til sinna umráða Reykjanesið frá Keflavíkurflugvelli allt suður til Grindavíkur, og síðan að fyrirhúgað væri að herinn teygði umráðasvæði sitt lengra inn eftir nesinu. Svæðið milli Grindavíkur og flugvallarins hefur bandaríski herinn haít til umráða síðan í fyrrasumar og það er nú einnig komið á daginn að umráðasvæði hersins sé teygt inn eftir skaganum.
Síðasta afrek Guðmundar Í. Guðmundssonar við að leggja lönd Suðurnesjamanna undir bandaríska herinn er það að afhenda hernum beitiland Vatnsleysustrandarbúa frá Grindavíkurvegi að vestan allt austur hjá Keili. Að norðan eru takmörkin skammt ofan við Vatnsleysustrandarbyggðina, að sunnan lína frá Skógfellinu austur með Fagradalsfjalli til Keilis.
Eins og skýrt er frá annarsstaðar í blaðinu er bandarískiherinn nýbúinn að afmarka bannsvæði á landi Vogamanna og hefur m.a. tekið skógræktarsvæði Suðurnesjamanna undir skotæfingar sínar.
En það var ekki aðeins að bandaríski herinn tæki skógræktarsvæðið heldur raðaði hann bannmerkjum sínum allt frá Stapanum og skammt fyrir ofan byggðina inn móts við vitann í Ásláksstaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni. Til suðurs frá Stapanum var bannmerkjunum raðað fast við Grindavíkurveginn allt suður hjá Arnarsetri.

Guðmundur Í. í landvinningahug
VogaheiðiAð liðnum uppstigningardegi skrapp fréttam. Nýja tímans á fund Suðurnesjamanna til að kynna sér landvinninga Guðmundar Í. Guðmundssonar og bandaríska hersins. Jú, Vatnsleysustrandarbúar sáu það frá húsum sínum að komin voru merki nokkuð fyrir ofan sem bönnuðu þeim að stíga fæti sínum ofan við vissa línu.
Fyrir um það bil mánuði lét Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður og alþingismaður einn starfsmann embættis síns spyrja Vatnsleysustrandarbúa um landamerki og hreppamörk. Hvers vegna var Guðmundi Í. allt í einu orðið svona annt um landamerki? Jú, elsku Kaninn þurfti að fá meira land undir skotæfingar. Og Guðmundur Í. var þjónustusamlegast reiðubúinn að heimta meira land af Suðurnesjamönnum handa bandaríska hernum. Það var hersir.s að skipa — Suðurnesjamanna að hlýða.
Forsvarsmönnum Vatnsleysustrandarbúa var tjáð að land það sem bandaríski herinn hefði nú litið girndarauga væri í línu frá Litla-Skógfelli (sem er á leiðinni til Grindavíkur) til Keilis og frá suðausturenda Stapans einnig til Keilis. Var Vatnsleysustrandarbúum boðið að tilnefna fulltrúa sinn við landaafsal þetta og skyldi hann sitja í gerðardómi til að meta leigu fyrir landið.

Vilja ekki afsala landi
VogaheiðiÞegar landeigendur á Vatnsleysuströndinni ræddu þetta mál kom strax fram það sjónarmið að neita þessari landakröfu. Völdu þeir sem málsvara sinn mann af Vatnsleysuströndinni, sem nú er búsettur í Rvík. Hann neitaði hinsvegar að eiga þátt að landaafsali þessu og setjast í slíkan gerðardóm.
Til að byrja með var Vatnsleysustrandarbúum tjáð að elsku Kaninn þurfi land þetta ekki nema haust og vor, 6 vikna tíma á vorin, jafnlengi á haustin. Þyrftu bændur að smala búsmala sínum brott, — og reka hann hvert?!

Herinn setur upp bannmerki
Fyrir fáum dögum kom svo bandaríski herinn á vettvang og raðaði upp bannmerkjum sem á var letrað: ?
Bannmerki þessi setti hann upp frá útvarpsstöðinni sinni alræmdu á Stapanum og fast með Grindavíkurveginum suður móts við Arnarsetur, skammt frá í Stóra-Skógfelli, en línan þaðan til Keilis liggur fast við norðurhlíð Fagradalsfjallsins.

Beitilandið tekið

Vogaheiði

Sprengja í Vogaheiði.

Samskonar merki setti herinn upp fast við Keflavíkurveginn fyrir ofan gamla herspítalagrunninn austast á Stapanum. En frá austurenda Stapans var merkjalínan ekki í stefnu á Keili, eins og upphaflega hafði verið látið í veðri vaka, heldur þvert á móti inn ströndina í átt til Hafnarfjarðar, skammt fyrir ofan Vatnsleysustrandarbyggðina — innsta merkið. sem frá veginum sást ofan við Ásláksstaðahverfi. Hvað langt inn eftir ströndinni að fyrirhugað er að herinn teygi sig hefur enn ekki verið uppskátt látið.

Skrýtinn feluleikur

Vogaheiði

Landhelgisgæslan og Varnarliðið í sprengjuleit (VF 12. október 2004).

Þegar fréttamaður Nýja tímans leit þarna suður eftir í fyrradag voru öll bannmerkin þar sem þau höfðu upphaflega verið sett af herraþjóðinni, og eru meðfylgjandi myndir sýnishorn af þeim. Síðan skrapp fróttamaðurinn til Grindavíkur, en þegar hann kom til baka eftir skamma viðdvöl í Grindavík höfðu merkin, er áður stóðu fast við veginn til Grindavíkur, verið færð nokkurn spöl austur í hraunið.

Vogaheiði

Sprengja úr Vogaheiði.

Aðeins eitt merki stóð enn uppi, var það rétt við veginn austan við Seltjörnina, þ.e. í lægðinni milíi hraunsins og Stapans. En um sama leyti komu þar Bandarikjamenn í bíl, hljóp einn þeirra út úr bílnum, réðist á merkið og fleygði því niður fór svo inn í bílinn aftur!
— Hin merkin höfðu verið flutt þangað sem þau voru ekki eins áberandi frá veginum! Þar á ekki að slaka til.
Merkin sem áður voru uppi á Stapanum höfðu einnig verið felld, en þótt merkin við Grindavíkurveginn hefðu verið færð, þá var bannmerkjalínan inn ströndina ófærð með öllu. Þar virtist ekki ætlunin að hopa hið minnsta. Guðmundur Í. Guðmundsson Bandaríkjafógeti virðist ekki geta hugsað sér að færa það bannsvæði hóti fjær byggðinni.

Verða þeir hraktir brott?

Vogaheiði

Yfir átta hundruð sprengjur hafa fundist við leit á fyrrverandi skotæfingasvæði bandaríska hersins á Vogaheiði á Reykjanesi í sumar og fyrrasumar (Mbl. 10.08.2004).

Vatnsleysustrandarbúar tóku sauðfé aftur á sl. hausti. Auk þess eiga þeir hross og kýr.
Landið sem Guðmundur Í. og bandaríski herinn hafa nú gert að bannsvæði fyrir þá er beitilandið fyrir búsmalann. Auðvitað tekur enginn mark á því að herinn noti ekki landið nema nokkrar vikur haust og vor. En segjum að svo væri. Hvar eiga bændurnir að geyma búsmala sinn á meðan herinn rótar upp beitilandinu með byssum sínum?
Hver vill eiga búfé sitt á skotæfingasvæði hers? Og hver vill smala skotæfingasvæði (þótt herinn heiti því að skjóta ekki rétt á meðan)?
Allt fram á þennan dag hafa verið að finnast ósprungnar sprengjur frá skotæfingum er fram fóru á stríðsárunum, og oft hafa hlotizt af þeim slys. Á sú saga nú að endurtaka sig? Með því að taka beitiland Vatnsleysustrandarbúa undir skotæfingar hersins, gera það að bannsvæði fyrir bændunum sem þarna búa er ekki annað sýnilegt en ætlunin sé að hrekja þá á brott af jörðum sínum; — en um þetta verður meira rætt síðar.”

Heimild:
-Nýi tíminn, 19. tbl. 21.05.1953, Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn, bls. 2 og 11.

Vogaheiði

Frétt í Nýja Tímanum 21.05.1953.

Vogar

Í bókinni “Strönd og Vogar” fjallar  Árni Óla m.a. um “Karlshól” í Vogum. Hóllinn er nú horfinn þrátt fyrir að hafa verið talinn álagablettur fyrrum:

Vogar

Karlshóll – loftmynd 1999 t.v..

“Karlshóll heitir í túninu á Norðurkoti í Vogum. Þetta er hraunhóll, en mjög gróinn og er talið, að þar muni vera bústaður huldufólks. Þau álög hvíla á hólnum, að hann má ekki slá, og hafa menn forðazt það. Ekki er vitað hvað við liggur, ef hóllinn er sleginn. En komið hefir það fyrir, hvað eftir annað, ef slegið var hærra í hólinn en vant var, að einhver ótjálga kom í kýrnar í Norðurkoti eða þá að þeim hlekktist eitthvað á.
Hefir það skeð í minnum þeirra manna, er enn em á lífi. En mörg ár em nú síðan svo hátt hefir verið slegið í hólinn, að það hafi getað valdið óhappi.”

Í Dagblaðinu-Vísi árið 2006 er fjallað um “Álfavandræði í Vogum”:

Vogar

Vogar – heimili eldri borgara 2020.

“Sveitarstjórn Voga á Vatnsleysuströnd leitaði nýlega til Erlu Stefánsdóttur álfasérfræðings og bað hana að koma og leysa vandamál í tengslum við byggingu fyrir eldri borgara. Á byggingarreit við Vogagerði, þar sem Búmenn ætla að reisa svokallað Stórheimili fyrir eldri borgara, stendur álfhóll. Sveitarstjórninni var umhugað um að styggja ekki álfana vegna framkvæmdanna við byggingu hússins og því var Erla fengin til að ræða við álfana og bjarga málinu.

Erla Stefánsdóttir

Erla Stefánsdóttir.

„Það er ekkert merkilegt við þetta,” segir Erla. „Ég er oft fengin til að leysa svipuð vandamál víða um land.” Að sögn Erlu fór hún einfaldlega með þuluna gömlu úr þjóðsögunum: „Fari þeir sem fara vilja og veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu…” Auk þess að biðja bæn.
Aðspurð um hvort hún hafi séð álfa á þessum umrædda bletti segir Erla svo vera og að þeir séu í raun lítt frábrugðnir fólki. Og klæðnaður þeirra hefur einnig fylgt tíðarandanum, margir þeirra hafi skipt vaðmálsbuxum út fyrir gallabuxur svo dæmi sé tekið.
Á vefsíðu sveitárfélagsins er greint frá þessu máli og undanfara þess en nokkrir íbúar sveitarfélagsins lýstu yfir áhyggjum sínum vegna röskunar á þessum forna álagabletti sem varðveittur hefur verið í margar kynslóðir. „Allt fram til dagsins í dag hafa verið til óskrifaðar reglur um það að háreisti barna og hvers konar rask sé ekki viðhaft á hólnum. Til eru sögur sem segja frá samskiptum íbúa hólsins við aðra Vogabúa, aðallega þó um hrakfarir þeirra síðarnefndu eftir að hafa átt við hólinn. Fleiri álagabletti er að finna í sveitarfélaginu Vogum og er Karlshóll sem stendur við Hafnargötu gott dæmi um farsælt sambýli álfa og manna,” segir meðal annars á vefsíðunni.
Róbert RagnarssonÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar í vor var ákveðið að kalla á Erlu til að ræða við íbúa hólsins um þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum. Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, kom Erla og ræddi við íbúana. „Álfarnir fullvissuðu Erlu um að þeir væru sáttir við það að á þessum stað yrði reist Stórheimili þar sem eldri borgarar í Sveitarfélaginu Vogum geta átt notalegt heimili með glæsilegu útsýni yfir Faxaflóann. Hólsins verður eflaust saknað en álfarnir hafa nú fundið sér annan samastað, en vildu ekki gefa hann upp.” Segir á vefsíðunni.
Róbert Ragnarsson sveitarstjóri í Vogum segir að Erla hafi verið kölluð til sem sérfræðingur og að hún hafi fengið greitt í samræmi við það.
„Þetta var þó ekki há upphæð,” segir Róbert. „Raunar ein hagstæðasta ráðgjöf sem við höfum keypt.””

Heimildir:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961, bls. 268.
-Dagblaðið-Vísir, 106. tbl. 30.06.2006, Álfavandræði í Vogum, bls. 70.

Vogar

Vogar – loftmynd frá 1954 sett yfir loftmynd frá 2020.

Hlöðunesrétt

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt vígð árið 1956.

“Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd “Hlöðunesrétt” og “Strandarrétt”.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.
Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt 1982.

Réttin var síðan hlaðin úr sandsteini og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.”

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Grænuborgarrétt

Þegar FERLIR reyndi að leita upplýsinga um fjárrétt undir Stapanum kom upp “Brekkurétt“. Ljóst er að réttin var þarna, neðan við Stapabúð og að sú búð lagðist í eyði á undan Brekkubænum þar skammt austar. Réttarinnar er hvorki getið í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga né í umfjöllun Sunnudagsblaðs Tímans 1964 um helstu minjastaði vestan Voga. Þar segir: “Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930, en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma. Kerlingabúðir voru nokkru utar.”

Stapabúð

Stapabúð. Þarna sést “Brekkurétt” á sjávarkampinum neðan við matjurtargarðinn norðan við húsin.

Það liðu því 34 ár á millum ábúnaðar Stapabúðar og Brekku, þ.e. eftir að Stapabúð fór í eyði. Í hugum Vogabúa þess tíma var Brekkuréttinn undir Stapanum neðan við fyrrum Stapabúð. Réttin sú gæti upphaflega heitið “Stapabúðarétt”, en hennar er hvergi getið í heimildum. Þó má sjá hana á ljósmynd frá Stapabúð fyrir árið 1896. “Brekkuréttar” er ekki getið í “Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.”

Brekkurétt

Í “Brekkurétt”.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga er, sem fyrr sagði, ekki getið um “Brekkuréttir, en hann getur þar um Vogaréttir: “Upp af Heljarstíg, vestanvert við Kvennagönguskarð, eru Háhólar. Vestast undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef, út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingarbúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar. Framundan eru svo Kerlingarbúðarvarir, voru þær allgóðar lendingar. Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð, stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því en Stapabúðarvarir voru þar framundan. Þá er Sandvík og Sandvíksvör, var þar allgóð lending.

Brekka

Brekka undir Stapa 1928. Stapabúð, innar, í eyði.

Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir. Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör. Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör.

Vogaréttin

Vogarétt – loftmynd 1954.

Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu. Stakksfjörður heitir fjörðurinn milli Brunnastaðatanga og Hólmsbergs. Inn úr honum liggja Vogarnir milli Eyrartanga að utan og Kvíguvogastapa að sunnan. Aðalbýli Voganna eru Stóru-Vogar en upprunalegasta nafnið mun vera Kvíguvogar. Úr Stóru-Voga landi byggjast síðan Minni-Vogar. Síðar byggðust svo hjáleigur og báru ýmiskonar nöfn. Vestast voru Stapakot, Brekka og Hólmur sem áður eru nefndar. Þessar hjáleigur eru víða nefndar… Þá munu Snorrastaðir hafa verið ein hjáleigan en talið er að þeir hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld en þá voru uppi miklir eldar á Reykjanesi.

Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur. Innan við, þar nokkru sunnar, eru vegamót Almenningsvegarins, Gamla- og Skógfellavegar eða Grindavíkurvegar. Hvergi er þarna getið um Brekkurétt.

Voagrétt

Vogarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í “Deiliskráningu fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd (Fornleifastofnun Íslands 2014) segir m.a. um Vogaréttina: “Vogaréttir heimild um rétt 63°58.369N 22°23.552V. Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar.
Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni á núverandi lóð Stofnfisks.

Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina. Farið var aftur á vettvang veturinn 2014 þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá var staðurinn skoðaður þar sem réttin var. Engin ummerki sjást um réttina vegna bygginga og annarra mannvirkja í tengslum við starfsemi Stofnfisks.”

Vogarétt

Kristjánstangi – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).  Fyrrum rétt eða fjárborg?

Enn ein réttin á þessu svæði var á Kristjánstanga. Hennar er getið í Fornleifaskráningu fornleifa í Vogavík á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014. Þar segir m.a.: “Eftir að vettvangsvinnu við aðalskráningu lauk árið 2008 benti Viktor Guðmundsson, heimildamaður, skráningarmönnum á hringlaga hleðslu í fjörunni á Kristjánstanga auk fleiri hleðslna sem eru að koma undan sjávarbakkanum. Hleðslurnar eru um 785 m suðvestan við Stóru-Voga. 2014: Farið var aftur á vettvang þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá voru þessar minjar skoðaðar á vettvangi.
Minjarnar eru á grýttu svæði í fjörunni sunnan við flatar og sléttar klappir. Sjór gengur yfir svæðið og brýtur stöðugt af sjávarbakkanum.
Viktor Guðmundsson gaf eftirfarandi upplýsingar um minjarnar: Hringlaga hleðslan er um 11 m í þvermál, grjóthlaðin. Veggir hennar eru um 1,4 m á þykkt. Rétt austan við þessa hleðslu eru aðrar hleðslur að koma undan bakkanum og fast við þær hleðslur hefur hugsanlega verið vör. Landbrot hefur verið þarna undanfarin ár og gætu þessar hleðslur eyðilagst á skömmum tíma.

Kristjánstangi

Hleðslur í fjöruborðinu á Kristjánstanga.

Ekki er ljóst hvers konar mannvirki/mannvirkjum þessar hleðslur hafa tilheyrt en líklegt er að þau hafi tengst útgerð og fiskverkun. Hlutverk hringhleðslunnar er einnig óútskýrt. Ef til vill hefur hún líka verið í tengslum við útgerð en það kann að vera að þetta séu leifar af stæðilegri fjárborg. Ekki er þá ólíklegt að eftir að hún féll úr notkun hafi grjótið úr henni sem ekki var gróið við svörðinn verið endurnýtt í hleðslur. Það grjót sem skilið var eftir hefur nú komið í ljós þegar sjórinn hefur hreinsað allan jarðveg ofan af því. Stórhætta er vegna landsbrots.

Og þá að Grænuborgarréttinni. Í Örnefnalýsingu GS fyrir Stóru-Voga segir m.a.: “Austur af Búðarvör taka við Minni-Vogafjörur, Ytri- sem ná að Grænuborgartöngum. Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við kampinn, Grænuborgarstígur, allt heim í Vesturhlið á Grænuborgartúngarði sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á bæjarhólnum en í suðurtúninu er klapparhóll sem heitir Latur. Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. Sjávargatan liggur heiman að niður á kampinn en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. Á kampinum er Sjávarbyrgið eða Grænuborgarbyrgi. Grænuborgarós liggur vestan Grænuborgartanga og fram af ósnum eru Ósskerin. Í tanganum er Grænuborgarlón. Hnallsker er hérna fram af og Manndrápssker, er líklegt að þar hafi orðið mannskaði þó þar um sé engin sögn.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Frá Grænuborgarvör liggja Austurkotsfjörur allt út undir Djúpaós. Þar taka við Minni-Vogafjörur, Eystri- allt að Syðrirás. Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af eru Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör. Austan við hólmana sem Vatnsskersbúðir eru á er svo Innrirás og skerst hún nokkru lengra inn í landið en Syðrirás. Frá Grænuborgarvör og allt inn að Syðrirás var á sjávarkampinum sjóvarnargarður. Var hans oft ærin þörf því í háflæðum rann sjórinn inn yfir Austurtúnið og var þá ekki lítið verk að hreinsa allt grjót og þara af túninu. Þar sem sjóvarnargarðurinn og suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshliðið, eystra. Ofan eða sunnan suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún vorrétt þeirra Vogamanna. Spölkorn sunnar lá Almannavegurinn, Gamli- og þó hann sé nú ekki farinn sést hans glögg merki. Vestasti hluti Vatnsleysustrandarheiðar sem er í Stóru-Voga landi nefnist Vogaheiði”.
Ólíklegt er að “Grænaborgarréttin” hafi verið vorrétt Vogamanna, líkt og að framan segir. “Réttin” ber þess öll merki að hafa verið heimastekkur þar sem fært var frá eftir að selstöður í heiðinni lögðust af.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Í Fornleifaskráningu í landi Minni-Voga og Austurkots (Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11) segir: “Grænuborgarrétt hleðsla rétt 63°59.401N 22°23.077V – Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.” segir í örnefnaskrá. Réttin er um 70 m norðvestur af vörðu. Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum.
Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 mað utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Hættumat: hætta, vegna framkvæmda.”

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 2022.

Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd er hvergi getið í heimildum. Hún sést þó vel á loftmynd frá árinu 1954. Í “Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrslu III (Fornleifastofnun Íslands 2006)” er getið um fornleifar í Brunnastaðahverfi, en réttin sú kemur þar hvergi við sögu. Út frá loftmyndinni frá 1954 ná staðsetja réttina og við athugun Ferlirs á vettvangi mátti glögglega slá leifar hennar, sbr. meðfylgjandi drónamynd.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Af framangreindu má sjá að hvorki er hægt að treysta á Örnefnalýsingar né fornleifaskráningar þegar fornleifar eru annars vegar. Jafnan eru þær síðarnefndu byggðar á þeim fyrrnefndu, en þess minni áhersla jafnan lögð á að leita uppi minjar að fenginni reynslu á fæti hverju sinni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga.
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.
-Fornleifaskráning í landi Minni-Voga og Austurkots, Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11.
-Deiliskráning fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014.
-Aðalfornleifaskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt – fyrr og nú.

Bieringstangi

Árni Óla fjallar um “Tanga-Hvíting” í bók sinni “Strönd og Vogar“:

Strönd og Vogar“Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga”. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.

Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.

BieringstangiOrustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:

„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.”

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Suðurkot

Í “Strönd og Vogar” getur Árni Óla um “Álagablett” við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:

Brunnastaðahverfi

“Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.

Þerrir

Þerrir.

Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.” — (B. H.)

Brunnastaðir

Brunnastaðahverfi.

Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: “Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni”.

Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: “Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll”.

 Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: “Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll”, Þerrishóllinn.

Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Bieringstangi

Árni Óla skrifaði bókina “Strönd og Vogar” 1961. Í bókinni fjallar Árni m.a. um “Bieringstanga” og nágrenni hans á Vatnsleysuströnd:

“Hann [Bieringstangi] er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, og mun þar hafa verið útræði afar lengi. Vörin þar var hin stærsta á Ströndinni og hlaðnir kampar beggja vegna við hana fram í sjó. Var norðurkampurinn meiri og mátti lenda við hann bátum til uppskipunar.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Sumarið 1844 giftust þau Þórunn Hallgrímsdóttir, systir Egils í Minni-Vogum, og Andrés Gottfred Pétursson, og voru gefin saman af séra Sveinbimi Hallgrímssyni, er þá var aðstoðarprestur að Kálfatjörn. Segir hann í kirkjubókinni um brúðguðmann, að hann sé „fisktökumaður á Tangabúðum hjá Brunnastöðum”.
Þá hafa verið komin þar salthús og fisktökuhús. Seinna fékk þessi útgerðarstöð nafnið Bieringstangi og var kennd við Móritz W. Biering, er seinast var kaupmaður í Reykjavík og drukknaði á skipi sínu undan Mýrum í nóvember 1857. Hann var fyrst verzlunarstjóri Flensborgarverzlunar í Keflavík 1837—1842. Er því líklegast, að sú verzlun hafi látið reisa salthúsin tvö, sem á Tanganum voru. Þau voru smíðuð úr 1 3/4 þml. borðum með síum milli samskeyta, og var það gamalt byggingarlag. Á loftum þeirra voru verbúðir. Nú var það málvenja að kenna verzlanir við verzlunarstjórana, og hefir Flensborgarverzlunin í Keflavík sennilega verið kölluð „Bieringsverzlun”, meðan hann stýrði henni, og þá eðlilegt að búðirnar drægi nafn af honum.

Bieringstangi

Bieringstangi – áletrun á sjávarklöpp.

Annars var þessi verzlun lögð niður 1842, og varð Biering þá forstjóri Flensborgarverzlunar í Reykjavík og keypti hana 1850. Mun hann þá enn hafa rekið útgerðarstöðina á Tanganum, og má því vera, að hann hafi ekki verið kallaður Bieringstangi fyrr en Biering eignaðist verzlunina. Umhverfis þessa stöð risu svo upp tómthúsmannabýlin Vorhús, Hausthús, Töðugerði og Grund. Þarna var gert út fram um seinustu aldamót. Seinasti útgerðarmaður á þessum stað var Magnús Torfason, kallaður „dent“, ættaður frá Naustakoti. Hann svaf sjálfur uppi á lofti í annarri búðinni, en sjómenn hans á lofti hinnar búðarinnar. Magnús var snyrtimenni mikið og kunnur framreiðslumaður í veizlum í Reykjavík. Hann reri aldrei sjálfur. Seinasti formaður hans var Hallgrímur, sonur Andrésar Gottfreds Péturssonar. Þarna var og önnur útgerðarstöð, sem nefnd var Klapparholt. Var vör hennar skammt fyrir vestan Tangavörina. Þar gengu jafnan 4-5 skip. Þar gerði Þórður Guðmundsson á Hálsi út og hafði umsjón með salthúsi, er þar var.
Ég lét nú í ljós, að mig langaði til þess að skoða Bieringstanga. Þeir bræður, Árni hreppstjóri og Egill kennari, kváðu velkomið að fylgja mér þangað.
Bieringstangi
Við gengum svo fyrst niður að vörinni, sem Egill gamli Hallgrímsson, afi þeirra, hafði látið ryðja, og hlaðið öfluga grjótgarða beggja vegna langt út í sjó til að skýla henni. Þarna í vörinni höfðu þeir haft uppsátur báta sinna feðgarnir, hann og Klemens, og síðar þeir Klemens og Hallgrímur mágur hans. Fyrir ofan á sjávarkambinum áttu þeir sína sjóbúðina hvor og var nokkurt bil á milli þeirra. En þar höfðu þeir gert öflugan skjólvegg, svo að milli búðanna mynduðust skjólkvíar, sem voru ágætt athafnasvæði. Á sjávarkambinum höfðu þeir gert fiskreita, og þar var einnig lifrarbræðsluhús. Nú er þetta allt horfið, nema vörin og grunnar húsanna.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Við höldum svo inn með sjónum, fram hjá Grænuborg og inn á Bieringstanga. Er það alllöng leið, enda er þá komið inn í Brunnastaðahverfi. Landslag er þama breytilegt, hraunhólar og klappir með grónum dældum á milli og mýrarsundum sums staðar. Að vestanverðu á tanganum hefir stöðin verið. Sér þar enn steyptan botn úr salthúsi og móta fyrir grunni annars húss, og sums staðar eru leifar af grjótbyrgjum, þar sem fiskur var saltaður. Byrgi þessi voru ekki stór, hlaðin tóft úr tómu grjóti allhá, og síðan flatreft yfir. Niðri á sjávarkambinum voru fiskreitarnir, en þeirra sér nú ekki stað, nema hvað grjótið er þar, og hefir sjórinn brotið það upp og hlaðið því allavega.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt frá stöðinni eru rústir býlanna Vorhúsa, Hvamms, Hausthúsa og Klapparholts, og umhverfis þau ræktaðir túnblettir. Þarna var byggð nokkuð fram á þessa öld, en nú er allt komið í eyði. Einhver einkennileg kennd grípur mann, þegar reikað er um þennan grýtta sjávartanga, þar sem einu sinni var fjörugt athafnalíf, en nú ekki annað en vesalar rústir. Þessi staður er eitt af talandi táknum breyttra atvinnuhátta og að nú er komin ný öld.
Við fórum aðra leið til baka, gengum upp á gamla veginn, sem var þjóðbraut frá landnámstíð og fram til 1912, þegar akvegurinn kom í stað hennar. Frost og regn, snjór og leysingar hafa farið ómjúkum höndum um gamla veginn, svo að varla sést móta fyrir honum. Og þó eru enn uppi menn, sem muna það, þegar stórar skreiðarlestir þræddu þennan veg dag eftir dag. Svo skammt er milli gamla tímans og nýja tímans, — og gamli vegurinn hvarf með gamla tímanum.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Fleiri útróðrastöðvar voru þarna, svo sem Kristjánstangi. Þar var saltgeymsla, en ekki fisktaka. Í Eyrarkoti, sem var niðri við sjóinn fram af Vogum, voru einnig viðleguskip. Í Minni-Vogum hóf Geir Zoega farsælan útgerðarferil sinn.
Mælt er, að bændum þar syðra hafi þótt orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér um 1876, er svo margir „útlendingar“ höfðust þar við á vertíðinni. Segir sagan, að bændur á Strönd, Vogum og Njarðvíkum hafi þá tekið sig saman um að leigja ekki uppsátur og upp úr því hefði svo Reykvíkingar og Seltirningar flutt sig suður í Leiru og Garð. Þessu ber vel saman við skrárnar um spítalafiskinn, því að þá fækkar aðkomubátum þarna óðfluga. Árið 1879 eru þar ekki taldir nema 10 „útlendingar“ og árið 1880 eru þeir aðeins sex.”

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Hólmabúðir og Bieringstangi, 1961, bls. 168-173.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.

Kálfatjörn

Hér verður fjallað um hverfin í “Vatnsleysustrandarhreppi“.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka ber það með fyrirvara.

Landakot

Landakot

Landakot.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Landakot í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um Landakot árið 1703: “Landakot hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki fyrirsvar, nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir”.
Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í skýrslunni um Landakot kom m.a. fram að: “Selstade fölger Jorden som Aarlig Forbruges, Men Græsgang Gandske lidet andet end som haves udi berörte Selstade, Hvoraf flyder Huusse og Höe Torve Mangel” …
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Landakot hafi verið seld þann 13. júní 1838.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Landakot: “… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða”. …

Landakot

Landakot – loftmynd.

Landamerkjabréf Landakots var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar:
Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi:
1. Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum, beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir markasteinum og gömlu garðarlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilisalla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landakot
2. Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: fyrir neðan flæðarmál: “Markaós, sem er austasti ósinn; er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu, þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi”. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum Auðnahverfis og eiganda hálfra Þórustaða.
Í kaflanum um Landakot í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: “að sunnan ræður landamerki Auðnalands. Að norðan í 2 flúðir í fjöru sem nefnast markaflúðir, þaðan uppeftir grjótgarði milli Þórustaða og Landakots, þaðan sjónhending eftir vörðum upp heiðina alt til fjalls.”
Á öðrum stað í sama riti kemur fram að bærinn Tíðagerði, sem er í eigu eiganda Landakots, deili heiðarlandi og hagbeit með þeirri jörð.

Þórustaðir

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd. Kálfatjörn fjær.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Þórustaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu Þórustaðir selstöðu á Fornuselshæðum í landi Kálfatjarnar: “Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu”.
Þórustöðum fylgdu hjáleigurnar; Norðurhjáleiga og Suðurhjáleiga.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í matsgerðinni um Þórustaði stendur m.a.: “Selstade Fölger Jorden som Aarligen Forbruges, men anden Græsgang er meget liden”…
Þann 19. apríl 1837 hvarf jörðin Þórustaðir úr eigu konungs.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Þórustaði: “… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða”.

Landamerkjabréf Þórustaða var undirritað 27. maí 1886. Bréfið var þinglesið 15. júní 1886. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: Þórustöðum tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Kálfatjarnar – kirkjueignar að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu.

Þórustaðir

Þórustaðafjara.

Landamerkin eru þessi:
1. Milli Kálfatjarnar að norðanverðu og Þórustaða að sunnanverðu: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, er tilheyrir báðum jörðunum, að helmingi hvorri; þaðan eptir svonefndum Merkjagarði, er liggur sunnanvert við tún kirkjuhjáleigunnar Goðhóla, en norðanvert við móa þann, sem kallaður er Vatnagarður og tilheyrir Þórustöðum; þaðan í hólinn Þórustaðaborg, sem er hæsti hóllinn af hólum þeim, er standa norðanvert við gamalt stekkjartún, sem nefnt er Þórustaðaborg eptir hólnum. Þaðan í hólinn Stóra – Lynghól miðjan; þaðan í Sýrholt; þaðan í Hrafnafell, sem er lítið fell fyrir norðan Keilir; þaðan beina stefnu alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi, eptir sjónhendingu úr Hrafnafelli í hæsta hnjúkinn á Grænavatnsengjum.
2. Milli Landakots að sunnanverðu og Þórustaða að norðanverðu eru landamerki þessi: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum, nefnilega að helmingi hvorri; þaðan um svonefndar Markaflúðir beina stefnu í brunninn Djúpugröf; (þaðan eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnarvert við rætur Keilis alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eiganda Landakots sem líka var eigandi hálfra Þórustaða. Einnig er skrifað uppá landamerkjabréfið af sóknarpresti fyrir hönd Kálfatjarnarkirkju. Prestur tekur fram að hann samþykki landamerkjabréfið að því leyti sem það er samhljóða landamerkjalýsingu Kálfatjarnarkirkju sem var þinglesin 1885.
Í kaflanum um Þórustaði í Fasteignamati 1916 – 1918 kemur fram að jörðin sé að hálfu í eigu eiganda Landakots. Í sama riti kemur einnig fram að jörðin Hellukot deili heiðarlandi og hagbeit við Þórustaði.
Í fasteignamati því sem staðfest var árið 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Þórustaðahverfi: Norðurkot, Þórustaðir, Hellukot. Að sögn ábúanda í Norðurkoti er landamerkjalýsing sé ekki til. Í skýrslunni er einnig minnst á býlið Tíðagerði.
Samkvæmt ábúanda á Þórustöðum er beitiland víðlent.
Í svörum ábúanda á Hellukoti kemur fram að beitilandið sé líkt og það sem Þórustaðir hafa. Hann greinir einnig frá því að landamerki jarðarinnar sé þau sömu og Þórustaða.
Þann 21. maí 1999 var land Þórustaða ofan Vatnsleysustrandarvegar selt Hitaveitu Suðurnesja 21. maí 1999. Jörðin er að öðru leyti í einkaeign.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Í kirknaskrá frá því um 1200 kemur fram að kirkja er á Kálfatjörn.
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn aa allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi.” …

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: “Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk” ….
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var Kálfatjörn vísiteruð: “Peturskyrckia ad Kalfatiórn a heimaland allt mz gógnum og giædum, epter þeim mäldaga sem vænst er ad sie ä dömkyrckiunni og Bessastodum Hun ä Backaland og fleckiuvÿk. … vænist bpinn M. Brynjolfur Ss suornum landamerkium i millum Kalfatiarnar og Skalholltsstadar dömkyrckiu sem vitni umm bera og afhenda vilia enn nu i dag mz suornum eidum, uppä hinar fyrri, og lógfestir Bp allt ad fyrr suordum takmarkum, lysandi öheimilld ä þvÿ aullu sem þadan mä flutt verid hafa og hann mä sauk [a] gefa h. Skalhollts kkiu vegna. … fyrrnefnd fleckuvÿk ä allann þridjung i Vatsleysu jórd (epter brefinu ohandskrifudu sem liggur a kyrckunni og visitatiubok h. Gÿsla J.s.) i rekum skögi og hagabeit, frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim, er geingur ofan vr hrauninu og framm ad sjö, fyrer Innan Akurgierdi, … Seigir fyrrnefnd visitatiu bök, Fleckuvÿk eigi allann þridjung i Vatsleisu Jordu, er liggur i Kalfatiarnarkkiu sókn, i rekum skögi hagabeit frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim er geingur ofan ür hrauninu og framm ad siö fyrer Innan Akurgierdi…. Actum Kalfatiórn Anno 1642 Die ut supra”. (Undir þetta rita Ámundi Ormsson, Sumarliði Jónsson, Pétur Gissursson og Einar Oddsson).
Kálfatjörn
Þrjátíu og sex árum síðar stóð Þórður Þorláksson biskup í Skálholti fyrir vísitasíu á Kálfatjörn. Í vísitasiunni, sem fór fram 20. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: “visiterud Peturs kyrkia ad Kalfatiorn hun a efter maldaga heimaland allt med gognum og giædum Backa land og fleckuvÿk … firr nefnd fleckuvÿk a allann þridiung i Vatnzleisu jórdu i rekum skogie og hagabeit fra nÿugórdum og inn ad gardi þeim er geingur ofann ur hrauninu og framm ad siö fyrir innann Akurgierdj, Borgar Kot nu leigt fyrer iiij vættir er ei innfært i firri maldaga enn þo kyrkiunnar eign efter undirrietting Sr. Sigurdar Eyolfssonar”. (Undir þetta rita Sigurður Eyjólfsson, Einar Einarsson, Árni Gíslason, Bjarni Jónsson og Bjarni Sigurðsson).
Móakot
Kálfatjörn var tekin til mats árið 1703 skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Henni fylgdu hjáleigurnar; Naustakot, Móakot, Flóakot, Hólakot, Hátún, Árnahús og Borgarkot.
Í Jarðabókinni er eftirtektarverð umsögn um selstöður Kálfatjarnar: “Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði, þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja”.
Sömuleiðis segir um kirkjujörðina Bakka, sem síðar varð tómthús frá Kálfatjörn: “Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi”.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Kálfatjörn vísiteruð þann 10. ágúst 1703. Skýrslan sem unnin var í þessari eftirlitsferð er mjög svipuð þeirri sem var samin í kjölfar vísitasíunar 1678: “hun ä heimaland allt med gögnum og gïædum Backaland, og Fleckuvïk, allann reka mille Hraunsnefz og Rängagiógurs / afast vid Krisevïkur reka, reka mïllum Markskletts og nïugarda, kirkian ä efter mäldögum allann þridiung i Watnsleisu Jördu – i rekum sköge og haga, beit frä nÿugördum og inn ad garde þeim Er geingur ofann ür hrauninu og framm ad siö fÿrer innann Akurgerde, Borgarkot nu leigt fÿrer iiij vætter ä kirkian”. (Undir þetta rita Ólafur Pétursson, Benedikt Einarsson, Oddur Árnason, Jón Halldórsson og Árni Gíslason).
Kálfatjörn
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Kálfatjörn þann 7. maí 1724. Fyrsti hluti greinargerðarinnar sem samin var í þessari vísitasíu þar sem eru þau atriði sem skipta helst máli hvað varðar þjóðlendumál, er nánast samhljóða skýrslunni sem útbúin var ír vísitasíunni árið 1703. Hér verður því vísað í hana.
Ólafur Gíslason biskup í Skálholti vísiteraði á Kálfatjörn 17. júní árið 1751. Skýrslan sem samin var vegna vísitasíunnar er svipuð þeirri sem gerð var árið 1703 nema eftirfarandi texti: “Borgar kot sem adur hefur vered leigt fyrer 4 vætter, er nu i eide og hefur leinge leiged, sókum siäfar ägangs, sosem Þyng vitned i kyrkiubókena innfært, liösast hermer”. (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, S. Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson).
Þann 4. júní 1758 var Kálfatjörn vísiteruð af Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi.. Greinargerðin sem útbúin var um þennan atburð er sambærileg þeirri frá 1751.
Þann 28. maí 1790 skrifaði presturinn á Kálfatjörn undir svohljóðandi lögfestu fyrir staðinn: “Ég, Guðmundur Magnússon prestur til Kálfatjarnar, lögfesti hér með sama staðar kirkjuland til lands og vatns, nefnilega reka allan frá Markkletti og inntil Nýjugarða, þaðan og í Arnarvörðu, þaðan og í Flekkuvíkursel, svo og frá áðurnefndum Nýjugörðum þriðjung allan í Vatnsleysu jörðu í rekum, skógum og hagabeit, inn að garði þeim sem gengur inn úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði. En á aðra síðu frá Markklett og upp eftir Vatnagarði milli Kálfatjarnar og Þórisstaða, í Þórisstaðaborg, þaðan og í Sýruholt.
Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa, item reka allan millum Hraunsnefs og Rangagjögurs áfast við Krísivíkurreka.
Þ

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

etta allt undir sömu skilmálum með réttum lögum fyrirbýð ég einum og sérhverjum að fráteknum kirkjujarðanna Bakka og Flekkuvíkur ábúendum og heimajarðarinnar Kálfatjarnar hjáleigumönnum áðurnefnt Kálfatjarnarkirkju land, hollt og haga, lóð og allar landsnytjar, lyngnám og torfskurð að yrkja, vinna eður sér í nyt færa utan mitt leyfi.
Einnin fyrirbýð ég þessum sem öðrum áðursagðan kirkjunnar reka, hvort heldur í heima- eður Vatnsleysulandi uppdrífa kann, sér að nýta eður skipta án minnar vitundar og leyfis”. … Lögfestan var lesin upp í Kálfatjarnarkirkju á trinitatishátíð [þrenningarhátíð, fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu] sama ár.
Árið 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Kálfatjörn vísiteruð. Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: “Anno 1800 þann 6tta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin ad endadri heilagri þiónustugiörd, Kirkiuna ad Kálfatiörn; hún á heimaland allt med gögnum og giædum, Backaland og Fleckuvík; … hun á og eftir gömlum Máldögum, þridiung í Vatnsleysu jördu, í Rekum Skógi og haga, beit frá Níugördum og inn ad Gardi þeim, sem gengur innann ur Hrauninu og framm ad sió fyrir innann Akurgerdi – it(em) Borgarkot, sem nú er eydilagt af Siáfargángi; – allt þetta enn í dag óátalid”. … (Undir skrifa: Geir Vidalin, G. Magnússon, Olafur Gudmundson, Magnus Gudmundsson, T. Jonsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – örnefni.

Í þeim hluta jarðamatsins frá árinu 1804 sem fjallar um jörðina Kálfatjörn kemur fram að henni fylgja hjáleigurnar: Naustakot, Móakot. Hátún og Fjósakot. Í lýsingu gæða Kálfatjarnar segir m.a.: “Her have Sætter Jorden tilhörende”.
Lagt var mat á Kálfatjarnarprestakall árið 1839: “Jtök eru: allur Reki fyrir heima- og Kirkiujardanna landi; … Reka fyrir mestahluta lands beggia Vatnsleysanna, einninn þridiúngur beitar í sömu landegn, og líka Skógs, sem laungu sídann, er öldúngis eydilagdur; Selstada uppundir Fiöllum í svokölludu Sogaseli”.
Í kaflanum um Kálfatjörn og hjáleigur hennar, Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a.: “Landrymi mikið. … Kyrkjan á þriðjúng alls reka á Stóru og Minni–Vatnsleysu fjörum, einnig hagbeit fyrir geldinga í landi þessara jarða”. …

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg. Trölladyngja fjær.

Árið 1855 var Kálfatjarnarprestakall metið. Í skýrslunni stendur eftirfarandi: Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbrýngusýslu eptir 3 ára medaltali 1851-1853: “… Utheyisslæur eru eingar. Fjöru beit er opt gód fyrir fénad á vetrum, en heidarbeit ordin lakari ad sínu leyti, nema svo lángt í burtu ad ei verdur til nád. …
Kálfatjörn á selstödu í svonefndu Sogaseli og hefur hún í margt ár ekki verid notud, því vegur er þangad svo langur og ógreidur ad ekki væri til vinnandi, nema fyrir svo mikin fénad, sem jördin ber ekki, nema hún fengi því meiri endurbætur. Selstodur eru ad sönnu nedar í heidini en þar fæst ekkert vatn handa fénadinum, þegar þerrar ganga á sumrum”. …

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Enn var Kálfatjarnarprestakall metið árið 1867. Hluti skýrslunnar sem saminn var við þetta tækifæri fer hér á eftir: “Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbringu og Kjósar prófastsdæmi eptir 5 ára meðaltali, frá fardogum 1862 til fardaga 1867. … Selstada fylgir jördinni í svo nefndu Sogaseli, en er vart notandi sakir fjarlægðar og óvegs þangað. … Kirkjujarðir … Eydijördin Bakki … En med því land allt utan túns var óskipt milli þessarar jardar og prestssetursins, hlýtur þad nú ad teljast með landi þess.
2. Tekjur af ískyldum, ítökum og hlynnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum eda ödrum skjölum:
a. Brúkuð af prestinum sjálfum.”
Fjósakot
Samkvæmt máldagabók Gísla biskups Jónssonar á kirkjujördin „Flekkuvík þridjung í Vatnsleysujördu í rekum, skógi, hagbeit”. En þetta hefur ávallt Beneficiarius notad, sem tilheyrandi prestakallinu, … Skógur er nú enginn til í landi kirkjunnar eda Vatnsleysanna, og hagbeit í Vatnsleysulandi er ardlaus, (því þó kind og kind hafi slangrad þangad þá eru hagar heimajardarinnar full nógir og jafnvel betri en Vatnsleysanna). … Athugasemdir … Þessa hjáleigu [Naustakot] lagdi eg undir heimajördina árið 1861; því sjórinn hafdi þá brotid svo land að kotinu ad áhætta var að hafa þar menn lengur, enda var ekki unnt að fá ábúanda ad býlinu sem afl hafdi á að bæta árlegar skemmdir sem hjáleigan beið af sjó; svo var og komið svo mikið undir sjó af túninu að þad var vart fyrir kú. Sídan hefi ég þó ekki getað varið túnið svo að þad hafi ekki horfið í sjó ad mun. …
Landamerkjabréf Kálfatjarnarkirkjueignar var undirritað 9. júní 1884 og þinglesið 15. júní 1885. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: “Kirkjan á heimaland allt með gögnum gæðum til lands og sjávar, Bakkaland, Borgarkotsland (hvorttveggja nú eyðijarðir) og Flekkuvík sömuleiðis með öllum gögnum og gæðum til lands og sjávar. En landamerki eru þessi:
Goðhóll
1. milli Þórustaða og Norðurkots að sunnanverðu og Kálfatjarnar hins vegar: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, þaðan eftir svo nefndum merkjagarði er liggur fyrir túni Kálfatjarnarhjáleigunnar Goðhóla og hinsvegar fyrir túni Norðurkots, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan í Lynghól, þaðan að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi beina stefnu um Sýrholt.
2. Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni – Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri – Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs.” … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli.Landamerkjabréfið var samþykkt af eigendum Stóru – Vatnsleysu, eiganda Minni – Vatnsleysu og eiganda suðurhelmings Þórustaða. Eigandi norðurhelmings Þórustaða og eigandi Ísólfsskála settu einnig nöfn sín undir landamerkjabréfið. Báðir aðilar skýrðu sínar undirskriftir. Sá fyrrnefndi samþykkti landamerkin milli Norðurkots og Kálfatjarnar en hinn samþykkti rekamörk gagnvart Ísólfsskála”.
Móakot
Í fasteignamati 1916 – 1918 er lýsing á landamerkjum og ítökum Kálfatjarnar: “Landamerki: að sunnan Markklettur í sjó, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan beina línu í Línghól, þaðan að landi Krísivíkur, að norðan Keilisnes við sjó, þaðan beina línu í eystri Hafnhól, þaðan í Flekkuvíkurás, Einiberhóll, Kolhóll, þaðan beina stefnu að Krísuvikurlandi. Ennfremur 1/3 hluti í reka, skógi og haga í Vatnsleysujörðum, beit frá Klukku innfyrir Akurgerði. Reki milli Hraunsnefs og Dagón á Ísólfsskálalandi. Selstaða í Sogaseli í Krísivíkurlandi. Rekinn hefur verið leigður fyrir mest Kr. 10,00, en hinar aðrar ínytjar hafa ekki komið jörðinni að neinu gagni”. Í sama riti kemur fram að Kálfatjörn er kirkjujörð og henni fylgja þrjár hjáleigur; Goðhól, Fjósakot og Hátún og tvær erfðafestulóðir; Litlibær og Bakki.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922: “Kálfatjarnartorfunni tilheyrir alt það land er landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur, að undanskildu landi Flekkuvíkur er selt hefur verið undan eigninni; jarðir þær og býli, sem tilheyra eignini eru því nú: „Hlið”, „Litlibær”,, „Bakki”, „Goðhóll”, „Bjarg”, „Hátún”, „Fjósakot”, „Kálfatjörn” og „Móakot“.”

Bakki

Bakki.

Land Kálfatjarnartorfunnar takmarkast því nú á milli Flekkuvíkur að innan – og svo sem landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur –, að Norðurkoti að sunnan. Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884.
1. Hlið, er þurrabýli, sem á lóð að Norðurkotslandi annarsvegar og Goðhóls, á tvo vegu hinnsvegar, ein hlið lóðarinnar er heiðargarður, öll er lóðin afgyrt með grjótgörðum. …
2. Litlibær …
3. Bakki …

Litlibær

Litlibær – brunnur.

4. Goðhóll, á tún að heiðargarði þeim sem er áframhald af heiðargarði Hliðs og Kálfatjarnar og alt til sjáfar og liggur tún Goðhóls því á milli Kálfatjarnartúns að norðan og austan og Norðurkotsvatnagarðs að sunnan og vestan. …
5. Bjarg …
6. Hátún, tún þess liggur til heiðar á tvo vegu og takmarkast tún þess af grjótgörðum er til heiðar snýr að austan og sunnan en að vestan af traðargarði er liggur heim að Kálfatjörn; úr traðargarðinum liggur vírgirðing í norður að túnamörkum Hátúns og Fjósakots og tilheyrir Hátúni og sömuleiðis er vír á milli Hátúns- og Fjósakotstúns. …
7. Fjósakot …

Kálfatjörn

Kálfatjörn, Bakki og Litlibær – loftynd 1954.

8. Kálfatjörn, heimajörðin, hún á tún alt milli heiðargarðs og að sjáfargarði; að austan eru traðir er liggja út að heiðargarði undan suðurhorni grafreitsins, tilheyra þær einsog verið hefur Kálfatjörn einni og eru í mörkum á milli Hátúns að svo mikluleyti, sem það nær með tröðunum, að vestan er garður er liggur frá heiðargarði og alla leið að sjáfargarði hann er merkjagarður milli Goðhóls og Kálfatjarnar, þó bugðóttur sje. Að norðan og norðaustan liggur garður, bugðóttur mjög, alla leið frá sjáfargarði og að Fjósakotstúni, garður sá er í mörkum milli Kálfatjarnar og Móakots. Kálfatjörn á og girðingar þær er garður sá afmarkar er gengur frá þvergarði þeim í girðingunum er afmarkar Móakotspart af girðingunum; en garður sá er áframhald eða því sem næst af norðurtúngarði Móakots og stefnir í suðaustur út að ytri garði girðinganna. Kálfatjörn tilheyrir það sem fyrir norðan þennan garð er. Kálfatjörn tilheyrir einnig innangarðs alt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (nýja) Bjargi og Litlabæ. …
Staðfest af hreppstjóra [sem þá var orðinn umráðamaður Kálfatjarnar vegna Kirkjujarðasjóðs] og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka. Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda eftirfarandi jarða í Kálfatjarnarhverfi: Bakki, Litlibær, Kálfatjörn, Móakot, Fjósakot, Hátún og Goðhóll. Að sögn ábúanda á Bakka er beitarland jarðarinnar víðlent. Það er girt að hluta með vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að landamerki jarðarinnar séu ekki skýr sem stendur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

9. Móakot. Í svörum ábúanda á Litlabæ kemur fram að býlið sé erfðafesta úr Kálfatjörn. Samkvæmt ábúanda á Kálfatjörn er beitiland jarðarinnar nokkuð víðlent. Hann segir einnig að sauðfjárbeit sé til heiðar. Einnig nefnir hann að tún, og nokkuð af beitarlandi sé girt með grjótgörðum og vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að jörðin á 1/3 í reka, skógi og beit í Vatnsleysujörðum. Þessi hlunnindi hafa lítið verið notuð að undanförnu að sögn ábúandans. Hann minnist einnig á að ekki alls fyrir löngu hafi reki á Selatöngum verið tekinn undan jörðinni. Ábúandi á Goðhóli nefnir að landamerki jarðarinnar séu þinglesin.
Vatnsleysustrandarhreppur keypti Kálfatjörn af jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins 27. ágúst 2001 með því skilyrði að niðurstaða óbyggðanefndar og/eða dómstóla varðandi landamerki og mörk gagnvart þjóðlendum yrði á ábyrgð kaupanda.
Landið ofan Vatnsleysustrandarvegar var selt Hitaveitu Suðurnesja af Vatnleysustrandarhreppi 28. desember 2001. Það land takmarkast að norðan af merkjum Flekkuvíkur að Einiberjahóli, en síðan Vatnsleysu, að austan af merkjum Krýsuvíkur (suðausturátt), að sunnanverðu af mörkum Þórustaða, að vestanverðu af gamla Vatnsleysustrandarveginum.

Flekkuvík

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik”. …
Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: “Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk” ….

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir um Kálfatjarnarkirkju: “hun ä Fleckuvijk. … fijrrnefnd Fleckuvijk ä allann thridiung i Vatzleijsu Jordu er liggur i Kälfatiarnar kirkiusokn. i rekum. sköge. Hagabeit. frä nijagørdum. og Jnn ad garde theim er geingur ofann [eitt handrit segir: innan] vr hraunenu og fram ad siö fijrer Jnnan Akurgierde”.
Flekkuvík er ávallt talin meðal eigna Kálfatjarnarkirkju í visitasíum biskupa.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir varðandi selstöðu Flekkuvíkur: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak”.
Ráðherra Íslands seldi Flekkuvík í tvennu lagi 31. ágúst 1909. Í virðingargerð frá 21. maí s.á. segir m.a.: “Utan túns land er talið að fylgi allri jörðinni frá landamerkjunum í milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu að austan, vestur í hinn svo nefnda Keilisnesklett”.

Flekkuvík

Flekkuvík – loftmynd 1954.

Hins vegar er landamerkjunum lýst þannig í matsgerð austurhlutans sama dag sem er í sérstöku skjali: “Landamerki Flekkuvíkur eru frá MinniVatnsleysu landi að austanverðu, alt vestur í hinn svo nefnda Keilisnessklett, þaða upp Neshólana um Arnarvörðu, um sunnanvert Flekkuvíkursel, beina stefnu til fjalls, alla leið að Krýsivíkurlandi., og tilhyeyra austurhelmingnum afnotin af nefndu utantúnslandi að hálfu í móti vesturhálflendunni”.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922. Í því segir m.a. eftirfarandi: “Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884”.
Staðfest af hreppstjóra og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út 2. júní 2004 kemur fram að jörðin Flekkuvík sé komin í eigu Fjársýslu ríkisins.

Stóra – og Minni – Vatnsleysa

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd 1954.

Í máldaga Vatnsleysukirkju á Vatnsleysuströnd frá 1269 stendur eftirfarandi: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande…
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. … hvn aa backa ok fleckv vik. … firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi”. …
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: “… kirkian kryssvvik ætti þar j xc” …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóra– og Minni–Vatnsleysa í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 nefnir Sogasel í landi Stóru-Vatnsleysu, sem notað sé frá Kálfatjörn og kirkjujörðinni Bakka. Sömuleiðis lögfestir Guðmundur Magnússon Sogasel árið 1790, sbr. lögfestu Kálfatjarnarkirkju hér að framan varðandi Kálfatjörn: “Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa,” … Hins vegar áttu Vatnsleysurnar, Minni og Stóra, hvor sína selstöðuna samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703: Minni-Vatnsleysa: “Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt”.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stóra-Vatnsleysa: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti”.
Í Jarðabókinni kemur fram að Stóra Vatnsleysu fylgi hjáleigurnar Vatnsleysukot, Akurgerði og þrjár ónefndar hjáleigur.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjarðirnar Stóra–og Minni Vatnsleysa hafi verið seldar þann 13. júní 1838.
Nokkur munur er á gæðum Stóru–og Minni–Vatnsleysu samkvæmt Jarðamati 1849 – 1850. Í kaflanum um Stóru–Vatnsleysu í Fasteignamati árins 1849 stendur m.a. að landrými sé talsvert. Í þeim hluta Jarðamats 1849 sem fjallar um Litlu–Vatnsleysu stendur hinsvegar að landrými sé nokkurt.
Í landamerkjabréfi Kálfatjarnar frá 9. júní 1884, sem eigendur Vatnsleysannasamþykktu er mörkum milli Kálfatjarnartorfu og Vatnsleysanna lýst þannig.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: “Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni–Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri–Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að „garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.”
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs. … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli”.

Snókafell

Snókafell.

Landamerkjabréf varðandi landamerki milli Hvassahrauns og sameignarjarðanna Stóru – Vatnsleysu og Minni – Vatnsleysu var undirritað 15. júní 1889 og samþykkt af búendum Hvassahrauns. Bréfið var þinglesið 17. júní 1889: “Úr Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland”.
Samkvæmt fasteignamati 1916 – 1918 er þrjár jarðir á Vatnsleysulandi; Stóra – og Minni – Vatnsleysa og grasbýlið Miðengi. Jarðirnar deila með sér heiðarlandi og hagbeit. Í kaflanum um Stóru – Vatnsleysu er greint frá landamerkjum: “Landamerki eru milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu úr Klukku við sjó, þaðan beint í litla Hafnhól um Vatnsleysuselás, þaðan í stóra Kolhól, þaðan í Hrafnafell, þaðan að Krýsuvíkurlandi, þá norður með Krýsuvíkurlandi. – Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>”.

Afstapavarða

Afstapavarða.

Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúenda á jörðinni Stóru–og Minni Vatnsleysu. Í skýrslu ábúendanna á Stóru – Vatnsleysu kemur m.a. fram að beitarlandið sé mikið og gott alla leið frá bænum og upp að Krýsuvíkurlandi. Þar kemur líka fram að túnið sé allt girt og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Einnig segir að landamerki sé skýr og þinglesin. Ábúendur jarðarinnar halda að á henni séu hverir.
Í greinargerð þeirra sem búa á Minni–Vatnsleysu stendur m.a. að beitarlandið sé víðlent. Þar kemur einnig fram að tún jarðarinnar sé girt með grjóti og vír og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Í skýrslunni stendur einnig að jörðin eigi hveri með Stóru – Vatnsleysu og að landamerki séu þinglesin og ágreiningslaus.

Eigandi Stóru-Vatnsleysu, Sæmundur Á. Þórðarson, skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 18. september 1996 þar sem hann gerði þá kröfu vegna Vatnsleysujarðanna að mörkum móti Krýsuvík yrði breytt. Vildi hann að merkin „verði miðuð við línu dregna af Grænavatnseggjum beina stefnu í Markhellu, háan Bréfinu fylgdi „Greinargerð um Krýsuvíkurbréfið”, sem Sæmundur skrifaði 17. september 1996. Þar bar hann Krýsuvíkurbréfið saman við önnur landamerkjabréfi og fleiri heimildir og taldi hann Árna Gíslason í Krýsuvík hafa leikið á þá sem undirrituðu bréfin athugasemdalaust.
Áður var minnst á bréf sem Sæmundur Þórðarson á Stóru – Vatnsleysu skrifaði landbúnaðarráðuneytinu þann 18. september 1996 varðandi landamerki Vatnsleysujarðanna og Krýsuvíkur. Sæmundur virðist hafa síðar skipt um skoðun því að í ódagsettri greinargerð um framkvæmdir á Stóru – Vatnsleysu [mun hafa verið skrifuð árið 2004] kemur Sæmundur með aðra ábendingu varðandi mörk Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarjarða: Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur standi: „að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan sem er útbrunnið eldfjall …” Ef þarna stæði „í vesturrætur Grænudyngju” yrðu mörkin hárrétt, en Trölladyngja og Grænadyngja séu þarna hlið við hlið. E.t.v. hafi Krýsuvíkureigandi skrifað rangt örnefni sem öðrum hafi yfirsést að leiðrétta. Einnig segir Sæmundur varðandi merkjalýsingu Ísólfsskála þar sem nefnd er „sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum Krýsuvíkur”, að það sanni að línan liggi upp á Selsvallafjall enda eru gamlar heimildir um að hornmark strandajarða að suð-vestan hafi verið um Framfell, öðru nafni Vesturfell sem er inn á miðju Selsvallarfjalli þar sem það er breiðast, vestur af Vigdísarvöllum.

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Samkvæmt þessari greinargerð Sæmundar hóf Stóru-Vatnsleysubóndi vegagerð til Höskuldarvalla og Eldborgar (gjallgígs NA af Trölladyngju) árið 1947. Á sama tíma voru Höskuldarvellir girtir af og var ræktað innan girðingar um 100 ha tún, en stórt bú var á Stóru-Vatnsleysu. Laxeldisstöð var byggð á Stóru-Vatnsleysu á árunum 1987-1990 og stóð til að virkja háhitasvæðið við Höskuldarvelli, Eldborg og Sogin. Orkustofnun var fengin til þess að gera umfangsmiklar rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu auk rannsókna á magni og gæðum grunnvatns í landi Vatnsleysujarða. Rannsóknirnar hafi að mestu verið greiddar af eigendum Vatnsleysujarða, en þeir hafi jafnframt átt 49% í laxeldisstöðinni sem greiddi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins. Sæmundur nefnir nokkra aðila, sem tekið hafi jarðefni í landi Stóru-Vatnsleysu, en segir ekki hvar. Raunar segir hann að allt frá því vegagerðin að Höskuldarvöllum hófst árið 1947 hafi verið tekið efni úr Eldborg ásamt bólstrabergi úr Rauðhólsfellunum.

Hvassahraun

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd 2019.

Í máldagaskrá um eignir kirkju og staðar í Viðey sem ársett hefur verið til um 1234 segir: “Magnvs biskvp gaf til staðar hinn siavnda lvt hvalreka ov viðreka j Hvassarauns landi”.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var hálft Hvassahraun í eigu Viðeyjarklausturs.
Í jarðaskiptagjörningi sem Páll Stígsson hirðstjóri, fyrir hönd konungs, átti við Gísla biskup Jónsson, fyrir hönd Skálholtsstól, og fram fór að Bessastöðum 27. september 1563 eignaðist konungur hinn helming jarðarinnar sem sögð var 10 hundruð að dýrleika.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um hlunnindi jarðarinnar árið 1703: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina. Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti”. Hvassahrauni fylgja þá þrjár hjáleigur. Ein kallast Þoroddskot en hinar bera ekki nöfn.
Í jarðamati árið 1804 kemur fram að hjáleigan Hvassahraunskot tilheyrir jörðinni Hvassahrauni.
Jörðin Hvassahraun hvarf úr konungseigu þann 19. apríl 1837.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðamati 1849 – 1850 er kafli um Hvassahraun með Hvassahraunskoti og Sónghól. Í honum stendur m.a.: “Landrými mikið. Talsverður skógur”.
Landamerkjabréf milli Hvassahrauns og Lónakots var undirritað 7. júní 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: “Merkin byrja í svonefndum markakletti við sjóinn, austanvert við Hraunsnes, úr markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól, úr Stóragrænhól í hólbrunnsvörðu, úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi”.
Nokkrum dögum síðar eða 13. júní 1890 var landamerkjabréf milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarsstaða undirritað. Það var samþykkt af fulltrúum Óttarsstaða og Lónakots. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: “Merkin byrja í svonefndum markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes úr markaklett í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu hjá sunnanvert við Einirhól, úr Klofningsklett í búðarvatnsstæði úr búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík með áklöppuðum stöfunum Hvass., Óttas. og Kr.vík”.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Í kaflanum um Hvassahraun (austurbær) í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: “Landamerki að sunnan: sjá landamerki Vatnsleysu [Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>.] Að norðan, Hraunsnesvarða við sjó, þaðan í marka vörðu, þaðan í vörðu á Krossstapa, þaðan sömu stefnu til Krýsuvíkurland<s>”. Í sama riti kemur fram að Hvassahraunsbýlin, austur – og vesturbær, deila heiðalandi og hagbeit.
Í þeim hluta fasteignamats 1932 sem fjallar um lýsingu ábúenda á jörðinni Hvassahrauni kemur fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og skjólgott. Þar kemur líka fram að jörðin þurfi ekkert upprekstrarland því hún hafi það sjálf.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysuströnd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krossstapar

Mið-Krossstapar.

Auðnaborg

Hér verður fjallað um hverfin í “Vatnsleysustrandarhreppi“.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka þarf það með fyrirvara.

Brunnastaðahverfi

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395 kemur fram að klaustrið á jörð sem kallast Brunnastaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Brunnastaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 fylgdu Brunnastöðum hjáleigurnar Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot, Traðarkot (Fjósahjáleiga), Vesturhús (Stephanarkot), Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Fimm síðustu hjáleigurnar voru í eyði þegar Árni og Páll sömdu skýrslu sína. Í greinargerð þeirra stendur eftirfarandi: “Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum. … Lýngrif og hríssrif lítið lángt til að sækja hefur jörðin, og þó ekki fyrir utan stóran ágreining við Vogamenn”.

Brunnastaðahverfi
Árið 1755 létu opinberir aðilar meta jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Í skýrslu þeirri sem var unnin um Brunnastaði stóð meðal annars.: “… Jorden fölger Selstade til Malke Qvæget, som Aarligen kand forbruges, mens underrettes at dend er Bleven meget slet, udeen Vand og neppelig Værd med Umage at forbruges. Anden Græsgang eller Fædrift fölger Jorden noget liden, Nemlig i mellem Brynnestad og Woge hvor Torvskiæren haver været hidintil forbrugt,” …. (Með Brunnastöðum eru þá taldar hjáleigurnar Brunnastaðakot, Naustakot, Skjaldakot, Austurkot, Tangabúð og Halakot og 2 – 3 hjáleigur í eyði).
Þann 17. maí 1786 hvarf jörðin Brunnastaðir úr eigu konungs.

Efri-Brunnastaðir

Í kaflanum um Brunnastaði í jarðamati 1804 kemur fram að fylgja hjáleigurnar Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot og Skjaldarkot.
Í kaflanum um Brunnastaði og hjáleigurnar: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot í Jarðamati 1849 – 1850 kemur fram að landrými jarðarinnar sé talsvert.
Landamerkjabréf Brunnastaðahverfis gagnvart Hlöðunesi og Vogum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: Landamerki milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfisins eru úr Markakletti sem stendur ofarlega í fjöru fyrir innan Skjaldakot, uppá uppmjóa þúfu sem stendur á klöpp að innanverðu við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni í laginu sem stendur nokkru ofar, þaðan beina línu norðanhallt við Brunnastaðasel og svo þaðan beina línu til fjalls, svo langt sem Vatnsleysustrandarhrepps er talið. Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru: Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið. Undir landamerkjabréfið skrifa Teitur Þórðarson og Björn Einarsson fyrir Hlöðuneshverfi og Klemens Egilsson og Guðm. J. Waage fyrir Norður og Suður–Voga.
Í köflum þeim sem fjalla um Brunnastaðahverfið124 í fasteignamati 1916–1918 stendur að tún og garðar séu úrskift, en að heiðarland og hagbeit séu í sameign Brunnastaðahverfisjarðanna.
Annað landamerkjabréf er samið fyrir Brunnastaðahverfi árið 1921. Það er undirritað 20. desember það ár og fært í landamerkjabók 7. mars 1922. Þetta landamerkjabréf er aðeins um landið næst bæjunum en ekki heiðarlandið sem er í óskiptri sameign. Í því kemur fram að: “enginn ágreiningur á milli jarða, hvorki með tún- nje fjörumörk. En landamerkji milli „hverfa” vísast til sýslubókanna frá 16. júní 1890; þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða- og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda”.

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

Landamerkjabréfið er vottað af: Ágústi Guðmundssyni, Halakoti, Símoni Símonarsyni, Skólanum, Gísla Eiríkssyni, Naustakoti, Helga Jónssyni og Guðjóni Péturssyni, Brunnastöðum Gunnari Gíslasyni, Skjaldarkoti, Kristjáni Hannessyni, Grund, Þórdísi Guðmundsdóttur, Traðarkoti og Bjargmundi Hannessyni, Suðurkoti.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingar ábúenda eftirfarandi jarða í Brunnastaðahverfi: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri–Brunnastaðir, Efri–Brunnastaðir, Suðurkot I og II, Naustakot og Halakot.
Í kaflanum um Skjaldarkot segir að landamerkjalýsing sé til og enginn ágreiningur sé um hana.
Samkvæmt skýrslunni um Traðarkot hefur jörðin ekki afréttarland. Hvað landamerki varðar er vísað til þeirrar landamerkjalýsingar sem hefur verið gerð fyrir hverfið í heild sinni.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Í kaflanum um Austurkot kemur fram að beitiland jarðarinnar sé í meðallagi víðlent. Jörðin á sameiginleg landamerki [með öðrum jörðum Brunnastaðahverfisins] og eru þau ágreiningslaus.
Samkvæmt jarðalýsingu Neðri – Brunnastaða er enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Efri – Brunnastaðir hafa í meðallagi víðlent beitiland. Enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Í skýrslunni um Suðurkot kemur fram að jörðin eigi rétt til upprekstar á landi sem sé í eigu jarðanna í Brunnastaðahverfinu. Enginn ágreiningur er um landamerkin.
Að sögn ábúanda á Suðurkoti II er enginn ágreiningur um landamerki jarðarinnar.
Á meðal þess sem kemur fram í kaflanum um Naustakot er að heiðarland sé í sameign við aðrar jarðir í hreppnum og að landamerki séu ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út í júní 2004 kemur fram að í Brunnastaðahverfinu séu: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri-Brunnastaðir, Efri-Brunnastaðir, Suðurkot, Naustakot og Halakot.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Hlöðunes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Hlöðunes í eigu Viðeyjarklausturs.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 segir eftirfarandi um Hlöðunesi: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu”.
Hlöðunesi fylgdi hjáleigan Hlöðuneskot.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Árið 1755 fór fram mat á jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Í greinargerðinni sem var skrifuð um jörðina Hlöðunes stóð m.a.: “Selstade op til Fields fölger með Jorden som Aarligen kand Forbruges, Mens Fæedrivt og Græsgang for Heste og Studer meget lidt, undtagen hvis som kand erholdes udi Bermelte Selstade, og ude een Moe Sydvest fra Tunet” …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Hlöðunes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Eigandi hálfs austurhluta Hlöðuness seldi eign sína þann 17. júní 1839.
Samkvæmt afsalsbréfinu þá var hér um að ræða bæ, útmælt tún og túngarð. Í skjalinu kemur einnig fram að eignir og ítök til lands og vatns, sem eru tún og úthagar til fjalls og fjöru, og veiða- og rekahlunnindi hafi fylgt með í sölunni.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur eftirfarandi um jörðina Hlöðunes og býlin Hlöðuneskot og Vesturkot: “Sumar- og vetrarbeit allgóð í óskiptu landi utangarða”.
Þann 25. nóvember 1869 seldi eigandi Hlöðuneskots bóndanum á Minni–Vatnsleysu jörðina. Í afsalsbréfinu kemur fram að jörðin er seld með: “öllum þeim húsum og byggingum, eignum og ítökum, til sjós og lands, er … fylgt hefur og fylgja ber til ystu ummerkja, að afsöluðum öllum óðals og innlausnarrjétti frá minni og erfingja minna hálfu” … .
Landamerkjabréf Hlöðunesshverfis gagnvart Brunnastöðum og Ásláksstöðum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: “Milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfa: frá svokölluðum markakletti, sem stendur ofarlega í fjöru skammt fyrir innan Skjaldakot beina línu uppí uppí uppmjóa þúfu er stendur á klöpp innan vert við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni síðastnefndu í laginu, sem er nokkrum föðmum ofar og þaðan beina línu norðanvert við Brunnastaðasel til fjalls svo langt, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Milli Hlöðunes og Ásláksstaðahverfis frá ós þeim sem lengst skerst uppí land innúr svokölluðu Álfasundi, þaðan beina línu í svokallaðan Álfhól, þaðan beina línu í hól sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli, þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt uppí Hrafnshóla og þaðan beina línu sunnan til við gamla Hlöðunes<s>el til fjalls svo langt sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær”. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum og ábúendum Brunnastaðahverfis og Ásláksstaðahverfis.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Hlöðuness er að finna landamerkjalýsingu fyrir hverfið. Hún er samhljóða þeim hluta landamerkjabréfsins frá 22. maí 1890 sem fjallar um landamerki milli Hlöðuness og Brunnastaðahverfa. Í köflunum um Hlöðunes og býlin Halldórsstaði og Narfakot í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit í félagi.
Í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar var samið annað landamerkjabréf fyrir Hlöðuneshverfi sem nær til túna og fjöru. Það var undirritað 27. desember 1921 og innritað í landamerkjabók 12. janúar 1922. Þar kemur m.a. fram að: Landamerkjalýsing þessi innibindur Hlöðuneshverfi í Vatnsleysustrandarhreppi; Hlöðunes, Halldórsstaði, Narfakot og Miðhús, sem takmarkast af Brunnastaðahverfi að sunnan og Ásláksstaðahverfi að norðan (innan) samkvæmt landamerkjalýsing útgefin og þinglesinni 1890 og athugasemdarlaust undirskrifaðri af öllum hlutaðeigendum, bæði hvað fjöru og heiðarmörk snertir en áðurnefnd merkjalýsing, tekur ekki neitt til um túnmörk innan hverfis, en þau eru sem hjer segir: …Eigendur Halldórsstaða og Miðhúsa auk eiganda Hlöðuness og umboðsmanns eiganda Narfakots skrifuðu undir landamerkjabréfið.
Í Fasteignamati 1932 er að finna lýsingar á jörðum í Hlöðunesshverfi: Halldórsstöðum, Narfakotiog Hlöðunesi. Í skýrslunni um Halldórsstaði segir að heiðarland sé óskipt og að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og þinglesin.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Ásláksstaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóru– og Minni–Ásláksstaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Ásláksstaðahverfið var metið árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Stóru Ásláksstaðir eigi hjáleiguna Atlagerði. Þar stendur einnig eftirfarandi: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin i almenningum frí”.
Í greinargerð sem var unnin um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 eru kaflar um bæði Stóru– og Minni–Ásláksstaði. Um Stóru – Ásláksstaði segir m.a.: “… Selstade Fölger Jorden som Aarlig kand forbruges, mens Græsgang og Fædrift til liden nytte, uden hvis som er at faae paa bemelte Selstade” …

Knarrarnessel

Ásláksstaðasel í Knarrarnesseli. Uppdáttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Minni–Ásláksstaði stendur m.a.: “… Selstade til Malke Qvæg fölger Jorden som Aarligen forbruges, Mens Græsgang eller Fædrivt icke meget andet end som paa Berörte Selstade og hvad der kand være i fælles. Fædrivten med Store Axlestade efter foranförte,” …
Jörðin Ásláksstaðir hvarf úr eigu konungs þann 7. ágúst 1813.
Eitt af því sem sagt er um Innri – Ásláksstaði í Jarðamati 1849-1850 er: “Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi”.
Í Fasteignamati árins 1849 segir um Ytri – Ásláksstaði: “Utangarða óskipt lóð”.
Í þeim köflum í fasteignamati 1916 – 1918 sem fjalla um jarðirnar í Ásláksstaðahverfinu, Ytri – og Innri Ásláksstaði og Sjónarhól, kemur fram að tún og matjurtagarðar þeirra séu úrskipt en að heiðarland og hagbeit séu í sameign jarðanna þriggja.

Móakot

Móakot og Móakotsbrunnur.

Landamerkjabréf Ásláksstaðahverfis var undirritað 31. desember 1921. Bréfið var fært í landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu þann 7. mars 1922: Landamerkjalýsing þessi, innibindur Ásláksstaðahverfi en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri – Ásláksstaðir, Hallandi (Nýjibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi, tilheyrir land alt, girt og ógirt á milli Hlöðunes-hverfis, að sunnan og Knarraness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Að sunnan, milli Hlöðuneshverfis annarsvegar og Ásláksstaðahverfis hinsvegar (að innan) eru þessi landamerki: Álfasund frá ós þeim sem lengst skerst uppí land, úr Álfasundi og ræður framhald á þeim ós einnig mörkum á milli hverfanna, alla leið til sjáfar fram um fjöru; í Álfshól beina stefnu í Hól, sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli sunnan til við Ásláksstaðaholt í Hrafnshóla sunnan til við gamla Hlöðunes<sel> til fjalls. Að innan, milli (Sjónarhóls) Ásláksstaðahverfis að sunnan og Knarrarness að innan, eru þessi landa- og fjörumerki: úr ós upp eftir fjöru í klöpp er liggur í svonefndum girðingum hjer um bil til miðsvæðis ofan til við flæðarmál, þaðan sunnantil við svo nefnda Digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt þaðan í Eldborgargreni, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digruvarða og Knarrarnesholt eru sjest þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Austast í Ásláksstaðahverfi að Knarranesmörkum innan girðingar og fjöru liggur:

Ásláksstaðir

Sjónarhóll. Ásláksstaðir fjær.

1. Sjónarhóll: Tún hans takmarkast af heiðargarði, alla leið frá túni Ytri-Ásláksstaða og austur að garði þeim er liggur í norður, fyrir austurkanti Sjónarhóls-túns á milli þess og girðinga þeirra, er honum tilheyra og eru þar heiðar og sjáfarmegin afgirtar með görðum og gaddavír og ná næstum, þó ekki alveg að mörkum Knarrarrnes og Ásláksstaðahverfis. Austast í girðingum þessum er nýbýlið Garðhús með þurrabúðar útmæling; matjurtagarð á býli þetta fyrir neðan eða sjáfarmegin við girðingarnar og annan fyrir ofan þær, lóð býlis þessa er eign Sjónarhóls ásamt girðingunum. Að norðan liggur tún Sjónarhóls alt að sjó; að vestan takmarkast það af grjótgarði, sem er á milli Hallanda og Sjónarhólstúns og liggur hann að austurhorni á matjurtagarði þeim, sem er eign Ytri – Ásláksstaða, eftir garðsvegg þessum meðan hann nær yfir Traðargötu á milli bæanna eftir vírgirðingu, sem kemur dálítið vestar, en í beinni línu eftir þeim mörkum sem áður er lýst og liggur með dálitlum boga, út að heiðargarði túnanna, í stóran stein merktan M. … … [Framhaldslýsingar eiga eingöngu við heimalönd innan garðs.] …Utangarðs er heyðarland alt óskift og tilheyrir eftir hundraðshlutföllum innanhverfis. Þess skal loks getið að árið 1918 var selt með samningi útgefnum og þinglesnum það ár lóðarspilda undir vitanum og í kringum hann.
Þetta landamerkjabréf er vottað af bændunum á Knarrarnessbæjunum að áður sé lesið milli hverfa.

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingar ábúenda Sjónarhóls, Ytri–Ásláksstaða, Nýjabæjar og Móakots.
Í skýrslunni um Sjónarhól kemur fram að beitiland býlisins sé frekar þröngt en skjólgott. Sjónarhóll hefur allt sitt upprekstrarland á heimalandi. Landamerki jarðarinnar eru óumdeild.
Í svörum ábúanda á Ytri–Ásláksstöðum kemur fram að landamerkin séu ekki vafalaus.
Í spurningalistanum sem ábúandi á Nýjabæ fyllti út kemur fram að beitiland Nýjabæjar sé víðlent og að landamerkjalýsing sé til.
Að sögn ábúanda í Móakoti eru landamerki ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorði frá 26. maí 2004 kemur fram að Sjónarhóll sé í eigu nokkurra aðila..
Þann 14. júní 2004 var gefið út þinglýsingarvottorð fyrir jörðina Ásláksstaði.

Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Knarrarnes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Stóra– og Minna–Knarrarnes í eigu Viðeyjarklausturs.
Lagt var mat á Knarrarnesjarðirnar árið 1703. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Litla – Knarrarnes: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar á jörðin frí í almenningum”.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Selstaðan ofar.

Í kaflanum um Stóra–Knarrarnes kemur eftirfarandi fram: “Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð. Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum”.
Eftirfarandi texta er að finna í mati sem unnið var um býlið Stóra–Knarrarnes árið 1755: “Selstade Fölger som Aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift til liden nytte undtagen Bemeldte Selstade, Hvor udjnden der er störste mangel paa Huusse og Höe Torv Skiæren uden giærde”…
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Stærra–Knarrarnes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Þann 13. júní 1838 hvarf jörðin Minna – Knarrarnes úr eigu konungs.
Í umfjölluninni um Stóra – Knarrarnes í Jarðamati 1849 – 1850 kemur m.a. fram að: “Hagbeit sumar og vetur rír í óskiptu landi utangarða”. …

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Í kafla þeim sem helgaður er Litla–Knarrarnesi í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. að: “… Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi utangarða”. … Landamerkjabréf Knarrarness var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar:
Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Stóra-Knararnes og Minna-Knararnes og eru mörkin þessi:
1. Að austanverðu milli Stóra – Knararness að vestan og Breiðagerðis að austan: Frá Selskeri sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings, upp eptir maðkasandinum, í Duggusker, þannig, að tveir þriðjungar þess eru eign Stóra – Knararness; þaðan í neðri enda svo nefnds Merkjagarðs, er liggur fyrir austurenda Stóra–Knararnesstúns, og er garður þessi í mörkum það sem hann nær, upp að túngarði; þaðan í nyrðri (eystri) Geldingahól, þaðan um nyrðri Keilisbróður beint að landi Krýsivíkur.
Einungis frá þeim enda Merkjagarðs, er til heiðar snýr, er heiðin óskipt land, er eigendur Knararnesja eiga saman eptir jarðarhundraða tiltölu. En túnmörkeru:
a) milli austurparts og vesturparts Stóra–Knararness: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur á Knaranesshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðahliði.
b) Milli Stóra – Knararness og Minna – Knararness. Úr syðra parti Vörðuskers (2/3 þess er eign Stóra–Knararness) beint eptir fjörunum í Markaklöpp; þaðan í Krosshóla í túni, og eptir garðlagi því, er þaðan liggur suður og upp tún út að túngarði.
2. Að vestanverðu milli Knararness og Ásláksstaða: Úr ós eptir fjöru í Klöpp, er liggur í svo nefndum girðingum hjer um bil miðsvæðis, ofan til við flæðarmál, þaðan sunnan til við svo nefnda Digruvörðufyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knaranessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digravarða og Knarrarnessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Bréfið var samþykkt af fjórum mönnum, eigendum Breiðagerðis og Innri-Ásláksstaða.
Í lok bréfsins bæta eigendur vesturparts Stóra Knarrarness og ¾ Minna Knarrarness við athugasemd: “Við Sigurður Gíslason og Stefán Jónsson erum samþykkir mörkunum að sunnan, en ekki að innan”.
Í kaflanum um Minna – Knarrarnes í Fasteignamati 1916 – 1918 koma fram upplýsingar um landamerki: “Landamerki milli Áslaksstaða og Knararnes eru við sjó er steinn á Klapparhorni við svonefndar girðingar í svokallaðan Markhól þaðan beina línu til heiðar í stóra hrút fyrir norðan Hagafell þaðan norður í Litla-Hrút, þaðan í innri Geldingahól, þaðan niður í merkisgarð, þaðan í svonefndan Selastein í fjöru”.
Í köflunum um Minna – Knarrarnes og hinar tvær jarðirnar í Knarrarneshverfinu, Stóra–Knarrarnes (tvær hálflendur með sama nafni) í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit séu í félagi jarðanna þriggja.

Eldborgargren

Eldborgargreni.

Í maí 1920 gáfu nokkrir aðilar út yfirlýsingu um afnot á hluta lands Knarrarness: “Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren….””

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891. Undir þessa yfirlýsingu skrifa; Sæmundur Kr. Klemensson fyrir hönd skólanefndarinnar, eigendur Knarrarnesjanna, umboðsmaður alls Breiðagerðisins og viss hluta Auðnahverfis, Þórarinn Einarsson [Bergskoti], Benedikt Þorláksson [Höfða], eigandi nokkurs hluta Þórustaða og hreppsnefndaroddvitinn.

Stóra-Knarrarnes

Tóftir Stóra-Knarrarness.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingu um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: “Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á litla Skógfelli”. Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Knarrarneshverfi; Stóra–Knarrarnes I, Stóra–Knarrarnes II (Austurbær) og Minna–Knarrarnes.
Að sögn ábúanda á Stóra–Knarrarnesi er beitilandið víðlent. Hann greinir einnig frá því að jörðin eigi sameiginlegt beitiland við hálflenduna [Stóra–Knarrarnes II] og Minna–Knarrarnes. Einnig nefnir hann að landamerki séu þinglesin og enginn ágreiningur sé um þau.
Samkvæmt upplýsingum ábúanda á Stóra–Knarrarnesi II (Austurbæ) er beitiland býlisins nægilegt. Einnig nefnir hann í skýrslu sinni að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt. Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus.
Í svörum ábúanda á Minna – Knarrarnesi kemur fram að beitilandið sé fremur þröngt.
Af þinglýsingarvottorðum dagsettum 15. og 21. júní 2004 má ráða að í Knarrarnestorfunni séu; Minna–Knarrarnes, Stóra–Knarrarnes I og Stóra–Knarrarnes

Breiðagerði

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var jörðin Breiðagerði.
Þann 13. september árið 1500 áttu sér stað eigendaskipti á jörðinni Breiðagerði. Henni fylgdu öll gögn og gæði.
Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina aftur 30. maí 1501.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Breiðagerði í eigu Viðeyjarklausturs.
Árið 1703 var jörðin Breiðagerði metin. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir Selstöðu brúkar jörðin þar sem kallað er Knararness sel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin frí í almenningum.

Breiðagerði

Tóft við Breiðagerði.

Í opinberri skýrslu sem gerð var um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 stendur eftirfarandi um býlið Breiðagerði: “… Selstade Fölger Jorden som aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift undtagen bemelte Selstade icke til nogen betydelig nytte, hvoraf flyder huse og Höe torves Mangel”…
Í Jarðamatinu 1849 – 1850 segir m.a. um jörðina Breiðagerði: “Hagbeit sæmileg sumar og vetur í óskiptu landi utangarða”. …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Breiðagerði hafi verið seld þann 2. maí 1827.
Landamerkjabréf Breiðagerðis var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar: Landamerkin eru þessi: Breiðagerði tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjáfar milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Stóra–Knarrarness að sunnanverðu. Landamerkin eru þessi:
1. Milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu: Lendingarósinn, sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis, sunnanvert við Bláklett, sem er hár klettur fyrir norðan og utan Bergskots-lendinguna. Frá flæðarmáli til heiðar liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti, norðanvert við efri Sundvörðuna um Þúfuhól þann, er hún stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið Hól; þaðan eptir vörðum upp heiðina, milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Ásláksstaðasel

Ásláksstaðasel.

2. Milli Stóra – Knaraness að sunnanverðu og Breiðagerðis að norðanverðu eru þessi landamerki: Selsker, sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings; þaðan upp eptir maðkasandinum í sprungu, sem er nokkru norðar en í miðju Dugguskeri, sem er stórt sker á sandinum milli Knaraness og Breiðagerðis: – Stóra–Knararnesi tilheyrir því tveir þriðjungar af Dugguskeri, en Breiðagerði einn þriðjungur. Úr þessari sprungu liggja mörkin beint í litla klöpp, sem er í flæðarmáli við neðri enda merkjagarðsins, er liggur fyrir austurenda Stóra – Knararnesstúnsins frá sjó upp að túngarði, og eptir þessum merkjagarði meðan hann nær til, en frá efri enda hans liggja mörkin í nyrðri Geldingahól; þaðan í nyrðri Keilisbróðir og eptir þeirri stefnu alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landamerkin eru samþykkt af eigendum Auðnahverfis og umráðamanni Stóra-Knarrarness.
Í kaflanum um Breiðagerði í fsteignamati 1916 – 1918 stendur að heiðarland og hagbeit séu í félagi við nágranajarðir.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúanda Breiðagerðis á jörðinni. Í henni kemur fram að tún eru girt af með grjótgarði og beitiland með gaddavír. Þar stendur einnig að jörðin eigi óskipt beitiland og að þar sé talsvert af grjóti sem nota megi sem byggingaefni. Landamerki Breiðagerðis eru ágreiningslaus. Jörðin fylgir Auðnum.
Vatnsleysustrandarhreppur seldi Hitaveitu Suðurnesja land ofan Vatnsleysustrandarvegar (gamla þjóðvegarins) sem tilheyrt hafði jörðinni Breiðagerði þann 1. september 2004. Landið afmarkaðist af Knarrarnesi til suðvesturs, Auðnahverfi til norðausturs, en heiðarmörk til suðausturs liggja móti landi Krýsuvíkur.

Auðnahverfi

Vatnsleysubæir
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Auðnir í eigu Viðeyjarklausturs.
Auðnir voru metnar árið 1703. Þeim fylgdu hjáleigurnar Auðnahjáleiga, Lönd, Hjáleiga og Hólmsteinshús. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum”.
Í Jarðabókinni kemur fram að jörðin Landakot sé hálflenda Auðna og er selstaða ekki nefnd við þá jörð.
Árið 1755 var lagt mat á jörðina Auðna. Í þeirri úttekt kom m.a. fram að: “Jorden Fölger Selstade sem Aarlige Forbruges, mens udmark meget slet hvoraf fölger Torveskiærs Mangel at dæcke med Husse og Höe, hvis Aarssage Torvet er skaaren jnden Gierdes Tunet til Störste Bedervelse”… Í jarðamati árið 1804 kemur fram að Auðnum fylgir hjáleigan Auðnakot.
Jörðin Auðnar hvarf úr eigu konungs þann 19. apríl 1837.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Auðna, með hjáleigunni Bergskoti, í Jarðamati 1849-1850 kemur m.a. eftirfarandi fram: “Nokkur hagbeit sumar og vetur í óskiptu landi utangarða”.
Landamerkjabréf Auðnahverfis var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar: Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Auðna (norður- og suður-part heimajarðarinnar), Höfða og Bergskot. Eiga þessar jarðir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Landakots að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu. Fjörunni er skipt í spildur með hverri jörð fyrir sig; sömuleiðis eru tún jarðanna aðgreind hvert frá öðru, ýmist með grjótgörðum eða járnþráðargirðingum, en heiðarland allt milli Landakots og Breiðagerðis tilheyrir þessum þrem jörðum sameiginlega og ber hverri jörð af því eptir hundraðatölu hennar.
1. Að norðanverðu milli Auðnahverfis og Landakots eru landamerki þessi: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er skerst inn úr aðalós þeim, er liggur inn á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir og um krók þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots, þaðan um Brunnhóla eptir grjótgarði; þaðan eptir gömlu torf-garðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna – Klofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

2. Að sunnanverðu milli Auðnahverfis og Breiðagerðis eru þessi landamerki: Lendingarósinn sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól þann, sem efri Sundvarðan stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið „Hól”. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eptir vörðum upp heiðina milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir (Litla hrút) alla leið að landi Krísivíkur í Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eiganda Landakots.
Í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum Auðna: Landamerki að sunnan við Auðnahverfi er norðan við Breiðagerði. Lendingarósinn sem liggur út frá lendingu Bergskots og Breiðagerðis, fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eftir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól, þann sem efri sundvarðan stendur á, skamt fyrir austan tómthúsið Hól. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir vörðum upp heiðina milli Auðnaklofninga og Breiðagerðis-skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, Litla hrút alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Að norðanverðu við Auðnahverfi og milli Landakots eru mörkin þessi. Fyrir neðan flæðarmál Markaós, sem er austasti ósinn, skerst innúr aðalós þeim, er liggur á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti til heyrir og um Krók þann, er sjávargarður Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast. Þaðan eftir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla eftir grjótgarði; þaðan eftir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eftir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu. Þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eftir stefnu þeirri, spölkorn fyrir sunnan Keilir, alt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi. Í sama riti kemur fram að býlin í Auðnahverfi, Auðnir, Bergskot og Höfði, hafa sameiginlegt heiðarland og hagbeit.
Í kaupsamningi sem gerður var 1. nóvember 2001 var hluti Bergskots og Höfða í óskiptri sameign Auðnahverfis (Auðnir ekki aðilar samnings) seldur Hitaveitu Suðurnesja. Hið óskipta land markast af merkjum Landakots að norðan, Breiðagerðis að sunnan og Krýsuvíkur að austanverðu (suðausturátt). Að vestanverðu af Reykjanesbraut.
Í þinglýsingarvottorði fyrir Auðna, dagsettu 15. júní 2004, kemur fram að úr landi Auðna hafa verið seldar eða leigðar lóðir undir loðdýrabú og sumarbústaði. Jörðin virðist að öðru leyti haldast.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysutrönd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.