Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.