Færslur

Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Trölladyngja

Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.
SpákonuGengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.

Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.
GrænavatnÍ bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
KeiÞað fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.

Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.

Hraunssel

Hraunssel.

Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dyngjur-2

Dyngjur.

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

Á Núsphlíðarhálsi ofan Spákonuvatns.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

Í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Dyngjur

Trölladyngja (t.h.) og Grænadyngja. Spákonuvatn framst.