Breiðagerði

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði um Vatnsleysströndina í Sunnudagsblað Tímans árið 1964 undir fyrirsögninni “Suður með sjó”:
Godholl-21Byggðin á Vatnsleysuströnd skiptist í hverfi. Utan Strandarheiðar verður fyrst fyrir Kálfatjarnarhverfi, þá Þórustaðahverfi og Auðnahverfi, Kálfatjörn og kirkjustaður. Nafn á að vera dragið af því, að kálfar af sækúakyni eiga að hafa komið úr Naustakotstjörn við sjávargötu Kálftirninga. Í fornum máldaga er staðurinn nefndur Gálmatjörn, en það er marklaust nafnabrengl. Ekki vilja sagnir hlíta því, að kirkja hafi frá upphafi staðið að Kálfatjörn, heldur á hún að vera flutt þangað undan ágangi sjávar, annaðhvort frá Þórustöðum eða Bakka, austasta bænum í hverfinu. Sá bær var fluttur tvisvar undan sævarbroti á 18. öld.
Að Kálfatjörn stendur ein af stærstu sveitakirkjum hér á landi. Hún var reist 1893, og voru þá rúmlega 900 manns í sókninni og um helmingi fleiri á vertíðum. Nú teljast sóknarbörnin um 370, og vermenn eru hættir að sækja á Vatnsleysuströnd. Þar var prestssetur til 1919, en þá var staðurinn gerður anniexía frá Görðum á Álftanesi og situr presturinn nú í Hafnarfirði.
Kirkjugarðurinn á Kálfatjörn er heimatilbúinn, mold hefur verið ekið í hann, til þess að unnt væri að grafa menn þar skikkanlega, en jarðvegur er víðast grunnur á Ströndinni.
Einn af Kálfatjarnarklerkum var Ámundi Ormsson, d. 1670. Á hans dögum bjó Björn Sturluson smiður á Bakka. Þeir voru báðir hagyrðingar. Björn var bendlaður við víg og óttaðist líflátsdóm, en var að lokum sýknaður.
Sveinbjörn Hallgrímsson er einn af mestu afreksmönnum, sem þjónað hafa Kálfatjarnarsókn. Hann vígðist aðstoðarprestur þangað 1842 og bjó í um skeið í Halakoti í Brunnastaðahverfi. Byltingarárið mikla 1848 stofnaði hann ásamt Páli Melsteð sagnfræðingi hálfsmánaðarblaðið Þjóðólf. Það varð langlífasta og eitthvert áhrifaríkasta málgagn, sem út hefur komið hér á landi.
Aðstoðarpresturinn frá Kálftjörn er fyrsti íslenzki blaðamaðurinn. Ármann á Alþingi, Fjölnir og Ný félagsrit voru gefin út í kalfatjarnarkirkja-21Kaupmannahöfn. Nú réðust Íslendingar heima fram á ritvöllinn, tóku að gagnrýna stjórnarvöldin, krefjast aukins þjóðfrelsis og lýðréttinda. „En látum oss þá vakna, Íslendingar, látum þjóðlyndi og þjóðrækni ná því valdi yfir hugum vorum, svo að vér álítum engin þau málefni oss óviðkomandi, sem að einhverju leyti horfa til heilla fyrir land vort.” — Þannig hljóðar ávarp Sveinbjarnar ritstjóra í fyrsta tölublaði Þjóðólfs. Hann hefur eflaust hvatt sóknarbörn sín af stólnum í Kálfatjarnarkirkju til þjóðrækni, djörfungar og framtaks. Hann var ættaður úr Innri-Njarðvík, systursonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors.
Þingstaður hreppsins var að Kálfatjörn fram til ársins 1818. Þá voru hreppsþingstaðirnir að Kálfatjörn, Bæjarskerjum á Rosmhvalanesi og Járngerðarstöðum í Grindavík af lagðir, en þingstaður fyrir alla þrjá hreppana settur í Njarðvíkum. Þá voru Njarðvíkurnar einnig sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi, og hélzt það til 1885, en þá voru þær gerðar að hreppsfélagi með Keflavík. Þessar breytingar á hreppaskiptingu eru sprottnar af fólksfjölgun á Ströndinni á 19. öld. Á fornum þingstöðum hefur víða verið helgistaður í heiðnum sið, og svo mun einnig á Kálfatjörn. Nokkru fyrir vestan bæinn er hóll, Goðhóll, og stóð þar kot í eina tíð. Hér hefur sennilega staðið hof þeirra Strandara.
Einn afburður á Kálfatjarnarþingi er frægur að endemum í Íslandssögunni. Árið 1698 seldi bóndinn á einni hjáleigunni á Brunnastöðum, Hólmfastur Holmfastskot-21Guðmundsson, 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði. Kaupmaðurinn þar, Knud Storm, hafði ekki viljað nýta þessa vöru, en samt sem áður kærði hann Hólmfast fyrir verzlunarbrot og fékk hann dæmdan í háa sekt. Hólmfastur átti ekkert fémætt nema gamalt bátskrifli, og Knud Storm vildi ekki nýta það fremur en vöru bóndans og krafðist húðláts. Var Hólmfastur bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi og húðstrýktur miskunnarlaust að amtmanni viðstöddum, en því skotið til konungs, hvort hann skyldi ekki dæmdur til þrælkunar á Brimarhólmi. Hér var þó of langt gengið. Hinn danski lögmaður, Láritz Gottrúp, kærði meðferðina á Hólmfasti fyrir konungi, og síðar tóku þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín málið upp, og hlaut Hólmfastur nokkrar miskabætur. Eftir þetta var gerræði kaupmanna hnekkt að nokkru. Píslarnar við staurinn á Kálfatjarnarþingi voru ekki færðar til einskis.
Hólmfastur Guðmundsson býr á Bræðrakoti, hjáleigu frá Innri-Njarðvíkum, árið 1703 og telst þá 56 ára. Árið eftir strýkingu Hólmfasts (1699) fékk Knud Storm menn á Kálfatjarnarþingi til þess að veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m.a., „að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann… og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér skylduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum”.
Landakot er austast í Auðnahverfi. Þar bjó Guðmundur Brandsson, þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1849-1861. Á alþingi barðist hann einkum fyrir því, að öllum flóum og fjörðum yrði lokað fyrir erlendum fiskiskipum, en danska stjórnin var ekki mjög skelegg í landhelgismálum Íslendinga, eins og kunnugt er. Guðmundur drukknaði undan Flekkuvík við þriðja mann haustið 1861.
Aslaksstadir-23Á Auðnum bjó Guðmundur Guðmundsson, einn af gildustu bændum á Ströndinni seint á 19. öld, átti 8 til 10 báta, auk þess þilfarsbát og rak stórbú. Á einum af bátum hans reri Kristleifur Þorsteinsson fræði maður á Stóra-Kroppi 1882. Báturinn fórst í stórviðri út af Vogavíkinni. Kristleifur bjargaðist við annan mann, en 5 drukknuðu.
Knarrarnes, stóra og litla standa utan við Breiðagerðisvíkina. Við forna heimreið að Stóra-Knarrarnesi er grágrýtisbjarg og á það klöppuð þessi vísa:
“Seytján hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von; ~
svo þá gjörði sem hér stár,
sá hét Bjarni Eyjólfsson. Bjarni, sem rislaði sér við að festa nafn sitt á steininn, var gildur bóndi Á Knarrarnesi um 1700. Menn vilja eigna honum ýmsar steinsmíðar fornar, áletranir á legsteina og jafnvel hleðslu Staðarborgar. Gerðistangaviti stendur yzt á Atlagerðistanga, reistur til þess að vísa skipum leið milli Keflavíkur og hafna í Innnesjum og bátum til strandar við Stakksfjörð.
Ásláksstaðahverfi stendur á tanganum inn af vitanum. Það var útvegur eins og annars staðar á ströndinni. Þar drápu klausturmenn úr Viðey danskan mann veturinn 1540, en sá hafði verið í flokki Diðriks af Mynden, er hann rændi Viðeyjarklaustur á hvítasunnunni sumarið áður. Þá þeir fóru í ver um veturinn, „fóru þeir í Vatnsleysu á skipi og gengu þaðan um nóttina á Ásláksstaði og drápu Jóachim.” Hann var sá 13., sem tekinn var af lífi fyrir klausturránið. „Þótti mönnum það mikil og góð landhreinsun.”

Móakot

Móakot.

Á Ásláksstöðum stendur timburhús reist úr viði þeim, sem var á skipinu Jamestown, er strandaði í Höfnum 1881. Á Þórustöðum og í Óttarsstaðahverfinu standa einnig hús, sem reist voru úr því timbri. Brunnastaðir voru metnir einna dýrastir jarða á Vatnsleysuströnd um miðja 19. öld. Þar var eitt bezta útræði á Ströndinni og skammt að sækja á stórgjöful mið. „Um miðja öldina voru margir bændur þar, en allir fátækir og reru hver hjá öðrum á tveggja manna förum, því að ekki áttu allir bát. En svo fluttust að Brunnastöðum tveir miklir athafnamenn, sinn á hvora hálflenduna, og þá skipti um.”
Guðmundur Ívarsson hét annar frá Skjaldarkoti í Kálfatjarnarhverfi. Um 1865-1870 lét hann smíða sér teinæring, og var það um skeið eitt bezta skipið við Faxaflóa. „Um 1880 átti Guðmundur auk þess 3—5 sex manna för. Var þá mannmargt hjá honum, allt að 50-60 manns í heimili, því að skipverjar höfðu allir aðsetur þar heima, því að verbúðir þekktust varla.”
Jón Breiðfjörð Jónsson hét hinn. Hann fluttist að Brunnastöðum um 1870 og Iét þá breyta áttæring í þilfarsbát. Um 1890 er talið, að hann hafi gert út 6—8 skip, en auk þess rak hann verzlun. Þá fóru erfið ár í hönd. Erlendir togarar streymdu inn á Faxaflóa, eyðilögðu bátamiðin og aflinn brást. Jón varð að taka 1000 króna bankalán og þótti það stórfé. Hann gat ekki staðið í skilum og varð gjaldþrota og dó skömmu síðar. Hann hafði hýst bæ sinn af stórmennsku, en eftir gjaldþrotið lentu eignirnar í braski og húsin brunnu 1905. Þá var uppgangstími Vatnsleysustrandar á enda um skeið.
Barnaskóli var reistur að Brunnastöðum 1870-1872. Séra Stefán Thorarensen gekkst fyrir skólastofnuninni, og naut hún nokkurs styrks úr Thorchilliisjóði. Þar var Pétur Pétursson, faðir dr. Helga Pjeturs, kennari um skeið. Þetta er einn af elztu barnaskólum á landinu.
Bieringstangi er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, kenndur við Moritz W. Biering kaupmann (d. 1857). Þaðan hefur lengi verið stundað útræði, og þar er stærsta vörin á ströndinni. Um 1840 er þar risin fisktökustöð, salthús og fisktökuhús, sennilega frá Flensborgarverzluninni í Keflavík. Á lofti þeirra voru verbúðir, en í kring stóðu þurrabúðirnar Vorhús, Hausthús og fleiri. Einnig var þar önnur útgerðarstöð, Klapparholt. Eldra nafn á verstöð þessari er Tangabúðir.
bieringstangi-22Á Bieringstanga var reimt eins og á fleiri verstöðvum. Draugurinn var erlendur að uppruna, gekk með hvíta húfu, en ekki mórauða og var því nefndur Tanga-Hvítingur. Hann gerði mönnum ýmsar glettur eins og drauga er siður, og neyttu menn ýmissa bragða til þess að losna við kauða. Eitt sinn skaut bóndinn í Halakoti hann með úlfurhnappi, en það átti að vera draugum öruggt skeyti. Hvítingur sundraðist í eldglæringar við skotið, en skreið saman aftur og hélt uppteknum hætti fram um 1890, en hvarf um þær mundir að sögn.
Halakot er syðst í Brunnastaðahverfinu.
Þar bjó Ágúst Guðmundsson Ívarssonar á árunum frá 1910-1941. Eftir hann er greinagott rit um sjósókn og búskap á Vatnsleysuströnd á tímabilinu frá því um 1860 og fram um 1900. Hann var formaður frá 1888 til 1940 og missti aldrei mann í sjó og engin slys urðu á skipshöfn hans.
Stakksfjörður gengur inn úr Faxaflóa milli Keilisness og Stakks, kletts undan sunnanverðu Hólmsbergi norður af Keflavik. Á firði þessum voru fræg fiskimið og við hann stóðu og standa enn miklar verstöðvar.
Á Stakksfirði og undan ströndinni ræktuðu menn fiskimiðin í gamla daga engu síður en túnin. Flestir formenn sóttu á sín sérstöku mið og fluttu þangað slor, fiskúrgang, jafnvel hundsskrokka og annað þess kyns, sem til féll. Það var kallað að bera niður, og sævargróðrar hvatinn nefndist niðurburður, samanber áburður. „Öll þorskgota var borin niður þar á hraunið (Vogahraun) og mikið af slori, og fiskurinn hændist þar að niðurburðinum og varð mestur, þar sem mest var borið niður,” segir Ágúst frá Halakoti. „Svo gjörðu margir fleiri meðfram öllum Strandarbrúnum og bættu veiðina.” Ræningjafloti eyðilagði miðin um skeið, en verstöðvar hafa eflzt að nýju við Stakksfjörð á síðustu áratugum.
Vogar, dálítið þorp, stendur utan til við Vogavík. Þar er höfn, hafnargarður og bryggja, frystihús, söltunar- og fiskvinnslustöð. Þar eru gerðir út 2 til 3 vélbátar, 50—100 lestir að stærð. Útgerð hefur lagzt niður á Vatnsleysuströnd, en bændur þar hafa ekki með öllu slitið vinfengi við sjóinn. Synir sjósóknarans, Ágústs í Halakoti, stunda hér útgerð. Hér fjölgar íbúunum, þótt þeim fækki á Ströndinni og fornar útvegsjarðir eins og Stóra-Vatnsleysa og Flekkuvík leggist í eyði.
Storu-Vogar-22Höfuðbólið var Stóru-Vogar. Hét áður Kvíguvogar, kennt við sækýr eins og Kálfatjörn. Þar var kirkjustaður fram yfir siðaskipti. Kirkjuhóll nefnist hóll fyrir sunnan veginn, þar sem ekið er inn í Vogaþorpið. Þar á kirkjan að hafa staðið. Nú eru Stóru-Vogar í eyði, og mikill reykháfur trónar upp úr bæjarrústunum. Í túnfætinum ofan við vörina liggur steinn. Eitt sinn á skip Jóns Daníelssonar að hafa steytt á honum í lendingu. Á næsta flóði óð Jón bóndi eftir bjarginu, stakk sjóvettling í munn sér og orgaði ógurlega við átökin. Hér liggur það, einustu minjar um hinn jötuneflda Vogabónda. Minni-Vogar eru í byggð, og í landi þeirra standa fiskvinnslustöðvarnar nýju. Þannig fer um hverfula heimsins dýrð.
Frændi og fóstri Steinunnar gömlu hét Eyvindur Honum gaf hún Vatnsleysustrandarhrepp, land milli Vogastapa og Hvassahrauns, fyrir alls ekki neitt. Hann bjó að Kvíguvogum.
Á Heiðarbæ i Þingvallasyeit bjó Hrolleifur Einarsson, Ölvissonar barnakarls. Ölvir, afi hans, hafði verið mikill víkingur, en skemmti sér ekki við það að henda börnum á spjótsoddum, eins og þá þar víkingasiður. Því hlaut hann auknefnið barnakarl. Heldur þótti Hrollleifi leið murtuveiðin á Þingvallavatni, sem reyndar hét Ölfusvatn í þann tíð, og lítið skyn bar hann á náttúrufegurðina þar efra. Hann bauð Eyvindi jarðaskipti, en skoraði hann á hólm, vildi hann ekki ganga að kaupunum. Ekki leizt Eyvindi ráðlegt að berjast við Hrolleif og fluttist að Heiðarbæ. Þar festi hann ekki yndi og leitaði að nýju á náðir Steinunnar frænku, en hún setti hann niður á Bæjarskerjum. Þannig hófst fólksflóttinn til Suðurnesja þegar á landnámsöld.
Storu-Vogar-25Í byrjun 18. aldar býr Jón Daníelsson hinn sterki í Stóru-Vogum (d. 1855). Hann keypti jörðina og sat þar fyrstur sjálfseignarbænda frá því á miðöldum. Jón lét smíða sér skútu og var aflasæll og auðugur og talinn fjölkunnugur. Hann á að hafa komið fyrir draugum, rekið illa anda úr mönnum og kunnað skil á töfrasteinum, sem gerðu menn fiskisæla. Þá sótti hann í„Mölvík undir Vogastapa. Sonur Jóns Daníelssonar var Magnús. Hann lærði siglingafræði og skipasmiðar i Kaupmannahöfn 1816 og var skipstjóri og skipasmiður í Vogum og tók sér ættarnafnið Waage. Sagt er að hann hafi smíðað „nálægt 100 róðrarskipa og báta og tvo þilfarsbáta frá stofni”. Hann varð fyrstur til þess hér á landi að rita um nauðsyn sjómannafræðslu og bauðst til þess að kenna mönnum fræði sín, en ekkert er vitað um það, á hvern hátt menn færðu sér það í nyt.
Bændaánauð og einokun hafði sogið svo merg úr bændum við Faxaflóa, að þeir áttu varla sjófæra fleytu stærri en tveggja manna för, þegar líður á 18. öld. Þegar slakað var á ánauðinni og einokunarfjötrunum, færðist þegar nýr þróttur í atvinnulífið.
Þrír bændur urðu fyrstir til að rétta úr kútnum, hófu skipasmíðar og útgerð í miklu stærri stíl en áður hafði þekkzt. Jón Daníelsson í Vogum er frægastur, en nafni hans Sighvatsson í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík tók að sér að smíða skútu með aðstoð Gísla Péturssonar, skipasmiðs á Óseyri við Hafnarfjörð, árið 1814. Ekki leizt nágrönnum hans gæfulega á þessar tiltektir kotbóndans, en hann lét hrakspár ekkert á sig fá, og þrem árum síðar hljóp fyrsta þilskipið af stokkunum í Njarðvík. Meðan Jón vann að smíði skipsins, dvaldist Jón Norðfjörð, sonur hans, í Kaupmannahöfn og lauk þar stýrimannsprófi 1817. Hann stýrði skútu föður síns fyrstu árin, en síðar tók bróðir hans, Pétur við stjórninni.
stapinn-22Ari Jónsson, bóndi í Innri-Njarðvík, gerðist þriðji bilskipseigandinn við Vogastapa. Árið 1818 eiga skip þessara þriggja bænda öll að hafa verið við veiðar og reynzt mestu happaskip. Þau voru smá, ekki mikið yfir 10 lestir, en boðuðu þó þáttaskil í fiskveiðum Íslendinga. Í kjölfar þeirra sigldu stærri skútur, þegar leið á öldina. Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti …er fyrsti kotungurinn hér syðra, sem hófst algerlega af sjálfum sér, alinn upp í fátækt, og varð einn af gildustu útvegsbændum. Gengi bænda við Vogastapa kveikti mönnum vonir um betri daga á Íslandi.
Skútuöldin við Faxaflóa hefst í Vogum árið 1863. Þá keypti Egill Hallgrímsson bóndi í Austurkoti ásamt öðrum félögum sínum í hreppnum skútuna Lovísu um 45 rúmlestir að stærð. Í Vogum er bezt höfn frá náttúrunnar hendi við Vatnsleysuströnd og eina bjarglega skútuhöfnin. Lovísa og aðrar skútur þeira Vogamanna efldu hér stórútgerðarstöð.
Þilskipin, sem þeir Jón Daníelsson létu smíða og smíðuðu um 1817, voru bátar ekki haffærandi. Þau voru þáttur í miklum vexti bátaflotans á fyrri helmingi 19. aldar og lögðu grunn að skútuöldinni, næsta stigi í fiskveiðasögu íslendinga.
Egill Hallgrímsson (1817—’83) gerði út marga báta, að sögn, rak lýsisvinnslu, fisk- og saltverzlun og hafði margt í vöfunum. Hann hafði Lovísu í beinum siglingum til Spánar, sendi þangað fisk og keypti salt. Árið 1870 tók sonur hans, Klemenz við skipstjórninni, en hann var einn af mestu sjósóknurum á Suðurnesjum um sína daga.
Einn af landsetum Egils var Nikulás Jónsson í Norðurkoti. Hann gerði út áttæring og sexmannaför, 5—6. Bátaútvegurinn hélt velli, þótt skútur bættust í hóp fiskiskipa. Það var skammt á miðin og uppgripaafli oft á tíðum. Ágúst í Halakoti segir, að þorskur hafi gengið „alla leið inn undir lendinguna á Hólmanum undir Grímshól og Mölvík og allt Hólhraunið og upp undir Stapann og Vogabrúnir. Á öllu þessu svæði var oft svo mikill fiskur í þorskanet, að daglega var þangað sótt fullfermi og sum skip tvær til þrjár hleðslur á dag bæði í net og á færi, og var hvergi jafnstór fiskur sem þarna undir Stapanum, á Vogabrúnum og um allt Vogahraun”.
Árið 1892 átti Klemenz Egilsson í Minni-Vogum nýjan áttæring. Þá var slíkt mokfiski undir Stapanum, að skipshluturinn greiddi bátsverðið á einni vertíð. En þar með var lokið auðsæld gullkistunnar, en óvæntir atburðir fóru í hönd. Þessi afli lifir enn í minni Vogamanna, og þeir kenna togveiðum um, að hann er þrotinn.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð. Vogastapi, grágrýtisberg, hefst utan Vogavíkur, um 80 m. á hæð. Stapinn nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkistan í sóknarlýsingum 19. aldar „af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi í hrauninu þar rétt upp undir”. Skúli Magnússon landfógeti segir um 1785: „Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi, tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin í notkun.
Ágúst frá Halakoti segir, að það hafi verið gaman að róa undir Vogastapa, „að skríða þar út með landinu í lygnum og sléttum sjó og taka svo nógan, fetan og stóran þorsk í netin. – – – Það verður tæplega sagt um of af þeirrí fiskimergð, sem gekk sum árin undir Vogastapa, enda var hann áður fyrr kallaður Gullkista Íslands og bar það nafn með rentu.” Hann telur, að á árunum frá 1870-’94 hafi gengið um 200 skip úr Brunnastaðahverfinu, Vogum og Njarðvíkum. „Þegar fiskur var kominn undir Stapann, þá sóttu allir þangað, — sömuleiðis allir Vatnsleysingar, ef ekki var fiskur á Vatnsleysuvík. Var því oft ærið þéttskipað, þegar allir voru komnir undir Stapann.”
Kvíjuvogabjörg hlutu að nafnfesti þjóðsöguna um Marbendil og sækýrnar. Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd Vogastapa, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt. Margir urðu úti á Stapanum og hröpuðu fyrir björg, og eiga þeir að vera þar enn á flökti. Stapadraugar eru taldir með afbrigðum kurteisir, taka jafnvel ofan höfuðið fyrir tækni nútímans.
Grímshóll heitir efsta bunga Stapans. Hann á að vera kenndur við Grím Rangæing, sem varð eftir af vermönnum og réðst til vistar hjá Stapabónda og gekk þar að eiga heimasætuna.
Undir Vogastapa er dálítið undirlendi, ef að er gáð, en hefur verið miklu meira áður, því að sjór hefur brotið hér land.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), “anleggshúsum” Knudtzons gróssera reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Anlegg” nefndust salt- og fisktökuhús
stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátar, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.
Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk. Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru tii skamms tíms. Kerlingabúðir voru nokkru utar. Um Reiðskarð lágu fornu reiðgöturnar upp Stapann. Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku. Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.
— Þess vegna voru 1000 netakúlur seldar á uppboði eftir Guðna Jónsson á Brekku á 5 krónur, og stórjörðin Stóru-Vogar var boðin upp til skuldalúkningar á 2000 króna láni í Landsbankanum, og enginn bauð yfir það. — Þannig var hernám Engiendinga við Faxaflóa 1895.
—Hvernig því lyktar það herrans ár 1940, get ég engu um spáð”. segir Ágúst Guðmundsson.
reidskard-25Annar sjósóknari af Vatnsleysuströnd, Benjamín Halldórsson frá Naustakoti, segir, að oft hafi mátt telja á Vogavík 50-100 enska togara, sem leitað höfðu vars undan ofviðrum, en stunduðu veiðar á Faxaflóa. Á leiðinni út köstuðu þeir á víkinni og toguðu frá landi. Eitt sinn strandaði enskur togari upp í fjöru undan Útskálum með vörpuna aftan í sér. Þetta var á aðfangadagskvöld. Skipverjar sáu ljósadýrð í kirkjunni og héldu, að þar væri togari í aðgerð og stefndu þangað. Þá var strandgæzla nær engin, svo að bændur voru varnarlausir gegn þeim ræningjum, sem óðu að landi og eyddu byggðina. Aðgerðarlausir vildu þeir þó ekki vera. Þeir fluttu hraungrýti út á miðin í þeirri von, að það eyðilegði vörpurnar, en ekki bægði það veiðiþjófum frá landi. Það er ekki mjög blómlegt umhorfs á Vatnsleysuströnd: byggðin er slitin, stórbýli í eyði og húsakostur á sumum jörðum lítt breyttur frá því í lok 19. aldar.
Hér hefði orðið samfelld byggð og borg stæði í Vogum, ef ræningjaflotinn hefði ekki lagzt að landi. Nú flosnuðu menn upp og flýðu byggðina, en miðin, sem þeir höfðu ræktað um aldir, lögðust i örtröð og auðn.
Gildustu útvegsbændur þraukuðu aflaleysið, keyptu sér skútur og sóttu dýpra, og síðar hófst vélbátaútvegur. Fyrsta vélbátinn keypti Ásmundur Árnason í Hábæ í Vogum árið 1907. Vogamenn höfðu verið brautryðjendur í þilskipaútgerð, en nú voru þeir orðnir eftirbátar annarra, eins og bezt sést á því, að vélbátaútvegur hófst hér á landi 1902 og efldist mjög á næstu árum, en vélbátar náðu ekki til Voga fyrr en 5 árum síðar. Hin fisksælu mið voru þrotin og útgerð gekk illa.
Á styrjaldarárunum glæddist afli að nýju, og um 1920 eignuðust bændur á ströndinni trillubáta. Ekki varð sú útgerð þeim mikil féþúfa. Það er fyrst með tilkomu 25 til 50 lesta vélbáta um 1940, að útgerðin tók að hjarna við að nýju í Vogunum. Í hönd fóru friðunarár heimsstyrjaldar innar. Þegar togaraflotinn birtist að nýju og allt sótti í sama horfið og áður, var Faxaflóa lokað fyrir togveiðum árið 1952 og fiskveiðilandhelgin færð út 1958. í Vogum hefur risið upp vísir að þorpi. en bílabrautin nýja sneiðir þar hjá garði, og íbúarnir eru uggandi um, að straumur tímans muni fylgja brautinni til bæjanna fyrir utan Vogastapa.”

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 880-883.

Breiðagerði

Við lendingu Breiðagerðis.