Færslur

Eldborg

Í “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)” skrifar Sesselja Guðmundsdóttir m.a. um Eldborgina undir Trölladyngju og næsta nágrenni.

Eldborg

Jarðhiti við Eldborg.

“Jarðhiti er í suðurenda Vestra-Lambafells í brekku sem snýr til vesturs. Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1—3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur „álfabragur“ á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því. Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjárveggjunum sést hver „koddinn“ við annan. Örnefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.

Jarðhiti

Jarðhiti í Lambafelli.

Með hlíðum Lambafella liggur Mosastígur (Rauðamelsstígur) . Fyrrum var farið meðfram Núpshlíðarhálsi eða yfir hann allt eftir því hvort fólk var á leið til Krýsuvíkur, á Vigdísarvelli, Selatanga eða til Grindavíkur og var leiðin þarna um kölluð Hálsagötur. Dr. Bjarni Sæmundsson lýsir þessum götum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 og segir hann Grindvíkinga nota orðasambandið „aðfara inn í Fjall“ þegar þeir fóru göturnar vestan hálsins.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …”. Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.

Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika. Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.”

Í bókinni “Icelandi pictures” eftir Frederik W.W. Howell frá árinu 1893 má sjá teiknaða mynd af Eldborginni.

Eldborg

Teikning Frederik W.W. Howells af Eldborginni 1893.

Árni Óla segir í bók sinni “Strönd og Vogar” eftirfarandi um Eldborgina undir Dyngjum:
“Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.”

Eldborg

Jarðhitinn við Eldborg.

Vatnsgufusvæðið umleikis Eldborgina er mismundandi greinanlegt. Það sést best þegar kólnar í veðri. Norðan hennar eru hleðslur, sem einhverjir hafa hlaðið til gufubaðsnota um tíma.

Heimildir:
-Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 123-126.
-Strönd og Vogar, Eldfjöllin, Árni Óla, bls. 250.
-Icelandi pictures, Frederik W.W. Howell, London 1893, bls. 141

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Afstapahraun

Gengið var til austurs upp úr Seltóu um stíg yfir Afstapahraun, að hryggjargrenjunum í Geldingahrauni, þaðan upp að Bögguklettum og Mosastígnum síðan fylgt áleiðis að Lambafelli. Áður en komið var yfir hraunið, eða öllu heldur hraunin, norðan hans, var beygt til vesturs og gengið yfir úfið Eldborgarhraunið yfir á Sóleyjarkrika.

Einir

Einir í Geldingahrauni.

Seltóan er efsta Tóan í Afstapahrauni. Neðar er Hrístóa. Tóustígur, eða Tóarstígur, gengur upp í gegnum þær. Í Seltóu eru Seltógrenin. Ekki er vitað til þess að hefðbundin selstaða hafi verið í Seltóu, en þó gæti þar hafa verið beitt frá Rauðhólsseli vestan við hraunið. Sel voru þó með ýmsu móti, s.s. kolasel og hríssel. Þannig gæti fólk hafa dvalið um tíma í Tónni til hrístöku og reitt hann síðan á hestum um stíginn er þræðir Tóurnar, Hrístóustíg og Tóustíg til norðurs.
Gengið var til austurs yfir Afstapahraunið um Seltóarstíg. Hann liggur yfir hraunið þar sem styst er að fara. Grænn einirinn var áberandi í umhverfinu. Komið var niður að sléttu mosahrauni inni í hrauninu, en eftir að hafa fylgt stígnum út úr því til norðurs um hraunhaft var fljótlega komið inn í Geldingahraun. Þar skammt austar eru Hryggjagrenin á lágum hraunhrygg í annars grónu hrauni. Fallegt og heillegt byrgi refaskyttu er þar á hryggnum, auk þess sem grenin tvö hafa verið mörkuð við opin. Skammt vestan við syðra grenið er hlaðið skeifulaga byrgi. Stígur liggur upp hraunið vestan grenjanna.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Haldið var til suðausturs og stefnan tekin á mikinn klofinn hraunhól, sem sést hafði greinilega á loftmynd. Þegar gengið var upp hraunið bar hóllinn í Dyngnahraunið neðan við Einihlíðar. Litlir hraunhólar eru beggja vegna klofans, sá að austanverðu þó sýnu stærstur þeirra. Klofinn, sem er gróin í botninn, liggur til austurs og vesturs. Allt um kring og talsverða fjarlægð er nokkuð slétt mosahraun, svonefndir Mosar.
Kletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Frá Bögguklettum er fallegt útsýni yfir Mosana, upp á Einihlíðum þar sem má sjá hraunfossa Einihlíðabruna steypast fram af hlíðunum og þær sendnar og ljósari litum á milli. Þaðan má einnig sjá beint inn Lambafellsklofann þar sem hann ber í Dyngurnar (Grænudyngju og Trölladyngju). Þar sem staðið var við klettana varð til veðurleysa, þ.e.a. engu veðri var til að dreifa um stund. Mávahlíðarnar í suðri báru sig vel yfir umhverfið.
Haldið var upp Mosastíg, sem liggur þarna suður um hraunið með stefnu rétt austan við Lambafell og í endann á Dyngjuhálsi. Stígurinn er vel greinilegur vestan við Böggukletta, en sunnan við klettana skiptist hann og liggur hinn stígurinn norðar niður Mosana. Mosastígurinn stefnir niður að Skógarnefi og um Skógargötuna niður að Alfaraleið.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Í fyrstu er stígurinn á sléttu helluhrauni, en sunnar þarf að þræða úfnara apalhraun. Hann er þó vel greinilegur svo til alla leiðina í gegnum hraunið. Þarna eru nokkur hraun, hvert ofan á og utan í hverju öðru. Eldborgarhraunið er sýnu umfangsmest að vestanverðu og Dyngnahraunið að austanverðu.
Áður en komið var á stígnum út úr hrauninu að sunnanverðu var stefnan tekin til vesturs yfir úfið Eldborgarhraun og stefnan tekin á Sóleyjarkrika vestan þess.

Reynt göngufólkið var þó ekki í vandræðum með að finna greiðfærustu leiðina. Fljótlega birtist krikinn framundan, gulur og sléttur.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Frá hrauninu var áhugavert að virða fyrir sér sléttuna, Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sem vatnið hefur fært úr hlíðunum vestan Trölladyngju niður á sléttlendið og myndar stærðarinnar gróna og allslétta grasflöt. Lækurinn er enn að bera með sér leir, sand og mold úr hlíðunum og heldur gróðurferð sinni áfram norður með vestanverðu Eldborgarhrauni. Þegar hærra hraunið stöðvar hann á einum stað, flytur han sig yfir að þeim næsta þar sem auðveldara er að komast áfram, því hann ætlar sér ekki að lát stöðva sig fyrr en hann kemst til sjávar. Að lokum mun hann liðast niður um Tóurnar og úr þeim niður að ströndinni við Hvassahraun, hvenær sem það svo sem verður.

Höskuldarvallavegurinn var genginn að upphafsstað. Keilir bar herðar sínar vel í vestri.
Frábært veður – logn og hlýtt. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Keilir

Gengið var um svæðið umleikis Höskuldarvelli.
Trolladyngja-32Í bók Árna Óla , “Strönd og Vogar – úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar”, er m.a. fjallað um eldfjöll og örnefni á Reykjanesskaga.
“Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi. Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skagi á Íslandi og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos. Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.

Nupshlidarhals-41

Tveir brattir og langir hálsar liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík. Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m). Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu.

Selsvellir-91

Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510.
Selsvellir-92Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum.
Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám. Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík.

Greanadyngja-21

Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”. Í hólmanum er á einum stað nefndur Kirkjuflötur og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Ögmundarhraun er komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Nupshlidarhals-93

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Trölladyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það. Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.
Trolladyngja-21Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert. Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?
Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.”
Lambafell-41Keilir er áberandi kennileiti á Reykjanesskaganum ofan Vatnsleysustrandar. Í nálægð hans eru fleiri fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar má líka sjá fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Vegurinn af Reykjanesbraut um Afstapahraun upp á Höskuldarvelli er ca. 9 km. Hraunið þekur um 22 ferkm. Áhöld hafa verið um aldur þess, en líklega er það svolítið eldra en Ögmundarhraun (1151). Norðaustan Rauðhóla (þess stærsta) er gömul selstaða frá Vatnsleysu. Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd.
Þegar upp úr hrauninu kemur blasir sem Keilir (378 m) við sem og Trölladyngjan (375 m) á hina. Grænadyngja (402 m) stendur að baki systur sinni. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina.

Lamb-23

Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Krókamýri og Vigdísarvelli.
Höskuldarvallastígur (7-800 m) liggur frá Oddafellinu yfir Afstapahraun áleiðis að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Af tindi Keilis er ágætt útsýni yfir um Reykjanesskagann. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysu-strandarbyggð liggur í vestri.

Lamb-24

Frá Keilisrótum liggur Þórustaðastígur fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Stór, fallegur, gígur við norðurenda Selsvalla heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Selsvallaselin nýrri leiggja suðvestan í Völlunum, fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra Geir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Eldri þyrping seltófta eru austan til á Völlunum. Norðan Selsvalla er Hverinn eini. Hann var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, ” …sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.” Sogaselin kúra í Sogaselsgíg handan við Sogalækinn. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd selstöðu. Utan við gígin eru einnig tóftir, líklega leifar af selstöðu frá Krýsuvík.

Hverinn eini - 41

Uppi í Sogunum  er mikil litadýrð; jarðhiti og leirmyndanir. Á milli Dyngna er Söðull, sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Handan við Dyngjurnar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.” Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. [Líklega nær nafnið yfir afmarkaða gígaþyrpingu vestan í Dyngjurana.]

Sog-59

Um Eldborgarhraunið liggur slóð austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við norðurenda þess liggja göng beint inn í fjallið. Þetta er hin misgengið Lambafellsgjá. Gjáinn er manngeng. Bólstrabergsveggir á báðar hendur eru 20-25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1-3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl). Við hinn endann er komið upp á fellið með útsýni að Eldborginni, Trölladyngju og Keili.
Hoskuldarv-25

Norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi “gatnakerfis” um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krýsuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli. Endur fyrir löngu hefði mátt sjá hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Í bakaleiðinni var gengið að Eldborginni og framhjá Jónsbrennum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR” – Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.
-Fréttaveitan, 164. Tölublað – 9. ágúst 2001 – 8. árgangur.
-Laugardaginn 11. ágúst, 2001 – Menningarblað/Lesbók.

Hoskuldarv-26

Oddafellssel
Gengið var að Oddafellsseli. Stefnan var tekin til vesturs með norðanverðu Oddafellinu, að seljarústunum í austurjaðri Höskuldarvallahrauns. Keilir, 379 m hátt móbergsfjall, setti svip á landslagið í norðvestri. Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Keilir er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er mikið af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar. Nýlegur stígur liggur yfir hraunið, norðan Höskuldarvallastígs, áleiðis að Keili áður en komið er að meginseljarústunum, sem eru á tveimur stöðum undir Oddafellinu.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Austan við Oddafellið eru Höskuldarvellir. Það eru stórir grasvellir milli fellsins og Trölladyngju, u.þ.b. hálfur kílómetri að breidd, en á lengdina eru þeir rúmlega kílómetri, milli Sogalækjar og nyrsta hluta Sóleyjarkrika.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell, sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina. Líklega er hann að rugla saman öðru fjalli mun norðaustar, en sunnan við bæði fjöllin eru til frásagnir af útilegumönnum, sem þar áttu að hafa haldið til. Héldu þeir sig í helli sunnan Selsvalla og síðar í helli í Hrútargjárdyngjuhrauni sunnan við Fjallið eina, sem þar er. Í dag má enn sjá minjar eftir veru þeirra í hellunum, sem eru þó meira í ætt við skúta, eins og við þekkjum þá. Oddafellið er lágt (210 m), en um 3ja km langt. Í austurhlíðum Oddadells nokkuð sunnarlega er jarðhiti.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Tóftir Oddafelssels eru í vestanverðu fellinu, á tveimur stöðum. Selið var frá Minni-Vatnsleysu. Höskuldarvallastígurinn kemur út úr hrauninu sunnan við hústóftirnar, en sunnan hans eru stekkur og rétt. Fjárskjól er undir hraunröndinni milli mannvirkjanna. Hleðsla er í skútanum og má enn finna fjárlyktina (sumir segja anganina) í honum.
Stígurinn í gegnum hraunið er þar sem hraunhaftið er hvað þynnst. Hann liggur síðan norður með Oddafellinu. Skammt norðar liggur hann yfir tvær tóftir. Vestan þeirra er hlaðinn stekkur og aðhald.
Ekki er gott að segja hvar vatnsbólið er, en þó má telja líklegt að vatn hafi verið sótt í Sogaselslækinn, sem runnið hefur í gegnum Höskuldarvelli, en vellirnir eru einmitt að mestu mótaðir eftir framburð hans úr Sogunum og hlíðunum umhverfis.

Oddafellssel

Oddafellssel – uppdráttur ferlir.is.

Margir ganga á Keili. Flestir ganga þá suður Höskuldarvallastíg, yfir nyrðri tóftir Oddafellssel og beygja síðan til vesturs eftir stíg yfir Höskuldarvallahraun. Fæstir finna fyrir eða veita selstóftunum athygli á göngu sinni með Oddafellinu.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags.

Örfáir ganga svo langt suður með fellinu að þeir sjái hleðslurnar syðst í selinu, hvað þá gamla selsstíginn í gegnum hraunið. Samt er auðveldast að ganga yfir það eftir honum.
Öllum er hollt að staldra við hjá tóftunum, hugsa aftur til þess tíma þegar einhverjir forfeður þeirra og -mæður þurftu að hafa fyrir því að ala önn fyrir fénu um sumarið svo féð gæti alið önn fyrir þeim um veturinn. Ef hlutirnir hefðu ekki gengið þannig fyrir sig er aldrei að vita hvort eða hverjir afkomendurnir kynnu að hafa orðið.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í sumum seljanna ofan við Ströndina var selstaðan skemmri vegna vatnsskorts. Má í því sambandi nefna næsta sel norðan við Oddafellssel; Rauðhólssel frá Stóru-Vatnsleysu. Þar gat verið erfitt að nálgast vatn í þurrkatíð og því sjálfhætt. Stundum var ástæðan þó tilgreind önnur en vatnsskortur, s.s. draugagangur. Draugagangurinn var skiljanlegri afsökun en vatnsskorturinn í þá daga og ástæðulaust að efast þegar hann var annars vegar.
Gangan tók 33 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldborg undir Trölladyngju, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.