Keilir

Gengið var á Keili (379 m.y.s.). Venjan er að ganga að fjallinu frá norðanverðu Oddafelli, en að þessu sinni var gengið að því frá Rauðhól, rúmlega miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Oddafells. Stíg var fylgt upp eftir frá Rauðhólsselinu. Þegar komið var upp á hraunbrúnina (varða) áleiðis að fjallinu sást Keilisvarðan við Þórustaðastíginn vel í vestri.
Keilir er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið, sem er strýtulaga, sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.

Upphafsstaður flestra - við Oddafell

Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Það er því að mestu úr móbergi. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýni ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Frá því sjósókn hófst á norðanverðum Reykjanesskaga hefur Keilir verið notaður til að marka mið sjómanna. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Fjallið er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda vekur það jafnan athygli fyrir fegurð sína og Keilir - uppgönguleiðin framundaneinstæða staðsetningu. Göngutími á fjallið er um 2-3 klst ef lagt er afs tað frá norðanverðu Oddafelli eða frá Rauðhól skammt norðvestar. Hækkunin er um 250 metrar.
Til að komast að Keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar eru mislæg gatnmót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum með rólegum akstri um Afstapahraun (yngra) upp að Höskuldarvöllum, þaðan sem venjulega er gengið á fajllið frá norðurenda Oddafells.
Gott er að ganga á fjallið þótt bratt sé á köflum, en vissara er að fara varlega því laust getur verið í rásinni. Auðfarið er þó upp því myndast hefur greinilegur göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind. Þegar gengið er upp er Hrafnafell á hægri hönd og gengur út úr Keili til norðurs. Handan þess eru keilisbörn (142 m.y.s.). Uppi á fjallinu gestabók í sérhönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann. Til stendur að setja upp útsýnisskífu á Keili (skrifað í júni 2008), auk örnefnaloftmyndar við norðanvert Oddafellið.
Gestabókastandur á KeiliMóbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll líkt og Keilir (ef um gos á kringlóttu gosopi eða stuttri sprungu er að ræða). Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Fallegir bólstrar eru í hlíðum Keilis – ef vel er að gáð (enda engin ástæða til að flýta sér).

Útsýni til suðvesturs - Litli-Keilir t.h. - Litli-Hrútur, Kistufell og Stóri-Hrútur framundan fjær

Þegar litið er af Keili yfir “landakortið” neðanvert til vesturs og suðurs má m.a. sjá Þráinsskjöld með Litla-Keili, Fagradals-Hagafell og Fagradals-Vatnsfell, Litla-Hrút, Kistufell og Stóra-Hrút. En það er líkt með þessi fjöll, mishá og -stór, að fólki hefur ekki alltaf verið sammála um nöfnin, þ.e. hvers er hvurs. Ástæðan hefur jafnan verið af “landamerkjatoga” fremur en nákvæmum heimilda- og vettvangsrannsóknum. Litli-Keilir (300 m.y.s.) og Litli-Hrútur (310 m.y.s.) hafa af sumum verið nefndir Keilisbræður. Það er svo sem ekkert vitlausara en hvað annað. Verra er að þeim hefur þeim verið ruglað saman og þá nefndir Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur, en sá síðastnefndi er mun sunnar. Litli-Hrútur (Litlihrútur) er fast norðan við Kistufell. Litli-Keilir (Litlikeilir) er milli hans og Keilis, en spölkorn vestar á Þráinsskjaldarbrúninni.
Gengið var niður að austanverðu, mun auðveldari niðurför en í “hálkustigunum” að norðanverðu.
Þegar komið var niður var hægt að velja um nokkrar leiðir; Þórustaðastíg inn á norðanverða Selsvelli, götuna yfir að Oddafelli eða til baka að Rauðhól. Auk þess stíg yfir úfið hraun austan við Driffell. Allt eru þetta áhugaverðar leiðir því hver og ein leiðir vegfarendur að ákveðnum, en ólíkum, dásemdum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.landvernd.is/arfjalla2002/fjall_14.html

Litli-Keilir og Keilir