Gengið var um Reiðskarð, gömlu Stapagötuna, sem er sérstaklega falleg á þessum kafla, og með Vogastapanum að Brekku. Þar eru fallegar hleðslur frá tíð gamla bæjarins og hlaðinn brunnur.
Þaðan var gengið yfir að Stapabúð. Segja má að lítið þurfi annað en refta gömlu tóftirnar til að koma þeim í gagnið aftur. Utar er Hólmurinn. Enn má sjá minjar saltfiskverkunarinnar á honum, grunna og steinlagðar tröppur timburhúsa, gerði og garða. Utan í eiði sunnan við Hólmann lúrir gamall innrásarprammi.
Skoðaður var gamli brunnurinn norðan við Stapabúð sem og fjárhúsið. Hvönn og starir vaxa utangarðs og skammt undan landi syndir selur. Hvað er friðsælla en að setjast þarna niður um stund og virða fyrir sér haflífið og fagurt umhverfið.
Gengið var að Kerlingabúð, sem eru með elstu minjum á Suðurnesjum, en eitt húsanna hafði verið byggt þar utan í stóran klett ofan við fjöruborðið. Sjórinn hefur smám saman verið að brjóta undir sig minjarnar.
Svæði þetta er bæði stórbrotið og sagnaríkt af mannlífsverkum. Lokst var gengið um Brekkuskarðið upp á Stapann og spölkorn eftir gömlu Stapagötunni áleiðis að Grímshól, niður á gamla Keflavíkurveginn og eftir honum að upphafsstað. Í leiðinni var kíkt á leifarnar af herspítalanum, sem þarna var undir sunnanverðum Stapanum fram yfir stríðsárin.
Veður var með ágætum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.