Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.