Loftskúti

Á korti mátti sjá götu dregna upp frá Hvassahrauni áleiðis upp í Skógarnef. Gatan endar, skv. kortinu, á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, nokkuð ofan við Lónakotssel. Á þessu korti eru merkin svolítið vestar en á nýrri kortum.
Veturinn að víkja fyrir vorinuÆtlunin var að reyna að skoða hvort þarna marki fyrir leið, og ef svo er, hvert hún liggur og í hvaða tilgangi. Ekki er ólíklegt að um “skógargötu” hafi verið að ræða, líkt og nöfnur hennar frá Óttarsstöðum og Straumi.
Reyndar hafði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum) sagt að Skógarnefsskútinn væri “neðan við Nefið og á mörkum”. Þarna gætu leynst, við nánari leit, áhugaverðar minjar!
Þá var  ætlunin að koma við í Hvassahraunsseli og fylgja selsstígnum áleiðis að Hvassahrauni.
Gengið var upp með Virkishólum, Virkið barið augum og götu síðan fylgt upp hraunið til austurs. Stefnan á henni var ofan við Grændali og nokkuð norðan við Hálfnunarhæðir. Legan var áfram upp tiltölulega slétta hraungróninga millum Hvassahraunssel og Lónakotssel, svo til beint á áberandi vörðu á klapparhæð. Við götuna mátti víða sjá litlar mosagrónar vörður, jafnvel einungis einn stóran stein á öðrum jarðföstum eða tvo slíka.
KindÁ leiðinni voru rifjaðar upp örnefnalýsingar af göngusvæðinu.
Ari Gíslason skráði: “Upp af bænum, fast ofan við veginn [neðan núverandi Reykjanesbrautar], eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Svo taka við þar ofar Smalaskáli og Smalaskálahæðir. Á Smalaskála er varða sem blasir mjög vel við af Hjallhólum. Svo er þar austar, upp af Skyggni er fyrr getur, tveir hólar nefndir Virkishólar og milli þeirra er gömul fjárborg sem heitir Virki. Þar upp af er svo hólaklasi sem heitir Brennhólar. Beint upp af Öskjuholti í líkri fjarlægð og Smalaskáli heitir svo Öskjuholtsbruni.
Upp og suður af Öskjuholtsbruna er Jónsvarða, stendur þar á flatri klöpp [áberandi stök varða]. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum er fyrr getur. Milli Smalaskála og Brennihóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi. Upp af Brennihólum efst eru Hálfnaðarhæðir, þar hefur verið hálfnað upp í Hvassahraunssel, stórar hæðir tvær. Þar upp og austur af eru Selsskrínshæðir og austur af þeim er Viðunarhóll, þar var skógur. Þessi hóll er austur af Skugga.

Skúti undir vörðu á mörkum Hvassahrauns

Þá er í suðaustur af Selskrínshæðum Hvassahraunssel en það er milli Mosanna fyrrnefndu og Krossstapa en Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast. Krossstaparnir eru í suðaustur frá Skugga.
Upp af Hvassahraunsseli eru Selhæðir, þar austur og upp af er Snjódalaás, allstór ás með stóru keri í sem heitir Snjódalir. Þá beint upp og austur er Skógarnef, þar voru gren, það er hæð upp til fjalls, lyngi og skógi vaxin og nær upp að Búðavatnsstæði, þar er oftast vatn. Upp af því er Markaklettur þar mætast lönd Óttarsstaða og Krýsuvíkur.”
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar Guðmundar Sigurðssonar má sjá eftirfarandi: “Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi. Suður af þessu svæði er Smalaskáli og Smalaskálahæð. Þar á er varða, Smalaskálavarða. Hún sést vel af Hjallhólum. Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann. Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af  Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.
Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Rúmgott skjól syðst í Skorási, skammt sunnan markaStígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það [það er í litlu, grónu jarðfalli, einu af þremur, sem þar eru, skammt austan við rana er liggur niður frá Selásnum].
Sunnan við Rjúpnadalahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta [erfitt er að finna opið því gróið hefur fyrir það, en inni má sjá allmiklar fyrirhleðslur], Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til. Þar suður af eru Höfðar, allgott beitiland. Efst í Höfðunum er Sauðhóll og Sauðhólsskúti eða Sauðhólsbyrgi. Suður af Öskjuholti er svo Jónsvarða og stendur á hraunklöpp.” Þá segir ennfremur: “Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.”
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Í Hvassahraunsseli

Eftir viðkomu í eiginlegri “Dauðagildru”, þ.e. litlu, en djúpu jarðfalli utan í klapparhæð (ef einhver hæð ætti að fá “Dauða”nafnbótina þá er það þessi staður) milli seljanna þar sem sjá mátti beinagrindur þriggja kinda, lá gatan upp með syðsta hluta mikillar klapparhæðar, þeirri sömu og Skorás er nyrsti hluti af. Undir honum er Lónakotssel. Þarna á hæðinni eru tvær háar vörður, auk selsvörðunnar. Þá eru þrjár minni í réttri röð, í beinni línu á mörkum jarðanna. Stærri vörðurnar tvær höfðu greinilega aðra þýðingu, enda sjást þær mjög langt að þegar komið er upp frá Hvassahrauni, einkum sú syðri. Þegar að var gætt kom ljós önnur lítil varða skammt suðaustan við syðri vörðuna, á brún á stóru, grónu og ílöngu jarðfalli. Við norðvesturenda þess, undir stóru vörðunni, er hið ágætasta fjárskjól. Ekki var að sjá manngerðar hleðslur framan við munnann, en þar er gróinn lyngbakki. 

Gatan, sem rakin var upp að sunnanverðum Skorás

Líklegt má telja að þarna hafi verið fjárskjól og/eða nátthagi og þá sennilega frá Hvassahraunsseli. Örskammt sunnar er stór og rúmgóður skúti með mold í botni – hið besta fjárskjól. Snjór huldi framanverðan innganginn, en aðrekstur að munnanum hefur verið mjög góður þar sem hann er í krika utan við fyrrnefnt jarðfall.
Nyrðri stóra varðan, skammt sunnan við Skorásvörðuna, er einmitt ofan við fjárskjól og nátthaga frá Lónakotsseli.
Haldið var yfir að Hvassahraunsseli, en selsvarðan norðaustan þess sést greinilega þar sem hún stendur við gjásprungu á klapparhæð, Selásnum.
Blankalogn, sól og friður var þarna í selinu þennan vordag. Tóftirnar í selstöðunum tveimur höfðu komið vel undan sjónum og böðuðu veggi sína í sólinni. Tíbráin lá yfir þeim í jarðvarmanum. Við skoðun á hugsanlegri götu upp úr selinu kom í ljós að ein slík liggur upp frá því sunnan við Selásinn áleiðis upp í Mosa. Sennilega hefur gatan, sem liggur framhjá Bögguklettum inn í gegnum Skógarnefið og áfram inn á Óttarsstaðaselsstíg, haft þvergötu sunnan við Skógarnefið er lá niður í Hvassahraunssel ogáfram til bæjar.
Selsstígurinn sést glögglega þar sem hann liggur vestur úr selinu, að Hálfnaðarhæð. Þegar komið er yfir línuveginn verður erfiðara að fylgja stígnum því tveir slíkir koma til greina; annars vegar um Smalaskála og hins vegar sunnan Grændala niður með Virkishólum.
Stök varða er á milli leitanna. Stendur hún á lágri hæð í krika hærri klapparhæðar. Erfitt er að sjá til hvers hún hefur verið hlaðinn, nema ef vera skyldi að greni gæti hafa verið þar í hæðinni. A.m.k. tók hundtík, sem var með í för, viðbragð, brá sér undir eini er slútti yfir skúta og virtist bæði óróleg og leitandi.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Virkið