Norðurkot

Skoðað var umhverfi Norðurkots á Vatnsleysuströnd. Ætla mætti af áhuganum að dæma að þar hafi verið um höfuðbýli að ræða, en eittvað öðru nær – og miklu merkilegra. Norðurkot var dæmigert kotbýli frá höfuðbýlinu Þórustöðum. Þrátt fyrir það var á Brunnurstaðnum stofnsettur einn fyrsti barnaskóli landsins, auk þess sem staðurinn á sér bæði fagurt og blómlegt mannlíf frá fyrri tíð. Í Norðurkoti hafa varðveist heillegar grunnhúss- og garðhleðslur dæmigerðs kotbýlis þar sem ábúendur byggðu afkomu sína á sjósókn og dæmigerðu búfjárhaldi;  2 kýr og 12 ær á vetur setjandi. Síðasta íbúðarhúsinu var lyft af grunni sínum árið 2007 og flutt á fyrirhugað húsminjasvæði við Kálfatjörn – á nútímalegan steinsteyptan grunn.
Lýsingu þessa af Norðurkoti sömdu bræðurnir frá Kálfatjörn, Ólafur og Gunnar Erlendssynir. Báðir eru þeir gagnkunnugir í Norðurkoti. Ólafur er fæddur í Tíðagerði 23. október 1916. Hann kemur að Kálfatjörn fjögra ára gamall og elst þar upp til tvítugs. Gunnar er fæddur í Tíðagerði 7. febrúar 1920. Hann flytur að Kálfatjörn nokkurra vikna gamall og hefur búið þar síðan. Þá ræddu þeir bræður við Jón Björnsson frá Norðurkoti og Egil Kristjánsson frá Hliði. Lýsingin er skráð í nóvember 1976. Kristján Eiríksson gekk frá handriti.

Uppdráttur

“Á torfunni milli Kálfatjarnar og Þórustaða eru m.a. tóftir býlanna Hliðs, Tíðargerðis og Norðurkots. Hlið var byggð úr Kálfatjarnarlandi, en Tíðargerði og Norðurkot voru byggð úr Þórustaðalandi og liggur milli þess og Kálfatjarnartorfunnar, eins og fram kemur í landamerkjabréfi. “Örnefni virðast hér heldur fá. Ofan við bæinn, á mörkum milli Þórustaða og Norðurkots, er Tíðhóll. Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum. Vatnagarður nefnist blautlendur mói, sem er neðan Norðurkotstúns; nær hann óslitið ofan kampsins að Goðhólsmörkum. Uppsátrið í Norðurkoti er í svokölluðum Krókavörum. Þær eru  neðan undan bænum, nokkurn veginn miðja vegu milli syðri og nyrðri landamerkja. Þar átti einnig Tíðagerði uppsátur. Framundan vörunum, hið næsta, er dálítið sandlón í skerjaklasanum, upp við kampinn. Þar er kallað Lónið. Framan við Lónið eru allhá þangsker og aðeins eitt mjótt skarð í, og flýtur þar nokkru síðar en í Lónum. Þar kallast Þröskuldur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Þá tekur Legan við og Kálfatjarnarsund. Þarna við vörina eru skiparéttir og fiskbyrgi, þar á meðal stæðileg tóft mjög vel hlaðin úr löguðu grjóti, lögð í sement. Það var fiskbyrgi.

(Ath.: Naustin voru alltaf á sjávarkampinum, venjulega með hlöðnum veggjum a.m.k. á tvo vegu. Í þau voru skipin sett þegar búizt var við vondu veðri og einnig að lokinni vertíð. Var það kallað að nausta. Stundum voru naustin notuð sem skiparéttir. Þær stóðu þó oftast hærra yfir sjávarmál. Var lögun þeirra svipuð og naustanna. Upphaflega hafa þær líklega verið hlaðnar á þrjá vegu þótt á seinni tíð hafi þær verið alla vega. Í skiparéttunum var bátunum hvolft yfir veturinn.)
Við sjávargötuna, skammt ofan við naustin, var pyttur einn, er Árnapyttur nefnist. Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór.  Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
FiskbyrgiTíðagerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar. Djúp graslaut er rétt norðan við bæjarstæðið í Tíðagerði. Hún var kölluð Lautin. Á klöppinni norðan við Lautina, rétt utan við túngarðinn, er vatnsstæði, Klapparvatnsstæði.
Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarðar upphaflega.”
Ari Gíslason skráði örnefni í Norðurkoti. “Jörð í eyði, næst við Þórustaði á Vatnsleysuströnd, er í eyði. Uppl. eru frá Erlendi Magnússyni, Kálfatjörn, en er eitthvað málum blandið. Neðan við Tíðhól sem nefndur var hjá Þórustöðum og er mjög nærri merkjum heitir Tíðagerði. Þá er þar frammi í sjó tvö sker sem heita Stóri-Geitill og Litli-Geitill, þessi sker fara í kaf um flóð. Milli þeirra og nafnlausra skerja sem tilheyra Þórustaðatöngum heitir Geitlasund. Þá eru hér þrjár lendingar; Krókar, þar var lent frá norðurbæ Þórustaða, Norðurkoti og Tíðagerði.

Sjávargata

Fram af Markkletti er flúð sem heitir Sigga, í Kálfatjarnarlandi. Goðhóll er í landi Kálfatjarnar, niður af er Goðhólsvör og Goðagljá. Auðnagljá og Þórustaðagljá eru sandpollar þar sem skipin lágu. Hlíð var eyðibýli á merkjum. Vatnsstæðisklöpp er fyrir neðan Tíðagerði, neðst á Vatnagörðum er Árnapyttur. Gljárnar eru framan við hnýflana en fremstur allra hnýfla er Þórustaðahnýfill.
Frá landi skiptast sker í fjóra flokka eftir gerð og lögun. Næst landi eru sker, þau eru allavega löguð. Næst eru flúðir, það eru yfirleitt flöt, mikil um sig og koma upp um fjöru. Hníflar, háir hólmyndaðir, koma upp um fjöru, eru ekki klapparbalar heldur grjót og oft vaxnir geysistórum þönglum (graðhestaþönglum). Boðar eru lengst frá landi, utastir allra, allavega lagaðir og stundum án þess að koma upp úr um stórstraumsfjörur.”

NorðurkotGísli Sigurðsson skráði einnig örnefni í Norðurkoti. “Norðurkoti við Þórustaði tilheyrir land allt innan girðingar sem nær frá Merkjagarði þeim sem er í milli Kálfatjarnar og Tíðagerðis að norðanverðu við hinn svonefnda Vatnagarð, allt suður að vírgirðingu þeirri sem Björn Jónsson hefur sett yfir túnið milli Norðurkots og Austurbæjarparts Þórustaða.
Úr neðri enda girðingar eru mörkin beina stefnu í útnorður niður á sjávarbakkann sem er fyrir neðan, í austurhornið á girðingunni sem þar er á bakkanum, gjörð kringum túnblett sem Eyjólfur á Þórustöðum hefur ræktað þar upp úr gömlum tóftum. Túnmörk þessi stefna beint á Geitil en þannig nefnist útsker sem er norðanvert við Þórustaðatanga.
Innan áðurnefndrar girðingar fylgir túnið og Vatnagarðurinn nefndu býli, Norðurkoti, allt frá túngarði þeim sem hlaðinn er landsunnan megin við býlið, allt beint niður á Sjávarkamp.
NorðurkotSamt er hér frá undanskilið tún það og hússtæði og kálgarður sem útmælt hefur verið býlinu Tíðagerði sem liggur innan fyrrnefndra girðinga og er það á stærð hér um bil 2400 ferfaðmar, fyrir utan útfærslu þá sem síðan var útmæld, landsunnan megin við Tíðagerðistúnið handa því býli.
Í óskiptu heiðalandi utan túns hafa nefnd býli, Norðurkot og Tíðagerði, beitarrétt fyrir fénað sinn sem tiltölu við ¾ hluta Þórustaðatorfunnar. Landamerki þessi eru þannig samin af mér undirskrifuðum eiganda að Norðurkoti, Tíðagerði og Austurbæjarparti Þórustaða – Fjármálaráðuneytið 26.8. 1927.”

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið. -RS

Norðurkot virðist að venjulega hafi verið talið með Þórustöðum og tilheyrði því Norðurkotstún. Á norðurmörkum voru Merkjagarður og Vatnagarður og túnmörk milli Norðurkots og Þórustaða-Austurbæjarparts. Úr þessum túnmörkum með girðingu liggur lína niður á sjávarbakkann við girðingu, kringum túnblett Eyjólfs á Þórustöðum. Túnmörkin stefna síðan í útnorður á Geitil sem ekki mun heyra til býli þessu að neinu leyti. Vatnagarðurinn er talinn fylgja nefndu býli en í honum er Árnapyttur og svo tilheyrir þessu býli Vatnsstæðisklöpp. Norðurkot virðist vera í eyði nú.
Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi garður, matjurtagarður, og svo var heiðarlandið óskipt en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins en Tíðagerði átti 2400 ferfaðma land.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ólafs og Gunnars Erlendssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Norðurkot