Árni Óla fjallar um “Tanga-Hvíting” í bók sinni “Strönd og Vogar“:
“Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga”. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.
Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.
Orustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:
„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.
Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.”
Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.