Virkishólar

Gengið var til suðurs frá Reykjanesbrautinni austan við Hvassahraun að svonefndum Virkishólum. Ætlunin var að skoða Virkið, sem þar er á milli hólanna. Virkishólarnir þrír eru áberandi skammt sunnan við veginn.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Skv. upplýsingum Kristján Sæmundssonar, jarðfræðings, myndast hólar sem Virkishólar þannig að glóandi kvikan safnast saman á einum stað og nær ekki að renna frá. Massi hraunsins þenst út vegna hitans og gúlpar og sprengir af sér harnaða hraunskorpuna.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Djúp sprunga er í efsta hólnum. Greinilegur gróinn stígur lá frá Hvassahrauni áleiðis upp að hólunun. Liggur stígurinn í reglulega lagað, nokkuð djúp og gróið jarðfall; Virkið. Það var notað til að hleypa til í um fengitímann. Fyrirhleðslur eru í norðanverðu jarðfallinu þar sem farið er ofan í það og skúti norðarlega. Vel gróið er í kringum Virkið sem og inni á milli og utan í hólunum. Ekki er útilokað að Virkið hafi einnig verið notað sem nátthagi því greinlega hefur verið beitt þarna um nokkurn tíma.
Skammt austan við Virkishólana eru aðrir hraunhólar í hólóttu helluhraunnu. Suðvesturundir einum þeirra (varða ofan við) er jarðfall. Í því er hlaðið fyrir skúta, Lofstkúta. Þarna munu Hvasshraunsmenn hafa m.a. geymt rjúpur o.fl. þegar þeir voru við veiðar í hrauninu.
Gangan tók 53 mín. Blanka logn og sól.

Loftsskúti

Í Loftsskúta.