Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.