Hér verður fjallað um “Landnám á Reykjanessskaga” út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.
Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: “En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út”.
Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: “Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar”.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.
Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.
Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.
Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: “Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum”.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.
Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: “Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum”.
Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: “Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók”.
Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: “Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur”.
Hraun
Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: “Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm”.
Í c-gerðinni segir: “Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie”.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: “Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð”.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: “Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir”…
Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: “Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar”. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].
Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: “Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta”. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.
Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: “Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi”.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:
“Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: “Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren”….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891”.
Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: “Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli”.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.
Heimild:
–Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.