Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar.
Varðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.
Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.
Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur.
Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans og frægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir fyrrnefndan Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysu-
strandarhreppi.
Keilir fríður kennast skal,
Knappt þó skríði runnur,
fagran prýðir fjallasal
Fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann af sjón
Þekktan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
Fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
Rata’ að lending heilir;
Til að benda’ takmark sett
Tryggur stendur Keilir.