Í fyrri ferð um svæðið austan við Knarrarnesholt bar ýmislegt fyrir augu í skammdegisbirtunni. Nú var ætlunin að ganga um heiðina vestan við Knarrarnesholt að Brunnastaðalangholti, en svæðið þar fyrir vestan hafði áður verið skoðað.
Enn sem fyrr hékk náttúruleg skammdegisljósadýrðin yfir heiðinni. Gengið var niður um Djúpudali, “djúpa grasbolla sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra Knarrarnesi í tíð Ólafs Péturssonar bónda þar”.
Gróningarnir milli holtanna eru grasgefnir, enda hafa þeir verið hið ágætasta skjól í heiðinni. Drjúg leið er milli bæja og dalanna svo ætla mætti að einhvers staðar væri þar að finna smalaskjól, þótt lítið væri. Tveir staðir komu til greina, en þó annað öllu líklegra. Um var að ræða ferhyrnda gróna rúst í “anddyri” dalanna. Sjá mátti grjót í veggjum, en ekki hefur afdrepið verið stórt, líkara varðskýli. Líklegt er að kýrnar hafi ekki leitað upp á holtin heldur ætlað heimleiðis um dalverpið þegar nóg var komið. Þá var skýlið vel staðsett. Leitað var að kúastekk á svæðinu, sem líklega er þarna einhvers staðar í eða við Djúpudali, en án árangurs að þessu sinni. Horfa til þess að skammdegisbirtan gaf ekki mikla möguleika eða kjörin tækifæri til uppgötvanna eftir að vinnu lauk þann daginn. Þá eru myndatökur með venjulegum tækjabúnaði við slíkar aðstæður mjög erfiðar.
Neðan og vestan við Djúpudali er Knarrarnesholt. “Þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá [Reykjanes]brautinni og á því er kubbslaga, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.” Varðan er á áberandi stað, hvort sem horft er upp í heiðina heiman frá bæ eða niður hana af Knarrarnesselsstígnum þar skammt austar. Hæðin á vörðunni er ekki nema ca. 0,50 m, ferköntuð og fyllt í miðju. Ætla mætti að henni hafi verið ætlað að verða hærri (enda landamerkjavarða), en vegna þess hversu nægilega áberandi kennileiti hún var orðin svona lágreist hafi þetta verið látið duga. Skoðað var hvort varðan gæti einnig hafa verið ætluð sem refagildra, en engin merki þess sáust.
“Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.”
Ásláksstaðaklofningar eru lágir klapparhólar og litlir m.v. nágranna þeirra, grónir á millum. Gróin varða er á þeim, en tilefnið virtist óljóst.
Í bakaleiðinni var staðnæmst við norðurenda Afstapahrauns, ofan Kúagerðis. Þar er varða, hvorki gömul né ný, að því er virðist. Hún er hlaðin á efsta (fremsta) brunahólnum í þessu úfna apalhrauni. Ætla mætti við fyrstu hugsun að hún hafi verið hlaðin til dundurs af vegagerðarmönnum er lögðu akveginn fyrsta sinni milli Innnesja og Útnesja í kringum 1910 (1906-1912).
Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir hins vegar:
“Markavarða við Fögruvík; úr Markavörðu í Afstapavörðu, úr Afstapavörðu í Snókafell, úr Snókafelli um Lambafell, úr Lambafelli í landamerkjalínu Krýsuvíkur norðan Mávahlíðar.” Varðan sú virðist skv. þessu vera svonefnd Afstapavarða á merkjum Hvassahrauns og Stóru-Vatnsleysu. Sbr. framangreint ætti einnig að vera landamerkjavarða á Einihlíðum norðan Mávahlíða.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.”
Landamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við
,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl”. Líklegt má telja að Afstapavarða hafi verið hlaðin við svonefnda Afstapaþúfu til áréttingar mörkunum. Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.